Ferill 320. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 405  —  320. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 96/1995, um gjald af áfengi, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 127. löggjafarþingi 2001–2002.)


1. gr.

    Á undan 1. gr. laganna kemur ný kaflafyrirsögn, svohljóðandi: I. KAFLI, Áfengisgjald.

2. gr.


    Í stað 8.–10. gr. laganna koma tveir nýir kaflar, II. KAFLI, Tóbaksgjald, með þremur nýjum greinum, 8.–10. gr., og III. KAFLI, Almenn ákvæði, með tveimur nýjum greinum, 11. og 12. gr., svohljóðandi:

    a. (8. gr.)
    Greiða skal til ríkissjóðs sérstakt gjald, tóbaksgjald, af tóbaki sem flutt er hingað til lands eða er framleitt hér á landi.
    Tóbak telst samkvæmt lögum þessum vera sérhver vara sem flokkast í 24. kafla í viðauka I við tollalög, nr. 55/1987, með síðari breytingum.

    b. (9. gr.)
    Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins leggur á og innheimtir tóbaksgjald af tóbaksvörum sem verslunin hefur flutt hingað til lands eða framleiddar hafa verið hér á landi og verslunin selur til smásala tóbaks.
    Fjárhæð tóbaksgjalds skv. 1. mgr. skal vera sem hér segir:
     1.      Vindlingar: 167,20 kr. á hvern pakka (20 stk.).
     2.      Neftóbak: 1,97 kr. á hvert gramm eða hluta úr grammi vöru.
     3.      Annað tóbak: 5,98 kr. á hvert gramm eða hluta úr grammi vöru.
    Uppgjörstímabil tóbaksgjalds samkvæmt þessari grein er einn mánuður. Gjalddagi hvers uppgjörstímabils er fimmti dagur næsta mánaðar eftir lok þess. Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins skal greiða tollstjóranum í Reykjavík innheimt gjald eigi síðar en á gjalddaga hvers uppgjörstímabils.

    c. (10. gr.)
    Af tóbaki sem ferðamenn, farmenn og aðrir hafa með sér til landsins til einkanota, eða er sent hingað til lands án þess að um innflutning í atvinnuskyni sé að ræða skal við tollafgreiðslu greiða tóbaksgjald sem hér segir:
     1.      Vindlingar: 210 kr. á hvern pakka (20 stk.).
     2.      Annað tóbak: 10,50 kr. á hvert gramm eða hluta úr grammi vöru.
    Tóbak sem ferðamenn, farmenn og aðrir flytja með sér til landsins til einkanota og er undanþegið tolli samkvæmt ákvæðum tollalaga skal jafnframt undanþegið gjaldi skv. 1. mgr.

    d. (11. gr.)
    Úrskurður tollstjóra um niðurfellingu eða endurgreiðslu áfengis- og tóbaksgjalds skv. 6. gr. og 2. mgr. 10. gr. sætir kæru til fjármálaráðherra í samræmi við 102. gr. tollalaga, nr. 55/1987. Þá skulu ákvæði tollalaga gilda að því leyti sem lög þessi kveða ekki á um gjaldskyldu, gjaldfrelsi, úrskurð um flokkun til gjaldskyldu, álagningu, innheimtu, lögvernd, viðurlög, refsingar og aðra framkvæmd varðandi gjald af innfluttu áfengi og tóbaki.
    Að því leyti sem ekki eru ákvæði í lögum þessum um álagningu, innheimtu, tilhögun bókhalds, framtöl, eftirlit, stöðvun atvinnurekstrar, viðurlög, sektir, refsingar og aðra framkvæmd varðandi gjald samkvæmt lögum þessum af áfengi og tóbaki, sem er framleitt eða unnið að einhverju leyti hér á landi, skulu gilda eftir því sem við getur átt ákvæði laga um virðisaukaskatt og ákvæði reglugerða og annarra fyrirmæla settra samkvæmt þeim lögum, svo og ákvæði laga um vörugjald.

    e. (12. gr.)
    Ráðherra er heimilt að setja með reglugerð nánari fyrirmæli um framkvæmd laga þessara.
    

3. gr.

    Heiti laganna verður: Lög um gjald af áfengi og tóbaki.

4. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2002.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Í frumvarpinu er lagt til að tekið verði upp sérstakt gjald, tóbaksgjald, á tóbaksvörur sem fluttar eru til landsins eða eru framleiddar hér á landi.
    Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins hefur um langt skeið haft einkarétt til innflutnings og heildsölu á tóbaksvörum. Verslunin hefur jafnframt annast gjaldtöku af vörunum fyrir ríkissjóð með álagningu á þær. Sú álagning hefur verið tvíþætt. Annars vegar er um að ræða magnálagningu sem lögð er á tóbaksvörur og reiknast hún sem tiltekin fjárhæð á hvert gramm, nema af vindlingum (sígarettum), þar sem hún er tiltekin fjárhæð á hvert stykki. Hins vegar er lögð u.þ.b. 12% heildsöluálagning sem ætlað er að standa undir kostnaði ÁTVR við umsýslu tóbakssölunnar.
    Samhliða þessu frumvarpi er lagt fram frumvarp til breytinga á tollalögum, nr. 55/1987, sem varðar m.a. afnám tolla af tóbaki. Ástæða þess er að Ísland hefur skuldbundið sig til að fella niður tolla af tóbaki frá 1. janúar 2002 samkvæmt breytingum sem gerðar hafa verið á bókun 3 við EES-samninginn. Í dag eru tollar á tóbaki 25% af cif-verði vindlinga og 18% á öðru tóbaki.
    Sem fyrr segir er í þessu frumvarpi lagt til að tekið verði upp sérstakt gjald, tóbaksgjald, í stað framangreindra tolla og þeirrar gjaldtöku ÁTVR sem hefur verið í formi magnálagningar. Frumvarpinu er því ekki ætlað að auka álögur ríkisins á tóbak heldur er hér fyrst og fremst um formbreytingu á gjaldtöku tóbaks að ræða og því ættu áhrif á útsöluverð tóbaks að vera óveruleg. Tekjur ríkissjóðs af tollum og magnálagningu tóbaks nema nú tæplega þremur milljörðum króna á ári hverju.
    Frumvarpið gerir ráð fyrir að þetta nýja tóbaksgjald verði lagt á og innheimt af ÁTVR á heildsölustigi við sölu verslunarinnar á tóbaksvörum til smásala.
    Jafnframt er gert ráð fyrir að innheimt verði tóbaksgjald af tóbaksvörum sem ferðamenn og farmenn hafa með sér til landsins umfram það magn sem þeim er heimilt að hafa tollfrjálst með sér til landsins eða sem er sent til landsins án þess að um innflutning í atvinnuskyni sé að ræða. Lagt er til að gjaldtaka verði í slíkum tilvikum nokkuð hærri en af því tóbaki sem ÁTVR flytur inn.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Í greininni er mælt fyrir um nýtt kaflaheiti, en að öðru leyti þarfnast greinin ekki skýringa.

Um 2. gr.

    Hér er lagt til að fimm nýjum greinum verði bætt við lög nr. 96/1995, um gjald af áfengi, þar sem kveðið verði á um upptöku tóbaksgjalds. Um rök fyrir upptöku tóbaksgjalds vísast til almennra athugasemda við frumvarpið. Þar sem um er að ræða gjaldtöku sem í mörgu svipar til áfengisgjalds er lagt til að kveðið verði á um hvort tveggja í sama lagabálki.
    Í a-lið (8. gr.) er kveðið á um að lagt skuli tóbaksgjald á allt tóbak sem flutt er til landsins eða er framleitt hér á landi. Tóbak er skilgreint sem sérhver vara sem flokkast í 24. kafla tollskrárinnar.
    Í b-lið (9. gr.) er kveðið á um fjárhæð svo og álagningu og innheimtu tóbaksgjalds á tóbak sem Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins flytur til landsins. Gert er ráð fyrir að gjaldið verði í þessu tilviki innheimt á heildsölustigi, en ekki við tollafgreiðslu eins og áfengisgjald.
    Í c-lið (10. gr.) er kveðið á um álagningu tóbaksgjalds á tóbak sem ferðamenn og farmenn hafa með sér til landsins eða sem er sent hingað til lands án þess að um sé að ræða innflutning í atvinnuskyni. Gert er ráð fyrir að gjaldið verði ákvarðað með sama hætti og þegar um innflutning ÁTVR er að ræða, þ.e. sem tiltekin fjárhæð á hvert stykki vindlinga, en tiltekin fjárhæð á hvert gramm af annarri tóbaksvöru. Lagt er til að fjárhæð gjaldsins verði nokkuð hærri en þegar um innflutning ÁTVR er að ræða.
    Í d-lið (11. gr.) er lagt til að úrskurður tollstjóra um niðurfellingu eða endurgreiðslu áfengis- og tóbaksgjalds samkvæmt tilgreindum ákvæðum laganna sæti kæru til ráðherra, sbr. 102. gr. tollalaga nr. 55/1987, líkt og kveðið er á um varðandi áfengisgjald í 9. gr. gildandi laga um áfengisgjald. Varðandi endurákvörðun og kæru álagningar áfengis- og tóbaksgjalds að öðru leyti gilda ákvæði 99.–101. gr. tollalaga. Ákvæði tollalaga gilda eftir því sem við getur átt um innfluttar vörur en ákvæði laga um vörugjald, nr. 97/1987, og virðisaukaskatt, nr. 50/1988, að því er varðar innlendar framleiðsluvörur.
    Í e-lið (12. gr.) er kveðið á um að ráðherra sé heimilt að setja með reglugerð fyrirmæli um framkvæmd laga þessara.

Um 3.–4. gr.

    Greinarnar þarfnast ekki skýringa.




Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 96/1995,
um gjald af áfengi, með síðari breytingum.

    Samkvæmt frumvarpinu verður tekið upp lögbundið tóbaksgjald á heildsölustigi sem komi í stað samsvarandi magngjalds á tóbaksvörur hjá Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins. Stofnunin hefur einkarétt til innflutnings og heildsölu á tóbaksvörum. Hér er um að ræða formbreytingu á tekjum A-hluta ríkissjóðs af tóbaksvörum sem ætti ekki að hafa áhrif á afkomu ríkissjóðs eða Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins þar sem upphæð tóbaksgjaldsins er miðuð við að hagnaður af tóbakssölunni verði því sem næst óbreyttur.