Ferill 168. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 169  —  168. mál.
Frumvarp til lagaum póstþjónustu.

(Lagt fyrir Alþingi á 127. löggjafarþingi 2001–2002.)I. KAFLI
Gildissvið laganna og markmið.
1. gr.
Gildissvið.

    Lög þessi gilda um póstþjónustu sem felst í móttöku eða söfnun, flokkun, flutning og skil á póstsendingum gegn greiðslu og um starfsemi sem þessu tengist.

2. gr.
Markmið.

    Markmið laga um póstþjónustu er að tryggja hagkvæma og virka póstþjónustu um land allt og að allir landsmenn hafi aðgang að ákveðnum þáttum póstþjónustu.

3. gr.
Póstsendingar innan fyrirtækis og félaga.

    Póstsendingar innan fyrirtækis og félaga, þ.m.t. milli mismunandi starfsstöðva þess, falla ekki undir ákvæði laga þessara ef viðkomandi annast póstsendinguna.

II. KAFLI
Orðaskýringar.
4. gr.

     Afgreiðslustaðir: Aðstaða, þ.m.t. póstkassar fyrir almenning á opinberum stöðum eða í húsnæði rekstrarleyfishafa, þar sem viðskiptavinir geta lagt inn póstsendingar.
     Almenn heimild: Heimild til að veita póstþjónustu aðra en alþjónustu.
     Alþjónusta: Póstþjónusta sem landsmenn skulu eiga aðgang að á jafnræðisgrundvelli.
     Ábyrgðarsending: Sending sem rekstrarleyfishafi ábyrgist með fyrir fram ákveðnum skaðabótum gegn hættu á tapi, þjófnaði eða skemmdum og afhendir sendanda samkvæmt beiðni hans sönnun um viðtöku póstsendingar og afhendingu hennar árituðum viðtakanda. Afbrigði af þessari þjónustu er til í sendingum innan lands þar sem það nægir að afhenda sendinguna á tilgreindum viðtökustað gegn áritun aðila á staðnum um viðtöku.
     Blindrasending: Sending með utanáritun sem inniheldur einvörðungu upplýsingaefni fyrir blinda.
     Bréf: Skrifleg boðskipti rituð á hvers konar miðil sem senda á og afhenda á heimilisfang sem sendandi hefur gefið til kynna á bréfinu eða umbúðum þess. Ekki er litið á bækur, verðlista, dagblöð og tímarit sem bréfasendingu.
     Einkaréttarþjónusta: Póstþjónusta sem enginn má veita nema ríkið eða póstrekandi í umboði þess.
     Endastöðvagjöld: Þóknun rekstrarleyfishafa fyrir dreifingu póstsendinga erlendis frá.
    Fjármunasending: Greiðsluviðskipti með millifærslum, póstávísanir, póstkröfur og önnur fjármunaþjónusta.
     Frímerki: Tegund gjaldmerkis fyrir póstþjónustu sem er ávísun á ákveðna þjónustu. Öll frímerki skulu bera áletrunina „ÍSLAND“.
     Gjaldmerki: Merki sem er límt eða stimplað á póstsendingar eða fylgibréf þeirra sem tákn um að greitt hafi verið fyrir viðkomandi póstþjónustu.
     Grunnkröfur: Almennar ástæður, aðrar en fjárhagslegar, sem geta valdið því að yfirvöld setji skilyrði um póstþjónustu. Ástæður geta verið trúnaðareðli bréfaskipta, öryggi póstflutninga að því er varðar flutning hættulegrar vöru og þar sem réttlætanlegt er verndun gagna, verndun umhverfis og svæðisskipulag. Verndun gagna getur átt við verndun persónulegra upplýsinga, trúnaðarupplýsingar sem sendar eru og verndun einkalífs.
     Markpóstur: Fjöldasending sem samanstendur einungis af auglýsingum, markaðskynningu eða almennu kynningarefni, hver sending eins að undanteknu nafni, heimilisfangi og kennitölu móttakanda sem og öðrum breytilegum upplýsingum sem ekki breyta innihaldi skilaboðanna sem send eru umtalsverðum fjölda móttakenda á þeim stað sem sendandi hefur áritað á póstsendinguna eða umbúðir hennar. Reikningar og reikningsyfirlit og aðrar sendingar sem hver fyrir sig er mismunandi skulu ekki teljast vera markpóstur.
     Móttaka: Móttaka og söfnun póstsendinga sem lagðar eru inn á afgreiðslustöðum.
     Póstkassi: Kassi eða rifa á byggingu sem ætlaður er fyrir söfnun póstsendinga í póstþjónustu.
     Póstrekandi: Aðili sem veitir hvers kyns póstþjónustu.
     Póstsending: Sending með eða án áritunar á umbúðir sem rekstrarleyfishafi flytur hana í. Auk bréfa teljast til póstsendinga bækur, verðskrár, dagblöð, tímarit og bögglar sem innihalda varning hvort sem hann er einhvers virði eða ekki.
     Póstþjónusta: Þjónusta sem nær til móttöku og söfnunar, flokkunar, flutnings og skila á póstsendingum gegn greiðslu.
     Rekstrarleyfishafi: Aðili sem hefur leyfi til að veita alþjónustu.
     Tryggð sending: Þjónusta sem tryggir póstsendingu gegn tapi, þjófnaði eða skemmdum samkvæmt því verðgildi sem sendandi tilgreinir.
     Útburður: Starfsemi sem byrjar með sundurgreiningu pósts í póstmiðstöð og lýkur með afhendingu hans á viðtökustað.

III. KAFLI
Yfirstjórn póstmála.
5. gr.

    Samgönguráðherra fer með yfirstjórn póstmála.
    Póst- og fjarskiptastofnun veitir leyfi fyrir starfrækslu póstþjónustu og hefur eftirlit með póstmálum og framkvæmd laga þessara.

IV. KAFLI
Alþjónusta.
6. gr.

    Íslenska ríkið skal tryggja öllum landsmönnum á jafnræðisgrundvelli aðgang að ákveðnum þáttum póstþjónustu, alþjónustu, með ákveðnum gæðum og á viðráðanlegu verði. Við úthlutun rekstrarleyfa fyrir póstþjónustu, sbr. 14. gr., getur Póst- og fjarskiptastofnun lagt kvaðir á rekstrarleyfishafa, einn eða fleiri, um að þeir veiti alþjónustu á starfssvæði sínu.
    Póst- og fjarskiptastofnun skal tryggja að með alþjónustu sem rekstrarleyfishafar einn eða fleiri veita séu uppfylltar eftirfarandi kröfur:
          að boðin sé þjónusta sem uppfyllir grunnkröfur,
          að öllum notendum sem búa við sambærilegar aðstæður sé boðin eins þjónusta,
          að þjónustan sé veitt án mismununar af nokkru tagi, en sérstaklega án mismununar af stjórnmálalegum, trúarlegum eða hugmyndafræðilegum toga,
          að þjónusta verði ekki stöðvuð nema af ófyrirsjáanlegum ástæðum,
          að þjónustan þróist í takt við tækni-, hagfræði- og félagslegt umhverfi og þarfir notenda.
    Að lágmarki skal í alþjónustu vera innifalinn aðgangur að póstafgreiðslu og póstþjónustu vegna bréfa og orðsendinga með utanáskrift, annarra sendinga með utanáskrift og prentuðu innihaldi sem er að öllu leyti eins, dagblaða, vikublaða og tímarita, bóka og verðlista, ábyrgðarsendinga, tryggðra sendinga, fjármunasendinga og blindrasendinga allt að tveimur kílóum og bögglasendinga allt að tuttugu kílóum. Alþjónusta nær til bæði póstsendinga innan lands og til annarra landa. Skylt er þeim sem veita alþjónustu að afhenda innan lands póstsendingar allt að tuttugu kílóum sem berast frá útlöndum.
    Samgönguráðherra skal setja reglugerð um nánari útfærslu alþjónustu.
    Póst- og fjarskiptastofnun skal tryggja að staðið verði við skyldur ríkisins um póstþjónustu sem alþjóðlegir samningar kveða á um.

V. KAFLI
Einkaréttur ríkisins.
7. gr.
Einkaréttur á póstþjónustu.

    Íslenska ríkið hefur einkarétt á póstþjónustu vegna eftirfarandi póstsendinga:
     1.      Bréfa án tillits til innihalds allt að 250 g að þyngd svo framarlega sem burðargjaldið fyrir bréfið er minna en fimm sinnum lægsta burðargjald sem gildir fyrir venjuleg bréf innan lands. Hið sama gildir um dreifingu innan lands á bréfum frá útlöndum innan sömu takmarkana.
     2.      Ábyrgðarbréfa sem notuð eru til að koma til viðtakenda birtingu á stefnum sem og opinberum tilkynningum stjórnvalda.

8. gr.
Útgáfa frímerkja.

    Íslenska ríkið hefur einkarétt á útgáfu frímerkja. Rekstrarleyfishafi, sem falinn er einkaréttur ríkisins á þessu sviði, skal gefa út frímerki með nauðsynlegum verðgildum. Hann skal taka frá a.m.k. 500 eintök af hverju nýju frímerki. Safn þetta skal vera í vörslu rekstrarleyfishafans en í eigu íslenska ríkisins. Rekstrarleyfishafi sem falinn er einkaréttur ríkisins til útgáfu íslenskra frímerkja skal senda samsvarandi aðilum erlendis sem meðlimir eru í alþjóðapóstsambandinu nýjar útgáfur íslenskra frímerkja og annast vörslu frímerkja sem erlend ríki senda til landsins á sama hátt. Íslenska ríkið telst eigandi allra frímerkja sem erlend ríki senda hingað samkvæmt þessu.


9. gr.
Uppsetning póstkassa.

    Íslenska ríkið hefur einkarétt á uppsetningu póstkassa á almannafæri. Póst- og fjarskiptastofnun er þó heimilt að veita öðrum rekstrarleyfishöfum en falinn er einkaréttur ríkisins leyfi til uppsetningar póstkassa á almannafæri enda séu þeir greinilega merktir viðkomandi rekstrarleyfishafa.
    Póst- og fjarskiptastofnun er heimilt að setja reglur um fjölda og staðsetningu póstkassa sem rekstrarleyfishafar skulu setja upp.

10. gr.
Auðkenni.

    Íslenska ríkinu er einu heimilt að nota merkið póstlúður, með eða án stjörnu eða örva, til kynningar á póstþjónustu. Rekstrarleyfishafi sem falinn hefur verið einkaréttur ríkisins getur heimilað aðilum sem starfa í þágu hans að nota auðkennið.

11. gr.
Framsal á einkarétti ríkisins.

    Póst- og fjarskiptastofnun veitir rekstrarleyfishafa leyfi til að annast einkarétt ríkisins samkvæmt þessum kafla. Við val á rekstrarleyfishafa til þess að fara með einkarétt ríkisins skal tryggja að veitt verði fullnægjandi þjónusta um land allt.

VI. KAFLI
Heimildir til að starfrækja póstþjónustu.
12. gr.
Tegundir heimilda.

    Óheimilt er að starfrækja póstþjónustu án almennrar heimildar eða rekstrarleyfis nema þegar um er að ræða póstsendingar innan fyrirtækis, þ.m.t. milli mismunandi starfsstöðva þess.
    Póst- og fjarskiptastofnun veitir heimildir til að starfrækja póstþjónustu. Heimildir skulu vera tvenns konar, almennar heimildir og rekstrarleyfi. Almenn heimild felur í sér réttindi til að starfrækja samkvæmt ákvæðum þessara laga og samkvæmt reglum sem Póst- og fjarskiptastofnun setur póstþjónustu aðra en þá sem telst til alþjónustu, sbr. 6. gr. Almennum heimildum fylgja ekki sérréttindi. Þjónustu sem fellur undir ákvæði alþjónustu mega þeir einir veita sem Póst- og fjarskiptastofnun hefur veitt rekstrarleyfi að fenginni umsókn.
    Heimildir eru veittar einstaklingum eða lögaðilum sem staðfestu hafa innan Evrópska efnahagssvæðisins og í aðildarríkjum Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar eftir því sem samgönguráðherra ákveður með reglugerð.
    Við veitingu heimilda skal gæta jafnræðis og meðalhófs, málsmeðferð skal vera gegnsæ og byggjast á hlutlægum viðmiðum.
    Óheimilt er að framselja heimildir hvort sem þær eru í formi almennra heimilda eða rekstrarleyfa.
    Póst- og fjarskiptastofnun er heimilt að afturkalla almenna heimild eða rekstrarleyfi ef viðkomandi aðili verður gjaldþrota, leggur niður starfsemi sína eða brýtur alvarlega gegn skilmálum almennrar heimildar eða rekstrarleyfis. Í síðasttalda tilfellinu skal viðkomandi aðila send skrifleg aðvörun og gefinn kostur á að bæta úr vanrækslu sinni áður en til afturköllunar heimildar kemur.

13. gr.
Almennar heimildir.

    Aðilar sem hyggjast starfrækja póstþjónustu samkvæmt almennri heimild skulu tilkynna Póst- og fjarskiptastofnun eigi síðar en fjórum vikum fyrir opnun þjónustunnar um fyrirætlan sína. Tilkynna skal stofnuninni um það hverjir standa að starfseminni, eignarhlutfall þeirra, fjárhagsstöðu aðilans og hver sé fyrirhuguð þjónusta. Póst- og fjarskiptastofnun skal innan þriggja vikna tilkynna hlutaðeigandi aðila hvort krafist verður að sótt sé um rekstrarleyfi en að öðrum kosti skrá aðila sem póstrekanda með almenna heimild. Hefji póstrekandi að veita póstþjónustu án þess að hafa tilkynnt það Póst- og fjarskiptastofnun með tilgreindum fyrirvara er stofnuninni heimilt að stöðva starfsemina þangað til að úr hefur verið bætt.
    Póst- og fjarskiptastofnun skal halda skrá yfir póstrekendur sem starfa samkvæmt almennri heimild.

14. gr.
Rekstrarleyfi.

    Póstrekendur sem hyggjast veita alþjónustu skv. 6. gr. skulu sækja um rekstrarleyfi til Póst- og fjarskiptastofnunar. Í umsóknum skal skýrt frá því hverjir eiga aðild að umsókninni, eignarhlutföllum þeirra, fjárhagsstöðu og hver sé fyrirhuguð þjónusta og þjónustusvæði. Við leyfisveitingu er Póst- og fjarskiptastofnun heimilt að leggja á kvaðir um alþjónustu alls staðar á landinu eða afmarkaða þætti alþjónustu á tilgreindu svæði. Stofnuninni er heimilt að breyta áður útgefnu leyfisbréfi og leggja á leyfishafa breyttar kvaðir um alþjónustu.
    Rekstrarleyfi skulu vera tímabundin samkvæmt ákvörðun Póst- og fjarskiptastofnunar.

15. gr.
Skilyrði rekstrarleyfa.

    Póst- og fjarskiptastofnun setur skilyrði fyrir veitingu rekstrarleyfa skv. 14. gr. Skilyrðin skulu vera skýr og við setningu þeirra skal gæta jafnræðis meðal rekstrarleyfishafa. Skilyrði rekstrarleyfa geta verið eitt eða fleiri, þar með talið:
     a.      Að tryggt sé að almenningur hafi aðgang að alþjónustu,
     b.      að rekstrarleyfishafi taki að sér skyldur ríkisins sem fylgja einkarétti þess,
     c.      að gjaldskrá rekstrarleyfishafa fyrir alþjónustu sé háð eftirliti Póst- og fjarskiptastofnunar og að gjaldskrá rekstrarleyfishafa fyrir þjónustu sem er í einkarétti sé háð samþykki hennar,
     d.      að rekstrarleyfishafi hagi bókhaldi sínu í samræmi við 18. gr. og veiti Póst- og fjarskiptastofnun umbeðnar upplýsingar um bókhaldið og aðgang að því,
     e.      að uppfylltar séu þjónustu- og gæðakröfur, sbr. VIII. kafla,
     f.      að rekstrarleyfishafar sæti eftirliti Póst- og fjarskiptastofnunar að því er varðar fjárhagsstöðu þeirra á hverjum tíma með tilliti til hættu á rekstrarstöðvun,
     g.      að sett sé trygging fyrir greiðslu kostnaðar vegna skila á póstsendingum til viðtakenda ef til gjaldþrots eða rekstrarstöðvunar rekstrarleyfishafa kemur,
     h.      að alþjóðasamningar á sviði póstmála sem ríkið hefur gert séu virtir,
     i.      að uppfylltar séu kröfur skv. 2. mgr. 6. gr.
     j.      að greitt sé leyfisgjald og rekstrargjald í samræmi við lög um Póst- og fjarskiptastofnun og lög um aukatekjur ríkissjóðs.
    Póst- og fjarskiptastofnun getur sett skilyrði til viðbótar ef nauðsynlegt þykir. Slík skilyrði skal rökstyðja þegar þau eru sett. Breyta má skilyrðum rekstrarleyfa ef forsendur hafa breyst. Einnig má bæta við skilyrðum eða breyta til samræmis við breytingar á lögum og reglum settum samkvæmt þeim og þegar alþjóðasamningar gefa tilefni til slíks.
    Póst- og fjarskiptastofnun getur einnig gert að skilyrði að rekstrarleyfishafi, sem falin er alþjónusta, tryggi að almenningi á ákveðnum stöðum sé veittur aðgangur að póstþjónustu í samræmi við reglur um staðsetningu og fyrirkomulag afgreiðslustaða sem Póst- og fjarskiptastofnun skal setja með hliðsjón af þörfum almennings.

VII. KAFLI
Viðskiptaskilmálar, gjaldskrár og bókhald.
16. gr.
Viðskiptaskilmálar og gjaldskrá.

    Póstrekendur skulu birta opinberlega almenna viðskiptaskilmála sem um þjónustu þeirra gilda. Nýir og breyttir skilmálar skulu sendir Póst- og fjarskiptastofnun a.m.k. fimm virkum dögum fyrir gildistöku þeirra. Póst- og fjarskiptastofnun getur krafist breytinga á skilmálum ef þeir brjóta gegn lögum, reglugerðum eða ákvæðum rekstrarleyfa þegar það á við.
    Rekstrarleyfishafar skulu í skilmálum sínum setja ákvæði um eftirlit með notkun frímerkingavéla. Tekið skal fram með hvaða hætti áfylling á vélarnar fari fram og hvaða öryggisráðstafana er krafist til að koma í veg fyrir misnotkun.
    Í skilmálum fyrir alþjónustu skal skilgreina aðgengi notenda að þjónustu og gæði þjónustu.
    Gjaldskrár fyrir alþjónustu skulu taka mið af raunkostnaði við að veita þjónustuna að viðbættum hæfilegum hagnaði. Gjaldskrár skulu vera auðskiljanlegar og gæta skal jafnræðis. Póst- og fjarskiptastofnun er heimilt að krefjast þess að rekstrarleyfishafar geri grein fyrir kostnaðargrundvelli gjaldskrár þeirra. Gjöld fyrir alþjónustu skulu vera almenningi viðráðanleg og tryggja aðgang hans að þjónustunni.
    Rekstrarleyfishafi sem falinn er einkaréttur ríkisins skal gefa út sérstaka gjaldskrá fyrir þjónustu sem lýtur einkarétti. Gjaldskrána skal leggja fyrir Póst- og fjarskiptastofnun til samþykkis eigi síðar en 15 virkum dögum fyrir gildistöku.
    Póstsendingar sem ekki bera gjald samkvæmt alþjóðasamningum skulu einnig vera gjaldfrjálsar innan lands.

17. gr.
Gjöld fyrir alþjónustu milli landa.

    Við gerð samninga um endastöðvagjöld fyrir póstsendingar milli landa sem falla undir alþjónustu skulu rekstrarleyfishafar hafa til viðmiðunar eftirtaldar grundvallarreglur:
          Endastöðvagjöld skulu taka mið af kostnaði við póstmeðferð, þ.m.t. útburð.
          Upphæð gjalda skal vera í samræmi við gæði þjónustu.
          Endastöðvagjöld skulu vera gegnsæ og gætt skal jafnræðis.

18. gr.
Fyrirkomulag bókhalds.

    Rekstrarleyfishafar skulu í bókhaldi greina kostnað og tekjur vegna alþjónustu frá annarri þjónustu. Rekstrarleyfishafi, sem falinn er einkaréttur ríkisins, sbr. 11. gr., skal í bókhaldi sínu aðgreina annars vegar tekjur og kostnað fyrir sérhverja tegund þjónustu sem fellur undir einkaréttinn og hins vegar aðra alþjónustu. Póstrekendur sem stunda einnig leyfisskylda starfsemi á öðru sviði skulu greina kostnað og tekjur vegna póststarfsemi sinnar frá öðrum kostnaði og tekjum.
    Samgönguráðherra skal setja reglugerð um bókhald póstrekenda, sundurgreiningu kostnaðar og fjárhagslegan aðskilnað milli póstþjónustu og annars reksturs og milli einkaréttarþjónustu, alþjónustu og annarrar þjónustu.
    Póst- og fjarskiptastofnun skal tryggja að bókhald rekstrarleyfishafa samræmist reglugerðinni og skal það staðfest opinberlega.

19. gr.
Gerð og birting ársreikninga.

    Ársreikningar rekstrarleyfishafa skulu gerðir í samræmi við lög um bókhald og lög um ársreikninga og birtir opinberlega.

VIII. KAFLI
Kröfur um þjónustu og gæði.
20. gr.
Móttaka pósts.

    Póst- og fjarskiptastofnun skal tryggja að móttöku- og söfnunarstaðir fyrir póst sem fellur undir alþjónustu verði tæmdir a.m.k. einu sinni hvern virkan dag.

21. gr.
Útburður pósts.

    Póst- og fjarskiptastofnun skal tryggja að alls staðar á landinu sé alla virka daga borinn út póstur sem fellur undir skilgreiningu á alþjónustu nema kringumstæður og landfræðilegar aðstæður hindri slíkt.

22. gr.
Gæðakröfur.

    Póst- og fjarskiptastofnun skal að því er varðar alþjónustu setja kröfur um gæði. Í slíkum reglum skal m.a. kveða á um hver skuli vera lengstur tími frá móttöku pósts til útburðar hans miðað við ákveðinn hundraðshluta, lágmarksopnunartíma póstafgreiðslustaða, fjölda tæminga póstkassa á dag, hámarkstíma frá því að póstur berst til landsins þangað til hann er borinn út og hámarkstíma frá móttöku pósts til útlanda þangað til hann er afhentur flutningsaðila.
    Gæðakröfur vegna póstsendinga milli landa innan Evrópska efnahagssvæðisins skulu vera í samræmi við ákvæði viðauka með þessum lögum. Gæðakröfur fyrir póstþjónustu innan lands skulu taka mið af fyrrnefndum gæðakröfum fyrir sendingar milli landa. Póst- og fjarskiptastofnun getur veitt undanþágu frá gæðakröfum í einstökum tilfellum vegna landfræðilegra aðstæðna eða vegna dreifingarnets rekstrarleyfishafa.
    Póst- og fjarskiptastofnun skal hafa eftirlit með því að gæðakröfur séu virtar. Stofnunin skal árlega gera könnun á gæðum alþjónustu og birta skýrslu um niðurstöður hennar.

23. gr.
Tæknistaðlar.

    Rekstrarleyfishafar skulu hafa að leiðarljósi tæknistaðla um póstmál sem staðfestir eru af Staðlaráði Íslands. Heimilt er að áskilja hið sama um staðla sem birtir eru í Stjórnartíðindum ESB, einkum þegar efni þeirra fellur undir ákvæði 22. gr.

24. gr.
Öryggi póstsendinga.

    Póstrekendur skulu tryggja örugga meðferð allra póstsendinga. Þegar um er að ræða ábyrgðarsendingar og tryggðar sendingar skulu póstrekendur gera sérstakar ráðstafanir til þess að geyma þær á öruggum stað meðan þær eru í vörslu þeirra og verktaka þeirra. Póst- og fjarskiptastofnun skal setja reglur um öryggismál á póstafgreiðslum.

IX. KAFLI
Póstflutningar.
25. gr.
Skylda til að flytja póstsendingar.

    Hver sá sem heldur uppi reglubundnum flutningum innan lands eða til útlanda er skyldugur til, ef þess er óskað, að flytja póstsendingar rekstrarleyfishafa milli staða enda komi eðlileg greiðsla fyrir. Slíkar póstsendingar skulu njóta forgangs fram yfir annan vöruflutning.

26. gr.
Öryggi í flutningum.

    Flutningsaðilar sem annast póstflutninga skulu tryggja örugga meðferð pósts.

X. KAFLI
Jöfnunarsjóður alþjónustu.
27. gr.
Umsóknir um fjárframlög.

    Telji rekstrarleyfishafi að alþjónusta sem honum er gert skylt að veita samkvæmt rekstrarleyfi, sbr. 14. og 15. gr., sé rekin með tapi eða sé óarðbær, getur hann farið þess á leit að honum verði með fjárframlögum tryggt eðlilegt endurgjald fyrir þá þjónustu sem hér um ræðir. Umsóknir um framlög skulu sendar Póst- og fjarskiptastofnun. Rekstrarleyfishafi, sem falinn hefur verið einkaréttur ríkisins, á ekki rétt á fjárframlagi þó að hluti alþjónustu hans eða alþjónustan öll sé rekin með tapi.
    Við móttöku umsóknar um fjárframlag skal Póst- og fjarskiptastofnun kanna hvort þjónustan falli innan ramma 6. gr. og ef svo er hvort hún verði tryggð með öðrum hagkvæmari hætti. Ef það er niðurstaða Póst- og fjarskiptastofnunar að þjónustan verði ekki aflögð, ef mæta á markmiðum 2. gr., og ekki reynist mögulegt að veita þjónustuna á hagkvæmari hátt skal stofnunin tryggja rekstrarleyfishafa fjárframlög úr jöfnunarsjóði alþjónustu. Póst- og fjarskiptastofnun er heimilt að fylgjast með notkun fjárframlaga.
    Með umsókn rekstrarleyfishafa um fjárframlög til alþjónustu skulu fylgja nákvæmar upplýsingar um það hvert sé heildarrekstrartap af alþjónustu rekstrarleyfishafa á viðkomandi svæði og hvernig tapið sundurliðast. Sem hluta af vinnslu umsóknar getur Póst- og fjarskiptastofnun krafist þess að fá sundurliðaðar upplýsingar um heildartekjur og kostnað umsækjanda af alþjónustu. Einnig getur stofnunin krafist skýrslna löggiltra endurskoðenda eða falið slíkum aðila að gera úttekt á rekstrarafkomu umsækjanda á viðkomandi rekstrarsviði. Póst- og fjarskiptastofnun getur enn fremur krafist aðgangs að bókhaldi rekstrarleyfishafa við mat á fjárframlögum og eftirliti með því hvernig framlögum er varið. Í lok hvers árs skal rekstrarleyfishafi sem hlotið hefur framlag úr jöfnunarsjóði gera Póst- og fjarskiptastofnun grein fyrir ráðstöfun fjárframlagsins.
    Þegar hluti af starfsemi rekstrarleyfishafa er háður fjárframlögum úr jöfnunarsjóði getur Póst- og fjarskiptastofnun krafist þess að sá þáttur starfseminnar sé bókhaldslega aðskilinn frá annarri starfsemi rekstrarleyfishafa.
    Fjárframlög eru veitt til eins árs í senn og skal endurnýja umsóknir um fjárframlög fyrir settan tíma. Samgönguráðherra setur nánari reglur um umsóknir um fjárframlög úr jöfnunarsjóði og afgreiðslu þeirra í reglugerð um alþjónustu, sbr. 6. gr.

28. gr.
Jöfnunargjald.

    Til að standa straum af greiðslu fjárframlaga samkvæmt þessum kafla skal innheimta jöfnunargjald sem rennur í jöfnunarsjóð í vörslu Póst- og fjarskiptastofnunar.
    Jöfnunargjaldið skal innheimt af rekstrarleyfishöfum í hlutfalli við bókfærða veltu þeirra á sviði alþjónustu. Með bókfærðri veltu er átt við heildarrekstrartekjur sem viðkomandi rekstrarleyfishafi hefur af póststarfsemi sem fellur undir ákvæði um alþjónustu.
    Jöfnunargjald skal ákveðið árlega með lögum. Á grundvelli fenginna umsókna skal Póst- og fjarskiptastofnun áætla hlutfallstölu jöfnunargjalds þannig að fyrirsjáanlegum fjárþörfum jöfnunarsjóðs verði mætt.
    Um álagningu og innheimtu jöfnunargjalds fer samkvæmt ákvæðum VIII.–XIV. kafla laga nr. 75/1981, um tekju- og eignarskatt, með síðari breytingum, eftir því sem við á og skulu innheimtuaðilar standa jöfnunarsjóði Póst- og fjarskiptastofnunar skil á innheimtum gjöldum mánaðarlega.
    Jöfnunargjald má draga frá tekjum greiðanda á því rekstrarári þegar stofn þess myndaðist.

XI. KAFLI
Samningar um sértæka póstþjónustu.
29. gr.
Sértæk póstþjónusta.

    Óski samgönguráðherra eftir að lagt sé í framkvæmdir eða sértæka póstþjónustu sem ekki fellur undir alþjónustu en er til almenningsheilla, í öryggisskyni, af umhverfisástæðum eða samkvæmt byggðasjónarmiðum, og ætla má að skili ekki arði skal Póst- og fjarskiptastofnun falið að gera samninga þessu viðkomandi við póstrekanda í kjölfar útboðs.

30. gr.
Fjármögnun sértækrar póstþjónustu.

    Kostnaður vegna sértækra framkvæmda eða póstþjónustu skv. 29. gr. skal að jafnaði greiddur úr ríkissjóði eftir því sem kveðið er á um í fjárlögum.

XII. KAFLI
Reglur um póstmeðferð.
31. gr.
Móttaka og afhending póstsendinga.

    Póstrekendum er heimilt að setja í skilmála ákvæði um frágang póstsendinga sem þeir taka á móti. Skilmálarnir skulu vera skýrir og gætt skal jafnræðis. Póstrekendur skulu við móttöku ganga úr skugga um að frágangur sendingar sé með þeim hætti að hægt verði að koma sendingunni til skila til viðtakanda.
    Á póstsendingar sem falla undir alþjónustu skal setja gjaldmerki sem ber með sér hvert sé gjald fyrir póstsendinguna. Gjaldmerki getur verið í formi frímerkis sem gildir sem ávísun á póstþjónustu og skal sýna verðmæti frímerkisins. Póst- og fjarskiptastofnun getur þegar sérstaklega stendur á heimilað að notuð verði, tímabundið, frímerki með áletrun um þyngdarflokk bréfa í stað verðgildis. Frímerki sem hefur verið dagstimplað hættir að vera ávísun á nýja þjónustu. Gjaldmerki getur einnig verið í formi ástimplunar á póstsendingu eða fylgibréf hennar með frímerkingavél notanda eða annarri ástimplun af hálfu rekstrarleyfishafa. Í stað ástimplunar á póstsendingu má nota ástimplað gjaldmerki. Gjaldmerki önnur en frímerki skulu bera heiti viðkomandi rekstrarleyfishafa eða númer sem Póst- og fjarskiptastofnun úthlutar honum. Póstrekendum er heimilt að taka við fjöldasendingum án þess að gjaldmerki fylgi hverri sendingu svo framarlega sem póstsendingarnar verða merktar sérstaklega og dagstimplaðar.
    Allar póstsendingar í alþjónustu skulu dagstimplaðar eins fljótt og hagkvæmlega verður við komið eftir móttöku þeirra. Ef notaðar eru frímerkingavélar til ástimplunar burðargjalds má nota þær til að dagstimpla samtímis póstsendingar enda fari dagsetningin saman við afhendingardag póstsendingarinnar til rekstrarleyfishafa. Dagstimpill getur einnig verið hluti gjaldmerkis sem rekstrarleyfishafi setur samkvæmt ósk sendanda á póstsendingu eftir móttöku.
    Póstsendingum skal dreift til eða afhent þeim aðila sem hún er stíluð á eða hefur umboð til viðtöku hennar, í bréfakassa eða pósthólf viðtakanda eða þangað sem utanáskrift segir að öðru leyti til um. Póstrekendum er heimilt að endursenda póstsendingar ef bréfarifur og bréfakassar viðtakanda eru ekki í samræmi við ákvæði byggingarreglugerðar.
    Póstsending telst vera í vörslu póstrekanda og á ábyrgð hans frá móttöku og þar til að hún hefur verið afhent á tilgreindum viðtökustað.
    Sendandi telst eigandi póstsendingar sem hann hefur afhent póstrekanda þar til hún hefur verið afhent viðtakanda. Sendandi hefur jafnframt ráðstöfunarrétt yfir sendingunni og er heimilt að gefa póstrekanda ný fyrirmæli um póstmeðferð þar til hún hefur verið afhent tilgreindum viðtakanda. Póstrekanda er heimilt að innheimta aukagjald vegna kostnaðar sem hlýst af nýjum fyrirmælum.

32. gr.
Vanskilasendingar.

    Póstrekendur skulu gera allar eðlilegar ráðstafanir til að koma póstsendingum til skráðra viðtakenda. Póstsendingar sem ekki tekst að koma til skila vegna rangs eða ónógs heimilisfangs eða vegna þess að skráður viðtakandi hefur flust búferlum til annars lands skal póstrekandi endursenda til sendanda.
    Póstrekendum er heimilt að endursenda til sendanda póstsendingar sem póstlagðar eru án þess að burðargjald hafi verið innt af hendi eða ef um vangreiðslu er að ræða.
    Þegar póstsending í óskilum er ekki merkt sendanda og ekki er hægt að endursenda hana er póstrekanda heimilt að opna póstsendinguna að viðstöddum fulltrúa Póst- og fjarskiptastofnunar.
    Póstsendingar sem fyrir mistök komast í hendur annars póstrekanda en ætlað var að flytja sendinguna skulu tafarlaust sendar réttum póstrekanda.

33. gr.
Óheimilar póstsendingar.

    Óheimilt er að afhenda póstrekanda sendingar með innihaldi sem er ólögmætt, ósæmilegt eða móðgandi fyrir móttakanda.
    Í reglugerð sem samgönguráðherra setur um framkvæmd póstþjónustu, sbr. 35. gr., skulu vera reglur um hvað telst vera ólögmætt innihald póstsendinga. Póst- og fjarskiptastofnun skal með hliðsjón af reglugerðinni semja lista yfir ólögmætt innihald póstsendinga og skulu póstrekendur kynna starfsfólki sínu listann og hafa hann til reiðu á afgreiðslustöðum.
    Póst- og fjarskiptastofnun skal tilkynna Alþjóðapóstsambandinu listann yfir ólögmætt innihald. Sömuleiðis skal Póst- og fjarskiptastofnun tryggja að listar yfir innihald sem telst vera ólögmætt í öðrum löndum séu aðgengilegir hjá rekstrarleyfishöfum.
    Póstsendingar, aðrar en ábyrgðarsendingar og tryggðar sendingar, mega ekki innihalda peningaseðla, mynt eða neins konar verðskjöl á handhafa, dýra málma, skartgripi eða hliðstæð verðmæti.

34. gr.
Umbúðir póstsendinga.

    Ganga skal tryggilega frá póstsendingum sem afhentar eru póstrekendum í umbúðum. Póstrekendur geta hafnað því að veita póstsendingum móttöku ef hætta er talin á því að umbúðir muni skemmast í höndum póstrekandans. Móttaka póstsendinga í alþjónustu með innihaldi sem getur valdið skaða, smiti eða veikindum er skilyrt því að rétt sé búið um sendinguna og hún merkt í samræmi við innihald. Dæmi um slíkt innihald eru lífræn, auðskemmd efni, smitefni og geislavirk efni. Í reglugerð sem samgönguráðherra setur um framkvæmd póstþjónustu, sbr. 35. gr., skulu vera reglur um frágang, umbúðir og merkingu slíkra sendinga. Rekstrarleyfishafar skulu framvísa reglunum á afgreiðslustöðum að ósk notenda og kynna starfsmönnum sínum þær. Póst- og fjarskiptastofnun skal upplýsa erlendar eftirlitsstofnanir um reglurnar og skal safna upplýsingum um reglur sem gilda í nágrannalöndunum um samsvarandi hluti.

35. gr.
Nánari reglur um framkvæmd póstþjónustu.

    Nánari reglur um framkvæmd póstþjónustu, svo sem um minnstu og stærstu mál póstsendinga, skal samgönguráðherra setja í reglugerð um alþjónustu.

XIII. KAFLI
Upplýsingaskylda póstrekenda.
36. gr.
Upplýsingar um rekstur.

    Póstrekendum er skylt að afhenda Póst- og fjarskiptastofnun innan hæfilegs frests sem hún ákveður tölfræðilegar upplýsingar um starfsemi sína, þ.m.t. heildartölur um fjölda póstlagðra sendinga í mismunandi þjónustu- og þyngdarflokkum, tölur um afgreiðslumagn einstakra afgreiðslustaða, upplýsingar um dreifingu á mismunandi stöðum o.fl.
    Rekstrarleyfishafar skulu veita Póst- og fjarskiptastofnun upplýsingar um rekstur sinn og fjárhag svo að stofnunin geti haft eftirlit með gjaldskrá þeirra. Rekstrarleyfishafi sem fer með einkarétt ríkisins skal leggja fyrir Póst- og fjarskiptastofnun sundurliðaðar upplýsingar um rekstur og fjárhag sem nauðsynlegar eru að mati Póst- og fjarskiptastofnunar við endurskoðun á gjaldskrá hans. Póst- og fjarskiptastofnun eða löggiltum endurskoðanda í umboði hennar skal hvenær sem er og án fyrirvara heimilaður aðgangur að bókhaldi rekstrarleyfishafa í þeim tilgangi að sannreyna að aðgreining kostnaðar fari rétt fram og til að kanna hver sé kostnaður við alþjónustu.
    Rekstrarleyfishafar skulu láta Póst- og fjarskiptastofnun í té upplýsingar um gæði alþjónustu, sbr. 22. gr. Póst- og fjarskiptastofnun skal vera heimilt að birta slíkar upplýsingar í úttekt sinni.

XIV. KAFLI
Skaðabætur.
37. gr.
Bætur vegna seinkana.

    Póstrekendum er ekki skylt að greiða skaðabætur þó að póstsendingum seinki.

38. gr.
Almennar sendingar.

    Póstrekendum er ekki skylt að greiða skaðabætur fyrir almennar sendingar sem glatast, hvort sem þær glatast að öllu eða einhverju leyti.

39. gr.
Ábyrgðarsendingar og bögglar.

    Sendandi ábyrgðarsendinga og böggla skal eiga rétt á skaðabótum fyrir slíkar sendingar sem glatast eða eyðileggjast að einhverju eða öllu leyti í vörslu póstrekenda. Skaðabætur skulu miðast við verðmæti sendinganna. Póst- og fjarskiptastofnun skal setja reglur um hámark ábyrgðar sem póstrekendum ber að taka á sig í þessu sambandi.

40. gr.
Tryggðar sendingar.

    Sendandi tryggðrar sendingar sem glatast eða eyðileggst að einhverju leyti í vörslu póstrekenda skal eiga rétt á skaðabótum jafnháum þeirri tryggingarupphæð sem tilgreind hefur verið við afhendingu sendingarinnar.

41. gr.
Fjármunasendingar.

    Póstrekandi ber fulla ábyrgð á því fé sem hann hefur tekið við sem fjármunasendingu og skal standa sendanda full skil á verðmæti slíkrar sendingar glatist hún.

42. gr.
Óbeint tjón.

    Skaðabótaskylda skv. 39.–41. gr. nær aðeins til verðmætis þess hlutar sem glatast hefur eða rýrnunar sem stafar af skemmdum á sendingunni hjá póstrekanda. Ekki er skylt að bæta fyrir ábata- eða afnotamissi, tjón vegna rýrnunar á verðgildi peninga eða verðbréfa eða aðrar óbeinar afleiðingar skaðans.

43. gr.
Póstsendingar milli landa.

    Um skaðabætur fyrir póstsendingar milli landa skal farið eftir gildandi milliríkjasamningum. Glatist sending eða hún bíður tjón hjá póstrekanda á íslensku landsvæði greiðast þó skaðabætur eins og um innlenda sendingu sé að ræða enda sé það hagstæðara fyrir tjónþola.

44. gr.
Sérstök tilvik.

    Póst- og fjarskiptastofnun getur í sérstökum tilvikum mælt fyrir um að póstrekandi skuli þrátt fyrir ábyrgðartakmarkanir greiða skaðabætur fyrir póstsendingar ef tjónið stafar af ásetningi eða stórfelldu gáleysi póstrekanda eða starfsmanna hans eða ef tjónið er slíkt og aðstæður allar þess eðlis að ákvæði þessa kafla þykja ekki eiga við.

45. gr.
Fyrning skaðabótakröfu.

    Skylda til greiðslu skaðabóta fellur niður sé þeirra ekki krafist innan sex mánaða frá því að viðkomandi póstsending var afhent til flutnings.

XV. KAFLI
Póstleynd og undanþágur.
46. gr.
Póstleynd og íhlutun starfsmanna.

    Einungis má veita upplýsingar um póstsendingar og notkun póstþjónustu að undangengnum dómsúrskurði eða samkvæmt heimild í öðrum lögum.
    Öllum sem starfa við póstþjónustu er óheimilt að gefa óviðkomandi aðilum upplýsingar um póstsendingar eða gefa öðrum tækifæri til þess að verða sér úti um slíka vitneskju. Enn fremur er þeim óheimilt að opna eða lesa það sem afhent er til póstsendingar. Þagnarskyldan helst þótt látið sé af starfi.

47. gr.
Undanþágur.

    Þrátt fyrir ákvæði 46. gr. er heimilt að opna án dómsúrskurðar þær póstsendingar sem ekki er unnt að koma til skila til þess að freista þess að komast að því hverjir sendendur eru svo að unnt sé að endursenda þær, enda sé það gert í viðurvist fulltrúa Póst- og fjarskiptastofnunar, sbr. 32. gr. Enn fremur er heimilt að leyfa að sendingar séu opnaðar þegar það er óhjákvæmilegt vegna flutnings þeirra eða til að kanna hugsanlegar skemmdir á innihaldi. Hið sama á við þegar rökstuddur grunur leikur á um að ekki hafi verið forsvaranlega búið um sendinguna vegna innihalds hennar eða að sending innihaldi hluti sem hættulegt getur verið að senda. Póstrekandi skal halda skrá yfir póstsendingar sem eru opnaðar án dómsúrskurðar og án viðurvistar fulltrúa Póst- og fjarskiptastofnunar.
    Böggla sem fluttir eru til landsins frá útlöndum má opna ef nauðsynlegt er vegna ákvörðunar aðflutningsgjalda. Aðrar lokaðar póstsendingar má ekki opna vegna ákvörðunar aðflutningsgjalda nema í viðurvist viðtakanda.
    Póstsendingar til einstaklinga sem úrskurðaðir hafa verið gjaldþrota má afhenda skiptastjórum eftir beiðni þeirra, enda beri þær með sér að varða fjárhagsmálefni þrotamanns. Sendingar til látinna manna skal á sama hátt afhenda skiptastjóra þegar um opinber skipti er að ræða. Þegar um einkaskipti er að ræða skulu allar póstsendingar afhentar forráðamanni dánarbús nema þær beri með sér að vera einkabréf. Skal sending þá endursend með viðeigandi skýringu áritaðri á sendinguna sjálfa.

48. gr.
Ólögmæt háttsemi.

    Starfsmönnum við póstþjónustu er óheimilt að rífa upp, ónýta eða skjóta undan póstsendingum, eða ónýta, aflaga eða skjóta undan skeytum sem veitt hefur verið móttaka til útburðar.

49. gr.
Skylda að upplýsa starfsfólk.

    Póstrekendur skulu kynna starfsfólki sínu og verktökum sem vinna við póstþjónustu ákvæði þessa kafla.

XVI. KAFLI
Milliríkjasamningar.
50. gr.
Póstþjónusta við önnur lönd.

    Ákvæði laga þessara gilda einnig um póstþjónustu við önnur lönd að svo miklu leyti sem þau brjóta ekki í bága við milliríkjasamninga um póstþjónustu.

51. gr.
Þátttaka rekstrarleyfishafa í alþjóðlegu samstarfi.

    Póst- og fjarskiptastofnun getur mælt fyrir um að rekstrarleyfishafar skuli taka þátt í samstarfi sem leiðir af alþjóðlegum skuldbindingum á sviði póstmála.

XVII. KAFLI
Viðurlög.
52. gr.
Viðurlög við brotum.

    Brot á lögum þessum varða sektum, en fangelsi allt að sex mánuðum ef sakir eru miklar. Gáleysisbrot skulu varða sektum.
    Brot gegn XV. kafla laganna, um póstleynd og ólögmæta háttsemi, varða sektum eða fangelsi eins og mælt er fyrir um í 1. mgr. Sé brotið framið í ávinningsskyni, hvort sem er í eigin þágu eða annarra, má refsa með fangelsi allt að þremur árum.

XVIII. KAFLI
Ýmis ákvæði.
53. gr.
Reglugerðir.

    Samgönguráðherra getur sett í reglugerð nánari fyrirmæli um framkvæmd laganna.

54. gr.
Gildistaka.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2002.
    Jafnframt falla úr gildi lög um póstþjónustu, nr. 142/1996, með síðari breytingum.VIÐAUKI

Gæðakröfur vegna póstsendinga milli landa innan Evrópska efnahagssvæðisins.


    Gæðakröfur fyrir póstsendingar milli landa innan Evrópska efnahagssvæðisins skulu í hverju landi settar um lengsta tíma fyrir póstmeðferð frá móttökustað til afhendingarstaðar og skal hann mældur fyrir póstsendingar sem eru í hraðasta flokki samkvæmt jöfnunni D+n þar sem D merkir móttökudag og n fjölda virkra daga sem líða milli móttökudags og afhendingar sendingarinnar til hins áritaða móttakanda.
    Móttökudagur skal teljast sá dagur þegar póstsendingin er lögð inn svo framarlega sem það á sér stað fyrir þann tíma sem tilkynnt hefur verið að síðasta söfnun pósts á þeim móttökustað sem um ræðir eigi sér stað. Þegar sending er lögð inn eftir þennan tíma skal móttökudagur teljast næsti söfnunardagur.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


1. Inngangur.
    Frumvarp þetta er samið af starfshópi sem í sátu fulltrúar frá samgönguráðuneytinu og Póst- og fjarskiptastofnun. Sami starfshópur lagði fyrir ráðherra í desember 2000 álitsgerð vegna nýrra póstlaga. Í álitsgerðinni var bryddað upp á nokkrum álitamálum í sambandi við nýja löggjöf um póstþjónustu, m.a. um viðhald eða afnám einkaréttar, um skyldur ríkisins, um jöfnunarsjóð eða framlag úr ríkissjóði vegna þjónustu í dreifbýli, um sérstök gjöld fyrir blöð og um póstgíró og fjármunasendingar.
    Gildandi lög um póstþjónustu eru að stofni til frá því í desember 1996, lög nr. 142/1996 (lögin tóku gildi 1. janúar 1997). Breytingar voru gerðar á þeim með lögum nr. 72/1998, vegna ákvæða í tilskipun ESB (tilskipun 97/67/EB um sameiginlegar reglur um þróun póstþjónustu Evrópusambandsins og aukin gæði póstþjónustunnar) er varðar einkarétt til póstmeðferðar en þessi tilskipun var samþykkt af ráðherraráði ESB eftir að Alþingi samþykkti lögin í desember 1996.
    Markmið þessa frumvarps til laga um póstþjónustu er í fyrsta lagi að kveða skýrar á um rétt landsmanna til lágmarkspóstþjónustu með því að taka upp hugtakið alþjónusta í stað hugtaksins grunnpóstþjónusta en það hugtak er notað í núgildandi lögum. Tilskipun ESB sem áður er minnst á og tekið hefur gildi á EES-svæðinu byggist ekki á grunnpóstþjónustu en skilgreinir aftur á móti alþjónustu sem ríkisvaldið felur póstrekstrarleyfishafa að starfrækja í þágu landsmanna. Aðaláhrif þessara breytinga eru að í stað þess að lögin skuldbindi íslenska ríkið til að tryggja landsmönnum reglulega grunnpóstþjónustu veitir ríkið samkvæmt frumvarpinu rekstrarleyfi fyrir alþjónustu með ákveðnum skyldum sem tryggja eiga landsmönnum jafnan aðgang að póstþjónustu. Í öðru lagi eru sett inn skýrari ákvæði um heimildir sem veittar eru til að starfrækja póstþjónustu. Gert er ráð fyrir tvenns konar heimildum, almennri heimild sem táknar skráningu póstrekanda eftir tilkynningu hans til Póst- og fjarskiptastofnunarinnar og rekstrarleyfi sem þarf til að veita alþjónustu. Í þriðja lagi eru tekin inn ákvæði varðandi kröfur um gæði póstþjónustunnar. Að lokum er í fjórða lagi kveðið skýrar á um jöfnunarsjóð alþjónustu. Lagt er til að jöfnunarsjóður verði sérstakur sjóður í vörslu Póst- og fjarskiptastofnunar en ekki hluti af fjárhag stofnunarinnar eins og gildir fyrir fjarskipti.
    Frumvarpið gerir ráð fyrir að einkaréttur ríkisins haldist að mestu leyti í sama horfi og í gildandi lögum. Þessi ákvörðun byggist m.a. á því að enn er óráðið hvaða breytingar verði gerðar á ákvæðum tilskipunar ESB um póstsendingar í einkarétti en umræðu um þetta er ekki lokið, sbr. 2. kafla athugasemda þessara um þróun póstmála í Evrópu.
    Rétt er að geta þess að ákvæði gildandi laga sem heimila Póst- og fjarskiptastofnun að veita íþróttafélögum, skátafélögum, hjálparsveitum og öðrum sambærilegum aðilum að annast póstþjónustu er ekki að finna í frumvarpinu. Vakin er athygli á því að með frumvarpinu er þeim sem óska eftir að skrá sig sem póstrekendur á sviði annarrar póstþjónustu en alþjónustu gert auðvelt að skrá sig sem póstrekanda með almennri heimild, en á hinn bóginn verður að telja að með hliðsjón af ítarlegum kröfum sem gerðar eru til rekstrarleyfishafa sem annast alþjónustu sé varasamt að veita áhugamönnum leyfi til að veita póstþjónustu sem telst til alþjónustu. Því má bæta við að frá samþykkt þessa ákvæðis á Alþingi 2. júní 1998 hefur engin umsókn um slíka heimild borist Póst- og fjarskiptastofnun, frá íþróttafélögum eða öðrum.
    Í 6. gr. er tekið fram að póstsendingar með dagblöðum, vikublöðum og tímaritum falli undir ákvæði um alþjónustu. Í 16. gr. segir að gjaldskrár fyrir alþjónustu skuli taka mið af raunkostnaði við að veita þjónustuna að viðbættum hagnaði og er Póst- og fjarskiptastofnun heimilt að krefjast þess að rekstrarleyfishafar geri grein fyrir þeim kostnaðargrundvelli sem gjaldskrá byggist á. Með hliðsjón af þessum ákvæðum þykir ekki viðeigandi né nauðsynlegt að samgönguráðherra sé gert heimilt að mæla fyrir um að einkaréttarhafar annist póstmeðferð fyrrgreindra póstsendinga samkvæmt sérstakri gjaldskrá, lægri en fyrir aðrar sambærilegar sendingar, sbr. 14. gr. gildandi laga. Í seinni málsgrein þeirrar greinar segir að Póst- og fjarskiptastofnun beri að bæta einkaréttarhafa upp mismun á burðargjaldi en sá ljóður er á að ekki er þess getið hver skuli vera tekjustofn stofnunarinnar til að mæta slíkum útgjöldum. Niðurgreiðsla á umræddum sendingum sem fengin er með álagi á aðrar tegundir alþjónustusendinga verður að teljast óeðlileg. Þessu til frekari stuðnings er bent á að samgönguráðherra hefur hingað til ekki talið nauðsynlegt að beita ákvæði gildandi laga.

2. Þróun póstmála í Evrópu.
    Í frumvarpi til póstlaga sem lagt var fyrir Alþingi á 121. löggjafarþingi á árinu 1996, og sem varð að lögum nr. 142/1996 var í athugasemdum fjallað ítarlega um tillögur að tilskipun um sameiginlegar reglur um þróun póstþjónustu Evrópusambandsins og bætt gæði póstþjónustunnar í Evrópu og vísast til þess. Þessar tillögur voru samþykktar og gefnar út í desember 1997 sem tilskipun 97/67/ESB.
    Í tilskipuninni eru sett þau markmið að ráðherraráðið og Evrópuþingið skuli vera búin að endurskoða umrædda tilskipun með frekari opnun póstmarkaðarins í huga fyrir 1. janúar 2000. Þetta markmið sambandsins náðist ekki. Hreyfing komst fyrst á málið á fundi leiðtoga sambandsins sem haldinn var í Lissabon í mars 2000 þar sem samþykkt var að beina því til framkvæmdastjórnarinnar að hraða endurskoðun tilskipunarinnar frá desember 1997.
    Það var ekki fyrr en 30. maí 2000 sem tillögur framkvæmdastjórnarinnar litu dagsins ljós. Samkvæmt þeim er það lagt fyrir ríki sambandsins að eigi síðar en 1. janúar 2003 skuli þau vera búin að færa þyngdarmörk einkaréttar fyrir almenn bréf með utanáskrift og markpóst (direct mail) úr 350 g í 50 g og að fimm sinnum lægsta burðargjald venjulegs bréfs innan lands í gildandi tilskipun verði 2,5 sinnum lægsta burðargjald. Einnig er lagt til að opnað verði alveg fyrir samkeppni fyrir póst til annarra ríkja sambandsins (outward cross-border) og fyrir hraðpóst.
    Þessar tillögur um opnun póstmarkaðarins í Evrópu mundu hafa þau áhrif að um 20% af markaðnum opnuðust fyrir samkeppni næðu þær fram að ganga í stað 3% opnunar samkvæmt gildandi tilskipun. Það er hins vegar óljóst hver verða afdrif tillögunnar sem hefur sætt gagnrýni frá sumum stærstu aðildarríkjum Evrópusambandsins en önnur lönd styðja tillöguna.
    Um miðjan desember 2000 samþykkti Evrópuþingið með miklum meiri hluta atkvæða tillögu þess efnis að ríkjum Evrópusambandsins yrði heimilt að viðhalda einkarétti bréfa og annarra póstsendinga allt að 150 g að þyngd. Þetta gildir um allar tegundir póstsendinga. Málið er með þessu komið til ráðherraráðs ESB.
    Fjarskiptanefnd ráðherraráðsins (Telecommunications Council) fundaði um þessa samþykkt þingsins í desember 2000. Frakkar sem voru í forsæti á fundinum lögðu fram málamiðlunartillögu sem eins og í samþykkt þingsins innihélt ákvæði um að þyngdamörkin yrðu færð niður í 150 g og að frekari opnun markaðarins byggðist á útspili framkvæmdastjórnarinnar frá því í maí 2000. Ekki tókst að ná fram sameiginlegri niðurstöðu og virðist sem landfræðilegur ágreiningur ríki um tillögurnar. Norður-Evrópuríkin geta fallist á opnun póstmarkaðarins en Suður-Evrópuríkin vilja óbreytt ástand eða vilja fara sér hægt í þessum málum. Bretar og Írar standa þarna á milli.
    Svíþjóð tók við formennsku í Evrópusambandinu 1. janúar 2001 og tókst þeim ekki að ná samstöðu um breytingar á pósttilskipuninni á formennskutíma sínum sem rann út 30. júní 2001.
    Belgar tóku síðan við forsæti af Svíum og tilkynntu í upphafi síns forsætis að málið yrði á dagskrá en voru ekki bjartsýnir á að þeim tækist að ná samkomulagi um málið á meðan forsæti þeirra stendur, til 31. desember 2001.
    Að lokum eru hér nokkrar staðreyndir um póstþjónustu í Evrópu. Samkvæmt nýlegri könnun tekur að meðaltali 2,3 daga að senda bréf á milli Evrópuríkjanna. 92,5% bréfa berast innan þriggja daga og 98,7% innan fimm daga. Þessi könnun var gerð á árinu 2000 af International Post Corporation (IPC) og kom í ljós að póstþjónusta nokkurra landa þannig mæld hafði batnað frá árinu 1999, t.d. hafði meðaltalshlutfall bréfa sem bárust innan þriggja daga hækkað úr 90,7% í 92,5%.

3. Þróun póstmála á Íslandi.
    Í tilefni þess að á þessu ári, eða 13. september 2001, er öld liðin frá því að fyrstu póstlögin voru sett hér á landi er rétt að stikla á stóru í aðdraganda þess að lög þessi voru sett og greina frá þróun póstmála á síðustu öld.
    Póstþjónusta af hálfu hins opinbera hefst á Íslandi með útgáfu tilskipunar Kristjáns konungs sjöunda um póststofnun á Íslandi 13. maí 1776. Opinberum póststofnunum var komið á fót víðast hvar í Evrópu á 16. og 17. öld, í Danmörku svo dæmi sé nefnt 1624, í Svíþjóð 1636 og í Noregi 1647.
    Það var danskur sæfari, Bendix Nebel að nafni, sem fyrstur kvað sér hljóðs um nauðsyn opinberrar póstþjónustu á Íslandi. Í kveri sínu „Rimelige Tanker til den islandske Kommercies Forbedring“ sem kom út 1704 talar hann um til hve mikils gagns það yrði ef settur yrði upp landspóstur svo að fregnir um hag landsmanna og þarfir bærust fljótar og greiðar.
    Svo virðist sem tillögur Bendix Nebel hafi ekki fengið hljómgrunn, því að ekki var íslensk póststofnun nefnd á nafn fyrr en hin svonefnda landsnefnd hin fyrri var sett á laggirnar árið 1770 til þess að ferðast um landið og gera tillögur til viðreisnar íslensku þjóðinni. Landsnefndin hélt fund á Alþingi í júlí 1770 með íslenskum embættismönnum og bar þá póstmálin á góma en engar tillögur voru gerðar.
    Umræður þessar urðu þó til þess að hreyfing komst á málið því að 25. júní 1774 ritar rentukammerið danska stiftamtmanninum á Íslandi, Lauritz Andreas Thodal, bréf þess efnis að æskilegt væri að koma á póstgöngum milli landanna og óskaði tillagna hans þar um. Margir telja Jón Eiríksson, konferensráð, upphafsmann að bréfinu en hann var deildarstjóri í rentukammerinu. Eftir nokkrar bréfaskriftir var svo tilskipunin sem fyrr er nefnd gefin út.
    Samkvæmt tilskipuninni frá árinu 1776 skyldi póstur ganga þrisvar á ári úr hverjum landsfjórðungi til Bessastaða í tengslum við póstskip milli Íslands og Danmerkur. Stjórn og skipulag póstmálanna var í höndum stiftamtmanns og sýslumanna en þeir voru átján á þessum tíma. Í tilskipuninni er skýrt tekið fram að póstferðunum sé fyrst og fremst komið á fót til þess að áríðandi embættisbréfum verði greiðlega komið áfram. Athygli vekur að ekki er gert ráð fyrir póstferðum til baka frá Bessastöðum.
    Ætla hefði mátt að undinn hefði verið bráður bugur að því að koma póstferðunum á en það dróst allt til 1782 að fyrsta póstferðin var farin. Gjaldskrá var þó gefin út 8. júlí 1779 og skyldi burðargjald samkvæmt henni vera tveir skildingar fyrir bréf úr einni sýslu í aðra og síðan bættust tveir skildingar við fyrir hverja sýslu sem bréfið var flutt um. Hvergi er minnst á burðargjöld fyrir bréf til útlanda og verður því að ætla að þau hafi verið flutt ókeypis.
    Fyrsta póstferðin hófst 10. febrúar 1782 og hét pósturinn Ari Guðmundsson. Lagði hann upp frá Reykjanesi við Djúp, hélt þaðan um Ögur til Ísafjarðar og suður um alla firði uns hann kom 15. febrúar að Haga á Barðaströnd. Þar bjó Davið Scheving, sýslumaður. Þar sem pósturinn hafði aðeins örfá bréf meðferðis þótti sýslumanni ekki svara kostnaði að senda Ara áfram suður, heldur bað hann vermann á leið suður fyrir bréfin. Fleiri urðu póstferðir ekki það árið og það var ekki fyrr en árið 1785 að póstferðir í samræmi við tilskipunina frá 1776 hófust með reglubundnum hætti.
    Fjármál póststofnunarinnar voru frá upphafi í höndum landfógeta. Sýslumenn voru bréfhirðingarmenn hver í sínu umdæmi. Að því kom þó að farið var að fela öðrum en sýslumönnum að annast póstafgreiðslu og er fyrsta dæmið um slíkt í Skagafirði árið 1808. Þar höfðu prestarnir á Víðivöllum og Miklabæ póstafgreiðslu áratugum saman og fengu greiðslu fyrir.
    Smátt og smátt fjölgaði póstferðum. Um miðja 19. öld munu þær hafa verið allt að sex á ári. Milli Danmerkur og Íslands sigldi póstskip reglulega allt frá árinu 1778, fyrst einu sinni á ári en á árinu 1852 var þeim fjölgað í fjórar á ári.
    Eins og fram hefur komið hér að framan var framkvæmd og rekstur póstþjónustunnar ekki í höndum eiginlegrar póststofnunar og ekki einu sinni undir umsjón dönsku póststjórnarinnar, heldur heyrði þjónustan undir ráðuneyti það sem með önnur málefni Íslands fór (rentukammerið). Umræður um hvort eigi mundi heppilegra að setja póstþjónustuna á Íslandi undir dönsku póststjórnina hófust í kjölfar nýrra póstlaga í Danmörku 1851 og útgáfu fyrstu dönsku frímerkjanna það ár.
    Það var þó fyrst 25. ágúst 1869 að gefin var út tilkynning um að frá 1. mars 1870 mundi danska póststjórnin annast póstferðir milli Danmerkur, Færeyja og Íslands. Póststöðvar voru stofnaðar í Reykjavík og á Seyðisfirði. Sérstakur póstmeistari var skipaður á árinu 1872 og hét hann Óli Finsen. Hinn 26. febrúar það ár var gefin út ný tilskipun um póstmál á Íslandi og rekstur póstþjónustu falinn sérstakri ríkisstofnun, Póststjórninni. Tilskipunin gerði ráð fyrir að stofnsettar yrðu póstafgreiðslur og bréfhirðingar. Með þessari tilskipun má segja að grundvöllurinn hafi verið lagður að póstþjónustu og að þeirri póstlöggjöf sem sett var 13. september 1901. Árið eftir, eða 1873, var fyrsta íslenska frímerkið gefið út.
    Lögunum frá árinu 1901 var síðan breytt með setningu laga á árinu 1907. Var meginmál breytingalaganna fellt inn í lögin frá 1901 og þau gefin út svo breytt sem póstlög 16. nóvember 1907, nr. 43/1907. Skv. 1. gr. þeirra laga skyldi póstmeistarinn í Reykjavík hafa á hendi „stjórn hinna íslensku póstmála innanlands undir yfirstjórn stjórnarráðs Íslands“.
    Póstlög, 7. maí 1921, nr. 5/1921, leystu af hólmi lögin frá 1907, en áður hafði þeim verið breytt nokkrum sinnum. Samkvæmt þeim skyldi íslenskum póstmálum stjórnað af aðalpóstmeistara sem hefði umsjón með rekstri póststarfa.
    Fram að árinu 1940 var póstlögum breytt þrívegis eða 1925, 1932 og 1935. Áður en greint er frá setningu póstlaganna á árinu 1940 er rétt að geta um lög sem út voru gefin á árinu 1929. Hér er um að ræða lög um stjórn póstmála og símamála, nr. 40/1929. Skv. 1. gr. laganna skyldi atvinnu- og samgöngumálaráðuneytið fara með yfirstjórn allra póstmála og símamála í landinu. Síðan segir: „Póstmálastjóri stjórnar framkvæmdum póstmálanna og hefir umsjón með rekstri póststarfanna.“ Í lok greinarinnar segir að hann skuli „standa beint undir atvinnu- og samgöngumálaráðuneytinu“. Konungur skyldi veita þetta embætti. Þessi skipan tók gildi 1. janúar 1930.
    Með póstlögum, nr. 31/1940, var skilgreindur einkaréttur póststjórnarinnar til flutnings á bréfum og öðrum sendingum innan lands og til útlanda. Þessum lögum var breytt lítillega með lögum nr. 73/1954. Í póstlögum, nr. 33/1986, var gert ráð fyrir einkarétti Póst- og símamálastofnunar á póstsendingum. Um er að ræða sambærileg ákvæði og í lögunum frá árinu 1940.
    Með lögum nr. 107/1996 voru gerðar breytingar á lögunum frá 1986 til samræmis við lög nr. 103/1996, um stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar. Þessi lög tóku gildi 1. janúar 1997.
    Núgildandi póstlög eru frá árinu 1996, nr.142/1996. Þau tóku gildi 1. janúar 1997. Við samningu þeirra var tekið mið af tillögu Evrópusambandsins að tilskipun um sameiginlegar reglur um þróun póstþjónustu Evrópusambandsins (ESB) og aukin gæði póstþjónustunnar. Þó voru ákvæði fyrri laga um einkarétt ríkisins á póstmeðferð látin halda sér.
    Þegar ljóst var að umræddar tillögur ESB að pósttilskipuninni mundu ná fram að ganga og flest Evrópuríki höfðu tekið upp eða ákveðið að taka upp skilgreiningu tilskipunarinnar um einkarétt lagði samgönguráðherra fram frumvarp til laga um breytingu á lögunum frá árinu 1996, fyrst á 121. löggjafarþingi 1996–97 (náði ekki fram að ganga) og aftur á 122. löggjafarþingi 1997–98. Frumvarpið varð að lögum nr. 72 15. júní 1998.

4. Yfirlit yfir helstu efnisatriði frumvarpsins.
    Í I. kafla frumvarpsins er greint frá gildissviði laganna og markmiðum. Lögin eiga að gilda um póstþjónustu hér á landi gegn greiðslu og um starfsemi sem henni tengist, þ.e. móttöku eða söfnun póstsendinga, flokkun, flutning og skil á hvers konar bréfum og öðrum sendingum, með eða án utanáskriftar.
    Í II. kafla eru helstu hugtök frumvarpsins skýrð og er að mestu leyti um að ræða hugtök sem ekki hafa áður verið notuð í íslenskum póstlögum. Byggt er á skilgreiningum tilskipunar Evrópusambandsins 97/67/ESB, eftir því sem við á.
    III. kafli frumvarpsins fjallar um yfirstjórn póstmála í landinu. Samkvæmt þeim kafla fer samgönguráðherra með yfirstjórn póstmála og Póst- og fjarskiptastofnun veitir leyfi fyrir starfrækslu póstþjónustu og hefur eftirlit með póstmálum og framkvæmd laganna.
    Í IV. kafla er fjallað um alþjónustu. Með alþjónustu er átt við það að íslenska ríkið skuli tryggja öllum landsmönnum á jafnræðisgrundvelli aðgang að ákveðnum þáttum póstþjónustu. Póst- og fjarskiptastofnun getur lagt kvaðir á rekstrarleyfishafa, einn eða fleiri, um að þeir veiti þessa þjónustu á starfssvæði sínu.
    Einkaréttur ríkisins er afmarkaður í V. kafla frumvarpsins. Um er að ræða einkarétt á póstmeðferð, einkarétt á útgáfu frímerkja og uppsetningu póstkassa og einkarétt á auðkenni sem er merki til kynningar á póstþjónustu. Í lok kaflans eru ákvæði um framsal á einkarétti ríkisins.
    Í VI. kafla frumvarpsins eru ákvæði um heimildir til að starfrækja póstþjónustu. Heimildirnar eru tvenns konar, annars vegar almennar heimildir og hins vegar rekstrarleyfi. Þar er skýrt tekið fram að þjónustu sem fellur undir ákvæði alþjónustu mega þeir einir veita sem Póst- og fjarskiptastofnunin hefur veitt rekstrarleyfi að fenginni umsókn þar um.
    Í VII. kafla er fjallað um viðskiptaskilmála, gjaldskrár og bókhald aðila sem starfa samkvæmt almennum heimildum og rekstrarleyfum. Þar eru ákvæði um að þessir aðilar skuli birta opinberlega almenna viðskiptaskilmála sem um þjónustu þeirra gilda. Í 17. gr. er fjallað um gjöld fyrir alþjónustu milli landa á Evrópska efnahagssvæðinu, svokölluð endastöðvagjöld. Einnig eru í þessum kafla ítarleg ákvæði um fyrirkomulag bókhalds þessara fyrirtækja, svo og um gerð og birtingu ársreikninga.
    VIII. kafli fjallar um kröfur varðandi þjónustu og gæði. Þar er fyrst að telja ákvæði um móttöku pósts. Póst- og fjarskiptastofnun skal tryggja að móttöku- og söfnunarstaðir fyrir póst sem fellur undir alþjónustu verði tæmdir a.m.k. einu sinni hvern virkan dag. Í öðru lagi eru ákvæði um útburð pósts. Stofnunin skal tryggja að alls staðar á landinu skuli alla virka daga borinn út póstur sem fellur undir skilgreiningu á alþjónustu nema kringumstæður og landfræðilegar aðstæður hindri slíkt. Í þriðja lagi eru sett ákvæði um gæðakröfur og er stofnuninni falið að setja kröfur um gæði alþjónustu. Í fjórða lagi eru í kaflanum ákvæði um tæknistaðla og í fimmta lagi eru ákvæði um öryggi póstsendinga og er Póst- og fjarskiptastofnun gert skylt að setja reglur um öryggismál á póstafgreiðslum.
    IX. kafli ber heitið póstflutningar og eru þar ákvæði um skyldu til að flytja póstsendingar og um öryggi í póstflutningum.
    X. kafli fjallar um jöfnunarsjóð alþjónustu. Þar er í fyrsta lagi ákvæði um umsóknir um fjárframlög og hvaða upplýsingar krafist er að komi fram í þeim. Í öðru lagi eru ákvæði um jöfnunargjald sem heimilt verður áfram að innheimta en að það renni í sérstakan jöfnunarsjóð í vörslu Póst- og fjarskiptastofnunar.
    Í XI. kafla eru ákvæði um samninga um sértæka póstþjónustu. Sértæk póstþjónusta er þjónusta sem ekki fellur undir alþjónustu en er til almenningsheilla af öryggis- og umhverfisástæðum eða vegna byggðasjónarmiða og ætla má að skili ekki arði.
    Í XII. kafla er að finna almennar reglur um póstþjónustu. Eru þar ákvæði um móttöku og afhendingu póstsendinga, um vanskilasendingar og um óheimilar póstsendingar.
    Í XIII. kafla er fjallað um upplýsingaskyldu póstrekenda. Samkvæmt þeim kafla er póstrekendum skylt að afhenda Póst- og fjarskiptastofnun tölfræðilegar upplýsingar um starfsemi sína. Einnig er þeim aðilum sem fengið hafa rekstrarleyfi skylt að veita stofnuninni upplýsingar um rekstur sinn og fjárhag svo að stofnunin geti haft eftirlit með gjaldskrá þeirra. Þá eru ákvæði um að rekstrarleyfishafar láti stofnuninni í té upplýsingar um gæði alþjónustu og er henni heimilt að birta slíkar upplýsingar í úttekt sinni.
    XIV. kafli ber heitið skaðabætur og er þar að finna ákvæði um takmörkun ábyrgðar vegna póstþjónustu. Rétt er að benda á ákvæði 38. gr. um tryggðar sendingar en í gildandi lögum er hugtakið verðsendingar notað um þessar sendingar. Ákvæði kaflans eru ekki einskorðuð við alþjónustu heldur eiga við alla póstþjónustu.
    Í XV. kafla eru ákvæði um póstleynd og undanþágur. Þar er gert ráð fyrir að meginreglan verði sú sama og er í gildandi lögum að einungis sé heimilt að veita upplýsingar um póstsendingar að undangengnum dómsúrskurði eða samkvæmt sérstakri heimild í lögum. Þó er gert ráð fyrir undanþágum frá þessari meginreglu í nánar tilgreindum tilvikum. Í 48. og 49. gr. eru nýmæli, annars vegar eru ákvæði um ólögmæta háttsemi starfsmanna við póstþjónustu og hins vegar um skyldu póstrekanda til að kynna fyrir starfsfólki sínu og verktökum sem vinna við póstþjónustu ákvæði þessa kafla.
    Í XVI. kafla eru ákvæði um milliríkjasamninga og um þátttöku rekstrarleyfishafa í alþjóðlegu samstarfi sem leiðir af alþjóðlegum skuldbindingum á sviði póstmála.
    Í XVII. kafla er fjallað um viðurlög við brotum á ákvæðum frumvarpsins og í XVIII. kafla um almenna heimild fyrir samgönguráðherra til að setja reglugerð um nánari fyrirmæli um framkvæmd póstmála og þar eru einnig ákvæði um gildistöku laganna.
    Í viðauka með þessu frumvarpi eru ákvæði um gæðakröfur vegna póstsendinga milli landa innan Evrópska efnahagssvæðisins.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.
Um 1. gr.

    Hér er almennt kveðið á um gildissvið laganna og er greinin að meginefni samhljóða fyrri mgr. 1. gr. gildandi laga. Þó hefur verið bætt við hana svo að lögin nái til starfsemi sem tengist póstþjónustunni, og er með því átt við rekstur sem gerir kleift að veita póstþjónustu, t.d. rekstur póstmiðstöðva og afgreiðslustaða og útgáfu frímerkja o.s.frv.

Um 2. gr.

    Að hluta til er greinin samhljóða seinni mgr. 1. gr. gildandi laga en bætt er við ákvæði um að allir landsmenn skuli eiga aðgang að ákveðnum þáttum póstþjónustu. Með þessu er annars vegar verið að innleiða í íslensk lög áhersluatriði tilskipunar 97/67/EB og hins vegar koma á framfæri því meginmarkmiði að tryggja landsmönnum aðgang að lágmarksþjónustu, alþjónustu sem er nánar skilgreind í seinni greinum.

Um 3. gr.

    Þessi grein kemur í stað einnar setningar í 6. gr. gildandi laga sem er mjög almennt orðuð og getur þess vegna verið erfitt að túlka. Samkvæmt hinu nýja orðalagi er fyrirtækjum og félögum heimilt að annast póstsendingar innanhúss og milli mismunandi starfsstöðva þeirra enda annist viðkomandi aðili sjálfur póstþjónustuna. Undanþágan gildir því ekki ef öðrum aðila er falin póstþjónustan. Ekki er talið nauðsynlegt að undanþágan nái til einstaklinga eðli málsins samkvæmt.

Um 4. gr.

    Orðskýringum gildandi laga hefur verið breytt talsvert og bætt við nýjum orðskýringum. Að svo miklu leyti sem talið er unnt hefur verið fylgt orðskýringum tilskipunar 97/67/EB en þar sem tilskipunin fjallar einvörðungu um alþjónustu er hún ekki tæmandi hvað varðar orðskýringar um póstmál.
    Tekið er upp orðið afgreiðslustaður sem almennt heiti á þeirri aðstöðu þar sem almenningi býðst að afhenda póstsendingar. Af því leiðir að póstkassar teljast formlega til afgreiðslustaða. Þetta er mikilvægt þar eð það gerir Póst- og fjarskiptastofnun kleift að setja reglur um staðsetningu póstkassa auk afgreiðslustaða í hefðbundnum skilningi. Auk þess er orðskýringin í samræmi við fyrrnefnda tilskipun. Aðrar orðskýringar sem sóttar eru í tilskipunina eru ábyrgðarbréf, almenn heimild, bréf, endastöðvagjöld, grunnkröfur, markpóstur, móttaka, póstsending, póstþjónusta, tryggðar sendingar og útburður. Í einstökum tilfellum hefur orðskýring tilskipunarinnar verið löguð að íslenskum aðstæðum og má nefna sem dæmi ábyrgðarbréf þar sem bætt hefur verið við skýringu vegna skiptingar ábyrgðarþjónustu á Íslandi í tvennt, þ.e. ábyrgðarbréf sem einungis má afhenda skráðum viðtakanda og ábyrgðarbréf sem má afhenda á viðtökustað og heimilisfólk eða samstarfsfólk getur veitt móttöku fyrir hönd hins skráða viðtakanda. Ein orðskýring er óbreytt frá gildandi lögum, þ.e. fjármunasendingar.
    Það skal tekið fram að umfang póstsendingar sem skýrð er í tilskipun 97/67/EB hefur verið aukið þannig að í frumvarpinu nær póstsending einnig til óáritaðra sendinga. Hugtakið póstsendingar fær með þessu sama skilning og í daglegu íslensku máli. Orðið móttaka er í frumvarpinu notað bæði yfir móttöku póstsendinga af hálfu starfsfólks póstrekanda á afgreiðslustöðum og yfir söfnun póstsendinga úr póstkössum á almannafæri og hjá fyrirtækjum.
    Þá er rétt að vekja athygli á orðskýringu á bréfi, sem tekin er úr tilskipun 97/67/EB. Innifalið í hugtakinu er bréf með heimilsfangi á bréfinu sjálfu en dæmi um slíkt er póstkort. Strangt til tekið er bréf í skilningi laganna einungis innihald en ekki umslag með árituðum miðli innan í.
    Auk þeirra orðskýringa sem hér hefur þegar verið greint frá eru lagðar til nýjar orðskýringar á blindrasendingu og einkaréttarþjónustu. Í gildandi lögum eru sendingar með blindraletri taldar falla undir skyldur ríkisins. Í frumvarpinu eru blindrasendingar nefndar í sambandi við alþjónustu og þykir rétt að gefa skýringu á orðinu. Samtímis hefur því verið breytt að blindrasendingar eru ekki lengur einungis sendingar á blindraletri heldur hvers konar upplýsingaefni fyrir blinda. Skýringu á orðinu rekstrarleyfishafi hefur verið breytt til samræmis við texta frumvarpsins en skýring á einkaréttarhafa verið felld niður enda hefur skýringu á einkaréttarþjónustu verið bætt við. Orðskýringu á póstrekanda hefur verið breytt og er nú hin sama og er í gildandi lögum notuð fyrir póstþjónustuaðila. Með þessu frumvarpi er lögð til sú breyting að orðið póstrekandi verði notað um alla sem veita póstþjónustu af einhverju tagi en rekstrarleyfishafi um þá sem veita alþjónustu. Vegna breytingarinnar er hægt að hætta notkun annað hvors orðanna póstrekandi og póstþjónustuaðili og þykir betra að sleppa hinu síðarnefnda. Í gildandi lögum er notkun orðanna póstmeðferð og póstþjónusta nokkuð áþekk og mismunur milli þeirra á tíðum óglöggur. Hér hefur verið valinn sá kostur að nota eingöngu orðið póstþjónusta í samræmi við tilskipun 97/67/EB og er því ekki lengur sett fram orðskýring á póstmeðferð og jafnframt er forðast að nota það orð í frumvarpinu. Skýring á orðinu póstkassi hefur verið einfölduð nokkuð frá gildandi lögum. Einnig hefur skýringin á orðinu frímerki verið endurskoðuð með hliðsjón af ítarlegri umfjöllun um frímerki í frumvarpinu en er í gildandi lögum. Skýring á gjaldmerki er efnislega óbreytt en bætt er við möguleika þess að merki sé sett á fylgibréf, t.d. með böggli, en auk þess er orðið póstrekandi notað í stað póstþjónustuaðila, sbr. framangreint.
    Orðskýring á grunnpóstþjónustu sem er að finna í gildandi lögum hefur verið felld niður í samræmi við þá meginstefnu í frumvarpinu að í stað grunnpóstþjónustu komi alþjónusta.

Um 5. gr.

    Fyrri málsgreinin er samhljóða fyrri málsgrein 3. gr. gildandi laga. Í síðari málsgreininni hefur því verið bætt við að Póst- og fjarskiptastofnun veiti leyfi fyrir starfrækslu póstþjónustu en í gildandi lögum er þetta ákvæði sett fram á óbeinan hátt í 11. gr. Þykir eðlilegra að hafa þetta ákvæði í grein um yfirstjórn póstmála vegna mikilvægis þess.

Um 6. gr.

    Í þessari grein er að finna umfjöllun um alþjónustu. Fyrst er alþjónusta skilgreind út frá almennum kröfum sem teknar eru nánast orðrétt upp úr tilskipun 97/67/EB og síðan með tilliti til þjónustuþátta sem efnislega miðast einnig við tilskipunina. Eins og segir í almennum athugasemdum með frumvarpinu er ein helsta breyting frumvarpsins frá gildandi lögum að lögð er áhersla á að í stað þess að ríkið taki á sig skyldur við landsmenn í formi grunnpóstþjónustu leggi íslenska ríkið skyldur á rekstrarleyfishafa að tryggja landsmönnum alþjónustu með ákveðnum gæðum og á viðráðanlegu verði. Til þess að ná megi þessu markmiði er Póst- og fjarskiptastofnun heimilt að leggja kvaðir á rekstrarleyfishafa, einn eða fleiri, um að þeir veiti alþjónustu á starfssvæði sínu. Kvaðir þessar skulu skráðar í leyfisbréf viðkomandi rekstrarleyfishafa. Stofnunin skal einnig hafa eftirlit með því að staðið sé við skyldur ríkisins samkvæmt alþjóðlega póstsamningnum enda hafi hann verið staðfestur af ríkisstjórninni.
    Hinar almennu kröfur sem uppfylla skal með alþjónustu eru taldar upp í 2. mgr. Í fyrsta lagi skal alþjónusta uppfylla grunnkröfur og er útlistun á þeim að finna í orðskýringum 4. gr. Sem dæmi um grunnkröfur eru ákvæði um leynd bréfaskipta og flutning hættulegrar vöru en hvoru tveggja eru gerð nánari skil í öðrum greinum þessa frumvarps. Í öðru lagi er um að ræða kröfur um jafnræði, órofna þjónustu og þróun þjónustu í takt við þjóðfélagslegt umhverfi og þarfir notenda.
    Í næstu málsgrein er upptalning alþjónustuþátta, þ.m.t. aðgangur að póstafgreiðslu og póstþjónustu vegna ýmissa sendingartegunda. Tegundir póstsendinga sem falla undir alþjónustu eru að mestu leyti í samræmi við 4. gr. gildandi laga sem fjallar um skyldur ríkisins, þ.e. grunnpóstþjónustu. Þess ber samt að geta að bögglasendingar í alþjónustu eru samkvæmt fyrrnefndri tilskipun takmarkaðar við 10 kg, en innlendum eftirlitsstofnunum er þó heimilt að hækka mörkin í 20 kg. Í frumvarpinu er hins vegar gert ráð fyrir að festa mörkin við 20 kg. Í stað verðsendinga í gildandi lögum koma tryggðar sendingar þar sem sendandi kaupir tryggingu í samræmi við verðmæti sendingarinnar. Í samræmi við tilskipunina er sett 2 kg hámark fyrir blindrasendingar sem falla undir alþjónustu. Við upptalningu á dagblöðum, vikublöðum og tímaritum hefur verið bætt bókum og verðlistum.
    Alþjónustu tengjast ýmsar skyldur ríkisins um dreifingu á pósti sem kemur frá útlöndum. Þar á meðal er skylda að dreifa bögglum allt að 20 kg. 5. mgr. kemur í stað 5. gr. gildandi laga.
    Samgönguráðherra er í frumvarpinu veitt heimild til að setja reglugerð um nánari útfærslu alþjónustu. Slík reglugerð mun koma í stað gildandi reglugerðar um grunnpóstþjónustu og er talið æskilegt að hún verði birt sem fyrst eftir samþykkt frumvarpsins á Alþingi.

Um 7. gr.

    Með frumvarpinu er gert ráð fyrir að einkaréttur ríkisins haldist á ákveðnum tegundum póstsendinga í samræmi við tilskipun 97/67/EB, þó þannig að hærri þyngdarmörk bréfa í einkarétti verði 250 g í stað 350 g á sama hátt og kveðið er á um í gildandi lögum. Samkvæmt orðskýringu er ekki litið á bækur, verðlista, dagblöð og tímarit sem bréfasendingu. Við það að innleiða ákvæði tilskipunarinnar um einkarétt er ekki lengur rétt að undanskilja þær tegundir sendinga sem nefndar eru í lok 2. tölul. 6. gr. gildandi laga. Ekki er talið nauðsynlegt að heimila samgönguráðherra að setja reglugerð um takmörkun eða afnám einkaréttar póstsendinga til og frá útlöndum þar eð ákvæði þessu aðlútandi eru í meginatriðum hin sömu og fyrir innlendar póstsendingar, sbr. 1. tölul. Markpóst má samkvæmt tilskipun 97/67/EB fella undir einkarétt að svo miklu leyti sem það telst nauðsynlegt til þess að tryggja alþjónustu. Í frumvarpinu er ekki gert ráð fyrir að beita þessu ákvæði þar eð ekki verður séð að alþjónustu sé á neinn hátt stefnt í hættu þó að ekki sé veittur einkaréttur á þessari póstsendingartegund. Markpóstur er því felldur undir alþjónustu. Orðskýringu á markpósti er að finna í 4. gr. og er hún í samræmi við tilskipunina. Þar eð markpóstur er ekki nefndur í gildandi lögum er hér um nýmæli að ræða. Þá er 2. tölul. nýmæli í lögum en í samræmi við fyrrnefnda tilskipun. Tilgangurinn er greinilega að tryggja að einungis einkaréttarhafa verði falin póstþjónusta á birtingu stefnu eða öðrum tilkynningum stjórnvalda til þegna sinna.

Um 8. gr.

    Fyrsti málsliður greinarinnar er óbreyttur frá gildandi lögum. Við bætast ákvæði um að rekstrarleyfishafi sem falinn er einkaréttur ríkisins skuli gefa út frímerki með nauðsynlegum verðgildum. Sami aðili skal einnig annast skipti á frímerkjum við erlenda aðila samkvæmt alþjóðapóstsamningnum. Tekið er skýrt fram um eignarrétt íslenska ríkisins á erlendum frímerkjum sem hingað eru send samkvæmt samningnum.

Um 9. gr.

    Einkarétti ríkisins á uppsetningu póstkassa er viðhaldið með frumvarpinu en með möguleika á því að öðrum rekstrarleyfishöfum en þeim sem falinn er einkaréttur ríkisins megi heimila uppsetningu póstkassa á almannafæri. Það er gert að skilyrði að slíkir póstkassar verði merktir viðkomandi rekstrarleyfishafa. Það nýmæli er hér að Póst- og fjarskiptastofnun er veitt heimild til að setja reglur um fjölda og staðsetningu póstkassa sem rekstrarleyfishafar skulu setja upp. Er tilgangurinn að tryggja að almenningur þurfi ekki að fara langar leiðir til að koma sendingum í póst og er Póst- og fjarskiptastofnun með þessu veitt heimild til að ákveða lágmarksfjölda póstkassa. Við þessa ákvörðun verður stofnunin að gæta þess að finna eðlilegt jafnvægi milli þjónustustigs og kostnaðar. Sambærilegt ákvæði gildir um almenningssíma í lögum um fjarskipti og reglugerð um alþjónustu á fjarskiptasviði.

Um 10. gr.

    Efnislega er ákvæði þessarar greinar um auðkenni óbreytt frá gildandi lögum en þar er þau að finna í 9. og 13. gr.

Um 11. gr.

    Greinin um framsal á einkarétti ríkisins kemur í stað 12. gr. gildandi laga. Tekið er fram að það eru einungis rekstrarleyfishafar, þ.e. póstrekendur sem veita alþjónustu, sem fela má einkaréttinn. Þurfi að velja á milli rekstrarleyfishafa til að fara með einkaréttinn skal hafa til hliðsjónar að hægt verði að tryggja fullnægjandi alþjónustu um allt land. Rekstrarleyfishafi kemur þannig í stað póstrekanda í gildandi lögum en það er í samræmi við nýja orðskýringu 4. gr. á orðinu póstrekandi. Ef einungis einum aðila hefur verið veitt rekstrarleyfi kemur það óhjákvæmilega í hlut hans að bera alþjónustuskyldur.

Um 12. gr.

    Hér er um að ræða aðra veigamikla breytingu á útfærslu frá gildandi lögum. Gert er ráð fyrir tvenns konar heimildum til að starfrækja póstþjónustu, almennum heimildum og rekstrarleyfi. Rekstrarleyfi þarf til að veita alþjónustu en aðra póstþjónustu má veita í samræmi við almenna heimild. Gert er ráð fyrir að Póst- og fjarskiptastofnun setji reglur um póstþjónustu sem veita má samkvæmt almennri heimild og póstrekendur sem skrá sig með tilkynningu skuli starfa í samræmi við reglurnar. Þessum aðilum verði ekki sent leyfisbréf. Tekið er fram að við veitingu heimilda skuli gæta jafnræðis og meðalhófs og að málsmeðferð skuli hlíta viðurkenndum reglum stjórnsýslunnar.
    Almennar heimildir koma í stað skráningarskyldu skv. 20. gr. gildandi laga. Í stað þess að samgönguráðherra setji reglugerð um ákvæði sem tengjast skráningu er í frumvarpinu gert ráð fyrir að Póst- og fjarskiptastofnun setji reglur um almennar heimildir enda líkur á að um verði að ræða einfalda skilmála.
    Einstaklingar eða lögaðilar sem hafa staðfesturétt innan Evrópska efnahagssvæðisins fá samkvæmt ákvæðum þessarar greinar sama rétt og Íslendingar til að sækja um heimildir til að veita póstþjónustu. Þar að auki er gert ráð fyrir því að samgönguráðherra geti með reglugerð veitt öðrum aðildarríkjum Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar sams konar rétt.
    Nýtt ákvæði er um framsal leyfa á þann veg að breytist eignaraðild og kennitala fyrirtækis sem starfar samkvæmt almennri heimild verður að skrá það á ný og sömuleiðis verður að sækja um nýtt rekstrarleyfi ef eignaraðild og kennitala aðila sem hefur rekstrarleyfi breytist enda er upplýsinga um eignaraðild og fjárhagsstöðu krafist þegar sótt er um heimildir. Breytt hlutafjáreign í fyrirtæki sem starfar áfram með óbreytta kennitölu gefur ekki tilefni til nýrrar skráningar eða að sækja þurfi um nýtt rekstrarleyfi.
    Af síðasttalda ákvæðinu leiðir að það verður að vera heimilt að afturkalla almenna heimild eða rekstrarleyfi þegar fyrirtæki leggur niður starfsemi sína eða verður gjaldþrota. Sömuleiðis er sett inn ákvæði um að afturkalla megi leyfi ef alvarlega er brotið gegn settum skilmálum en gert er ráð fyrir því að áður en til slíks kemur verði viðkomandi gefinn kostur á að bæta úr vanrækslu. Í lögum um fjarskipti eru sams konar ákvæði um afturköllun heimilda og hér eru lögð til.

Um 13. gr.

    Þeim sem vilja starfrækja póstþjónustu í samræmi við reglur um almennar heimildir ber að tilkynna það Póst- og fjarskiptastofnun minnst fjórum vikum fyrir opnun þjónustu og upplýsa m.a. um fyrirhugaða póstþjónustu sína. Þennan tíma skal stofnunin nota til að kanna hvort fyrirhugaður rekstur kann að falla undir ákvæði um alþjónustu. Sé það niðurstaðan ber viðkomandi póstrekanda að sækja um rekstrarleyfi en ef ekki getur póstrekandi hafið starfsemi og er jafnframt skráður hjá Póst- og fjarskiptastofnun. Með þessari tilhögun er póstrekendum öðrum en þeim sem vilja veita alþjónustu gert mun auðveldara fyrir að hefja starfsemi. Hins vegar er Póst- og fjarskiptastofnun heimilt að stöðva starfsemi póstrekanda sem hefur látið hjá líða að tilkynna sig. Stofnuninni er samkvæmt frumvarpinu gert að halda skrá yfir póstrekendur sem starfa samkvæmt almennri heimild.

Um 14. gr.

    Greinin kemur í stað 11. gr. í gildandi lögum og segir til um hvernig sækja skuli um rekstrarleyfi til þess að starfrækja alþjónustu. Umsækjandi skal auk almennra upplýsinga um sig og fjárhagsstöðu sína skýra hvaða þjónustu hann hyggst bjóða og á hvaða svæði. Þegar leyfi er veitt getur Póst- og fjarskiptastofnun lagt á ýmsar kvaðir er varða alþjónustuna eða afmarkaða þætti hennar annaðhvort alls staðar á landinu eða á sérstökum svæðum. Tilgangur þessa er að tryggja að póstþjónusta innan marka alþjónustu standi öllum landsmönnum til boða. Póst- og fjarskiptastofnun getur valið að fela einum rekstrarleyfishafa alþjónustu á öllu landinu en það kemur ekki í veg fyrir að aðrir rekstrarleyfishafar geti veitt alþjónustu. Sömuleiðis getur stofnunin valið að fela fleiri rekstrarleyfishöfum en einum að tryggja alþjónustu á mismunandi svæðum. Slíkt kemur heldur ekki í veg fyrir að samkeppni geti átt sér stað á þessum svæðum milli rekstrarleyfishafanna. Rekstrarleyfi skulu vera tímabundin en auk þess er stofnuninni heimilt að breyta ákvæðum leyfisbréfa og leggja breyttar kvaðir á leyfishafa, t.d. þegar markaðsaðstæður, löggjöf eða alþjóðasamningar breytast. Einnig geta komið til ástæður sem ekki eru fyrirsjáanlegar við gerð þessa frumvarps.

Um 15. gr.

    Póst- og fjarskiptastofnun getur samkvæmt frumvarpinu sett ýmis skilyrði fyrir rekstrarleyfi en þau eru að verulegu leyti samhljóða skilyrðum 13. gr. gildandi laga. Í fyrsta lagi til þess að tryggja aðgang almennings að alþjónustu og í öðru lagi að leggja á einn af rekstrarleyfishöfunum að fara með einkarétt ríkisins og réttindi þau og skyldur sem einkaréttinum fylgja, sbr. 7.–10. gr. Setja má skilyrði um að gjaldskrá rekstrarleyfishafa sæti eftirliti Póst- og fjarskiptastofnunar en auk þess má reikna með að sett verði sérstakt skilyrði í leyfi sem einkaréttur fylgi að gjaldskrá verði lögð fyrir stofnunina til samþykktar. Gera verður ráð fyrir að með þessu skilyrði megi tryggja að í fyrsta lagi verði gjaldskrá viðráðanleg fyrir landsmenn og í öðru lagi að tekjum af einkaréttarþjónustu verði ekki varið til að greiða niður kostnað við aðra þætti alþjónustu sem gæti komið í veg fyrir samkeppni. Sama tilgang hefur skilyrði um bókhald rekstrarleyfishafanna. Annað skilyrði snýr að því að tryggja notendum lágmarksþjónustu og gæði. Með hliðsjón af mikilvægi póstþjónustu fyrir allt atvinnulíf í landinu má setja skilyrði um að rekstrarleyfishafar sæti eftirliti Póst- og fjarskiptastofnunar um fjárhagsstöðu þeirra til þess að gera megi ráðstafanir til að komast hjá rekstrarstöðvun vegna fjárhagserfiðleika. Þessu tengist enn fremur annað skilyrði sem er um tryggingu sem hægt er að krefjast af rekstrarleyfishafa og gripið verður til ef til rekstrarstöðvunar eða gjaldþrots kynni að koma. Gera má það skilyrði að alþjóðasamningar sem ríkið hefur undirritað séu virtir af rekstrarleyfishafa. Skilyrði má setja um að uppfylltar séu almennar kröfur til alþjónustu, sbr. 6. gr. Að lokum má setja sem skilyrði að greitt verði leyfisgjald og árlegt rekstrargjald í samræmi við ákvæði laga um Póst- og fjarskiptastofnun og lög um aukatekjur ríkissjóðs.
    Póst- og fjarskiptastofnun er heimilað að setja viðbótarskilyrði ef nauðsynlegt telst og hægt er að rökstyðja þörf þeirra. Hér er m.a. haft í huga að endurskoðun tilskipunar 97/67/EB hefur verið til umræðu án þess að niðurstaða hafi fengist en líklegt er að breytingar verði gerðar á sumum ákvæðum hennar. Skilyrðum leyfisbréfa má einnig breyta í samræmi við breytingar á lögum og reglum eins og sjálfsagt má telja.
    Í 3. mgr. er Póst- og fjarskiptastofnun veitt skýr heimild til að setja reglur um staðsetningu og fyrirkomulag póstafgreiðslustaða en slík heimild er ekki í gildandi lögum. Vegna þeirrar þróunar sem í gangi er til hagræðingar á póstafgreiðslustöðum og í mörgum tilfellum um sameiningu póstafgreiðslustaða við aðra þjónustuafgreiðslu eða verslun hefur verið talið nauðsynlegt að stofnunin setti reglur í þessa veru. Í reglunum þarf að gera ýmsum fyrirkomulagsatriðum skil, svo sem um öryggi og leynd pósts, óheftan aðgang að afgreiðslu og starfsþjálfun starfsfólks.

Um 16. gr.

    Greinin sækir efni sitt að hluta til í 18. gr. gildandi laga. Bætt er við ákvæði um tímafresti sem póstrekendur hafa til að senda Póst- og fjarskiptastofnun nýja og breytta skilmála fyrir þjónustu og einnig um að stofnunin geti krafist breytinga á skilmálum ef þeir eru í ósamræmi við lög, reglugerðir og ákvæði rekstrarleyfa hvort sem um almennar heimildir eða rekstrarleyfi er að ræða. Nýtt ákvæði er um notkun frímerkingavéla og eftirlit rekstrarleyfishafa með þeim. Með hliðsjón af því að frímerkingavélar eru annar kostur við sölu þjónustu en að notandi komi á afgreiðslustað þykir rétt að leyfishafar setji sjálfir reglur um eftirlit með notkun vélanna. Hins vegar er ekki heimilt að banna notkun þeirra. Þá er nýtt ákvæði um að í skilmálum alþjónustu skuli skilgreina aðgengi notenda að þjónustu og gæði þjónustu.
    Ákvæði um gjaldskrá fyrir alþjónustu eru efnislega hin sömu og eru í gildandi lögum fyrir grunnpóstþjónustu. Bætt er við heimild til handa Póst- og fjarskiptastofnun til að krefjast þess að gerð sé grein fyrir kostnaðargrundvelli gjaldskrár. Ákvæði 6. gr. um að gjöld fyrir alþjónustu skuli vera almenningi viðráðanleg eru endurtekin hér til áherslu. Þegar um er að ræða gjaldskrá einkaréttarhafa er áskilið að gjaldskráin sé lögð fyrir Póst- og fjarskiptastofnun með nægum fresti til að stofnunin geta efnislega metið tillögurnar. Ákvæði 19. gr. gildandi laga hefur verið sett í þessa grein en 4. mgr. 18. gr. gildandi laga er aftur á móti að finna í 18. gr. frumvarpsins, þ.e. um skyldu samgönguráðherra að setja reglugerð um bókhald póstrekanda.

Um 17. gr.

    Greinin er nýmæli og fjallar um endastöðvagjöld fyrir millilandasendingar. Ákvæði greinarinnar er í samræmi við 13. gr. tilskipunar 97/67/EB og segir til um hvaða reglum skuli fylgt við ákvörðun á endastöðvagjaldi fyrir póst frá útlöndum sem fellur undir alþjónustu.

Um 18. gr.

    Þessi grein kemur að nokkru leyti í stað f-liðar 13. gr. gildandi laga og segir til um tilhögun bókhalds rekstrarleyfishafa. Í fyrsta lagi ber rekstrarleyfishöfum að greina kostnað og tekjur vegna alþjónustu frá annarri þjónustu sem þeir veita til þess að hægt verði að framfylgja ákvæðum 16. gr. Í öðru lagi skal einkaréttarhafi aðgreina kostnað og tekjur fyrir alla þjónustu sem fellur undir einkaréttinn frá annarri alþjónustu til þess að Póst- og fjarskiptastofnun geti sannreynt að gjaldskrá sé í samræmi við tilkostnað. Í þriðja lagi skulu póstrekendur sem stunda óskylda leyfisbundna starfsemi halda kostnaði og tekjum af póststarfsemi aðgreindum frá öðrum tekjum og kostnaði. Hér er höfð í huga t.d. banka- og fjármálastarfsemi og fjarskiptaþjónusta. Í 3. mgr. er sú skylda lögð á Póst- og fjarskiptastofnun að tryggja að bókhald rekstrarleyfishafa samræmist reglugerð samgönguráðherra, sbr. athugasemdir við 16. gr.

Um 19. gr.

    Þessi grein er nýmæli og þjónar þeim tilgangi að minna rekstrarleyfishafa á að ákvæði 18. gr. fría þá ekki frá því að fara að lögum um bókhald og ársreikninga.

Um 20. gr.

    Þessi grein er ásamt 21.–25. gr. endurskoðun á almennum reglum um póstþjónustu sem eru í VIII. kafla gildandi laga en auk þess hefur verið bætt við nýjum ákvæðum. Það nýmæli er í 20. gr. að tryggja skuli að móttöku- og söfnunarstaðir fyrir póst sem fellur undir alþjónustu skulu verða tæmdir a.m.k. einu sinni hvern virkan dag í samræmi við tilskipun 97/67/EB. Þetta ákvæði nær til móttökurifa á póstafgreiðslustöðum og póstkassa á almannafæri.

Um 21. gr.

    Hér er fært í lög að póstsendingar innan marka alþjónustu skulu bornar út alla virka daga alls staðar á landinu nema kringumstæður eða landfræðilegar aðstæður komi í veg fyrir útburð. Slíkar kringumstæður geta verið ófærð og óveður eða sérstakar landfræðilegar aðstæður. Póst- og fjarskiptastofnun gerði árið 1999 könnun á möguleikum þess að koma á útburði pósts hvern virkan dag alls staðar á landinu. Kostnaður á ári var þá áætlaður tæplega 100 millj. kr. umfram þáverandi kostnað við útburð pósts. Með því að fella útburð pósts á virkum dögum undir alþjónustukvaðir verður að gera ráð fyrir að almenn gjaldskrá rekstrarleyfishafa sem veitir alþjónustu verði að hækka samsvarandi.

Um 22. gr.

    Póst- og fjarskiptastofnun er falið að setja kröfur um gæði í alþjónustu. Kröfurnar eiga m.a. að lúta að lengstum tíma frá móttöku póstsendinga til útburðar, hver eigi að vera lágmarksopnunartími póstafgreiðslustaða á mismunandi stöðum, hversu oft póstkassar eru tæmdir á dag umfram lágmarksákvæði 20. gr. og tímasetningar um póst til og frá útlöndum. Ekki er gert ráð fyrir að kröfur verði umfram það sem þekkist í nágrannalöndum. Í greininni er vísað til viðauka í sambandi við póstsendingar milli landa í Evrópska efnahagssvæðinu sem eru í samræmi við tilskipun 97/67/EB. Gert er ráð fyrir að hægt sé að veita undanþágu frá gæðakröfum í sérstökum tilfellum enda hætt við að kostnaður geti orðið óheyrilega mikill ef sömu gæðakröfur eru settar án undantekninga alls staðar á landinu. Sú skylda er lögð á Póst- og fjarskiptastofnun að gera á hverju ári könnun á gæðum alþjónustu og birta skýrslu um niðurstöðu hennar. Slík birtingarskylda mun væntanlega auka skyn almennings á veittri þjónustu.

Um 23. gr.

    Greinin er nýmæli og felur í sér ábendingu til rekstrarleyfishafa að fara eftir stöðlum. Búast má við að stöðlum á póstsviði fjölgi á næstu árum eftir því sem meiri tækni verður beitt við meðhöndlun póstsendinga.

Um 24. gr.

    Hér er einnig um nýmæli að ræða þar sem settar eru skyldur á póstrekendur í sambandi við póstsendingar í vörslu þeirra. Að auki er Póst- og fjarskiptastofnun falið að setja reglur um öryggismál á póstafgreiðslustöðum sem tengist ákvæðum 3. mgr. 15. gr.

Um 25. gr.

    Greinin er efnislega samhljóða 16. gr. gildandi laga.

Um 26. gr.

    Um er að ræða nýmæli sem tengist innihaldi 24. gr. og teygir skyldur um öryggi póstsendinga til flutningsaðila sem flytja póstsendingar.

Um 27. gr.

    Kaflinn um jöfnunarsjóð alþjónustu hefur verið endurskoðaður og honum breytt til samræmis við samsvarandi ákvæði í lögum um fjarskipti en þar er komin nokkur reynsla á starfrækslu jöfnunarsjóðs fyrir alþjónustu. Í 27. gr. er gerð grein fyrir því hvenær hægt er að sækja um fjárframlag vegna tapreksturs á alþjónustu eða vegna þess að þjónustan er óarðbær. Rekstrarleyfishafa sem hefur verið falinn einkaréttur ríkisins er þó óheimilt að sækja um fjárframlag þó að alþjónusta hans eða hluti hennar sé rekin án hagnaðar. Þar eð einkaréttarhafi hefur ýmis réttindi umfram aðra rekstrarleyfishafa þykir ekki koma til greina að þeir verði látnir fjármagna taprekstur hans á ákveðnum hluta alþjónustu auk þess sem gera verður ráð fyrir að í skjóli einkaréttar verði auðveldara fyrir hann að haga gjaldskrá í samræmi við tilkostnað.
    Ekki er gert ráð fyrir að umsóknir um fjárframlög verði afgreiddar sjálfkrafa og Póst- og fjarskiptastofnun hefur skyldur skv. 2. mgr. til að kanna hvort þjónustan verði tryggð með öðrum hætti en fram til þess að umsókn var lögð inn. Ef það er mat stofnunarinnar að þjónustan sé nauðsynleg með hliðsjón af 6. gr. og verði ekki innt af hendi á hagkvæmari hátt skulu rekstrarleyfishafa tryggð fjárframlög úr jöfnunarsjóði.
    Í 3. mgr. er lýst nánar vinnslu umsókna og heimildum Póst- og fjarskiptastofnunar til þess að krefjast allra upplýsinga sem máli skipta. Ákvæði 27. gr. eru efnislega svipuð og 31. gr. gildandi laga en að sumu leyti ítarlegri.

Um 28. gr.

    Greinin er samhljóða 30. gr. gildandi laga með þeirri undantekningu að ákvæði um reglugerð sem samgönguráðherra skal setja hefur verið flutt í 27. gr. frumvarpsins.

Um 29. gr.

    Hér er að nokkru leyti um nýmæli að ræða sem á að vera hægt að beita í sérstökum tilfellum þegar samgönguráðherra telur brýnt að leggja út í framkvæmdir eða sértæka póstþjónustu sem ekki heyrir undir alþjónustu og ekki er hægt að reikna með að skili arði. Slík tilfelli geta tengst almenningsheill, öryggismálum, umhverfisástæðum eða byggðasjónarmiðum. Póst- og fjarskiptastofnun skal falið að gera samninga um slíkar framkvæmdir eða þjónustu að undangengnu útboði.

Um 30. gr.

    Hér er kveðið á um greiðslu kostnaðar vegna framkvæmda eða þjónustu skv. 29. gr. Ákvæðið er sambærilegt við 7. mgr. 30. gr. gildandi laga.

Um 31. gr.

    Kaflinn um almennar reglur um póstþjónustu í gildandi lögum hefur verið að talsvert endurbættur. Í þessari grein er t.d. fjallað um móttöku póstsendinga af hálfu póstrekenda. Póstrekendum er heimilað að setja í skilmála sína ákvæði um frágang póstsendinga en þeim jafnframt lögð sú skylda á herðar að kynna sér að frágangur sendinga geri kleift að koma þeim til skila. Í 2. mgr. eru ákvæði um gjaldmerki í alþjónustu sem eru mun ítarlegri en ákvæði 22. gr. gildandi laga. Hér er fjallað um gjaldmerki í formi frímerkja, stimplunar gjaldmerkis í frímerkingavélum og áprentunar gjaldmerkja hjá rekstrarleyfishafa. Samkvæmt þessu ákvæði er notendum heimil notkun frímerkingavéla til þess að setja gjaldmerki á póstsendingar en rekstrarleyfishöfum er heimilt að setja reglur um notkun þeirra, sbr. 16. gr.
    Ekki eru því gerð skil í gildandi lögum hvort frímerki skuli bera verðgildi eða hvort þau megi vera ávísun á ákveðna póstþjónustu, sér í lagi varðandi tiltekinn þyngdarflokk bréfa. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að frímerki beri verðgildi en að Póst- og fjarskiptastofnun geti þegar sérstaklega stendur á heimilað að sett verði tímabundið í umferð frímerki án verðgildis. Gera verður ráð fyrir að slík heimild verði veitt þegar gripið er til gjaldskrárhækkana með stuttum fyrirvara en slík tilfelli ættu að vera undantekning.
    Gert er ráð fyrir að póstrekendur geti tekið við fjöldasendingum án þess að gjaldmerki sé sett á hverja einstaka sendingu en með því skilyrði að póstsendingarnar verði merktar sérstaklega með fjöldasendingarmerki og að þær verði dagstimplaðar.
    Í 3. mgr. er sett í lög að allar póstsendingar í alþjónustu skuli dagstimplaðar eins fljótt og hægt er eftir móttöku en taka má tillit til hagkvæmni rekstrarleyfishafa við framkvæmd dagstimplunar. Dagstimplun er talin vera mikilvægur þáttur póstþjónustu þar eð hún gefur til kynna hvenær sendandi afhenti rekstrarleyfishafa viðkomandi sendingu. Sú dagsetning getur verið allt önnur en dagsetning innihalds. Þess munu t.d. vera dæmi að mikilvægar tilkynningar hafi verið afhentar í póst löngu eftir að þær eru dagsettar en það er ekki hægt að sanna nema sendingin sé dagstimpluð. Einhver kostnaður fylgir þessu hjá rekstrarleyfishafa, en kostirnir eru hins vegar ótvíræðir fyrir notendur póstþjónustu.
    Í 4. mgr. er að finna ákvæði 23. og 25. gr. gildandi laga. Seinna ákvæðinu hefur verið breytt á þann veg að gert er ráð fyrir að reglur um bréfakassa og bréfarifur verði að finna í byggingarreglugerð en ekki í reglugerð samgönguráðherra.
    Fimmta málsgrein er efnislega eins og 24. gr. gildandi laga. Sömuleiðis er í 6. mgr. ákvæði 26. gr. gildandi laga en bætt hefur verið við ákvæði sem tryggir sendanda ráðstöfunarrétt yfir póstsendingu þangað til að hún hefur verið afhent viðtakanda. Þannig getur hann gefið póstrekanda ný fyrirmæli, t.d. um endursendingu ef svo ber undir eða um að breyta heimilisfangi viðtakanda. Eðlilegt þykir að heimila póstrekanda að taka aukagjald vegna vinnu sem hlýst af nýjum fyrirmælum sendanda.

Um 32. gr.

    Ákvæði um vanskilasendingar koma í stað 29. gr. gildandi laga. Sá kostur hefur verið valinn að setja hér mikilvægustu ákvæðin í lög í stað þess að að veita samgönguráðherra sérstaka heimild til að setja reglugerð, sbr. þó 34. gr.
    Póstrekanda er lögð sú skylda á herðar að gera allar eðlilegar ráðstafanir til að koma póstsendingu til skila. Komi í ljós að skráðan viðtakanda er ekki að finna vegna ófullnægjandi eða rangs heimilisfangs ber póstrekanda að endursenda póstsendinguna til sendanda. Það hefur farið í vöxt að póstsendingar séu stílaðar á heimilisfang innan lands þó að viðtakandi sé fluttur til útlanda enda sparar sendandi á því í burðargjaldi. Hér hefur verið bætt við sérstöku ákvæði sem heimilar póstrekanda að endursenda slíkar póstsendingar til sendanda. Sams konar ákvæði er um ógreiddar eða vangreiddar póstsendingar. Ef ekki er hægt að endursenda vanskilasendingu vegna ónógra upplýsinga á umbúðum póstsendingar er heimilt að opna sendinguna ef upplýsingar um sendanda skyldi vera að finna í innihaldinu. Vegna augljósrar hættu á misnotkun þessa ákvæðis er uppálagt að opnun póstsendinga af þessu tilefni skuli aðeins fara fram í viðurvist fulltrúa Póst- og fjarskiptastofnunar. Í 4. mgr. er sams konar ákvæði og í seinni málsgrein 29. gr. gildandi laga.

Um 33. gr.

    Ýmsa hluti er óheimilt að afhenda til sendingar með póstþjónustu. Í 1. mgr. er lagt bann við póstsendingum með innihaldi sem telst vera ólögmætt, ósæmilegt eða móðgandi fyrir viðtakanda. Með þessu er verið að gefa almennt til kynna hvað getur fallið undir óheimilar póstsendingar og verður að skoða þetta ákvæði sem mjög almenn skilaboð til sendenda. Síðan er gert ráð fyrir að samgönguráðherra birti í reglugerð um póstþjónustu lista yfir hluti sem flokkast undir ólögmætt innihald, t.d.eiturlyf og geðlyf. Póst- og fjarskiptastofnun skal samkvæmt frumvarpinu semja sundurliðaðan lista yfir þessa hluti og verða póstrekendur skyldaðir til að upplýsa starfsfólk sitt um listann. Enn fremur er gert ráð fyrir að listinn verði sendur Alþjóðapóstsambandinu til þess að ljóst sé á alþjóðavettvangi hvaða sendingar teljast ólögmætar hér á landi. Í 4. mgr. er efnislega óbreytt ákvæði 28. gr. gildandi laga.

Um 34. gr.

    Fyrsti hluti greinarinnar fjallar almennt um umbúðir póstsendinga og veitir póstrekendum heimild til að hafna póstsendingum ef talin er hætta á því að umbúðir og innihald geti skemmst í meðförum vegna lélegs frágangs. Síðan segir að skilyrða megi móttöku sendinga með innihaldi sem getur valdið skaða, smiti eða veikindum því að rétt sé búið um sendinguna og hún merkt sérstaklega. Nefnd eru ákveðin dæmi um innihald af þessu tagi en gert er ráð fyrir að nánari reglur um slíkar sendingar verði settar í reglugerð. Verða þar höfð til hliðsjónar ákvæði alþjóðapóstsamningsins. Reglur þessar eiga að vera öllum aðgengilegar og er Póst- og fjarskiptastofnun falið að upplýsa erlendar eftirlitsstofnanir um þær takmarkanir sem hér gilda og afla upplýsinga um samsvarandi reglur erlendis þannig að sendendum megi vera ljóst hvað má senda í pósti til annarra landa.

Um 35. gr.

    Greinin leggur fyrir samgönguráðherra að setja reglugerð um frekari útfærslu 31.–33. gr.

Um 36. gr.

    Greinin er nýmæli um skyldu póstrekenda til í fyrsta lagi að veita Póst- og fjarskiptastofnun tölfræðilegar upplýsingar um starfsemi sína og eru í greininni nefndar sem dæmi ýmsar upplýsingar af þessu tagi. Mjög erfitt hefur reynst að fá upplýsingar um ýmsa þætti póststarfsemi hjá póstrekendum vegna þess að vantað hefur lagaheimild til þess að krefjast upplýsinganna, m.a. hefur ekki verið hægt að fá upplýsingar um umfang póstþjónustu á Íslandi til birtingar í ritum Alþjóðapóstsambandsins. Í öðru lagi skulu þeir veita upplýsingar um rekstur og fjárhag til þess að hafa megi eftirlit með gjaldskrá fyrir póstþjónustu rekstrarleyfishafa. Sérákvæði er um skyldur einkaréttarhafa í þessu sambandi þar eð Póst- og fjarskiptastofnun ber að fara yfir kostnaðargrundvöll fyrir gjaldskrá í einkarétti. Sömuleiðis er talið nauðsynlegt að stofnunin eða löggiltir endurskoðendur í umboði hennar hafi aðgang að bókhaldi rekstrarleyfishafa í sambandi við alþjónustu og á það einkum við þegar óskað er eftir fjárframlögum úr jöfnunarsjóði, sbr. 27. gr. Með 3. mgr. eru rekstrarleyfishafar skyldaðir til að láta í té upplýsingar um gæði póstþjónustu, sbr. 22. gr.

Um 37. gr.

    Sú breyting er gerð á kaflanum um skaðabætur frá gildandi lögum að ákvæði hans gilda um alla póstþjónustu nema annað sé tekið fram en ekki einungis til grunnpóstþjónustu, nú alþjónustu, eins og í gildandi lögum. Greinin er efnislega eins og 2. mgr. 35. gr. gildandi laga.

Um 38. gr.

    Hér segir að almennar póstsendingar skuli vera undanþegnar skaðabótaskyldu ef þær glatast að öllu eða einhverju leyti. Með almennum sendingum er hér átt við póstsendingar aðrar en nefndar eru í 39.–40. gr. Ákvæðið felur í sér nánari skilgreiningu á ákvæði 1. mgr. 35. gr. gildandi laga.

Um 39. gr.

    Greinin er efnislega samhljóða 36. gr. gildandi laga og gerir grein fyrir bótaskyldu vegna glataðra eða skemmdra ábyrgðarsendinga og böggla.

Um 40. gr.

    Efnislega er greinin nær óbreytt frá 37. gr. gildandi laga. Í stað hugtaksins verðsending er nú notað tryggð sending enda meira í samræmi við þjónustuna eins og hún er veitt.

Um 41. gr.

    Miðað við samsvarandi grein í gildandi lögum, 38. gr., hefur orðalag um skaðabótaskyldu verið hert þannig að ekki leiki neinn vafi á skyldu póstrekanda til að greiða skaðabætur þegar tilefni er til.

Um 42. gr.

    Greinin er efnislega óbreytt frá 39. gr. gildandi laga.

Um 43. gr.

    Greinin er að mestu leyti samhljóða 40. gr. gildandi laga en gildissvið hennar skýrt að því leyti að tekið er fram að ákvæðið nái til glataðra sendinga.

Um 44. gr.

    Efni þessarar greinar er mjög líkt 41. gr. gildandi laga en orðaröð hefur verið breytt.

Um 45. gr.

    Frestur til að krefjast greiðslu skaðabóta hefur verið styttur úr einu ári í sex mánuði í samræmi við alþjóðapóstsamninginn.

Um 46. gr.

    Greinin er samhljóða 32. gr. í gildandi lögum nema ekki er lengur kveðið á um að þeir sem ákvæðið beinist að séu ráðnir með ráðningarsamningi eða verksamningi. Ákvæðið nær eftir þessa breytingu til allra sem starfa við póstþjónustu, sama með hvaða hætti það er.

Um 47. gr.

    Greinin er að mestu leyti samhljóða 33. gr. gildandi laga. Þó hefur verið bætt inn ákvæði um viðurvist fulltrúa Póst- og fjarskiptastofnunar þegar vanskilasendingar eru opnaðar, sbr. 32. gr. Þá er póstrekanda gert að skyldu að skrá þær sendingar sem hann opnar með heimild samkvæmt greininni. Enn fremur hefur verið felld niður tilvísun í setningu reglugerðar um póstleynd og opnun póstsendinga þar eð talið er að ákvæði greinarinnar séu tæmandi.

Um 48. gr.

    Hér er um að ræða nýmæli sem nauðsynlegt er að innleiða í lög um póstþjónustu þar sem starfsmenn Íslandspósts eru ekki lengur opinberir starfsmenn og falla þess vegna ekki undir ákvæði 137. gr. almennra hegningalaga.

Um 49. gr.

    Hér er annað nýmæli sem skyldar póstrekendur til að kynna starfsfólki sínu, svo og verktökum sem þeir fela hluta af póstþjónustu sinni, ákvæði um póstleynd og undanþágur sem veittar eru. Með hliðsjón af mikilvægi þess að notendur geti treyst því að póstleynd gildi um ýmsar sendingar verður að krefjast þess að starfsfólki póstrekenda sé kunnugt um þessar reglur.

Um 50. gr.

    Greinin er samhljóða 43. gr. gildandi laga.

Um 51. gr.

    Greinin er að mestu leyti samhljóða 44. gr. gildandi laga nema ákvæðið gildir samkvæmt frumvarpinu einungis fyrir rekstrarleyfishafa en ekki fyrir alla póstrekendur.

Um 52. gr.

    Greinin um viðurlög er óbreytt frá 45. gr. gildandi laga.

Um 53. gr.

    Greinin er efnislega óbreytt frá 46. gr. gildandi laga.

Um 54. gr.

    Gert er ráð fyrir að lögin taki gildi í ársbyrjun 2002 og samtímis falli úr gildi lög nr. 142/1996, með síðari breytingum.

Um viðauka.

    Hér er fjallað um gæðakröfur í sambandi við póstsendingar milli landa innan Evrópska efnahagssvæðinu í samræmi við viðauka við tilskipun 97/67/EB.
Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um póstþjónustu.

    Markmið frumvarpsins er að kveða skýrar á um rétt landsmanna til lágmarkspóstþjónustu og er í því sambandi tekið upp hugtakið alþjónusta í stað grunnpóstþjónusta sem er notað í núgildandi lögum. Í öðru lagi eru ákvæði um heimildir til að starfrækja póstþjónustu. Annars vegar er almenn heimild sem táknar skráningu póstrekenda eftir tilkynningu hans til Póst- og fjarskiptastofnunar og hins vegar rekstrarleyfi sem þarf til að veita alþjónustu. Í þriðja lagi eru ný ákvæði um gæði póstþjónustunnar. Í fjórða lagi er ákvæði um jöfnunarsjóð alþjónustu. Verði frumvarpið að lögum falla niður lög um póstþjónustu, nr. 142/1996, með síðari breytingum.
    Í 28. gr. frumvarpsins er kveðið á um jöfnunargjald sem skal innheimt af rekstrarleyfishöfum í hlutfalli við bókfærða veltu þeirra á sviði alþjónustu. Jafnframt segir að jöfnunargjaldið skuli ákveðið árlega með lögum. Verði frumvarpið að lögum óbreytt mun ekki koma til álagningar jöfnunargjalds á árinu 2003 þar sem leggja þarf fram sérstakt frumvarp þar að lútandi. Sé ætlunin að innheimta jöfnunargjald á árinu 2003 vegna bókfærðrar veltu ársins 2002 verður álagningarhlutfallið að lögfestast fyrir 1. janúar 2002.
    Samkvæmt 29. gr. frumvarpsins getur samgönguráðherra óskað eftir að lagt verði í framkvæmdir eða sértæka póstþjónustu sem ekki fellur undir alþjónustu. Verði kostnaður af þessari sértæku póstþjónustu skal honum mætt innan gildandi fjárlaga og útgjaldaramma samgönguráðuneytisins.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum verður ekki séð að það hafi kostnað í för með sér fyrir ríkissjóð. Ekki verður heldur séð af frumvarpinu að leggja eigi á jöfnunargjald vegna alþjónustunnar á árinu 2002 og því ekki gert ráð fyrir auknum tekjum. Ekki liggja fyrir áætlanir um hve miklum tekjum gjaldið mun skila verði það lagt á.