Ferill 145. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 145  —  145. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 107/1999, um fjarskipti.

(Lagt fyrir Alþingi á 127. löggjafarþingi 2001–2002.)



1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 15. gr. laganna:
     a.      3. mgr. verður svohljóðandi:
                  Jöfnunargjald samkvæmt lögum þessum skal nema 0,12% af bókfærðri veltu skv. 2. mgr. Skal gjaldhlutfall endurskoðað árlega af Póst- og fjarskiptastofnun. Verði útgjöld meiri en nemur jöfnunargjöldum á árinu skal gjaldfæra þann mismun á skuldbindingar næsta árs. Verði fjárhæð jöfnunargjalda meiri en nemur útgjöldum á gjaldárinu skal afgangur fluttur til næsta árs.
     b.      Á eftir orðinu „innheimtu“ í 5. mgr. kemur: þ.m.t. fyrirframgreiðslu.

2. gr.

    20. gr. laganna verður svohljóðandi:
    Rekstrarleyfishafar með umtalsverða markaðshlutdeild í almennum fastasímanetum og talsímaþjónustu skulu verða við öllum réttmætum og sanngjörnum beiðnum fjarskiptafyrirtækja um aðgang að heimtaugum og aðstöðu er slíkum aðgangi tengist. Gjöld fyrir aðgang og aðstöðu skulu byggjast á kostnaði, þ.m.t. eðlilegri arðsemi af bundnu fjármagni. Rekstrarleyfishafar með umtalsverða markaðshlutdeild skulu birta viðmiðunartilboð um aðgang að heimtaugum og tengdri aðstöðu. Póst- og fjarskiptastofnun getur krafist breytinga á viðmiðunartilboði, þ.m.t. verði.
    Beiðnum um aðgang að heimtaugum skal aðeins hafnað á grundvelli hlutlægra viðmiðana, nauðsynjar þess að viðhalda heildstæði neta eða af tæknilegum ástæðum. Náist ekki samkomulag um aðgang getur aðili vísað málinu til Póst- og fjarskiptastofnunar. Um málsmeðferð fer skv. 27. og 28. gr.
    Samgönguráðherra skal setja reglugerð skv. 1. mgr. sem felur í sér að reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 2887/2000 frá 18. desember 2000, um opinn aðgang að heimtaugum, samkvæmt ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 47/2001 frá 30. mars 2001 um breytingu á XI. viðauka við EES-samninginn verði að fullu innleidd í íslensk lög.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta hefur það annars vegar að markmiði að tryggja aðgang að heimtaugum rekstrarleyfishafa með umtalsverða markaðshlutdeild og þar með fullnægja skuldbindingum vegna samningsins um Evrópska efnahagssvæðið en hins vegar að koma gjaldstofni vegna jöfnunarsjóðs alþjónustu í varanlegt form.

1.     Alþjónusta.
    Samkvæmt IV. kafla laga um fjarskipti, nr. 107/1999, er gert ráð fyrir að hægt sé að kveða á um skyldu fjarskiptafyrirtækja til að veita alþjónustu. Umfang alþjónustu er skilgreint í 13. gr. laganna og ákvæðum reglugerðar nr. 641/2000, um alþjónustu, þar sem nánar er mælt fyrir um hvaða þættir fjarskiptaþjónustu geta fallið þar undir. Þurfi fjarskiptafyrirtæki að veita alþjónustu þrátt fyrir að hún sé rekin með tapi eða óarðbær vegna ákvörðunar stjórnvalda getur það öðlast endurkröfurétt á hendur sérstökum jöfnunarsjóði. Sá sjóður er fjármagnaður með gjaldi sem lagt er á fjarskiptafyrirtæki sem starfrækja almenn fjarskiptanet og/eða almenna talsímaþjónustu í hlutfalli við bókfærða veltu þessarar starfsemi. Hefur þjónusta Neyðarlínunnar sem lýtur að neyðarsímsvörun verið talin til alþjónustu sem fjármagna bæri með framlögum úr jöfnunarsjóði.
    Tvö undanfarin ár hefur gjaldstofn sjóðsins verið ákveðinn með sérstökum lögum fyrir hvert einstakt ár, sbr. 3. mgr. 15. gr. fjarskiptalaga, en með frumvarpi þessu er ætlunin að gjaldstofn verði ótímabundinn og því þurfi ekki að leggja sérstakt frumvarp árlega fyrir Alþingi nema breytingar verði á fjárþörf eða tekjum jöfnunarsjóðsins.

2.      Gildandi ákvæði um aðgang að heimtaug í umráðum rekstrarleyfishafa með umtalsverða markaðshlutdeild.
    Með frumvarpi þessu er stefnt að innleiðingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 47/2000 í íslenskan landsrétt til samræmis við kröfur samningsins um Evrópska efnahagssvæðið. Í ákvörðuninni fólst að fella bæri í EES-rétt reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 2887/2000 frá 18. desember 2000, um opinn aðgang að heimtaugum. Heimtaugar eru koparsímalínur sem tengja notendur við næstu símstöð. Reglugerð um sundurliðaðan aðgang að heimtaugum í notendakerfum tók gildi í aðildarríkjum ESB hinn 1. janúar 2001.
    Gildandi fjarskiptalög mæla nú þegar fyrir um aðgang að heimtaug rekstrarleyfishafa með umtalsverða markaðshlutdeild en Landssími Íslands hf. er eina fjarskiptafyrirtækið sem fellur undir þá skilgreiningu hér á landi. Reglugerðin sem hér er lögfest leggur afdráttarlausari kvaðir á rekstrarleyfishafa um að veita aðgang að heimtaug en gildandi ákvæði. Birtist það í því að gildandi lög mæla fyrir um að Póst- og fjarskiptastofnun geti ákveðið að önnur fjarskiptafyrirtæki fái aðgang að heimtaug þegar nánar tilgreind skilyrði eru uppfyllt. Þannig er skylda rekstrarleyfishafa til að veita aðgang að einstökum heimtaugum háð mati hverju sinni. Hin nýja reglugerð gerir hins vegar þá kröfu til rekstrarleyfishafanna að þeir bjóði öllum frá og með 31. desember 2000 aðgang að heimtaugarnetum sínum samkvæmt fyrirframákveðnu viðmiðunartilboði sem er eins konar heildsöluverðskrá fyrir veitta þjónustu. Lagaleg sjónarmið að baki EES-samningnum leiða til þess að nauðsynlegt er að innleiða reglugerðir samningsins í heild sinni og orðrétt, jafnframt því sem afnema þarf lagaákvæði sem ganga skemur.
    Reglugerðir hafa bein réttaráhrif innan aðildarríkja ESB og verða þær sjálfkrafa hluti af æðstu löggjöf aðildarríkjanna án nokkurs tilverknaðar af hálfu þeirra. Meira að segja er formleg innleiðing reglugerðar óheimil, þar sem hún mundi varpa efasemdum á lagalegt eðli ákvæða hennar og gildistöku. Þetta dregur á engan hátt úr valdi og skyldu aðildarríkjanna til að gera nauðsynlegar ráðstafanir til að koma ákvæðunum í gildi innan sinnar lögsögu. Réttarverkanir innan aðildarríkja ESB vegna ákvæða reglugerðarinnar eru ólíkar því sem gildir hér á landi. Stafar það af því að við gerð samningsins um Evrópska efnahagssvæðið var ekki ætlunin að veita stofnunum bandalagsins lagasetningarvald gagnvart íslenskum þegnum og því þarf að grípa til sérstakra ráðstafana af hálfu íslenskra stjórnvalda til þess að reglugerðir bandalagsins öðlist gildi, sbr. 7. gr. samningsins um Evrópska efnahagssvæðið. Þrátt fyrir að reglugerðir samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið öðlist ekki bein lagaáhrif hér á landi og verði þar af leiðandi ekki hluti landsréttar hvílir sambærileg skylda á stjórnvöldum til að tryggja að reglugerðin öðlist gildi, sbr. hollustureglu 3. gr. samningsins um Evrópska efnahagssvæðið og 10. gr. Rómarsáttmálans. Þar sem reglugerðir hafa bein réttaráhrif í löggjöf aðildarríkja telur framkvæmdastjórn sambandsins sig hafa mikilvægu hlutverki að gegna við framkvæmd þeirra. Eftirlitsstofnun EFTA fer með samsvarandi hlutverk gagnvart íslenskum stjórnvöldum.
    Í 20. gr. gildandi fjarskiptalaga, nr. 107/1999, segir að þegar fjarskiptafyrirtæki geti ekki tengst einstökum notendum sem eru tengdir fjarskiptaneti rekstrarleyfishafa með umtalsverða markaðshlutdeild, vegna eðlis eða umfangs fjárfestingar í heimtaug sem er forsenda viðskiptasambands, geti Póst- og fjarskiptastofnun ákveðið að fjarskiptafyrirtæki fái beinan aðgang að einstökum notendum. Lögin tóku gildi hinn 1. janúar 2000, hins vegar var í bráðabirgðaákvæði laganna mælt fyrir um að aðgangur að heimtaug skyldi heimilaður sex mánuðum eftir að Póst- og fjarskiptastofnun hefði ákvarðað fastagjöld fyrir talsíma til samræmis við kostnað og hæfilega álagningu. Skylda þess fjarskiptafyrirtækis hér á landi sem telst rekstrarleyfishafi með umtalsverða markaðshlutdeild, Landssíma Íslands hf., til að veita aðgang að heimtaug sinni varð því virkur 1. október 2000.
    Vegna fyrirhugaðrar gildistöku heimtaugarákvæðis fjarskiptalaga stofnaði Póst- og fjarskiptastofnun vinnuhóp í ágúst 2000 með þátttöku fjarskiptafyrirtækja sem talin voru eiga hagsmuna að gæta. Vinnuhópurinn náði samkomulagi um verklag fyrir heimtaugaleigu 2. janúar 2001. Samkvæmt verklagsreglunum geta fjarskiptafyrirtæki sem ekki eiga hagkvæman kost á eigin heimtaugum leigt þær af Landssíma Íslands hf. annaðhvort til að veita talsímaþjónustu eða gagnaflutningsþjónustu eins og ADSL. Jafnframt er í reglunum gert ráð fyrir að Landssími Íslands hf. leigi fjarskiptafyrirtækjunum aðstöðu fyrir símabúnað þeirra í símstöðvum þar sem því verður við komið en að öðrum kosti koma fjarskiptafyrirtækin sér fyrir í nágrenni símstöðvar. Af þessu öllu leiðir að símnotendur geta nú pantað talsímaþjónustu og/eða ADSL-gagnaflutningsþjónustu hjá fleirum en einu fyrirtæki. Símnotendur gera samning við fjarskiptafyrirtæki um þjónustu sem þeir vilja þiggja hjá fyrirtækinu og það sendir umsókn um leigu á heimtaug símnotandans til Landssíma Íslands hf. Afhending heimtaugar skal eiga sér stað eigi síðar en 20 dögum eftir móttöku umsóknar fjarskiptafyrirtækisins.
    Undir verklagsreglurnar hafa skrifað Hringiðan ehf., Íslandssími hf. og Landssími Íslands hf. ásamt Póst- og fjarskiptastofnun. Öðrum fjarskiptafyrirtækjum er heimill aðgangur að samkomulaginu.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Í gildandi lögum nr. 160/2000, um jöfnunargjald vegna alþjónustu árið 2001, hefur verið lagt til að jöfnunargjald verði 0,12% fyrir árið 2001. Í greinargerð með frumvarpinu var sérstaklega vísað til laga nr. 75/1981 en í því felst að frumvarpið gerði ráð fyrir að innheimta og álagning jöfnunargjalds á veltu ársins 2001 færi ekki fram fyrr en á árinu 2002. Þar sem þegar hefur verið mælt fyrir um skatthlutfall af veltu felur frumvarp þetta ekki í sér afturvirkni skattalaga. Með ákvæðinu er á hinn bóginn ætlunin að koma jöfnunargjaldinu inn í álagningar- og innheimtukerfi þinggjalda með varanlegri hætti þannig að ekki þurfi að leggja sérstakt frumvarp fyrir Alþingi á hverju ári nema fjárþörf jöfnunarsjóðsins breytist. Í því fælist m.a. að innheimt yrðu gjöld á árinu 2002 vegna veltu ársins 2001 og á árinu 2003 vegna veltu ársins 2002. Lagt er til að skatthlutfallið verði að finna í lögum um fjarskipti auk ákvæða um fyrirframgreiðsluna.
    Tekjur jöfnunarsjóðs alþjónustu eru hlutfall bókfærðrar veltu fjarskiptafyrirtækja af rekstri almenns fjarskiptanets og/eða almennrar talsímaþjónustu. Skatthlutfallið er ákveðið fyrirfram samkvæmt mati á framtíðartekjum og því er ljóst að endanleg niðurstaða getur ýmist leitt til þess að tekjur sjóðsins verði meiri eða minni en gert var ráð fyrir. Vegna þessa er mikilvægt að sjóðurinn geti flutt hagnað eða tap á milli ára. Verði halli af rekstri sjóðsins þarf annað tveggja að koma til að dregið verði úr alþjónustuskyldum eða að samgönguráðherra leggi fram frumvarp til hækkunar á gjaldstofni jöfnunargjalds.

Um 2. gr.

    Með ákvæði þessarar greinar frumvarpsins er að því stefnt að innleiða reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 2887/2000 frá 18. desember 2000, um opinn aðgang að heimtaugum, í íslenskan rétt þannig að rekstrarleyfishöfum með umtalsverða markaðshlutdeild verði ótvírætt skylt að verða við öllum réttmætum og sanngjörnum beiðnum fjarskiptafyrirtækja um aðgang að heimtaugum og aðstöðu er slíkum aðgangi tengist. Í 3. gr. reglugerðar nr. 2887/2000 er að finna kjarna aðgangsskyldu að heimtaug sem gilda mun á öllu Evrópska efnahagssvæðinu. Í 1. mgr. 3. gr. er kveðið á um skyldu rekstrarleyfishafa til þess að gera aðgang að heimtaug og viðeigandi aðstöðu að hluta viðmiðunartilboðs. Í gildandi fjarskiptalögum er þegar gert ráð fyrir því að rekstrarleyfishafar gefi út viðmiðunartilboð og felur samþykkt sameiginlegu EES-nefndarinnar í sér að lágmarkskröfur um innihald slíks tilboðs hafa verið auknar svo heimtaugarleiga falli þar undir. Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 2887/2000 frá 18. desember 2000, um opinn aðgang að heimtaugum, greinir á milli skyldu er hvílir á rekstrarleyfishöfum sem taldir eru hafa umtalsverða markaðshlutdeild og skyldum er hvíla á fjarskiptastofnunum. Ákvæði 1. mgr. 3. gr. hennar gerir kröfu til þess að umræddir rekstrarleyfishafar birti frá 31. desember 2000 viðmiðunartilboð fyrir aðgang að heimtauginni einni og sér og tengdri aðstöðu sem vísað er til í viðauka reglugerðarinnar. Hér er um að ræða lágmark þannig að unnt er að gera kröfu um að viðmiðunartilboð innihaldi frekari upptalningu en fram kemur í viðauka sé það í samræmi við eftirspurn á markaði. Tekið er skýrt fram að viðmiðunartilboðið þurfi að vera nægjanlega sundurgreint þannig að kaupendur þjónustunnar þurfi ekki að greiða fyrir annað en það sem þeir hafa þörf fyrir. Þá á að kveða á um lýsingu á um hvaða netþætti sé að ræða og skilmála, m.a. verð þjónustunnar. Gildandi ákvæði fjarskiptalaga um heimtaug gerðu einnig ráð fyrir því að fyrirkomulag aðgangs mætti vera með ýmsum hætti því í lögum er gert ráð fyrir að rekstrarleyfishafar með umtalsverða markaðshlutdeild veiti aðgang að netum sínum í samræmi við markaðsþarfir og að kaupandi þjónustunnar þurfi ekki að greiða fyrir annað en það sem tengist beint umbeðinni þjónustu. Nokkur ágreiningur hefur verið uppi um það hvort gildandi ákvæði um aðgang að heimtaug geti falið í sér svokallaðan skiptan aðgang (e. shared access). Með frumvarpi þessu eru öll tvímæli tekin af um það.
    Samkvæmt frumvarpi þessu er ákvæði 2. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar einnig leitt í íslensk lög. Þar segir að eftir 31. desember 2000 skuli umræddir rekstrarleyfishafar verða við öllum sanngjörnum óskum um aðgang að heimtauginni samkvæmt gagnsæjum, sanngjörnum skilmálum þar sem einstökum kaupendum þjónustunnar er ekki mismunað. Óskum um aðgang má því aðeins hafna að það sé gert á grundvelli hlutlægrar reglu sem taki mið af tæknilegum forsendum eða mikilvægi þess að viðhalda heildstæði fjarskiptaneta. Í þessum áskilnaði felst einnig að umræddir rekstrarleyfishafar þurfa að bjóða kaupendum sambærilega þjónustuþætti og þeir veita sínum eigin rekstrareiningum og með sömu skilmálum og tímafrestum.
    Í 3. mgr. segir að samgönguráðherra skuli setja reglugerð til að reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins 2887/2000 öðlist gildi í íslenskum rétti. Eins hefði verið mögulegt að birta hana sem fylgiskjal með lögunum. Á hinn bóginn er á það að líta að frá stofnunum Evrópska efnahagssvæðisins streymir fjöldi laga og reglna og því hætt við því að lagasafn A-deildar Stjórnartíðinda yrði óhæfilega yfirgripsmikið og óglöggt ef reglugerðir erlendra stofnana væru ávallt birtar sem fylgiskjöl heimildarlaga.
    Í ákvæði 4. gr. reglugerðar 2887/2000 er fjallað um skyldur stjórnvalda við eftirlit með því að eftir henni sé farið. Þar sem greinin rúmast þegar innan valdheimilda Póst- og fjarskiptastofnunar samkvæmt lögum nr. 110/1999, um Póst- og fjarskiptastofnun, þykir ekki þörf á að setja nánari ákvæði um skyldu stjórnvalda í efnisákvæði frumvarpsins.

Um 3. gr.

    Greinin þarfnast ekki nánari skýringa.


Fylgiskjal I.


Reglugerð (EB) Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2887/2000
frá 18. desember 2000
um opinn aðgang að heimtauginni (Texti sem varðar EES)

EVRÓPUÞINGIÐ OG RÁÐ EVRÓPUSAMBANDSINS HAFA,
með hliðsjón af stofnsáttmála Evrópubandalagsins, einkum 95. gr.,
með hliðsjón af tillögu framkvæmdastjórnarinnar,
með hliðsjón af áliti efnahags- og félagsmálanefndarinnar( 1 ),
í samræmi við málsmeðferðina sem mælt er fyrir um í 251. gr. sáttmálans ( 2 ),
og að teknu tilliti til eftirfarandi:
1)    Í niðurstöðu Evrópuráðsins í Lissabon frá 23. og 24. mars 2000 kemur fram að fyrirtæki og borgarar þurfi að hafa aðgang að ódýrum samskiptakerfum í heimsflokki og yfirgripsmikilli þjónustu svo að vaxtar- og starfsmöguleikar í stafrænu hagkerfi, sem grundvallast á þekkingu, verði nýttir að fullu í Evrópu. Leitað er til aðildarríkjanna og framkvæmdastjórnarinnar til að vinna að því að koma á aukinni samkeppni í staðaraðgangsnetum fyrir lok ársins 2000 og opna aðgang að heimtaug í þeim tilgangi að ná fram verulegri lækkun kostnaðar við notkun á Netinu. Evrópuráðið í Feira frá 20. júní 2000 ljáði tillögunni um aðgerðaráætlunina „e-Evrópa“ fylgi, en í henni er gert grein fyrir að opinn aðgangur að heimtaug hafi bráðabirgðaforgang.
2)    Opinn aðgangur að heimtaug ætti að vera til fyllingar á ákvæðum sem fyrir eru í lögum bandalagsins og tryggja altæka þjónustu og sanngjarnan aðgang fyrir alla borgara með því að auka samkeppni, tryggja arðsemi og sé til sem mestra hagsbóta fyrir notendur.
3)    „Heimtaugin“ er símalína sem gerð er úr tveimur samtvinnuðum vírum í fasta almenna símnetkerfinu sem tengir nettengipunktinn hjá símnotandanum við aðaltengigrind eða sambærilega þjónustu. Eins og fram kemur í fimmtu skýrslu framkvæmdastjórnarinnar um framkvæmd lagabálks EB um fjarskipti er staðaraðgangsnetið sá geiri sem gefinn hefur verið frjáls á fjarskiptamarkaðinum sem er síst samkeppnishæfur. Nýir aðilar hafa ekki annað yfirgripsmikið netgrunnvirki og geta ekki, með venjulegri tækni náð þeirri stærðarhagkvæmni eða þeirri útbreiðslu sem fyrirtæki með sterka markaðsstöðu í föstum almennum símanetum hafa. Ástæðan er sú að þessi fyrirtæki komu upp málmgrunnvirkjum fyrir staðaraðgang á töluvert löngum tíma þar sem þau nutu verndar einkaréttarins og var kleift að fjármagna kostnaðinn við fjárfestinguna með einokunarleigutekjum.
4)    Í ályktun Evrópuþingsins frá 13. júní 2000 um orðsendingu framkvæmdastjórnarinnar í endurskoðaðri orðsendingu frá 1999 er lögð áhersla á mikilvægi þess að í þessum geira fái að þróast grunnvirki sem stuðlar að auknum rafrænum fjarskiptum og rafrænni verslun ásamt mikilvægi þess að þeim sé stjórnað með vöxt þeirra í huga. Þar er bent á að aðgangur að heimtaug varðar nú aðallega málmgrunnvirki yfirburðafyrirtækis og ef fjárfest er í öðrum grunnvirkjum verður það að tryggja sanngjarnan hagnaðarhlut þar sem það gæti greitt fyrir útbreiðslu á þessum grunnvirkjum á svæðum þar sem þau eru lítið útbreidd.
5)    Veiting nýrra heimtauga með mikla ljósleiðaragetu beint til stærstu viðskiptavina er sérstakur markaður sem er að þróast við samkeppnisskilyrði með nýjum fjárfestingum. Þessi reglugerð gildir þess vegna um aðgang að málmheimtaugum án þess að hafa áhrif á innlendar skuldbindingar hvað varðar aðrar gerðir staðaraðgangs að grunnvirkjum.
6)    Það væri ekki fjárhagslega hagkvæmt fyrir nýja aðila að koma upp öðru heilu, nákvæmlega eins málmgrunnvirki fyrir staðaraðgang innan hæfilegra tímamarka. Önnur grunnvirki, svo sem kapalsjónvarp, gervihnöttur, þráðlausar heimtaugar, hafa almennt ekki sama nýtanleika eða sömu heildarútbreiðslu fyrst um sinn, þótt aðstæður í aðildarríkjum kunni að vera mismunandi.
7)    Opinn aðgangur að heimtauginni gerir nýjum aðilum kleift að keppa við tilkynnta rekstraraðila og bjóða gagnaflutningsþjónustu á miklum bitahraða með samfelldum Netaðgangi og fyrir margmiðlunarnotkun sem byggist á stafrænni áskriftarlínutækni (DSL) ásamt talsímaþjónustu. Réttmæt beiðni um opinn aðgang gefur til kynna að aðgangurinn sé nauðsynlegur til að hægt sé að veita rétthafa þjónustu, og að höfnun beiðninnar hindraði, takmarkaði eða raskaði samkeppni í þessum geira.
8)    Í þessari reglugerð er mælt fyrir um að opinn aðgang að málmheimtaugum veiti eingöngu tilkynntir rekstraraðilar sem viðkomandi innlend eftirlitsyfirvöld hafa kynnt með sterka markaðsstöðu, hvað varðar framboð á föstum almennum símanetum á markaðinum, með viðeigandi ákvæðum bandalagsins (hér á eftir nefndir „tilkynntir rekstraraðilar“). Aðildarríkin hafa þegar tilkynnt framkvæmdastjórninni um heiti þeirra rekstraraðila fastra almennra símanetkerfa sem eru með sterka markaðsstöðu í 1. hluta I. viðauka tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 97/33/EB frá 30. júní 1997 um samtengingu í fjarskiptum með tilliti til altækrar þjónustu og rekstrarsamhæfi með því að beita meginreglum um frjálsan aðgang að netum (ONP) ( 3 ), og tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 98/10/EB frá 26. febrúar 1998 um frjálsan aðgang að netum (ONP) fyrir talsímaþjónustu og altæka fjarskiptaþjónustu í samkeppnisumhverfi ( 4 ).
9)    Ekki er hægt að krefjast þess að tilkynntur rekstraraðili veiti aðgang sem hann hefur ekki vald til að veita, til dæmis þegar framkvæmd beiðninnar yrði til þess að brotið væri á lagalegum rétti sjálfstæðs þriðja aðila. Sú skuldbinding að útvega opinn aðgang að heimtaug felur ekki í sér að tilkynntir rekstraraðilar verði að setja sérstaklega upp algjörlega nýtt grunnvirki fyrir staðarnet til að uppfylla kröfur þess sem nýtur góðs af því.
10)    Jafnvel þótt viðskiptaviðræður séu æskileg aðferð til að ná samkomulagi um tæknileg atriði og verðlagningu varðandi aðgang að heimtaug sýnir reynslan að í flestum tilvikum eru regluleg afskipti nauðsynleg í ljósi ójafnrar samningsstöðu nýju aðilanna og tilkynntu rekstraraðilanna, auk þess að ekki eru aðrir kostir í boði. Við vissar aðstæður geta innlend eftirlitsyfirvöld, samkvæmt lögum bandalagsins, gripið inn í að eigin frumkvæði til að tryggja sanngjarna samkeppni, arðsemi og að það sé til sem mestra hagsbóta fyrir notendur. Ef tilkynnti rekstraraðilinn virðir ekki afgreiðslufrestinn ætti notandi að eiga rétt á bótum.
11)    Reglur um kostnað og verðlagningu vegna heimtauga og skyldrar þjónustu ættu að vera gagnsæjar, án mismununar og hlutlægar til að tryggja að sanngirni sé viðhöfð. Reglur um verðlagningu ættu að tryggja að veitandi heimtaugarinnar geti greitt viðeigandi kostnað hvað þetta varðar og fengið sanngjarnan hagnaðarhlut að auki til að tryggja langtímaþróun og endurnýjun á staðaraðgangsgrunnvirki. Reglur um verðlagningu á heimtaugum ættu að stuðla að sanngjarnri og lífvænlegri samkeppni, með tilliti til þess hver þörfin er á að fjárfesta í öðrum grunnvirkjum og til að tryggja að engin röskun verði á samkeppni, einkum engin bjögun á réttum hlutföllum milli heildsöluverðs og verðs á smásöluþjónustu tilkynnts rekstraraðila vegna óeðlilega lágrar álagningar. Þess vegna er talið mikilvægt að haft sé samráð við samkeppnisyfirvöld.
12)    Tilkynntir rekstraraðilar ættu að veita þriðja aðila upplýsingar og opinn aðgang með sömu skilyrðum og af sömu gæðum og væri um eigin þjónustu að ræða eða þjónustu við systurfyrirtæki. Í þessu augnamiði mundi birting tilkynnts rekstraraðila á fullnægjandi viðmiðunarútboði á opnum aðgangi að heimtaug, innan skammra tímamarka og helst á Netinu, og undir stjórn innlenda eftirlitsyfirvaldsins, stuðla að því að gagnsæ markaðsskilyrði án mismununar sköpuðust.
13)    Í tilmælum framkvæmdastjórnarinnar 2000/417/ EB frá 25. maí 2000 um opinn aðgang að heimtaug, sem auðveldar samkeppni á öllum sviðum þjónustu vegna rafrænna fjarskipta, þar með talið margmiðlunar á breiðbandi og háhraðaneti ( 5 ), og í orðsendingu sinni frá 26. apríl 2000 ( 6 ) lagði framkvæmdastjórnin fram nákvæmar leiðbeiningar innlendum eftirlitsyfirvöldum til aðstoðar við sanngjarnt eftirlit á mismunandi gerðum af opnum aðgangi að heimtaug.
14)    Í samræmi við dreifræðisregluna eins og hún er sett fram í 5. gr. í sáttmálanum geta aðildarríkin ekki náð því markmiði að fá samræmdan ramma yfir opinn aðgang að heimtauginni til að skapa samkeppnisgrundvöll á ódýrum fjarskiptagrunnvirkjum í heimsflokki og víðtækri þjónustu fyrir öll fyrirtæki og borgara í bandalaginu á öruggan, samræmdan og fljótlegan hátt og verður því betur náð fram á vettvangi bandalagsins. Í samræmi við hlutfallsregluna eins og hún er sett fram í þessari grein ganga ákvæði reglugerðarinnar ekki lengra en nauðsynlegt er til að ná þessu markmiði í þessu augnamiði. Þau eru samþykkt án þess að hafa áhrif á innlend ákvæði sem hlíta lögum bandalagsins þar sem settar eru fram ítarlegri ráðstafanir, til dæmis um sýndarstaðsetningu.
15)    Þessi reglugerð er til fyllingar lagaramma fyrir fjarskipti, einkum tilskipanir 97/33/EB og 98/10/EB. Í nýja lagarammanum fyrir rafræn fjarskipti ættu að felast viðeigandi ákvæði sem koma í stað þessarar reglugerðar.
SAMÞYKKT REGLUGERÐ ÞESSA:

1. gr.
Markmið og gildissvið

1.     Markmiðið með þessari reglugerð er að auka samkeppni og hvetja til tækninýsköpunar á markaðinum fyrir staðaraðgang með því að setja samræmd skilyrði fyrir opinn aðgang að heimtauginni, að stuðla að samkeppni á víðtæku sviði þjónustu er varðar rafræn fjarskipti.
2.     Þessi reglugerð skal gilda um opinn aðgang að heimtaugum og skyldri þjónustu tilkynntra rekstraraðila eins og skilgreint er í a-lið 4. gr.
3.     Þessi reglugerð skal gilda með fyrirvara um þær skuldbindingar að tilkynntir rekstraraðilar fylgi jafnræðisreglunni þegar þeir nota fasta almenna símanetið í þeim tilgangi að veita þriðju aðilum háhraðaaðgang og gagnaflutningaþjónustu á sama hátt og um eigin þjónustu væri að ræða eða þjónustu sem þeir veita systurfyrirtækjum sínum í samræmi við ákvæði bandalagsins.
4.     Þessi reglugerð hefur ekki áhrif á rétt aðildarríkja til að viðhalda ráðstöfunum eða taka þær upp í samræmi við lög bandalagsins, en í þeim felast ítarlegri ákvæði en þau sem sett eru fram með þessari reglugerð og/eða falla ekki undir þessa reglugerð, meðal annars með tilliti til annars konar aðgangs að staðargrunnvirkjum.

2. gr.
Skilgreiningar

Í þessari reglugerð er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:
a)    „tilkynntur rekstraraðili“ er rekstraraðili fastra almennra símaneta sem hefur verið tilnefndur af innlendu eftirlitsyfirvaldi með sterka markaðsstöðu hvað varðar framboð á föstum almennum símanetum og þjónustu eins og tilgreint er í 1. hluta I. viðauka tilskipunar 97/33/EB eða tilskipunar 98/10/EB;
b)    „rétthafi“ er þriðji aðili sem er viðurkenndur í samræmi við tilskipun 97/13/EB ( 7 ) eða hefur rétt á að veita fjarskiptaþjónustu samkvæmt innlendum lögum og uppfyllir skilyrði fyrir opinn aðgang að heimtaug;
c)    „heimtaug“ er símalína sem gerð er úr tveimur samtvinnuðum vírum og tengir saman nettengipunkt hjá símnotanda við aðaltengigrind eða sambærilegan búnað í fasta almenna símanetkerfinu;
d)    „heimtaugargrein“ er hluti af heimtaug sem tengir nettengipunktinn hjá símnotanda við tengigrind eða sérstaka millitengingu í fasta almenna símanetkerfinu;
e)    „opinn aðgangur að heimtaug“ er bæði fullur aðgangur að heimtauginni og samnýttur aðgangur að henni; í því felst ekki breytt eignarhald á heimtauginni;
f)    „ótakmarkaður opinn aðgangur að heimtaug“ er þegar veittur er aðgangur að heimtaug eða heimtaugargrein tilkynnts rekstraraðila með notkunarheimild á heildartíðnisviði samtvinnuðu víranna;
g)    „samnýttur aðgangur að heimtaug“ er þegar veittur er aðgangur að heimtaug eða heimtaugargrein tilkynnts rekstraraðila með notkunarheimild fyrir samtvinnaða víra á tíðnisviði sem ekki er fyrir raddflutning; tilkynnti rekstraraðilinn notar áfram heimtaugina til að geta veitt almenningi símaþjónustu;
h)    „sameiginleg staðsetning“ er veiting svæðis- og tækniþjónustu sem nauðsynleg er til að koma viðeigandi búnaði rétthafa fyrir með góðu móti og tengja hann, eins og fram kemur í B-lið viðaukans;
i)    „skyld þjónusta“ er þjónusta sem tengist því að veita opinn aðgang að heimtaug, einkum sameiginlega staðsetningu, kapaltengingar og viðeigandi upplýsingatæknikerfi, og er nauðsynlegt fyrir þann sem nýtur aðgangsins að veitt sé þjónusta á sanngjörnum samkeppnisgrundvelli.

3. gr.
Veiting á opnum aðgangi

1.     Tilkynntir rekstaraðilar skulu birta, og uppfæra, viðmiðunarútboð á opnum aðgangi að heimtaugum sínum og skyldri sérþjónustu frá 31. desember 2000 og skulu felast í því að minnsta kosti þau atriði sem skráð eru í viðaukann. Útboðið skal vera nægilega opið svo að rétthafi þurfi ekki að greiða fyrir netþætti eða sérþjónustu sem ekki er þörf á þegar þeir fá þjónustu, í því skal einnig vera lýsing á efnisþáttum útboðsins, tengdum skilmálum og skilyrðum, þar með talið gjald.
2.     Tilkynntir rekstraraðilar skulu frá 31. desember 2000 verða við réttmætum beiðnum frá þeim sem njóta opins aðgangs að heimtaugum þeirra og skyldri þjónustu, við gagnsæ og sanngjörn skilyrði og án mismununar. Beiðnum skal aðeins hafnað ef þær byggjast á hlutlægum viðmiðunum, þeirri nauðsyn að viðhalda heildstæði netsins eða eru af tæknilegum ástæðum. Ef aðgangi er hafnað getur sá aðili sem hallað er á lagt málið til meðferðar til lausnar deilumála sem vísað er til í 5. mgr. 4. gr. Tilkynntir rekstraraðilar skulu veita rétthöfum sambærilega þjónustu og væri um eigin þjónustu að ræða eða þjónustu sem þeir veita systurfyrirtækjum sínum, með sömu skilyrðum og innan sömu tímamarka.
3.     Með fyrirvara um 4. mgr. 4. gr. setja tilkynntir rekstraraðilar upp verð fyrir opinn aðgang að heimtaug og skylda þjónusta á grundvelli kostnaðartengingar.

4. gr.
Eftirlit innlenda eftirlitsyfirvaldsins

1.     Innlenda eftirlitsyfirvaldið skal sjá til þess að gjöld vegna opins aðgangs að heimtaug stuðli að sanngjarnri og lífvænlegri samkeppni.
2.     Innlenda eftirlitsyfirvaldið skal hafa heimild til:
a)    að gera breytingar á viðmiðunarútboði fyrir opinn aðgang að heimtaug og skyldri þjónustu, einnig verðbreytingar þar sem ástæða er til; og
b)    að krefjast þess að tilkynntir rekstraraðilar láti í té upplýsingar er tengjast framkvæmd þessarar reglugerðar.
3.     Innlenda eftirlitsyfirvaldið getur, þegar ástæða er til, gripið inn í að eigin frumkvæði í þeim tilgangi að tryggja jafnræði, sanngjarna samkeppni, arðsemi og sem mesta hagsmuni fyrir notendur.
4.     Þegar innlenda eftirlitsyfirvaldið ákvarðar að staðaraðgangsmarkaðurinn sé nægilega samkeppnishæfur skal það losa tilkynntu rekstraraðilana undan skuldbindingunni sem mælt er fyrir um í 3. mgr. 3. gr. um verðlagningu sem grundvallast á kostnaðartengingu.
5.     Deilumál milli fyrirtækja um málefni sem þessi reglugerð tekur til skulu falla undir innlenda málsmeðferð til lausnar deilumálum sem ákveðin er í samræmi við tilskipun 97/33/EB og skal þeim framfylgt á skjótan, sanngjarnan og gagnsæjan hátt.

5. gr.
Gildistaka

Reglugerð þessi öðlast gildi á þriðja degi eftir að hún birtist í Stjórnartíðindum Evrópubandalaganna.
    Reglugerð þessi er bindandi í heild sinni og gildir í öllum aðildarríkjunum án frekari lögfestingar.
    Gjört í Brussel 18. desember 2000.

Fyrir hönd Evrópuþingsins, Fyrir hönd ráðsins,
N. Fontaine D. Voynet
forseti. forseti.

VIÐAUKI
LÁGMARKSSKRÁ UM LIÐI Í VIÐMIÐUNARÚTBOÐI FYRIR OPINN AÐGANG AÐ HEIMTAUG SEM TILKYNNTIR REKSTRARAÐILAR SKULU BIRTA

A.     Skilyrði fyrir opnum aðgangi að heimtaug
    1.        Netþættir sem aðgangur er boðinn að og ná einkum til eftirfarandi þátta:
            a)     aðgangur að heimtaug,
            b)    aðgangur að heimtaug með tíðnisvið sem ekki er fyrir raddflutning, í því tilviki að um samnýttan aðgang að heimtaug sé að ræða.
    2.        Upplýsingar um staðsetningu aðgangsstaða ( 8 ), fáanleika heimtauga í tilteknum hlutum aðgangsnetsins.
    3.        Tæknileg skilyrði tengd aðgangi og notkun heimtaugar, þar með taldir tæknilegir eiginleikar samtvinnuðu víranna í heimtauginni.
    4.         Framkvæmd á pöntunum og veitingum, notkunartakmarkanir.
B.     Þjónusta vegna sameiginlegrar staðsetningar
    1.         Upplýsingar um viðeigandi staði tilkynntra rekstraraðila ( 1).
    2.         Valkostir um sameiginlega staðsetningu á stöðum sem tilgreindir eru í 1. lið (þar með talin náttúrleg staðsetning og, þar sem við á, fjarstaðsetning og sýndarstaðsetning).
    3.         Eiginleikar búnaðar: takmarkanir, ef einhverjar eru, á búnaði sem hægt er að raða niður.
    4.         Öryggisatriði: tilkynntir rekstraraðilar gera ráðstafanir til að tryggja öryggi staðsetninga sinna.
    5.         Aðgangsskilyrði fyrir starfsmenn samkeppnisrekstraraðila.
    6.         Öryggisstaðlar.
    7.         Reglur fyrir úthlutun rýmis þar sem rými fyrir sameiginlega staðsetningu er takmarkað.
    8.         Skilyrði fyrir rétthafa til að skoða staðsetningu þar sem náttúrleg staðsetning er fyrir hendi, eða staði þar sem beiðni um sameiginlega staðsetningu hefur verið hafnað vegna skorts á fjarskiptagetu.
C.     Upplýsingakerfi
    Skilyrði fyrir aðgangi að rekstrarstuðningskerfi tilkynnts rekstraraðila, upplýsingakerfi eða gagnagrunnum fyrir fyrirframpantanir, veitingum, pöntunum, beiðnum um viðhald og viðgerðir og reikningagerð.
D.     Afgreiðsluskilyrði
    1.         Frestur til að svara beiðnum um afgreiðslu á þjónustu og sérþjónustu; þjónustusamningar, gera ráðstafanir vegna bilana, aðferðir til fara aftur á venjulegt þjónustustig og færibreytur um gæði þjónustunnar.
    2.         Stöðluð samningsskilyrði, þar með talið, ef við á, bætur veittar ef afgreiðslufresturinn er ekki virtur;
    3.         Verð eða verðlagningarreglur fyrir hvert einkenni, hlutverk og sérþjónustu sem skráð er hér að ofan.



Fylgiskjal II.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 107/1999, um fjarskipti.

    Tilgangur frumvarpsins er að setja í lög að gjaldstofn vegna jöfnunarsjóðs alþjónustu skuli vera 0,12% af bókfærðri veltu fjarskiptafyrirtækja. Gjaldið hefur verið hingað til ákveðið á hverju ári með sérstökum lögum. Samkvæmt lögum um fjarskipti má skylda fjarskiptafyrirtæki til þess að veita svokallaða alþjónustu sem er skilgreind í 13. gr. Ef þjónustan felur í sér meiri tilkostnað en sem nemur tekjum getur viðkomandi fyrirtæki krafist fjárframlaga sem tryggja eðlilegt endurgjald fyrir þjónustuna. Til að standa straum af þessum greiðslum skal innheimt jöfnunargjald sem rennur til Póst- og fjarskiptastofnunar. Samkvæmt upplýsingum frá samgönguráðuneytinu er gert ráð fyrir að stofn til álagningar jöfnunargjalds verði 18–20 milljarðar kr. fyrir árið 2001. Samkvæmt því eru áætlaðar tekjur af jöfnunargjaldinu u.þ.b. 22 m.kr. á árinu 2002.
    Í frumvarpinu er jafnframt tryggður aðgangur að heimtaugum rekstrarleyfishafa með umtalsverða markaðshlutdeild. Stefnt er að því að innleiða reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 2887/2000 frá 18. desember 2000, um opinn aðgang að heimtaugum, í íslenskan rétt. Rekstrarleyfishöfum með umtalsverða markaðshlutdeild verður ótvírætt skylt að verða við öllum réttmætum og sanngjörnum beiðnum fjarskiptafyrirtækja um aðgang að heimtaugum og aðstöðu sem slíkum aðgangi tengist.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum verður ekki séð að það hafi áhrif á afkomu ríkissjóðs þar sem gert er ráð fyrir tekjum á móti gjöldum.

     1     Áliti var skilað 19. október 2000 (hefur enn ekki verið birt í Stjórnartíðindum EB).
     2     Álit Evrópuþingsins frá 26. október 2000 (hefur enn ekki verið birt í Stjórnartíðindum EB) og ákvörðun ráðsins frá 5. desember 2000.
     3     Stjtíð. EB L 199, 26.7.1997, bls. 32. Tilskipuninni var breytt með tilskipun 98/61/EB (Stjtíð. EB L 268, 3.10.1998, bls. 37).
     4     Stjtíð. EB L 101, 1.4.1998, bls. 24.
     5     Stjtíð. EB L 156, 29.6.2000, bls. 44.
     6     Stjtíð. EB C 272, 23.9.2000, bls. 55.
     7     Í tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 97/13/EB frá 10. apríl 1997 um sameiginlegan ramma fyrir almennar heimildir og rekstrarleyfi á sviði fjarskiptaþjónustu (Stjtíð. EB L 117, 7.5.1997, bls. 15).
     8     Takmarka má aðgang að þessum upplýsingum við hagsmunaaðila til að tryggja almannaöryggi.