Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 580, 127. löggjafarþing 319. mál: tollalög (tollkvótar og tollar af tóbaki).
Lög nr. 146 21. desember 2001.

Lög um breyting á tollalögum nr. 55/1987, með síðari breytingum.


1. gr.

     Á eftir 6. gr. A laganna kemur ný grein, 6. gr. B, sem orðast svo:
     Fjármálaráðherra úthlutar tollkvótum vegna innflutnings samkvæmt milliríkja- og alþjóðasamningum, að því leyti sem vörur falla ekki undir viðauka IIIA, IIIB, IVA eða IVB við lög þessi.
     Fjármálaráðherra er heimilt að fela nefnd skv. 75. gr. laga nr. 99/1993 að gera tillögu um úthlutun tollkvóta skv. 1. mgr.
     Úthlutun tollkvóta skal, eftir því sem við getur átt, vera í samræmi við samninginn um málsmeðferð við veitingu innflutningsleyfa sem birtur er í 1. viðauka A við samninginn um stofnun Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar.
     Heimilt er að skipta tollkvótum upp í einingar. Tollkvótum skal úthlutað til ákveðins tíma, allt að einu ári í senn. Berist umsóknir um meiri innflutning en nemur tollkvóta vörunnar skal heimilt að láta hlutkesti ráða úthlutun eða leita tilboða í heimildir til innflutnings samkvæmt tollkvótum og skal andvirðið þá renna í ríkissjóð. Endurúthluta má tollkvótum sem ekki eru nýttir innan þess frests sem tilgreindur er við úthlutun kvótans. Heimilt er í stað úthlutunar tollkvóta að veita almenna heimild til innflutnings á þeim tollum sem um tollkvótana gilda.
     Um viðurlög við misnotkun á tollkvóta í því skyni að fá ívilnun í tolli eða sköttum við innflutning á vörum sem ekki falla undir tollkvótann skal fara skv. XIV. kafla laganna. Heimilt er að synja þeim um úthlutun tollkvóta sem gerst hefur sekur um misnotkun.
     Fjármálaráðherra skal í reglugerð kveða nánar á um úthlutun tollkvóta samkvæmt þessari grein þar sem m.a. komi fram úthlutunarkvóti, innflutningstímabil, tollataxtar og aðrir skilmálar sem um innflutninginn skulu gilda.

2. gr.

     A-tollur allra tollskrárnúmera í 24. kafla í viðauka I við lögin verður 0%.

3. gr.

     1. gr. laganna öðlast þegar gildi en 2. gr. laganna öðlast gildi 1. janúar 2002. Ákvæði 2. gr. tekur til allra vara sem eru ótollafgreiddar við gildistöku laganna.

Samþykkt á Alþingi 13. desember 2001.