Ferill 22. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 22  —  22. mál.




Frumvarp til laga



um breyting á almennum hegningarlögum, nr. 19/1940, með síðari breytingum.

Flm.: Kolbrún Halldórsdóttir, Steingrímur J. Sigfússon,
Þuríður Backman.

1. gr.

    206. gr. laganna orðast svo:
    Hver sem greiðir fyrir kynlífsþjónustu af einhverju tagi skal sæta fangelsi allt að 4 árum.
    Hver sem hefur tekjur af milligöngu um vændi annarra skal sæta fangelsi allt að 6 árum.
    Sömu refsingu varðar það að ginna, hvetja eða aðstoða barn, yngra en 18 ára, til þess að stunda vændi eða aðra kynlífsþjónustu.
    Sömu refsingu varðar það einnig að stuðla að því að fólk sé flutt úr landi eða til landsins í því skyni að það taki þátt í hvers kyns klám- eða kynlífsiðnaði, hvort sem viðkomandi er kunnugt um þennan tilgang fararinnar eða ekki og hvort sem samþykki viðkomandi liggur fyrir eða ekki.
    Hver sem stuðlar að því með ginningum, hvatningum eða milligöngu að aðrir hafi holdlegt samræði eða önnur kynferðismök gegn greiðslu eða hefur tekjur af kynlífsþjónustu sem aðrir veita, svo sem með útleigu húsnæðis eða á annan hátt, skal sæta fangelsi allt að 4 árum en sektum eða fangelsi allt að 1 ári ef málsbætur eru.
    Hver sem býður upp á kynferðislegar nektarsýningar og hefur þar með nekt annarra sér að féþúfu og til sölu skal sæta allt að 4 ára fangelsi. Sömu refsingu varðar það að skipuleggja og reka kerfisbundna klámþjónustu gegnum síma eða tölvur.

2. gr.


    1. og 2. mgr. 210. gr. laganna orðast svo:
    Ef klám birtist á prenti, myndbandsspólum eða geisladiskum skal sá sem ábyrgð ber á birtingu þess sæta sektum eða fangelsi allt að 1 ári.
    Sömu refsingu varðar það þann sem er ábyrgur fyrir að auglýsa í fjölmiðlum eða á opinberum vettvangi aðgang að klámi í hvaða mynd sem það er fram borið.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Frumvarp þetta er að meginhluta samhljóða frumvarpi sem lagt var fram á 126. löggjafarþingi (þskj. 840, 540. mál). Það frumvarp byggðist á sambærilegu frumvarpi sem lagt var fram á 125. löggjafarþingi (þskj. 693, 428. mál).
    Gert er ráð fyrir eftirfarandi breytingum á 206. grein laganna:
—    Refsiábyrgð vegna vændis breytist þannig að kaup á vændi og annarri kynlífsþjónustu verði refsiverð en vændi sem stundað er til framfærslu verði ekki lengur refsivert.
—    Gert er ráð fyrir að refsing fyrir að hafa milligöngu um vændi annarra verði þyngd, sömuleiðis að þyngd verði refsing fyrir það að ginna, hvetja eða aðstoða barn til að stunda vændi eða aðra kynlífsþjónustu.
    Orðalaginu í gildandi lögum „hefur atvinnu eða viðurværi sitt af vændi annarra“ verði breytt í „hefur tekjur af milligöngu um vændi annarra“.
—    Lagt er til að orðinu „lauslæti“ í gildandi lögum verði breytt í „vændi“.
—    Orðinu „ungmenni“ í gildandi lögum er breytt í „barn“ og orðalaginu „viðurværi sitt af lauslæti“ er breytt í „stunda hvers konar kynlífsþjónustu“.
    Ákvæði 4 mgr. 206. gr verði breytt þannig að aldursmörk hverfi út úr greininni og gert ráð fyrir því að athæfi það sem greinin fjallar um verði refsivert hvort sem viðkomandi er kunnugt um tilgang fararinnar eða ekki og hvort sem samþykki viðkomandi liggur fyrir eða ekki. Eins og greinin er í gildandi lögum virðist refsing einungis liggja við athæfinu ef sá sem fluttur er á milli landa er undir 21 árs aldri og er ekki kunnugt um tilgang fararinnar. Þá er lagt til að orðalagið „hafa viðurværi sitt af lauslæti“ breytist í „taka þátt í hvers kyns klám- eða kynlífsiðnaði“.
    Í 5. mgr. greinarinnar er gert ráð fyrir því að orðalagið „gerir sér lauslæti annarra að tekjulind“ breytist í „hefur tekjur af kynlífsþjónustu sem aðrir veita“.
    Í nýrri málsgrein í lok greinarinnar er gert ráð fyrir því að refsivert verði að bjóða upp á kynferðislegar nektarsýningar og hafa þar með nekt annarra sér að féþúfu og til sölu. Sömuleiðis að refsivert verði að reka kerfisbundna klámþjónustu í gegnum síma eða tölvur.

    Gert er ráð fyrir eftirfarandi breytingum á 210. gr. laganna:
    Hámarksrefsing verði þyngd vegna brota er varða klámefni það sem getið er um í 1. og 2. mgr. núgildandi laga.
    Birting klámefnis skv. 1. mgr. nái ekki einungis til prentefnis, eins og í gildandi lögum, heldur taki einnig til klámefnis á myndbandsspólum og geisladiskum.
    Við refsingu varði að auglýsa í fjölmiðlum, netmiðlum eða á öðrum opinberum vettvangi aðgang að klámi.

Um hugtökin „vændi“ og „lauslæti“.
    Hvorki hugtakið „vændi“ né hugtakið „lauslæti“ hafa verið skilgreind í lagatexta og ekki heldur í greinargerðum með lögum. Af því má draga þá ályktun að erfitt hafi verið fyrir lögregluyfirvöld sem dómstóla að starfa eftir bókstaf laganna. Þegar að er gáð kemur líka á daginn að einungis fjórir dómar er lúta að vændi finnast í dómasafni Hæstaréttar. Þar af eru þrír frá svokölluðum ástandsárum, eða fyrir 1956. Einn dómur hefur verið kveðinn upp í Hæstarétti þar sem sakfellt hefur verið á grundvelli 206. gr. almennra hegningarlaga á grunni þeirra ákvæða er lúta að vændi eða milligöngu um vændi.
    Í mikilvægri og nákvæmri skýrslu dómsmálaráðherra um samanburð á lagaumhverfi á Íslandi og annars staðar á Norðurlöndum varðandi löggjöf og eftirlit með klámi, vændi o.fl., sem lögð var fyrir Alþingi á 126. löggjafarþingi, getur að líta eftirfarandi um hugtakið „lauslæti“: „Í 2.–5. mgr. 206. gr. íslensku hegningarlaganna er ávallt notað orðið lauslæti. Í 1. mgr. er aftur á móti notað orðið vændi. Orð sambærileg við lauslæti voru framan af notuð í lagatexta nágrannaríkjanna en hafa nú að mestu leyti vikið fyrir orðinu „prostitution“ (vændi) sem þykir mun nútímalegra orðfæri. Ástæða er til þess að hafa þetta í huga ef íslensku lögin verða endurskoðuð.“ Margt fleira sem fram kemur í þessari skýrslu er þess eðlis að það ýtir undir að lagabreytingar af því tagi sem hér er lagt til að verði gerðar.

Nútímaþrælasala og alþjóðlegar aðgerðir.
    Síðustu tvö árin hefur verið áberandi hversu umræðan um klám og vændi hefur færst í vöxt hér á landi sem annars staðar í nágrannalöndum okkar. Ástæður þess má að miklu leyti rekja til þess að þjóðir á Vesturlöndum hafa opnað augu sín fyrir því að stunduð er skipulögð verslun með manneskjur sem eru fluttar til Vesturlanda frá fátækari heimshlutum. Fórnarlömb þessarar skipulögðu nútímaþrælasölu, eins og þessi starfsemi hefur verið kölluð, eru aðallega konur og börn og eru þau ýmist ginnt eða neydd til að þjóna sívaxandi klám- og kynlífsiðnaði á Vesturlöndum. Menn telja sig nú orðið hafa fullvissu fyrir því að umfang þessarar starfsemi, sem talin er rekin af skipulögðum glæpahringjum um allan heim, jafnast orðið á við umfang eiturlyfja- og vopnasölu í veröldinni. Talið er að árlega sé verslað með hundruð þúsunda kvenna og barna um allan heim og áætlað hefur verið að tekjur glæpahringja af starfseminni nemi jafngildi um 7 milljörðum Bandaríkjadala á ári. Þjóðir heims hafa brugðist við á ýmsan hátt, t.d. með því að endurskoða ákvæði í löggjöf sinni er lúta að vændi og öðrum þáttum klám- og kynlífsiðnaðar. Þá hafa fjölþjóðlegir samningar verið gerðir til að freista þess að koma lögum yfir starfsemi af þessu tagi. Má þar nefna Samning Sameinuðu þjóðanna gegn alþjóðlegri glæpastarfsemi og tvo viðauka sem gerðir voru við þann samning. Fjallar annar þeirra sérstaklega um mansal, einkum barna og kvenna og er markmiðið samkvæmt viðaukanum að sporna við slíkri glæpastarfsemi auk þess sem viðurkennd er skylda þjóða til að vernda og aðstoða þolendur slíkra glæpa eftir fremsta megni. Komið hefur fram í umræðum á Alþingi að samningur þessi hafi verið undirritaður fyrir Íslands hönd og vænta megi þess að hann verið fullgiltur þegar undirbúningsvinnu þess ferlis er lokið. Evrópusambandið hefur brugðist við með ýmsum hætti og er skemmst að minnast sameiginlegs fundar dómsmálaráðherra sambandsins í lok september, þar sem ákveðið var að samræma löggjöf um smygl á fólki og mansal og herða refsingar.
    Íslensk stjórnvöld hafa undirritað mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna frá 1948 og þar með undirgengist m.a. að banna að hneppa menn í þrældóm eða nauðungarvinnu og banna þrælahald og þrælaverslun, hverju nafni sem hún nefnist. Þá eru í samningi Sameinuðu þjóðanna um afnám allrar mismununar gagnvart konum ákvæði þess efnis að aðildarríkin skuli gera allar viðeigandi ráðstafanir, þar á meðal staðfesta lagasetningu, til þess að hamla gegn hvers konar verslun með konur og gróðastarfsemi sem tengist vændi kvenna. Þannig er Ísland þegar skuldbundið samkvæmt samningum af þessu tagi og því ekki seinna vænna að færa gildandi lög til betri vegar í þessum efnum.

Skýrsla um vændi á Íslandi.
    Mikilvægt innlegg í þessa umræðu og jafnframt öflugt tæki í þeirri vinnu sem framundan hlýtur að vera í þessum málaflokki hjá löggjafarvaldinu, er skýrsla sú sem dómsmálaráðherra lét gera og út kom fyrr á þessu ári. Skýrslan ber heitið Vændi á Íslandi og félagslegt umhverfi þess. Í skýrslunni er staðfest það sem áður hefur verið bent á, t.d. í grein eftir Áshildi Bragadóttur stjórnmálafræðing í Veru, 1. tbl. 2000. Í greininni er að finna fimm skilgreiningar á vændi sem fullyrt er að stundað sé hér á landi. Í fyrsta lagi kemur fram að hér á landi eru starfrækt vændishús „þar sem einn aðili á eða stjórnar starfseminni, tekur á móti pöntunum og útvegar viðskiptavinum hold. Vændið fer ýmist fram innan veggja vændishússins, á hótelum, vinnustöðum viðskiptavinarins eða heimili hans.“ Í öðru lagi kemur fram að eigendur eða rekstraraðilar ákveðinna veitingahúsa hafi tekið að sér að vera milliliðir viðskiptavinarins og þess sem „seldi sig“. Í þriðja lagi er nefnd svokölluð fylgiþjónusta. Í fjórða lagi er talað um vændi þar sem karlmenn „gera skipulega út á konur“. Í fimmta lagi kemur fram í áðurnefndri grein Áshildar Bragadóttur að hér á landi þrífist það sem hún nefnir tilviljanakennt götuvændi.
    Í skýrslu dómsmálaráðherra eru allar upplýsingar Áshildar staðfestar og niðurstaða skýrslunnar er eftirfarandi: Vændi á sér stað á Íslandi í ýmsum myndum, meðal ungs fólks í vímuefnaneyslu, meðal eldri einstaklinga heimahúsum, tilviljanakennt götuvændi, vændi gegnum auglýsingar í dagblöðum, á símalínum og á internetinu, vændi sem rekið er gegnum milliliði af ýmsu tagi og skipulagt vændi í tengslum við starfsemi nektardansstaða.
    Í skýrslu dómsmálaráðherra er gerð grein fyrir þeim kynlífsiðnaði, sem umræðan hefur snúist um og er upptalning skýrslunnar yfirgripsmikil og greinargóð. Samkvæmt skýrslunni er með kynlífsiðnaði vísað til klámtímarita, starfsemi nektardansstaða, klámmyndbanda, barnakláms, kláms á Internetinu, skipulagðs vændis, götuvændis, símavændis, erótískra nuddstofa og fylgdarþjónustu. Við þessa upptalningu má bæta auglýsingum um ýmiss konar kynlífsþjónustu, t.d. í dagblöðum, auk þess sem talið er að í tengslum við ákveðnar vefsíður sé stundað skipulagt vændi.

Vændi skilgreint sem ofbeldi.
    Samkvæmt leiðbeinandi reglum sem jafnréttisnefnd Evrópuráðsins og ráðherranefnd þess hafa afgreitt telst mansal til kynlífsþrælkunar eða kynlífsmisnotkunar vera til staðar „þegar einstaklingur, lögpersóna og/eða samtök útvega og/eða flytja innan lands eða milli landa á löglegan eða ólöglegan hátt einstaklinga, jafnvel með samþykki þeirra, í þeim tilgangi að nýta þá kynferðislega í gróðaskyni og beita til þess meðal annars þvingunum, einkum ofbeldi eða hótunum, blekkingum og misnotkun valds eða misnota sér bága stöðu einstaklinganna.“ (Elsa Þorkelsdóttir, Mansal, erindi flutt á fræðslufundi undir yfirskriftinni Mansal — kynlífsþrælkun — staðreynd eða upphrópun á Íslandi, á Hótel Borg, 8. febrúar 2000.)
    Kaup á kynlífi og kynlífsþjónustu eru því gróf valdbeiting, kynferðislegt ofbeldi, þar sem valdastaða þess sem kaupir, selur eða hefur milligöngu um þjónustuna er staða hins sterka. Þá er þess einnig að geta að talið er að verslun með konur til kynlífsþrælkunar sé oftast tengd annarri glæpastarfsemi, svo sem eiturlyfjasmygli, peningaþvætti og öðrum ólöglegum athöfnum.
    Afleiðingar vændis eða sölu hvers kyns kynlífsþjónustu eru iðulega mjög svipaðar og hjá öðrum þolendum kynferðisofbeldis, þ.e. brotin sjálfsmynd, sjálfsfyrirlitning, þunglyndi, sjálfsvígsþankar og tilraunir til sjálfsvíga. Ótal kannanir hafa einnig sýnt að konur sem selja líkama sinn eru að stórum hluta konur sem beittar hafa verið kynferðisofbeldi í bernsku og hafa því alla tíð staðið höllum fæti í lífinu. Á síðari árum hafa fátækt og litlar vonir um mannsæmandi framtíð einnig knúið fólk til vændis og auðveldað þannig þeim sem kaupa kynlífsþjónustu eða gerast milligöngumenn um slíkt að ná valdi yfir því.

Það sem viðgengst hér varðar við lög hjá nágrönnum okkar.
    Ein er sú þjónusta sem nektardansstaðirnir hér á landi bjóða upp á og kölluð er einkadans. Í einkadansi bjóða eigendur staðanna viðskiptavinum aðgang að litlum klefum þar sem stúlka dansar nakin fyrir þá eina. Verðlagningin tekur mið af þeim tíma sem viðskiptavininum er tryggð einvera með dansaranum. Verðlistar hanga uppi á stöðunum og viðskiptavinurinn greiðir staðnum fyrir þjónustuna, en ekki stúlkunni. Stúlkurnar munu síðan gera samninga við staðina um sinn hlut greiðslunnar. Þessi hluti starfsemi staðanna hefur verið harðlega gagnrýndur m.a. af þeim aðilum hér á landi sem hafa með höndum þjónustu til handa fórnarlömbum kynferðisofbeldis.
    Samkvæmt upplýsingum frá PRO-miðstöðinni í Kaupmannahöfn, sem er opinber fræðslu-, ráðgjafar- og rannsóknarmiðstöð um vændi og kynlífsiðnað í Danmörku, er einkadans af þessu tagi ekki leyfður þar í landi. Þar er í gildi reglugerð sem kveður á um að viðskiptavinir á nektardansstöðum þurfi að halda sig í a.m.k. fjögurra metra fjarlægð frá stúlkunum. Hjá PRO-miðstöðinni í Noregi fást þær upplýsingar að einkadansinn tíðkist ekki heldur þar í landi. Þar vakti það gífurlega hörð viðbrögð þegar opnaðir voru barir þar sem þjónustustúkur gengu um berbrjósta. Nú er aðeins einn slíkur bar starfandi í Ósló. Sænsk yfirvöld hafa gengið hvað lengst í lagasetningu til að stemma stigu við kaupum á kynlífsþjónustu. Þau hafa gengið fram fyrir skjöldu, svo eftir hefur verið tekið víða um heim, og bannað kaup á kynlífsþjónustu, hvaða nafni sem hún nefnist.

Hollenska leiðin.
    Ekki verður fjölyrt hér frekar um þá kynlífs- og klámþjónustu sem í boði er hér á landi. Þó verður ekki hjá því komist að benda á þá staðreynd að dæmi eru um stór og virðuleg hótel í Reykjavík, sem birta í sjónvarpskerfum sínum auglýsingar frá nektardansstöðum um ókeypis akstur í límósínu frá hótelinu á viðkomandi nektardansstað, auk þess sem boðið er upp á fylgdarþjónustu. Þá hefur einnig rutt sér til rúms hér á landi sá siður að bjóða hótelgestum upp á þann möguleika að kaupa sér aðgang að klámefni á lokuðum sjónvarpskerfum hótelanna. Ef þetta er það sem Íslendingar leggja metnað sínn í að bjóða erlendum gestum er spurning hvort ekki fari á endanum fyrir okkur eins og Hollendingum, sem hafa lögleitt vændi þannig að nú geta þeir sem stunda vilja vændi sótt um starfsleyfi til hins opinbera. Þar með er búið að gera kynlífsiðnaðinn löglegan og nú segja sumir að Hollendingar byggi 5% þjóðarframleiðslu sinnar á kynlífsiðnaðinum.

Sænska leiðin.
    Í frumvarpi þessu er lagt til að við Íslendingar förum eins að og Svíar. Sænsku lögin gengu í gildi 1999 og samkvæmt upplýsingum sem lagðar voru fram á norrænni ráðstefnu, sem haldin var hér á landi í ágúst sl. af samtökum norrænna kvenna sem berjast gegn ofbeldi, kom fram að þegar væru fallnir nokkrir dómar á grundvelli hins nýja ákvæðis. Á þessari ráðstefnu var samþykkt svohljóðandi yfirlýsing:
    „ Norrænar konur gegn ofbeldi líta á vændi sem ofbeldi gegn konum. Svíþjóð er eina landið á Norðurlöndunum sem hefur haft kraft til þess að beina sjónum frá þolendum ofbeldisins að ofbeldismönnunum með því að hafa árið 1999 gert kaup á kynlífsþjónustu ólögleg. Um 80% af sænsku þjóðinni styðja þessi lög.
    Þrátt fyrir samnorræn viðhorf löggjafa um jafnrétti fer fjöldi vændiskvenna vaxandi. Þar að auki eru fleiri útlenskar konur og unglingar seld til réttindalauss lífs á Norðurlöndunum til þess að þjóna auknum fjölda kynlífskaupenda. Norðurlöndin öll hafa lög sem hægt hefði verið að beita til þess að hindra vöxt og viðgang kynlífsiðnaðar og vændis í löndum okkar. Lögin eru almennt ekki notuð.
    Norrænar konur gegn ofbeldi líta svo á að kominn sé tími til þess að Norðurlöndin öll fari að dæmi Svía. Með því að gera kaup á kynlífsþjónustu ólögleg er áherslan flutt frá þeim sem fyrir ofbeldinu verða og yfir á ofbeldismennina. Þar með viðurkenna ríkisstjórnir, löggjafarvald og félagsþjónusta ofbeldið gegn konum og hafna því að líkamar barna og kvenna séu til sölu.“

Lokaorð.
    Auknar umræður hafa orðið um þessi mál á Alþingi nú á síðustu missirum og á haustþingi 1999 var samdóma álit þingmanna sem tóku til máls í umræðum utan dagskrár um málið að stemma þyrfti stigu við þeim klám- og vændisiðnaði sem virðist hafa haslað sér völl á Íslandi. Þá ber einnig að hafa í huga hið dýrmæta tæki sem Alþingi hefur nú í höndunum í skýrslu Sólveigar Pétursdóttur dómsmálaráðherra um samanburð á lagaumhverfi á Íslandi og annars staðar á Norðurlöndum varðandi löggjöf og eftirlit með klámi, vændi o.fl. sem nefnd var hér að framan. Í henni koma fram afar gagnlegar upplýsingar sem eiga eftir að vera styrkur í vinnu við breytingar á löggjöf þeirri sem hér um ræðir.