Ferill 386. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 640  —  386. mál.




Frumvarp til hafnalaga.




(Lagt fyrir Alþingi á 127. löggjafarþingi 2001–2002.)



I. KAFLI
Inngangur.
1. gr.
Gildissvið.

    Lög þessi taka til allra hafna sem notaðar eru í atvinnuskyni, þ.m.t. til afgreiðslu og þjónustu skipa, afgreiðslu á vörum, ökutækjum, farþegum og við löndun á fiski.

2. gr.
Yfirstjórn.

    Samgönguráðherra fer með yfirstjórn hafnamála, nema annað sé ákveðið í öðrum lögum. Siglingastofnun Íslands annast þátt ríkisins í framkvæmd hafnalaga.

3. gr.
Orðskýringar.

     1.      Höfn táknar í lögum þessum afmarkað svæði á sjó og landi þar sem gerð hafa verið mannvirki til lestunar, losunar, þjónustu og geymslu fljótandi fara hverju nafni sem nefnast.
     2.      Hafnarmannvirki táknar í lögum þessum varnargarðar, viðlegumannvirki og innsiglingar, leiðarmerki og skipalægi.
     3.      Skjólgarðar eru varnarmannvirki sem ætlaðir eru til að veita viðlegumannvirkjum og innsiglingum skjól fyrir öldum, straumum og sandburði.
     4.      Viðlegumannvirki eru bryggjur og önnur mannvirki innan hafnar sem ætluð eru til viðlegu fyrir skip og báta.
     5.      Rekstur hafnar í lögum þessum táknar að byggja, reka, viðhalda og endurnýja hafnarmannvirki.
     6.      Hafntengd atvinnuaðstaða merkir í lögum þessum leiga á landi, vöruhúsum, tækjum og þess háttar í því skyni að þjóna skipum eða fyrirtækjum á hafnarsvæðum sem sinna þjónustu við skip, farþega og farm.
     7.      Hafntengd þjónusta merkir í lögum þessum hafnsöguþjónusta, festarþjónusta, vigtarþjónusta, sorphirða, sala vatns og rafmagns og sambærileg þjónusta er lýtur að skipum. Hafntengd þjónusta merkir einnig rekstur vöruhúsa, þjónustumiðstöðva hafnarþjónustu


        
Prentað upp.

        og fiskmarkaða og önnur þjónusta á hafnarsvæðinu við skip, farþega, veiðarfæri, afla eða vörur.
     8.      Sjálfsstjórn merkir í lögum þessum að sveitarfélög kjósi sérstaka hafnarstjórn og feli henni stjórnunarlega ábyrgð á höfninni.
     9.      Málaflokkur merkir í lögum þessum afmarkaða rekstrareiningu í bókhaldi sveitarfélags þar sem tekjum og gjöldum er haldið aðskildum frá öðrum rekstri þess.
     10.      Starfsheimildir merkja í lögum þessum heimildir til þess að starfrækja tiltekinn rekstur skv. 2.–4. tölul. þessarar greinar.

4. gr.
Hafnarreglugerð.

    Öllum höfnum sem falla undir lög þessi skv. 1. gr. skal sett reglugerð er tilgreinir mörk hafnarinnar auk annarra nauðsynlegra ákvæða er varða öryggi og stjórnun hennar. Ráðherra setur samkvæmt lögum þessum, að fengnum tillögum eigenda hafna, reglugerð fyrir hverja höfn. Í reglugerðinni skulu m.a. vera ákvæði um:
     1.      Stærð og takmörk hafnarsvæðis á sjó og landi.
     2.      Starfsemi og umferð á hafnarsvæði.
     3.      Öryggi við flutninga og varnir gegn mengun.
     4.      Viðurlög við brotum.
     5.      Kosningu og starfs- og valdsvið hafnarstjórnar.
    Ráðherra er heimilt að fella úr gildi reglugerð hafnar uppfylli höfnin ekki skyldur sínar samkvæmt henni og lögum þessum. Við það falla allar starfsheimildir hafnarinnar úr gildi.

II. KAFLI
Skipulag hafnarsvæða og hafnarmannvirki.
5. gr.
Skipulag hafnarsvæðis og leyfi til mannvirkjagerðar.

    Skipulag hafnarsvæðis skal miðast við þarfir hafnarinnar og er skylt að hafa samráð við hafnarstjórn og Siglingastofnun Íslands við gerð þess. Viðkomandi sveitarstjórn veitir framkvæmdaleyfi fyrir nýjum hafnarmannvirkjum.
    Engin mannvirkjagerð má fara fram á hafnarsvæðinu nema með samþykki viðkomandi hafnarstjórnar. Ef leyfi til mannvirkjagerðar er eigi notað innan tveggja ára frá veitingu þess fellur það úr gildi.

6. gr.
Lágmarkskröfur til hafnarmannvirkja,
slysavarna og staðfesting á fjármögnun.

    Öll mannvirkjagerð í höfnum skal vera í samræmi við gildandi skipulag fyrir viðkomandi sveitarfélag og í samræmi við lög og reglugerðir. Siglingastofnun Íslands skal fylgjast með að við hönnun og byggingu hafnarmannvirkja sé fylgt að minnsta kosti lágmarkskröfum um styrkleika mannvirkja og öryggi notenda hafnanna. Hafnir skulu tilkynna Siglingastofnun Íslands um fyrirhugaðar framkvæmdir og leggja fyrir stofnunina gögn um gerð mannvirkjanna til samþykktar áður en framkvæmdirnar eru hafnar. Siglingastofnun Íslands er heimilt að veita einstökum höfnum undanþágu frá þessu byggingareftirliti, enda geti þær sýnt fram á að starfsmenn þeirra hafi yfir að ráða tækniþekkingu og fyrir hendi sé innra eftirlit sem komi í staðinn. Hafnir sem njóta opinberra framlaga til framkvæmda skulu að auki leggja fram staðfesta fjármögnun fyrirhugaðra framkvæmda til samþykktar Siglingastofnunar Íslands. Samgönguráðherra getur sett reglugerð er kveður á um lágmarkskröfur til hafnarmannvirkja að fenginni tillögu Siglingastofnunar Íslands.
    Ráðherra skal setja reglur um slysavarnir í höfnum.

7. gr.
Ábyrgð eiganda hafnarmannvirkja.

    Eigandi hafnar er ábyrgur fyrir því að mannvirki, búnaður og rekstur hafnarinnar sé ætíð í samræmi við gildandi lög og reglugerðir. Hafnarstjórn er heimilt, ef hún telur nauðsyn á, að nema brott á kostnað eiganda bryggjur eða önnur mannvirki í sjó fram sem hætta stafar af og eigandi sinnir ekki tilmælum um úrbætur innan eðlilegs tímafrests.

III. KAFLI.
Rekstrarform og flokkun hafna.
8. gr.
Rekstrarform hafna.

    Höfn má reka sem:
     1.      Höfn án sjálfsstjórnar í eigu sveitarfélags.
     2.      Höfn með sjálfsstjórn í eigu sveitarfélags.
     3.      Önnur rekstrarform sem ekki falla undir opinberan rekstur og er þá átt við hlutafélög hvort sem þau eru í eigu opinberra aðila eða ekki, einkahlutafélög, sameignarfélög eða einkaaðilar með sjálfstæðan rekstur.
    Hafnarstjórnum sem starfa samkvæmt lögum þessum er skylt að senda Siglingastofnun ársreikninga sína árlega. Höfnum sem njóta ríkisstyrks er einnig skylt að senda þær upplýsingar sem Siglingastofnun kann að óska eftir og snerta rekstur hafnarinnar.

9. gr.
Upplýsingar um hafnir.

    Hafnir skulu á hverjum tíma miðla upplýsingum um lengd, breidd og djúpristu þeirra skipa sem þær geta tekið á móti. Siglingastofnun Íslands skal starfrækja gagnagrunn á heimasíðu sinni þar sem þessar upplýsingar koma fram.

IV. KAFLI
Höfn án sjálfsstjórnar í eigu sveitarfélags.
10. gr.
Stjórnun, rekstur og starfsheimildir.

    Hafnir samkvæmt kafla þessum skulu reknar sem sérstakur málaflokkur undir stjórn sveitarstjórnar í því sveitarfélagi þar sem höfnin er. Sveitarstjórn fer með stjórn hafnarinnar. Sveitarstjórn er heimilt að kjósa sérstaka hafnarnefnd.
    Sveitarfélagi er ekki heimilt að reka hafntengda atvinnuaðstöðu né hafntengda þjónustu á hafnarsvæðinu, sbr. þó 29. gr.

11. gr.
Gjöld.

    Heimilt er að innheimta eftirtalin gjöld fyrir rekstur hafna, sbr. 5. tölul. 3. gr., samkvæmt þessum kafla:
     1.      Skipagjöld á skip og báta er nota höfnina; bryggjugjöld og lestagjöld sem eru miðuð við stærð skipa, dvalartíma á hafnarsvæðinu og veitta aðstöðu.
     2.      Vörugjöld af vörum sem umskipað er, lestaðar eru eða losaðar í höfn, þar á meðal aflagjald sem er vörugjald af sjávarafla sem lagður er á land á hafnarsvæðinu.
     3.      Farþegagjald og gjald fyrir bifreiðar sem ekið er um borð eða frá borði í ferju til þess að standa straum af kostnaði við aðstöðu og búnað fyrir farþega og bíla.
Samanlagðar tekjur af álögðum gjöldum skv. 1. og 2. tölul. mega ekki vera hærri en sem nemur kostnaði við að reka höfnina.

12. gr.
Breyting á rekstrarformi.

    Fari meira en 0,2 milljónir tonna af vörum árlega um höfn eða ef verðmæti landaðs sjávarafla fer yfir einn milljarð króna á ári getur sveitarstjórn ákveðið að breyta skuli rekstrarformi hafnarinnar í höfn með sjálfsstjórn í eigu sveitarfélags eða höfn í eigu hlutafélags, sbr. 2. og 3. tölul. 1. mgr. 8. gr.
    Ráðherra er heimilt að veita undanþágu frá stærðarviðmiðunum þessum ef höfn án sjálfsstjórnar í eigu sveitarfélags býr við samkeppni.

V. KAFLI
Höfn með sjálfstjórn í eigu sveitarfélaga.
13. gr.
Stjórnun og rekstur.

    Hafnir samkvæmt kafla þessum skulu reknar sem opinbert fyrirtæki með sjálfsstjórn í eigu sveitarfélaga. Sérstakar hafnarstjórnir, sem kosnar eru af sveitarstjórnum, skulu hafa á hendi stjórn hafna og hafnarsjóða í samræmi við reglugerð skv. 4. gr. Séu eigendur fleiri en einn fer um kosningu samkvæmt reglugerð og stofnsamningi hafnarinnar. Hafnarstjórn ræður hafnarstjóra og ákveður verksvið hans.
    Hafnarstjórn skal innan valdsviðs síns gæta hagsmuna hafnarinnar. Hafnarstjórn ber ábyrgð gagnvart sveitarstjórn á rekstri og viðhaldi hafnarinnar.

14. gr.
Hafnasamlög.

    Eigendur hafna með sjálfsstjórn í eigu sveitarfélaga geta myndað hafnasamlög um rekstur þeirra. Leggja skal fyrir ráðherra tillögur að stofnsamningi, skipulagi og nýtingu landsvæða og mannvirkja og rökstuðning fyrir að hafnasamlagið hafi rekstrarhagræði í för með sér. Ráðherra setur samkvæmt lögum þessum, að fengnum tillögum eigenda þeirra hafna sem vilja mynda hafnasamlag, reglugerð fyrir það, sbr. ákvæði 4. gr. Að öðru leyti gilda ákvæði þessa kafla um hafnasamlög þar sem við á.

15. gr.
Starfsheimildir.

    Auk reksturs hafnarinnar er henni heimilt að reka hafntengda atvinnuaðstöðu og hafntengda þjónustu samkvæmt heimildum 17. gr.

16. gr.
Skattskylda, rekstur og endurskoðun.

    Tekjum og eignum hafnarsjóðs má einungis verja í þágu hafnarinnar. Hafnarsjóðir skulu undanþegnir hvers konar sköttum af hafnarmannvirkjum. Eigendur hafnar bera ábyrgð á skuldbindingum hafnarsjóðs.
    Endurskoðun reikninga hafnar skal framkvæmd af endurskoðanda sem eigendur hennar samþykkja.

17. gr.
Gjöld.

    Heimilt er að innheimta eftirtalin gjöld fyrir rekstur hafna og hafntengda atvinnuaðstöðu hafna samkvæmt kafla þessum:
     1.      Skipagjöld á skip þau og báta er nota viðkomandi höfn; bryggjugjöld og lestagjöld sem eru miðuð við stærð skipa, dvalartíma á hafnarsvæðinu og veitta aðstöðu.
     2.      Vörugjöld af vörum sem umskipað er, lestaðar eru eða losaðar í höfn, þar á meðal aflagjald sem er vörugjald af sjávarafla sem lagður er á land á hafnarsvæðinu.
     3.      Farþegagjald og gjald fyrir bifreiðar sem ekið er um borð eða frá borði í ferju til þess að standa straum af kostnaði við aðstöðu og búnað fyrir farþega og bíla.
     4.      Gjald fyrir aðstöðu til lestunar og losunar á vöru á hafnarsvæði.
     5.      Gjald fyrir geymslu vöru á hafnarsvæði.
     6.      Leigugjöld fyrir afnot af mannvirkjum eða tækjum hafnarinnar, þ.m.t. upptökumannvirkjum og löndunarkrönum.
     7.      Leyfisgjöld fyrir bryggjur og önnur mannvirki sem gerð hafa verið skv. 5. gr.
     8.      Lóðargjöld og lóðarleiga.
    Heimilt er að innheimta eftirtalin gjöld fyrir hafntengda þjónustu hafna samkvæmt kafla þessum:
     1.      Hafnsögugjöld.
     2.      Gjöld fyrir þjónustu dráttarbáta.
     3.      Festargjöld.
     4.      Gjöld fyrir sölu á vatni og rafmagni.
     5.      Sorpgjöld.
     6.      Vigtargjald.
    Skipa- og vörugjöldum skal varið til reksturs hafnarinnar. Samanlagðar tekjur af álögðum gjöldum skv. 1. og 2. tölul. 1. mgr. mega ekki vera hærri en sem nemur kostnaði við að reka höfnina skv. 5. tölul. 3. gr.
    Nú á annar aðili en hafnarsjóður viðlegumannvirki innan hafnarsvæðisins og skal þá semja um hversu hátt gjald skal greiða til hafnarinnar til þess að standa straum af sameiginlegum rekstri hennar.
    Höfnum er heimilt að gera langtímasamning við notendur um gjöld skv. 1. og 2. tölul. 1. mgr. fyrir afnot af bryggjum.

18. gr.
Breyting á rekstrarformi.

    Fari meira en 0,2 milljónir tonna af vörum árlega um höfn eða ef verðmæti landaðs sjávarafla fer yfir einn milljarð króna á ári getur sveitarstjórn ákveðið að breyta skuli rekstrarformi hafnarinnar í félag skv. 3. tölul. 1. mgr. 8. gr. Taka skal mið af hagrænu verðmæti hafnarmannvirkja við eignfærslu þeirra í efnahagsreikning félagsins. Hafi viðkomandi mannvirki notið ríkisframlags skal leita samþykkis ráðherra fyrir framsali þeirra.
    Höfnin getur samkvæmt ákvörðun sveitarstjórnar orðið að höfn án sjálfsstjórnar í eigu sveitarfélags, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 8. gr., þegar höfnin býr ekki lengur við samkeppni.
    Rekstrarform hafnar skal breytt í höfn í eigu sveitarfélags án sjálfsstjórnar þegar hún hefur haft neikvæðan rekstrarafgang í þrjú ár í röð að teknu tilliti til vaxta, en fyrir afskriftir. Sveitarstjórn er þó heimilt með samþykki samgönguráðherra að veita aukið fjármagn til hafnarinnar til þess að bæta eiginfjárstöðu hennar.

VI. KAFLI
Hafnir sem ekki teljast til opinbers reksturs.
19. gr.
Stjórn og rekstur.

    Rekstrarform hafna samkvæmt þessum kafla fer eftir ákvæðum 3. tölul. 1. mgr. 8. gr. Stjórnir hlutafélaga og einkahlutafélaga fara með valdsvið hafnarstjórna. Varðandi önnur rekstrarform skal skipa hafnarstjórnir eftir nánari ákvæðum reglugerðar skv. 4. gr. Þegar rekstrarform skv. 3. tölul. 1. mgr. 8. gr. er stofnað um rekstur hafnar og greiðsla framlags er í formi mannvirkja er fyrst hægt að greiða arð til eigenda eftir að fé hefur verið lagt til hliðar í fullnægjandi viðhald og endurnýjun hafnarinnar samkvæmt nánari ákvæðum í reglugerð hennar skv. 4. gr. Sveitarfélög geta rekið hafnir skv. IV. og V. kafla og sem hlutafélög.

20. gr.
Starfsheimildir.

    Höfn, sem rekin er skv. 3. tölul. 1. mgr. 8. gr. og er að meiri hluta til í eigu sveitarfélags, er heimilt að reka höfnina, hafntengda atvinnuaðstöðu og hafntengda þjónustu án takmarkana.

VII. KAFLI
Móttökuskylda hafna.
21. gr.
Móttökuskylda og ábyrgð eigenda skipa.

    Höfnum ber skylda til að taka á móti skipum eftir því sem rými og aðstaða leyfir. Hafnarstjórn er heimilt að synja skipi um aðgang að höfn ef mönnum og umhverfi er talin stafa hætta af komu þess til hafnar.
    Höfn er heimilt að krefjast trygginga fyrir greiðslu hafnargjalda og fyrir förgunarkostnaði skips séu taldar verulegar líkur á að það lendi í reiðileysi innan hafnar. Höfn er heimilt að láta fjarlægja skip á kostnað eiganda þegar rými hafnarinnar er takmarkað. Ef skip, bátar, flutningatæki á landi eða annar búnaður er í hirðuleysi á hafnarsvæðinu og veldur óþrifnaði eða hættu getur hafnarstjóri fyrirskipað úrbætur innan ákveðins frests. Sé slíkum fyrirmælum ekki sinnt er heimilt að láta fjarlægja viðkomandi hlut á kostnað eiganda.

VIII. KAFLI
Framlög ríkisins til hafnamála og framkvæmdir í höfnum.
22. gr.
Frumrannsóknir.

    Ríkissjóður greiðir allt að 100% kostnaðar við frumrannsóknir samkvæmt nánari ákvæðum í reglugerð. Siglingastofnun Íslands skal hafa umsjón með frumrannsóknum, sem kostaðar eru af ríkissjóði og hafa samráð við viðkomandi hafnarstjórn þar sem við á.

23. gr.
Samgönguáætlun.

    Siglingastofnun Íslands vinnur tillögu að áætlun um hafnarframkvæmdir með kostnaðarþátttöku ríkissjóðs, sbr. lög um samgönguáætlun.
    Við undirbúning þessarar tillögugerðar ber Siglingastofnun að hafa samráð og samstarf við viðkomandi hafnarstjórn og hafnaráð.
    Við tillögugerðina og forgangsröðun framkvæmda skal leggja til grundvallar mat er taki mið af hagkvæmni framkvæmdarinnar, þörf fyrir framkvæmdina og þýðingu fyrir byggðarlagið.

24. gr.
Ríkisstyrktar framkvæmdir.

    Heimilt er að veita framlög úr ríkissjóði til eftirfarandi verkefna á sviði hafnargerðar á vegum hafnarsjóða, sbr. 1. og 2. tölul. 1. mgr. 8. gr.
     a.      Ríkissjóði er heimilt að styrkja:
                  1.      endurbyggingu, endurbætur og lagfæringar á skjólgörðum í höfnum þar sem erfiðar náttúrulegar aðstæður valda því að lítið skjól er fyrir úthafsöldu,
                  2.      dýpkun í innsiglingu þar sem reglulegrar viðhaldsdýpkunar er þörf á minnst fimm ára fresti.
        Greiðsluþátttaka ríkisins skv. 1. og 2. tölul. getur þó aldrei orðið hærri en 75% og er ákvörðuð hverju sinni í samgönguáætlun.
     b.      Ríkissjóði er heimilt að styrkja framkvæmdir á vegum lítils hafnarsjóðs þar sem verðmæti meðalafla sl. þriggja ára er undir 400 millj. kr. og skatttekjur sveitarfélagsins eru undir 150 millj. kr. Ríkisstyrktar framkvæmdir skulu takmarkast við merkingu innsiglingar, dýpi, varnarmannvirki og viðlegu. Staðfesting Siglingastofnunar skal liggja fyrir um að höfnin hafi nýtt þá tekjumöguleika sem fyrir hendi eru áður en umsókn um ríkisstyrk er tekin fyrir. Staðfesting þessi skal m.a. byggjast á samanburði við gjaldtöku annarra sambærilegra hafna. Greiðsluþátttaka ríkisins samkvæmt þessum lið skal vera allt að 90% og er ákvörðuð hverju sinni í samgönguáætlun sem samþykkt er af Alþingi.
     c.      Ríkissjóði er heimilt að styrkja stofndýpkanir á vegum hafnarsjóða innan skilgreinds byggðasvæðis samkvæmt ákvörðunum Eftirlitsstofnunar EFTA þar sem meðaltal vöruflutninga sl. þriggja ára sem um höfnina fara er undir 100.000 tonnum. Greiðsluþátttaka ríkisins samkvæmt þessum lið getur aldrei orðið hærri en 17% og nær til dýpkana sem framkvæmdar eru 2007 eða síðar.

25. gr.
Umsóknir um ríkisframlög.

    Umsóknir um framlög úr ríkissjóði skulu sendar Siglingastofnun Íslands. Stofnunin vinnur úr umsóknum og tekur þær fyrir við endurskoðun samgönguáætlunar, sbr. 23. gr.
    Við mat á greiðsluþátttöku ríkissjóðs í einstökum verkefnum skal tekið tillit til fjárhagslegrar getu hafnarsjóðs til að standa undir nauðsynlegum hafnarframkvæmdum, þó með þeim takmörkunum um hámark sem kveðið er á um í 24. gr.
    Greiðsluþátttaka ríkissjóðs í einstökum verkefnum skal ákveðin um leið og verk eru tekin inn á samgönguáætlun og tekin til endurskoðunar á tveggja ára fresti við endurskoðun samgönguáætlunar, sbr. 23. gr.

26. gr.
Hafnabótasjóður.

    Hafnabótasjóður er eign ríkisins og fer hafnaráð með stjórn sjóðsins í umboði samgönguráðherra. Sjóðurinn skiptist í tvær deildir, A-deild og B-deild. Hlutverk A-deildar sjóðsins er að fjármagna hlut ríkisins í ríkisstyrktum framkvæmdum en B-deildar að fjármagna tjónaviðgerðir, sbr. 2. tölul. 3. mgr. þessarar greinar.
    Tekjur Hafnabótasjóðs eru þessar:
     1.      Tekjur af starfsemi sjóðsins.
     2.      Framlag úr ríkissjóði samkvæmt ákvörðun Alþingis.
    Hafnabótasjóði er heimilt að taka lán til starfsemi sinnar samkvæmt ákvörðun Alþingis hverju sinni.     Hafnaráð ráðstafar fé Hafnabótasjóðs með samþykki ráðherra á eftirgreindan, hátt að fengnum tillögum Siglingastofnunar Íslands:
     1.      Fjármagnar framkvæmdir ríkisins í samgönguáætlun sem samþykktar hafa verið á Alþingi.
     2.      Er heimilt að bæta tjón á hafnarmannvirkjum sem eru styrkhæf skv. 1. tölul. a-liðar og b-lið 24. gr., þ.m.t. tjón sem ekki fæst að fullu bætt úr Viðlagasjóði eða vegna ákvæða IX. kafla siglingalaga um takmarkaða ábyrgð útgerðarmanna.
    Siglingastofnun Íslands annast vörslu, daglega afgreiðslu og bókhald Hafnabótasjóðs. Lánasýsla ríkisins veitir sjóðnum aðstoð við öflun lánsfjár.
    Heimilt er með samþykki ráðherra að fela lánastofnun umsýslu lána sjóðsins.

IX. KAFLI
Kæruheimild.
27. gr.
Kæruheimild.

    Ákvörðunum hafnarstjórna samkvæmt lögum þessum verður skotið til samgönguráðherra. Um málsmeðferð fer samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga, nr. 37/1993.

X. KAFLI
Viðurlög, gildistaka, bráðabirgðaákvæði o.fl.
28. gr.
Refsingar.

    Brot gegn lögum þessum varða sektum. Sé brot framið í þágu lögaðila er heimilt að beita stjórnendur lögaðilans framangreindum viðurlögum og einnig er heimilt að gera lögaðilanum sekt.

29. gr.
Ýmis ákvæði.

    Ráðherra er heimilt að veita undanþágu frá 10. og 11. gr. og leyfa höfn án sjálfsstjórnar í eigu sveitarfélaga að annast hafntengda þjónustu, sbr. 17. gr.
    B-deild Hafnabótasjóðs skv. 26. gr. skal yfirtaka núverandi eignir sjóðsins við gildistöku laganna.

30. gr.
Sameining hafna og hlutafélög.

    Hafnasamlögum eða einstökum höfnum í eigu sveitarfélaga er heimilt að sameinast til þess að uppfylla skilyrði um umsvif í því skyni að reka höfn sem hlutafélag eða annars konar félag, sbr. 3. tölul. 1. mgr. 8. gr.

31. gr.
Gildistaka o.fl.

    Lög þessi öðlast gildi 1. júní 2002. Jafnframt falla úr gildi hafnalög, nr. 23/1994, með síðari breytingum.
    Allar hafnir skulu taka ákvörðun um rekstrarform fyrir 1. janúar 2003, en þá taka ný rekstrarform hafna samkvæmt lögum þessum gildi.
    Sé engin ákvörðun tekin um rekstrarform hafnar fyrir 1. janúar 2003 skulu hafnir taka rekstrarformið höfn með sjálfsstjórn í eigu sveitarfélaga. Við breytingu núverandi hafnarforms frá höfn með sjálfstæða hafnarstjórn í sveitarfélagshöfn skal sveitarstjórn taka við stjórn hafnarinnar og ábyrgð á rekstri hennar.
    Þær reglugerðir sem samgönguráðherra hefur gefið út í samræmi við hafnalög, nr. 23/1994, halda gildi þar til settar eru reglugerðir samkvæmt lögum þessum.

32. gr.
Breytingar á verðlagi.

    Allar verðmætaviðmiðanir samkvæmt lögum þessum skulu taka sömu breytingum á milli ára og vísitala neysluverðs frá gildistíma laganna.

Ákvæði til bráðabirgða.


I.
Gjaldskrá.

    Við gildistöku laganna setur samgönguráðherra gjaldskrá fyrir allar hafnir til 12 mánaða fyrir lestar- og bryggjugjöld, farþegagjald og vörugjöld, þ.m.t. aflagjald. Heimilt er einstökum höfnum að hækka eða lækka þessi gjöld um 20%. Skal gjaldskráin við það miðuð að hún gefi höfnum landsins möguleika á nægum tekjum til þess að standa undir rekstri hafnar miðað við forsendur þessara laga. Þó er óheimilt að hækka gjöld einstakra hafna umfram það sem þörf krefur til þess að standa undir rekstri hafnar, sbr. skilgreiningu 3. gr. Samgönguráðherra er heimilt að gefa út sérstaka gjaldskrá til 12 mánaða fyrir hverja höfn sem undir þetta getur fallið. Í lok þessa 12 mánaða tímabils flytjast gjaldtökuákvarðanir til hafna.

II.
Ríkisstyrkir.

    Þrátt fyrir 24. gr. þessara laga er ríkissjóði heimilt að styrkja framkvæmdir í höfnum samkvæmt samþykktri hafnaáætlun 2001–2004, sbr. eldri hafnalög, nr. 23/1994, með síðari breytingum.

III.


Sérstakt vörugjald.


    Innheimt skal sérstakt vörugjald fram til ársloka 2002 sem renna skal í ríkissjóð. Gjaldið skal vera sem svarar 25% álagi á vörugjöld, önnur en aflagjöld, eins og þau verða ákveðin í gjaldskrá samkvæmt ákvæði til bráðabirgða I.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

    Málefni hafna hafa undanfarið verið í brennidepli og hafa komið fram kröfur um breytingar á rekstrarformi og fjármögnun framkvæmda. Nokkur dæmi má nefna hér. Fjallað var um málið á ársfundi Hafnasambands sveitarfélaga árið 1997 og hefur það síðan verið tekið fyrir á hverjum ársfundi. Samtök iðnaðarins sendu beiðni haustið 1998 til Samkeppnisstofnunar um athugun á því hvort ákvæði hafnalaga stríddu gegn markmiðum samkeppnislaga. Einnig hafa komið fram ábendingar vegna endurskoðunar á gjaldaákvæðum laga í kjölfar hertra formkrafna til lagaheimilda fyrir sköttum og þjónustugjöldum. Töluverð umræða hefur verið innan ESB eftir útkomu grænbókar um hafnir og að lokum má nefna að verulegar breytingar hafa orðið í sumum nágrannalöndum okkar á málefnum hafna. Þessi atriði og fleiri hafa kallað á umræðu hér á landi. Til að bregðast við því ákvað þáverandi samgönguráðherra, Halldór Blöndal, að skipa tvær nefndir 1. febrúar 1999 til þess að fjalla um málefni hafna. Önnur nefndin hafði það hlutverk að fjalla um framtíðarfyrirkomulag hafnamála. Hin hafði það hlutverk að gera tillögur um gjaldskrá hafna með hliðsjón af breyttum lögum og veita umsögn um undanþáguákvæði núgildandi hafnalaga. Fljótlega komu upp þau sjónarmið að tillögur gjaldskrárnefndarinnar og nefndar um framtíðarskipulag hafnamála yrðu að fara saman. Nefndunum var því falið af núverandi samgönguráðherra, Sturlu Böðvarssyni að skila sameiginlegu áliti. Hér á eftir verður því vísað til þessara nefnda sem nefndar um framtíðarskipan hafnamála. Áliti var skilað sem áfangaskýrslu til samgönguráðherra í september 1999.
    Í kjölfar framangreinds álits skipaði Sturla Böðvarsson samgönguráðherra 9. desember 1999 nýja nefnd sem hér eftir er nefnd hafnalaganefnd. Í skipunarbréfi hennar segir að hún skuli „ undirbúa og semja frumvarp til nýrra hafnalaga. Verkefni þessarar nefndar verður að útfæra þær hugmyndir sem fram komu í skýrslunni frá því í september. Nefndinni er því ætlað að skila af sér frumvarpi til laga með greinargerð sem leggja megi fram til kynningar á Alþingi, helst á vorþingi 2000 ef mögulegt er. Nefndin skal leitast við í vinnu sinni að hafa náið samráð og samstarf við sem flesta hagsmunaaðila er hafnamál snerta þannig að sjónarmið þeirra komi skýrt fram.“
    Eftirfarandi aðilar voru skipaðir í hafnalaganefndina: Einar K. Guðfinnsson alþingismaður, formaður, Árni Þór Sigurðsson, formaður Hafnasambands sveitarfélaga, Friðrik J. Arngrímsson, framkvæmdastjóri LÍÚ, Guðmundur Bjarnason, bæjarstjóri Fjarðabyggðar, Hörður Blöndal, hafnarstjóri Hafnasamlags Norðurlands, og Kristinn Jónasson, bæjarstjóri Snæfellsbæjar.
    Með nefndinni störfuðu Hermann Guðjónsson, forstjóri Siglingastofnunar Íslands, og Jóhann Guðmundsson, skrifstofustjóri í samgönguráðuneytinu. Ritari hennar var Sigurbergur Björnsson, forstöðumaður hjá Siglingastofnun Íslands.
    Nefndin hóf starf sitt með því að fara yfir fyrirliggjandi áfangaskýrslu um framtíðarskipan hafnamála. Því næst kallaði hún á fulltrúa úr ýmsum áttum. Á fund nefndarinnar komu:
    Sveinn Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, Hjörleifur Pálsson endurskoðandi, Deloitte & Touche, Árni Harðarson lögfræðingur, Deloitte & Touche, Ragnheiður Snorradóttir lögfræðingur, fjármálaráðuneyti, Kristján Andri Stefánsson lögfræðingur, forsætisráðuneyti, Guðmundur Sigurðsson forstöðumaður, Samkeppnisstofnun, Lárus Ögmundsson lögfræðingur, Ríkisendurskoðun, Höskuldur H. Ólafsson, framkvæmdastjóri hjá Eimskipum, Kristinn Þór Geirsson, framkvæmdastjóri hjá Samskipum, Kristján Ragnarsson, formaður LÍÚ, Arthur Bogason formaður og Örn Pálsson framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda, Haukur Þór Hauksson, formaður Samtaka verslunarinnar, Guðjón Petersen, framkvæmdastjóri Farmanna- og fiskimannasambands Íslands, Grétar Mar Jónsson, forseti Farmanna- og fiskimannasambands Íslands, Sævar Gunnarsson formaður og Hólmgeir Jónsson framkvæmdastjóri Sjómannasambands Íslands, Sigríður Andersen og Guðjón Rúnarsson frá Verslunarráði Íslands, Sigurður Jónsson, framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu, og Ólafur J. Briem, framkvæmdastjóri Sambands íslenskra kaupskipaútgerða.
    Nefndin náði samkomulagi um drög að frumvarpi og er þetta frumvarp í flestum atriðum í samræmi það. Þó skal tekið fram að Friðrik Arngrímsson, sameiginlegur fulltrúi Landssambands íslenskra útgerðamanna, Landssamtaka smábátaeigenda og Sambands íslenskra kaupskipaútgerða, skrifaði undir nefndarálitið með fyrirvara (sjá fylgiskjal IV).
    Í frumvarpi þessu eru mörg nýmæli sé tekið mið af núgildandi hafnalögum. Þau helstu eru eftirfarandi:
     1.      Gert er ráð fyrir að samræmd gjaldskrá hafna verði aflögð og ákvæði samkeppnislaga gildi um gjaldtöku þeirra.
     2.      Leyft verður að reka hafnir undir fleiri rekstrarformum, þ.m.t. undir hlutafélagaforminu, þó að ákveðnum skilyrðum uppfylltum.
     3.      Gert er ráð fyrir að frumvarpið taki til allra hafna sem reknar eru í atvinnuskyni.
     4.      Mótttökuskylda hafna er skilgreind.
     5.      Ríkisafskipti af höfnum eru minnkuð en áfram er gert ráð fyrir að lagfæringar og viðhald á skjólgörðum sé greitt að hluta til úr ríkissjóði.
     6.      Framtíð smærri hafna er betur tryggð en í núgildandi lögum.
     7.      Önnur stjórnvaldsafskipti af höfnum eru betur skilgreind.
    Ein af forsendum frumvarpsins er að rekstur hafna skuli virðisaukaskattsskyldur. Þetta nái eingöngu til reksturs hafna eins og hann er skilgreindur í 3. gr. Því gilda núverandi sjónarmið um hafnarþjónustu, lóðaumsýslu og rekstur fasteigna. Fram að þessu hafa hafnir ekki innheimt virðisaukaskatt af hafnargjöldum og ekki fengið frádreginn eða endurgreiddan innskatt vegna framkvæmda og aðkeyptra rekstrarvara og þjónustu nema að mjög litlu leyti. Virðisaukaskattur af sérfræðiþjónustu fæst þó endurgreiddur. Ljóst er að við það að færa gjaldskrárákvarðanir til hafna og leyfa fleiri rekstrarform en tíðkast í dag færast hafnir nær umhverfi annars atvinnurekstrar. Flestir viðskiptaaðilar hafna eru virðisaukaskattsskyldir sem mælir með að hafnir verði það líka. Ef ein höfn uppfyllir skilyrði um virðisaukaskattsskyldu falla aðrar á sama atvinnusvæði óhjákvæmilega undir sama hatt óháð rekstrarformi. Því verður flókið fyrir viðskiptavini hafnarinnar að greiða hafnargjöld með virðisaukaskatt í höfnum á einu atvinnusvæði en ekki í höfnum á öðru atvinnusvæði. Lagt er til að tekin verði af öll tvímæli í þessu efni og allar hafnir sem undir lögin falla verði virðisaukaskattsskyldar. Því munu hafnir m.a. innheimta virðisaukaskatt af viðskiptavinum sínum við gerð reikninga fyrir skipagjöld og vörugjöld. Þær geta dregið allan innskatt frá útskatti. Þá hverfa uppsöfnunaráhrif vegna virðisaukaskatts sem hefur miklar fjárhagslegar afleiðingar fyrir bæði hafnirnar og ríkissjóð.
    Það er á verksviði fjármálaráðuneytis að breyta lögum eða reglugerðum á þessu sviði og vísast til þess ráðuneytis um það.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Greinin segir til um gildissvið laganna. Lögin taka til allra hafna sem reknar eru í atvinnuskyni. Þau ná til hafnarsjóða sem hingað til hafa verið reknir af sveitarsjóðum samkvæmt núgildandi lögum. Lögin koma einnig til með að gilda um hafnir sem eru í eigu einkafyrirtækis og þjóna því eingöngu. Þetta þýðir að sérhæfðar hafnir sem starfræktar eru af fyrirtækjum, eins og t.d. innst í Hvalfirði, þurfa reglugerðir skv. 4. gr. sem skilgreina hafnarsvæði og skyldur er varða t.d. öryggismál og mengunarmál. Undir lögin falla einnig hafnir sem hingað til hafa verið reknar af sveitarfélagi án þess að um þær hafi verið stofnaðir hafnarsjóðir. Dæmi um þetta er t.d. skemmtibátahöfnin á Seltjarnarnesi. Frumvarpið gerir kröfur um að sett verði hafnarreglugerð fyrir slíkar hafnir.

Um 2. gr.


    Í 1. gr. laga nr. 6/1996, um Siglingastofnun Íslands, segir að samgönguráðherra fari með yfirstjórn siglinga-, hafna- og vitamála, nema annað sé ákveðið í öðrum lögum. Í 2. gr. sömu laga segir að Siglingastofnun Íslands fari með framkvæmd siglinga-, hafna- og vitamála. Þetta þýðir að stofnunin fer með framkvæmd þessara laga í umboði samgönguráðherra nema í sérstökum tilfellum, t.d. er lýtur að olíuhöfninni í Helguvík sem fellur undir varnarsamninginn, en hann hefur lagagildi.

Um 3. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 4. gr.


    Þessi grein segir að samgönguráðherra skuli setja reglugerð um hverja höfn. Gert er ráð fyrir að stjórnvöld setji reglur um mengunarmál, öryggismál, skipulagsmál og hafi eftirlit með að farið sé eftir reglum. Frumvarpið gerir því ráð fyrir að stjórnvöld setji reglugerð um hverja höfn. Þetta er sama fyrirkomulag og í núgildandi lögum, nema hafnir í eigu einkaaðila falla nú einnig undir þetta ákvæði. Hafnarstjórn ber ábyrgð á að ákvæðum reglugerðarinnar sé fylgt. Leigi hún öðrum athafnasvæði á hafnarsvæðinu tekur það ekki þessa ábyrgð af henni.
    Lagt er til að hafnarreglugerðir skuli segja til um kosningu og starfs- og valdsvið hafnarstjórnar. Gagnvart einkafyrirtækjum eða hlutafélögum gilda lög um hlutafélög eða viðkomandi annað félagaform. Ekkert mælir þó á móti því að ákvæði þessa efnis sé sett í reglugerð fyrir viðkomandi höfn.
    Ef höfn telst ekki uppfylla skyldur sínar samkvæmt lögum þessum getur ráðherra numið hafnarreglugerðina úr gildi. Við það falla niður allar starfsheimildir hafnarinnar og ber að loka henni fyrir umferð á sjó og landi. Þetta er m.a. ætlað til þess að gefa möguleika á að grípa inn í þegar hætta stafar af lélegum mannvirkjum og viðkomandi höfn hefur ekki sinnt aðvörunum.

Um 5. gr.


    Þetta ákvæði má einnig finna í núgildandi hafnalögum. Það hefur þó meira vægi hér þar sem frumvarpið gerir ráð fyrir að einkaaðilar geti átt og rekið höfn.
    Kveðið er á um að sveitarstjórn skuli veita framkvæmdaleyfi fyrir nýjum hafnarmannvirkjum. Er það í samræmi við 27. gr. skipulags- og byggingarlaga, nr. 73/1997, en þar segir:
     „Meiri háttar framkvæmdir, sem áhrif hafa á umhverfið og breyta ásýnd þess, svo sem breyting lands með jarðvegi eða efnistöku, skulu vera í samræmi við skipulagsáætlanir og úrskurð um mat á umhverfisáhrifum þar sem það á við. Óheimilt er að hefja slíkar framkvæmdir sem ekki eru háðar byggingarleyfi skv. IV. kafla fyrr en að fengnu framkvæmdaleyfi viðkomandi sveitarstjórnar.“
    
Í 36. gr. IV. kafla skipulags- og byggingarlaga segir einnig:
    „Ákvæði þessa kafla taka til hvers konar bygginga ofan jarðar og neðan.
    Undanþegin byggingarleyfi eru götur, holræsi, vegir og brýr, aðrar en göngubrýr í þéttbýli, jarðgöng, flugbrautir, dreifi- og flutningskerfi rafveitna, hitaveitna, vatnsveitna og fjarskipta, svo og hafnir og virkjanir, enda eru þær framkvæmdar á vegum opinberra aðila eða unnar samkvæmt sérlögum. Byggingarleyfi þarf þó fyrir varanlegum húsbyggingum sem gerðar eru í tengslum við þessar framkvæmdir.“

    Enn fremur segir í 3. mgr. 36. gr. skipulags- og byggingarlaga: „Mannvirki, sem undanþegin eru byggingarleyfi, skulu byggð í samræmi við skipulagsákvæði skv. III. kafla laga þessara.“

Um 6. gr.


    Frumvarpið gerir eins og áður sagði ráð fyrir að skipulags- og byggingarlög, nr. 73/1997, gildi um skipulag hafnarsvæða. Það tiltekur þó að leggja þurfi fyrir Siglingastofnun Íslands gögn um gerð mannvirkja til samþykktar áður en byrjað er á framkvæmdum. Þetta er gert til þess að Siglingastofnun Íslands geti sinnt hlutverki sínu við að fylgjast með hönnun hafnarmannvirkja og sjá til þess að þau uppfylli að minnsta kosti lágmarkskröfur um styrkleika. Einnig að tekið sé tillit til öryggissjónarmiða við hönnun og horft til þess að tryggja öryggi notenda hafnarinnar strax á hönnunarstigi. Þetta er nokkur breyting frá núgildandi hafnalögum sem gera ekki ráð fyrir að Siglingastofnun Íslands hafi þetta hlutverk þegar um er að ræða framkvæmdir sem ekki eru ríkisstyrktar. Núgildandi hafnalög gera kröfu um að eigendur hafna séu opinberir aðilar og koma því stjórnvöld að hafnarframkvæmdum óhjákvæmilega á öllum stigum. Hér er lagt til að þetta sé ótvírætt hlutverk stjórnvalda óháð rekstrarformi.
    Frumvarpið heimilar þó að undanþága sé gefin frá þessu ákvæði sé tækniþekking og innra eftirlit fyrir hendi hjá viðkomandi höfn sem að mati Siglingastofnunar Íslands tryggir að fullt tillit sé tekið til öryggissjónarmiða við hönnun hafnarmannvirkja. Þannig hefur til að mynda Reykjavíkurhöfn sinnt þessum þætti sjálf vegna sinna framkvæmda.
    Loks er í frumvarpinu gerð krafa um að þær hafnir sem njóta opinberra framlaga til framkvæmda skuli leggja fram staðfestingar á fjármögnun fyrirhugaðra framkvæmda. Þetta er gert til þess að tryggja að nauðsynlegt fjármagn sé fyrir hendi áður en ráðist er í framkvæmdir sem ríkið stendur að.
    Ráðherra skal setja reglur um slysavarnir í höfnum og er þetta ákvæði hliðstætt ákvæðum gildandi hafnalaga.

Um 7. gr.


    Þessi grein segir að eigandi hafnar sé ábyrgur fyrir mannvirkjum, búnaði og rekstri hafnarinnar. Til þess að geta rækt þetta hlutverk gefur frumvarpið hafnarstjórn vald til þess að fjarlægja mannvirki í sjó fram ef hætta stafar af þeim.

Um 8. gr.


    Frumvarpið kveður á um að auk rekstrarforms gildandi hafnalaga, þ.e. hafnar með sjálfsstjórn í eigu sveitarfélags, verði hægt að reka hafnir sem höfn án sjálfsstjórnar í eigu sveitarfélags og sem félag skv. 3. tölul. 1. mgr. þessarar greinar. Hafnarstjórn ber mikla ábyrgð er varðar öryggi hafnarinnar og umhverfi hennar. Því er nauðsynlegt að kveðið sé skýrt á um hafnarstjórn fyrir hvert rekstrarform. Það er gert í 10., 13. og 19. gr.
    Frumvarpið heimilar að reka höfn án sjálfsstjórnar sem málaflokk í sveitarfélagi. Þetta rekstrarform er ætlað fyrir hafnir sem koma ekki til með að taka þátt í samkeppni og gilda reglur um gjaldtöku opinberra fyrirtækja um þær. Eigandi hafnar þ.e. viðkomandi sveitarstjórn setur höfninni gjaldskrá. Þetta rekstrarform er einkum ætlað fyrir litlar hafnir t.d. smábátahafnir eða jafnvel skemmtibátahafnir. Frumvarpið gerir ráð fyrir að engin starfsemi verði í slíkum höfnum á vegum sveitarsjóðs að rekstri hafnarinnar undanskildum og miðast starfsheimildir við það. Þó getur ráðherra í undantekningartilfellum heimilað að önnur hafntengd starfsemi sé rekin í höfninni á vegum sveitarsjóðs, sbr. 29. gr. Greinin heimilar að reka höfn með sjálfsstjórn í eigu sveitarfélags. Þetta er það rekstrarform í raun sem núverandi hafnalög leyfa. Frumvarpið gerir ráð fyrir að séu slíkar hafnir ekki reknar í samkeppni gildi reglur um gjaldtöku opinberra fyrirtækja. Vísað er til fylgiskjals III frá Samkeppnisstofnun um samkeppni hafna. Séu hafnir með sjálfsstjórn í samkeppni gilda ákvæði samkeppnislaga um gjaldtöku þeirra. Frumvarpið heimilar að starfsheimildir slíkra hafna séu þær sömu og þær hafa í dag. Hér er átt við hafntengda atvinnuaðstöðu og hafntengda þjónustu að hluta til, sbr. gjaldtökuheimildir 17. gr. Frumvarpið gerir ráð fyrir að stærri hafnarsjóðir landsins geti valið um núverandi form eða stofnað félag skv. 3. tölul. 1. mgr. þessarar greinar sem yfirtekur reksturinn að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Félög í eigu sveitarfélaga hafa rýmri starfsheimildir en hafnir með sjálfsstjórn í eigu sveitarfélags og geta rekið hafntengda atvinnuaðstöðu og hafntengda þjónustu án takmarkana. Settar eru stærðartakmarkanir á núverandi hafnir með sjálfsstjórn í eigu sveitarfélaga um hvort þær geti framselt rekstur sinn til annars rekstrarforms. Því er ekki heimilt að hafnir með sjálfsstjórn framselji rekstur sinn til annars rekstrarforms nema einhver samkeppni sé til staðar, annaðhvort séu þær á samkeppnissvæði eða taki þátt í samkeppni með einum eða öðrum hætti. Þar af leiðandi eru félög skv. 3. tölul. 1. mgr. ekki bundin af reglum um gjaldtöku opinberra fyrirtækja, heldur gilda samkeppnislög um gjaldtöku þeirra.
    Frumvarpið gerir ráð fyrir að einkafyrirtæki geti rekið hafnir. Slíkar hafnir geta verið einkafyrirtækjum nauðsynlegar vegna annarrar starfsemi, svo sem olíudreifingar eða stóriðju. Einnig gæti einkafyrirtæki haft hafnarekstur sem aðalverkefni. Frumvarpið gerir engar kröfur um stærð slíkra fyrirtækja í veltu talið og takmarkar ekki starfsheimildir slíkra hafna. Samkeppnislög gilda um verðlagningu á þjónustu þeirra.
    Loks segir í frumvarpinu að hafnarsjóðir, sem starfa eftir lögum þessum sendi ársskýrslur sínar árlega til Siglingastofnunar Íslands. Einnig er hafnarsjóðum sem njóta ríkisstyrks skylt að senda önnur þau gögn sem Siglingastofnun Íslands óskar eftir og snerta rekstur hafnarinnar. Þetta er samhljóða ákvæðum núgildandi hafnalaga og ætlað að gera Siglingastofnun Íslands kleift að sinna lagaskyldum sínum varðandi ríkisstyrki.

Um 9. gr.


    Nauðsynlegt er að til sé á einum stað aðgengilegar upplýsingar um getu hafna til þess að taka á móti skipum. Siglingastofnun Íslands er ætlað að halda utan um slíkar upplýsingar.

Um 10. gr.


    Fjallað er um almenn atriði er varða þetta rekstrarform hafna í athugasemdum með 8. gr. Að öðru leyti þarfnast greinin ekki skýringa. Sveitarstjórn getur kosið hafnarnefnd sem hefur sömu stöðu og málaflokkanefndir hafa almennt í sveitarfélögum.

Um 11. gr.


    Veitt er heimild til að innheimta aflagjald, vörugjald, lestargjald og bryggjugjald til þess að standa straum af kostnaði við að byggja, reka, viðhalda og endurnýja hafnarmannvirki. Þetta þýðir m.a. að höfnin má ekki greiða arð í sveitarsjóð.
    Sveitarsjóðir bera ábyrgð á að gjöld séu í samræmi við reglur um gjöld opinberra fyrirtækja samkvæmt þessu frumvarpi. Líftíma og slit margra hafnarmannvirkja er í meginatriðum fremur hægt að rekja til veðurfarslegra eða náttúrulegra ástæðna en notkunar. Hafnargjöld eru endurgjald fyrir veitt afnot á sama hátt og leiga er endurgjald fyrir afnot af húsnæði. Stærsti einstaki kostnaðarþáttur leigugjalds er stofnkostnaður sem er mismunandi fyrir hvert mannvirki sem leigt er. Algengast er að miða leigugjald á húsnæði við fermetra, heilt hús eða hluta úr húsi eftir aðstæðum og að því sé deilt á leigjendur eftir tíma, svo sem klukkustundum, dagpörtum, vikum eða mánuðum. Stofnkostnaðurinn vegur þyngst í hafnargjöldunum. Stærri skip leigja meiri aðstöðu en lítil skip, þ.e. lengri viðlegu, meira dýpi og fleiri fermetra af hafnarbakka. Aðstæður eru mismunandi í hverri höfn sem hefur áhrif á viðmið og form gjaldtöku. Lestargjaldinu er einkum ætlað að mæta kostnaði við ytri mannvirki hafnarinnar. Bryggjugjaldi er einkum ætlað að mæta kostnaði við viðlegumannvirki. Vörugjöldum er einkum ætlað að mæta kostnaði við bryggju og þekju. Skilin á milli þessara gjaldaflokka geta í sumum tilfellum verið óljós. Til dæmis takmarkar skip sem liggur við bryggju óhjákvæmilega aðgang að þekju sem annars gefur vörugjald. Til þess að taka af öll tvímæli er við það miðað að samanlagðar tekjur af hafnargjöldum skv. 1. og 2. tölul. séu notaðar til að standa straum af rekstri hafnarinnar, sbr. skilgreiningu 3. gr., og er óheimilt að taka hærra gjald en sem nemur kostnaði við rekstur hafnarinnar.
    Það er eiganda hafnar, þ.e. sveitarfélagsins, að sjá til þess að gjaldskrá fyrir þjónustu hafnar uppfylli þær kröfur sem réttarreglur um tekjuöflun hins opinbera setja gjaldtöku af þessu tagi og gæti þess að álögð gjöld séu í samræmi við þær heimildir.
    Gert er ráð fyrir að á aðlögunartíma, sbr. ákvæði til bráðabirgða, muni hafnarsjóðir fá auknar tekjur til þess að standa á eigin fótum. Það er eigenda hafna að sjá til þess að hafnir uppfylli formkröfur og að gjöldin hrökkvi fyrir kostnaði að loknum aðlögunartíma.
    Nýmæli í frumvarpinu er farþegagjald. Ljóst er að hafnarsjóðir hafa lagt í töluverðan kostnað til þess að taka á móti farþegum af skemmtiferðaskipum, ferjum og skemmtiferða- eða útsýnisbátum ýmiss konar sem þjónusta ferðamenn. Þessi kostnaður felst í umsýslu skipanna, sérbúnaði, svo sem flotbryggjum og landgöngum, svo og aðstöðu fyrir þau sem ekki nýtist í annað. Rökrétt er að heimila gjaldtöku fyrir þessa þjónustu hafna.
    Gjaldtökuheimildir kaflans ná til sömu rekstrarþátta og starfsheimildir hafnarinnar. Heimili ráðherra höfninni að annast annan rekstur sem telst til hafntengdrar atvinnuaðstöðu eða hafntengdrar þjónustu, sbr. 29. gr., fylgir því jafnframt samsvarandi gjaldtökuheimild.

Um 12. gr.


    Með vísan til umfjöllunar í 8. gr. eru hér tilgreind þau viðmið sem höfn án sjálfsstjórnar í eigu sveitarfélags verður að uppfylla til þess að breyta rekstrinum í höfn með sjálfsstjórn í eigu sveitarfélags eða framselja hana til félags skv. 3 tölul. 1. mgr. 8. gr. Við þessar formbreytingar fær höfnin auknar starfsheimildir. Því er komið til móts við auknar þarfir sem fylgja vexti hafna um leið og gerðar eru kröfur um fjárhagslegt sjálfstæði. Ráðherra er einnig heimilt að gefa undanþágu frá viðmiðun sé minni höfn í samkeppni. Við það er viðkomandi höfn í eigu sveitarfélags betur í stakk búin til þess að taka þátt í samkeppni á svæðinu notendum til hagsbóta.

Um 13. gr.


    Greinin kveður á um að stjórn hafnar með sjálfsstjórn í eigu sveitarfélags skuli kosin af sveitarstjórn og segi hafnarreglugerð nánar til um það fyrirkomulag. Gert er ráð fyrir að kosnar séu sérstakar hafnarstjórnir sem hafa þá svipaða stöðu og stjórnir fyrirtækja. Ákvæði er um að hafnarstjórnin skuli fyrst og fremst gæta hagsmuna hafnarinnar og er tilgangur þess m.a. sá að taka af öll tvímæli um tengsl sveitarsjóðs og hafnarsjóðs. Það er hlutverk hafnarstjórnar samkvæmt frumvarpi þessu að ráða hafnarstjóra og ákveða verksvið hans. Fyrirkomulag stjórnar hafnarinnar skal nánar ákveðið í reglugerð sem samgönguráðherra setur skv. 4. gr.

Um 14. gr.


    Núgildandi lög gera ráð fyrir að hægt sé að sameina hafnir í eigu tveggja eða fleiri sveitarfélaga og stofna um þær hafnasamlög með heimild ráðherra. Reynslan af núverandi hafnasamlögum er nokkuð mismunandi. Á meðan sum hafa náð að hagræða hafa önnur rekið einstakar hafnir með nánast óbreyttu sniði. Frumvarpið gerir áfram ráð fyrir þessum möguleika, en þó með áherslubreytingu. Það gerir kröfur um að við stofnun hafnasamlags séu hafnarsvæðin skipulögð á nýjan leik og lögð fram gögn sem sýna fram á að hagræðing náist með sameiningunni. Með þessu móti er reynt að stuðla að þeirri hagræðingu sem upphaflega var stefnt að með stofnun hafnasamlaga. Ákvæði samkeppnislaga gilda þó um sameiningu hafna sem teljast í samkeppni og gæti því komið til kasta samkeppnisyfirvalda ef sýnt þykir að sameiningin komi niður á þjónustu við neytendur. Stjórn hafnasamlags ber að horfa á hagsmuni heildarinnar og gæta þess að fjármunum sé varið á sem hagkvæmastan hátt hverju sinni. Frumvarpið gerir ekki ráð fyrir breytingum á högum eldri hafnasamlaga, en gera má þó ráð fyrir að skipulag þeirra styrkist í samræmi við þau sjónarmið sem koma fram í grein þessari.

Um 15. gr.


    Fjallað er um starfsheimildir hafna með sjálfsstjórn í eigu sveitarfélaga í umfjöllun um 8. gr. Tekið skal fram að ekkert mælir gegn því í frumvarpi þessu að hafnir í þessum kafla geti átt í félagi sem rekur hafntengda atvinnuaðstöðu eða hafntengda þjónustu.

Um 16. gr.


    Ákvæði núgildandi hafnalaga um að tekjum og eignum hafnarsjóðs megi einungis verja í þágu hafnarinnar eru látin halda sér. Sama gildir um ákvæði núgildandi laga um að hafnarsjóðir skuli undanþegnir hvers konar sköttum af hafnarmannvirkjum. Það þýðir að þessum höfnum er óheimilt að greiða arð til eigenda sinna. Þetta gildir um hafnir með sjálfsstjórn í eigu sveitarfélaga. Lögin gera ráð fyrir að lög um bókhald gildi um þessar hafnir og þær fylgi almennri reikningsskilavenju. Eigandi hafnar skal velja endurskoðanda sem er í samræmi við lög og reglur og venjur þar um.

Um 17. gr.


    Fjallað er um gjaldtöku skv. 1., 2., og 3. tölul. 1. mgr. greinarinnar í umfjöllun um 11. gr. frumvarpsins.
    Í starfsheimildum fyrir það rekstrarform sem hér um ræðir er kveðið á um að höfnin geti stundað rekstur á hafntengdri atvinnuaðstöðu. Hér eru settar í frumvarpið sömu gjaldtökuheimildir fyrir hafntengda atvinnuaðstöðu og fyrir þann hluta hafntengdrar þjónustu sem núverandi hafnalög heimila. Frumvarpið gerir ekki ráð fyrir að hafnir í þessum kafla veiti aðra hafntengda þjónustu. Í frumvarpinu er heimild fyrir tveimur nýjum gjöldum, þ.e. lestunar- og losunargjaldi, sem er einkum hugsað vegna notkunar á aðstöðu fyrir afgreiðslu á vörum út af hafnarsvæði á vöruflutningabíl og ætla má að sé innifalið í vörugjaldi í þeim tilfellum þegar varan fer þess í stað um borð í skip. Geymslugjald er vegna geymslu gáma eða varnings á hafnarsvæði í lengri tíma. Það á einkum við í þeim tilfellum þegar hafnarsjóður leigir aðstöðu fyrir einstaka gáma eða vöru í stað þess að leigja heilt athafnasvæði til lengri tíma. Geymslugjaldið getur átt við geymslu vöru á sérstöku geymslusvæði eða á athafnasvæði sjálfra viðlegumannvirkjanna í lengri tíma en eðlilegan athafnatíma við uppskipun eða útskipun. Eina breytingin frá núgildandi lögum er að finna í 5. tölul. 2. mgr. Þar er fjallað um sorpgjöld í stað sorphirðugjalds í núverandi lögum. Ástæðan er sú að gert er ráð fyrir að hægt sé að taka gjald annars vegar fyrir sorphirðu og hins vegar fyrir sorpeyðingu.
    Almennt séð gerir frumvarpið ráð fyrir að gjöld verði miðuð við að gjaldtakan fyrir viðkomandi þjónustu standi straum af kostnaði við hana. Þetta sjónarmið verði haft til hliðsjónar við ákvörðun gjalda.
    Gert er ráð fyrir að einkaaðili geti átt bryggju innan hafnarsvæðisins, sbr. 5. gr. Nauðsynlegt er fyrir höfnina að hafa tekjur af umferð vegna eiganda slíkrar bryggju til þess að standa straum af kostnaði við innsiglingarmerki og sameiginleg hafnarmannvirki. Þessi kostnaður hlýtur að vera mismunandi eftir höfnum. Frumvarpið gerir ráð fyrir að kostnaður sé metinn út frá umferð sem myndast við notkun á viðkomandi bryggju í hlutfalli við heildarumferð í höfninni.

Um 18. gr.


    Frumvarpið gerir ráð fyrir að sveitarfélög geti framselt rekstur hafna til annars rekstrarforms skv. 3. tölul. 1. mgr. 8. gr. Gert er almennt ráð fyrir að slíkt félag verði áfram í eigu viðkomandi sveitarfélags en þó eru í frumvarpinu engar takmarkanir settar á að sveitarfélög geti síðar selt hlut sinn öðrum aðilum. Einungis er hægt að yfirfæra stærri hafnarsjóði í eigu sveitarfélaga til rekstrarforms skv. 3. tölul. 1. mgr. 8. gr. Engar stærðartakmarkanir eru settar varðandi önnur rekstrarform skv. 3. tölul. 1. mgr. 8. gr.
    Frumvarpið gerir kröfu um að stuðst sé við hagrænt verðmæti hafnarmannvirkja við mat á verðmæti þeirra. Með hagrænu mati er átt við að núvirða fjárstreymi hafnarinnar út frá gefnum forsendum um arðsemi og áhættu. Frumvarpið gerir einungis kröfu um að verðmæti hafnarmannvirkja sé metið og þarf að reikna frá fjárstreymi vegna taps eða hagnaðar af hafntengdri þjónustu eða hafntengdri atvinnuaðstöðu við þetta verðmætamat og meta það sérstaklega. Sömuleiðis ef landsvæði sem hefur sértækt verðmæti er framselt til félags skv. 3. tölul. 1. mgr. 8. gr. skal það metið á markaðsverði. Frumvarpið tekur ekki fyrir að aðrar matsaðferðir séu einnig notaðar, en í öllum tilfellum skal útkoman sannreynd með aðferðum hagræns mats.
    Ástæða er til þess að endurskoða afskriftaheimildir skattalaga fyrir hafnarmannvirki þar sem ætla má að afskriftatími þeirra sé lengri en gert er ráð fyrir í skattalögum.
    Í þessari grein er að finna ákvæði sem er hliðstætt ákvæði gildandi hafnalaga um að samþykki ráðherra þurfi fyrir að veðsetja eða ráðstafa hafnarmannvirki sem hefur notið ríkisstyrks. Hér er krafist samþykkis ráðherra fyrir framsali hafnarmannvirkja til félags skv. 3. tölul. 1. mgr. 8. gr. Gert er ráð fyrir að ráðherra geti fengið og lagt mat á verðmætamat hafnarmannvirkja út frá forsendum ríkissjóðs um arðsemiskröfu og áhættu. Sú staða gæti komið upp að mat á hagrænu verðmæti hafnarmannvirkja sé hærra en reiknað framlag hafnarsjóðs til þeirra. Við þessar aðstæður má álykta að hlutur ríkissjóðs hafi borið arð. Það er matsatriði hvort rétt sé að ráðherra fari fram á að ríkissjóður eignist hlut í slíku félagi. Heimild þessi er því höfð hér inni af sömu ástæðu og samhljóða heimild núgildandi hafnalaga.
    Kjósi höfn með sjálfsstjórn í eigu sveitarfélags að taka upp rekstrarformið höfn án sjálfsstjórnar í eigu sveitarfélags getur hún það en verður við það að láta af allri samkeppni. Við þessa formbreytingu skerðast starfsheimildir hennar niður í að reka höfnina og getur hún þá eingöngu sinnt verkefnum, sbr. 10. og 11. gr. Gert er ráð fyrir að sveitarfélagahafnir í samkeppni við einkafyrirtæki fylgi reglum fjármálaráðuneytisins um opinberan rekstur í samkeppni.
    Ef höfn er rekin í samkeppni en hún hefur neikvæðan rekstrarafgang í þrjú ár eftir fjármagnskostnað en fyrir afskriftir verður hún að láta af samkeppnisrekstri og taka upp rekstrarform hafna án sjálfsstjórnar í eigu sveitarfélags. Við það skerðast starfsheimildir hennar samsvarandi. Í þessu tilviki hrökkva tekjur hafnarinnar ekki fyrir útgjöldum. Sveitarsjóður þarf að leggja fé með höfninni en slíkt gengur ekki til lengdar í samkeppnisrekstri. Því er eðlilegra að kosnir fulltrúar beri ábyrgð á rekstrinum með beinni hætti, þ.e. að höfnin verði rekin sem höfn í eigu sveitarfélags án sjálfsstjórnar. Í því tilfelli að hér sé um að ræða hafnasamlag verður að leysa það upp og fella hafnir þess undir viðkomandi sveitarsjóði. Því er gert ráð fyrir að í stofnsamningi hafnasamlags verði ákvæði sem segi til um hvernig beri að fara með eignir þess og skuldir ef því er slitið.
    Ef hallareksturinn er vegna skuldasöfnunar eða tímabundins aflabrests gefst eigendum hafnarinnar með samþykki ráðherra tækifæri til að leggja fram fé til þess að grynnka á skuldum þannig að rekstrargrundvöllur skapist. Frumvarpið gerir ráð fyrir að þessari heimild verði aðeins beitt í undantekningartilfellum.

Um 19. gr.


    Frumvarpið tiltekur að hafnir skv. 3. tölul. 1. mgr. 8. gr. skuli leggja fé til hliðar til fullnægjandi viðhalds og endurnýjunar hafnarinnar. Þetta ákvæði á að tryggja að ekki sé gengið á fjárhagslega getu hafnarinnar til þess að sinna hlutverki sínu í samgöngukerfi þjóðarinnar með óhóflegum arðgreiðslum til eigenda. Frumvarpið miðar við að í reglugerð skv. 4. gr. verði ákvæði sem útfærir nánar þessa kvöð.

Um 20. gr.


    Hafnir sem reknar eru sem félög skv. 3. tölul. 1. mgr. 8. gr. að meiri hluta til í eigu sveitarfélaga fá heimildir til þess að reka höfnina, hafntengda atvinnuaðstöðu og hafntengda þjónustu án takmarkana. Samkeppnislög gilda um verðlagningu þessara hafna og þar með alla þá þjónustu sem þær veita, sbr. starfsheimildir.
    Frumvarpið gerir ráð fyrir að starfsemi félaga skv. 3. tölul. 1. mgr. 8. gr. í meirihlutaeign sveitarfélaga takmarkist við rekstur hafnarinnar, hafntengda atvinnuaðstöðu og hafntengda þjónustu. Markmið sveitarfélaga með hafnarekstri er takmarkaðra en markmið einkaaðila. Það sjónarmið kemur fram í frumvarpinu að slíkar hafnir haldi sig við þetta hlutverk á meðan þær eru í eigu opinberra aðila. Engar takmarkanir eru á starfsheimildum hafna sem eru að minni hluta í eigu sveitarfélaga eða í eigu einkaaðila.
    Samkeppnislög gilda um verðlagningu hafna samkvæmt þessum kafla. Almennt séð gerir frumvarpið ráð fyrir að gjöld verði miðuð við að gjaldtakan fyrir viðkomandi þjónustu standi straum af kostnaði við hana ásamt hlutdeild í sameiginlegum rekstri hafnarinnar. Þetta sjónarmið verði haft til hliðsjónar við ákvörðun gjalda.

Um 21. gr.


    Í frumvarpinu er ákvæði um að allar hafnir sem falla undir 1. gr. gangist undir móttökuskyldu á meðan rými og aðstaða leyfir. Hægt er að neita skipi um aðgang að höfn ef ekki er laust rými. Móttökuskylda í sérhæfðum höfnum eins og t.d. stóriðjuhöfnum getur ekki orðið til þess að teppa nauðsynlegan aðgang skipa sem flytja hráefni eða fullunna vöru til eða frá viðkomandi stóriðjuhöfn. Sama gildir um einstakar sérhæfðar bryggjur, t.d. loðnubryggjur eða bryggjur fyrir framan farmstöð. Einnig er hægt að neita skipi um aðgang að höfn ef engin aðstaða er til þess að taka á móti því með vísan til reglugerðar hafnarinnar skv. 4. gr. Í henni eiga t.d. að vera ákvæði um mengunarvarnir og öryggi sem hér geta skipt máli.
    Í greininni er einnig að finna ákvæði um að hafnarstjórn sé heimilt að synja skipi um aðgang að höfn ef mönnum og umhverfi er talin stafa hætta af komu þess í höfn. Hér er einkum átt við tímabundna synjun svo að höfn hafi svigrúm til þess að undirbúa komu þess í höfn eða grípa til nauðsynlegra varúðarráðstafana. Við eðlilegar aðstæður á tilkynning um komu skips með hættulegan farm að hafa borist höfninni með góðum fyrirvara.
    Margar hafnarstjórnir hafa átt í vandræðum með skip sem liggja langtímum saman í höfn. Þau eru oft gömul, jafnvel ónýt, en taka viðlegurými frá öðrum skipum sem koma með afla eða vörur að landi. Í slíkum tilfellum verða oft vanskil á hafnargjöldum. Frumvarpið heimilar höfnum að fjarlægja slík skip ef rými hafnarinnar er takmarkað og þau farin að hamla annarri starfsemi hennar. Frumvarpið heimilar einnig höfnum að krefjast trygginga fyrir greiðslu hafnargjalda þannig að þær eiga möguleika á að verjast vanskilum af hálfu eigenda skipa sem ekki eru í notkun. Frumvarpið gerir jafnframt ráð fyrir að hafnir geti krafist tryggingar fyrir förgunarkostnaði séu sterkar líkur á að skipið lendi í reiðileysi. Skip í reiðileysi er skip sem enginn hirðir um, liggur undir skemmdum og af því stafar hætta, þ.m.t. mengunarhætta. Samkvæmt nýlegri könnun Hafnasambands sveitarfélaga hafa 158 skip legið verkefnalaus í höfnum um langan tíma. Þar af voru 14 togarar, 88 fiskibátar, 38 trillur og 20 önnur skip. Samtals var lengd þeirra 5,1 km og brúttótonnatala þeirra var um 37 þús. tonn. Ljóst er að veruleg fjárfesting í höfnum er teppt með þessu. Til viðmiðunar má nefna að stofnkostnaður við 1 km af stálþili er 1 milljarður kr. Mögulegt er að beita stighækkandi gjaldskrá miðað við tíma þar sem ekki fást eðlilegar tekjur, t.d. vörugjöld, af viðkomandi kanti.

Um 22. gr.


    Ákvæði núgildandi hafnalaga um þátttöku ríkissjóðs í frumrannsóknum eru látin halda sér. Frumrannsóknir þurfa ekki að leiða til hafnargerðar, þær geta verið tímafrekar og dýrar og oft er nauðsynlegt að niðurstöður þeirra liggi fyrir þegar ráðast þarf í framkvæmdir með skömmum fyrirvara. Eðlilegt er því talið að ríkið kosti frumrannsóknir á sviði hafnamála en kostnaðarþátttaka viðkomandi hafnarsjóðs hefjist ekki fyrr en með rannsóknum sem telja má beinan undanfara hafnarframkvæmda. Með frumrannsóknum er m.a. átt við gerð grunnkorta af hafnarsvæðum, dýptarmælingar, jarðvegsathuganir, straumfræðirannsóknir, sjávarborðsmælingar, undirstöðurannsóknir á sjólagi, sjávarflóðum og strandbreytingum, líkantilraunir og hagkvæmniathuganir.

Um 23. gr.


    Samgönguáætlun, sbr. lög um samgönguáætlun, nær m.a. til hafnarmannvirkja sem ríkið styrkir. Greiðsluþátttaka ríkisins er ákveðin í samgönguáætlun.
    Gert er ráð fyrir að Siglingastofnun Íslands vinni tillögu að hafnaáætlun sem hún leggur síðan fyrir samgönguráð, sbr. lög um samgönguáætlun. Við undirbúning tillögugerðarinnar ber Siglingastofnun Íslands að hafa samráð og samstarf við viðkomandi hafnarstjórn og hafnaráð.
    Þá gerir frumvarpið ráð fyrir að Siglingastofnun Íslands leggi til grundvallar samgönguáætlun mat á þörf fyrir framkvæmdir í einstökum höfnum, landshlutum og landinu í heild. Við mat þetta skal m.a. taka mið af hagkvæmni framkvæmdarinnar, þörf fyrir framkvæmdina og þýðingu fyrir byggðarlagið.
    Nýmæli er að með frumvarpinu er gert ráð fyrir að fram komi upplýsingar um nýjar hafnir og stækkun eldri hafna óháð fjármögnun. Tilgangur þessa ákvæðis er að skapa yfirsýn í anda samgönguáætlunar sem ætlað er að ná yfir alla samgöngumáta. Við það er sjónum beint að forsendum og/eða afleiðingum af því að byggja nýja höfn eða stækka eldri fyrir allt samgöngukerfi landsins.

Um 24. gr.


    Frumvarpið gerir ráð fyrir verulegri breytingu á hlutverki ríkisins vegna framkvæmda í höfnum. Ríkissjóður mun ekki styrkja framkvæmdir í einkahöfnum eða höfnum sem reknar eru sem félög skv. 3. tölul. 1. mgr. 8. gr. Ekki er heldur gert ráð fyrir að ríkið komi að framkvæmdum í stærri höfnum nema í undantekningartilvikum, sbr. a-lið þessarar greinar. Í því tilfelli takmarkast aðkoma ríkisins við skjól í höfnum þar sem ekki er náttúrulegt skjól fyrir úthafsöldu. Þátttaka ríkisins í slíkum framkvæmdum takmarkast við skjólgarða sem stækka ekki höfnina og er því einkum átt við endurbyggingar á þeim mannvirkjum sem fyrir eru eða nauðsynlegar lagfæringar á þeim. Jafnframt takmarkast heimild þessi við hafnir á byggðasvæðum samkvæmt skilgreiningu Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA).
    Ríkissjóði er einnig heimilt samkvæmt frumvarpinu að taka þátt í dýpkunum í höfnum þar sem verulegrar viðhaldsdýpkunar er þörf og dýpka þarf höfnina á minnst fimm ára fresti. Framkvæmdir við dýpkun í innsiglingu þar sem reglulegrar viðhaldsdýpkunar er þörf á minnst fimm ára fresti falla hér undir. Ríkissjóði er leyfilegt samkvæmt þessu frumvarpi að styrkja garða sem hafa þann tilgang að hefta sandburð í innsiglingar eða höfn og draga úr þörf fyrir viðhaldsdýpkanir. Ekki er gert ráð fyrir að höfnin stækki við þessar ríkisstyrktu framkvæmdir.
    Gert er ráð fyrir að sérstakar ráðstafanir verði gerðar í hafnaáætlun 2001–2004 en seinni tvö árin yfirfærast í samgönguáætlun. Samkvæmt henni muni ríkissjóður taka þátt í öllum dýpkunarframkvæmdum í höfnum og innsiglingum sem miða að því að jafna aðstöðu hafna.
    Það sjónarmið er gilt að erfiðar náttúrulegar aðstæður séu teygjanlegt hugtak við íslenskar aðstæður. Til eru hafnir sem búa við mjög góð náttúruleg skilyrði með tilliti til skjóls, efnisflutninga og dýpis. Nokkru lengri siglingatími er til þeirra en kannski annarrar sem er styttra frá siglingaleið en býr við mjög erfið náttúruleg skilyrði með tilliti til dýpis. Þessar hafnir gætu unnið saman þar sem landsamgöngur hafa farið mjög batnandi. Ákvæði b-liðar 24. gr. er ætlað að skilgreina aðstoð ríkisins við hafnir þar sem höfnin er lífæð byggðarlagsins. Hér er einkum átt við litlar hafnir á landsbyggðinni sem þjónusta smábáta. Aðstoðin takmarkast við hafnir með aflaverðmæti undir 400 millj. kr. á ári og sveitarsjóði með tekjur undir 150 millj. kr. á ári. Ekki er ætlun frumvarpsins að slíkir styrkir komi til hafna á samkeppnissvæðum. Frumvarpið heimilar ríkinu að fjármagna þessar framkvæmdir allt að 90%. Ekki er gert ráð fyrir að ríkið taki þátt í kostnaði við uppfyllingar eða önnur mannvirki á hafnarsvæðinu.
    Ákvæði c-liðar skýra sig sjálf, en ekki skapast svigrúm fyrir þessar greiðsluheimildir í samgönguáætlun fyrr en 2007.
    Frumvarpið gerir kröfu um að hafnir sem uppfylla skilyrði fyrir aðstoð frá ríkinu fullnýti tekjustofna sína. Gert er ráð fyrir að Siglingastofnun Íslands kanni gögn með tilliti til hvort tekjustofnar séu fullnýttir miðað við hliðstæðar hafnir á landinu og meti styrkrétt í framhaldi af því. Með þessu móti er komið í veg fyrir að hafnir sem eru ríkisstyrktar séu með óeðlilega lág hafnargjöld samanborið við hafnir sem sjá alfarið um sig sjálfar og taki þannig til sín viðskipti sem annars færu annað. Áætlaður kostnaður ríkisins skv. a-lið þessar greinar er 100–120 millj. kr. á ári og er þá miðað við 50 ára líftíma skjólgarða. Kostnaður skv. b-lið er áætlaður um 25–30 millj. kr. á ári.

Um 25. gr.


    Greinin er samhljóða 1. mgr. 22 gr. núgildandi hafnalaga og þarfnast ekki skýringa.

Um 26. gr.


    Frumvarpið gerir ráð fyrir að hlutverki Hafnabótasjóðs verði breytt verulega. Hætt verði að veita lán úr sjóðnum. Það er mat nefndarinnar að það hlutverk sjóðsins sé óþarft í ljósi þróunar á íslenskum lánsfjármarkaði.
    Þá gerir frumvarpið ráð fyrir að hætt verði að veita styrki úr sjóðnum á móti framlagi á fjárlögum. Breytt fyrirkomulag framlags ríkisins til hafnamála samkvæmt frumvarpi þessu gerir þetta hlutverk óþarft.
    Frumvarpið gerir ráð fyrir að tjón verði áfram bætt úr sjóðnum nema nú takmarkast tjónabætur við mannvirki sem eru styrkhæf skv. a- og b-lið 24. gr. Gert er ráð fyrir að núverandi eigur Hafnabótasjóðs renni í B-deild sjóðsins og verði varið til þess að bæta tjón. Búast má við að sjóðurinn komi til með að ganga á þessar eignir sínar. Frumvarpið gerir ráð fyrir að ríkissjóður leggi honum til fé á fjárlögum svo að hann hafi nægilegt fé til ráðstöfunar til þess að bregðast við tjónum þegar þau verða. Gert er ráð fyrir að hafnarsjóðir sjái um tryggingamál sín að öðru leyti.
    Frumvarpið mælir fyrir um að Hafnabótasjóður taki upp nýtt hlutverk sem verði svipað hlutverki vegasjóðs, þ.e. að fjármagna framkvæmdir á samgönguáætlun. Gert er ráð fyrir að á fjárlögum verði veitt fé til sjóðsins í samræmi við sundurliðun samgönguáætlunar. Í framhaldi af því fjármagni Hafnabótasjóður framkvæmdir á samgönguáætlun. Með þessu verður bókhald og uppgjör ríkisstyrktra hafnarframkvæmda aðskilið frá bókhaldi Siglingastofnunar Íslands. Enn fremur er nauðsynlegt að skapa svigrúm til þess að bregðast við ef einstakar framkvæmdir fara lítillega yfir kostnaðaráætlun á meðan aðrar eru undir kostnaðaráætlun. Svigrúmið er lítið sem ekkert í núgildandi framkvæmd hafnalaga þar sem fjárveiting er sundurliðuð á einstakar hafnir og óheimilt að færa hana á milli staða nema með samþykki Alþingis. Með þessu svigrúmi nýtast fjárveitingar ríkisins betur og tefja ekki nauðsynlegar framkvæmdir.

Um 27. gr.


    Samgönguráðherra fer með yfirstjórn þessa málaflokks samkvæmt frumvarpinu. Komi upp ágreiningur um ákvarðanir hafnarstjórna verður þeim skotið til ráðherra sem æðra setts stjórnvalds. Þetta er í samræmi við ákvæði stjórnsýslulaga, nr. 37/1993.

Um 28. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 29. gr.


    Hér er sett í frumvarpið undanþáguheimild til að veita starfsheimild fyrir þjónustu sem fellur fyrir utan skilgreindar starfsheimildir fyrir viðkomandi rekstrarform sé ekki annað fært. Með því eru opnaðir möguleikar fyrir hafnir án sjálfsstjórnar í eigu sveitarfélaga að reka hafntengda þjónustu og hafntengda atvinnuaðstöðu sem enginn annar í byggðarlaginu getur veitt.
    Breyti höfn um rekstrarform tekur hún starfsheimildir viðkomandi rekstrarforms.

Um 30. gr.


    Samkvæmt frumvarpinu geta einungis hafnir í eigu sveitarfélaga sem náð hafa tiltekinni veltu framselt reksturinn til félags skv. 3. tölul. 1. mgr. 8. gr. Þessi grein tekur af tvímæli um að sveitarfélög geta sameinað hafnarekstur sinn til þess að uppfylla þessi skilyrði.

Um 31. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 32. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um ákvæði til bráðabirgða I.


    Frumvarpið leggur þær skyldur á herðar ráðherra, verði frumvarp þetta að lögum, að setja strax nýja gjaldskrá fyrir allar hafnir til 12 mánaða fyrir lestar- og bryggjugjöld, farþegagjald og vörugjöld, þ.m.t. aflagjald. Skal gjaldskráin við það miðuð að hún gefi höfnum landsins möguleika á nægum tekjum til þess að standa undir rekstri hafnar miðað við forsendur þessara laga. Einstökum höfnum er heimilt að hækka eða lækka gjöldin allt að 20% frá viðmiðun hinnar samræmdu gjaldskrár. Markmiðið með þessu ákvæði er að tryggja höfnum grunn til þess að standa undir rekstri hafnar við breytta fjármögnun ríkissjóðs og frjálsa gjaldskrá þegar til lengri tíma er litið. Að loknu 12 mánaða aðlögunartímabili skal afnema samræmda gjaldskrá hafna. Þak er sett á gjaldtöku einstakra hafna sem miðast við að ekki verði innheimt hærri gjöld en sem nemur kostnaði við að reka höfnina. Hér er um að ræða undanþáguákvæði frá meginreglunni um samræmda gjaldskrá og skal viðkomandi höfn sækja um heimild til þessa til samgönguráðherra. Þetta ákvæði er í samræmi við gildandi reglur um þjónustugjöld og þarf skattaheimild til þess að innheimta hærri gjöld en sem nemur kostnaði við þjónustuna.
    Um afkomu hafna er fjallað í almennum athugasemdum. Ljóst er að hún er mjög misjöfn og líka breytileg á milli ára sérstaklega hjá fiskihöfnum. Rakið hefur verið að miklar breytinga hafa orðið í útgerð og fiskvinnslu. Sú þróun mun halda áfram og það mun óhjákvæmilega leiða til breytts hlutverks einhverra hafna. Það er eitt af grundvallaratriðum þessa frumvarps að notendur greiði allan kostnað vegna notkunar þeirra á viðkomandi höfn, nema um sé að ræða sérstakar aðstæður skv. 24. gr. Við lækkun ríkisstyrkja til hafna munu fjárfestingar þeirra minnka og verða hagkvæmari. Augljóst er þó að þessi tvö atriði, þ.e. léleg afkoma sumra hafna og lækkun ríkisstyrkja, munu verða til þess að gjaldtaka margra hafna mun a.m.k. tímabundið hækka til þess að þær afli fjár fyrir kostnaði. Líta verður þó til þess að frumvarp þetta gerir ráð fyrir góðri fjárhagslegri aðlögun fyrir hafnir þar sem gert er ráð fyrir að á aðlögunartímanum hefjist endurgreiðsla virðisaukaskatts, gjaldskrá hækki, sérstakt vörugjald hverfi og framlög samkvæmt núgildandi hafnalögum haldist út árið 2004. Hins vegar er einn megintilgangur þessa frumvarps að aukið frjálsræði hafna og sveigjanleg rekstrarform auki hagkvæmni í rekstri.

Um ákvæði til bráðabirgða II.


    Frumvarpið gerir ráð fyrir að farið verði eftir ákvæðum eldri hafnalaga varðandi ríkisstyrktar framkvæmdir á gildistíma hafnaáætlunar 2001–2004. Ein af forsendum frumvarpsins er eins og áður sagði að í núverandi hafnaáætlun verði teknar fyrir framkvæmdir sem jafna stöðu hafna áður en þær þurfa að sjá um fjármögnun framkvæmda sinna sjálfar.

Um ákvæði til bráðabirgða III.


    Lagt er til að sérstakt vörugjald, sbr. 4. mgr. 7. gr. núgildandi laga, verði innheimt tímabundið og falli niður 1. janúar 2003. Gert er ráð fyrir þessum tekjum ríkissjóðs í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2002 og taka fjárhagsáætlanir frumvarpsins mið af því.



Fylgiskjal I.


Hafnalaganefnd:

Breytt fjármögnun hafnarframkvæmda.


(17. nóvember 2000.)



    Hér á eftir er stillt upp dæmi um fjárhagsleg áhrif laganna á fjárstreymi hafna og ríkissjóðs. Sú forsenda er gefin að um 1.000 millj. kr. af framkvæmdakostnaði innihaldi uppsafnaðan virðisaukaskatt, þ.e. framkvæmdakostnaður að sérfræðiþjónustu frátalinni sem virðisaukaskattur fæst endurgreiddur af. Lauslegt mat gaf til kynna að um 20–30% af veltu hafna séu aðkeypt þjónusta sem virðisaukaskattur fæst ekki endurgreiddur af í dag. Eftirfarandi er mat á heildaruppsöfnuðum virðisaukaskatti hafnarsjóða sem njóta ríkisstyrkja, þ.e. allir hafnarsjóðir landsins utan Reykjavíkur og Hafnarfjarðar:
Fjárhæð brúttó sem ber
uppsafnaðan virðisaukaskatt
Uppsafnaður
virðisaukaskattur
Ríkisstyrktar framkvæmdir 1.000 millj. kr. 197 millj. kr.
Aðkeyptar vörur og þjónusta 25% af 1,3 milljörðum 330 millj. kr. 65 millj. kr.
Samtals uppsafnaður virðisaukaskattur 262 millj. kr.

    Þessi útreikningur sýnir, að öðru óbreyttu, að gjöld hafnarsjóða utan Reykjavíkur- og Hafnarfjarðarhafna lækka um 262 millj. kr. við að ríkissjóður verður af virðisaukaskatti af hafnarframkvæmdum og aðkeyptri þjónustu og vörum hafnarsjóða. Uppsöfnun virðisaukaskatts í rekstri Reykjavíkurhafnar og Hafnarfjarðarhafnar miðað við þessar hafnir er ekki heldur talin með. Uppsöfnun virðisaukaskatts í rekstri þessara hafna er lauslega áætluð 80 millj. kr. miðað við 500 millj. kr. árlegar framkvæmdir og um 20–30 millj. kr. uppsöfnun virðisaukaskatts í rekstri hafnanna.

Breytingar á heildarfjárstreymi til hafna.
    Gert er ráð fyrir að frumvarp þetta hafi ekki veruleg áhrif á heildartekjustreymi til hafna. Að neðan getur að líta yfirlit um áætlaðar breytingar. Tekið skal fram að afnám sérstaks vörugjalds hefur hér óbein áhrif án þess að grein sé fyrir því gerð hér.

1. Núverandi fjárstreymi.
1.1 Árlegt framlag fjárlaga
1.000 millj. kr.


2. Breytt fjármögnun hafnarframkvæmda.
2.1 Árlegt framlag fjárlaga
100–150 millj. kr.

2.2 Innskattur
300 millj. kr.

2.3 Hækkun tekna
400 millj. kr.

Samtals
800–850 millj. kr.


Fylgiskjal II.


Hafnalaganefnd:

Viðmiðun fyrir styrki frá ríkinu.
Raðað eftir meðaltali aflaverðmætis.
(17. nóvember 2000.)


Vöruflutningar
þús. tonn
Aflaverðmæti
millj. kr.
Meðal-
afla-
Tekjur
1998
Fl. Íbúafj.
sveitar-
Tekjur
sveitarfél.
1998
1997 1998 1999 1997 1998 1999 verðm. þús. kr. ha. fél. millj. kr.
Dalabyggð 0 0 0 0 0 133 746 86
Reykhólahreppur 0 0 0 0 0 0 1.558 41
Tjörnes 0 0 0 0 0 41 79 7
Árneshreppur /
Norðurfjörður, Gjögur
0 0 0 30 23 17 23 356 74 8
Breiðdalsvík 2 0 0 33 60 47 47 796 B 300 36
Borgarfjörður eystri 0 0 0 49 59 91 66 1.181 SB 153 18
Drangsnes /
Kaldrananeshreppur
0 0 0 70 91 90 84 1.409 SB 142 21
Bakkafjörður /
Skeggjastaðahreppur
1 1 1 73 117 144 111 2.297 SB 151 22
Húnaþing vestra
(Hvammstangi)
3 3 3 209 131 46 129 2.490 B 1.318 86
Blönduós 2 2 2 230 170 124 175 2.510 B 977 136
Grímsey 2 2 2 130 171 245 182 1.720 SB 99 14
Súðavík 1 1 0 216 134 206 185 1.496 B 277 41
Kópasker /
Öxarfjarðarhreppur
0 0 0 220 189 172 194 3.573 SB 395 50
Hólmavík 2 3 3 362 303 245 303 4.057 B 498 67
Stöðvarhreppur 5 5 4 242 378 380 333 5.343 B 295 41
Tálknafjörður 1 2 2 297 346 414 352 6.913 S 327 43
Grundartangi 343 369 535 0 0 0 35.578 6.050 988
Kópavogur 0 0 0 0 7.072 19.826 2.799
Borgarbyggð 0 0 0 0 0 0 570 2.382 263
Garðabær 0 0 0 0 0 0 116 7.840 1.114
Stykkishólmsbær 3 3 3 489 532 551 524 15.899 S 1.268 187
Djúpivogur 15 8 13 379 446 814 546 9.531 B 538 67
Raufarhöfn 39 23 21 645 614 461 573 13.047 S 379 64
Þórshöfn 31 31 16 720 673 362 585 19.251 S 485 77
Vopnafjörður 34 29 28 741 783 571 698 17.719 S 846 118
Skagaströnd /
Höfðahreppur
5 6 2 792 718 801 770 9.849 S 631 92
Húsavík 59 66 62 879 506 979 788 26.556 S 2.495 370
Grundarfjörður /
Eyrarsveit
4 4 9 692 786 1.092 857 16.171 S 925 116
Fáskrúðsfjörður /
Búðahreppur
44 26 30 1.019 998 728 915 20.170 S 632 100
Skagafjörður 25 35 44 806 1.072 1.179 1.019 24.562 S 4.317 403
Vesturbyggð 15 16 15 856 1.066 1.180 1.034 21.521 S 1.252 173
Bolungarvík 19 11 10 1.099 1.069 1.179 1.116 19.554 S 1.094 160
Seyðisfjörður 59 52 65 1.219 1.450 878 1.182 38.734 S 799 121
Hafnasamlag Suðurnesja 59 56 68 1.395 1.321 1.120 1.279 65.717 SS 12.240 1.666
Siglufjörður 62 40 51 1.782 1.346 1.040 1.389 34.846 SS 1.632 228
Hornafjörður 48 47 40 1.615 1.596 1.524 1.578 40.065 SS 2.188 293
Akranes 124 142 148 1.882 2.387 1.908 2.059 57.799 SS 5.127 717
Þorlákshöfn 161 132 98 2.216 1.941 2.211 2.123 54.927 SS 1.524 204
Snæfellsbær 16 23 9 1.872 2.149 2.664 2.228 39.386 S 1.730 246
Hafnasamlag Eyjafjarðar 51 49 52 2.482 2.580 2.763 2.608 45.813 S 3.180 450
Sandgerði 10 24 22 2.564 2.740 2.722 2.675 50.849 S 1.312 227
Hafnarfjörður 812 840 900 3.053 3.488 2.994 3.178 162.077 SS 18.209 2.504
Vestmannaeyjar 106 108 92 3.281 3.317 2.946 3.181 123.512 SS 4.645 682
Grindavík 28 31 30 2.650 3.429 3.934 3.338 54.965 SS 2.216 324
Fjarðabyggð 215 172 172 3.769 4.245 2.756 3.590 108.267 SS 3.331 506
Ísafjörður 67 85 66 3.250 4.163 4.133 3.849 70.830 SS 4.403 669
Hafnasamlag Norðurlands 173 173 200 3.579 4.196 4.098 3.958 120.233 SS 15.883 2.095
Reykjavík 2.094 2.112 2.226 5.601 5.688 6.181 5.823 842.477 SS 106.567 15.015
Meðaltal allra hafna
nema Reykjavíkur
99
Ath:    Núverandi flokkar hafna eru smábátahafnir, bátahafnir, meðalstórar fiskihafnir og stórar fiskihafnir.
        Hér er vísað til meðalstórra fiskihafna sem skipahafna og stórra fiskihafna sem stórskipahafna.
        Flokkun hafna: SB = smábátahöfn, B = bátahöfn, S = skipahöfn, SS = stórskipahöfn.



Fylgiskjal III.


Samkeppnisstofnun:

Minnisblað til nefndar um ný hafnalög.
(29. september 2000.)


    Eftirfarandi punktar eru settir fram með hliðsjón af atriðum sem fram koma í tölvubréfi til undirritaðs, dags. 2. ágúst sl., frá Sigurbergi Björnssyni, starfsmanni nefndarinnar. Ber því hvorki að skoða þá sem almenna né ítarlega umfjöllun um þau drög að frumvarpi til nýrra hafnalaga sem Samkeppnisstofnun voru send í ágústmánuði.
    Þau atriði sem óskað hefur verið eftir að fjallað verði sérstaklega um eru í tölusettum liðum í áðurnefndu tölvubréfi. Er miðað við þá töluliði í eftirfarandi punktum:
     1.      Þau úrræði sem felast í samkeppnislögum til að bregðast við því ef hafnir misnota stöðu sína og hækka gjöld á þjónustu sinni koma einkum fram í 17. gr. gildandi laga og 11. og 17. gr. laganna eftir að breytingar á þeim taka gildi í byrjun desember nk. Þá verður hvers konar misnotkun eins eða fleiri fyrirtækja á markaðsráðandi stöðu bönnuð, en misnotkun getur m.a. falið í sér að beint eða óbeint sé krafist ósanngjarns kaup- eða söluverðs eða aðrir ósanngjarnir viðskiptaskilmálar settir. Hvað áhrærir a-lið 1. töluliðar skal bent á samrunaákvæði 18. gr. samkeppnislaga sem unnt er að beita til að koma í veg fyrir samruna eða ógilda samruna þegar markaðsráðandi staða verður til við samrunann eða hún eflist. Eftir að lagabreytingin frá sl. vori tekur gildi verða íslensk samkeppnisyfirvöld, að mati Samkeppnisstofnunar, eins vel í stakk búin að takast á við samkeppnishindranir, þ.m.t. misnotkun á markaðsyfirráðum, og samkeppnisyfirvöld þeirra ríkja sem hafa hvað skörpust samkeppnislög.
     2.      Ef viðskiptavinur er í markaðsráðandi stöðu sem kaupandi þjónustu og misbeitir þeirri stöðu að mati samkeppnisráðs til að ná óeðlilega hagstæðum kjörum hjá seljanda þjónustunnar, sbr. a-lið í 2. tölulið tölvubréfsins, getur ráðið eða mun það geta beitt úrræðum sömu lagaákvæða og vísað er til í 1. tölulið hér að framan. Ef útgerðir bindast samtökum um tilteknar aðgerðir, sbr. b-lið í 2. tölulið tölvubréfsins, t.d. í því skyni að lækka verð, munu þær hugsanlega brjóta gegn ákvæðum 10. eða 11. gr. samkeppnislaga eins og þær verða eftir gildistöku lagabreytingarinnar sem áður er vitnað til. Í 10. gr. verður lagt bann við öllum samningum og samþykktum fyrirtækja og samstilltum aðgerðum sem hafa að markmiði eða af þeim leiðir að komið sé í veg fyrir samkeppni eða hún takmörkuð ef samningar o.s.frv. hafa m.a. áhrif á verð, afslætti eða önnur viðskiptakjör með beinum eða óbeinum hætti. Bannákvæði 10. og 11. gr. eins og þau verða frá des. nk. taka til mun fleiri þátta en verðs og viðskiptakjara en vísað er í lagatextann í því sambandi (lög nr. 107/2000, um breytingar á samkeppnislögum, nr. 8/1993, með síðari breytingum).
     3.      Samkeppnislögin taka til hvers konar atvinnustarfsemi, svo sem framleiðslu, verslunar og þjónustu, án tillits til þess hvort hún er rekin af einstaklingum, félögum, opinberum aðilum eða öðrum, sbr. 2. gr. laganna. Þetta á við nema annað sé ákveðið í sérlögum eins og t.d. hafnalögum. Frá sjónarhóli Samkeppnisstofnunar er ekki ljóst hvers vegna tillaga er gerð um sérstaka skilgreiningu á því í hafnalögum hvaða hafnir teljist vera í samkeppni og hverjar ekki miðað við rekstrarform og umsvif, sbr. drög að frumvarpi sem send hafa verið Samkeppnisstofnun. Að mati Samkeppnisstofnunar gengur sú hugmynd þvert gegn markmiði samkeppnislaga og nýsamþykktum breytingum á lögunum sem fela í sér eflingu þeirra og aukið yfirgrip. Að mati stofnunarinnar mætti ætla að eðli þeirrar þjónustu sem veitt er, eftirspurn eftir þjónustunni og landfræðilegar forsendur hefðu helst áhrif á það hvort hafnir væru í samkeppni eða ekki og hversu mikil samkeppnin á milli þeirra væri. Rekstrarform getur vissulega haft áhrif á samkeppnisaðstæður hafna, einkum hvað skattskyldu varðar. Á því mætti hins vegar taka með beitingu samkeppnislaga. Má í því sambandi vekja sérstaka athygli á 2. mgr. 14. gr. laganna þar sem er að finna heimild til handa samkeppnisráði að mæla fyrir um fjárhagslegan aðskilnað í rekstri fyrirtækja eða stofnana sem annars vegar njóta opinberrar verndar eða einkaleyfis en hins vegar stunda rekstur í samkeppni við aðra. Að lítt athuguðu máli virðist sem til yrði nýtt samkeppnislegt vandamál ef sumar hafnir yrðu undanþegnar samkeppnislögum en aðrar ekki, algerlega óháð því hvort þær ættu í raunverulegri samkeppni eða ekki. Væri þá á vissan hátt verið að færa mál til verri vegar en þau nú eru í.
    Að mati Samkeppnisstofnunar hefur ekkert komið fram sem gefur til kynna að samkeppnislög dugi ekki til að koma í veg fyrir eða stöðva misbeitingu fyrirtækja á markaðsaðstæðum eða uppræta aðra samkeppnishindrandi hegðun fyrirtækja á þeim vettvangi sem hafnir starfa á eða helstu viðskiptavinir þeirra. Á sama hátt telur Samkeppnisstofnun að samkeppnisyfirvöld séu vel í stakk búin að beita þeim úrræðum sem lögin gera ráð fyrir.

Virðingarfyllst,
Samkeppnisstofnun,

Guðmundur Sigurðsson.



Fylgiskjal IV.


Fyrirvarar Friðriks Arngrímssonar, fulltrúa Landssambands smábátaeigenda,
Landssambands íslenskra útvegsmanna og Sambands íslenskra
kaupskipaútgerðar, við skýrslu hafnalaganefndar.

    Ég tel að í frumvarpinu sé ekki nægjanlega gætt að hagsmunum neytenda hafnanna og á það sérstaklega við um aðila sem hafa byggt upp umfangsmikla og dýra aðstöðu við hafnir og eiga ekki raunverulegan kost á öðru en kaupa þjónustu viðkomandi hafnar. Þar verður ekki um raunverulega samkeppni að ræða heldur einokun hafnanna. Ég legg til að í frumvarpið verði tekið upp ákvæði sem skyldi sveitarfélög til að bjóða hafnarmannvirki sem hafa verið nýtt af einum eða fáum aðilum þeim til kaups. Jafnframt verði kveðið á um hvernig þeim sem kaupa slík mannvikri verði, gegn gjaldi, skylt að veita öðrum aðilum aðgang að þeim eins og aðstæður leyfa. Þá verði ákvörðun um verðlagningu þessara mannvirkja mörkuð í lögum og í því sambandi verði m.a. litið fram hjá ríkisframlagi til þeirra. Að auki verði þátttaka kaupendanna í sameiginlegum kostnaði skilgreind.
    Ég get ekki fallist á að ráðherra skuli ætlað að hækka gjöld hafnanna áður en gjaldtakan verður gefin frjáls. Ég tel að þar sem ákveðið hefur verið að falla frá samræmdri gjaldskrá beri að gera það strax við gildistöku laganna og að ekki verði um lögþvingaðar hækkanir að ræða. Verði það hins vegar gert er mikilvægt að þar sem ekki er þörf hækkunar verði skýrt ákveðið að gjöld verði ekki hækkuð og að þar sem gjöldin eru of há verði þau lækkuð strax við gildistöku laganna.



Fylgiskjal V.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til hafnalaga.

    Tilgangur frumvarpsins er að færa stjórn hafna og ábyrgð á rekstri þeirra til sveitarstjórnar. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að rekstrarfyrirkomulag hafna geti verið með þrennum hætti. Þær megi reka sem hafnir án sjálfsstjórnar í eigu sveitarfélags og að þær megi reka sem hafnir með sjálfsstjórn í eigu sveitarfélags, en einnig er leyfilegt annað rekstrarform sem ekki fellur undir opinberan rekstur og er þá átt við hlutafélög hvort sem þau eru í eigu opinberra aðila eða ekki, einkahlutafélög, sameignarfélög eða einkaaðila með sjálfstæðan rekstur. Frumvarpið gerir ráð fyrir minni greiðsluþátttöku ríkissjóðs í hafnarframkvæmdum, en heimiluð er innheimta hafnagjalda sem renni til viðkomandi hafna. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að fyrir minni hafnir geti greiðsluþátttaka ríkissjóðs numið 90% í framkvæmdum. Samkvæmt upplýsingum frá samgönguráðuneytinu er gert ráð fyrir að kostnaður vegna þessarar greiðsluþátttöku geti orðið 130 m.kr. á ári.
    Í frumvarpinu er lagt til að hafnabótasjóði verði skipt upp í tvær deildir A-deild og B-deild. Hlutverk A-deildar verður að fjármagna hluta ríkisins, í ríkisstyrktum framkvæmdum og hlutverk B-deildar verður að fjármagna tjónaviðgerðir. Gert er ráð fyrir að framlag til Hafnabótasjóðs í frumvarpi til fjárlaga 2002 verði 16,6 m.kr. Samkvæmt upplýsingum úr samgönguráðuneytinu er gert ráð fyrir að það framlag aukist í 30 m.kr. á ári til að fjármagna B-hluta sjóðsins.
    Í frumvarpinu er einnig gert ráð fyrir að ríkissjóði verði heimilt að styrkja stofndýpkanir á vegum hafnarsjóða innan skilgreinds byggðasvæðis samkvæmt ákvörðunum Eftirlitsstofnunar EFTA. Greiðsluþátttaka ríkisins vegna þessa getur ekki orðið hærri en 17% og nær til dýpkana sem framkvæmdar eru 2007 eða síðar. Samkvæmt upplýsingum úr samgönguráðuneytinu geta greiðslur vegna þessara framkvæmda orðið u.þ.b. 80 m.kr. á ári.
    Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að ríkissjóður styrki áfram framkvæmdir í höfnum samkvæmt samþykktri hafnaáætlun 2001–2004, sbr. eldri hafnalög, nr. 23/1994. Í hafnaáætlun 2001–2004 er gert ráð fyrir að fjárveitingar til nýframkvæmda verði 1.454,5 m.kr. á árinu 2003 og 1.132 m.kr. á árinu 2004.
    Verði frumvarpið að lögum falla úr gildi hafnalög, nr. 23/1994, með síðari breytingum. Einnig fellur niður sérstakt vörugjald sem hefur verið innheimt samkvæmt hafnalögum. Í frumvarpi til fjárlaga 2002 er gert ráð fyrir að gjaldið skili 210 m.kr. í tekjur til ríkissjóðs. Samkvæmt frumvarpinu er fyrirhugað að fella gjaldið niður 1. janúar 2003.
    Heildaráhrifin af frumvarpinu eru að útgjöld ríkissjóðs miðað við núverandi hafnaáætlun lækka um 1.000 m.kr. miðað við frumvarp til fjárlaga 2002. Tekjur vegna niðurfellingar á sérstaka vörugjaldinu lækka um 210 m.kr. miðað við frumvarp til fjárlaga 2002.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.