Ferill 227. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 253  —  227. mál.
Frumvarp til kvikmyndalaga.
(Lagt fyrir Alþingi á 127. löggjafarþingi 2001–2002.)I. KAFLI


Markmið og yfirstjórn.


1. gr.


    Markmið laga þessara er að efla kvikmyndagerð og kvikmyndamenningu á Íslandi.
    Kvikmynd merkir í lögum þessum hvers kyns hreyfimyndaefni án tillits til þess með hvers konar tækni eða aðferðum það er framleitt.
    Íslensk kvikmynd í skilningi laga þessara er kvikmynd sem unnin er og kostuð af íslenskum aðilum eða er samstarfsverkefni íslenskra og erlendra aðila.

2. gr.

    Menntamálaráðherra fer með yfirstjórn kvikmyndamála samkvæmt lögum þessum.
    Kvikmyndaráð veitir stjórnvöldum ráðgjöf um kvikmyndamálefni og gerir tillögur til menntamálaráðherra um stefnu og markmið opinberra aðgerða á sviði kvikmyndalistar.
    Menntamálaráðherra skipar sjö fulltrúa í kvikmyndaráð til þriggja ára í senn, formann og varaformann án tilnefningar, en hina fimm samkvæmt tilnefningum eftirtalinna aðila: Félags kvikmyndagerðarmanna, Framleiðendafélagsins – SÍK, Samtaka kvikmyndaleikstjóra, Félags kvikmyndahúsaeigenda og Bandalags íslenskra listamanna. Varamenn skulu skipaðir með sama hætti. Sami maður verður ekki skipaður í sæti aðalmanns í kvikmyndaráð oftar en tvisvar samfleytt.

II. KAFLI
Kvikmyndamiðstöð Íslands.
3. gr.

    Verkefni Kvikmyndamiðstöðvar Íslands eru að:
     1.      Styrkja framleiðslu og dreifingu íslenskra kvikmynda.
     2.      Stuðla að kynningu, útbreiðslu og sölu á íslenskum kvikmyndum hér á landi og erlendis og afla upplýsinga um íslenskar kvikmyndir og gefa þær út.
     3.      Efla kvikmyndamenningu á Íslandi.
     4.      Stuðla að auknum samskiptum við erlenda aðila á sviði kvikmyndamála.

4. gr.

    Menntamálaráðherra skipar forstöðumann Kvikmyndamiðstöðvar Íslands til fimm ára í senn, að fenginni umsögn kvikmyndaráðs. Forstöðumaðurinn skal hafa staðgóða þekkingu á kvikmyndamálum og íslenskri menningu almennt.
    Forstöðumaðurinn fer með yfirstjórn Kvikmyndamiðstöðvar, er í fyrirsvari fyrir hana út á við, ber ábyrgð á rekstri hennar og að starfsemi hennar sé í samræmi við lög og stjórnvaldsfyrirmæli. Jafnframt annast forstöðumaðurinn ráðningar annarra starfsmanna Kvikmyndamiðstöðvarinnar.

5. gr.

    Tekjur Kvikmyndamiðstöðvar Íslands eru árlegt framlag í fjárlögum, vaxtatekjur og aðrar tekjur. Fjárveitingar til Kvikmyndasjóðs skulu sérgreindar í fjárlögum hverju sinni. Menntamálaráðherra gerir tillögur um fjárveitingar á grundvelli fjárhags- og starfsáætlunar Kvikmyndamiðstöðvarinnar til þriggja ára.

6. gr.

    Kvikmyndasjóður starfar á vegum Kvikmyndamiðstöðvar Íslands. Hlutverk Kvikmyndasjóðs er að efla íslenska kvikmyndagerð með fjárhagslegum stuðningi.
    Kvikmynd, sem styrkt er af Kvikmyndamiðstöð Íslands, skal hafa íslenska menningarlega skírskotun nema sérstök menningarleg rök leiði til annars.

7. gr.

    Forstöðumaður Kvikmyndamiðstöðvar Íslands tekur ákvörðun um veitingu fjárstuðnings úr Kvikmyndasjóði til undirbúnings, framleiðslu og/eða dreifingar íslenskra kvikmynda, hvort heldur er með styrkjum, lánum eða veitingu tímabundinna vilyrða um stuðning, svo sem kveðið er á um í reglugerð sem menntamálaráðherra setur að fenginni umsögn kvikmyndaráðs. Í reglugerðinni skulu sett ákvæði m.a. um undirbúning úthlutunar og greiðslur úr Kvikmyndasjóði. Þar skal enn fremur kveðið á um meginskiptingu fjárveitinga Kvikmyndasjóðs milli einstakra greina kvikmyndagerðar, skilyrði fyrir framlögum úr sjóðnum og veitingu vilyrða fyrir stuðningi, svo og um tilhögun mats á umsóknum, störfum úthlutunarnefnda og kvikmyndaráðgjafa.

III. KAFLI
Kvikmyndasafn Íslands.
8. gr.

    Hlutverk Kvikmyndasafns Íslands er að:
     1.      Safna, skrásetja og varðveita íslenskar kvikmyndir, samvinnuverkefni íslenskra og erlendra aðila og erlendar kvikmyndir sem teknar hafa verið á Íslandi, þ.m.t. að varðveita skilaskylt efni samkvæmt lögum um skilaskyldu til safna.
     2.      Hafa eftirlit með skylduskilum kvikmyndaefnis samkvæmt lögum um skilaskyldu til safna.
     3.      Standa fyrir sýningum á innlendri og erlendri kvikmyndalist.
     4.      Sjá um viðhald og endurgerðir á kvikmyndum safnsins.
     5.      Skapa fræðimönnum og fagmönnum aðstöðu til að stunda kvikmyndafræðilegar rannsóknir.
     6.      Efla kvikmyndamenningu á Íslandi.

9. gr.

    Menntamálaráðherra skipar forstöðumann Kvikmyndasafns Íslands til fimm ára í senn. Forstöðumaðurinn skal hafa staðgóða þekkingu á kvikmyndamálum og íslenskri menningarsögu.

10. gr.

    Framleiðendum kvikmynda sem hlotið hafa styrk úr Kvikmyndasjóði er skylt innan sjö ára frá frumsýningardegi að afhenda Kvikmyndasafni tvö eintök kvikmyndar og skal annað eintakið vera frumeintak eða ígildi þess, sem og annað efni er varðar kvikmyndina og varðveislugildi hefur. Nánar skal kveðið á um framkvæmd skila í reglugerð.

11. gr.

    Tekjur Kvikmyndasafns Íslands eru árlegt framlag í fjárlögum, vaxtatekjur og aðrar tekjur. Menntamálaráðherra gerir tillögur um fjárveitingar á grundvelli fjárhags- og starfsáætlunar Kvikmyndasafnsins til þriggja ára.
    Kvikmyndasafni Íslands er heimilt að taka gjald fyrir eftirtalda þætti þjónustunnar: Útlán á kvikmyndum, kvikmyndasýningar, sérvinnslu skráa og úttak tölvugagna, sérfræðilega heimildaþjónustu og hvers konar afritun og fjölföldun, til þess að standa straum af launum og efniskostnaði vegna þessara þátta. Gjaldskrá vegna þessarar þjónustu skal háð samþykki menntamálaráðherra.
    Kvikmyndasafn Íslands skal afla fullnægjandi heimilda rétthafa samkvæmt höfundalögum svo að markmið starfsemi Kvikmyndasafns nái fram að ganga.

IV. KAFLI
Önnur ákvæði.

12. gr.

    Menntamálaráðherra er heimilt að skipa markaðsnefnd kvikmynda til þriggja ára í senn er í sitji fulltrúar samkvæmt tilnefningum frá iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti, Kvikmyndamiðstöð Íslands, utanríkisráðuneyti og Útflutningsráði. Menntamálaráðherra skipar formann nefndarinnar. Varamenn skulu skipaðir með sama hætti.
    Hlutverk nefndarinnar er að veita innlendum og erlendum aðilum þjónustu er varðar gerð kvikmynda á Íslandi. Nefndinni er heimilt að kynna Ísland sem vettvang kvikmyndagerðar.
    Menntamálaráðherra setur nefndinni erindisbréf. Menntamálaráðherra er heimilt að fela Kvikmyndamiðstöð Íslands rekstur markaðsnefndarinnar með sérstökum samningi.

13. gr.

    Menntamálaráðherra setur í reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd laga þessara.

14. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2003 og skulu vera komin að fullu til framkvæmda 1. mars 2003. Um leið falla úr gildi lög um kvikmyndamál, nr. 94/1984, með síðari breytingum.

Ákvæði til bráðabirgða.

    Kvikmyndamiðstöð Íslands og Kvikmyndasafn Íslands taka við tekjum og eignum Kvikmyndasjóðs Íslands. Kvikmyndamiðstöð tekur við réttindum og skyldum Kvikmyndasjóðs gagnvart viðskiptavinum hans í samræmi við ákvæði laga þessara.
    Umboð núverandi stjórnar Kvikmyndasjóðs Íslands fellur niður frá gildistöku laga þessara.
    Framkvæmdastjóri Kvikmyndasjóðs Íslands er forstöðumaður Kvikmyndamiðstöðvar Íslands þar til nýr forstöðumaður hefur verið skipaður samkvæmt ákvæðum 4. gr., þó eigi lengur en til 1. mars 2003. Staða framkvæmdastjóra Kvikmyndasjóðs Íslands skal lögð niður frá og með þeim tíma er hann lætur af störfum.
    Núverandi safnstjóri Kvikmyndasafns Íslands gegnir störfum forstöðumanns Kvikmyndasafns Íslands þar til skipað hefur verið í embætti forstöðumanns að undangenginni auglýsingu.
    Lokið skal við að skipa í kvikmyndaráð skv. 2. gr. laga þessara fyrir 1. febrúar 2002.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er samið á vegum menntamálaráðuneytisins. Var það lagt fram á 126. löggjafarþingi (668. mál) en varð ekki útrætt. Engar efnislegar breytingar hafa verið gerðar á frumvarpinu fyrir framlagningu þess nú. Við gerð frumvarpsins var haft samráð við framkvæmdastjóra og stjórn Kvikmyndasjóðs Íslands og félög kvikmyndagerðar á Íslandi.
    Nýjum kvikmyndalögum er samkvæmt frumvarpinu ætlað að leysa af hólmi núgildandi lög um kvikmyndamál, nr. 94/1984, með síðari breytingum. Eitt meginmarkmið frumvarpsins er að skýra stjórnsýslulega framkvæmd af hálfu opinberra aðila til eflingar íslenskri kvikmyndamenningu.
    Helstu breytingar og nýmæli sem í frumvarpinu felast frá núgildandi löggjöf eru þessi:
     1.      Með frumvarpi þessu er lagt til að tvær stofnanir sinni þeim verkefnum er nú heyra undir Kvikmyndasjóð Íslands. Lagt er til að stofnuð verði Kvikmyndamiðstöð Íslands annars vegar er hafi með höndum verkefni sambærileg þeim er Kvikmyndasjóður Íslands hefur sinnt fyrir utan rekstur Kvikmyndasafns Íslands. – Starfsemi Kvikmyndasjóðs hefur aukist mjög á undanförnum árum og þykir heitið Kvikmyndamiðstöð Íslands lýsa betur margþættu hlutverki opinberra aðila varðandi stuðning við framleiðslu og dreifingu á íslenskum kvikmyndum. Nafnið Kvikmyndasjóður verður notað áfram um úthlutunarsjóð er starfar á vegum Kvikmyndamiðstöðvar til framleiðslu eða dreifingar íslenskra kvikmynda. Kvikmyndasafn Íslands sem nú heyrir undir Kvikmyndasjóð verði sjálfstæð stofnun.
     2.      Lagt er til að sett verði á laggirnar kvikmyndaráð opinberum aðilum til ráðgjafar um aðgerðir í kvikmyndamálum. Ráðið taki ekki ákvarðanir um stjórnsýsluleg eða fjárhagsleg málefni, enda eru þau á ábyrgð forstöðumanna Kvikmyndamiðstöðvar og Kvikmyndasafns á verksviði hvors um sig.
     3.      Breytt er ákvæðum um fyrirkomulag úthlutunar framlaga til kvikmyndagerðar. Forstöðumaður tekur endanlega ákvörðun um úthlutun framlaga í samræmi við ákvæði í reglugerð sem sett er að fenginni umsögn kvikmyndaráðs. Þykir nauðsynlegt að skapa stjórnvöldum meira svigrúm en nú er til að setja úthlutunarreglur um framlög úr Kvikmyndasjóði og bregðast þannig við breytilegum þörfum kvikmyndagerðar án þess að komi til lagabreytinga í hvert sinn. Öll fjármögnun kvikmyndagerðar hefur tekið stakkaskiptum síðustu ár, m.a. með tilkomu ýmissa alþjóðlegra kvikmyndasjóða og breyttrar úthlutunar úr sjóðum helstu nágrannaríkja, en íslenskir framleiðendur leita mikið til þeirra. Hefur þessi þróun leitt til aukinna tækifæra fyrir íslenska kvikmyndaframleiðendur og kvikmyndagerðarmenn á alþjóðlegum vettvangi. Er nauðsynlegt að lagalegt svigrúm sé fyrir hendi til að þau geti nýst.
     4.      Veitt er heimild fyrir markaðsnefnd sem gegni því hlutverki að auka atvinnu við kvikmyndagerð hér á landi.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Markmið laganna er að efla kvikmyndagerð á Íslandi í þeim tilgangi að kvikmyndir verði veigamikill þáttur í menningu íslensku þjóðarinnar.
    Skilgreining á kvikmynd í 2. mgr. tekur til allra tegunda kvikmynda án tillits til þess með hvaða tækni eða aðferðum kvikmynd er framleidd eða henni komið á framfæri við almenning. Er miðað við að frumvarpið taki m.a. til kvikmynda sem framleiddar eru með stafrænni tækni og dreift með nettengingum um tölvur, t.d. kvikmynda á geisladiskum, disklingum eða á öðru sambærilegu formi, sem og til sýningar á netinu. Eftir atvikum geta fallið undir þessa skilgreiningu svokölluð margmiðlunarverkefni, þ.e. samsetning margs konar efnis, t.d. texta, tals, tónlistar og annarra hljóða, tölvugrafíkur, myndlistar, ljósmynda, kvikmynda og margs fleira, ef myndmál vegur þungt í framsetningu efnis.
    Skilgreiningin á því hvað teljist íslensk kvikmynd byggist á því að hún sé unnin og kostuð af íslenskum aðilum eða sé samstarfsverkefni milli íslenskra og erlendra aðila. Ísland hefur gerst aðili að eftirtöldum alþjóðlegum samningum á sviði kvikmyndagerðar: Evrópusamningi um samframleiðslu kvikmyndaverka, sem samþykktur var í Strassborg 2. október 1992 en öðlaðist gildi á Íslandi 1. september 1997, og samframleiðslusamningi Íslands og Kanada, sem undirritaður var í Washington 15. október 1997 og öðlaðist gildi á Íslandi 2. febrúar 1998.

Um 2. gr.

    Í grein þessari er kveðið á um að yfirstjórn kvikmyndamála samkvæmt lögum þessum heyri stjórnarfarslega undir menntamálaráðherra og að sérstakt kvikmyndaráð skuli vera stjórnvöldum til ráðgjafar við mótun opinberrar stefnu og aðgerða á sviði kvikmyndamála. Gert er ráð fyrir að kvikmyndaráð sé skipað sjö mönnum, sömu fulltrúum og stjórn Kvikmyndasjóðs samkvæmt núgildandi lögum en menntamálaráðherra skipi nú einnig varaformann og við bætist fulltrúi Samtaka kvikmyndaleikstjóra. Ekki er lengur gert ráð fyrir tilnefningu fulltrúa Námsgagnastofnunar og Þjóðminjasafns Íslands, sem eiga nú aðild að stjórninni, þegar fjallað er um málefni er varða verksvið þessara stofnana. Hlutverk kvikmyndaráðs er að vera til ráðgjafar en það tekur ekki ákvarðanir um stjórnsýsluleg eða fjárhagsleg málefni.

Um 3. gr.

    Í grein þessari er fjallað um verkefni Kvikmyndamiðstöðvar Íslands og vísast til almennra athugasemda þar að lútandi. Kvikmyndasjóður Íslands hefur að hluta til gegnt því hlutverki sem hér er gerð tillaga um að verði lögfest, þ.e. að samræma störf og efla íslenska kvikmyndagerð og íslenska kvikmyndamenningu.
    Eitt meginmarkmið Kvikmyndamiðstöðvar Íslands er að stuðla að eflingu íslenskrar kvikmyndagerðar. Verkefni miðstöðvarinnar eru skilgreind með svipuðum hætti og í eldri lögum.

Um 4. gr.

    Greinin fjallar um forstöðumann Kvikmyndamiðstöðvar. Sem forstöðumaður ríkisstofnunar ber hann ábyrgð í samræmi við ákvæði laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, og laga nr. 88/1997, um fjárreiður ríkisins, að því er varðar forstöðumenn ríkisstofnana. Sett eru þau starfsgengisskilyrði að forstöðumaður hafi þekkingu á kvikmyndamálum og íslenskri menningu almennt.

Um 5. gr.

    Í greininni er kveðið á um að fjárveitingar til Kvikmyndamiðstöðvar skuli ákveðnar í fjárlögum á grundvelli fjárhags- og starfsáætlunar til þriggja ára. Slík áætlun hefur verið unnin með gerð árangursstjórnunarsamnings menntamálaráðuneytisins við Kvikmyndasjóð Íslands sem undirritaður var 30. desember 1999. Þá er í gildi samkomulag frá 19. desember 1998 milli menntamálaráðherra og fjármálaráðherra og samtaka í íslenskri kvikmyndagerð um stefnumörkun til að efla íslenska kvikmyndagerð. Urðu aðilar sammála um að stefna að því að árlega yrðu gerðar fimm leiknar íslenskar kvikmyndir í fullri lengd og að hlutfall framleiðslustyrks úr Kvikmyndasjóði af kostnaðaráætlun yrði 40%. Þá varð að samkomulagi að miða við 100 millj. kr. meðalframleiðslukostnað af hverri íslenskri kvikmynd í fullri lengd þannig að heildarframlag til framleiðslustyrkja vegna þessara mynda yrði allt að 200 millj. kr. árið 2002 að fengnu samþykki Alþingis við gerð fjárlaga ár hvert. Í samkomulaginu var einnig gert ráð fyrir að legðist Menningarsjóður útvarpsstöðva af samkvæmt nýsamþykktum útvarpslögum yrði stofnuð deild innan Kvikmyndasjóðs sem annaðist heimildamyndir, stuttmyndir, sjónvarpsmyndir og aðrar tegundir kvikmynda. Aðilar voru sammála um að stefna að því að Kvikmyndasjóður gæti varið 100 millj. kr. árlega til framleiðslustyrkja til slíkra verkefna. Þetta ákvæði kom til framkvæmda þegar Menningarsjóður útvarpsstöðva var lagður niður og hófust fjárveitingar samkvæmt því árið 2001 með 25 millj. kr. framlagi á fjárlögum.

Um 6. gr.

    Hlutverki Kvikmyndasjóðs er breytt frá því sem er í gildandi lögum í það að vera deild innan Kvikmyndamiðstöðvar sem veitir framlög til eflingar íslenskri kvikmyndagerð með styrkjum, lánum og vilyrðum.
    Í greininni er sett það skilyrði að kvikmynd sem styrkt er af Kvikmyndasjóði skuli hafa íslenska menningarlega skírskotun nema sérstök menningarleg rök leiði til annars. Í núgildandi lögum er byggt á þeirri skilgreiningu að með íslenskri kvikmyndagerð sé átt við verkefni þar sem íslenskir aðilar hafa forræði. Þá er gert ráð fyrir því að kvikmyndir sem hljóta styrk frá Kvikmyndasjóði séu gerðar með íslensku tali, nema sérstakar menningarlegar ástæður leiði til annars. Nú þegar eru til dæmi um slíkt, svo sem kvikmyndirnar Tár úr steini og María, sem voru að mestu leyti leiknar á þýsku, enda eðlilegar ástæður þar að baki. Þá styrkti Kvikmyndasjóður árið 1999 gerð kvikmyndarinnar Dancer in the Dark, eftir Lars von Trier, sem er að mestu leyti erlend kvikmynd og leikin á ensku, en ástæða þótti til að veita íslenskum meðframleiðanda styrk til að taka þátt í myndinni þar sem hún hefur íslenskt listrænt gildi. Myndin er dans- og söngvamynd og tónlist og söngtextar eftir Íslendinga (Björk Guðmundsdóttur og Sjón). Að öðru leyti er greinin efnislega samhljóða fyrri lögum að því er varðar verksvið hinnar opinberu kvikmyndastofnunar.

Um 7. gr.

    Í grein þessari er fjallað um úthlutun úr Kvikmyndasjóði. Í samræmi við rekstrarlega ábyrgð forstöðumanns Kvikmyndamiðstöðvar er það hans hlutverk að ákveða úthlutun úr Kvikmyndasjóði og skal kveðið á um í reglugerð með hvaða hætti úthlutanir skuli undirbúnar.
    Varðandi úthlutun úr Kvikmyndasjóði er tekið fram að stjórninni er heimilað að veita framlög til eflingar íslenskri kvikmyndagerð, hvort heldur er í formi styrkja, lána eða vilyrða, en vilyrði eru styrkloforð veitt eitt ár fram í tímann. Árið skal sá sem vilyrðið hlýtur nota til að ná fullri fjármögnun til kvikmyndarinnar. Náist það markmið ekki fellur vilyrðið niður. Er talið eðlilegt að lögbinda það fyrirkomulag sem hefur tíðkast undanfarin ár og þótt takast vel. Fær forstöðumaður með þessu móti nokkurt svigrúm til að ákveða hvers konar framlög falli best að einstökum kvikmyndaverkefnum. Að öðru leyti vísast til athugasemda við 9. og 10. gr.
    Mikilvægt er að í reglugerð þeirri sem sett verður að fenginni umsögn kvikmyndaráðs verði byggt á því markmiði að veita framlög til allra tegunda kvikmynda. Þá skal í reglugerð nánar kveðið á um meginskiptingu framlaga úr Kvikmyndasjóði til einstakra greina kvikmyndagerðar, þ.m.t. til leikinna kvikmynda, heimildamynda, stuttmynda, teiknimynda, innlendrar dagskrárgerðar fyrir sjónvarp og annarra tegunda hreyfimynda, sbr. 2. mgr. 1. gr., þ.m.t. framlög til margmiðlunarverkefna, enda falli þau undir skilgreiningu 2. mgr. 1. gr., hvort sem er til undirbúnings þeirra, framleiðslu eða dreifingar.
    Framlög úr Kvikmyndasjóði geta runnið til íslenskrar kvikmyndagerðar á hvaða stigi framleiðslu hennar eða dreifingar sem er. Heimilt er að veita framlög til markaðssetningar og kynningar kvikmynda. Framlög geta verið styrkir, lán eða vilyrði.
    Í reglugerð er heimilt að kveða á um skipan sérstakra úthlutunarnefnda sem og ráðningu kvikmyndaráðgjafa. Er hér lagt til að fallið verði frá þeirri tilhögun samkvæmt núgildandi lögum að sérstök úthlutunarnefnd annist úthlutun úr Kvikmyndasjóði og þess í stað veitt svigrúm til þess að ákveða tilhögun undirbúnings úthlutunar án þess að koma þurfi til lagabreyting í hvert sinn auk þess sem mögulegt er að úthluta til kvikmyndagerðar oftar en einu sinni á ári. Það gefur enn fremur svigrúm til þess að fela sérstökum kvikmyndaráðgjöfum að meta listrænt gildi kvikmyndaverkefna, aðstoða við undirbúning úthlutunar fjárframlaga til einstakra verkefna eða vera forstöðumanni til aðstoðar við einstök verkefni sem hann hefur tekið ákvörðun um að styðja. Fyrirmyndin er sótt m.a. til Norðurlanda þar sem slík tilhögun hefur þótt gefast vel. Forstöðumaður setur kvikmyndaráðgjafa erindisbréf innan ramma gildandi laga og reglugerða og ber hann ábyrgð í starfi sínu gagnvart forstöðumanni.

Um 8. og 9. gr.

    Nokkuð ítarlegri ákvæði eru í frumvarpinu um hlutverk og starfssvið Kvikmyndasafns en í gildandi lögum. Jafnframt er vikið í þessari grein að sérstöku hlutverki Kvikmyndasafns Íslands samkvæmt ákvæðum laga um skylduskil til safna, en frumvarp þess efnis hefur verið lagt fyrir Alþingi. Lagt er til að Kvikmyndasafn Íslands verði rekstrarlega sjálfstæð stofnun en tilheyri ekki rekstri Kvikmyndamiðstöðvar Íslands og forstöðumaður beri ábyrgð á rekstri safnsins í samræmi við ákvæði starfsmannalaga og fjárreiðulaga.

Um 10. gr.

    Þessi grein er nýmæli. Með henni er gert lögskylt að afhenda Kvikmyndasafni tvö eintök kvikmyndar en í gildandi lögum er um heimildarákvæði að ræða. Gert er ráð fyrir að nánar verði kveðið á um skylduskilin í reglugerð eða lögum um skylduskil til safna.

Um 11. gr.

    Ákvæðið er efnislega óbreytt frá gildandi lögum en áréttað að safnið skuli afla heimilda rétthafa samkvæmt höfundalögum svo að markmiðum starfsemi Kvikmyndasafns verði náð. Þá er í greininni kveðið á um gjaldtökuheimildir stofnunarinnar.

Um 12. gr.

    Svokallaðar markaðsnefndir kvikmynda eru starfandi í flestum Evrópulöndum og í einstökum ríkjum Bandaríkjanna. Þær hafa það hlutverk að gera viðkomandi lönd eða borgir að sögusviði eða upptökustað erlendra kvikmynda, bæði í þeim tilgangi að auka atvinnu við kvikmyndagerð á viðkomandi stað og að koma landinu á framfæri við áhorfendur hvarvetna í heiminum. Nú þegar hafa ýmis íslensk fyrirtæki sérhæft sig í þjónustu við erlend kvikmyndafyrirtæki og gæti markaðsnefndin nýst þessum fyrirtækjum við frekari eflingu á þessu sviði.

Um 13. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringar.

Um 14. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringar. Vegna þess að skipun framkvæmdastjóra Kvikmyndamiðstöðvar Íslands krefst nokkurs undirbúnings er gert ráð fyrir að lög þessi komi ekki til fullra framkvæmda fyrr en 1. mars 2003.

Um ákvæði til bráðabirgða.

    Í ákvæði til bráðabirgða eru settar skýrar reglur um hvernig standa skuli að undirbúningi skipunar fyrstu stjórnar Kvikmyndamiðstöðvar Íslands og skipun forstöðumanna Kvikmyndamiðstöðvar og Kvikmyndasafns.


Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til kvikmyndalaga.

    Í frumvarpinu eru lagðar til ýmsar breytingar á stjórnsýslulegri framkvæmd ríkisins á kvikmyndamálum og lögbundnar skyldur þess auknar. Eftirfarandi nýmæli í frumvarpinu gætu haft áhrif á kostnað ríkisins:
    Lagt er til að stofnað verði sjö manna kvikmyndaráð í stað núverandi fimm manna stjórnar Kvikmyndasjóðs Íslands. Áætlað er að þessu fylgi 0,2 m.kr. aukin útgjöld á ári.
    Lagt er til að meðferð umsókna og fyrirkomulagi úthlutunar verði breytt. Í stað þriggja manna úthlutunarnefndar samkvæmt gildandi lögum ákveði forstöðumaður Kvikmyndamiðstöðvar Íslands styrkina í samræmi við nánari reglur sem kveðið verður á um í reglugerð sem menntamálaráðherra setur. Í reglugerðinni verður m.a. kveðið á um störf úthlutunarnefnda og kvikmyndaráðgjafa. Ekki eru forsendur til að meta áhrif breytts fyrirkomulags á útgjöld ríkisins.
    Kvikmyndamiðstöð Íslands mun samkvæmt frumvarpinu annast sambærileg verkefni og Kvikmyndasjóður Íslands gerir samkvæmt gildandi lögum séu verkefni kvikmyndasafns undanskilin. Fjármálaráðuneytið telur að breytt orðalag í upptalningu verkefna gefi ekki tilefni til að auka útgjöld.
    Frumvarpið felur í sér að Kvikmyndasafn Íslands verði gert að sérstakri ríkisstofnun og lögbundið hlutverk þess aukið, en safnið hefur starfað innan vébanda Kvikmyndasjóðs. Fyrst skal telja að safnið hefur staðið fyrir sýningum á kvikmyndalist og gerir frumvarpið ráð fyrir að það verði bundið í lög. Safnið hefur endurgjaldslaus afnot af Bæjarbíói í Hafnarfirði til ársins 2011 samkvæmt samningi við Hafnarfjarðarbæ. Ríkið hefur tekið þátt í kostnaði við endurnýjun húss og búnaðar og er áætlað að 19 m.kr. þurfi til að ljúka verkinu umfram það sem vilyrði hafa verið veitt fyrir. Ekki liggur nákvæmlega fyrir hversu stór hluti gæti fallið í hlut ríkisins, en í þessari kostnaðarumsögn verður miðað við 15 m.kr. Talið er að það geti kostað um 30 m.kr. að halda uppi sýningum alla daga vikunnar en til þessa hefur ekki verið starfsemi í húsinu. Áætlun safnsins gerir ráð fyrir að stærsti hluti kostnaðarins verði borinn af styrkjum og aðgangseyri, en ríkið leggi til allt að 5 m.kr. Ekki hefur verið tekin afstaða til þeirrar áætlunar. Í öðru lagi er lagt til að safninu verði ætlað að safna, varðveita og hafa eftirlit með skylduskilum efnis. Við þetta starfa tveir menn og er áætlað að fjölga þurfi um allt að þrjá til viðbótar auk þess sem bæta þarf tækjabúnað. Áætlað er að aðeins 10% kvikmynda í safninu hafi verið skráðar, afritaðar á myndband og settar í umbúðir sem tryggja varðveislu þeirra. Í kostnaðaráætlun með frumvarpi til laga um skylduskil safna er talið að árlegur rekstrarkostnaður Kvikmyndasafns og Landsbókasafns Íslands–Háskólabókasafns vegna skylduskila kvikmyndaefnis muni aukast um 13–18 m.kr. og stofnkostnaður nema 26–35 m.kr. Í þriðja lagi er gert ráð fyrir sem lögbundnu hlutverki safnsins að sjá um viðhald og endurgerðir á kvikmyndum safnsins. Engar upplýsingar eru til um þörf fyrir endurgerð kvikmynda safnsins, en lauslega er áætlað að 1–3 m.kr. kosti að endurgera eina kvikmynd. Í fjórða lagi verður safninu ætlað að skapa aðstöðu til að stunda kvikmyndafræðilegar rannsóknir. Talið er að koma megi upp lágmarksaðstöðu með óverulegum tilkostnaði. Í fimmta lagi er lagt til að safninu verði ætlað að efla kvikmyndamenningu á Íslandi, án þess að tilgreint sé hvernig að því skuli staðið. Árlegur kostnaðarauki vegna þessa þáttar gæti hugsanlega legið á bilinu 0,5–4 m.kr. eða eftir því sem fjárveitingar leyfa. Að lokum er talið að aukin verkefni og sjálfstæði safnsins leiði til þess að efla þurfi fjármálastjórnun og aðra stoðþjónustu innan safnsins sem gæti kostað 4–5 m.kr. á ári. Þegar á heildina er litið er talið að þetta frumvarp og frumvarp um skylduskil leiði til þess að útgjöld ríkisins til Kvikmyndasafns og verkefna sem tengjast skylduskilum á kvikmyndaefni aukist um 40–49 m.kr. vegna stofnbúnaðar og um 19–35 m.kr. vegna árlegs rekstrar.
    Gert er ráð fyrir að menntamálaráðherra verði heimilt að skipa markaðsnefnd kvikmynda til að veita þjónustu vegna töku á kvikmyndum á Íslandi og kynna Ísland sem vettvang kvikmyndagerðar. Samkvæmt frumvarpinu er ekki tekið fram að þeir sem notfæra sér þjónustu nefndarinnar greiði kostnaðinn. Lauslega er talið að rekstrargjöld ríkisins aukist um 1–5 m.kr. á ári vegna þessa eða eftir því sem fjárveitingar verða ákveðnar.
    Að öllu samanlögðu er talið að þetta frumvarp og frumvarp um skylduskil leiði til 40–48 m.kr. stofnkostnaðar og 20–41 m.kr. hækkunar rekstrarkostnaðar kvikmyndamála frá því sem nú er. Verði frumvarpið að lögum er gert ráð fyrir að þau taki gildi í ársbyrjun 2003.