Ferill 315. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 391  —  315. mál.




Frumvarp til laga



um breyting á lögum um virðisaukaskatt, nr. 50/1988, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 127. löggjafarþingi 2001–2002.)

1. gr.

    8. tölul. 2. mgr. 14. gr. laganna orðast svo:
    Sala á matvörum og öðrum vörum til manneldis samkvæmt nánari afmörkun í viðauka við lög þessi. Sala veitingahúsa, mötuneyta og annarra hliðstæðra aðila á tilreiddum mat og þjónustu er þó skattskyld skv. 1. mgr. þessarar greinar. Fjármálaráðherra getur með reglugerð sett nánari ákvæði um virðisaukaskattsskylda sölu á vörum til manneldis.


2. gr.

    3. mgr. 35. gr. laganna orðast svo:
    Kaupandi, sem skyldugur er til að greiða virðisaukaskatt skv. 1. mgr., skal ótilkvaddur gera skattstjóra grein fyrir kaupum á þjónustu í sérstakri skýrslu í því formi sem ríkisskattstjóri ákveður. Gjalddagi er fimmti dagur annars mánaðar frá lokum þess almenna uppgjörstímabils sem viðskiptin falla undir. Greiðslu ásamt skýrslu skal skila til innheimtumanns ríkissjóðs eigi síðar en á gjalddaga. Um skattverð, uppgjör, álagningu, áætlun, endurákvörðun, álag, dráttarvexti og kærur skal, eftir því sem við getur átt, fara með eins og í viðskiptum innan lands.

3. gr.

    7. tölul. 1. mgr. 36. gr. laganna fellur brott.

4. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 42. gr. laganna:
     a.      Orðin „og vera verðtryggð miðað við lánskjaravísitölu“ í 2. málsl. 2. mgr. falla brott.
     b.      Á eftir 3. málsl. 2. mgr. kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Endurgreiðsla vegna vinnu manna við endurbætur eða viðhald skal gerð á grundvelli framlagðra reikninga, eins fljótt og auðið er.
     c.      Við greinina bætast tvær nýjar málsgreinar, 7. og 8. mgr., svohljóðandi:
             Endurgreiða skal virðisaukaskatt af tækjum og búnaði sem mannúðar- og líknarstofnanir fá að gjöf eða kaupa fyrir styrkfé, enda sé um að ræða vöru sem nýtt er beint til viðkomandi starfsemi. Endurgreiðsluheimild samkvæmt þessari málsgrein er bundin sömu skilyrðum og gilda um gjafir til mannúðar- og líknarstarfsemi og koma fram í 8. tölul. 5. gr. tollalaga, nr. 55/1987, sbr. 5. gr. reglugerðar nr. 797/2000 um undanþágu aðflutningsgjalda í ýmsum tilvikum.
             Endurgreiða skal virðisaukaskatt af innflutningi eða kaupum á ökutækjum sem ætluð eru fyrir starfsemi björgunarsveita, enda liggi fyrir staðfesting landssamtaka björgunarsveita á því að viðkomandi ökutæki verði einungis notuð í þágu björgunarsveita. Fjármálaráðherra er heimilt með reglugerð að kveða nánar á um framkvæmd endurgreiðslu skv. 7. og 8. mgr.

5. gr.

    Á eftir 43. gr. laganna kemur ný grein, 43. gr. A, svohljóðandi:
    Réttur til sérstakra endurgreiðslna skv. XIII. kafla og ákvæðum til bráðabirgða í lögum þessum fellur niður ef umsókn um endurgreiðslu berst viðkomandi stjórnvaldi eftir að sex ár eru liðin frá því að réttur til endurgreiðslu stofnaðist.

6. gr.

    Í stað viðauka við lögin kemur nýr viðauki sem orðast svo ásamt fyrirsögn:

Viðauki.

    Af vörum til manneldis í eftirgreindum tollskrárnúmerum skal greiða 14% virðisaukaskatt:

0201.1000–0210.9090    Kjöt og ætir hlutar af dýrum.
0302.1101–0307.9920    Fiskur, krabbadýr, lindýr og aðrir vatna- og sjávarhryggleysingjar.
0401.1000–0401.3000    Mjólki og rjómi. Þó skal greiða 24,5% virðisaukaskatt af ógerilsneyddum vörum í þessum tollflokkum.
0402.1000–0410.0000    Mjólkurafurðir, fuglaegg, náttúrulegt hunang og ætar vörur úr dýraríkinu, ót.a.
0504.0001–0504.0009    Þarmar, blöðrur og magar úr dýrum (þó ekki úr fiski), heilt og í stykkjum.
0511.9901                   Dýrablóð.
0701.1000–0714.9000    Matjurtir og tilteknar rætur og hnýði.
0801.1100–0814.0000    Ætir ávextir, hnetur og hýði af sítrusávöxtum eða melónum.
0901.1100–0910.9900    Kaffi, te, maté og krydd.
1001.1001–1004.0009    Hveiti, meslín, rúgur, bygg og hafrar.
1005.9001–1008.2009    Maís (annar en fræ), rís, dúrra, bókhveiti og hirsi.
1008.9009                   Annað korn, ót. a.
1101.0010–1105.2009    Malaðar vörur (korn, mjöl, bögglar og flögur).
1106.1000                   Mjöl úr þurrkuðum belgávöxtum.
1106.2009                   Mjöl úr sagó, rótum eða hnýðum.
1106.3000                   Mjöl úr ávöxtum og hnetum.
1107.1000–1202.2000    Malt, sterkja, inúlín, hveitiglúten, sojabaunir og jarðhnetur.
1204.0000                   Línfræ (hörfræ).
1206.0000–1208.9000    Sólblómafræ, önnur olíufræ, olíurík aldin og mjöl úr þeim vörum.
1211.9001–1211.9002    Plöntur og plöntuhlutar til manneldis (basilíkum, borasurt, mynta, rósmarín, rúturunni, salvía og malurt).
1212.1000                   Fuglatrésbaunir (jóhannesarbrauð).
1212.2009                   Sjávargróður og þörungar (söl o.fl.).
1302.2001 og 1302.2009    Pektínefni, pektínöt, pektöt, jurtaslím og hleypiefni.
1501.0011 og 1501.0021    Svína- og alifuglafeiti.
1502.0011 og 1502.0021    Fita af dýrum af nautgripaætt, kindum eða geitum.
1503.0001                   Svínafeitisterín, svínaolía, tólgarsterín, oleóolía og tólgarolía.
1504.1001 og 1504.1002    Þorskalýsi.
1504.1004                   Lýsi úr fisklifur, ót.a.
1507.1001 og 1507.9001    Sojabaunaolía.
1508.1001 og 1508.9001    Jarðhnetuolía.
1509.1001 og 1509.9001    Ólívuolía.
1510.0001                   Aðrar olíur.
1511.1001 og 1511.9001    Pálmaolía.
1512.1101 og 1512.1901    Olía úr fræi sólblóma eða körfublóma.
1512.2101 og 1512.2901    Olía úr fræi baðmullar.
1513.1101 og 1513.1901    Kókoshnetuolía.
1513.2101 og 1513.2901    Pálmakjarna- eða babassúolía.
1514.1001 og 1514.9001    Repju-, kolsa- eða mustarðsolía.
1515.2101, 1515.2901,     
1515.5001 og 1515.9001    Maísolía, sesamolía og önnur olía eða feiti, ót.a.
1516.1001–1516.2002,    
1516.2009                   Feiti eða olíur, hertar.
1517.1001–1517.9009    Smjörlíki og blöndur eða framleiðsla til manneldis úr jurtafeiti eða -olíum.
1601.0010–1605.9029    Framleiðsla úr kjöti, fiski eða krabbadýrum, lindýrum eða öðrum vatnahryggleysingjum.
1701.1100–1702.9009    Sykur (þó ekki skrautsykur).
1703.1002 og 1703.1009    Reyrmelassi.
1703.9009                   Melassi, ót.a.
1801.0000–1804.0000    Kakaóvörur, svo sem kakaóbaunir, kakaódeig og kakaósmjör (þó ekki kakaóduft).
1806.2002 og 1806.9021    Búðingsduft, búðingar og súpur sem innihalda kakaó.
1806.9011–1806.9019    Efni til framleiðslu á drykkjarvörum sem innihalda kakaó.
1806.9022                   Fæða sem inniheldur kakaó, sérstaklega tilreidd fyrir sjúka.
1806.9027 og 1806.2007    Morgunverðarkorn sem inniheldur kakaó.
1901.1000–1904.9009    Framleiðsla úr korni, fínmöluðu mjöli, sterkju eða mjólk.
1905.1000                   Hrökkbrauð.
1905.3022                   Sætakex og smákökur sem innihalda minna en 20% af sykri.
1905.4000                   Tvíbökur, ristað brauð og áþekkar ristaðar vörur.
1905.9011 og 1905.9019    Brauð.
1905.9020                   Ósætt kex.
1905.9030                   Saltkex og kryddkex.
1905.9040                   Kökur og konditorstykki.
1905.9051 og 1905.9059    Bökur, þ.m.t. pítsur (pizza).
1905.9060                   Nasl (snack), ót.a.
1905.9090                   Brauðvörur, ót.a.
2001.1000–2008.9909    Framleiðsla úr matjurtum, ávöxtum, hnetum eða öðrum plöntuhlutum.
2101.1100 –2101.3009    Kjarni, kraftur og seyði úr kaffi, tei, eða maté.
2102.1001–2102.2002    Ger og bökunarduft.
2102.2009–2102.3009    Ger og bökunarduft.
2103.1000–2104.2009    Sósur, súpur og seyði og framleiðsla í það, blönduð bragðefni og bragðbætiefni, jafnblönduð samsett matvæli.
2105.0011–2105.0029    Rjómaís og annar ís til manneldis.
2106.1000                   Próteinseyði og textúruð próteinefni.
2106.9023                   Blöndur jurta eða jurtahluta til lögunar á seyði.
2106.9024                   Drykkjarvara, sérstaklega tilreidd fyrir börn og sjúka.
2106.9025              Tilreidd drykkjarvöruefni sem innihalda prótein o.fl.
2106.9026                   Tilreidd drykkjarvöruefni úr gingsengkjörnum o.fl.
2106.9041–2106.9049    Búðingsduft, ót.a.
2106.9051                   Blöndur úr kemískum efnum og fæðu, svo sem sakkaríni og laktósa, notaðar sem sætuefni.
2106.9059                   Létt smjörlíki o.fl. að meginstofni úr feiti og vatni.
2106.9062                   Ávaxtasúpur og -grautar.
2106.9064                   Búðingsduft með kjötinnihaldi sem að magni til er 3%, til og með 20%, miðað við þyngd.
2106.9069                   Ýmis matvælaframleiðsla, ót.a.
2201.9011–2201.9029    Drykkjarvatn, annað en ölkelduvatn.
2202.1021–2202.1029    Drykkjarvara, sérstaklega tilreidd fyrir börn og sjúka.
2202.9021–2202.9029    Drykkjarvara, sérstaklega tilreidd fyrir börn og sjúka.
2202.9011–2202.9019    Blönduð mjólk (25% eða minna blönduð miðað við rúmmál).
2501.0001                   Matarsalt í smásöluumbúðum, 5 kg eða minna.
2836.1001                        Ammoníumkarbónat (hjartarsalt) í smásöluumbúðum, 1 kg eða minna.
2836.3001 og 2836.4001    Karbónöt í smásöluumbúðum, 1 kg eða minna.
2836.9902                   Pottaska í smásöluumbúðum, 1 kg eða minna.
2918.1200–2918.1300    Vínsýra.
2922.4201                   Glútamínsýra í smásöluumbúðum, 1 kg eða minna.
2925.1101                   Sakkarín og sölt þess í smásöluumbúðum, 1 kg eða minna.
3203.0001                   Matarlitur.
3302.1010                   Blöndur af ilmandi efnum til matvælaiðnaðar.
3501.9001                   Kaseínöt.
3502.1101 og 3502.1901    Albúmín.
3502.2001 og 3502.9001    Albúmín.
3503.0011 og 3503.0021    Matarlím (gelatín o.fl.).
3824.9008                   Blanda úr sakkaríni og kemískum efnum í smásöluumbúðum, 1 kg eða minna.

7. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2002.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Með frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með síðari breytingum.
    Í fyrsta lagi er lagt til að viðauki við lögin samanstandi af lista yfir tollskrárnúmer þeirra vara til manneldis sem bera 14% virðisaukaskatt í stað 24,5% eins og núgildandi viðauki kveður á um. Kallar sú breyting á breytingu á orðalagi 8. tölul. 2. mgr. 14. gr. laganna.
    Í öðru lagi er lagt til að breyting verði gerð á 35. gr. laganna þess efnis að beina skuli skýrslum um þjónustukaup frá útlöndum til skattstjóra en ekki tollayfirvalda.
    Í þriðja lagi er lagt til að afgreiðslutími beiðna um endurgreiðslur virðisaukaskatts sem eigendur íbúðarhúsnæðis hafa greitt vegna vinnu manna við endurbætur eða viðhald þess verði styttur og aðgengi að þessum endurgreiðslum þar með bætt. Einnig er lagt til að afnumið verði ákvæði um verðtryggingu endurgreiðslna.
    Í fjórða lagi eru um að ræða lagfæringar til samræmis við breytingar sem gerðar voru með lögum nr. 104/2000, um breyting á lögum um álagningu gjalda á vörur. Breytingarnar miðuðu að því að niðurfelling ýmissa gjalda sem lagðar eru á vörur við innflutning þeirra til landsins eða framleiðslu þeirra hér á landi verði lögákveðin í stað þess að handhöfum framkvæmdarvalds væri framseld heimild til að ákveða hvort til lækkunar eða niðurfellingar skuli koma. Breytingar í þessa átt, sem voru gerðar með lögum nr. 104/2000, náðu hins vegar aðeins til innflutnings. Af þeim sökum var eftirgjöf gjalda ekki fullkomlega sambærileg og verið hafði skv. 7. gr. fjárlaga, lið 1.1, þar sem sú heimild var ekki bundin við innflutning. Með frumvarpi þessu er eftirgjöf gjalda gerð sambærileg því sem áður var í 7. gr. fjárlaga, lið 1.1, eins og að var stefnt við gerð laga nr. 104/2000.
    Í fimmta lagi er lagt til að réttur aðila til sérstakra endurgreiðslna samkvæmt lögunum verði bundinn við sex ár, þ.e. einungis verði hægt að fá endurgreiðslu sex ár aftur í tímann. Í lögunum hefur til þessa ekki verið að finna neina slíka reglu og verður að telja slíkan rétt til endurgreiðslu, án tímatakmarkana, í andstöðu við almenn tómlætissjónarmið.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.
Um 1. gr.

    Í greininni eru lagðar til breytingar á 8. tölul. 2. mgr. 14. gr. laganna þannig að í viðauka við lögin verði listi yfir tollskrárnúmer þeirra vara til manneldis sem bera 14% virðisaukaskatt, en samkvæmt gildandi reglum eru talin upp í viðauka þau tollskrárnúmer sem bera 24,5% virðisaukaskatt. Sú nálgun að telja upp í viðauka þær vörur til manneldis sem bera 14% virðisaukaskatt er til einföldunar og er í betra samræmi við uppbyggingu laganna, auk þess sem hún auðveldar vinnu við breytingar sem leiðir af breytingum á tollskrá.

Um 2. gr.

    Í greininni er lagt til að beina skuli skýrslum um þjónustukaup frá útlöndum til skattstjóra en ekki tollayfirvalda. Þar sem skattyfirvöld eru í betri eftirlitsaðstöðu hvað þetta varðar en tollyfirvöld er lagt til að skattyfirvöld annist framkvæmdina varðandi þessar skýrslur. Er það einnig í samræmi við núgildandi 1. málsl. 3. mgr. 35. gr. laganna. Óljóst hefur verið hvaða framkvæmdarákvæði gilda á sviði innfluttrar þjónustu. Samræmis vegna er lagt til að miðað sé við að skattverð, málsmeðferð og fleira fylgi þeim framkvæmdarákvæðum sem gilda innan lands og skattyfirvöld framfylgja, sbr. III. og IX. kafla laganna.


Um 3. gr.

    Í greininni er lagt til að 7. tölul. 1. mgr. 36. gr. laganna falli brott. 4. gr. frumvarpsins kemur í stað þess ákvæðis. Um nánari skýringu vísast til umfjöllunar um 4. gr. (c-lið).

Um 4. gr.

    Með greininni er í fyrsta lagi lagt til að styttur verði afgreiðslutími beiðna um endurgreiðslur virðisaukaskatts sem eigendur íbúðarhúsnæðis hafa greitt vegna vinnu manna við endurbætur eða viðhald þess skv. 3. málsl. 2. mgr. 42. gr. laganna. Sömu forsendur fyrir því að binda beiðnir og afgreiðslu þeirra við uppgjörstímabil virðisaukaskatts eru ekki til staðar varðandi þessar endurgreiðslur og þegar um nýbyggingar er að ræða. Lagt er til að beiðnir af umræddum toga verði teknar til afgreiðslu án ástæðulauss dráttar jafnóðum og þær berast og að til endurgreiðslu komi strax eftir að skattstjóri hefur tekið afstöðu til framkominnar beiðni.
    Fyrrgreind tillaga byggist á skýrslu nefndar um framkvæmd virðisaukaskatt frá mars 2000. Í umræddri skýrslu er einnig lagt til að afnumið verði ákvæði um verðtryggingu endurgreiðslna sem nú miðast við einfalt meðaltal lánskjaravísitölu á uppgjörstímabili annars vegar og vísitölu endurgreiðslumánaðar hins vegar. Ákvæði þessi um verðtryggingu eru nú að mestu óþörf og ástæðulaus miðað við upphaflegar forsendur þeirra. Einnig er ákvæði um verðtryggingu þrándur í götu breyttrar framkvæmdar þar sem lagt er til að endurgreiðslubeiðnir vegna endurbóta og viðhalds afmarkist ekki við tiltekin uppgjörstímabil.
    Í öðru lagi er lagt til að tvær nýjar málsgreinar bætist við 42. gr. laganna. Um árabil var að finna heimild í fjárlögum fyrir fjármálaráðherra til að fella niður eða endurgreiða virðisaukaskatt af gjöfum til mannúðar- og líknarstarfsemi og af ökutækjum til björgunarsveita. Með lögum nr. 104/2000, um breyting á lögum um álagningu gjalda á vörur, var lagt til að í stað þess að slík heimild væri í fjárlögum hverju sinni yrði niðurfelling lögbundin. Til fyllingar því, og í samræmi við eldri framkvæmd, er lagt til að endurgreiðsluheimildin nái jafnt til innflutnings sem og kaupa innan lands. Breytingin sem varð með lögum nr. 104/2000 náði aðeins til innflutnings. Til að tryggja að sömu skilyrði gildi þegar vara er keypt innan lands og þegar hún er keypt erlendis er tekið fram að endurgreiðsluheimildin sé bundin þeim skilyrðum um gjafir til mannúðar- og líknarstarfsemi sem koma fram í 5. gr. tollalaga, nr. 55/1987.
    Í greininni er ennfremur lagt til að heimild til endurgreiðslu vegna ökutækja færist úr XI. kafla virðisaukaskattslaga, nr. 50/1988 (sérstök ákvæði um innflutning), yfir í XIII. kafla laganna (um endurgreiðslu virðisaukaskatts). Með þessari breytingu verður heimilt að endurgreiða einnig þann virðisaukaskatt sem leggst á innkaupsverð þessara ökutækja. Er það í samræmi við fyrri heimildir í 7. gr. fjárlaga, lið 1.1, til að fella niður eða endurgreiða virðisaukaskatt af ökutækjum til björgunarsveita.

Um 5. gr.

    Með greininni er lagt til að réttur aðila til sérstakra endurgreiðslna samkvæmt lögunum verði bundinn ákveðnum tímamörkum. Ekki er heimilt að setja slíkum rétti tímatakmörk nema á grundvelli lagaheimildar, sbr. álit umboðsmanns Alþingis í málum nr. 2370/1998 og 1185/1994. Verður að telja rétt til endurgreiðslna án tímatakmarka í andstöðu við almenn tómlætissjónarmið. Með sérstökum endurgreiðslum er eingöngu átt við endurgreiðslur samkvæmt núgildandi XIII. kafla laganna og ákvæðum til bráðabirgða.
    Í greininni er réttur til sérstakrar endurgreiðslu virðisaukaskatts bundinn við sex ár, þ.e. einungis verður hægt að fá endurgreiðslu sex ár aftur í tímann. Rökin fyrir því að miða réttinn til endurgreiðslu við sex ára tímamark eru í fyrsta lagi þau að jafnræði ríkir þá á milli þeirra sem sækja um endurgreiðslu og hinna sem fá eða óska eftir leiðréttingu skv. 4. mgr. 101. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. lokamálsgrein 49. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Í öðru lagi er sex ára fresturinn í samræmi við rétt skattyfirvalda til endurupptöku á skattskilum skattaðila honum í óhag, sbr. 5. mgr. 26. gr. laganna og 1. mgr. 97. gr. laga nr. 75/1981. Í sumum tilvikum er rétturinn til endurgreiðslu í beinum tengslum við almenn virðisaukaskattsskil aðila. Ef um er að ræða tímabil sem er eldra en sex ára samkvæmt skilgreiningu 5. mgr. 26. gr. laganna er skattyfirvöldum óheimilt að hreyfa við skattskilum skattaðila ef það er honum í óhag en hugsanlega geta þau ekki hindrað að hann geti fengið endurgreiðslu á virðisaukaskatti vegna sama tímabils. Þannig kynni skattaðili að öðlast rétt til endurgreiðslu virðisaukaskatts sem hann hefur sjálfur ekki staðið skil á í ríkissjóð af eigin þjónustu. Verður að telja slíkt óeðilegt. Í þriðja lagi miðast sex ára reglan við þær reglur sem gilda um geymslu bókhalds en skv. 2. mgr. 17. gr. laganna ber skattaðila að geyma bókhald sitt í sjö ár frá lokum viðkomandi reikningsárs. Verður það að teljast ein af grundvallarforsendum á afgreiðslu endurgreiðslubeiðni að skattyfirvöld geti skoðað bókhaldsgögn endurgreiðslubeiðanda og þeirra er hann átti viðskiptin við.
    Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að upphaf fyrningarfrests endurgreiðsluréttar miðist við það tímamark þegar réttur til endurgreiðslu stofnast. Með þessu orðalagi er gert ráð fyrir að réttur til endurgreiðslu stofnist þegar sölureikningur vegna kaupa á viðkomandi vöru eða þjónustu er gefinn út að uppfylltum skilyrðum 13. gr. laganna. Að vísu er skilyrðið fyrir sumum þeim endurgreiðslum sem getið er um í 42. gr. laganna að viðkomandi reikningur hafi verið greiddur, t.d. þegar um er að ræða endurgreiðslu til eiganda íbúðarhúsnæðis vegna byggingar, viðhalds eða endurbóta á því. Ómögulegt væri í þeim tilvikum að miða fyrningarfrestinn við það hvenær reikningur er greiddur enda getur sú staða komið upp að kaupandi greiði reikninginn það seint að seljandi sé búinn að farga sínum bókhaldsgögnum um viðskiptin á grundvelli 2. mgr. 17 gr. laganna, sbr. 32. gr. reglugerðar nr. 50/1993, og skattyfirvöld geti þar af leiðandi ekki skoðað þau og gengið úr skugga um réttmæti viðkomandi viðskipta. Hins vegar, ef deilur verða á milli kaupanda og seljanda um viðkomandi viðskipti og málið fer fyrir dómstóla eða gerðardóm, er með orðalaginu „þegar réttur til endurgreiðslu stofnast“ átt við að miða beri upphaf fyrningarfrests við dómsuppsögu eða niðurstöðu gerðardóms þar sem þá er komin endanleg niðurstaða um réttindi og skyldur endurgreiðslubeiðanda, fremur en við dagsetningu reikningsins.


Um 6. gr.

    Með þessari grein er lagt til að viðaukinn við lögin tilgreini tollskrárnúmer vara til manneldis sem greiða skal 14% virðisaukaskatt af í stað 24,5% eins og núgildandi viðauki kveður á um.

Um 7. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringar.


Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 50/1988,
um virðisaukaskatt, með síðari breytingum.

    Með frumvarpinu eru lagðar til nokkrar breytingar á fyrirkomulagi virðisaukaskattskerfisins. Breytingarnar beinast að framkvæmd skattalaganna og er ekki ástæða til að ætla að þær hafi teljandi áhrif á útgjöld ríkissjóðs verði frumvarpið að lögum.