Ferill 968. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 1491  —  968. mál.
Skýrslaforsætisráðherra um meðferð og framkvæmd ályktana Alþingis á 127. löggjafarþingi.

(Lögð fyrir Alþingi á 130. löggjafarþingi 2003–2004.)    Forsætisráðherra hefur á liðnum árum lagt fyrir Alþingi skýrslur um framkvæmd og meðferð á ályktunum Alþingis. Hin fyrsta þessara skýrslna var lögð fram á 112. löggjafarþingi, þá að beiðni nokkurra þingmanna, en síðari skýrslur voru teknar saman að frumkvæði forsætisráðuneytis.
    Skýrsla sú, sem nú er lögð fram, nær til ályktana Alþingis á 127. löggjafarþingi en eðlilegt mætti telja að árlegar skýrslur næðu til næstliðins þings þegar þess væri að vænta að ráðuneytum eða öðrum sem falin er meðferð og framkvæmd þingsályktananna hefði veist nokkur tími og ráðrúm til athafna. Forsætisráðuneytið leitaði eftir því við önnur ráðuneyti með bréfi dags. 14. nóvember 2003 að þau tækju saman stuttar greinargerðir um meðferð og framkvæmd þeirra þingsályktana sem þeim hefði verið falin meðferð með og fara svör ráðuneytanna hér á eftir.
    Skýrsla þessi er lögð fram með vísun til 45. gr. laga nr. 55/1991, um þingsköp Alþingis.

Forsætisráðuneyti.

Þál. 20/127 um vestnorræna samráðsnefnd um nýtingu
náttúruauðlinda, frá 20. apríl 2002 – þskj. 1320.


     Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni, í samvinnu við landstjórnir Færeyja og Grænlands, að koma á fót níu manna samráðsnefnd um nýtingu náttúruauðlinda. Nefndina skipi þrír fulltrúar frá hverju vestnorrænu landanna.

    Samkvæmt upplýsingum frá þeim ráðuneytum, sem málið heyrir undir, hefur umrædd
nefnd ekki verið stofnuð.

Þál. 21/127 um sjálfbæra þróun og nýtingu lífríkis á
Vestur-Norðurlöndum, frá 20. apríl 2002 – þskj. 1321.

     Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni, í samvinnu við landstjórnir Færeyja og Grænlands, að halda alþjóðlega ráðstefnu um sjálfbæra þróun og nýtingu lífríkis á Vestur-Norðurlöndum. Tilgangur með ráðstefnuhaldinu væri að efna til opinnar og gagnrýnnar umræðu á milli sem flestra fylkinga um þessi málefni og ráðstefnugestir kæmu úr mismunandi áttum, þar yrðu fulltrúar stjórnmálamanna, vísindamanna, leikmanna og ólíkra hagsmunasamtaka, svo sem dýra- og náttúruverndarsamtaka.

    Norræna umhverfisáætlunin, sem gildir til loka árs 2004, er sá grunnur sem samstarf Norðurlanda um umhverfisvernd byggist á. Mikilvægt verkefni Íslendinga á formennskutímanum í norrænu ráðherranefndinni 2004 er að undirbúa nýja umhverfisáætlun. Þá er einnig unnið að nýrri áætlun um sjálfbær Norðurlönd fyrir tímabilið 2005–2010 sem lögð verður fram síðar á árinu 2004. Undirbúningur hennar fer fram í samstarfi fjölda aðila á Norðurlöndum.
    Alþjóðleg ráðstefna verður haldin í samstarfi umhverfis- og sjávarútvegsgeira í Reykjavík í byrjun júní 2004. Þar verður m.a. fjallað um stjórnun á nýtingu auðlinda hafsins, umhverfisvernd og loftslagsbreytingar á norðurhveli. Þannig er á norrænum vettvangi mikilvægt samstarf í gangi um þá þætti sem þingsályktunin snýr að.


Þál. 22/127 um heimildaöflun um veiðimenningu Vestur-Norðurlanda,
frá 20. apríl 2002 – þskj. 1322.

    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni, í samvinnu við landstjórnir Færeyja og Grænlands, að efna til samstarfs um heimildaöflun og skráningu gagna um veiðimenningu Vestur-Norðurlanda svo að þekking á þessari sameiginlegu arfleifð gleymist ekki.

    Á fundi, sem forsætisráðherra átti með fulltrúum landsstjórna Færeyja og Grænlands 27. nóvember 2003, var til umræðu tillaga um að vestnorrænu löndin styrktu verkefni er snýr að skráningu sameiginlegrar sögu vestnorrænu landanna og voru undirtektir við tillöguna jákvæðar.
    Auk þess má geta farandsýningar um veiðimenningu Vestur-Norðurlanda. Hún hefur þegar verið sett upp í Færeyjum, á Íslandi og á Grænlandi. Fyrirhugað er að hún fari til fleiri staða innan og utan Norðurlanda. Sýning þessi var í umsjón norrænu húsanna og hlaut stuðning frá Norræna menningarsjóðnum.


Þál. 24/127 um reynslu af einkavæðingu og einkaframkvæmd,
frá 29. apríl 2002 – þskj. 1417.


     Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að skipa nefnd, sem í verði m.a. fulltrúar allra þingflokka, til að kanna reynslu af einkavæðingu og einkaframkvæmd. Nefndin líti sérstaklega til þeirra ríkja þar sem einkavæðingu og einkaframkvæmd hefur verið beitt í ríkum mæli.

    Þann 5. júní 2002 óskaði forsætisráðuneytið eftir því við alla þingflokka að þeir tilnefndu
fulltrúa í nefnd til að kanna reynslu af einkavæðingu og einkaframkvæmd. Ráðuneytinu hefur enn ekki borist tilnefning Samfylkingarinnar.


Þál. 38/127 um samráð stjórnvalda við frjáls félagasamtök,
frá 3. maí 2002 – þskj. 1486.


    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að skipa nefnd er geri úttekt á stöðu frjálsra félagasamtaka á sviði umhverfis- og náttúruverndarmála á Íslandi. Jafnframt skili nefndin tillögum til ríkisstjórnarinnar um það hvernig samskiptum stjórnvalda við slík samtök verði best háttað með vísan til skuldbindinga Íslands samkvæmt alþjóðasamningi sem undirritaður var í Árósum 23.–25. júní 1998.

    Vegna mistaka barst þingsályktunin ekki forsætisráðuneytinu en gerðar hafa verið ráðstafanir til þess að leiðrétta málið og koma þingsályktuninni í réttan farveg.


Dóms- og kirkjumálaráðuneyti.


Þál. 14/127 um stefnumótun um aukið umferðaröryggi,
frá 20. apríl 2002 – þskj. 1311.

    Alþingi ályktar að á næstu ellefu árum, eða fyrir lok ársins 2012, skuli stefnt að fækkun banaslysa og annarra alvarlegra umferðarslysa um 40% miðað við fjölda slysa árin 2000 og 2001. Þessu takmarki verði náð með sameiginlegu átaki ríkis, sveitarfélaga, fyrirtækja, áhugahópa um umferðaröryggismál og alls almennings. Dómsmálaráðherra kynni Alþingi í byrjun hvers árs stöðu umferðaröryggismála og hvernig miðar í átt að settu marki. Starfs- og framkvæmdaáætlun verði endurskoðuð árlega.

    Þegar ályktunin var samþykkt hafði dóms- og kirkjumálaráðherra nýlega lagt fram á Alþingi ítarlega sérprentaða skýrslu um umferðaröryggisáætlun 2002–2012. Samkvæmt áætluninni er stefnt að því að Ísland verði fyrirmyndarland í umferðaröryggismálum fyrir árið 2012. Á það er bent að landsmenn geti ekki sætt sig við ónauðsynlegar mannfórnir og reynsla margra þjóða sýni að unnt sé að fækka slösuðum í umferðinni. Þess vegna sé gerð tillaga um ný markmið til ellefu ára ásamt tillögum að aðgerðum og áherslum til að markmiðum verði náð. Fara þurfi nýjar leiðir til að ná verulegum árangri og auka umferðaröryggi. Íslendingar eigi ekki að gera minni kröfur en nágrannaþjóðirnar og setja eigi markmið sem eru í takt við vilja landsmanna. Allar aðgerðir skuli miða að því að árið 2012 verði alvarlega slasaðir og látnir færri en 120 á ári sem þýðir fækkun um rúm 40% frá þeim árangri sem náðist í fyrri umferðaröryggisáætlun.
    Þá verði að því stefnt að fyrir árið 2025 verði viðmiðunin sú að látnir og alvarlega slasaðir verði færri en 52 á ári eða ekki fleiri en 1 á viku. Framtíðarsýnin verði hins vegar sú að enginn látist eða slasist alvarlega í umferðarslysi á Íslandi.
    Dómsmálaráðherra skipaði í október 2002 umferðaröryggisnefnd sem vinna skyldi að framgangi ályktunar Alþingis. Í erindisbréfi nefndarmanna segir að nefndin skuli, ásamt Umferðarráði, leitast við að ná sem víðtækastri samstöðu í þjóðfélaginu um bætta umferðarmenningu og beri að leita allra tiltækra leiða til þess að stemma stigu við alvarlegum umferðarslysum. Úr hópi nefndarmanna skipaði ráðherra síðan framkvæmdastjórn umferðaröryggisáætlunar. Skal hlutverk hennar vera að gera starfs- og framkvæmdaáætlun um framgang umferðaröryggisáætlunarinnar. Skal stjórnin, í umboði dómsmálaráðuneytis, kalla eftir upplýsingum um aðgerðir frá helstu aðilum sem sinna umferðaröryggisstarfi og gera í framhaldi af því athugasemdir ef þörf krefur. Ætlast er til þess að aðilar setji sér skýr markmið um aðgerðir sem stuðla að auknu umferðaröryggi og vinni síðan samkvæmt þeim.
    Á umferðarþingi, sem Umferðarráð stóð fyrir dagana 21. og 22. nóvember 2002, var m.a. fjallað um umferðaröryggisáætlun 2002–2012 ásamt viðlíka áætlunum Vegagerðarinnar og Reykjavíkurborgar. Í því sambandi skal þess getið að framkvæmdastjórnin hefur átt fund með borgarstjóranum í Reykjavík ásamt fulltrúum hans vegna umferðaröryggisáætlunar borgarinnar og mun á næstunni eiga fund með vegamálastjóra af sama tilefni vegna áætlunar Vegagerðarinnar.
    Í umboði dómsmálaráðuneytis leitaði framkvæmdastjórnin síðan í ársbyrjun 2003 til 28 aðila, ráðuneyta, stofnana, sveitarfélaga, tryggingafélaga og félagasamtaka, og óskaði eftir upplýsingum um helstu aðgerðir á sviði umferðaröryggismála á árinu 2002. Skýrsla dómsmálaráðherra um stöðu umferðaöryggismála fyrir árið 2002, sem byggðist á þessari gagnaöflun, var lögð fyrir Alþingi í byrjun marsmánaðar 2003. Í skýrslunni kemur m.a. fram hvernig miðað hefur í átt að settu markmiði um fækkun alvarlegra umferðarslysa í landinu.
    Í stefnuyfirlýsingu núverandi ríkisstjórnar segir m.a. að „haldið verði áfram að styrkja lögregluna í landinu, m.a. með því að auka sýnilega löggæslu. Öryggi borgaranna verður að hafa forgang. Vinna þarf að auknu umferðaröryggi, bæði í dreifbýli og þéttbýli, m.a. með gerð mislægra gatnamóta og lýsingu vega“.
    Ríkisstjórnin hefur ákveðið að umferðaröryggismálefni færist fljótlega á árinu 2004 frá dómsmálaráðuneyti til samgönguráðuneytis og mun því umferðaröryggisáætlun framvegis verða á ábyrgð samgönguráðherra.
    Á árinu 2004 er stefnt að því að Umferðarráð og umferðaröryggisnefnd vinni að endurskoðaðri umferðaröryggisáætlun til ársins 2012 og gefin verði út ný ítarleg skýrsla um málaflokkinn. Að því er stefnt að í henni verði sundurliðuð framkvæmda- og fjárhagsáætlun.


Fjármálaráðuneyti.


Þál. 39/127 um umfang skattsvika, skattsniðgöngu og dulda efnahagsstarfsemi,
frá 3. maí 2002 – þskj. 1488.


     Alþingi ályktar að fela fjármálaráðherra að láta gera úttekt á umfangi skattsvika, skattsniðgöngu og dulinni efnahagsstarfsemi. Leggja skal mat á hvernig þau hafi þróast frá árinu 1993 eftir skatttegundum, atvinnugreinum, landsvæðum og í samanburði við aðrar þjóðir og hvert tekjutap ríkis og sveitarfélaga hafi verið af þessum sökum.
    Jafnframt er markmiðið að greina helstu ástæður skattundandráttar og að hve miklu leyti megi rekja hann til skattalaga annars vegar og skattframkvæmdar hins vegar. Leggja skal fram tillögur til úrbóta og meta hvort og á hvaða sviðum efla þurfi skatteftirlit og skattrannsóknir og hvaða ávinningi það geti skilað í auknum skatttekjum.
    Í þessu skyni skal skipa starfshóp, m.a. með aðild ríkisskattstjóra og skattrannsóknarstjóra, sem skila skal niðurstöðum fyrir 1. júlí 2003.


    Fjármálaráðherra skipaði starfshóp í samræmi við þingsályktunartillögu nr. 39/127 frá 3. maí 2002 með skipunarbréfi, dags. 16. júlí 2002. Í starfshópinn voru skipaðir Snorri Olsen, tollstjóri í Reykjavík, formaður, Indriði H. Þorláksson ríkisskattstjóri og Skúli Eggert Þórðarson skattrannsóknarstjóri. Með starfshópnum hafa starfað sérfræðingar í fjármálaráðuneytinu. Starfshópurinn hefur fundað reglulega frá hausti 2002.
    Hlutverk starfshópsins er í fyrsta lagi að athuga hvernig skattsvik, skattsniðganga og dulin efnahagsstarfsemi hafa, frá því að nefnd sem kannaði umfang skattsvika skilaði skýrslu á árinu 1993, þróast eftir skatttegundum, atvinnugreinum, landsvæðum og í samanburði við aðrar þjóðir og hvert tekjutap ríkis og sveitarfélaga hafi verið af þessum sökum. Í öðru lagi að athuga helstu ástæður skattundandráttar og að hve miklu leyti megi rekja hann til skattalaga annars vegar og skattframkvæmdar hins vegar. Í skipunarbréfi kemur fram að starfshópurinn skuli leita upplýsinga og ábendinga hjá aðilum vinnumarkaðarins og öðrum hagsmunaaðilum eftir því sem við á.
    Viðfangsefni þessa starfshóps er að mörgu leyti víðfeðmara en fyrri sambærilegra starfshópa þar sem verkefni hans lýtur ekki eingöngu að skattsvikum heldur einnig skattsniðgöngu og dulinni efnahagsstarfsemi. Nefndin frá 1993 afmarkaði t.d. umfjöllun sína um skattsvik við refsiverð brot gegn lögum um tekjuskatt og eignarskatt, virðisaukaskatt, staðgreiðslu opinberra gjalda og tryggingagjald.
    Margvíslegar breytingar hafa átt sér stað í íslensku samfélagi frá útkomu síðustu skýrslu er snerta viðfangsefni starfshópsins. Þannig hafa frjálsir fjármagnsflutningar og frjálsari viðskipti milli landa aukist frá því sem áður var. Hefur sú þróun kallað á ný athugunarefni fyrir skattyfirvöld sem gefa þarf gaum. Hefur starfshópurinn því kannað þennan þátt sérstaklega.
    Starfshópurinn hefur aflað ýmissa gagna bæði innanlands og utan. Í samanburði við aðrar þjóðir hefur einkum hefur verið litið til annarra þjóða á Norðurlöndum. Hafa nefndinni m.a. borist skýrslur og gögn úr sambærilegum úttektum sem unnar hafa verið þar. Þá hafa fulltrúar starfshópsins sótt seminar um skattsniðgöngu og skattsvik sem haldið var í Ósló nú í vor á vegum ríkisskattstjóraembætta Norðurlandanna.
    Starfshópurinn hefur óskað eftir ábendingum og athugasemdum frá ýmsum innlendum aðilum, svo sem hagsmunasamtökum og opinberum stofnunum. Þá hefur verið framkvæmd könnun á vegum Gallups þar sem könnuð var afstaða manna til skattsvika og þátttaka í slíkum brotum. Er könnunin sambærileg fyrri könnunum sem gerðar hafa verið og verður hún birt í lokaskýrslu starfshópsins.
    Þar sem erfiðlega hefur gengið að afla gagna hefur vinna hópsins tafist. Í skýrslu sambærilegrar nefndar, sem lauk störfum á árinu 1993, voru skattsvik m.a. metin með samanburði úr þjóðhagsreikningum eftir mismunandi uppgjörsaðferðum, annars vegar framleiðsluuppgjöri og hins vegar ráðstöfunaruppgjöri. Mismunur þessara tveggja aðferða gaf vísbendingu um þær tekjur sem ekki eru taldar til skatts. Í fyrrnefndri skýrslu frá 1993 voru framangreindar upplýsingar birtar vegna áranna 1975–1992. Starfshópurinn hefur nú undir höndum samsvarandi tölur vegna áranna 1993–1997 sem birtar verða í lokaskýrslu starfshópsins. Vegna breyttra aðferða við úrvinnslu framangreindra gagna hefur starfshópnum hins vegar ekki tekist að afla sambærilegra gagna vegna áranna 1998 til og með 2002.
    Starfshópur sem stefnir að því að ljúka störfum sem allra fyrst.


Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti.


Þál. 31/127 um forvarnir gegn krabbameinssjúkdómum í meltingarvegi,
frá 3. maí 2002 – þskj. 1479.


     Alþingi ályktar að fela heilbrigðisráðherra í samráði við landlækni að gera tillögur um hvernig staðið skuli að forvarna- og leitarstarfi vegna krabbameins í meltingarvegi fyrir þá sem teljast vera í áhættuhópi og undirbúa framkvæmd starfsins. Jafnframt verður hafinn undirbúningur að því að beita sömu aðferðum, eftir því sem fært er, í baráttu við aðrar algengustu tegundir krabbameins hér á landi.

    Ráðuneytið ritaði Landlæknisembættinu bréf dagsett 19. júlí 2002 þar sem farið var fram á það við landlækni að hann gerði umbeðnar tillögur. Ráðuneytinu var þá kunnugt að landlæknir hafði skipað starfshóp snemma árs 2000 til þess að gera tillögur að leiðbeiningum um skimun fyrir krabbameinum í ristli og endaþarmi.
    Landlæknir svaraði ráðuneytinu með bréfi dagsettu 15. júlí 2003. Bréfinu fylgdi greinargerð frá Hagfræðistofnun Háskóla Íslands um kostnað og ábata af krabbameinsskimun í ristli og endaþarmi sem gerð var í nóvember 2002.
    Hópur sá, sem starfaði á vegum Landlæknisembættisins, skilaði mjög ítarlegri greinargerð um skipulag ristilkrabbameinsleitar þar sem lagt er til að komið verði á laggirnar leit sem yrði skipulögð eftir svipuðum aðferðum og nú eru notaðar við leit að legháls- og brjóstakrabbameini. Kostnaðarmat fylgdi einnig en árlegur heildarkostnaður vegna leitarinnar
var talinn vera tæpar 120 millj. kr.
    Tillögur landlæknis hafa verið til skoðunar í ráðuneytinu. Um mjög umfangsmikla aðgerð er að ræða sem mörg nágrannalönd hafa ekki tekið endanlega afstöðu til. Ráðuneytið er því með tillögu landlæknis til frekari skoðunar og á meðan er fylgst með þróun þessara mála hjá nágrannalöndum og á alþjóðlegum vettvangi.


Þál. 32/127 um óhefðbundnar lækningar, frá 3. maí 2002 – þskj. 1480.


     Alþingi ályktar að fela heilbrigðisráðherra að skipa nefnd er geri úttekt á stöðu óhefðbundinna lækninga hér á landi og beri hana saman við stöðu mála annars staðar á Norðurlöndunum, í Evrópusambandinu og í Bandaríkjunum. Með óhefðbundnum lækningum er hér átt við nálastungumeðferð (acupuncture), smáskammtalækningar (homeopathy), lið- og beinskekkjulækningar (osteopathy), nudd o.fl.
    Atriði sem nefndinni ber að kanna sérstaklega:
     1.      Hvaða menntun er í boði á þessu sviði og hver er menntun leiðbeinenda sem þar starfa.
     2.      Hvaða reglur gilda um viðurkenningu náms og starfsréttindi á þessu sviði.
     3.      Að hvaða marki samvinna og samstarf eigi sér stað á milli þeirra sem stunda óhefðbundnar lækningar og hefðbundinna heilbrigðisstétta. Jafnframt að kanna hvort og þá að hvaða marki læknar og aðrar heilbrigðisstéttir nýti sér aðferðir óhefðbundinna lækninga í störfum sínum.
     4.      Hver staða óhefðbundinna lækninga er með tilliti til skatta og þá einkum virðisaukaskatts.
    Enn fremur skal nefndin safna saman aðgengilegum niðurstöðum úr rannsóknum sem gerðar hafa verið á áhrifum og virkni þessara aðferða og á þeirri áhættu sem þeim fylgir.
    Nefndin skal sjá til þess að gerð verði könnun á viðhorfi almennings til óhefðbundinna lækninga og hversu algengt það er að fólk leiti til þeirra sem bjóða slíka þjónustu.
    Þá skal nefndin skila tillögum til heilbrigðisráðherra um hvernig best sé að koma til móts við vaxandi umsvif á sviði óhefðbundinna lækninga hér landi og meta hvort rétt kunni að vera að viðurkenna í auknum mæli nám í þessum greinum með veitingu starfsréttinda.
    Nefndin skal skila skýrslu til Alþingis um framvindu mála 1. apríl 2003 og endanlegum niðurstöðum 1. október 2003.


    Í framhaldi af ályktun Alþingis um úttekt á stöðu óhefðbundinna lækninga hér á landi ákvað heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra að skipa nefnd sem falið var að vinna að könnun og tillögugerð í anda þingsályktunarinnar.
    Nefndin var skipuð í lok árs 2002 og sitja í henni Guðmundur Sigurðsson læknir, formaður nefndarinnar, Ástríður Svava Magnúsdóttir nuddari, Dagný E. Einarsdóttir hómópati, Einar Magnússon, yfirlyfjafræðingur í heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu, Haraldur Ólafsson prófessor, Nanna Friðriksdóttir hjúkrunarfræðingur, Sólveig Guðmundsdóttir, yfirlögfræðingur í heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu og Margrét Erlendsdóttir, deildarstjóri í heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu, sem starfsmaður nefndarinnar.
    Nefndin hóf störf í byrjun árs árið 2003. Nefndinni var ætlað að skila skýrslu til Alþingis um framvindu mála og var henni skilað með bréfi frá heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu dagsettu 3. október 2003 til forseta Alþingis þar sem þess var farið á leit að skýrslunni yrði dreift til þingmanna. Skýrsla heilbrigðisráðherra var lögð fyrir Alþingi 6. október 2003. Nefndin gerir ráð fyrir að skila lokaskýrslu á fyrsta ársfjórðungi árið 2004.
    Sjá: www.althingi.is/altext/130/s/0097.html


Þál. 36/127 um heildarstefnu um uppbyggingu og rekstur meðferðarstofnana,
frá 3. maí 2002 – þskj. 1484.


     Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að setja á laggirnar nefnd er hafi það hlutverk að móta heildarstefnu um uppbyggingu á sviði áfengis- og vímuefnameðferðar og þátttöku ríkisins í stofnkostnaði og rekstri meðferðarstofnana. Jafnframt verði gert árangursmat á meðferðarstofnunum og meðferðarleiðum til þess að tryggja sjúklingum sem mestan árangur og sem besta nýtingu fjárveitinga til málaflokksins.

    Á undanförnum mánuðum hefur heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið unnið að gerð heildarstefnu um uppbyggingu og rekstur meðferðarstofnana og starfar innan ráðuneytisins hópur sem hefur það hlutverk að annast undirbúning og gagnasöfnun vegna verkefnisins.
    Leitað var til erlends sérfræðings um aðstoð við þetta verkefni hvað varðar skipulag
og efnistök.
    Hefur vinnuhópurinn haft samstarf við félagsmálaráðuneytið og Reykjavíkurborg og rætt hefur verið við helstu sérfræðinga ríkisins á sviði árangursmats og meðferðar.
    Í haust var unnið að ítarlegri gagnasöfnum með landskönnun um meðferðarstofnanir þar sem m.a. er ætlunin að safna upplýsingum um árangursmat eins og það er framkvæmt, aðstöðu og veitta þjónustu. Ráðinn hefur verið starfsmaður í hlutastarf til að sinna þessu verkefni.
    Gert er ráð fyrir að vinnuhópurinn ljúki störfum í byrjun sumars. Að þeim loknum mun ráðuneytið móta tillögur um stefnu í málaflokknum. Einnig má benda á svar heilbrigðisráðherra frá 18. febrúar 2004 við munnlegri fyrirspurn frá Alþingi á þskj. 784.
     Sjá: www.althingi.is/altext/130/02/l18143825.sgml


Þál. 37/127 um aukin rétt foreldra vegna veikinda barna,
frá 3. maí 2002 – þskj. 1485


     Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að skipa nefnd sem hafi það verkefni að gera tillögur um það hvernig unnt sé að tryggja betur rétt foreldra til launa í fjarveru úr vinnu vegna veikinda barna. Nefndin verði skipuð fulltrúum félagsmálaráðuneytis, heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytis, aðila vinnumarkaðarins og samtaka um málefni sjúkra barna. Í starfi sínu hafi nefndin hliðsjón af fjármögnun, fyrirkomulagi og réttindum sem gilda um bætur fyrir launatap aðstandenda sjúkra barna annars staðar á Norðurlöndum.
    Niðurstaða nefndarinnar verði lögð fyrir Alþingi á haustþingi árið 2002.


    Í stefnu ríkisstjórnarinnar um málefni langveikra barna, sem samþykkt var í febrúar árið 2000, er kveðið á um nefnd sem „...hefði það hlutverk að tryggja betur en nú rétt foreldra til launa í fjarveru frá vinnu og rétt til sjúkradagpeninga vegna veikinda barns.“ Ákveðið var að sú nefnd yrði á forræði félagsmálaráðuneytisins og er Hanna Sigríður Gunnsteinsdóttir formaður þeirrar nefndar. Fulltrúi heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins er Ingibjörg Georgsdóttir, barnalæknir hjá Tryggingastofnun ríkisins, og hefur hún kynnt ráðherra framgang nefndarstarfa. Jafnframt eru í nefndinni fulltrúar menntamálaráðuneytisins og vinnumarkaðarins, fulltrúar frá samtökum um málefni langveikra barna o.fl. Vísast í frekari upplýsingar til félagsmálaráðuneytisins varðandi þessa nefnd.
    Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið er reiðubúið að veita frekari upplýsingar um framgang þessarar þingaályktunar sé þess óskað.


Iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti.

Þál. 30/127 um stefnu í byggðamálum 2002–2005, frá 3. maí 2002 – þskj. 1470.


    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að vinna að framkvæmd stefnumótandi áætlunar um byggðamál fyrir árin 2002–2005. Meginmarkmið áætlunarinnar verði eftirfarandi:
     a.      Að draga úr mismun á lífskjörum og afkomumöguleikum fólks milli byggðarlaga í landinu og skapa íbúum á landsbyggðinni sem hagstæðust búsetuskilyrði.
     b.      Að aðstoða byggðarlög á landsbyggðinni við að laga sig að örri samfélagsþróun og hröðum breytingum í atvinnuháttum með því að efla sveitarfélögin, veita markvissan stuðning við atvinnuþróun, menntun, trausta samfélagsþjónustu og uppbyggingu grunngerðar.
     c.      Að treysta búsetuskilyrði á landsbyggðinni með því að efla þau byggðarlög sem eru fjölmennust, hafa mest aðdráttarafl fyrir fólk og bestu möguleika til uppbyggingar atvinnulífs, skóla, menningarlífs og opinberrar þjónustu.
     d.      Að auðvelda byggðum landsins að rækta menningu sína, auðga með því þjóðlífið og skapa fjölbreytilegri kosti fyrir borgarana í búsetu og lífsstíl. Í því felst m.a. að stuðla að varðveislu byggðar sem á sér rótgróna sögu og hefur menningarsögulegt gildi, svo og að virða tengsl fólks í fámennum byggðarlögum við átthaga sína með því að gera því kleift að búa þar áfram.
     e.      Að stuðla að fjölbreyttu atvinnulífi, jöfnun starfsskilyrða og að fyrirtæki á landsbyggðinni geti nýtt atvinnukosti sína sem best með sjálfbæra nýtingu auðlinda og góða umgengni um náttúru landsins að leiðarljósi.


    Skýrslu iðnaðarráðherra um framvindu byggðaáætlunar fyrir árin 2002–2005 var dreift á 130. löggjafarþingi. Þar er að finna umbeðnar upplýsingar um framkvæmd þingsályktunarinnar.
     Sjá: idnadarraduneyti.is/utgefid-efni/skyrslur/nr/1322


Þál. 34/127 um vistvænt eldsneyti á Íslandi, frá 3. maí 2002 – þskj. 1482.     Alþingi ályktar að fela iðnaðarráðherra að skipa nefnd sem móti stefnu um vistvænt eldsneyti á Íslandi. Nefndin taki m.a. afstöðu til álagningar á eldsneyti og fjalli um uppbyggingu innviða, framtíðarskipulag eldsneytismála, stuðning við tilraunir og áhrif vistvæns eldsneytis á íslenskt efnahagslíf. Nefndin verði skipuð fimm fulltrúum, frá iðnaðarráðuneyti, samgönguráðuneyti, fjármálaráðuneyti, umhverfisráðuneyti og fyrirtækinu Íslenskri nýorku ehf. Tillögur nefndarinnar verði kynntar Alþingi fyrir 1. nóvember 2002.

    Hinn 11. apríl 2002 skipaði iðnaðarráðherra sérstaka nefnd fulltrúa ráðuneyta orkumála,
umhverfismála, fjármála, samgangna og sjávarútvegs til að vinna að heildstæðri úttekt og mótun stefnu á orkumálum samgangna hér á landi. Megintilgangur þessarar vinnu er að ráðuneytin fái yfirsýn yfir stöðu og framvindu í orkumálum samgangna og geti mótað stefnu hér á landi í þessu efni til framtíðar.
    Ráðuneytið taldi eðlilegt að fela þessari nefnd að vinna að þeirri stefnumörkun um vistvænt eldsneyti sem felst í þingsályktunartillögunni þar eð verksvið nefndarinnar er nokkru víðtækara en felst í efni hennar.
    Þá hafa fulltrúar Íslenskrar nýorku og Orkustofnunar setið fundi nefndarinnar.
    Eins og efni tillögunnar ber með sér er hér um að ræða afar umfangsmikið verkefni. Nefndin hefur kynnt sér þróun í notkun vistvæns eldsneytis og þá einkum notkun vetnis sem orkubera. Þá hefur nefndin unnið að úttekt á skattlagningu ökutækja og eldsneytis og rætt um stefnumörkun í þeim efnum með tilliti til aukinnar notkunar vistvænna bifreiða og eldsneytis í náinni framtíð.
    Stefnt er að því að nefndin skili tillögum sínum til ráðherra á fyrri hluta árs 2004.


Þál. 33/127 um virkjun Hvalár í Ófeigsfirði, frá 3. maí 2002 – þskj. 1481.     Alþingi ályktar að fela iðnaðarráðherra að láta gera nauðsynlegar forathuganir til þess að hægt sé að meta hagkvæmni mögulegrar virkjunar Hvalár í Ófeigsfirði. Stefnt verði að því að nauðsynlegum rannsóknum í þágu verkefnisins verði lokið fyrir haustið 2003.

    Því miður eru nauðsynlegar rannsóknir og áætlanagerð vegna virkjunar Hvalár skammt á veg komnar en unnið er þó markvisst að nauðsynlegum vatnamælingum á svæðinu. Orkustofnun hefur þó unnið að frumáætlunum fyrir virkjun Hvalár á síðustu 2–3 árum í tengslum við starf nefndar sem skipuð var til að gera úttekt á virkjunarkostum á Vestfjörðum. Engin sérstök fjárveiting hefur fengist til að vinna að nauðsynlegum rannsóknum vegna framkvæmdar þingsályktunarinnar en nokkuð hefur verið unnið fyrir hluta af fjárveitingu Orkustofnunar til rammaáætlunar um nýtingu vatnsafls og jarðvarma. Hvalá var þó ekki tekin með í 1. áfanga áætlunarinnar, meðal annars vegna skorts á upplýsingum um náttúrufar. Hins vegar er að því stefnt að Hvalá verði tekin með í öðrum áfanga rammaáætlunar. Áætlað hefur verið að nauðsynlegar rannsóknir og áætlanagerð vegna þessa verkefnis kosti um 25 millj. kr.


Þál. 35/127 um sjóðandi lághitasvæði, frá 3. maí 2002 – þskj. 1483.     Alþingi ályktar að fela iðnaðarráðherra að beita sér fyrir samvinnu við sveitarfélög og Byggðastofnun um könnun á svæðum með sjóðandi lághita. Rannsóknirnar beinist að því að finna ný sjóðandi lághitasvæði en einnig skal bent á leiðir til að nýta betur orku þegar þekktra svæða í krafti nýrrar tækni.

    Á síðasta ári hefur mikið verið unnið að svokölluðu bergsprunguverkefni á vegum Orkustofnunar er telja má að sé grunnur fyrir rannsóknir og áætlanagerð um sjóðandi lághita. Áherslur hafa einkum beinst að gerð sprungukorta fyrir Borgarfjörð og efri hluta Árnessýslu. Þetta verkefni er kostað af orkufyrirtækjum og Orkustofnun sameiginlega.
    Í framhaldi af samþykkt ofangreindrar þingsályktunar óskaði iðnaðarráðuneytið eftir því að Orkustofnun gerði tillögu um nauðsynlegar rannsóknir vegna sjóðandi lághita til að unnt yrði að vinna að framkvæmd hennar. Fjárveiting fékkst ekki til verkefnisins á árinu 2003 en líkur eru á því að úr því geti ræst á árunum 2004 og 2005 og verkefninu yrði þá væntanlega lokið eigi síðar en á árinu 2006.
    Jafnhliða fyrirhuguðum rannsóknum er ráðgert að Orkustofnun, í samvinnu við Byggðastofnun og viðkomandi sveitarfélög, muni vinna að úttekt á reynslu sem fengist hefur af nýtingu á sjóðandi lághita og möguleikum á aukinni nýtingu hans. Við þessa vinnu verður höfð hliðsjón af nýjustu tækni við nýtingu slíkra svæða sem leitt getur til betri nýtingar orkunnar og þeim atvinnumöguleikum sem kunna að felast í aukinni nýtingu þessara jarðhitasvæða.


Landbúnaðarráðuneyti.Þál. 26/127 um landgræðsluáætlun 2003–2014, frá 30. apríl 2002 – þskj. 1448.     Alþingi ályktar að á næstu 12 árum skuli fjármagn veitt til landgræðslu í samræmi við lög nr. 17/1965, um landgræðslu, og lög nr. 43/1975, um heftingu landbrots og varnir gegn ágangi vatna. Fjármagni þessu skal varið til landgræðsluaðgerða samkvæmt eftirfarandi áætlun.

    Þingsályktuninni fylgja töflur yfir áætlun um fjáröflun og kostnaðaráætlun skipt niður á tvö tímabil, 2003–2014 og 2003–2006.
     Sjá: www.althingi.is/altext/127/s/1448.html

Um áætlunina.
    Markmið landgræðsluáætlunar eru fjölþætt. Henni er ætlað að herða sóknina gegn eyðingu gróðurs og jarðvegs og jafnframt að styrkja byggðir og bæta landkosti með hag allrar þjóðarinnar að leiðarljósi.
    Megináhersla verður lögð á eftirfarandi:
    1.     Stöðvun hraðfara jarðvegseyðingar.
    2.    Gróðurvernd og stjórn landnýtingar.
    3.     Uppgræðslu lands.
    4.    Ýmis önnur atriði, svo sem a) varnir gegn landbroti vegna ágangs fallvatna; b) upplýsingaöflun; c) rannsóknir og þróun; d) fræðslu og ráðgjöf; e) kolefnisbindingu.

Framkvæmd ályktunarinnar.
    Á árinu 2003 var unnið í anda þingsályktunarinnar. Hefðbundnum landgræðsluaðgerðum var beitt á þeim svæðum sem landgræðslan hefur unnið á um lengri eða skemmri tíma. Geta má tveggja nýmæla:
    a)      Landbótasjóður tók til starfa. Auglýst var eftir styrkumsóknum í hinn nýja sjóð til skilgreindra landgræðsluverkefna. Á árinu 2003 voru veittir 18 styrkir úr Landbótasjóði. Ætlunin var að úthluta enn frekari styrkjum á árinu 2004 en þar sem fjárveitingar eru mun minni en áætlunin gerði ráð fyrir mun það hafa áhrif á styrkveitingar þessa árs.
    b)      Nýtt héraðssetur á Egilsstöðum var opnað á árinu 2003 í samræmi við þingsályktunina og er það til viðbótar við önnur setur í hinum landsfjórðungunum. Með þeim er verið að færa frumkvæði og ákvörðunarvald nær þeim sem standa næst landgræðsluverkefnunum.
    Í landgræðsluáætluninni er sérstaklega fjallað um ýmis stoðverkefni í landgræðslu, s.s. fræöflun, sjálfbæra landnýtingu, gagnaöflun, áætlanagerð, rannsóknir, þróun, fræðslu og ráðgjöf. Að þeim var unnið á árinu 2003.
     Fræöflun: Til að mæta aukinni fræþörf var leitað í auknum mæli til bænda um framleiðslu á fræi af helstu landgræðslutegundum. Jafnframt var þróuð frærækt af nýjum landgræðslutegundum.
     Sjálfbær landnýting: Unnið var með sveitarstjórnum að því að tryggja sjálfbæra nýtingu á afréttum landsins. Bændum og samtökum búfjáreigenda var veitt aðstoð og ráðgjöf við beitarskipulag og mat á hóflegri nýtingu lands.
     Gagnaöflun og áætlanagerð: Unnið var að skrá um öll svæði Landgræðslunnar og verkefni, sem unnin eru á hennar vegum, í gagnagrunni sem er aðgengilegur starfsmönnum og almenningi. Unnið var að bókhaldi um bindingu kolefnis í gróðri og jarðvegi. Áhersla var lögð á gerð samræmds gagnagrunns um vistkerfi, ástand lands og landgræðslustarfið. Gerðar voru áætlanir um aðgerðir á landgræðslusvæðum.
     Rannsóknir og þróun: Unnið var að rannsóknum og þróun á sviði uppgræðslu, vistheimtar og ástandi lands. Alls var unnið að 15 stærri verkefnum m.a. um tegundir til landgræðslu, uppgræðslutækni, mat á ástandi gróðurs og jarðvegs, árangri landgræðsluaðgerða og áhrif beitar á gróður og jarðveg. Tekið var þátt í vísindastarfi Evrópusambandsins á sviði landgræðslu og gróðureyðingar.
     Fræðsla og ráðgjöf: Unnið var að gerð fræðsluefnis um landgræðslustarfið og verndun vistkerfa. Samstarf var við skóla og aðra aðila um gerð fræðsluefnis fyrir grunn- og framhaldsskóla um landgræðslu og gróðurvernd. Námskeið voru haldin um landlæsi og beitarstjórn fyrir landnotendur. Samstarf var við menntastofnanir landbúnaðarins um fræðslu á sviði landgræðslu og landnýtingar. Leiðbeint var fjölda áhugamanna, félaga og félagasamtaka í ferðum þar sem unnið var að landbótum.


Samgönguráðuneyti.Þál. 27/127 um flugmálaáætlun árið 2002, frá 2. maí 2002 – þskj. 1463.


     Alþingi ályktar að framkvæmdum í flugmálum og rekstri flugvalla skuli hagað samkvæmt eftirfarandi flugmálaáætlun fyrir árið 2002.

    Flugmálastjórn fer með framkvæmd þingsályktunar um flugmálaáætlun. Vísað er til skýrslu samgönguráðherra um framkvæmd flugmálaáætlunar 2002, þskj. 695, sem dreift var á haustþingi 2003. Þar er að finna umbeðnar upplýsingar um framkvæmd þingsályktunarinnar.
     Sjá: www.althingi.is/dba-bin/ferill.pl?ltg=130&mnr=472


Þál. 28/127 um vegáætlun fyrir árin 2000–2004, frá 2. maí 2002 – þskj. 1464.


    Alþingi ályktar, samkvæmt V. kafla vegalaga, nr. 45/1994, að árin 2000–2004 skuli framkvæmdum í vegamálum hagað og vegir flokkaðir samkvæmt eftirfarandi vegáætlun.

    Vegagerðin fer með framkvæmd þingsályktunar um vegáætlun. Vísað er til skýrslu samgönguráðherra um framkvæmd vegáætlunar 2002, þskj. 1135, sem dreift var á vorþingi 2003. Þar er að finna umbeðnar upplýsingar um framkvæmd þingsályktunarinnar.
     Sjá: www.althingi.is/altext/128/s/1135.html


Utanríkisráðuneyti.Þál. 1/127 um samning um viðurkenningu og fullnustu erlendra
gerðardómsúrskurða, frá 12. desember 2001 – þskj. 556.


     Alþingi ályktar að heimila að Ísland gerist aðili að samningi um viðurkenningu og fullnustu erlendra gerðardómsúrskurða sem gerður var í New York 10. júní 1958.

    Ísland gerðist aðili að samningnum 24. janúar 2002 og öðlaðist hann gildi að því er Ísland varðar 24. apríl 2002.Þál. 2/127 um samninga um veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum 2002,
frá 12. desember 2001 – þskj. 557.

     Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd eftirtalda samninga um veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum á árinu 2002 sem gerðir voru í London 9. nóvember 2001:
    1.    Sameiginlega bókun um niðurstöður fiskveiðiviðræðna um stjórnun veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum í Norðaustur-Atlantshafi á árinu 2002.
    2.     Bókun um sérstakar verndunarráðstafanir með tilliti til stjórnunar veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum á árinu 2002.
    3.     Samning milli Íslands og Færeyja um stjórn veiða úr norskíslenska síldarstofninum á árinu 2002.
    4.     Samkomulag milli Íslands og Noregs um veiðiheimildir innan efnahagslögsögu Íslands, efnahagslögsögu Noregs og fiskveiðilögsögu Jan Mayen á árinu 2002.
    5.     Samkomulag milli Íslands og Rússneska sambandsríkisins um veiðiheimildir innan efnahagslögsögu Íslands á árinu 2002.


    Framangreindum samningum, sem giltu aðeins fyrir árið 2002, var beitt til bráðabirgða frá 1. janúar 2002. Þeir voru staðfestir af Íslands hálfu 21. desember 2001 en þeim var ekki veitt formlegt gildi.


Þál. 4/127 um breytingu á XX. viðauka við EES-samninginn (umhverfismál),
frá 4. febrúar 2002 – þskj. 735.


     Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 56/2001 frá 18. maí 2001, um breytingu á XX. viðauka (Umhverfismál) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og fella inn í samninginn tilskipun
ráðsins 1999/31/EB frá 26. apríl 1999, um urðun úrgangs.


    Ákvörðunin var staðfest af Íslands hálfu 25. febrúar 2002 og öðlaðist gildi að því er
Ísland varðar 1. apríl 2002.


Þál. 5/127 um fullgildingu alþjóðasamnings um að koma í veg fyrir
hryðjuverkasprengingar og fjármögnun hryðjuverkastarfsemi,
frá 8. mars 2002 – þskj. 948.


     Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að fullgilda fyrir Íslands hönd alþjóðasamning um að koma í veg fyrir hryðjuverkasprengingar sem samþykktur var af allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í New York 15. desember 1997 og alþjóðasamning um að koma í veg fyrir fjármögnun hryðjuverkastarfsemi sem samþykktur var af allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í New York 9. desember 1999.

    Samningarnir voru fullgiltir af Íslands hálfu 15. apríl 2002 og öðluðust þeir gildi að því er Ísland varðar 15. maí 2002.


Þál. 6/127 um fullgildingu samnings Fríverslunarsamtaka Evrópu og Króatíu,
frá 20. mars 2002 – þskj. 1027.


     Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að fullgilda fyrir Íslands hönd samning milli ríkja Fríverslunarsamtaka Evrópu (EFTA) og lýðveldisins Króatíu sem undirritaður var í Vaduz 21. júní 2001.

    Samningurinn var fullgiltur af Íslands hálfu 3. maí 2002 og öðlaðist hann gildi 1. september 2002.


Þál. 7/127 um fullgildingu samnings Fríverslunarsamtaka Evrópu og Makedóníu,
frá 20. mars 2002 – þskj. 1028.


     Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að fullgilda fyrir Íslands hönd samning milli ríkja Fríverslunarsamtaka Evrópu (EFTA) og lýðveldisins Makedóníu sem undirritaður var í Zürich 19. júní 2000.

    Samningurinn var fullgiltur af Íslands hálfu 3. maí 2002 og öðlaðist hann gildi 1. ágúst
2002.


Þál. 8/127 um fullgildingu samnings Fríverslunarsamtaka Evrópu og Jórdaníu,
frá 20. mars 2002 – þskj. 1029.


     Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að fullgilda fyrir Íslands hönd samning milli ríkja Fríverslunarsamtaka Evrópu (EFTA) og hasjemíska konungsríkisins Jórdaníu sem undirritaður var í Vaduz 21. júní 2001.

    Samningurinn var fullgiltur af Íslands hálfu 30. apríl 2002 og öðlaðist hann gildi 1. september 2002.


Þál. 9/127 um fullgildingu stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu,
frá 10. apríl 2002 – þskj. 1179.

     Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að fullgilda fyrir Íslands hönd stofnsamning Fríverslunarsamtaka Evrópu sem undirritaður var í Vaduz í Liechtenstein 21. júní 2001.

    Samningurinn var fullgiltur af Íslands hálfu 22. apríl 2002 og öðlaðist hann gildi 1. júní 2002.


Þál. 10/127 um aðild að alþjóðasamþykkt um menntun og þjálfun, skírteini og
vaktstöður áhafna fiskiskipa, frá 20. apríl 2002 – þskj. 1296.


    

     Alþingi ályktar að heimila að Ísland gerist aðili að alþjóðasamþykkt um viðmiðanir fyrir menntun og þjálfun, skírteini og vaktstöður áhafna fiskiskipa sem gerð var í Lundúnum 7. júlí 1995.

    Ísland gerðist aðili að alþjóðasamþykktinni 28. maí 2002 en hún hefur enn ekki öðlast
gildi.


Þál. 11/127 um fullgildingu Stokkhólmssamnings um þrávirk lífræn efni,
frá 20. apríl 2002 – þskj. 1297.


         

     Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að fullgilda fyrir Íslands hönd Stokkhólmssamning um þrávirk lífræn efni sem gerður var 22. maí 2001.

    Samningurinn var fullgiltur af Íslands hálfu 29. maí 2002 en hann hefur ekki enn öðlast
gildi.

Þál. 12/127 um aðild að samningi um að koma í veg fyrir ólögmætar aðgerðir gegn
öryggi í siglingum á sjó og bókun um að koma í veg fyrir ólögmætar aðgerðir gegn
öryggi botnfastra mannvirkja á landgrunni, frá 20. apríl 2002 – þskj. 1298.


     Alþingi ályktar að heimila að Ísland gerist aðili að samningi um að koma í veg fyrir ólögmætar aðgerðir gegn öryggi í siglingum á sjó og bókun um að koma í veg fyrir ólögmætar aðgerðir gegn öryggi botnfastra mannvirkja á landgrunninu sem gerð voru í Róm
10. mars 1988.


    Ísland gerðist aðili að samningnum og bókuninni 28. maí 2002 og öðluðust þau gildi að því er Ísland varðar 26. ágúst 2002.


Þál. 13/127 um aðild að Kyótó-bókun við rammasamning Sameinuðu þjóðanna um
loftslagsbreytingar, frá 20. apríl 2002 – þskj. 1299.


     Alþingi ályktar að heimila að Ísland gerist aðili að Kýótó-bókun við rammasamning Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar sem gerð var 10. desember 1997.

    Ísland gerðist aðili að bókuninni 23. maí 2002 en hún hefur ekki enn öðlast gildi.


Þál. 15/127 um breytingu á bókun 26 við EES-samninginn (um valdsvið og störf
Eftirlitsstofnunar EFTA), frá 20. apríl 2002 – þskj. 1315.


     Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 164/2001 frá 11. desember 2001, um breytingu á bókun 26 (um valdsvið og störf Eftirlitsstofnunar EFTA á sviði ríkisaðstoðar) við EES-samninginn, og fella inn í samninginn reglugerð ráðsins (EB) nr. 659/1999 frá 22. mars 1999, um ítarlegar reglur um beitingu 93. gr. EB-sáttmálans.

    Ákvörðunin var staðfest af Íslands hálfu 10. júní 2002 og öðlaðist gildi að því er Ísland varðar 1. febrúar 2003.


Þál. 16/127 um breytingu á XVIII. viðauka við EES-samninginn (öryggi og
hollustuhættir á vinnustöðum o.fl.), frá 20. apríl 2002 – þskj. 1316.


     Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 159/2001 frá 11. desember 2001, um breytingu á XVIII. viðauka (Öryggi og hollustuhættir á vinnustöðum, vinnuréttur og jafnrétti kynjanna) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og fella inn í samninginn tilskipun ráðsins 2001/23/EB frá 12. mars 2001, um samræmingu á lögum aðildarríkjanna um vernd launamanna við aðilaskipti að fyrirtækjum, atvinnurekstri eða hluta fyrirtækja eða atvinnurekstrar.

    Ákvörðunin var staðfest af Íslands hálfu 10. júní 2002 og öðlaðist gildi að því er Ísland
varðar 1. ágúst 2002.

Þál. 17/127 um breytingu á XX. viðauka við EES-samninginn (umhverfismál),
frá 20. apríl 2002 – þskj. 1317.


     Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 162/2001 frá 11. desember 2001, um breytingu á XX. viðauka (Umhverfismál) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2000/53/EB frá 18. september 2000, um úr sér gengin ökutæki.

    Ákvörðunin var staðfest af Íslands hálfu 10. júní 2002 og öðlaðist gildi að því er Ísland varðar 1. ágúst 2002.


Þál. 18/127 um samning um vörslu kjarnakleyfra efna,
frá 20. apríl 2002 – þskj. 1318.


     Alþingi ályktar að heimila að Ísland gerist aðili að samningi um vörslu kjarnakleyfra efna sem gerður var í Vínarborg 3. mars 1980.

    Ísland gerðist aðili að samningnum 18. júní 2002 og öðlaðist hann gildi að því er Ísland varðar 18. júlí 2002.


Þál. 19/127 um samning milli Íslands og Færeyja um fiskveiðar innan íslenskrar og
færeyskrar lögsögu 2002, frá 20. apríl 2002 – þskj. 1319.


     Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd samning milli Íslands og Færeyja um fiskveiðar innan íslenskrar og færeyskrar lögsögu á árinu 2002 sem gengið var frá með orðsendingaskiptum í Reykjavík og Þórshöfn 24. janúar og 28. febrúar 2002.

    Samningurinn, sem gildir aðeins fyrir árið 2002, öðlaðist gildi til bráðabirgða 28. febrúar 2002. Hann var staðfestur af Íslands hálfu 3. maí 2002 en honum var ekki veitt formlegt gildi.


Þál. 23/127 um samning um alþjóðastofnun fjarskipta um gervitungl,
frá 20. apríl 2002 – þskj. 1323.


     Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd breytingar á samningi um alþjóðastofnun fjarskipta um gervitungl sem samþykktar voru í Washington 17. nóvember 2000.

    Breytingarnar voru staðfestar af Íslands hálfu 12. júní 2002 en þær hafa ekki enn öðlast gildi.


Þál. 25/127 um deilur Ísraels og Palestínumanna, frá 30. apríl 2002 – þskj. 1446.


     Alþingi lýsir áhyggjum sínum af því ófriðarástandi sem nú ríkir fyrir botni Miðjarðarhafs og fordæmir það ofbeldi sem þar á sér stað. Alþingi leggur áherslu á að öryggi óbreyttra borgara sé tryggt og alþjóðleg mannréttindi virt og telur brýnt að send verði eftirlitsnefnd frá Sameinuðu þjóðunum á svæðið í samræmi við ályktun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna 1405(2002).
    Alþingi krefst þess að öllum ofbeldisverkum linni, þar á meðal sjálfsmorðsárásum og beitingu hervalds, að Ísrael dragi herlið sitt til baka frá sjálfsstjórnarsvæðum Palestínumanna, að deiluaðilar semji um vopnahlé og að hafnar verði friðarviðræður um sjálfstætt ríki Palestínumanna og öryggi Ísraelsríkis innan alþjóðlegra viðurkenndra landamæra í samræmi við nýjustu ályktanir öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna.
    Alþingi vísar til ályktunar sinnar frá 18. maí 1989, ályktana öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna nr. 1397(2002), 1402(2002) og 1403(2002) um leið og það lýsir yfir að þjóðum heims beri að stuðla að því að Ísrael og Palestínumenn leysi úr ágreiningsefnum sínum á grundvelli alþjóðalaga og samþykkta Sameinuðu þjóðanna.


    Utanríkisráðherra kynnti þingsályktunina fyrir Ariel Sharon, forsætisráðherra Ísrael, í Jerúsalem 29. maí 2002 og Yasser Arafat, forseta heimastjórnar Palestínumanna, í Ramallah 31. maí 2002.