Ferill 185. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 192  —  185. mál.




Frumvarp til laga



um breyting á almennum hegningarlögum nr. 19 12. febrúar 1940 (kynferðisbrot gegn börnum).

(Lagt fyrir Alþingi á 127. löggjafarþingi 2001–2002.)



1. gr.


    Við 202. gr. laganna, sbr. 10. gr. laga nr. 40/1992, bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Hver sem greiðir barni eða ungmenni yngra en 18 ára endurgjald gegn því að hafa við það samræði eða önnur kynferðismök skal sæta fangelsi allt að 2 árum.

2. gr.

    Við 1. málsl. 4. mgr. 210. gr. laganna, sbr. 7. gr. laga nr. 39/2000, bætist: eða fangelsi allt að 2 árum ef brot er stórfellt.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


I.

    Frumvarp þetta er samið á vegum refsiréttarnefndar að tilhlutan dómsmálaráðherra. Með því eru lagðar til breytingar á ákvæðum almennra hegningarlaga, nr. 19 12. febrúar 1940, um kynferðisbrot gegn börnum. Miðar frumvarpið að því að veita börnum ríkari refsivernd gegn slíkum brotum.
    Kynferðisbrot hafa undanfarið verið til sérstakrar athugunar í dómsmálaráðuneytinu. Í tilefni af beiðni þingmanna skilaði dómsmálaráðherra ítarlegri skýrslu um samanburð á lagaumhverfi á Íslandi og annars staðar á Norðurlöndum varðandi löggjöf um klám, vændi o.fl. sem lögð var fyrir Alþingi á 126. löggjafarþingi. Í skýrslunni er greinargóð umfjöllun um réttarstöðuna að þessu leyti í hverju landanna fyrir sig. Tekur umfjöllunin meðal annars til barnakláms og vændis barna og ungmenna. Í niðurstöðukafla skýrslunnar er síðan löggjöf ríkjanna borin saman og fjallað um þau álitaefni sem sá samanburður gefur tilefni til.
    Auk umræddrar skýrslu um samanburð á norrænni löggjöf um klám og vændi var á vegum dómsmálaráðuneytisins í upphafi árs 2001 tekin saman skýrsla um vændi á Íslandi og félagslegt umhverfi þess. Sú skýrsla var unnin af rannsóknarmiðstöðinni Rannsóknir og greining og var reist á rannsókn á vændi hér á landi og í hvaða myndum það birtist. Var rannsóknin framkvæmd með viðtölum við sérfræðinga sem kynnst hafa vændi í störfum sínum og einstaklinga sem kynnst hafa vændi af eigin raun. Í skýrslunni er meðal annars að finna sérstaka umfjöllun um vændi barna.
    Frumvarp þetta er afrakstur af því starfi sem hér hefur verið gerð grein fyrir. Með frumvarpinu er lagt til mælt verði fyrir um refsinæmi þess að kaupa kynlífsþjónustu af börnum og ungmennum. Einnig er lagt til að þyngri refsingar verði lagðar við því að flytja inn eða hafa í vörslum sínum efni sem hefur að geyma barnaklám.
    Á vegum ráðuneytisins er fyrirhuguð frekari endurskoðun á ákvæðum XXII. kafla almennra hegningarlaga varðandi kynferðisbrot gegn börnum. Í því sambandi má geta þess að dómsmálaráðherra skipaði í apríl 2001 nefnd til að gera tillögur um viðbrögð við niðurstöðum fyrrgreindrar rannsóknar á vændi og félagslegu umhverfi þess. Meðal annars var nefndinni falið að kanna hvort unnt væri að veita börnum og ungmennum ríkari refsivernd gegn kynferðisbrotum. Að fengnum tillögum þessarar nefndar mun verða hugað að frekari lagabreytingum á þessu sviði.

II.

    Í lögum er ekki beinlínis mælt fyrir um refsinæmi þess að kaupa kynlífsþjónustu af einstaklingi yngri en 18 ára. Slík refsiákvæði hafa hins vegar verið lögfest annars staðar á Norðurlöndum. Í Danmörku var með lögum frá árinu 1999 nýju ákvæði bætt við dönsku hegningarlögin í 233. gr. a þar sem lýst er refsiverðum kaupum á kynlífsþjónustu af einstaklingi yngri en 18 ára sem að hluta til eða að öllu leyti hefur viðurværi sitt af vændi. Viðurlög við slíku broti geta verið sektir, varðhald eða fangelsi allt að tveimur árum. Í Noregi var með lögum frá árinu 2000 lögfest í 203. gr. norsku hegningarlaganna fortakslaust bann við kaupum á vændisþjónustu af einstaklingi yngri en 18 ára. Getur slíkt brot varðað sektum eða fangelsi allt að tveimur árum. Skv. 8. gr. 20. kafla finnsku hegningarlaganna varðar sektum eða fangelsi allt að sex mánuðum að greiða einstaklingi yngri en 18 ára fyrir kynlífsþjónustu. Þetta ákvæði kom nýtt inn í lögin með breytingarlögum frá árinu 1998. Í Svíþjóð hefur verið refsivert allt frá árinu 1965 að kaupa vændisþjónustu af börnum eða ungmennum yngri en 18 ára, sbr. 10. gr. í 6. kafla sænsku hegningarlaganna. Varðar slíkt brot sektum eða fangelsi allt að sex mánuðum.
    Í athugasemdum með frumvörpum til laga um refsinæmi þess að kaupa kynlífsþjónustu af börnum, sem orðið hafa að lögum í Danmörku, Noregi og Finnlandi á undanförnum árum, kemur meðal annars fram að bannið sé liður í því að vernda börn og spyrna gegn kynferðislegri misnotkun þeirra sem útbreidd sé víða um heim. Einnig sé þetta í samræmi við alþjóðlegt samstarf á þessu sviði sem hafi það markmið að vinna gegn kynferðislegri misnotkun barna. Með þessu sé vonast til að draga megi úr eftirspurn eftir kynlífsþjónustu þessa aldurshóps. Þá kemur fram að gera verði greinarmun á því hvort börn stundi vændi eða fullorðnir. Börn hafi venjulega ekki nægan þroska til að meta áhrif gerða sinna til lengri tíma, auk þess sem hættara sé við að þau séu misnotuð af vændismiðlurum.
    Kaup á kynlífsþjónustu barna geta varðað refsingum samkvæmt íslenskum refsilögum. Þannig kann slík háttsemi að varða við 2. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga en þar segir að hver sem með blekkingum, gjöfum eða á annan hátt tæli ungmenni á aldrinum 14–16 ára til samræðis eða annarra kynferðismaka skuli sæta fangelsi allt að fjórum árum. Einnig getur greiðsla til barns fyrir kynlífsþjónustu varðað við 65. gr. barnaverndarlaga, nr. 58/1992, en þar segir að hver sem hvetji barn til lauslætis eða leiði það með öðrum hætti á siðferðilega glapstigu skuli sæta sektum eða fangelsi allt að fjórum árum. Þá er vitanlega það eitt að eiga kynferðisleg samskipti við ung börn refsivert. Varðar allt að 12 ára fangelsi að hafa samræði eða önnur kynferðismök við barn yngra en 14 ára, en önnur kynferðisleg áreitni varðar fangelsi allt að fjórum árum, sbr. 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga.
    Með frumvarpi þessu er lagt til að lögfest verði ákvæði um refsinæmi þess að greiða barni eða ungmenni yngra en 18 ára endurgjald gegn því að hafa við það samræði eða önnur kynferðismök. Með þessu verður börnum veitt aukin refsivernd miðað við gildandi löggjöf þar sem bannið er fortakslaust og verknaður refsiverður án tillits til þess hvort barn hafi verið táldregið eða leitt á siðferðilega glapstigu. Einnig felur ákvæðið í sér rýmri refsivernd þar sem aldursmörk þess ná til 18 ára aldurs í stað 16 ára skv. 2. mgr. 202. gr. hegningarlaga. Þá þykir rétt að slíkur verknaður verði lýstur refsiverður í almennum hegningarlögum og er það í samræmi við lagasetningu annars staðar á Norðurlöndum svo sem áður er rakið. Með því er lögð sérstök áhersla á alvarleika þessara brota.
    Þótt ekki sé ástæða til að ætla að barnavændi hafi verið stundað í miklum mæli hér á landi þykir allt að einu brýnt að gefa þessum vanda sérstakan gaum og grípa til fyrirbyggjandi ráðstafana. Með því er einnig verið að taka þátt í alþjóðlegri samstöðu gegn hvers konar kynferðislegri misnotkun barna. Í þessu sambandi má nefna að aðildarríki að samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins frá 20. nóvember 1989, sem fullgiltur hefur verið af Íslands hálfu, hafa skuldbundið sig til að vernda börn gegn hvers kyns kynferðislegri notkun eða misnotkun í kynferðislegum tilgangi. Í því skyni ber ríkjunum meðal annars að gera allt sem við á, bæði innan lands og með tvíhliða og marghliða ráðstöfunum, til að koma í veg fyrir að barn sé talið á eða þvingað til að taka þátt í hvers konar ólögmætri kynferðislegri háttsemi eða notað til vændis eða annarra ólögmætra kynferðisathafna, sbr. 34. gr. samningsins.
    Samkvæmt frumvarpinu er refsinæmi brots bundið við að barni eða ungmenni yngra en 18 ára hafi verið greitt endurgjald gegn því að hafa við það samræði eða önnur kynferðismök. Endurgjald sem innt er af hendi getur hvort heldur sem er verið fé eða önnur verðmæti. Engu breytir um refsinæmi verknaðar hvort endurgjald er greitt af geranda eða þriðja manni. Einnig er verknaður refsiverður án tillits til þess hvort barnið eða sá sem innir greiðslu af hendi á frumkvæði að kynferðislegum samskiptum. Þá er ekki skilyrði refsinæmis að brotið sé liður í meira eða minna skipulagðri vændisþjónustu og því er verknaður refsiverður þótt um einstakan atburð sé að ræða. Að þessu leyti er refsiverndin rýmri en í hliðstæðu ákvæði dönsku hegningarlaganna.
    Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að brot sé saknæmt ef það er framið af ásetningi, sbr. 18. gr. almennra hegningarlaga. Af 204. gr. laganna leiðir þó að unnt verður að refsa fyrir brot sem framið er í gáleysi um aldur þess sem fyrir broti verður.

III.

    Samkvæmt 4. mgr. 210. gr. almennra hegningarlaga, svo sem því ákvæði var breytt með lögum nr. 39/2000, skal hver sá sem flytur inn eða hefur í vörslu sinni ljósmyndir, kvikmyndir eða sambærilega hluti sem sýna börn á kynferðislegan eða klámfenginn hátt sæta sektum. Sömu refsingu varðar að flytja inn eða hafa í vörslu sinni ljósmyndir, kvikmyndir eða sambærilega hluti sem sýna börn í kynferðisathöfnum með dýrum eða nota hluti á klámfenginn hátt.
    Þetta ákvæði hegningarlaganna er frábrugðið hliðstæðum ákvæðum í norrænni refsilöggjöf að því leyti að refsingar geta ekki orðið þyngri en sektir. Samkvæmt 2. mgr. 235. gr. dönsku hegningarlaganna geta viðurlög við því að hafa í vörslum sínum efni með barnaklámi verið varðhald eða fangelsi allt að sex mánuðum ef sérstakar refsiþyngjandi ástæður eru fyrir hendi (skærpende omstændigheder). Samkvæmt 19. gr. í 17. kafla finnsku hegningarlaganna geta viðurlög við slíkum brotum einnig varðað allt að sex mánaða fangelsi. Refsingar í Noregi við þessum brotum geta hins vegar verið fangelsi í allt að tveimur árum, sbr. 1. mgr. 204. gr. norsku hegningarlaganna. Sömu refsingar eru lagðar við umræddum brotum í Svíþjóð, sbr. 1. mgr. 10. gr. a í 16. kafla sænsku hegningarlaganna. Þó skera sænsk refsilög sig úr að því leyti að sé um stórfellt barnaklámsbrot að ræða er lágmarksrefsing sex mánaða fangelsi og getur orðið allt að fjögurra ára fangelsi, sbr. 4. mgr. sömu greinar.
    Markmið þess að lýsa vörslur efnis með barnaklámi refsiverðar er að auka vernd barna gegn kynferðislegri misnotkun. Bann við því að hafa slíkt efni í vörslu sinni er talið geta dregið úr eða jafnvel fyrirbyggt kynferðislega misnotkun barna í tengslum við gerð slíks efnis. Að virtu þessu og alvarleika þessara brota þykir nauðsynlegt að þau geti varðað þyngri refsingum. Er þá einnig litið til þess að gera má ráð fyrir auknum varnaðaráhrifum samfara því að leggja fangelsisrefsingu við broti. Samkvæmt þessu er því lagt til að refsingar við þessum brotum geti varðað allt að tveggja ára fangelsi. Eingöngu er þó lagt til að fangelsisrefsing verði dæmd þegar brot er stórfellt en mat á því ræðst einkum af grófleika og magni efnis í hverju tilviki fyrir sig.



Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breyting á almennum hegningarlögum,
nr. 19 12. febrúar 1940.

    Með frumvarpinu er lögð til breyting á almennum hegningarlögum til að veita börnum aukna refsivernd gegn kynferðisbrotum. Ekki er gert ráð fyrir að lögfesting frumvarpsins hafi áhrif á útgjöld ríkissjóðs.