Ferill 1. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 402  —  1. mál.




Nefndarálit



um frv. til fjárlaga fyrir árið 2002.

Frá 2. minni hluta fjárlaganefndar.



    Fjárlagafrumvarpið fyrir árið 2002 kemur nú til 2. umræðu. Endurskoðuð tekjuáætlun og lánsfjáráætlun liggur ekki fyrir. Nánast ekkert hefur verið rætt í nefndinni hvernig bregðast á við fjárþörf stórra málaflokka.
    Á stuttum fundi í fjárlaganefnd sl. sunnudagskvöld tilkynnti formaður nefndarinnar að ekki hefði verið lokað einum einasta útgjaldalið í frumvarpinu og væru þeir allir til umfjöllunar milli 2. og 3. umræðu. Engu síður vildi formaðurinn að frumvarpið yrði tekið út úr nefnd til 2. umræðu. Ekki var minnst einu orði á að fyrir dyrum stæði niðurskurður eða breytingar á öllu fjárlagafrumvarpinu. Því kom það 2. minni hluta á óvart að heyra vitnað í fjölmiðlum til sjónvarpsviðtals sl. sunnudag, 25. nóvember, við forsætisráðherra þar sem hann boðaði að niðurskurðartillögur frá ríkisstjórninni yrðu lagðar fyrir þingflokka ríkisstjórnarinnar á mánudag. Í ljósi alls þessa er það fullkomin sýndarmennska að mati 2. minni hluta að taka fjárlagafrumvarpið svo búið til 2. umræðu. Annar minni hluti leggur til að 2. umræðu verði frestað uns nýjar tillögur ríkisstjórnarinnar í ríkisfjármálum hafa komið fram og um þær hefur verið fjallað í fjárlaganefnd.

Heimatilbúinn vandi í efnahagsmálum.
    Þessi mikli vandræðagangur ríkisstjórnarinnar þarf ekki að koma á óvart. Gengi krónunnar er fallandi og hefur náð sögulegu lágmarki þessa dagana, en gengisvísitalan er nú komin yfir 150 stig. Þetta gerist þrátt fyrir 9% vaxtamun við útlönd og að Seðlabankinn hafi varið digrum sjóðum í erlendum gjaldeyri krónunni til varnar. Enn fremur er spáð 8,5% verðbólgu á árinu sem er langt umfram þau markmið sem Seðlabankanum voru sett við stjórn peningamála. Þjóðhagsstofnun spáir 0,3% samdrætti í landsframleiðslu á næsta ári og fari svo er það í fyrsta skipti síðan 1992 sem landsframleiðsla dregst saman. OECD spáir enn meiri samdrætti eða 0,6% á næsta ári. Fjárlagafrumvarpið gerir ráð fyrir 1% hagvexti.
    Aðstæður heimila og fyrirtækja hafa einnig snúist til verri vegar að undanförnu. Verðbólgan rýrir hratt kaupmátt launþega og setur kjarasamninga í hættu á almennum vinnumarkaði. Stýrivextir Seðlabankans eru nú 10,1% og þeir, ásamt þenslu á innanlandsmarkaði, eru þungur baggi á atvinnulífinu. Því er ljóst að efnahagsuppsveiflu undangenginna ára er lokið en hversu snörp niðursveiflan mun verða er enn óvissu hulið. Hættumerkin í þróun efnahagsmála hafa blasað við sl. tvö til þrjú ár, svo sem mikill viðskiptahalli, erlendar lántökur og mikil aukning útlána bankakerfisins, en hægt hefði verið að bregðast við þeim áður en komið var í óefni. Erlendar skuldir þjóðarbúsins eru nú orðnar hærri en nemur árlegri landsframleiðslu (sjá grein Ögmundar Jónassonar sem birt er sem fylgiskjal II). Ríkisstjórnin með forsætisráðherra og fjármálaráðherra í broddi fylkingar hefur allt til þessa dags þverneitað allri gagnrýni og fullyrt að allt væri í stakasta lagi.
    Það væri þó hreint oflof að segja að ríkisstjórnin hafi flotið sofandi að feigðarósi því að flestar árar hafa verið úti til þess að róa þjóðarskútunni í öfuga átt. Í stað þess að styrkja innviði atvinnulífsins, byggð og búsetu í landinu öllu, hefur ríkisstjórnin blásið upp tímabundið „góðæri“ með einkavæðingu og skertri almannaþjónustu, gífurlegri byggðaröskun og skuldasöfnun þjóðarbúsins erlendis. Ein afleiðing þess er sú að tekjur ríkisins dragast hraðar saman en tekjuáætlun fjárlaga gerir nú ráð fyrir. Reyndar eru tekjur ríkissjóðs þegar farnar að minnka mjög hratt að mati Seðlabanka Íslands, sbr. nýjasta hefti Peningamála. Nú er viðurkennt að forsendur fjárlagafrumvarpsins halda engan veginn, eins og þær voru settar fram við 1. umræðu. Sala ríkisfyrirtækja, svo sem Landssímans og bankanna, er í fullkominni óvissu enda hvorki viðskiptalegar né samfélagslegar forsendur fyrir sölu þeirra um þessar mundir.
    Þótt hinir hörmulegu atburðir í Bandaríkjunum 11. september sl. og stríðsástand víða í heiminum hafi skapað mikla óvissu í þróun efnahagsmála og heimsviðskipta á næstu mánuðum væri það mikil sjálfsblekking að kenna því ástandi einu um stöðuna hér í efnahagsmálum og horfurnar fram undan.

Hvað hefur farið úrskeiðis?
    Í 35. tölublaði Viðskiptablaðsins frá í ágúst 2001 segir m.a.:
    „Erlend lántaka leiddi til mikils innflæðis fjármagns sem aftur varð til þess að gengi krónunnar styrktist. Seðlabankinn og ríkisvaldið hefðu átt að taka höndum saman um að koma í veg fyrir hækkun krónunnar, t.d. með með því að nota innflæðið til að greiða niður erlendar skuldir ríkisins.
    Afnema átti vikmörk krónunnar miklu fyrr en gert var í mars á þessu ári. En vikmörkin voru eins konar ríkisábyrgð á gengi krónunnar og urðu til þess að einstaklingar og fyrirtæki vanmátu þá gengisáhættu sem fylgir erlendum lántökum.
    Fara átti varlegar í að rýmka heimildir lífeyrissjóða til erlendra fjárfestinga. Það er eðlilegt að lífeyrissjóðirnir kaupi erlendar eignir, en sú þróun verður að ganga í smáum skrefum svo þjóðhagslegum stöðugleika sé ekki raskað.
    Aðhald í ríkisfjármálum hefði mátt byrja miklu fyrr, en fjárlögin 1998 og 1999 báru töluverðan keim af kosningum sem þá voru.
    Aðilar í atvinnulífi og stjórnkerfi fóru inn í þessa uppsveiflu innblásnir af kenningum kenndum við „nýja hagkerfið“ sem urðu til þess að möguleikar tæknifyrirtækja sem og framleiðsla hagkerfisins í heild voru stórlega ofmetnir. Það leiddi til bólu á hlutabréfamarkaði.“
    Mistökin liggja einnig, að mati undirritaðs, í ofurtrú á hagkvæmni stærðarinnar og einkavæðingu í almannaþjónustu. Hröð og skipulagslaus sala hlutabréfa í ríkisfyrirtækjum á sl. 3–4 árum reynist nú efnahagslífi þjóðarinnar dýrkeypt. Ríkisbankarnir voru einkavæddir og þeim heimilað að auka hlutafé sitt og selja á uppboðsmarkaði. Einkavæðing og sala hlutafjár í eignum ríkisins fór fram með miklum gusugangi og boðaföllum. Atgangurinn minnti helst á hugmynd Egils Skallagrímssonar sem var orðinn ellimóður en átti þá hinstu ósk að fara með kistur sínar, bróður- og sonarbætur, og dreifa á Þingvöll þá er Alþingi var háð og sjá allan þingheim berjast um fjölskyldusilfrið. Einstaklingar slógu lán og keyptu hlutabréf. Peningastofnanir og fjölmörg fyrirtæki tóku erlend lán til að kaupa hluti hvert í öðru og spenntu upp verðgildi stofnana og fyrirtækja langt umfram raunvirði. Uppboðsmarkaður verðbréfa var eins og torg múgsefjunar. Æðstu ráðamenn þjóðarinnar töluðu fjálglega um nýja hagkerfið sem leysti allra vanda og gæti ekki leitt til annars en gróða. Forn gildi og almenn skynsemi þyrftu þar víst hvergi að koma nærri. Þess er einnig skemmst að minnast að í framsöguræðu fjármálaráðherra fyrir fjárlagafrumvarpinu fyrir ári var „hið nýja hagkerfi“ mært ótæpilega.
    Margir höfðu þó varað við „netbólunni“ svokölluðu og lýst hlutabréfum sumra fyrirtækja „sem nokkurs konar keðjubréfum og mörgum verðbréfamiðlurum sem áköfum póstmönnum“ (Morgunblaðið í maí 2001). Athyglisvert er að forustumenn ríkisstjórnarinnar hafa ekki minnst á „nýja hagkerfið“ síðustu mánuðina.

Það verður að breyta um kúrs í efnahagsmálum.
    Ein af forsendum byggðar og blómlegs atvinnulífs er nærtæk almenn grunnþjónusta. Þetta á við um verslun, síma, fjarskipti, póstþjónustu, heilbrigðisþjónustu, menntun og jafnvel eldsneytistöku á bíla og vélar svo að nokkuð sé nefnt. Búseta og heimilishald krefst þess að hafa góðan aðgang að lágmarksþjónustu í sínu nánasta umhverfi. Sú þróun sem stjórnvöld hafa hvatt til í íslensku atvinnulífi er samruni og miðstýring sem leiðir til aukinnar fjarlægðar stjórnenda fyrirtækja frá því samfélagi sem þeim er ætlað að þjóna. Það er ekki langt síðan styrkur atvinnulífs hér á landi var dreifræði. Fyrirtækjum var stjórnað þar sem þau þjónuðu og ákvarðanir voru teknar af fólki sem þekkti staðhætti vel.
    En nú hefur orðið mikil samþjöppun í íslensku atvinnulífi og almannaþjónustu. Stækkun eininga í atvinnulífi og samfélagsþjónustu, einkavæðing með tímabundna arðsemi fjármagns sem höfuðmarkmið hefur í raun verið stefna stjórnvalda síðustu ár. Einnig þessi sýn á sér takmörk eins og nú er að koma á daginn. Tengsl atvinnulífs og umhverfis rofna, fyrirtækin trénast upp og tapa sveigjanleika og aðlögunarhæfni, enda hafa eigendurnir ekki lengur samfélagslega skírskotun. Gildir þar einu þótt í byrjun sé hlutaféð í eigu starfsmanna eða annarra sem eru nátengdir grasrótinni. Áður en varir hafa hlutirnir verið seldir og afdrif fyrirtækjanna eru þá í annarra höndum. Hagkvæmni og arðsemi snúast í andhverfu sína. Samkeppni snýst í fákeppni og einokun, hófleg arðsemiskrafa breytist í hömlulausa fégræðgi, siðferði og samfélagsábyrgð eru fyrir borð borin.
    Dapurleg dæmi þessa dagana eru áframhaldandi skerðing póstþjónustu á Vestfjörðum með tilheyrandi uppsögnum starfsfólks og minnkandi þjónusta Landsbankans sem lokar nú útibúum á Norðausturlandi og Suðurlandi. Það kann að virðast einföld framkvæmd að loka pósthúsi eða bensínafgreiðslu, leggja niður bankaútibú og segja starfsmönnum upp. En með slíku er í raun verið að auka rekstrarkostnað bæði heimila og fyrirtækja svo að um munar. Meint hagræðing kemur oft fram sem örlítil aukning á hagnaði, en getur falið í sér mjög alvarlegar afleiðingar fyrir þær byggðir og þá einstaklinga sem eiga í hlut.

Þjónusta banka og fjármálaþjónusta.
    Bankarnir hafa það meginhlutverk að vera þjónustustofnanir, taka við innlánum og lána síðan út peninga. Þeir eru hins vegar orðnir umsvifamiklir aðilar á hlutabréfamörkuðum, kaupa upp fyrirtæki sem eru í viðskiptum við þá og reka þau svo áfram. Þannig verða til hættuleg hagsmunatengsl þar sem ekki er alltaf ljóst hvort á stærri hlut í hinu, fyrirtækið í bankanum eða bankinn í fyrirtækinu. Sú hætta skapast að peningastjórn bankans og útlánastarfsemi verði ekki lengur hlutlaus eða með almannahagsmuni að leiðarljósi. Í ritstjórnargrein tímaritsins Íslenskur iðnaður er það gagnrýnt að bankar reki svona tvöfalda starfsemi og varpi tapi af hlutabréfaviðskiptum sínum út í vexti og þjónustugjöld hjá viðskiptavinum sínum. Tekið er dæmi úr níu mánaða uppgjöri Landsbankans: „Gengistap af hlutabréfum nam 1.610 milljónum króna og eru umskiptin frá fyrra ári um tveir milljarðar króna.“ Hreinar vaxtatekjur bankans jukust um 44% eða 1.892 milljónir króna í samanburði við fyrstu níu mánuði ársins 2000. „Þarf frekari vitna við?“ spyr ritstjórinn. „Lántakendur eru umsvifalaust látnir greiða tapið af hlutabréfaeign bankans.“ Að mínu viti getur heilbrigð og virk bankaþjónusta vart gegnt hlutverki sínu við þessar aðstæður. Bönkum sem stunda almenna útlánastarfsemi ætti ekki að vera heimilt að fjárfesta í hlutabréfum og fullkomlega fráleitt er að þeim sé heimilt að fjárfesta í samkeppnisatvinnurekstri.

Lokaorð.
    Þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs vilja aðra forgangsröðun í tekjuöflun og útgjöldum ríkisins en ríkisstjórn Davíðs Oddssonar. Fjárlögum ríkisins á að beita til þess að auka jöfnuð í samfélaginu svo að enginn þurfi að líða vegna aldurs, fötlunar eða búsetu. Vinstri hreyfingin – grænt framboð leggur áherslu á að tekjum ríkisins verði í auknum mæli varið til menntunar og rannsókna, jafnframt að stefna í atvinnumálum taki fullt mið af sjálfbærri nýtingu náttúruauðlinda og tekið verði upp grænt bókhald þegar meta skal arðsemi í atvinnurekstri og við ákvörðun framkvæmda. Mikil byggðaröskun, stöðugir fólksflutningar á höfuðborgarsvæðið og sá mikli viðskiptahalli sem við höfum búið við síðustu ár sýnir það ótvírætt að viðskipta- og þjónustugeirinn á suðvesturhorninu hefur vaxið langt umfram það sem aukning í þjóðarframleiðslu gefur tilefni til. Þessu verður að snúa við ef við eigum að ná eðlilegum hagvexti, jafnvægi í viðskiptum og greiða niður skuldir þjóðarbúsins við útlönd. Á síðustu árum hefur þróast hér hagkerfi, efnahags- og atvinnulíf sem nærist á viðskiptahallanum og verður háð honum. Það verður þrautin þyngri að snúa af þeirri braut. Krafa um hagræðingu sem tekur einungis tillit til tímabundinna arðsemiskrafna fjármagnseigenda og ofurtrú á hagkvæmni stærðarinnar hefur villt stjórnvöldum sýn og leitt atvinnulífið inn á villigötur sem þjóðin öll sýpur nú seyðið af.
    Sem fylgiskjöl eru birt sérálit sem fulltrúar Vinstri hreyfingarinnar í einstökum þingnefndum hafa sent fjárlaganefnd. Þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hefur undanfarin ár flutt breytingartillögur við tekjuhlið frumvarpsins og þá málaflokka sem sérstök tilefni eru til. Eins og nú horfir verður slíkt látið bíða 3. umræðu, ef stjórnarmeirihlutinn heldur því til streitu að láta 2. umræðu um fjárlagafrumvarpið fara fram í fullkominni óvissu og án þess að gengið hafi verið frá endanlegum breytingartillögum, hvorki við tekna- né gjaldahlið frumvarpsins.

Alþingi, 26. nóv. 2001.



Jón Bjarnason.




Fylgiskjal I.


Sveinn Hannesson:

Úr Íslenskum iðnaði — fréttabréfi Samtaka iðnaðarins.


Hver borgar brúsann?


(Ritstjórnargrein í nóvember 2001.)



    Undirritaður er einn þeirra sem hefur undanfarin ár fylgst með breytingum á íslenskum fjármagnsmarkaði og fagnað í einlægni þeim framförum sem þar hafa orðið í átt til aukins frjálsræðis og samkeppni. Hef í lengstu lög viljað trúa því að með sömu og svipuðum starfsskilyrðum og galopnu hagkerfi myndum við fara að haga okkur eins og aðrar þjóðir sem við viljum bera okkur saman við, versla við og keppa við.

Fjarlæg framtíðarsýn.
    Við myndum þá einnig í framtíðinni búa við svipaðan stöðugleika í verðlags- og gengismálum, svipað vaxtastig og bankaþjónustu o.s.frv. Undirritaður á þessa dagana æ erfiðara með að sjá þennan draum rætast. Íslenska krónan heldur áfram að falla þó að hún sé nú orðin lægra metin en verið hefur um áratuga skeið. Vextirnir eru tvö- til þrefaldir á við nágrannalöndin og álagning bankanna ofan á himinháa grunnvexti hækkar stöðugt.

Talnaleikur.
    Í viðtali við viðskiptablað Mbl. 15. nóv. sl. reyndi talsmaður bankanna, Guðjón Rúnarsson, með talnaleikfimi að slá því upp að vaxtamunur fari hér lækkandi, en vel að merkja, sem hlutfall af niðurstöðutölu efnahagsreiknings. Ekki var sá málflutningur sannfærandi. Undanfarin ár hafa efnahagsreikningar banka og lánastofnana þanist út vegna endurlána og alls konar fjárfestinga í hlutabréfum innan lands og utan, sem ekki bera vexti og reyndar ekki arð heldur um þessar mundir. Ef banki tekur lán til hlutabréfakaupa þá leiðir það sem sagt til þess að reiknaður vaxtamunur minnkar vegna þess að vaxtakostnaður bankans eykst og deilitalan, niðurstöðutala efnahagsreiknings, stækkar. Er þetta frambærilegur málflutningur?

Frétt frá Landsbankanum.
    Nú vill svo skemmtilega til að daginn eftir viðtalið góða birtist í sama blaði frétt af níu mánaða uppgjöri Landsbankans þar sem eftirfarandi kom fram: „Gengistap af hlutabréfum nam 1.610 milljónum króna og eru umskiptin frá fyrra ári um tveir milljarðar króna, en á sama tímabili í fyrra nam gengishagnaður af hlutabréfum 424 milljónum króna. Vaxtatekjur jukust u.þ.b. sem samsvarar aukningu á gengistapi af hlutabréfum og koma þar til aukin áhrif af verðbólgu, að því er fram kemur í fréttatilkynningu frá Landsbankanum.“ Í annarri frétt sagði: „Hreinar vaxtatekjur bankans jukust um 44% eða 1.892 milljónir króna í samanburði við fyrstu níu mánuði ársins 2000.“ Þarf frekari vitna við? Lántakendur eru umsvifalaust látnir greiða tapið af hlutabréfaeign bankans.


Gamalkunnug staða.

    Það er ekki einasta að efnahagsástandið sé farið að minna óþægilega á gamla tíma heldur virðast vinnubrögð öflugra og markaðsráðandi fyrirtækja líka minna á gamla tíma. Útrás og jafnvel innrás ungra og djarfra fjármálasnillinga hefur að undanförnu verið að bíða umtalsvert skipbrot og reikningurinn vegna tapsins er sendur þráðbeint til lítilla og meðalstórra fyrirtækja og heimilanna í landinu.

Einkennileg samkeppni.
    Það er nefnilega mikill misskilningur sem fram kemur í fréttinni sem áður er vitnað til að: „Íslenskir bankar séu ekki einungis í samkeppni innbyrðis heldur einnig við erlendar lánastofnanir.“ Staðreyndin er sú að samkeppnin nær ekki til nema allra stærstu viðskiptaaðila þessara stofnana. Þeir sem búa við raunverulega samkeppni þurfa ef til vill ekki að greiða reikninginn vegna misheppnaðra fjárfestinga lánastofnana en þeim mun meira kemur í hlut hinna, sem þurfa að taka við því sem að þeim er rétt. Þeir fá tilkynningar um 100 punkta vaxtahækkun án skýringa og engum dettur í hug að þeir kvarti þó gíróseðillinn hækki um 58% á réttum tveim árum.

Áhætta á kostnað annarra.
    Það er umhugsunarefni hversu mörg af stærstu og öflugustu fyrirtækjum okkar hafa hellt sér út í fjárfestingu í hlutabréfum og orðið að stórum hluta hlutabréfasjóðir. Munurinn er bara sá að þegar verðfall verður á hlutabréfamörkuðum, þá taka eigendur venjulegra hlutabréfasjóða á sig skellinn en þegar skipafélög, olíufélög eða bankar eiga í hlut þá reyna eigendurnir að sjálfsögðu að láta aðra bera skaðann og það er því miður víða hægt þar sem samkeppnin er ekki til trafala.




Fylgiskjal II.


Ögmundur Jónasson:

Skuldasprenging.


(Mbl. 6. október 2001.)



    Lengi vel gumaði ríkisstjórnin af því að henni væri að takast það ætlunarverk sitt að lækka skuldir ríkissjóðs. Þetta hefur vissulega gengið eftir sé miðað við skuldastöðuna um miðjan síðasta áratug. Hitt er áhyggjuefni hvernig skuldir sveitarfélaga hafa vaxið, að ekki sé minnst á skuldir heimila og fyrirtækja í landinu. Sú ógnarmynd sem blasir við þegar tölur eru settar á blað hefur eflaust orðið þess valdandi að ríkisstjórnin gerist nú hógværari í tali um árangur varðandi niðurfærslu skulda.
    Eins og sjá má á meðfylgjandi töflum og stöplariti sem er sett saman á grunni upplýsinga frá Þjóðhagsstofnun hafa skuldir annarra en opinberra aðila tvöfaldast sem hlutfall af vergri landsframleiðslu á einum áratug. Þetta á bæði við um skuldir heimilanna og skuldir fyrirtækja. Upphæðirnar sem hér er um að tefla eru hærri en menn hafa vanist að nefna. Þjóðhagsstofnun áætlar skuldir heimilanna á þessu ári sex hundruð sjötíu og fimm milljarða króna og skuldir fyrirtækjanna eitt þúsund fjörutíu og fimm milljarða króna. Heildarskuldir þjóðarinnar nema nú eittþúsund níuhundruð tuttugu og fimm milljörðum króna samkvæmt áætluðum tölum Þjóðhagsstofnunar fyrir þetta ár.
    Vissulega er að mörgu að hyggja þegar rætt er um skuldastöðu, hvort sem er hjá hinu opinbera eða fyrirtækjum og heimilum og væri æskilegt að hafa einnig upplýsingar um eignamyndun og eignastöðu. Það breytir þó ekki hinu að þessar skuldir eru orðnar geigvænlegar og miðað við það vaxtastig sem við búum við er ósennilegt að fyrirtæki og heimili hlaði upp skuldum ef eignir þeirra bjóða upp á annað. Í þessu sambandi er einnig rétt að benda á að þær viðmiðanir sem hér er stuðst við eru verg landsframleiðsla sem mælir umfang efnahagsstarfsemi í landinu og það hlýtur að verða okkur öllum til umhugsunar þegar skuldir þjóðarinnar eru orðnar 259% af þessari stærð.
    Sú kenning hefur verið í tísku á síðustu árum að háir vextir myndu slá á útlán lánastofnana. Samkvæmt þessari þróun virðist þessi kenning ekki standast og er eðlilegt að spurt sé hvort skort hafi annað stýritæki sem einfaldlega heitir heilbrigð skynsemi. Eitt er víst að við þessar aðstæður þarf að fara varlega ef forðast á hrun. Það er ekki að undra að krafist sé vaxtalækkana. Undarlegt má heita ef Seðlabankinn og reyndar lánastofnanirnar sjálfar hafa ekki forgöngu um að færa vexti niður því ella er sýnt að vaxtapíningin mun koma þeim í koll þótt síðar verði. Aðþrengdur skuldunautur reynir þó að borga; sá sem orðinn er gjaldþrota greiðir að sjálfsögðu ekki skuldir sínar að öðru leyti en því að þrotabúið gengur upp í skuldir. Stöðugleiki fjármálakerfisins og þar með efnahagslífsins alls er í húfi.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Fylgiskjal III.



Álit



um frv. til fjárlaga fyrir árið 2002 (03 Utanríkisráðuneyti).

Frá minni hluta utanríkismálanefndar.



    Minni hlutinn vekur athygli á því að útgjöld utanríkisráðuneytis hafa aukist umtalsvert á síðustu árum. Sumpart er þar um að ræða aukna starfsemi í utanríkisþjónustunni, tilkomu aukins alþjóðasamstarfs og nýrra verkefna, lítillega aukin framlög til þróunarsamvinnu o.fl. sem óumflýjanlegt og brýnt er að sinna. Ný útgjaldatilefni verður þó að meta hverju sinni með hliðsjón af því hvernig takmörkuðum fjármunum verður best varið. Þannig hefur mörgum brugðið í brún þegar kostnaður vegna nýs sendiráðs í Japan kom í ljós. Ekki einasta er fasteignaverð svimandi hátt í Tókýó heldur kemur á daginn að standsetning húsnæðis, og ýmis búnaður í það, er óheyrilega kostnaðarsöm. Síðan bætist við gríðarmikill árlegur rekstrarkostnaður þannig að þetta eina sendiráð kemur til með að kosta svipað og tvö sendiráð á Norðurlöndunum eða rúmlega það. Minni hlutinn tekur fram að hann hefur stutt það að utanríkisþjónustan væri efld og Íslendingar yrðu að gæta hagsmuna sinna á alþjóðavettvangi og kosta þar nokkru til. Þetta gildir einnig um opnun nýrra sendiráða, t.d. í Kanada og Afríku. Hitt er annað að þegar í ljós kom hversu gríðarlegur kostnaður yrði samfara opnun sendiráðs í Japan hefði e.t.v. átt að endurskoða þá ákvörðun eða leita leiða til þess að ná þessum kostnaði niður, t.d. með því að fara í samstarf við aðrar Norðurlandaþjóðir um rekstur þess. Af öðrum nýtilkomnum útgjaldatilefnum sem augljóslega hleypa upp kostnaði á vegum utanríkisráðuneytisins er nærtækt að nefna aðild okkar að Schengen-samstarfinu en ljóst er nú að sú aðild reynist ærið dýru verði keypt. Kemur það ekki síst fram í kostnaði við rekstur Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar sem nánar verður vikið að síðar.
    Ef litið er á útgjaldaþróun til utanríkismála á fimm ára tímabili frá og með árinu 1998 til og með talna sem nú liggja fyrir í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2002 er þróunin í milljörðum króna og sem hlutfall utanríkisráðuneytis af heildarútgjöldum eftirfarandi:
Heildarútgjöld ríkissjóðs M.kr. Útgjöld utanríkisráðuneytis M.kr. Hlutfall
1998 165.677 1998 2.916 1,76%
1999 182.376 1999 3.185 1,75%
2000 193.159 2000 3.778 1,96%
2001 219.164 2001 4.084 1,86%
2002 (frumvarp) 239.296 2002 (frumvarp) 5.012 2,09%
    Minni hlutinn gerir sérstaklega athugasemdir við eftirfarandi atriði:
     1.      Utanríkisráðherrafundur NATO. Minni hlutinn telur að þeim gríðarlegu fjármunum sem fara munu í að halda utanríkisráðherrafund NATO hér á landi á næsta ári væri betur varið í önnur verkefni, t.d. til hækkunar á framlögum til þróunarsamvinnu eða annarra þarfra málefna á vegum ríkisins. Nú er upplýst að kostnaður sem fellur á utanríkisráðuneytið verður allt að 250 millj. kr. og hefur áætlaður kostnaður hækkað um fleiri tugi milljóna á nokkrum vikum. Alls óvíst er þó að öll kurl séu komin til grafar og þessi tala gæti því allt eins átt eftir að hækka enn frekar. Upplýst var í nefndinni að kostnaður vegna öryggis og löggæslu er fyrir utan þetta og á enn eftir að gera ráð fyrir honum í fjárlagatillögum. Ljóst er að sá kostnaður verður gríðarlegur og bætir ástand heimsmála ekki úr skák í þeim efnum. Minni hlutinn vekur athygli á því hvernig ákvarðanir sem leiða af sér hundruð milljóna króna í ríkisútgjöld ber að í tilvikum eins og þessum. Það er ráðherra sem býður á fundi erlendis að Ísland taki að sér að halda fund eða standa fyrir atburðum af þessu tagi. Síðan er komið heim og leitað til fjárveitingavaldsins sem stendur frammi fyrir tveimur kostum: að borga reikninginn eða valda ráherra, landi og þjóð þeim álitshnekki að afturkalla boðið. Minni hlutinn er þeirrar skoðunar að þegar um er að ræða jafnkostnaðarsamt fyrirtæki og margnefndur NATO-fundur er ætti að hafa um þetta samráð fyrir fram og áður en boðist er til að taka slíkt að sér.
     2.      Flugstöð Leifs Eiríkssonar hf. Hlutafélag var stofnað um rekstur flugstöðvarinnar á Keflavíkurflugvelli sem yfirtók reksturinn frá og með 1. október 2000. Samkvæmt upplýsingum sem að lokum bárust frá utanríkisráðuneyti voru langtímaskuldir fyrirtækisins í lok júní sl. samkvæmt fyrsta árshlutareikningi félagsins rétt tæpir 6 milljarðar kr. Til viðbótar eru skammtímaskuldir upp á um 460 millj. kr. auk lífeyrisskuldbindinga upp á um hálfan milljarð króna. Rekstrartekjur höfðu aukist óverulega á milli ára eða úr 1.881.471.205 kr. á tímabilinu 1. janúar til 30. júní 2000 í 1.932.860.099 kr. á sama tímabili þessa árs. Ljóst er því að hugmyndir um stórauknar tekjur vegna aukinna umsvifa og meiri leigutekna og veltu hafa ekki gengið eftir. Ef litið er til afkomunnar á sama tímabili, þ.e. janúar til júní í ár, syrtir heldur betur í álinn. Rekstrartap er upp á litlar 580 millj. kr. og hefur þó verið tekjufærður skattafrádráttur sem nemur rúmlega 220 millj. kr. sem að sjálfsögðu er sýnd veiði en ekki gefin eins og árar í rekstri fyrirtækisins. Tap fyrir skatta er þannig yfir 800 millj. kr. Vissulega er ljóst að gengisfall krónunnar ræður miklu um þessa hörmulegu afkomu, en fjármagnsliðir eru neikvæðir upp á rúmlega 1.100 millj. kr. Samkvæmt fjárlögum ársins í ár var gert ráð fyrir að Flugstöð Leifs Eiríkssonar hf. endurfjármagnaði öll áhvílandi lán sín hjá ríkissjóði. Nú er upplýst að hætt hafi verið við þetta og meira að segja farið fram á sérstaka ríkisábyrgð á endurfjármögnun þess láns sem fellur í gjalddaga í desember nk. Jafnframt hafi verið ákveðið að endurfjármögnun annarra lána fari ekki fram fyrr en á gjalddaga lánanna í hverju tilviki og verður væntanlega flutt breytingartillaga við fjárlagafrumvarpið þar að lútandi. Hugmyndir um að hið nýja hlutafélag yrði fjárhagslega sjálfstæður aðili sem sæi um fjármögnun fjárfestinga og eldri lána á sjálfstæðum forsendum hafa því runnið út í sandinn og vaknar þá á nýjan leik sú spurning hvað áunnist hafi með hlutafélagavæðingunni úr því að hlutafélagið kemst hvorki lönd né strönd án sérstakrar ríkisábyrgðar og stuðnings ríkisins. Ekki fengust upplýsingar um rekstrarhorfur flugstöðvarinnar í ljósi breyttra aðstæðna og er þá átt við þann samdrátt í flugumferð sem nú blasir við og ekki liggur heldur neitt fyrir hvernig takast eigi á við vaxandi rekstrarefiðleika mjög margra leigutaka í flugstöðinni sem fréttir hafa borist af að undanförnu. Þá er enn ónefndur sá þáttur sem minni hlutinn óttast að eigi eftir að valda miklum erfiðleikum á komandi missirum og verða ávísun á stóraukin útgjöld ríkisins og það er aðild okkar að Schengen-samstarfinu. Ljóst er að tilkoma Schengen-samstarfsins þýðir umtalsvert óhagræði og viðbótarkostnað fyrir flugrekstrar- og þjónustuaðila í Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Ekki fengust neinar upplýsingar um hvernig til stæði að reyna að taka á þessum vanda og er óhjákvæmilegt að gagnrýna það að ekki skuli liggja fyrir greinarbetri upplýsingar um stöðu mála þegar líður að lokum fjárlagavinnu fyrir árið 2002.
     3.      Óskað var sérstaklega eftir upplýsingum um hvernig framlög Íslendinga til þróunarmála hefðu þróast að undanförnu og í hvað stefndi í þeim efnum á næsta ári. Upplýst er, og veldur vonbrigðum, að tölur í fjárlagafrumvarpi muni þýða að framlög til þróunarsamvinnu haldast óbreytt sem hlutfall af landsframleiðslu á árinu 2002 miðað við árið 2001 eða 0,12% af landsframleiðslu. Rétt er að minna á að yfirlýst markmið aðildarríkja Sameinuðu þjóðanna er að þróuð ríki verji 0,7% af landsframleiðslu, þ.e. opinberir aðilar, og vonast er til að aðrir, svo sem hjálparstofnanir, samtök og einstaklingar, verji 0,3% af landsframleiðslu þannig að heildarframlög þróaðra ríkja verði að lágmarki 1% af landsframleiðslu. Samkvæmt stefnumótun í ríkisstjórn á fyrra kjörtímabili var ætlunin að hækka framlög Íslendinga og þar með hlutfall af landsframleiðslu í áföngum á næstu árum. Þegar litið er yfir nokkur síðustu ár og horft til næsta árs kemur í ljós að sáralítið hefur áunnist í þeim efnum. Þannig var framlag Íslands til þróunarsamvinnu 0,10% af landsframleiðslu bæði árið 1995 og aftur árið 1997 svo dæmi sé tekið, en þetta hlutfall verður eins og áður sagði 0,12% af landsframleiðslu árin 2001 og 2002. Hlutfallið hefur því aðeins þokast upp um 0,02% miðað það sem var fyrir 5–7 árum. Þetta þýðir að upphæðin þyrfti nærfellt að sexfaldast til að ná hinum alþjóðlegu viðmiðunarmörkum sem til að mynda önnur Norðurlönd hafa flest uppfyllt fyrir löngu eða langleiðina það.
    Með vísan til þess sérstaklega sem að framan greinir og í ljósi almennrar útgjaldaþróunar til málefna á verksviði utanríkisráðuneytisins undanfarin ár telur minni hlutinn að ástæða sé til að málefni ráðuneytisins verði yfirfarin sérstaklega nú í tengslum við fjárlagagerðina og höfð til nánari skoðunar á komandi mánuðum.

Alþingi, 19. nóv. 2001.


Steingrímur J. Sigfússon.




Fylgiskjal IV.



Álit



um frv. til fjárlaga fyrir árið 2001 (10 Samgönguráðuneyti).

Frá 1. minni hluta samgöngunefndar.



    Fyrsti minni hluti samgöngunefndar hefur ýmsar athugasemdir við þann hluta fjárlagafrumvarpsins sem er á málefnasviði nefndarinnar.
    Í fyrsta lagi mótmælir 1. minni hluti áformuðum niðurskurði á fjárframlögum til vegamála samkvæmt gildandi vegáætlun. Samkvæmt fjárlagafrumvarpinu nemur niðurskurðurinn 1.461millj. kr. frá vegáætlun. Ekki liggja fyrir tillögur um hvar niðurskurðinum er ætlað að koma niður, en eðlilegt hefði verið að sú ákvörðun væri tekin samhliða niðurskurðinum.
    Fyrsti minni hluti leggur áherslu á að þeim fjármunum sem þegar hefur verið gert ráð fyrir til málaflokksins verði ráðstafað þar, enda næg verkefni. Má nefna brýna þörf á auknu fjármagni til vegaframkvæmda á Norðausturlandi og Vestfjörðum. Þá er afar brýnt að auka framlög til safn- og tengivega og styrkvega eða vega sem í daglegu tali eru kallaðir „sveitavegir“. Framlög til stofnkostnaðar og viðhalds þessara vega hafa hlutfallslega rýrnað þegar litið er á framlög til vegamála í heild. Akstur skólabarna og sókn til vinnu utan bús krefst úrbóta á vegakerfi sveitanna. Byggðaröskunin er alvarlegasta ógnun í efnahagsbúskap þjóðarinnar. Betri vegir og stytting vegalengda milli staða eykur samkeppnishæfni búsetunnar og styrkja hana um allt land og því eru samgöngubætur og aukið öryggi á þjóðvegunum forgangsmál.
    Í öðru lagi telur 1. minni hluti brýna þörf á því að endurskoða reglur um úthlutun fjármuna til hafnarframkvæmda. Sumar hafnir eru í þeirri stöðu að þeim er ófært að ráðast í framkvæmdir þar sem þær hafa ekki ráð á því mótframlagi sem þeim er gert að greiða miðað við núverandi reglur. Bág fjárhagsstaða hafnarsjóða má ekki leiða til þess að íbúum og fyrirtækjum í einstökum sveitarfélögum á landinu sé mismunað að þessu leyti. Nauðsynlegt er að gera sérstaka úttekt á hversu alvarleg þessi staðreynd er fyrir einstök sveitarfélög. Þá er mikilvægt að áætluð framlög til stofnframkvæmda sem fram koma í áætlunum sem samþykktar eru á Alþingi séu verðbættar til að verðlagsbreytingar komi ekki niður á framkvæmdum.
    Í þriðja lagi mótmælir 1. minni hluti sérstaklega fyrirhugaðri fjárveitingu til stórskipahafnar í Reyðarfirði. Nauðsyn þessarar framkvæmdar veltur á því hvort álver verður byggt í Reyðarfirði eða ekki, en um það hefur engin endanleg ákvörðun verið tekin og því ótímabært að ráðstafa fé í framkvæmdina. Þessum fjármunum væri betur varið til hafnargerðar þar sem þörfin liggur fyrir, en ljóst er að hún er víða brýn. Má þar nefna staði þar sem atvinnulíf er í hættu vegna þess að hafnirnar geta ekki tekið á móti skipum með eðlilegum hætti til löndunar og útskipunar.
    Í fjórða lagi er mótmælt skerðingu á fjármagni til sjóvarnargarða og til hafnabótasjóðs. Hér er um lítinn sparnaðarávinning að ræða fyrir ríkissjóð þar sem upphæðirnar eru litlar en verkin sem sjóðirnir styrkja hafa mikla þýðingu fyrir hlutaðeigandi. Þá er eðlilegt að þessi stofnframlög séu verðbætt á fjárlögum.
    Í fimmta lagi er frestun á framkvæmdum við innanlandsflugvelli mótmælt. Bitnar þessi frestun m.a. á framkvæmdum við flugvellina á Akureyri, Egilsstöðum, í Vestmannaeyjum, á Hornafirði og Ísafirði. Frekar hefði átt að horfa til þess að aðstaða til innanlandsflugs yrði styrkt og bætt. Fyrir þinginu liggur nú frumvarp til laga um loftferðir þar sem gerðar eru auknar kröfur til flugvalla og flugvéla. Innanlandsflug á undir högg að sækja. Óeðlilegt verður að teljast að á sama tíma og til stendur að auka kröfur á þessu sviði er áformað að fresta ýmsum nauðsynlegum framkvæmdum á flugvöllum landsins.
    Þá er mótmælt því að skipting á liðnum 10-190-1.12 vetrarsamgöngur og vöruflutningar sé færð frá nefndinni að meginhluta og yfir til samgönguráðherra. Sömuleiðis hefði samgöngunefnd átt að skipta liðnum 1.42 Gestastofur, söfn og markaðsstarf, 14 millj. kr. Almenna reglan á að vera sú að þingið skipti safnliðum en ekki ráðherra.
    Að lokum sér 1. minni hluti ástæðu til að fagna niðurfellingu leiðarflugsgjalda sem fól í sér óréttlátta og íþyngjandi gjaldtöku fyrir alla flugumferð í landinu.

Alþingi, 19. nóv. 2001.

Jón Bjarnason.



Fylgiskjal V.



Álit



um frv. til fjárlaga fyrir árið 2002 (02 Menntamálaráðuneyti).

Frá minni hluta menntamálanefndar.



    Minni hluti nefndarinnar leggst gegn því að innritunargjöld í ríkisháskólum séu hækkuð. Samkvæmt t.d. lögum um Háskóla Íslands, nr. 41/1999, má fjárhæð innritunargjalda nema allt að 25.000 kr. og það var andi laganna að ekki mætti innheimta nema fyrir raunkostnaði við innritun. Minni hlutinn telur að ekki hafi verið sýnt fram á að raunkostnaður við innritun nemenda hafi hækkað tilsvarandi við það sem lagt er til í fjárlagafrumvarpinu. Minni hlutinn telur að með hagræðingu eigi að vera hægt að láta innritunargjöldin nægja fyrir raunkostnaði.
    Þeir ríkisreknu háskólar sem búa við reiknilíkanið sem tekið var upp fyrir fáum árum eru margir í vanda staddir. Til þess eru ýmsar ástæður, svo sem þær að í upphaflegri útgáfu líkansins var ekki hugað nægilega að fjölbreytileika skólanna og reynt var að steypa þá alla í sama mótið. Forsendur voru allt of naumar, t.d. hvað snertir umfang kennslu, framlög til stjórnkerfis og stoðstarfsemi. Þá hefur það gerst á þessu ári að launaliður líkansins hefur ekki fylgt umsömdum launahækkunum. Hér virðist vanta um 5% og sú hundraðstala er fljót að verða að nokkrum tugum milljóna króna, jafnvel í minni skólum, og skólarnir mega einfaldlega ekki við þess konar áföllum. Menn eru búnir að standa í niðurskurði árum saman til að reyna að ná endum saman og þar er ekki á bætandi. Minni hlutinn telur algjörlega nauðsynlegt að róttæk endurskoðun á reiknilíkani framhaldsskóla fari fram tafarlaust.
    Hvað kennslusamninga við háskóla varðar álítur minni hlutinn að þá þurfi að endurskoða og gera ráð fyrir hærri framlögum á hvern nemanda í háskólum sem ekki innheimta skólagjöld. Það er t.d. ljóst að Háskóli Íslands þarf að halda úti kennslu í mjög fámennum og fjárhagslega óhagkvæmum deildum sem einkareknir háskólar sneiða hjá.
    Minni hlutinn gagnrýnir það að ekki skuli enn lokið gerð samnings um fjármögnun til rannsókna í háskólum og tekur hvað það varðar undir álit meiri hluta nefndarinnar. Það hlýtur að teljast óeðlilegt að ekki skuli vera samræmi milli verðbóta á kennslukostnaði og verðbóta á rannsóknarkostnaði í frumvarpinu. Það verður að leiðrétta.
    Það er álit minni hlutans að nauðsynlegt sé að taka á málum Þjóðminjasafnsins og Fornleifaverndar ríkisins m.a. vegna þess nýja rekstrarumhverfis sem ný lög búa þessum stofnunum. Þannig tekur minni hlutinn undir þá beiðni Fornleifaverndar ríkisins og Þjóðminjasafns að nauðsynlegt sé að aðskilja embætti fjármálastjóra stofnananna tveggja, enda ófært að fjármálastjóri Þjóðminjasafns þurfi að semja við sjálfan sig vegna tilboða í verk sem Fornleifaverndin býður út. Ef til stendur að opna Þjóðminjasafnið á tilsettum tíma vantar 120 millj. kr. til nýrrar grunnsýningar safnsins að mati forsvarsmanna þess því samkvæmt fjárlagafrumvarpinu er einungis fjármagnaður kjarninn í starfseminni en engir fjármunir ætlaðir til nýrrar grunnsýningar. Minni hlutinn tekur undir þessi sjónarmið.
    Tekið er undir það í áliti meiri hlutans að nauðsynlegt sé að hraða eftir föngum samningi um rekstur fornámsdeildar við Myndlistaskólann í Reykjavík. Minni hlutinn telur að ganga þurfi frá samningnum nú þegar svo að starfsemi fornámsdeildar raskist ekki á næsta skólaári. Þá er einnig nauðsynlegt að ganga frá samningi við Listaháskóla Íslands og ekki síður við Tækniskóla Íslands en dregist hefur úr hömlu að ganga tryggilega frá framsæknum samningi sem síðarnefndi skólinn getur starfað eftir.
    Minni hlutinn bendir á nauðsyn þess að leysa fjárhagsvanda Ríkisútvarpsins tafarlaust. Stofnunina vantar 400–500 millj. kr. á næsta ári til að hún geti starfað eðlilega og sinnt sínu lögboðna hlutverki. Sértekjukrafa sem gerð er á stofnunina í fjárlagafrumvarpinu er óraunhæf og hana verður að lækka um 75–100 millj. kr. Þá verður einnig að taka til skoðunar lífeyrisskuldbindingar sem hvíla á stofnuninni. Nú þegar Menningarsjóður útvarpsstöðva hefur verið lagður niður og aðrar stofnanir þurfa ekki lengur að greiða lögbundið framlag til hans heldur Ríkisútvarpið áfram að greiða 25% af rekstrarkostnaði Sinfóníuhljómsveitarinnar eða samkvæmt áætlun fyrir næsta ár 103 millj. kr. Undir þann rekstur þarf að skjóta öðrum stoðum.
    Þá vill minni hlutinn að málefni Námsgagnastofnunar verði skoðuð sérstaklega og framlag til hennar hækkað um 40 millj. kr. Enda er slíkt nauðsynlegt ef stofnunin á að geta sinnt lögboðnu hlutverki sínu.
    Að lokum gagnrýnir minni hlutinn niðurskurð á safnliðum frumvarpsins og þá tilhneigingu að auka það hlutfall sem ráðherra hefur til úthlutunar án milligöngu Alþingis.

Sigríður Jóhannesdóttir.
Einar Már Sigurðarson.
Kolbrún Halldórsdóttir, með fyrirvara.