Átak til að treysta byggð og atvinnulíf á landsbyggðinni

Mánudaginn 15. október 2001, kl. 18:29:15 (525)

2001-10-15 18:29:15# 127. lþ. 10.6 fundur 5. mál: #A átak til að treysta byggð og atvinnulíf á landsbyggðinni# þál., Flm. ÞBack (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 127. lþ.

[18:29]

Flm. (Þuríður Backman) (andsvar):

Herra forseti. Vegna spurningar hv. þm. Kristjáns Möllers: Hvers vegna ekki Vestfirðir? Við viljum byrja á Austurlandi með þetta sérstaka átaksverkefni, svæðistengt verkefni, og ef hv. þm. les þetta vel þá á að koma til annarra landsfjórðunga eða svæða. En við viljum að þetta verkefni sé metið innan þriggja ára þannig að hægt sé að fara í önnur verkefni með tilliti til þess hvernig hefur gengið. Var fjármagnið nóg, hverju mun þetta skila o.s.frv.?

[18:30]

Við segjum að þetta séu róttækar aðgerðir. Þær eru það vegna þess að það á að grípa inn á mörg svið. Þess vegna eru þær róttækar. Ég fagna öllum þeim tillögum sem koma fram á þingi sem styðja byggð í landinu og ég fagna þeim tillögum frá Samfylkingunni og frá öðrum þingflokkum sem miða í þessa átt. Það er sama hvaðan gott kemur. Ég held að við ættum öll að standa saman að þeim verkefnum sem styrkja byggð í landinu því að það er dýrt að leggja byggðir í eyði og það er dýrt að auka þensluna hér á höfuðborgarsvæðinu.

Varðandi það hvernig fara eigi í þetta verkefni erum við að áætla þarna 400 millj. árlega. Við viljum gjarnan hækka þessa upphæð ef menn eru tilbúnir til þess. Við nefndum hærri upphæð í fyrri þáltill. okkar en það var fyrir landið allt. Nú er þetta svæðisbundið og við töldum okkur vera raunsæ að halda þessu við 400 millj. Það skilar drjúgu ef þær eru notaðar vel í fjórðungnum en það er ekki þar með sagt að sömu upphæð þurfi í aðra fjórðunga eða önnur svæði því að bæði geta verkefnin verið brýnni og svæðin minni. Það þarf bara að meta það í hvert skipti sem átaksverkefni er sett í gang.