Eldri útgáfa lagasafns

Lagasafn.  Íslensk lög í september 2001.  Útgáfa 126b.  Prenta í tveimur dálkum.


Lög um kvikmyndamál

1984 nr. 94 30. maí1. gr. Kvikmyndasjóður Íslands starfar undir sérstakri stjórn. Menntamálaráðuneytið fer með yfirstjórn hans.
2. gr. Verkefni Kvikmyndasjóðs eru m.a. þessi:
    1. Úthlutun styrkja og lána til íslenskrar kvikmyndagerðar, óháð því hvaða tækni er notuð við myndgerðina. Með íslenskri kvikmyndagerð er átt við verkefni þar sem íslenskir aðilar hafa forræði.
    2. Aðgerðir til að efla kvikmyndamenningu á Íslandi.
    3. Öflun og útgáfa upplýsinga um íslenskar kvikmyndir.
    4. Kynning á íslenskum kvikmyndum erlendis í samvinnu við íslenska kvikmyndaframleiðendur á kvikmyndahátíðum og öðrum vettvangi.
    5. Rekstur Kvikmyndasafns Íslands.
3. gr. Menntamálaráðherra skipar sjóðnum fimm manna stjórn til þriggja ára í senn. Skal formaður skipaður án tilnefningar, en hinir fjórir samkvæmt tilnefningum eftirtalinna aðila: Félags kvikmyndagerðarmanna, Sambands íslenskra kvikmyndaframleiðenda, Félags kvikmyndahúsaeigenda og Bandalags íslenskra listamanna.
Þegar fjallað er um málefni Kvikmyndasafns skulu auk þess stjórnarmenn tilnefndir af Þjóðminjasafni Íslands og Námsgagnastofnun taka þátt í stjórnarstörfum.
4. gr. [Ráðherra skipar framkvæmdastjóra sjóðsins til fimm ára í senn, að fengnum tillögum sjóðstjórnar. Framkvæmdastjóri ræður annað starfsfólk.] 1)
    1)L. 83/1997, 111. gr.
5. gr. Tekjur Kvikmyndasjóðs eru:
    1. [Árlegt framlag úr ríkissjóði eftir því sem ákveðið er í fjárlögum.] 1)
    2. Vaxtatekjur.
    3. Aðrar tekjur.
Kvikmyndasjóður Íslands tekur við tekjum og eignum Kvikmyndasjóðs samkvæmt lögum nr. 14/1978.
    1)L. 144/1995, 2. gr.
6. gr. Úthlutun úr Kvikmyndasjóði annast þriggja manna nefnd, kosin af stjórn sjóðsins, og mega nefndarmenn ekki eiga hagsmuna að gæta við úthlutunina. Nefndarmenn skulu kosnir árlega og nánari reglur settar um kosningu þeirra og starfssvið í reglugerð.
7. gr. Kvikmyndasafn Íslands starfar innan vébanda Kvikmyndasjóðs, en um starfsemi þess skal sett sérstök reglugerð þar sem nánar skal kveðið á um verksvið safnsins og starfsemi.
Framkvæmdastjóri Kvikmyndasjóðs skal jafnframt vera forstöðumaður safnsins en fela skal a.m.k. einum af starfsliði sjóðsins að sinna sérstaklega málefnum safnsins.
8. gr. Kvikmyndasafn skal safna íslenskum kvikmyndum og kvikmyndum um íslenskt efni, gömlum og nýjum, hverju nafni sem nefnast, og varðveita þær. Jafnframt aflar safnið sér eintaka (eftirgerða) af erlendum kvikmyndum sem hafa listrænt og kvikmyndasögulegt gildi.
Heimilt er að koma á skylduskilum kvikmynda samkvæmt nánari ákvæðum í reglugerð þar sem m.a. skal kveðið á um greiðslu kostnaðar við skylduskilin.
9. gr. Kvikmyndasafn fær fé til starfsemi sinnar samkvæmt sérgreindri fjárveitingu í fjárlögum hverju sinni. Safninu er einnig heimilt að afla fjár með kvikmyndasýningum og útgáfustarfsemi eða öðrum viðlíka hætti.
Einnig er heimilt að veita fé til starfsemi safnsins úr Kvikmyndasjóði samkvæmt ákvörðun sjóðsstjórnar.
10. gr. Menntamálaráðherra setur reglugerðir 1) samkvæmt lögum þessum, að fengnum tillögum stjórnar Kvikmyndasjóðs.
    1)Rg. 460/1993.
11. gr. Lög þessi öðlast þegar gildi …
Lög þessi skulu endurskoðuð eigi síðar en að tveimur árum liðnum frá gildistöku þeirra.
Ákvæði til bráðabirgða. Menntamálaráðherra er heimilt að setja reglur um kvikmyndastörf erlendra aðila á Íslandi að undangenginni ítarlegri athugun.