Átak til að treysta byggð og atvinnulíf á landsbyggðinni

Mánudaginn 15. október 2001, kl. 19:32:12 (553)

2001-10-15 19:32:12# 127. lþ. 10.6 fundur 5. mál: #A átak til að treysta byggð og atvinnulíf á landsbyggðinni# þál., EMS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 127. lþ.

[19:32]

Einar Már Sigurðarson (andsvar):

Herra forseti. Ég átti ekki við hv. þm. þegar ég talaði um fordóma. Í því tilfelli vísa ég til þess að ákveðnir fjársterkir aðilar hefðu velt fyrir sér fjárfestingum í þessu ágæta væntanlega fyrirtæki og ekki einu sinni talið ástæðu til að skoða málið en hafa hins vegar á sama tíma haldið áfram að fjárfesta víða erlendis. Ég vildi orða það svo kurteislega að það nálgaðist a.m.k. fordóma að gefa sér ekki einu sinni tíma til að skoða fjárfestingarkostinn en hlaupa þess í stað vítt og breitt um veröldina.

Spurningin um hvort það veki efasemdir um heilindi manna að þeir skuli taka þátt í verkefninu víðar og vera forstjórar í stofnunum. Ég held að formúlan og líkanið sem notað er til útreiknings sé ekki samið af forstjóranum heldur sé það viðurkennt innan hagfræðinnar sem módel. Mér þykir það afar langt gengið af hv. þm. ef hann ætlar að fara að ýja að því, líkt og hæstv. forsrh. hefur stundum verið að gera, að Þjóðhagsstofnun sé ekki hæf til ákveðinna hluta.