Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1346, 125. löggjafarþing 500. mál: álagning gjalda á vörur (breyting ýmissa gjalda).
Lög nr. 104 22. maí 2000.

Lög um breyting á lögum um álagningu gjalda á vörur.


I. KAFLI
Breytingar á tollalögum, nr. 55/1987, með síðari breytingum.

1. gr.

     5. gr. laganna ásamt fyrirsögn verður svohljóðandi:
Tollfrjálsar vörur.
     Auk þeirra vara sem tollfrjálsar eru samkvæmt beinum fyrirmælum í tollskrá skulu eftirfarandi vörur vera tollfrjálsar:
  1. Eftirtaldar vörur um borð í förum sem koma hingað til lands frá útlöndum:
    1. Fylgifé fars sem er að mati tollyfirvalda ekki umfram það sem hæfilegt má teljast með tilliti til stærðar fars og ferða þess, enda verði fylgiféð ekki flutt úr viðkomandi fari.
    2. Hæfilegar vistir og aðrar nauðsynjar í fari sem er í utanlandsferðum, enda verði þær áfram í farinu til neyslu og notkunar áhafnar og farþega.
    3. Vörur sem ekki á að flytja hér úr fari en eiga að fylgja því aftur til útlanda. Sama gildir um vöru sem send er hingað til umflutnings.

  2. Varningur sem farmenn og ferðamenn hafa meðferðis frá útlöndum sem hér segir:
    1. Venjulegur farangur áhafnar fars sem kemur hingað til lands frá útlöndum, enda sé að mati tollyfirvalda um ferðanauðsynjar til eigin notkunar áhafnar í fari að ræða. Jafnframt venjulegur farangur ferðamanna sem koma hingað til lands frá útlöndum, enda sé að mati tollyfirvalda um ferðanauðsynjar til eigin nota þeirra á ferðalaginu að ræða.
    2. Varningur, þ.m.t. áfengi og tóbak, sem ferðamenn og farmenn hafa með sér hingað til lands umfram það sem greinir í a-lið, að tilteknu hámarki sem ráðherra ákveður í reglugerð.

  3. Fatnaður og aðrar ferðanauðsynjar hér búsettra manna sem látist hafa erlendis.
  4. Heimilismunir manna sem flytjast búferlum hingað til lands, enda hafi viðkomandi haft fasta búsetu erlendis í a.m.k. eitt ár áður en hann fluttist til landsins. Tollfrelsi samkvæmt þessum lið tekur ekki til ökutækja eða annarra vélknúinna farartækja. Ráðherra getur með reglugerð takmarkað niðurfellingu samkvæmt þessum lið við notkun, vöruflokka eða hámarksverð að teknu tilliti til dvalartíma erlendis, fjölskyldustærðar og annarra aðstæðna.
  5. Heiðursmerki veitt af erlendum ríkjum, svo og verðlaun fyrir íþróttaafrek og önnur afrek sem unnin eru erlendis.
  6. Vörur sem endursendar eru hingað frá útlöndum vegna þess að þær seldust ekki þar eða endursendar eru hingað frá útlöndum af öðrum orsökum og færðar séu að mati tollyfirvalds fullnægjandi sönnur fyrir því að um sé að ræða vörur útfluttar héðan.
  7. Endursendar tómar umbúðir, enda séu að mati tollyfirvalds færðar fullnægjandi sönnur fyrir því að um sé að ræða umbúðir utan af vörum útfluttum héðan.
  8. Gjafir sem sendar eru hingað til lands í eftirfarandi tilvikum:
    1. Gjafir sem aðilar búsettir erlendis senda hingað af sérstöku tilefni, þó ekki í atvinnuskyni, enda sé verðmæti gjafarinnar ekki meira en 7.000 kr. Sé verðmæti gjafar meira en 7.000 kr. skal gjöf þó einungis tollskyld að því marki sem hún er umfram þá fjárhæð að verðmæti. Brúðkaupsgjafir skulu vera tollfrjálsar þótt þær séu meira en 7.000 kr. að verðmæti, enda sé að mati tollstjóra um eðlilega og hæfilega gjöf að ræða.
    2. Gjafir til mannúðar- og líknarstarfsemi, enda sé um að ræða vöru sem nýtt er beint til viðkomandi starfsemi, svo og gjafir sem sendar eru hingað frá útlöndum og góðgerðarstofnanir eða aðrir slíkir aðilar eiga að annast dreifingu á til bágstaddra.
    3. Gjafir sem ríki, sveitarfélögum eða stofnunum á vegum hins opinbera eru gefnar erlendis frá í vináttuskyni eða á grundvelli menningartengsla við erlend ríki.

  9. Vísindatæki og vísindabúnaður sem íslenskar vísindastofnanir eða vísindastofnanir sem Ísland er aðili að kaupa fyrir styrki eða eiga kost á endurgjaldslaust frá erlendum aðilum.
  10. Notaðir munir sem hafa fallið í arf erlendis, þó ekki ökutæki eða önnur vélknúin farartæki.
  11. Sendingar vegna markaðssetningar og vöruþróunar sem hér segir:
    1. Sýnishorn verslunarvara og auglýsingaefnis, enda sé verðmæti sendingar óverulegt. Jafnframt sýnishorn verslunarvara sem gerð hafa verið ónothæf sem almenn verslunarvara.
    2. Hugbúnaðargögn sem send eru án endurgjalds og ætluð eru til þróunar eða hönnunar hugbúnaðar, prófunar, leiðréttingar, uppfærslu eða eru eingöngu nothæf til kynningar.
    3. Verðlaus bréf, bæklingar og prentuð gögn sem ekki hafa neitt viðskiptalegt gildi og ekki eru fallin til endurdreifingar.


     Ráðherra skal með reglugerð kveða nánar á um skilyrði tollfrelsis samkvæmt þessari grein.

2. gr.

     6. gr. laganna ásamt fyrirsögn verður svohljóðandi:
Niðurfelling, lækkun eða endurgreiðsla tolls.
     Tollur skal lækka, falla niður eða endurgreiðast í eftirfarandi tilvikum, að uppfylltum þeim skilyrðum sem tilgreind eru:
  1. Í samræmi við ákvæði í fríverslunar- og milliríkjasamningum sem Ísland er aðili að, frá þeim tíma er viðkomandi samningur hefur öðlast gildi að því er Ísland varðar.
  2. Vegna tímabundins innflutnings í eftirfarandi tilvikum:
    1. Af vörum sem sendar eru til landsins til sýningar eða flutnings um stundarsakir, enda verði þær ekki nýttar til annars. Jafnframt af vélum, tækjum og öðrum áhöldum sem eru send til landsins til reynslu um stuttan tíma.
    2. Af tækjum, verkfærum og öðrum búnaði sem vísindamenn, vísindaleiðangrar, listamenn, verkfræðingar, iðnaðarmenn, björgunarleiðangrar og aðrir slíkir hafa meðferðis frá útlöndum til afnota hér við athuganir sínar, rannsóknir og starfsemi.
    3. Af vörum sem eru sendar tímabundið hingað til lands til viðgerðar eða annarrar aðvinnslu.
    4. Af vörum sem fluttar eru tímabundið hingað til lands til að fram geti farið á þeim nægileg aðvinnsla til að forða þeim frá rýrnun eða öðrum skemmdum.

  3.      Ráðherra getur með reglugerð kveðið á um þann hámarkstíma sem tollfrjáls innflutningur samkvæmt þessum tölulið tekur til, þó aldrei lengur en í tólf mánuði. Ráðherra getur jafnframt í reglugerð afmarkað nánar þær vörur sem ákvæðið tekur til.
  4. Af bifreiðum, bifhjólum og tengivögnum sem skráðir eru erlendis og fluttir til landsins af mönnum sem hafa haft búsetu erlendis í a.m.k. eitt ár og hafa ekki jafnframt átt lögheimili hér á landi. Undanþága þessi gildir í einn mánuð frá komu ökutækis til landsins.
  5.      Tollstjóri getur framlengt tímabundinn innflutning skv. 1. mgr. þessa töluliðar um allt að þrjá mánuði í senn, í allt að tólf mánuði alls, enda sýni viðkomandi fram á að hann hafi hvorki launaða atvinnu hér á landi né reki hér atvinnufyrirtæki, að hann hafi ekki búsetu hér á landi og að hann hafi ekki flutt búslóð sína hingað til lands.
         Uppfylli innflytjandi ekki skilyrði 2. mgr. þessa töluliðar, þess efnis að hann hafi ekki launaða atvinnu og reki ekki fyrirtæki hér á landi, getur tollstjóri þó eigi að síður framlengt tímabilið í samræmi við ákvæði 2. mgr. gegn greiðslu tolls af sem nemur 1/ 60 hluta af tollverði viðkomandi ökutækis fyrir hvern byrjaðan mánuð sem leyfi er framlengt. Tollstjóri getur heimilað greiðslu gjalda með skuldaviðurkenningu og fullnægjandi ábyrgð.
         Ákvæði þessa töluliðar skulu gilda eftir því sem við getur átt um bifreiðar sem erlendir ferðamannahópar, ferðaskrifstofur eða aðrir sem atvinnu hafa af slíkum fólksflutningum flytja til landsins vegna hópferðalaga um landið, enda verði þær fluttar úr landi með þeim ferðamannahópi sem bifreiðin var ætluð í upphafi.
         Ákvæði töluliðar þessa gilda með sama hætti um nýjar óskráðar bifreiðar og bifhjól sem keypt eru hér á landi. Ökutæki þessi skulu skráð sérstaklega og uppfylla frekari skilyrði sem dómsmálaráðuneytið kann að setja. Undanþága frá greiðslu tolls samkvæmt þessari málsgrein miðast við skráningardag ökutækis.
         Þegar leyfi er veitt til tímabundins tollfrjáls innflutnings ökutækis samkvæmt þessum tölulið skal heimilt að flytja eldsneyti með ökutæki í innbyggðum eldsneytisgeymum þess án greiðslu aðflutningsgjalda. Jafnframt skal eiganda eða umráðamanni heimilt, ef ökutæki bilar eða verður fyrir tjóni, að flytja inn varahluti í ökutækið tollfrjálst.
  6. Af stærri tækjum, þ.m.t. ökutækjum sem send eru hingað til lands til notkunar um stuttan tíma, þó ekki lengur en í tólf mánuði, og endursend eru þegar að notkun lokinni. Tollur skal í slíkum tilvikum reiknaður af leiguverði fyrir tækin í stað hefðbundins tollverðs. Liggi leiguverð tækis ekki fyrir má reikna toll af áætlaðri leigu sem ákvörðuð skal sem 1/60 hluti eðlilegs tollverðs fyrir hvern byrjaðan mánuð sem tækið er hér á landi.
  7. Af vörum sem tollafgreiddar hafa verið hingað til lands en eru síðar seldar ónotaðar til útlanda eða í tollfrjálsa verslun.
  8. Af vörum sem reynast gallaðar eða hafa eyðilagst, rýrnað eða orðið fyrir skemmdum á leið hingað til lands, við affermingu, í vörslu tollyfirvalda, í viðurkenndum geymslum fyrir ótollafgreiddar vörur eða í flutningi milli tollhafna innan lands, áður en þær eru afhentar viðtakanda.
  9. Af vélum, tækjum, rafmagnsvörum og öðrum fylgihlutum sem ætlaðir eru til nota í flugvélum og skipum. Sama gildir um hluti sem ætlaðir eru til viðgerða eða annarrar aðvinnslu flugvéla og skipa.
  10. Af hráefni, efnivörum og hlutum í innlendar framleiðsluvörur, svo og af umbúðum fyrir slíkar vörur. Ef aðvinnsla sem á sér stað hér á landi er óveruleg, svo sem pökkun, umpökkun, átöppun eða blöndun, telst framleiðsluvara ekki vera innlend í skilningi þessa töluliðar. Niðurfelling tolls af hráefni eða efnivöru samkvæmt þessum tölulið tekur ekki til vara sem magntollur (A1-tollur) er lagður á samkvæmt viðauka I við lög þessi.
  11. Af vélum, vélarhlutum og varahlutum sem notuð eru til vinnslu á innlendum framleiðsluvörum.
  12. Af tækjabúnaði og miðlum sem kvikmynda- og myndbandavinnustofur og hljóðver nýta til starfsemi sinnar.
  13. Af björgunarbúnaði og björgunartækjum, enda liggi fyrir staðfesting landssamtaka björgunarsveita á að búnaðurinn verði einungis nýttur í starfsemi björgunarsveita.
  14. Af kartöfluútsæði, græðlingum og öðrum efnivörum, hráefni og hlutum til framleiðslu garðyrkjuafurða.

     Ráðherra getur með reglugerð kveðið nánar á um skilyrði niðurfellingar, lækkunar eða endurgreiðslu tolls samkvæmt þessari grein. Hann getur gert það að skilyrði lækkunar eða niðurfellingar að lögð sé fram fullnægjandi trygging fyrir greiðslu aðflutningsgjalda.

3. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 6. gr. A í lögunum:
  1. 2. málsl. 3. mgr. orðast svo: Tollur á þær vörur sem fluttar eru inn samkvæmt þeim tollkvótum sem tilgreindir eru í viðaukum IVA og B skal vera 0, 25, 50 eða 75 hundraðshlutar af þeim tolli sem lagður er á viðkomandi vörulið eins og hann er tilgreindur í tollskrá eða 32% af grunntaxta viðkomandi vöruliðar eins og hann er tilgreindur í viðauka IIA með lögum þessum.
  2. 4. mgr. fellur brott.


4. gr.

     Við 46. gr. laganna bætist ný málsgrein sem orðast svo:
     Tollgæslumönnum er heimilt að nota handjárn og gasvopn við beitingu valds samkvæmt þessari grein. Ríkistollstjóri skal að höfðu samráði við ríkislögreglustjóra setja reglur um hvaða tollgæslumönnum verði heimilað að bera og beita slíkum búnaði, notkun hans og þjálfun tollgæslumanna.

5. gr.

     2. málsl. 2. mgr. 85. gr. laganna fellur brott.

6. gr.

     Á eftir orðunum „sbr. 101. gr.“ í 3. mgr. 100. gr. laganna kemur: eða ríkistollstjóra, sbr. 102. gr.

7. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 101. gr. laganna:
  1. Á eftir orðunum „úrskurði tollstjóra skv. 100. gr.“ í 1. mgr. kemur: þó ekki úrskurði sem kæranlegur er til ríkistollstjóra skv. 102. gr.
  2. Á eftir orðunum „úrskurð tollstjóra skv. 100. gr.“ í 2. mgr. kemur: þó ekki úrskurð sem kæranlegur er skv. 102. gr.
  3. 11. mgr. orðast svo:
  4.      Nefndin skal úrskurða kærur um gjöld sem tollstjórar leggja á innfluttar vörur samkvæmt ákvæðum annarra laga, nema úrskurður tollstjóra sæti kæru til ríkistollstjóra, sbr. 102. gr. Gilda ákvæði þessarar greinar um slíkar kærur eftir því sem við getur átt.


8. gr.

     102. gr. laganna ásamt fyrirsögn orðast svo:
Kærur til ríkistollstjóra.
     Innflytjandi getur skotið úrskurði tollstjóra skv. 100. gr., er varðar tollfrelsi vara skv. 3. og 5. gr., eða lækkun, niðurfellingu og endurgreiðslu tolls skv. 2.–12. tölul. 1. mgr. 6. gr., til ríkistollstjóra innan 60 daga frá póstlagningu úrskurðar.
     Kæra skal vera skrifleg og studd nauðsynlegum gögnum. Ríkistollstjóri skal úrskurða um kæru innan 30 daga frá því er hún barst honum. Úrskurður ríkistollstjóra er fullnaðarúrskurður á stjórnsýslustigi.
     Ríkistollstjóri skal úrskurða kærur um gjöld sem tollstjórar leggja á innfluttar vörur eftir ákvæðum annarra laga ef ágreiningur varðar lækkun eða niðurfellingu gjalds á grundvelli 3. gr., 5. gr. eða 2.–12. tölul. 1. mgr. 6. gr. laga þessara eða ef sérstaklega er tekið fram í viðkomandi lögum að ákvörðun sú sem ágreiningur er um sæti kæru til ríkistollstjóra.

9. gr.

     143. gr. laganna orðast svo:
     Samþykki tollasamvinnuráðið breytingar á tollnafnaskrá ráðsins eða skýringum við tollnafnaskrána, úrskurði eða gefi út túlkun um tollflokkun eða nýja samræmda tollnafnaskrá sem hefur í för með sér breytta flokkun á vörum í tollskrá er ráðherra heimilt að gera nauðsynlegar breytingar á tollskránni, m.a. með því að fella niður, breyta eða taka upp ný tollskrárnúmer. Ráðherra er jafnframt heimilt að fella niður eða taka upp ný tollskrárnúmer ef þess gerist þörf, t.d. til að afla megi nauðsynlegra upplýsinga vegna hagskýrslugerðar.
     Breytingar á tollskrá skv. 1. mgr. skulu birtar í A-deild Stjórnartíðinda og hafa ekki afturvirkt gildi. Breytingarnar skulu ekki hafa áhrif á tolla eins og þeir hafa verið ákveðnir í tollskrá, gjöld eða gjaldfrelsi, heimildir, takmarkanir og þess háttar sem kveðið er á um í öðrum lögum.
     Ráðherra er heimilt að sameina í eitt tollskrárnúmer vörur sem koma til landsins með póstsendingum í einu komunúmeri og eru að tollverðmæti 25.000 kr. eða minna. Slík breyting skal þó ekki hafa áhrif á fjárhæð tolls af viðkomandi vörum.

10. gr.

     Við 147. gr. laganna bætist ný málsgrein sem verður 1. mgr. og orðast svo:
     Fjármálaráðherra skal hrinda í framkvæmd ákvæðum í fríverslunar- og milliríkjasamningum sem Ísland er aðili að, svo og bókunum og viðaukum við slíka samninga sem teljast óaðskiljanlegur hluti þeirra.

11. gr.

     A-tollur tollskrárnúmersins 1904.1002 í viðauka I við lögin verði 0%.

II. KAFLI
Breytingar á lögum nr. 97/1987, um vörugjald, með síðari breytingum.

12. gr.

     Við 2. mgr. 11. gr. laganna bætist nýr málsliður sem orðast svo: Þó sætir úrskurður tollstjóra um niðurfellingu eða lækkun gjalda, á grundvelli 3. gr., 5. gr. eða 6. gr. tollalaga, nr. 55/1987, kæru til ríkistollstjóra í samræmi við ákvæði 102. gr. tollalaga.

13. gr.

     Við 12. gr. laganna bætist ný málsgrein sem orðast svo:
     Ákvæði 3. gr., 5. gr. og 1.–7. og 9.–12. tölul. 1. mgr. 6. gr. tollalaga, nr. 55/1987, skulu ná til vörugjalds samkvæmt lögum þessum eftir því sem við getur átt.

14. gr.

     2. málsl. 1. mgr. og 2. mgr. 13. gr. laganna falla brott.

III. KAFLI
Breyting á lögum nr. 96/1995, um gjald af áfengi, með síðari breytingum.

15. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 6. gr. laganna:
  1. 2. tölul. 1. mgr. orðast svo: Við innflutning og sölu á áfengi til tollfrjálsra verslana og tollfrjálsra forðageymslna. Jafnframt af áfengi sem áfengisgjald hefur verið reiknað eða greitt af en er síðar sent til útlanda, í tollfrjálsa verslun, í tollvörugeymslu, í tollfrjálsa forðageymslu eða á frísvæði eða er fargað undir eftirliti tollyfirvalda.
  2. 2. mgr. fellur brott.


16. gr.

     8. gr. laganna fellur brott.

17. gr.

     1. mgr. 9. gr. laganna orðast svo:
     Úrskurður tollstjóra um niðurfellingu eða endurgreiðslu áfengisgjalds skv. 6. gr. sætir kæru til ríkistollstjóra í samræmi við 102. gr. tollalaga, nr. 55/1987. Þá skulu ákvæði tollalaga gilda að því leyti sem lög þessi kveða ekki á um gjaldskyldu, gjaldfrelsi, úrskurð um flokkun til gjaldskyldu, álagningu, innheimtu, lögvernd, viðurlög, refsingar og aðra framkvæmd varðandi gjald af innfluttu áfengi.

IV. KAFLI
Breyting á lögum nr. 29/1993, um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl., með síðari breytingum.

18. gr.

     2. mgr. 4. gr. laganna fellur brott.

19. gr.

     Við 1. tölul. 2. mgr. 5. gr. laganna bætist nýr stafliður sem orðast svo: Ökutæki sem ætluð eru fyrir starfsemi björgunarsveita enda liggi fyrir staðfesting landssamtaka björgunarsveita á að viðkomandi ökutæki verði einungis notuð í þágu björgunarsveita.

20. gr.

     7. gr. laganna orðast svo:
     Ákvæði 3. gr., 6. tölul. 1. mgr. 5. gr. og 1.–6. og 11. tölul. 1. mgr. 6. gr. tollalaga, nr. 55/1987, skulu ná til vörugjalds af ökutækjum samkvæmt lögum þessum eftir því sem við getur átt.

V. KAFLI
Breyting á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með síðari breytingum.

21. gr.

     36. gr. laganna orðast svo:
     Eftirfarandi vörur skulu undanþegnar virðisaukaskatti við innflutning:
  1. Vörur sem eru tollfrjálsar eða undanþegnar tolli skv. 3. gr., 5. gr. og 2.–6. og 11. tölul. 1. mgr. 6. gr. tollalaga, nr. 55/1987, með síðari breytingum.
  2. Vörur sem undanþegnar eru virðisaukaskatti samkvæmt milliríkjasamningum sem Ísland er aðili að, frá þeim tíma er viðkomandi samningur hefur öðlast gildi að því er Ísland varðar.
  3. Vörur sem undanþegnar eru skattskyldri veltu, sbr. 6. tölul. 1. mgr. 12. gr.
  4. Listaverk sem falla undir tollskrárnúmer 9701.1000–9703.0000 og listamaðurinn sjálfur flytur inn.
  5. Ritað mál sem sent er til vísindastofnana, bókasafna og annarra opinberra stofnana án endurgjalds án tillits til í hvaða formi efnið er, enda sé innflutningurinn ekki í viðskiptaskyni.
  6. Vörur, þó ekki áfengi eða tóbak, sem fluttar eru til landsins af aðilum sem skráðir eru skv. 5. gr., ef fob-verð sendingar nemur ekki hærri fjárhæð en 1.500 kr.
  7. Ökutæki sem ætluð eru fyrir starfsemi björgunarsveita, enda liggi fyrir staðfesting landssamtaka björgunarsveita á því að viðkomandi ökutæki verði einungis notuð í þágu björgunarsveita.

     Úrskurður tollstjóra um niðurfellingu eða endurgreiðslu virðisaukaskatts skv. 1.–6. tölul. 1. mgr. sætir kæru til ríkistollstjóra í samræmi við 102. gr. tollalaga, nr. 55/1987, með síðari breytingum.

22. gr.

     Við 42. gr. laganna bætist ný málsgrein sem orðast svo:
     Endurgreiða skal virðisaukaskatt af rannsóknartækjum sem óskattskyldir rannsóknaraðilar kaupa fyrir styrkfé eða fá að gjöf.

VI. KAFLI
Gildistaka.

23. gr.

     Lög þessi öðlast gildi 1. júlí 2000 og taka til allra vara sem eru ótollafgreiddar við gildistöku þeirra.

Ákvæði til bráðabirgða.
     Heimildir sem innflytjendur og framleiðendur hafa við gildistöku laga þessara til niðurfellingar tolls af hráefni, efnivöru og hlutum í innlendar framleiðsluvörur skulu gilda til 31. október 2000. Eftir það tímamark skal tollur á hráefni, efnivöru og hlutum í innlendar framleiðsluvörur eingöngu felldur niður á grundvelli heimilda sem veittar eru í samræmi við ákvæði 2. gr. laga þessara.

Samþykkt á Alþingi 9. maí 2000.