Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 953, 115. löggjafarþing 58. mál: almenn hegningarlög (kynferðisbrot).
Lög nr. 40 26. maí 1992.

Lög um breyting á almennum hegningarlögum, nr. 19 12. febrúar 1940.


1. gr.

     Heiti XXII. kafla breytist svo að í stað „ Skírlífisbrot“ komi: Kynferðisbrot.

2. gr.

     194. gr. orðist svo:
     Hver sem með ofbeldi eða hótun um ofbeldi þröngvar manni til holdlegs samræðis eða annarra kynferðismaka skal sæta fangelsi ekki skemur en 1 ár og allt að 16 árum. Til ofbeldis telst svipting sjálfræðis með innilokun, lyfjum eða öðrum sambærilegum hætti.

3. gr.

     195. gr. orðist svo:
     Hver sem með annars konar ólögmætri nauðung þröngvar manni til samræðis eða annarra kynferðismaka skal sæta fangelsi allt að 6 árum.

4. gr.

     196. gr. orðist svo:
     Hver sem notfærir sér geðveiki eða aðra andlega annmarka manns til þess að hafa við hann samræði eða önnur kynferðismök, eða þannig er ástatt um hann að öðru leyti að hann getur ekki spornað við verknaðinum eða skilið þýðingu hans, skal sæta fangelsi allt að 6 árum.

5. gr.

     197. gr. orðist svo:
     Ef umsjónarmaður eða starfsmaður í fangelsi, geðsjúkrahúsi, vistheimili, uppeldisstofnun eða annarri slíkri stofnun hefur samræði eða önnur kynferðismök við vistmann á stofnuninni varðar það fangelsi allt að 4 árum.

6. gr.

     198. gr. orðist svo:
     Hver sem hefur samræði eða önnur kynferðismök við mann utan hjónabands eða óvígðrar sambúðar með því að misnota freklega þá aðstöðu sína að hann er honum háður fjárhagslega, í atvinnu sinni eða sem skjólstæðingur hans í trúnaðarsambandi skal sæta fangelsi allt að 3 árum eða, sé maðurinn yngri en 18 ára, allt að 6 árum. Önnur kynferðisleg áreitni varðar fangelsi allt að 2 árum.

7. gr.

     199. gr. orðist svo:
     Hver sem hefur samræði eða önnur kynferðismök við mann sem heldur ranglega að mökin eigi sér stað í hjónabandi eða óvígðri sambúð eða hann er í þeirri villu að hann eigi mök við einhvern annan skal sæta fangelsi allt að 6 árum.
     Sömu refsingu varðar það ef samræði eða önnur kynferðismök eiga sér stað vegna þeirrar blekkingar að um læknisfræðilega eða aðra vísindalega meðferð sé að ræða.

8. gr.

     200. gr. orðist svo:
     Hver sem hefur samræði eða önnur kynferðismök við barn sitt eða annan niðja skal sæta fangelsi allt að 6 árum og allt að 10 ára fangelsi sé barnið yngra en 16 ára.
     Önnur kynferðisleg áreitni manns gagnvart barni sínu eða öðrum niðja en sú er greinir í 1. mgr. varðar allt að 2 ára fangelsi og allt að 4 ára fangelsi sé barnið yngra en 16 ára.
     Samræði eða önnur kynferðismök milli systkina varða fangelsi allt að 4 árum. Hafi annað systkina eða bæði ekki náð 18 ára aldri þegar verknaður átti sér stað má ákveða að refsing falli niður að því er þau varðar.

9. gr.

     201. gr. orðist svo:
     Hver sem hefur samræði eða önnur kynferðismök við barn eða ungmenni, yngra en 18 ára, sem er kjörbarn hans, stjúpbarn, fósturbarn, sambúðarbarn eða ungmenni, sem honum hefur verið trúað fyrir til kennslu eða uppeldis, skal sæta fangelsi allt að 6 árum og allt að 10 ára fangelsi sé barn yngra en 16 ára.
     Önnur kynferðisleg áreitni en sú sem greinir í 1. mgr. varðar fangelsi allt að 2 árum og allt að 4 ára fangelsi sé barnið yngra en 16 ára.

10. gr.

     202. gr. orðist svo:
     Hver sem hefur samræði eða önnur kynferðismök við barn, yngra en 14 ára, skal sæta fangelsi allt að 12 árum. Önnur kynferðisleg áreitni varðar fangelsi allt að 4 árum.
     Hver sem með blekkingum, gjöfum eða á annan hátt tælir ungmenni á aldrinum 14–16 ára til samræðis eða annarra kynferðismaka skal sæta fangelsi allt að 4 árum.

11. gr.

     204. gr. orðist svo:
     Hafi brot skv. 201. eða 202. gr. verið framið í gáleysi um aldur þess er fyrir broti varð skal beita vægari refsingu að tiltölu sem þó má ekki fara niður úr lægsta stigi refsivistar.

12. gr.

     205. gr. orðist svo:
     Refsing skv. 194.–199., 202. og 204. gr. má falla niður ef karl og kona, er kynferðismökin hafa gerst í milli, hafa síðar gengið að eigast eða tekið upp óvígða sambúð eða, ef þau voru þá í hjónabandi eða óvígðri sambúð, hafa eftir það tekið upp eða haldið áfram sambúð.

13. gr.

     206. gr. orðist svo:
     Hver sem stundar vændi sér til framfærslu skal sæta fangelsi allt að 2 árum.
     Hver sem hefur atvinnu eða viðurværi sitt af lauslæti annarra skal sæta fangelsi allt að 4 árum.
     Sömu refsingu varðar það að ginna, hvetja eða aðstoða ungmenni, yngra en 18 ára, til þess að hafa viðurværi sitt af lauslæti.
     Sömu refsingu varðar það einnig að stuðla að því að nokkur maður flytji úr landi eða til landsins í því skyni að hann hafi viðurværi sitt af lauslæti ef viðkomandi er yngri en 21 árs eða honum er ókunnugt um þennan tilgang fararinnar.
     Hver sem stuðlar að því með ginningum, hvatningum eða milligöngu að aðrir hafi holdlegt samræði eða önnur kynferðismök gegn greiðslu eða gerir sér lauslæti annarra að tekjulind, svo sem með útleigu húsnæðis eða öðru, skal sæta fangelsi allt að 4 árum en sektum eða varðhaldi ef málsbætur eru.

14. gr.

     208. gr. orðist svo:
     Nú hefur maður, sem sæta skal refsingu eftir 206. gr., áður verið dæmdur fyrir brot á þeirri grein, eða hann hefur áður verið dæmdur til fangelsisvistar fyrir auðgunarbrot, má þyngja refsingu svo að bætt sé við hana allt að helmingi hennar.

15. gr.

     209. gr. orðist svo:
     Hver sem með lostugu athæfi særir blygðunarsemi manna eða er til opinbers hneykslis skal sæta fangelsi allt að 4 árum, en varðhaldi eða sektum ef brot er smávægilegt.

16. gr.

     Úr 181. gr. falli niður orðin „eða lauslæti eða fær viðurværi sitt frá kvenmanni, sem hefur ofan af fyrir sér með lauslæti“.
     Enn fremur falli brott 190. gr., 203. gr. og 207. gr.

17. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 15. maí 1992.