Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 630, 127. löggjafarþing 227. mál: kvikmyndalög (heildarlög).
Lög nr. 137 21. desember 2001.

Kvikmyndalög.


I. KAFLI
Markmið og yfirstjórn.

1. gr.

     Markmið laga þessara er að efla kvikmyndagerð og kvikmyndamenningu á Íslandi.
     Kvikmynd merkir í lögum þessum hvers kyns hreyfimyndaefni án tillits til þess með hvers konar tækni eða aðferðum það er framleitt.
     Íslensk kvikmynd í skilningi laga þessara er kvikmynd sem unnin er og kostuð af íslenskum aðilum eða er samstarfsverkefni íslenskra og erlendra aðila.

2. gr.

     Menntamálaráðherra fer með yfirstjórn kvikmyndamála samkvæmt lögum þessum.
     Kvikmyndaráð veitir stjórnvöldum ráðgjöf um kvikmyndamálefni og gerir tillögur til menntamálaráðherra um stefnu og markmið opinberra aðgerða á sviði kvikmyndalistar.
     Menntamálaráðherra skipar sjö fulltrúa í kvikmyndaráð til þriggja ára í senn, formann og varaformann án tilnefningar, en hina fimm samkvæmt tilnefningum eftirtalinna aðila: Félags kvikmyndagerðarmanna, Framleiðendafélagsins – SÍK, Samtaka kvikmyndaleikstjóra, Félags kvikmyndahúsaeigenda og Bandalags íslenskra listamanna. Varamenn skulu skipaðir með sama hætti. Sami maður verður ekki skipaður í sæti aðalmanns í kvikmyndaráð oftar en tvisvar samfleytt.

II. KAFLI
Kvikmyndamiðstöð Íslands.

3. gr.

     Verkefni Kvikmyndamiðstöðvar Íslands eru að:
  1. Styrkja framleiðslu og dreifingu íslenskra kvikmynda.
  2. Stuðla að kynningu, útbreiðslu og sölu á íslenskum kvikmyndum hér á landi og erlendis og afla upplýsinga um íslenskar kvikmyndir og gefa þær út.
  3. Efla kvikmyndamenningu á Íslandi.
  4. Stuðla að auknum samskiptum við erlenda aðila á sviði kvikmyndamála.


4. gr.

     Menntamálaráðherra skipar forstöðumann Kvikmyndamiðstöðvar Íslands til fimm ára í senn, að fenginni umsögn kvikmyndaráðs. Forstöðumaðurinn skal hafa staðgóða þekkingu á kvikmyndamálum og íslenskri menningu.
     Forstöðumaðurinn fer með yfirstjórn Kvikmyndamiðstöðvar, er í fyrirsvari fyrir hana út á við, ber ábyrgð á rekstri hennar og að starfsemi hennar sé í samræmi við lög og stjórnvaldsfyrirmæli. Jafnframt annast forstöðumaðurinn ráðningar annarra starfsmanna Kvikmyndamiðstöðvarinnar.

5. gr.

     Tekjur Kvikmyndamiðstöðvar Íslands eru árlegt framlag í fjárlögum, vaxtatekjur og aðrar tekjur. Fjárveitingar til Kvikmyndasjóðs, sbr. 6. gr., skulu sérgreindar í fjárlögum hverju sinni. Menntamálaráðherra gerir tillögur um fjárveitingar á grundvelli fjárhags- og starfsáætlunar Kvikmyndamiðstöðvarinnar til þriggja ára.

6. gr.

     Kvikmyndasjóður starfar á vegum Kvikmyndamiðstöðvar Íslands. Hlutverk Kvikmyndasjóðs er að efla íslenska kvikmyndagerð með fjárhagslegum stuðningi.
     Kvikmynd, sem styrkt er af Kvikmyndamiðstöð Íslands, skal hafa íslenska menningarlega skírskotun nema sérstök menningarleg rök leiði til annars.

7. gr.

     Forstöðumaður Kvikmyndamiðstöðvar Íslands tekur endanlega ákvörðun um veitingu fjárstuðnings úr Kvikmyndasjóði til undirbúnings, framleiðslu og/eða dreifingar íslenskra kvikmynda.
     Í reglugerð sem menntamálaráðherra setur að fenginni umsögn kvikmyndaráðs skal kveðið á um skilyrði fyrir framlögum úr sjóðnum með styrkjum, lánum eða veitingu tímabundinna vilyrða fyrir stuðningi. Jafnframt skulu sett ákvæði m.a. um undirbúning úthlutunar og greiðslur úr sjóðnum. Þar skal enn fremur kveðið á um meginskiptingu fjárveitinga Kvikmyndasjóðs milli einstakra greina kvikmyndagerðar, svo og um tilhögun mats á umsóknum, störf úthlutunarnefnda og um kvikmyndaráðgjafa.

III. KAFLI
Kvikmyndasafn Íslands.

8. gr.

     Hlutverk Kvikmyndasafns Íslands er að:
  1. Safna, skrásetja og varðveita íslenskar kvikmyndir, samvinnuverkefni íslenskra og erlendra aðila og erlendar kvikmyndir sem teknar hafa verið á Íslandi, þ.m.t. að varðveita skilaskylt efni samkvæmt lögum um skylduskil til safna.
  2. Hafa eftirlit með skylduskilum kvikmyndaefnis samkvæmt lögum um skylduskil til safna.
  3. Standa fyrir sýningum á innlendri og erlendri kvikmyndalist.
  4. Sjá um viðhald og endurgerðir á kvikmyndum safnsins.
  5. Skapa fræðimönnum og fagmönnum aðstöðu til að stunda kvikmyndafræðilegar rannsóknir.
  6. Efla kvikmyndamenningu á Íslandi.


9. gr.

     Menntamálaráðherra skipar forstöðumann Kvikmyndasafns Íslands til fimm ára í senn. Forstöðumaðurinn skal hafa staðgóða þekkingu á kvikmyndamálum og íslenskri menningarsögu.

10. gr.

     Framleiðendum kvikmynda sem hlotið hafa styrk úr Kvikmyndasjóði er skylt innan sjö ára frá frumsýningardegi að afhenda Kvikmyndasafni tvö eintök kvikmyndar og skal annað eintakið vera frumeintak eða ígildi þess, sem og annað efni er varðar kvikmyndina og varðveislugildi hefur. Nánar skal kveðið á um framkvæmd skila í reglugerð.

11. gr.

     Tekjur Kvikmyndasafns Íslands eru árlegt framlag í fjárlögum, vaxtatekjur og aðrar tekjur. Menntamálaráðherra gerir tillögur um fjárveitingar á grundvelli fjárhags- og starfsáætlunar Kvikmyndasafnsins til þriggja ára.
     Kvikmyndasafni Íslands er heimilt að taka gjald fyrir eftirtalda þætti þjónustunnar: Útlán á kvikmyndum, kvikmyndasýningar, sérvinnslu skráa og úttak tölvugagna, sérfræðilega heimildaþjónustu og hvers konar afritun og fjölföldun, til þess að standa straum af launum og efniskostnaði vegna þessara þátta. Gjaldskrá vegna þessarar þjónustu skal háð samþykki menntamálaráðherra.
     Kvikmyndasafn Íslands skal afla fullnægjandi heimilda rétthafa samkvæmt höfundalögum svo að markmið starfsemi Kvikmyndasafns nái fram að ganga.

IV. KAFLI
Önnur ákvæði.

12. gr.

     Menntamálaráðherra er heimilt að skipa markaðsnefnd kvikmynda til þriggja ára í senn er í sitji fulltrúar samkvæmt tilnefningum frá iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti, Kvikmyndamiðstöð Íslands, utanríkisráðuneyti og Útflutningsráði. Menntamálaráðherra skipar formann nefndarinnar. Varamenn skulu skipaðir með sama hætti.
     Hlutverk nefndarinnar er að veita innlendum og erlendum aðilum þjónustu er varðar gerð kvikmynda á Íslandi. Nefndinni er heimilt að kynna Ísland sem vettvang kvikmyndagerðar.
     Menntamálaráðherra setur nefndinni erindisbréf. Menntamálaráðherra er heimilt að fela Kvikmyndamiðstöð Íslands rekstur markaðsnefndarinnar með sérstökum samningi.

13. gr.

     Menntamálaráðherra setur í reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd laga þessara.

14. gr.

     Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2003 og skulu vera komin að fullu til framkvæmda 1. mars 2003. Um leið falla úr gildi lög um kvikmyndamál, nr. 94/1984, með síðari breytingum.

Ákvæði til bráðabirgða.
     Kvikmyndamiðstöð Íslands og Kvikmyndasafn Íslands taka við tekjum og eignum Kvikmyndasjóðs Íslands. Kvikmyndamiðstöð tekur við réttindum og skyldum Kvikmyndasjóðs gagnvart viðskiptavinum hans í samræmi við ákvæði laga þessara.
     Umboð núverandi stjórnar Kvikmyndasjóðs Íslands fellur niður frá gildistöku laga þessara.
     Framkvæmdastjóri Kvikmyndasjóðs Íslands er forstöðumaður Kvikmyndamiðstöðvar Íslands þar til nýr forstöðumaður hefur verið skipaður samkvæmt ákvæðum 4. gr., þó eigi lengur en til 1. mars 2003. Staða framkvæmdastjóra Kvikmyndasjóðs Íslands skal lögð niður frá og með þeim tíma er hann lætur af störfum.
     Núverandi safnstjóri Kvikmyndasafns Íslands gegnir störfum forstöðumanns Kvikmyndasafns Íslands þar til skipað hefur verið í embætti forstöðumanns samkvæmt ákvæðum 9. gr., þó eigi lengur en til 1. mars 2003.
     Lokið skal við að skipa í kvikmyndaráð skv. 2. gr. laga þessara fyrir 1. febrúar 2003.

Samþykkt á Alþingi 14. desember 2001.