Ferill 193. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 541  —  193. mál.




Breytingartillögur



við frv. til l. um breyt. á lögum nr. 38 15. maí 1990, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum, og brtt. á þskj. 521 [stjórn fiskveiða].

Frá Guðjóni A. Kristjánssyni, Karli V. Matthíassyni og Árna Steinari Jóhannssyni.



     1.      Við 1. gr. frv. Í stað orðsins „krókaaflamarki“ komi: þorskaflahámarki.
     2.      Við 1. tölul. brtt. á þskj. 521. Liðurinn orðist svo: Við bætist ný grein, 2. gr., svohljóðandi:
                  6. gr. laganna orðast svo:
                  Veiðileyfi sem úthlutað er samkvæmt þessari grein skulu nefnd veiðileyfi með þorskaflahámarki og bátar sem þau hafa krókabátar með þorskaflahámarki.
                  Krókabátar sem veiðar stunduðu eftir ákvæðum laga um þorskaflahámark krókaveiðibáta, samkvæmt ákvæði til bráðabirgða I í lögum nr. 1/1999, á fiskveiðiárinu 2000–2001 skulu eftir gildistöku laga þessara hafa sömu hlutdeild í þorskafla og þeir fengu í úthlutun 1. september 2001. Hafi útgerðir þeirra flutt til sín eða frá sér varanlegar heimildir í þorski eftir 1. september 2001 og þar til þessi lög taka gildi breytist hlutdeild þeirra í samræmi við það. Aðrar fisktegundir eru ekki háðar magntakmörkunum í veiðum krókabáta á þorskaflahámarki. Hámarksfjöldi bala í róðri á þorskaflahámarksbátum á hverjum sólarhring er 24 balar með 500 króka hver.
                  Krókabátum er einungis heimilt að stunda veiðar með línu og handfærum eða einungis með handfærum. Þó er sjávarútvegsráðherra heimilt að veita þeim leyfi til að stunda veiðar á botndýrum með þeim veiðarfærum sem til þarf, svo sem plógum og gildrum, svo og til hrognkelsaveiða í net.
                  Heildarþorskaflaviðmiðun krókabáta er 13,75% af ákvörðuðum heildarþorskafla hvers fiskveiðiárs. Þar af er samanlagt þorskaflahámark þeirra báta sem þann kost hafa valið 12,64%. Heildarþorskaflaviðmiðun þeirra báta sem stunda veiðar með dagatakmörkunum og nota handfæri eingöngu er 0,93%, auk aflaheimilda sem úthlutað er samkvæmt ákvæði til bráðabirgða II í lögum nr. 1/1999.
                  Heimilt er að framselja varanlega þorskaflahámark krókabáts til annars krókabáts eða báta sem stunda veiðar með þorskaflahámarki. Innan fiskveiðiárs er heimilt að flytja allt að 30% af úthlutuðu þorskaflahámarki krókabáts til annars krókabáts eða báta sem stunda veiðar með þorskaflahámarki. Heimilt er að flytja allt að 20% af þorskaflahámarki frá einu fiskveiðiári yfir til þess næsta á eftir. Enn fremur er heimilt að flytja til krókabáts á þorskaflahámarki aflamark af þorski skv. 7. gr. Um þann flutning gilda almennar reglur um flutning aflamarks. Tilkynna skal Fiskistofu fyrir fram um flutning þorskaflahámarks milli báta og öðlast hann ekki gildi fyrr en Fiskistofa hefur staðfest flutninginn. Heimilt er að veita báti, sem stundað hefur veiðar með tilteknum fjölda sóknardaga síðastliðin tvö fiskveiðiár, leyfi til að stunda veiðar með þorskaflahámarki þess í stað, en reiknað þorskaflahámark bátsins verður þá áfram hluti sameiginlegs hámarksþorskafla báta sem stunda veiðar samkvæmt dagatakmörkunum.
                  Ráðherra getur þó heimilað að veiðar í sérhæfð veiðarfæri samkvæmt síðari málslið 3. mgr. þessarar greinar, sem og veiðar með sérhæfðri línu til veiða á háffiskum, séu utan sóknardaga.
                  Verði bátur með krókaleyfi dæmdur ónýtur vegna tjóns er heimilt að veita sambærilegum báti sams konar krókaleyfi.
                  Heimilt er að flytja veiðileyfi frá krókabáti sem leyfi hefur til að veiða samkvæmt þessu ákvæði til annars jafnstórs krókabáts miðað við rúmtölu. Óheimilt er að flytja veiðileyfi til krókabáts sem er stærri en sá krókabátur sem veiðileyfi lætur nema jafnframt sé flutt veiðileyfi af öðrum krókabáti sem er þrefalt stærri að rúmtölu en sem stækkuninni nemur. Slíkur bátur má þó ekki verða stærri en 6 brúttótonn. Óheimilt er að flytja veiðileyfi frá báti sem stundar veiðar með þorskaflahámarki til báts sem stundar veiðar með tilteknum fjölda sóknardaga.
                  Óheimilt er að stækka krókabát nema flutt sé veiðileyfi af öðrum báti sem er þrefalt stærri að rúmtölu en sem stækkuninni nemur. Óheimilt er að flytja veiðileyfi frá báti sem stundar veiðar með þorskaflahámarki til báts sem stundar veiðar með tilteknum fjölda sóknardaga. Slíkum báti má þó aldrei breyta svo að hann verði stærri en 6 brúttótonn.
                  Áður en leyfðum heildarafla til aflamarks er skipt á grundvelli aflahlutdeildar skal draga eftirtalinn afla frá: Þorskur, hlutdeild krókabáta í heildarþorskafla 13,75%, ýsa 3.000 tonn, ufsi 1.000 tonn og steinbítur 3.000 tonn.
     3.      Við frv. bætist tvær nýjar greinar, svohljóðandi:
                  a.      (3. gr.)
                       Við lögin bætist ný grein, 6. gr. a, svohljóðandi:
                     Veiðileyfi til krókabáta sem úthlutað er samkvæmt þessari grein skulu nefnd veiðileyfi til handfæraveiða með dagatakmörkunum.
                      Bátar sem fengið hafa leyfi til handfæraveiða með dagatakmörkunum skv. 14. mgr. ákvæðis til bráðabirgða I í lögum nr. 1/1999 skulu á fiskveiðiárinu 2001–2002 og framvegis stunda veiðar samkvæmt ákvæðum þessarar greinar.
                       Þessum bátum er einungis heimilt að stunda veiðar á tímabilinu 1. apríl til 31. október ár hvert. Þeim er einungis heimilt að stunda veiðar með handfærum. Þó er sjávarútvegsráðherra heimilt að veita þeim leyfi til að stunda veiðar á botndýrum og háffiskum með sérhæfðum veiðarfærum og til hrognkelsaveiða í net.
                       Sameiginlegur hámarksþorskafli þeirra báta sem stunda veiðar samkvæmt þessari grein skal á hverju fiskveiðiári vera sama hlutfall af 13,75% af heildarþorskafla hvers fiskveiðiárs og nam samanlagðri hlutdeild þessara báta í 21.000 lestum miðað við reiknað þorskaflahámark skv. 2. gr. laga nr. 83/1995, auk aflaheimilda sem úthlutað er samkvæmt ákvæði til bráðabirgða II í lögum nr. 1/1999.
                       Sóknardagur telst vera allt að 24 klst. og mælist í klukkustundum með sjálfvirkri tilkynningu frá upphafi veiðiferðar. Sóknardegi eða hluta úr sóknardegi telst lokið þegar bátur landar afla. Ráðherra skal með reglugerð kveða nánar á um fyrirkomulag sóknardaga og eftirlit með þeim. Utan sóknardaga eru allar veiðar bannaðar. Ráðherra getur þó heimilað að veiðar samkvæmt lokamálslið 3. mgr. þessarar greinar séu utan sóknardaga. Heimilt er krókabátum á sóknardögum að stunda veiðar í 23 sóknardaga að lágmarki á hverju fiskveiðiári án takmörkunar á heildarafla.
                       Heimilt er að flytja sóknardaga innan hvers fiskveiðiárs eða varanlega milli báta sem hafa leyfi til handfæraveiða með dagatakmörkunum. Sé sá bátur sem sóknardagar eru fluttir til stærri, í brúttótonnum talið, en sá sem sóknardagar eru fluttir frá skal skerða flutta sóknardaga í hlutfalli við stærðarmun bátanna og sleppa broti. Þá skal með sama hætti fjölga sóknardögum sem fluttir eru til minni báts. Á sama hátt skal skerða sóknardagafjölda báts sem er stækkaður. Óheimilt er að flytja hlutfallslega fleiri sóknardaga frá báti, umfram þá daga sem fluttir hafa verið til báts, en nemur hlutfallslegri nýtingu bátsins á úthlutuðum sóknardögum á fiskveiðiárunum 1999/2000 og 2000/2001. Í því sambandi skal miðað við meðaltal af sóknardaganýtingu fiskveiðiáranna. Séu sóknardagar fluttir frá báti skulu þeir sóknardagar sem báturinn hefur eftir flutninginn vera mismunur þess fjölda sóknardaga sem heimilt er að flytja frá bátnum og þeirra sóknardaga sem fluttir hafa verið, að teknu tilliti til sóknardaga sem fluttir hafa verið til bátsins. Tilkynna skal Fiskistofu fyrir fram um flutning sóknardaga milli báta og öðlast flutningurinn ekki gildi fyrr en Fiskistofa hefur staðfest hann.
                       Óheimilt er að veita bátum 6 brúttótonn eða stærri, sem ekki hafa haft leyfi til handfæraveiða með dagatakmörkunum, leyfi til að stunda veiðar samkvæmt þessari grein. Þá er óheimilt að stækka bát sem hefur leyfi til handfæraveiða með dagatakmörkunum þannig að hann verði 6 brúttótonn eða stærri.
                       Ákvæði 7.–9. mgr. 6. gr. eiga jafnframt við um ákvæði þessarar greinar.
                  b.      (4. gr.)
                            Í stað orðsins „krókaaflamarks“ í 2. mgr. 6. gr. a laganna, sem verður 6. gr. b, kemur: þorskaflahámarks.
     4.      2.–4. gr. frv. falli brott.
     5.      Við 5. gr. frv. Greinin orðist svo:
                   2. málsl. 6. mgr. 11. gr. laganna fellur brott.
     6.      Við 6. gr. frv. Greinin orðist svo:
                   8. mgr. 12. gr. laganna fellur brott.
     7.      Við 7. gr. frv.
                  a.      1.–4. efnismgr. falli brott.
                  b.      Í stað 5. efnismgr. komi þrjár málsgreinar, svohljóðandi:
                     Útgerðum báta, sem á fiskveiðiárinu 2000/2001 stunduðu línu- eða handfæraveiðar í tiltekinn fjölda sóknardaga með föstu þorskaflahámarki, er heimilt að velja á milli veiðileyfis með þorskaflahámarki og veiðileyfis til handfæraveiða með dagatakmörkunum, enda hafi ekki verið flutt af bátnum krókaaflahlutdeild eða krókaaflamark. Skulu útgerðir tilkynna Fiskistofu um val sitt fyrir 15. febrúar 2001. Tilkynni útgerðir ekki um val fyrir þau tímamörk skal bátum þeirra úthlutað veiðileyfi með þorskaflahámarki. Velji útgerð veiðileyfi með dagatakmörkunum fyrir bát reiknast róðrardagar hans fyrir útgáfu veiðileyfisins til leyfilegra sóknardaga á fiskveiðiárinu 2001/2002.
                     Heildarþorskaflaviðmiðun þeirra báta sem stunda veiðar með dagatakmörkunum og 30 lesta hámarki í þorskafla á hvern bát og nota línu og handfæri er 0,18% auk aflaheimilda sem úthlutað er samkvæmt ákvæði til bráðabirgða II í lögum nr. 1/1999.
                     Við val færist úthlutuð krókaaflahlutdeild frá 1. september sl. sem viðbót í heildarþorskaflaviðmiðun handfæraveiðabáta með dagatakmörkunum eða sem þorskaflahámark bátsins ef útgerðin svo velur.

     8.      Við f-lið 5. tölul. brtt. á þskj. 521. Efnismálsgreinar orðist svo:
                  Á tímabilinu 1. febrúar 2002 til 31. ágúst 2002 og á fiskveiðiárinu 2002/2003 er skipstjóra fiskiskips heimilt að ákveða að allt að 5% heildarafla hvors tímabils í botnfiski reiknist ekki til aflamarks skipsins, enda sé eftirfarandi skilyrðum fullnægt:
             a.      Aflanum sé haldið aðskildum frá öðrum afla skipsins og hann veginn sérstaklega og skráður.
             b.      Aflinn sé seldur á viðurkenndum uppboðsmarkaði fyrir sjávarafurðir og andvirði hans renni að jöfnu til hafrannsókna og Lífeyrissjóðs sjómanna. Ráðherra setur nánari reglur þar um í samráði við hagsmunasamtök sjómanna og útvegsmanna.
                  Sé framangreind heimild nýtt skulu forráðamenn uppboðsmarkaðarins þar sem aflinn er seldur standa skil á andvirði hins selda afla í samræmi við reglur skv. b-lið 1. mgr. að frádregnum hafnargjöldum og kostnaði við uppboðið. Þá skal útgerð skipsins fá 20% af andvirði selds afla sem skiptist milli útgerðar og áhafnar samkvæmt samningum þar um. Ráðherra setur nánari reglur um framkvæmd þessa ákvæðis.
     9.      Við 8. gr. frv. Greinin orðist svo:
                  Lög þessi öðlast þegar gildi. Jafnframt fellur úr gildi ákvæði til bráðabirgða XXIV í lögum nr. 38/1990, sbr. ákvæði til bráðabirgða II í lögum nr. 1/1999 og lög nr. 93/2000.