Ferill 227. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 559  —  227. mál.




Nefndarálit



um frv. til kvikmyndalaga.

Frá menntamálanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Val Árnason, Þóru Óskarsdóttur og Karítas Gunnarsdóttur frá menntamálaráðuneyti, Sigríði Andersen frá Verslunarráði Íslands, Björn Br. Björnsson, Önnu Dís Ólafsdóttur og Hjálmtý Heiðdal frá Félagi kvikmyndagerðarmanna og Þorfinn Ómarsson frá Kvikmyndasjóði Íslands. Þá fór fram símafundur við Sigurjón B. Hafsteinsson hjá Kvikmyndasafni Íslands.
    Frumvarp þetta var lagt fram á 126. löggjafarþingi en varð ekki útrætt. Þá bárust nefndinni umsagnir frá framleiðendafélagi SÍK, Námsgagnastofnun, Þjóðminjasafni Íslands, Verslunarráði Íslands, Bandalagi íslenskra listamanna og Kvikmyndasjóði Íslands. Frumvarpið er nú lagt fram á ný óbreytt og barst nefndinni umsögn frá Félagi kvikmyndagerðarmanna og ályktun frá Bandalagi íslenskra listamanna auk sameiginlegrar ályktunar frá framleiðendafélaginu SÍK, Félagi kvikmyndagerðarmanna, Samtökum kvikmyndaleikstjóra og Bandalagi íslenskra listamanna.
    Nýjum kvikmyndalögum er samkvæmt frumvarpinu ætlað að leysa af hólmi núgildandi lög um kvikmyndamál, nr. 94/1984. Í frumvarpinu eru lagðar til ýmsar breytingar á stjórnsýslulegri framkvæmd ríkisins á kvikmyndamálum. Helstu breytingar eru þær að lagt er til að tvær stofnanir sinni þeim verkefnum sem nú heyra undir Kvikmyndasjóð Íslands. Lagt er til að stofnuð verði Kvikmyndamiðstöð Íslands er hafi með höndum verkefni sambærileg þeim sem Kvikmyndasjóður Íslands hefur sinnt fyrir utan rekstur Kvikmyndasafns Íslands. Nafnið Kvikmyndasjóður verður notað áfram um úthlutunarsjóð er starfar á vegum Kvikmyndamiðstöðvar til framleiðslu eða dreifingar íslenskra kvikmynda. Kvikmyndasafn Íslands sem nú heyrir undir Kvikmyndasjóð verður sjálfstæð stofnun. Lagt er til að stofnað verði kvikmyndaráð opinberum aðilum til ráðgjafar um aðgerðir í kvikmyndamálum og breytt er ákvæðum um fyrirkomulag úthlutunar framlaga til kvikmyndagerðar. Ástæða þess er sú að nauðsynlegt þykir að skapa stjórnvöldum meira svigrúm en nú er til að setja úthlutunarreglur um framlög úr Kvikmyndasjóði og bregðast þannig við breytilegum þörfum kvikmyndagerðar án þess að komi til lagabreytinga í hvert sinn. Þá er veitt heimild fyrir markaðsnefnd sem gegni því hlutverki að auka atvinnu við kvikmyndagerð hér á landi.
    Í 7. gr. frumvarpsins kemur fram að forstöðumaður Kvikmyndamiðstöðvar Íslands tekur endanlega ákvörðun um veitingu fjárstuðnings úr Kvikmyndasjóði til undirbúnings, framleiðslu og/eða dreifingar íslenskra kvikmynda svo sem kveðið er á um í reglugerð sem menntamálaráðherra setur að fenginni umsögn kvikmyndaráðs. Það er því ljóst að þótt ábyrgð á úthlutunarmálum hvíli á forstöðumanninum er hann alls ekki einráður í þessum efn-

Prentað upp.

um, sbr. einnig nákvæma útlistun í greininni á þeim atriðum sem nánar verður kveðið á um í reglugerð.
    Nauðsynlegt er að benda á hnökra í greinargerð með frumvarpinu á fjórum stöðum. Í athugasemdum við 2. gr. er því haldið fram að fulltrúar Námsgagnastofnunar og Þjóðminjasafns sitji stjórnarfundi Kvikmyndasjóðs þegar fjallað er um málefni sem varða verksvið þessara stofnana. Hið rétta er að fulltrúarnir sitja stjórnarfundi þegar málefni Kvikmyndasafns Íslands eru á dagskrá. Í öðru lagi er um það að ræða að í athugasemdum við 7. gr. segir m.a. í 1. málsl. 2. mgr. að stjórninni sé heimilað að veita framlög til eflingar íslenskri kvikmyndagerð. Hið rétta er að forstöðumaður Kvikmyndamiðstöðvarinnar mun hafa þessa heimild. Í þriðja lagi er í athugasemdum við 14. gr. rætt um skipun framkvæmdastjóra Kvikmyndamiðstöðvar Íslands. Hér er hins vegar um að ræða skipun forstöðumanns Kvikmyndamiðstöðvarinnar. Að lokum er í athugasemdum við ákvæði til bráðabirgða m.a. fjallað um hvernig staðið skuli að undirbúningi skipunar fyrstu stjórnar Kvikmyndamiðstöðvar Íslands. Í frumvarpinu er hins vegar ekki gert ráð fyrir að skipuð verði stjórn í Kvikmyndamiðstöðinni heldur verði þar skipaður forstöðumaður.
    Nefndin mælir með samþykkt frumvarpsins með breytingum sem gerð er tillaga um á sérstöku þingskjali. Helstu efnisbreytingar eru eftirfarandi:
     1.      Breyting sú sem lögð er til á 4. gr. lýtur einungis að orðalagi.
     2.      Lögð er til breyting á 7. gr. hvað varðar uppsetningu ákvæðisins og orðalag. Orðalagsbreyting sú sem lögð er til varðandi ákvörðun um úthlutun úr Kvikmyndasjóði er gerð til að taka af allan vafa um að þótt ljóst sé að forstöðumaður Kvikmyndamiðstöðvar beri ábyrgð á úthlutunarmálum sé hann alls ekki einráður í þeim efnum. Eins og fram kemur í 7. gr. tekur forstöðumaðurinn endanlega ákvörðun um veitingu fjárstuðnings úr Kvikmyndasjóði til undirbúnings, framleiðslu og/eða dreifingar íslenskra kvikmynda, svo sem kveðið er á um í reglugerð sem menntamálaráðherra setur að fenginni umsögn kvikmyndaráðs.
     3.      Í 1. og 2. tölul. 8. gr. er vísað í lög um skilaskyldu til safna. Núgildandi lög bera hins vegar heitið lög um skylduskil til safna og sama nafn er notað á frumvarpi til nýrra heildarlaga í þessum efnum sem nú liggur fyrir í þinginu. Er því lagt til að í 1. og 2. tölul. verði vísað til laga um skylduskil til safna.
     4.      Lögð er til breyting á 4. mgr. ákvæðis til bráðabirgða til samræmis við 3. mgr. ákvæðisins.
     5.      Til þess að gefa nægilegan aðlögunartíma er lagt til að lokið verði við að skipa í kvikmyndaráð skv. 2. gr. fyrir 1. febrúar 2003.
    Þorgerður K. Gunnarsdóttir og Kristinn H. Gunnarsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 12. des. 2001.



Sigríður A. Þórðardóttir,


form., frsm.


Sigríður Jóhannesdóttir.


Einar Már Sigurðarson.



Sigríður Ingvarsdóttir.


Kolbrún Halldórsdóttir,


með fyrirvara.


Kjartan Ólafsson.



Magnús Stefánsson.