Ferill 54. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 54  —  54. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um undirbúningsvinnu fyrir virkjun Hvalár í Ófeigsfirði.

Flm.: Karl V. Matthíasson, Kristján L. Möller, Jóhann Ársælsson,
Gísli S. Einarsson, Einar Már Sigurðarson.


    Alþingi ályktar að fela iðnaðarráðherra að láta gera nauðsynlegar forathuganir til þess að hægt sé að meta hagkvæmni mögulegrar virkjunar Hvalár í Ófeigsfirði. Stefnt verði að því að nauðsynlegum rannsóknum í þágu verkefnisins verði lokið fyrir haustið 2003.

Greinargerð.


    Ávallt er þörf fyrir orku í samfélaginu og nauðsynlegt er að hafa þekkingu á því hvar hægt sé að fá hana með góðu móti. Orkuöflun í sem flestum hlutum landsins tryggir aukinheldur öryggi í orkuöflun landsmanna. Fjöldi ónýttra möguleika bíður okkar til notkunar og rannsókna. Einn þeirra möguleika sem við eigum til orkuöflunar er Hvalá í Ófeigsfirði á Ströndum.
    Ekki er óeðlilegt að afmarka fyrst virkjunarsvæðið og kanna hvort líkur séu á því að virkjun þarna sé hagkvæm því ef svo reynist ekki liggur ekki á að gera miklar umhverfisrannsóknir vegna virkjunarframkvæmda. Ekki er óvarlegt að áætla að þær rannsóknir sem hér um ræðir gætu kostað um 20 millj. kr., en eins og segir hér á eftir mundu þær fela í sér samanburðarrennslismælingar við láglendi, myndkort, gróðurkort, jarðfræðikort og yfirlitsathuganir á vötnum (stöðuvötnum og straumvötnum).
    Nú þegar hafa farið fram forathuganir á virkjunarmöguleikum á þessum stöðum og taka þær mið af því að miðlunarlón verði í Vatnalautavötnum í um 340–350 m hæð yfir sjávarmáli. Athuganir þessar byggjast á rennslismælingum í Hvalá niður við sjó, en slíkt gefur aðeins hugmynd um meðalrennsli af öllu vatnasvæði árinnar. Því er nauðsynlegt að fram fari frekari rannsóknir á vatnsmagni og afrennsli svæðisins.
    Engar náttúrufarsrannsóknir hafa farið fram, hvorki varðandi tæknilega útfærslu né umhverfismál, svo sem jarðfræði og gróðurfar. Slíkar rannsóknir eru nú um stundir unnar á grunni myndkorta í tölvu. Því er nauðsynlegt að láta gera myndkort af öllu virkjunarsvæðinu sem nær yfir um 500 km². Þegar þau gögn liggja fyrir er hægt að hefjast handa um gerð jarðfræðikorta og síðan gerð gróðurkorta og vistgerðakorta ef líkur eru á að virkjun Hvalár geti orðið hagkvæm.
    Öllum má ljóst vera hversu jákvæð áhrif það hefði á atvinnu- og mannlíf á Vestfjörðum ef virkjun Hvalár yrði að raunveruleika. Eins og fram hefur komið er beisluð orka mjög dýrmæt. Það yrði Vestfirðingum mikil fengur ef koma mætti upp orkufrekri og arðvænlegri atvinnustarfsemi sem samrýmdist landsháttum og náttúru Vestfjarða. Í þessu sambandi mætti jafnvel hugsa sér vetnisframleiðslu sem menn beina sjónum sínum að í æ ríkari mæli. Þá er fiskeldi einnig vaxandi atvinnugrein og ekki er vafi á því að mikið fiskeldi þarfnast mikillar raforku, einkum ef framtíðin krefst þess að það verði eingöngu stundað í kerum á landi.
    Þá er einnig ljóst að álverið á Grundartanga hyggur á stækkun starfsemi sinnar og álverið í Straumsvík hefur einnig látið slíkan vilja í ljós. Verði Hvalárvirkjun að raunveruleika er ljóst að rafmagn framleitt á Vestfjörðum mætti einnig selja til þessara verksmiðja sem þó ætti að verða síðri kostur en að það nýttist á sjálfum Vestfjörðum.