Umferðarlög

Föstudaginn 19. apríl 2002, kl. 18:16:00 (7949)

2002-04-19 18:16:00# 127. lþ. 123.22 fundur 652. mál: #A umferðarlög# (Umferðarstofa o.fl.) frv. 83/2002, Frsm. ÞKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur, 127. lþ.

[18:16]

Frsm. allshn. (Þorgerður K. Gunnarsdóttir) (andsvar):

Herra forseti. Rétt út af þessum síðustu orðum hv. þm. Guðrúnar Ögmundsdóttur.

Í sjálfu sér má alltaf ræða það hvar þessir hlutir eigi að vera. En við verðum að mínu mati að líta til smæðar samfélags okkar. Það má í rauninni segja að ákveðin hagkvæmnis- eða hagræðingarrök snúi og lúti að þessu. Það má líka spyrja: Af hverju fór þetta ekki til ríkislögreglustjóra? Hefði þessu betur verið fyrirkomið þar? En þegar horft er á dæmið í heild tel ég ljóst og eðlilegt að það falli til Umferðarstofunnar, m.a. í ljósi þeirra breytinga sem voru gerðar á húsnæðinu sem er afar mikilvægt að hýsi einmitt þessa viðkvæmu grunna um Schengen-upplýsingakerfið og allt sem því tilheyrir. Við verðum líka að hugsa til þess að þetta eru tvær stofnanir sem heyra undir sama ráðuneytið. Ég held því að þetta sé ekki hlutur sem ætti að vera að þvælast fyrir manni mjög mikið. Ég ítreka það enn og aftur að það er fyrst og fremst hagkvæmnisrök og hagræn rök sem lúta að þessari tillögu og breytingu.