Ferill 433. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 698  —  433. mál.
Frumvarp til lagaum útlendinga.

(Lagt fyrir Alþingi á 127. löggjafarþingi 2001–2002.)I. KAFLI
Almenn ákvæði.
1. gr.
Gildissvið.

    Ákvæði laga þessara gilda um heimild útlendinga til að koma til landsins og dvöl þeirra hér á landi.
    Um útlendinga sem falla undir samninginn um Evrópska efnahagssvæðið gilda sérreglur, sbr. ákvæði VI. kafla.
    Íslenskir ríkisborgarar geta einnig borið skyldur samkvæmt lögunum.
    Íslensk skip í siglingum erlendis falla ekki undir gildissvið laganna.

    2. gr.
    Tilgangur.

    Lögin veita heimild til að hafa eftirlit með komu til landsins og för úr landi og með dvöl útlendinga hér á landi í samræmi við stefnu stjórnvalda hverju sinni.
    Með lögunum er kveðið á um réttarstöðu útlendinga sem koma til landsins eða fara frá því, dveljast hér eða sækja um leyfi samkvæmt lögunum.

3. gr.
Framkvæmd laganna.

    Dómsmálaráðherra fer með yfirstjórn mála samkvæmt lögunum og setur nánari reglur um heimild útlendinga til að koma til landsins og dveljast hér á landi.
    Framkvæmd laganna að öðru leyti annast Útlendingastofnun, lögregla og önnur stjórnvöld.
    Dómsmálaráðherra skipar forstjóra Útlendingastofnunar til fimm ára í senn. Forstjórinn skal hafa embættispróf í lögfræði.
    Dómsmálaráðherra kveður á um starfssvið þeirra sem annast framkvæmd laganna að því leyti sem lögin kveða ekki á um það.

II. KAFLI
Koma og brottför.
4. gr.
Vegabréfaeftirlit.

    Hver sá sem kemur til landsins skal þegar í stað gefa sig fram við vegabréfaeftirlitið eða næsta lögregluyfirvald. Hver sá sem fer af landi brott skal sæta brottfarareftirliti og skal við brottför gefa sig fram við vegabréfaeftirlitið eða næsta lögregluyfirvald. Undanskilin er för yfir innri landamæri Schengen-svæðisins, svo og að öðru leyti samkvæmt reglum sem dómsmálaráðherra setur.
    Koma til landsins og för úr landi skal fara fram á stöðum og afgreiðslutímum sem dómsmálaráðherra ákveður. Lögreglustjóri getur veitt undanþágu frá þessu. För yfir innri landamæri Schengen-svæðisins er heimil utan viðurkenndra landamærastöðva. Ákvæði tollalaga gilda um för yfir innri landamæri.
    Dómsmálaráðherra setur nánari reglur um komu- og brottfarareftirlit og um undantekningu frá ákvæðum 1. og 2. mgr. um för yfir innri landamæri Schengen-svæðisins. Hann setur einnig reglur um skyldu stjórnanda skips eða loftfars til að ganga úr skugga um að farþegar hafi gild ferðaskilríki.

5. gr.
Vegabréf.

    Útlendingur, sem kemur til landsins, skal, nema annað sé ákveðið í reglum sem dómsmálaráðherra setur, hafa vegabréf eða annað kennivottorð sem viðurkennt er sem ferðaskilríki.
    Dómsmálaráðherra setur reglur um hvaða skilyrðum vegabréf eða annað kennivottorð þarf að fullnægja til að teljast gilt til ferðar til landsins og dvalar.
    Útlendingastofnun getur, ef sérstaklega stendur á, undanþegið útlending þeirri skyldu að hafa vegabréf eða viðurkennt önnur skilríki en leiðir af almennum reglum.

6. gr.
Vegabréfsáritanir.

    Útlendingur þarf að hafa vegabréfsáritun til að mega koma til landsins nema annað sé ákveðið í reglum sem dómsmálaráðherra setur. Útlendingur, sem hefur dvalarleyfi gefið út af ríki sem tekur þátt í Schengen-samstarfinu, er undanþeginn áritunarskyldu. Sama gildir um útlending sem hefur bráðabirgðadvalarleyfi gefið út af þátttökuríki í samstarfinu, enda hafi hann auk þess ferðaskilríki gefin út af sama ríki.
    Vegabréfsáritun gefin út af ríki sem tekur þátt í Schengen-samstarfinu gildir til komu og dvalar hér á landi þann tíma sem tilgreindur er ef það kemur fram í árituninni.
    Dómsmálaráðherra getur sett reglur um skyldu til að hafa vegabréfsáritun til að fara um flugvöll.
    Vegabréfsáritun skal gilda fyrir eina eða fleiri komur til landsins og til allt að þriggja mánaða dvalar á nánar tilgreindu tímabili.
    Útlendingastofnun tekur ákvörðun um umsókn um útgáfu vegabréfsáritunar. Fela má utanríkisþjónustunni að taka ákvörðun um slíkar umsóknir. Enn fremur er heimilt að fela utanríkisþjónustu annars ríkis sem tekur þátt í Schengen-samstarfinu að verða við umsókn um vegabréfsáritun.


7. gr.
Áhafnir skipa og loftfara.

    Útlendingur, sem lætur af starfi um borð í skipi eða loftfari, eða er laumufarþegi, má ekki ganga hér á land án leyfis lögreglunnar. Ákvæði um stjórnvald í málum vegna frávísunar og um málskot gilda eftir því sem við á.
    Dómsmálaráðherra setur reglur um landgönguleyfi útlendra sjómanna við dvöl skips í höfn og um heimild til að meina þeim landgöngu.

III. KAFLI
Dvöl og búseta.
8. gr.
Dvöl án dvalarleyfis.

    Útlendingur, sem þarf vegabréfsáritun til landgöngu, má ekki dveljast hér á landi lengur en áritunin segir til um nema sérstakt leyfi komi til. Öðrum útlendingum er óheimilt án sérstaks leyfis að dveljast hér lengur en þrjá mánuði frá komu til landsins. Dvöl í öðru ríki sem tekur þátt í Schengen-samstarfinu telst jafngilda dvöl hér á landi. Dómsmálaráðherra getur sett reglur um dvöl umfram þrjá mánuði ef það leiðir af þjóðréttarsamningi, svo og nánari reglur um hvernig reikna skuli dvalartíma.
    Dönskum, finnskum, norskum og sænskum ríkisborgurum er heimilt að dveljast hér án dvalarleyfis. Dómsmálaráðherra getur sett reglur um frekari undanþágu frá kröfu um dvalarleyfi.

9. gr.
Hverjir þurfa dvalarleyfi.

    Útlendingur, sem hyggst ráða sig í vinnu, fyrir endurgjald eða án þess, eða stunda sjálfstæða atvinnustarfsemi hér á landi, þarf, auk atvinnuleyfis þar sem það er áskilið að lögum, að hafa dvalarleyfi, nema dvöl sé heimil án dvalarleyfis skv. 2. mgr. 8. gr.
    Útlendingur, sem hyggst dveljast hér lengur en honum er heimilt skv. 1. mgr. 8. gr., þarf að hafa dvalarleyfi.

10. gr.
Útgáfa dvalarleyfis.

    Dvalarleyfi, sem veitt er í fyrsta sinn, skal hafa verið gefið út áður en komið er til landsins. Frá þessu má þó víkja ef ríkar sanngirnisástæður mæla með.
    Dvalarleyfi sem veitt er í fyrsta sinn skal að jafnaði gefið út til eins árs. Heimilt er að gefa leyfið út til skemmri tíma eða allt að tveimur árum ef rétt þykir vegna tilgangs dvalarinnar eða af öðrum ástæðum.
    Útlendingastofnun tekur ákvörðun um dvalarleyfi.

11. gr.
Skilyrði dvalarleyfis.

    Veita má útlendingi dvalarleyfi, að fenginni umsókn, ef:
     a.      framfærsla hans, sjúkratrygging og húsnæði er tryggt, samkvæmt nánari reglum sem dómsmálaráðherra setur,
     b.      skilyrðum fyrir dvalarleyfi sem sett eru í reglum skv. 1. mgr. 3. gr. er fullnægt og
     c.      ekki liggja fyrir atvik sem valdið geta því að honum verði meinuð landganga hér á landi eða dvöl samkvæmt öðrum ákvæðum laganna.
    Veita má útlendingi dvalarleyfi, þótt skilyrðum sé annars ekki fullnægt, ef rík mannúðarsjónarmið standa til þess eða vegna sérstakra tengsla útlendingsins við landið.
    Útlendingastofnun getur, að beiðni útlendings sem sótt hefur um hæli, veitt honum bráðabirgðadvalarleyfi þar til ákvörðun hefur verið tekin um hælisumsóknina. Hún getur einnig, að beiðni útlendings sem hefur fengið endanlega synjun um hæli eða dvalarleyfi sem kemur ekki til framkvæmda að svo stöddu, veitt honum bráðabirgðadvalarleyfi þar til synjunin kemur til framkvæmda. Ákvæði IV., V. og VII. kafla stjórnsýslulaga um andmælarétt, um birtingu ákvörðunar, rökstuðning o.fl. og um stjórnsýslukæru, og viðeigandi ákvæði V. kafla laga þessara, gilda ekki um ákvörðun um bráðabirgðadvalarleyfi. Bráðabirgðadvalarleyfi hefur ekki önnur réttaráhrif en þau sem sérstaklega er getið í lögum.

12. gr.
Sameiginleg vernd vegna fjöldaflótta.

    Þegar um er að ræða fjöldaflótta getur dómsmálaráðherra ákveðið að beita skuli ákvæðum greinar þessarar. Ráðherra ákveður einnig hvenær heimild til að veita sameiginlega vernd skv. 2. og 3. mgr. skuli falla niður.
    Útlendingi, sem fellur undir fjöldaflótta og kemur til landsins eða er hér þegar ákvæðum greinarinnar er beitt, má, að fenginni umsókn, veita vernd á grundvelli hópmats (sameiginlega vernd). Felur það í sér að útlendingnum verður veitt dvalarleyfi skv. 2. mgr. 11. gr. Leyfið myndar ekki heimild til útgáfu búsetuleyfis.
    Leyfið má endurnýja eða framlengja í allt að þrjú ár frá þeim tíma þegar umsækjandi fékk fyrst leyfi. Síðan má veita leyfi sem getur myndað heimild til útgáfu búsetuleyfis. Að liðnu einu ári með slíkt leyfi er heimilt að gefa út búsetuleyfi, enda séu skilyrðin fyrir því að halda leyfinu enn fyrir hendi og skilyrðum að öðru leyti fullnægt, sbr. 15. gr.
    Umsókn útlendings, sem fellur undir 2. mgr., um hæli má leggja til hliðar í allt að þrjú ár frá því að umsækjandinn fékk fyrst leyfi. Þegar heimildin til að veita sameiginlega vernd er niður fallin, sbr. 1. mgr., eða þegar liðin eru þrjú ár frá því að umsækjandinn fékk fyrst leyfi skal tilkynna umsækjandanum að hælisumsóknin verði því aðeins tekin til meðferðar að hann láti í ljós ótvíræða ósk um það innan tiltekins frests.
    Útlendingastofnun tekur ákvörðun um leyfi og um að leggja umsókn til hliðar.
    Dómsmálaráðherra getur sett nánari reglur.


13. gr.
Dvalarleyfi fyrir aðstandendur.

    Nánustu aðstandendur íslensks ríkisborgara eða annars norræns ríkisborgara sem búsettur er hér á landi eða útlendings sem dvelst eða fær að dveljast löglega í landinu samkvæmt dvalarleyfi sem ekki er háð takmörkunum eða búsetuleyfi eiga, að fenginni umsókn, rétt á dvalarleyfi, enda liggi ekki fyrir atvik sem greinir í c-lið 1. mgr. 11. gr. auk þess sem framfærsla, sjúkratrygging og húsnæði skal vera tryggt, sbr. a-lið 1. mgr. 11. gr.
    Nánustu aðstandendur í skilningi 1. mgr. eru maki, sambúðarmaki, niðjar yngri en 18 ára og á framfæri viðkomandi og ættmenni hans eða maka að feðgatali og á þeirra framfæri.
    Dvalarleyfi aðstandanda útlendings skal að jafnaði gefið út til sama tíma og leyfi þess síðarnefnda, þó þannig að það gildi ekki lengur en leyfi hans.

14. gr.
Endurnýjun.

    Endurnýja má dvalarleyfi útlendings, að fenginni umsókn, ef fullnægt er skilyrðum 11. gr.
    Endurnýjað dvalarleyfi skal að jafnaði gefið út til eins árs en heimilt er að gefa leyfið út fyrir annað tímabil ef rétt þykir vegna tilgangs dvalarinnar eða af öðrum ástæðum. Endurnýjað dvalarleyfi skal þó ekki gefið út til lengri tíma en tveggja ára.
    Heimila má útlendingi, sem sækir um endurnýjun dvalarleyfis, áframhaldandi dvöl með sömu skilyrðum þar til ákvörðun hefur verið tekin um umsóknina og hann á rétt á því ef hann leggur umsókn fram a.m.k. mánuði áður en leyfið fellur úr gildi.


15. gr.
Búsetuleyfi.

    Veita má útlendingi, sem dvalist hefur hér á landi samfellt síðustu þrjú ár samkvæmt dvalarleyfi sem ekki er háð takmörkunum og sótt hefur námskeið í íslensku fyrir útlendinga, búsetuleyfi samkvæmt umsókn ef ekki liggja fyrir ástæður sem valdið geta því að honum verði vísað úr landi, sbr. 1. mgr. 20. gr.
    Búsetuleyfi felur í sér rétt til ótímabundinnar dvalar.
    Útlendingastofnun tekur ákvörðun um búsetuleyfi. Ákvæði 3. mgr. 14. gr. gilda um umsóknir um búsetuleyfi eftir því sem við á.
    Búsetuleyfi fellur niður þegar leyfishafi hefur verið búsettur eða dvalist í raun erlendis samfellt lengur en 12 mánuði. Útlendingastofnun tekur ákvörðun um að fella leyfi úr gildi. Að fenginni umsókn má heimila útlendingi lengri dvöl erlendis án þess að búsetuleyfið falli úr gildi.
    Dómsmálaráðherra setur reglur um námskeið í íslensku fyrir útlendinga skv. 1. mgr. Þar skal kveðið á um lengd námskeiðs, lágmarkstímasókn og vottorð til staðfestingar á þátttöku. Einnig er heimilt að kveða þar á um undanþágu frá þátttöku í námskeiði fyrir útlendinga sem náð hafa viðhlítandi þekkingu í íslensku og um próf því til staðfestingar. Þá er í reglugerðinni heimilt að kveða á um gjald vegna þátttöku í námskeiði eða prófi.

16. gr.
Afturköllun.

    Útlendingastofnun er heimilt að afturkalla dvalarleyfi og búsetuleyfi ef útlendingur hefur við umsókn, gegn betri vitund, veitt rangar upplýsingar eða leynt atvikum sem hefðu getað haft verulega þýðingu við leyfisveitinguna eða ekki er lengur fullnægt skilyrðum fyrir veitingu dvalarleyfis eða búsetuleyfis eða það leiðir að öðru leyti af almennum stjórnsýslureglum.

17. gr.
Tilkynningarskylda.

    Útlendingur, sem fengið hefur dvalarleyfi áður en hann kom til landsins, skal innan viku frá komu gefa sig fram við Útlendingastofnun eða embætti sýslumanns utan Reykjavíkur. Sama á við um útlending sem hyggst sækja um eða að öðru leyti þarfnast slíks leyfis.
    Útlendingur, sem flytur heimili sitt meðan mál samkvæmt lögunum er til meðferðar, skal tilkynna lögreglunni um flutninginn.
    Dómsmálaráðherra getur sett reglur um að útlendingur sem ekki þarf dvalarleyfi skuli tilkynna lögreglunni um heimili sitt hér á landi og um vinnu sína eða starf.

IV. KAFLI
Frávísun og brottvísun.
18. gr.
Frávísun við komu til landsins.

    Heimilt er að vísa útlendingi frá landi við komu til landsins eða allt að sjö sólarhringum frá komu ef:
     a.      hann fullnægir ekki reglum sem settar eru um vegabréf, vegabréfsáritun eða komu til landsins,
     b.      honum hefur verið vísað úr landi hér á landi eða í öðru norrænu ríki og endurkomubann er enn í gildi og honum hefur ekki verið veitt heimild til að koma til landsins,
     c.      hann hefur ekki tilskilið leyfi til dvalar eða vinnu eða getur ekki leitt líkur að þeim tilgangi sem gefinn er upp fyrir dvölinni,
     d.      hann getur ekki sýnt fram á að hann hafi eða eigi tryggð nægileg fjárráð til dvalar hér á landi og til heimferðar,
     e.      hann hefur hlotið refsingu eins og greinir í b- eða c-lið 1. mgr. 20. gr. eða sérstök ástæða er til af öðrum ástæðum að óttast að hann muni fremja hér á landi eða í öðru norrænu landi refsiverðan verknað sem varðað getur fangelsi lengur en þrjá mánuði,
     f.      reglur 6. gr. norræna vegabréfaeftirlitssamningsins eiga við og ætla má að útlendingurinn muni fara til annars norræns ríkis og að honum muni að öllum líkindum verða vísað þar frá vegna þess að ekki er fullnægt reglum um vegabréf eða vegabréfsáritun, eða frávísun er heimil af öðrum ástæðum í viðkomandi ríki,
     g.      hann samkvæmt mati læknis getur ekki ráðið persónulegum högum sínum sjálfur meðan á dvöl hans hér stendur eða hætta er á að hann muni með framkomu sinni valda sér eða öðrum tjóni eða hann er haldinn alvarlegum smitsjúkdómi,
     h.      hann hefur ekki greitt kostnað hins opinbera við fyrri færslu hans úr landi, sbr. 1. mgr. 56. gr.,
     i.      hann er skráður í Schengen-upplýsingakerfið í því skyni að honum verði synjað um komu,
     j.      það er nauðsynlegt vegna allsherjarreglu, þjóðaröryggis eða alþjóðasamskipta ríkisins eða annars ríkis sem tekur þátt í Schengen-samstarfinu.
    Nægjanlegt er að meðferð máls hefjist innan sjö sólarhringa frestsins.
    Nú ber útlendingur að hann sé flóttamaður eða veitir að öðru leyti upplýsingar sem benda til að ákvæði 1. mgr. 45. gr. eigi við, og skal þá leggja málið fyrir Útlendingastofnun til meðferðar og ákvörðunar.
    Dómsmálaráðherra getur sett reglur um undanþágu frá ákvæðum 1. mgr. að því er varðar þann sem hefur vegabréfsáritun eða dvalarleyfi gefið út af ríki sem tekur þátt í Schengen-samstarfinu.

19. gr.
Frávísun eftir komu til landsins.

    Heimilt er að vísa útlendingi frá landi eftir reglum 1. mgr. 18. gr. þótt sjö sólarhringa fresturinn sé liðinn. Þó verður meðferð máls að hefjast innan þriggja mánaða frá komu hans til landsins.
    Ekki má vísa útlendingi sem hefur dvalarleyfi eða búsetuleyfi frá landi samkvæmt ákvæði þessu.

20. gr.
Brottvísun.

    Heimilt er að vísa útlendingi úr landi ef:
     a.      hann hefur brotið alvarlega eða margsinnis gegn einu eða fleiri ákvæðum laganna eða kemur sér hjá að hlíta ákvörðun sem felur í sér að hann skuli yfirgefa landið,
     b.      hann hefur á síðustu fimm árum afplánað refsingu erlendis eða verið dæmdur þar til refsingar fyrir háttsemi sem að íslenskum lögum getur varðað fangelsi lengur en þrjá mánuði; samsvarandi gildir um sérstakar ráðstafanir sem ákvarðaðar eru vegna slíkrar refsiverðrar háttsemi,
     c.      hann hefur verið dæmdur hér á landi til refsingar eða til að sæta öryggisráðstöfunum fyrir háttsemi sem getur varðað fangelsi lengur en þrjá mánuði eða oftar en einu sinni verið dæmdur á síðustu þremur árum til fangelsisrefsingar,
     d.      það er nauðsynlegt vegna öryggis ríkisins eða almannahagsmuna.
    Brottvísun skv. a-, b- og c-lið 1. mgr. skal ekki ákveða ef það með hliðsjón af málsatvikum og tengslum útlendingsins við landið mundi fela í sér ósanngjarna ráðstöfun gagnvart honum eða nánustu ættingjum hans. Útlendingi sem hefur dvalarleyfi eða norrænum ríkisborgara sem átt hefur heimili hér á landi lengur en þrjá mánuði má því aðeins vísa úr landi að hin refsiverða háttsemi geti varðað eins árs fangelsi eða meira.
    Brottvísun felur í sér bann við komu til landsins síðar. Endurkomubannið getur verið fyrir fullt og allt eða um tiltekinn tíma, en að jafnaði ekki skemur en þrjú ár. Samkvæmt umsókn má heimila þeim sem vísað hefur verið úr landi endurkomu en að jafnaði ekki fyrr en tvö ár eru liðin frá brottför.

21. gr.
Frávísun og brottvísun útlendings sem hefur búsetuleyfi o.fl.

    Óheimilt er að vísa frá landi eða úr landi útlendingi sem fæddur er hér á landi og hefur átt hér fast heimili óslitið síðan.
    Útlendingi sem hefur búsetuleyfi má því aðeins vísa frá landi eða úr landi að:
     a.      það sé nauðsynlegt vegna öryggis ríkisins, sbr. d-lið 1. mgr. 20. gr.,
     b.      hann hafi afplánað refsingu eða verið dæmdur til refsingar fyrir háttsemi sem að íslenskum lögum getur varðað þriggja ára fangelsi eða meira og það átti sér stað á síðustu fimm árum erlendis eða á síðasta ári hér á landi. Samsvarandi gildir um sérstakar ráðstafanir sem ákvarðaðar eru vegna slíkrar refsiverðrar háttsemi.
    Brottvísun skv. b-lið 2. mgr. skal ekki ákveða ef það með hliðsjón af málsatvikum og tengslum útlendingsins við landið mundi fela í sér ósanngjarna ráðstöfun gagnvart honum eða nánustu ættingjum hans.

22. gr.
Stjórnvald og undirbúningur máls.

    Lögreglustjóri tekur ákvörðun um frávísun skv. a–i-lið 1. mgr. 18. gr. Útlendingastofnun tekur aðrar ákvarðanir samkvæmt kafla þessum.
    Lögregla undirbýr mál sem Útlendingastofnun tekur ákvörðun um. Nú telur lögregla skilyrði vera til að vísa útlendingi frá landi eða úr landi og sendir hún þá Útlendingastofnun gögn málsins til ákvörðunar.

V. KAFLI
Málsmeðferð.
23. gr.
Almennar reglur um málsmeðferð.

    Stjórnsýslulögin gilda um meðferð mála nema annað leiði af lögum þessum.

24. gr.
Andmælaréttur.

    Áður en ákvörðun er tekin í máli útlendings skal hann eiga þess kost að tjá sig um efni máls skriflega eða munnlega, enda komi ekki fram í gögnum málsins afstaða hans og rök fyrir henni eða slíkt sé augljóslega óþarft. Réttur til að tjá sig skriflega er þó ekki fyrir hendi þegar útlendingi ber að tjá sig munnlega við vegabréfaeftirlit eða lögreglu.
    Í máli vegna umsóknar um hæli eða máli þar sem ákvæði 45. gr. eiga við, svo og í máli er varðar frávísun eða brottvísun, skal stjórnvald, eftir því sem unnt er, sjá um að útlendingurinn eigi kost á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri á tungumáli sem hann getur tjáð sig á svo að viðunandi sé.

25. gr.
Leiðbeiningarskylda.

    Í máli er varðar frávísun, brottvísun eða afturköllun leyfis, svo og í máli vegna umsóknar um hæli, skal stjórnvald leiðbeina útlendingnum um að honum sé heimilt, á eigin kostnað, að leita aðstoðar lögmanns eða annars fulltrúa, um rétt hans á að fá sér skipaðan talsmann, sbr. 2. mgr. 34. gr., og um rétt hans til að hafa samband við fulltrúa heimalands síns, fulltrúa Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og mannúðar- eða mannréttindasamtök hér á landi.
    Að öðru leyti gildir almenn leiðbeiningarskylda skv. 7. gr. stjórnsýslulaga.

26. gr.
Miðlun upplýsinga úr landi.

    Stjórnvöldum sem fara með málefni útlendinga er heimilt að láta erlendum stjórnvöldum í té upplýsingar um útlending vegna meðferðar á máli er varðar vegabréfsáritun, dvalarleyfi eða hæli að því marki sem nauðsynlegt er vegna skuldbindinga Íslands sem þátttakanda í Schengen-samstarfinu og samstarfi samkvæmt Dyflinnarsamningnum frá 15. júní 1990.
    Dómsmálaráðherra getur sett nánari reglur um hvaða upplýsingar megi veita og um skilyrði sem þarf að fullnægja til að upplýsingar verði veittar.


27. gr.
Vanhæfi.

    Opinber starfsmaður, sem tekið hefur þátt í meðferð opinbers máls á hendur viðkomandi útlendingi, má ekki taka þátt í undirbúningi að ákvörðun eða taka sjálfur ákvörðun í máli um frávísun, dvalarleyfi, búsetuleyfi eða brottvísun. Ákvæði þetta tekur ekki til mála vegna brota á ákvæðum laga þessara eða reglna sem settar eru samkvæmt þeim.

28. gr.
Öflun gagna fyrir dómi.

    Útlendingi, svo og stjórnvaldi sem fer með mál útlendings, er heimilt að krefjast þess að upplýsinga, sem ekki verður aflað á annan hátt svo að fullnægjandi sé í máli samkvæmt lögunum, verði aflað fyrir dómi eftir reglum XII. kafla laga um meðferð einkamála um öflun sönnunargagna án þess að mál hafi verið höfðað. Dómari ákveður hvort skilyrði eru til að fallast á beiðni.
    Heimild skv. 1. mgr. gildir ekki þegar til meðferðar er mál gegn útlendingi um frávísun eða þegar sá sem óskað er að gefi skýrslu fyrir dómi er erlendis.

29. gr.
Rannsóknarúrræði.

    Útlendingi er skylt að veita atbeina sinn til að upplýsa hver hann er, að því marki sem stjórnvald skv. 2. mgr. 3. gr. krefst þess. Dómsmálaráðherra setur nánari reglur um hvað skylda má útlending til að gera til að fullnægja þessari skyldu.
    Ef vafi leikur á hver útlendingur er við komu til landsins eða síðar getur lögregla lagt hald á ferðaskilríki, farseðla og annað sem getur verið til upplýsinga um hver hann er. Sama gildir þegar vafi er um fyrri dvalarstað og það skiptir máli um rétt til dvalar hér á landi. Lögregla skal benda útlendingi á að hann geti borið réttmæti haldlagningar undir dómara samkvæmt reglum laga um meðferð opinberra mála.
    Ef rökstuddur grunur leikur á að útlendingur, í bága við fyrirmæli sem greinir í 1. mgr., haldi eftir eða leyni upplýsingum um hver hann er eða, í bága við fyrirmæli sem greinir í 53. gr., haldi eftir eða leyni upplýsingum um fyrri dvalarstað má lögregla leita á útlendingnum, á heimili hans, herbergi eða hirslum samkvæmt reglum laga um meðferð opinberra mála, eftir því sem við á.
    Í þágu máls má taka ljósmyndir og fingraför af útlendingi sem:
     a.      ekki getur fært sönnur á hver hann er eða ef ástæða er til að ætla að útlendingurinn gefi rangt upp hver hann er,
     b.      leitar hælis eða sækir um leyfi samkvæmt lögunum,
     c.      hefur verið synjað um hæli eða leyfi samkvæmt lögunum eða
     d.      hefur verið vísað frá landi eða úr landi eða ætla má að dveljist hér ólöglega.
    Fingraför, sem tekin eru skv. 4. mgr., má færa í tölvufærða fingrafaraskrá. Dómsmálaráðherra getur sett nánari reglur um færslu og notkun skrárinnar.
    Ef útlendingur neitar að gefa upp hver hann er eða rökstuddur grunur er um að útlendingur gefi rangar upplýsingar um hver hann er getur lögregla lagt fyrir hann að tilkynna sig eða halda sig á ákveðnu svæði. Ef slíkum fyrirmælum er ekki sinnt eða þau teljast ófullnægjandi er heimilt að handtaka útlendinginn og úrskurða í gæsluvarðhald samkvæmt reglum laga um meðferð opinberra mála, eftir því sem við á. Gæsla má ekki standa lengur en í 12 vikur samanlagt nema sérstaklega standi á.

30. gr.
Kæruheimild.

    Ákvörðun lögreglunnar, svo og ákvörðun sendiráðs, fastanefndar eða ræðismanns skv. 5. mgr. 6. gr., má kæra til Útlendingastofnunar. Ákvörðun Útlendingastofnunar sem æðra stjórnvalds verður ekki kærð. Að öðru leyti má kæra ákvörðun til dómsmálaráðuneytisins.
    Nú vill útlendingur nýta heimild til kæru og skal hann þá lýsa kæru innan 15 daga frá því að honum var kynnt ákvörðunin fyrir þeim sem það gerir. Að öðru leyti fer um kæru skv. VII. kafla stjórnsýslulaga um stjórnsýslukæru.

31. gr.
Hvenær ákvörðun getur komið til framkvæmda.

    Ákvörðun um frávísun skv. 18. gr. má framkvæma þegar í stað. Synjun á umsókn um endurnýjun dvalarleyfis eða um búsetuleyfi, sem sótt er um innan frests skv. 3. mgr. 14. gr., má ekki framkvæma fyrr en ákvörðunin er endanleg. Sama gildir um ákvörðun um afturköllun skv. 16. gr. og um ákvörðun um brottvísun útlendings sem hefur dvalarleyfi eða búsetuleyfi eða norræns ríkisborgara sem hefur dvalið hér á landi lengur en þrjá mánuði. Að öðru leyti gilda ákvæði 29. gr. stjórnsýslulaga um frestun réttaráhrifa.
    Synjun á umsókn um dvalarleyfi sem sótt er um í fyrsta sinn og á umsókn um endurnýjun sem greinir í 1. mgr. og sótt er um að liðnum fresti skv. 3. mgr. 14. gr. má ekki framfylgja fyrr en útlendingurinn hefur fengið færi á að leggja fram kæru og aldrei fyrr en liðnir eru tveir sólarhringar frá því að útlendingnum var tilkynnt um ákvörðunina.


32. gr.
Hvenær ákvörðun í málum um hæli eða vernd gegn ofsóknum
getur komið til framkvæmda.

    Nú ber útlendingur að aðstæður séu þannig að ákvæði 1. mgr. 45. gr. eigi við og má þá ekki framkvæma ákvörðun um að hann skuli yfirgefa landið fyrr en ákvörðunin er endanleg. Þetta gildir þó ekki í málum þar sem Útlendingastofnun telur augljóst að aðstæður séu ekki þannig og í málum þar sem útlendingurinn á umsókn um hæli til meðferðar í öðru landi eða slíkri umsókn hefur verið hafnað þar.
    Lögregla skal leggja ákvörðun um frestun á framkvæmd fyrir Útlendingastofnun ef útlendingur ber fyrir sig aðstæður sem greinir í 1. mgr. 45. gr. þegar framkvæma á ákvörðunina og ekki kemur fram að afstaða hafi þegar verið tekin til þeirra aðstæðna sem borið er við. Nú telur Útlendingastofnun augljóst að aðstæður séu ekki þannig og má hún þá ákveða að ákvörðunin komi til framkvæmda.
    Ákvæði IV., V. og VII. kafla stjórnsýslulaga um andmælarétt, um birtingu ákvörðunar, rökstuðning o.fl. og um stjórnsýslukæru gilda ekki um ákvarðanir skv. 1. og 2. mgr.

33. gr.
Framkvæmd ákvörðunar.

    Ákvörðun, sem felur í sér að útlendingur skuli yfirgefa landið, skal framkvæma þannig að lagt er fyrir útlendinginn að hverfa þegar á brott eða innan tiltekins frests. Ef útlendingurinn fer ekki úr landi svo sem fyrir er lagt eða líkur eru á að hann muni ekki gera það má lögregla færa hann úr landi. Ef sérstaklega stendur á má færa útlendinginn til annars lands en þess sem hann kom frá. Ákvarðanir sem varða framkvæmd verða ekki kærðar sérstaklega. Málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið frestar ekki framkvæmd hennar. Þó getur dómsmálaráðherra tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd hennar ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því ákvörðun var tekin.
    Útlendingi, sem fellur undir ákvæði 1. mgr. og ekki hefur gild ferðaskilríki, er skylt að afla sér þeirra.
    Til að tryggja að ákvörðun skv. 1. mgr. verði framkvæmd getur lögregla lagt fyrir útlendinginn að:
     a.      tilkynna sig,
     b.      afhenda vegabréf eða annað kennivottorð, sbr. 5. gr., og
     c.      halda sig á ákveðnu svæði.
    Fyrirmæli sem greinir í 3. mgr. má því aðeins gefa að sérstök ástæða sé til að ætla að útlendingurinn muni koma sér undan framkvæmd. Við mat á þessu má taka tillit til almennrar reynslu af undankomu. Fyrirmælin gilda ekki lengur en í tvær vikur nema útlendingurinn samþykki eða dómari ákveði samkvæmt reglum laga um meðferð opinberra mála.
    Ef nauðsyn ber til, til að tryggja framkvæmd, er heimilt að handtaka útlendinginn og úrskurða í gæsluvarðhald samkvæmt reglum laga um meðferð opinberra mála, eftir því sem við á. Samsvarandi gildir ef útlendingur gerir ekki það sem nauðsynlegt er til að afla sér ferðaskilríkja, sbr. 2. mgr., og tilgangurinn er að færa útlendinginn fyrir fulltrúa lands sem við á í því skyni að fá útgefin ferðaskilríki.
    Gæsla skal ekki ákveðin lengur en í tvær vikur. Gæslutíma má því aðeins framlengja að útlendingurinn fari ekki sjálfviljugur úr landi og líkur séu á að hann muni annars koma sér undan framkvæmd ákvörðunar sem greinir í 1. mgr. Má þá framlengja frestinn í allt að tvær vikur, en þó ekki oftar en tvisvar.
    Útlending má hvorki handtaka né úrskurða í gæsluvarðhald ef það með hliðsjón af eðli máls og atvikum að öðru leyti mundi fela í sér ósanngjarna ráðstöfun, eða dómarinn telur fullnægjandi að útlendingurinn sæti þess í stað úrræðum skv. 3. mgr.
    Þvingunarúrræðum skv. 3. og 5. mgr. má beita þegar ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið er tekin og þegar mál sem getur leitt til slíkrar ákvörðunar er til meðferðar.

34. gr.
Réttaraðstoð.

    Dómari skal skipa útlendingi talsmann úr hópi lögmanna þegar krafist er gæslu skv. 6. mgr. 29. gr. eða 5. mgr. 33. gr. Sama gildir þegar fyrir dómi er krafist úrræða skv. 3. og 4. mgr. 33. gr. nema það hafi í för með sér sérstakt óhagræði eða töf eða dómarinn telur ekki varhugavert að láta hjá líða að skipa talsmann.
    Þegar kærð er ákvörðun sem varðar frávísun, brottvísun eða afturköllun leyfis og í máli vegna umsóknar um hæli skal útlendingur eiga rétt á að stjórnvald skipi sér talsmann. Þetta gildir þó ekki í málum vegna brottvísunar skv. b- og c-lið 1. mgr. 20. gr., b-lið 2. mgr. 21. gr. og 2. mgr. 43. gr. þegar um er að ræða háttsemi sem greinir í 2. málsl., eða þegar útlendingur sem sótt hefur um hæli kærir að hann hafi einungis fengið dvalarleyfi skv. 2. mgr. 11. gr. Ef dómari tekur til greina beiðni um að afla upplýsinga fyrir dómi skv. 28. gr. skal kostnaður útlendingsins við lögfræðiaðstoð meðan öflun upplýsinganna fer fram greiðast úr ríkissjóði.
    Ákvæði VI. kafla laga um meðferð opinberra mála gilda, eftir því sem við á, um réttaraðstoð skv. 1. og 2. mgr. Krefja skal útlending um endurgreiðslu kostnaðar af réttaraðstoð að hluta til eða að öllu leyti ef hann hefur ráð á því.

VI. KAFLI
Útlendingar sem falla undir samninginn
um Evrópska efnahagssvæðið (EES-samninginn).
35. gr.
Dvalarleyfi.

    Útlendingur, sem fellur undir reglur EES-samningsins um frjálsa fólksflutninga (EES-útlendingur), má koma til landsins án sérstaks leyfis og dveljast hér á landi í allt að þrjá mánuði frá komu hans til landsins, eða allt að sex mánuði ef hann er í atvinnuleit. Dvöl í öðru norrænu landi skal ekki draga frá dvalartímanum.
    EES-útlendingur, sem dvelst eða starfar hér á landi lengur en greinir í 1. mgr., skal hafa dvalarleyfi. Dómsmálaráðherra getur sett reglur um undanþágur frá reglum um dvalarleyfi og reglur um tilkynningarskyldu.
    Dvalarleyfi, sem sótt er um í fyrsta sinn, má sækja um eftir komu til landsins.
    Útlendingastofnun tekur ákvörðun um dvalarleyfi.

36. gr.
Skilyrði dvalarleyfis.

    EES-útlendingur á rétt á dvalarleyfi samkvæmt umsókn þess efnis ef hann framvísar þeim ferðaskilríkjum sem hann komst inn í landið með og gögnum sem sýna að hann:
     a.      er launþegi sem fellur undir lög um frjálsan atvinnu- og búseturétt launafólks innan Evrópska efnahagssvæðisins, sbr. 2. tölul. V. viðauka við EES-samninginn,
     b.      ætlar að stunda sjálfstæða atvinnustarfsemi hér á landi eða veita eða njóta hér þjónustu,
     c.      þiggur nægilegar fastar reglubundnar greiðslur eða á nægilegt eigið fé og fellur undir sjúkratryggingu sem ábyrgist alla áhættu meðan dvöl hans hér á landi varir eða
     d.      er innritaður hjá viðurkenndri námsstofnun með það að meginmarkmiði að öðlast þar menntun eða starfsþjálfun.
    Dómsmálaráðherra setur nánari reglur um framkvæmd þessa.
    Heimilt er að synja um dvalarleyfi skv. 1. mgr. ef þær aðstæður eru fyrir hendi sem geta veitt tilefni til að meina útlendingnum komu til landsins, dvöl eða vinnu samkvæmt öðrum lagaákvæðum.

37. gr.
Dvalarleyfi fyrir aðstandendur.

    Aðstandandi útlendings sem hefur eða öðlast dvalarleyfi skv. 1. mgr. 36. gr. á rétt á dvalarleyfi samkvæmt umsókn þess efnis að uppfylltum skilyrðum í reglum sem dómsmálaráðherra setur.

38. gr.
Áframhaldandi dvöl að loknu starfi.

    Dómsmálaráðherra getur sett reglur um rétt útlendings sem fellur undir a- og b-lið 1. mgr. 36. gr. til áframhaldandi dvalar að loknu starfi, svo og aðstandenda hans skv. 37. gr.

39. gr.
Gildistími og efni dvalarleyfis.

    Dvalarleyfi, sem gefið er út í fyrsta sinn skv. 36., 37. og 38. gr., skal að jafnaði gefið út til fimm ára.
    Ef starfi er ætlað að standa lengur en þrjá mánuði en skemur en eitt ár skal leyfi til útlendings skv. a-lið 1. mgr. 36. gr. gefið út til samsvarandi tíma.
    Leyfi til útlendings sem ætlar að veita þjónustu eða njóta þjónustu, sbr. b-lið 1. mgr. 36. gr., skal hafa sama gildistíma og þjónustan verður veitt eða hennar notið.
    Leyfi, sem gefið er út í fyrsta sinn til útlendings skv. c-lið 1. mgr. 36. gr., má takmarka við tvö ár ef umsækjandinn getur ekki sýnt fram á að skilyrði fyrir leyfinu verði uppfyllt í fimm ár.
    Leyfi til útlendings skv. d-lið 1. mgr. 36. gr. skal gefið út til tíma sem svarar til lengdar námsins, þó ekki lengur en í eitt ár.
    Dvalarleyfi veitir rétt til að dveljast og til að ráða sig í vinnu eða starfa sjálfstætt hvar sem er á landinu nema annað sé tekið fram í leyfinu eða leiði af reglum sem settar eru samkvæmt lögunum.

40. gr.
Endurnýjun dvalarleyfis.

    Dvalarleyfi skv. 36., 37. og 38. gr. skal endurnýja samkvæmt umsókn ef skilyrðum er enn fullnægt. Dvalarleyfi skal að jafnaði endurnýjað til fimm ára nema tilgangur vinnu eða dvalar eða aðrar ástæður gefi tilefni til styttri gildistíma.
    Dómsmálaráðherra getur sett nánari reglur um endurnýjun dvalarleyfis.

41. gr.
Afturköllun dvalarleyfis.

    Heimilt er að afturkalla dvalarleyfi ef svo stendur á sem greinir í 16. gr. Afturköllun er þó ekki heimil eingöngu af því að útlendingurinn er ekki lengur í starfi, hvort heldur er vegna veikinda eða slyss eða vegna þess að hann er atvinnulaus gegn vilja sínum.
    Enn fremur er heimilt að afturkalla dvalarleyfi sem gefið var út í fyrsta sinn til útlendings sem fellur undir a–c-lið 1. mgr. 36. gr. ef um er að ræða búseturof sem varað hefur lengur en sex samfellda mánuði og er ekki tilkomið vegna herþjónustu.

42. gr.
Frávísun.

    Heimilt er að vísa EES-útlendingi frá landi við komu til landsins eða allt að sjö sólarhringum eftir komu ef:
     a.      hann fullnægir ekki reglum sem settar eru um vegabréf, vegabréfsáritun eða komu til landsins,
     b.      honum hefur verið vísað úr landi hér á landi eða í öðru norrænu landi og endurkomubann er enn í gildi og honum hefur ekki verið veitt heimild til að koma til landsins,
     c.      um er að ræða háttsemi sem greinir í 1. mgr. 43. gr. eða
     d.      það er nauðsynlegt vegna öryggis ríkisins eða krefjandi þjóðarhagsmuna.
    Lögreglustjóri tekur ákvörðun um frávísun skv. a- og b-lið 1. mgr., en Útlendingastofnun skv. c- og d-lið. Nægilegt er að meðferð máls hefjist innan sjö sólarhringa frestsins.
    Ef meðferð máls skv. 1. mgr. hefur ekki hafist innan sjö sólarhringa má vísa EES-útlendingi, sem ekki hefur dvalarleyfi, frá landi með ákvörðun Útlendingastofnunar samkvæmt ákvæðum b-, c- og d-liðar.

43. gr.
Brottvísun.

    Heimilt er að vísa EES-útlendingi úr landi ef það er nauðsynlegt með skírskotun til allsherjarreglu og almannaöryggis.
    Brottvísun skv. 1. mgr. má framkvæma ef útlendingurinn sýnir af sér eða ætla má að um sé að ræða persónubundna háttsemi sem felur í sér raunverulega og nægilega alvarlega ógn gagnvart grundvallarþjóðfélagssjónarmiðum. Ef útlendingurinn hefur verið dæmdur til refsingar eða sérstakar ráðstafanir ákvarðaðar má brottvísun af þessari ástæðu að jafnaði því aðeins fara fram að um sé að ræða háttsemi sem getur gefið til kynna að útlendingurinn muni fremja refsivert brot á ný.
    Einnig er heimilt að vísa EES-útlendingi úr landi ef hann fullnægir ekki skilyrðum um dvöl skv. 36.–38. gr.
    Brottvísun skal ekki ákveða ef það með hliðsjón af málsatvikum og tengslum útlendingsins við landið mundi fela í sér ósanngjarna ráðstöfun gagnvart honum eða nánustu ættingjum hans.
    Brottvísun felur í sér bann við komu til landsins síðar. Endurkomubannið getur verið fyrir fullt og allt eða um tiltekinn tíma en að jafnaði ekki skemur en tvö ár. Samkvæmt umsókn má fella endurkomubannið úr gildi ef nýjar aðstæður mæla með því.
    Útlendingastofnun tekur ákvörðun um brottvísun, svo og um heimild útlendings sem vísað hefur verið úr landi til endurkomu.

VII. KAFLI
Vernd gegn ofsóknum og flóttamenn.
44. gr.
Flóttamannahugtakið.

    Flóttamaður samkvæmt lögunum telst vera útlendingur sem fellur undir ákvæði A-liðar 1. gr. alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951 (flóttamannasamningsins), sbr. viðauka við samninginn frá 31. janúar 1967.
    Ákveða má að flóttamaður sem fellur undir C–F-lið 1. gr. flóttamannasamningsins skuli ekki, að öllu leyti eða að hluta til, njóta réttinda og verndar samkvæmt ákvæðum þessa kafla, annarra en málsmeðferðarreglna. Flóttamaður sem fellur undir C–E-lið 1. gr. flóttamannasamningsins skal þó njóta verndar skv. 45. gr.

45. gr.
Vernd gegn ofsóknum.

    Ekki má samkvæmt lögunum senda útlending til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir sem geta leitt til þess að hann skuli teljast flóttamaður eða ef ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis. Samsvarandi verndar skal útlendingur njóta sem vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð.
    Ef stjórnvald í máli samkvæmt lögunum kemst að því að ákvæði 1. mgr. eigi ekki við um útlendinginn skal það að eigin frumkvæði taka til skoðunar hvort beita skuli ákvæðum 2. mgr. 11. gr.
    Útlendingur nýtur ekki verndar skv. 1. mgr. ef skynsamlegar ástæður eru til að álíta hann hættulegan öryggi ríkisins eða hann hefur hlotið endanlegan dóm fyrir mjög alvarlegt afbrot og er af þeim sökum hættulegur samfélaginu. Útlendingur nýtur ekki heldur verndarinnar þegar svo háttar sem um ræðir í F-lið 1. gr. flóttamannasamningsins.
    Vernd skv. 1. mgr. á við um hvers konar ákvarðanir samkvæmt lögum þessum.

46. gr.
Réttur til hælis.

    Flóttamaður, sem er hér á landi eða kemur hér að landi, á samkvæmt umsókn rétt á að fá hér hæli. Þetta gildir þó ekki um flóttamann sem:
     a.      fellur undir undanþágur frá reglum um vernd í 2. mgr. 44. gr. og 3. mgr. 45. gr.,
     b.      veitt hefur verið hæli í öðru ríki,
     c.      komið hefur til landsins að eigin frumkvæði eftir að hafa hlotið vernd í öðru ríki eða eftir að hafa dvalist í ríki eða á svæði þar sem hann þurfti ekki að sæta ofsóknum og hafði ekki ástæðu til að óttast að verða sendur aftur til heimalands síns,
     d.      krefja má annað norrænt ríki um að taka við samkvæmt reglum norræna vegabréfaeftirlitssamningsins,
     e.      krefja má annað ríki sem tekur þátt í samstarfi á grundvelli Dyflinnarsamningsins frá 15. júní 1990 um að taka við,
     f.      synja má um hæli vegna krefjandi þjóðarhagsmuna.
    Ekki skal endursenda flóttamann til annars ríkis skv. c-, d- og e-lið 1. mgr. ef hann hefur slík sérstök tengsl við landið að nærtækast sé að hann fái hér vernd.
    Maki flóttamanns eða sambúðarmaki og börn undir 18 ára aldri án maka eða sambúðarmaka eiga rétt á hæli nema sérstakar ástæður mæli því í mót.
    Með umsókn um hæli skal afhenda vegabréf eða önnur ferðaskilríki sem umsækjandi hefur í fórum sínum.
    Dómsmálaráðherra getur sett reglur um að útlendingur sem sækir um hæli skuli dveljast í tilteknu sveitarfélagi og í húsnæði sem lagt er til þar til endanleg ákvörðun liggur fyrir um umsóknina.

47. gr.
Réttaráhrif hælis.

    Hælisveiting hefur í för með sér að útlendingurinn hefur réttarstöðu flóttamanns og fær dvalarleyfi. Hann hefur þá réttarstöðu sem leiðir af íslenskum lögum og flóttamannasamningnum eða öðrum þjóðréttarsamningum um flóttamenn.
    Hælisveitingu má afturkalla ef flóttamaður fellur ekki lengur undir flóttamannahugtakið skv. 44. gr. eða það að öðru leyti leiðir af almennum stjórnsýslureglum. Útlendingastofnun tekur ákvörðun um afturköllun.

48. gr.
Ferðaskírteini fyrir flóttamenn og vegabréf fyrir útlendinga.

    Flóttamanni, sem dvelst eða fær að dveljast löglega í landinu, skal að fenginni umsókn veita ferðaskírteini fyrir flóttamenn til ferða erlendis, enda mæli sérstakar ástæður því ekki í mót. Nú hefur flóttamaður ferðaskilríki gefin út af öðru ríki og skal hann þá því aðeins fá skírteini gefið út að honum hafi verið veitt hér hæli eða búsetuleyfi eða skylt sé að gefa hér út ferðaskírteini fyrir flóttamenn í samræmi við þjóðréttarsamning.
    Útlendingur, sem hefur eða fær dvalarleyfi hér á grundvelli umsóknar um hæli, en án þess að vera veitt hæli, skal fá vegabréf fyrir útlendinga til ferða erlendis samkvæmt nánari reglum sem dómsmálaráðherra setur. Þar má og heimila útgáfu vegabréfs fyrir útlendinga í öðrum tilvikum.
    Með umsókn um ferðaskírteini fyrir flóttamenn eða vegabréf fyrir útlendinga skal afhenda vegabréf eða önnur ferðaskilríki sem umsækjandi hefur í fórum sínum.
    Dómsmálaráðherra getur sett reglur um útgáfu, gildissvið, endurnýjun og afturköllun ferðaskírteinis fyrir flóttamenn og vegabréfs fyrir útlendinga og nánari skilyrði í þessu sambandi.

49. gr.
Gildi erlendra ákvarðana um stöðu flóttamanns.

    Útlendingur, sem veitt hefur verið hæli eða ferðaskírteini fyrir flóttamenn í öðru ríki, skal talinn flóttamaður með fasta búsetu í því ríki. Sæki slíkur flóttamaður um hæli eða ferðaskírteini fyrir flóttamenn hér á landi skal fyrri ákvörðun um stöðu hans sem flóttamanns ekki vefengd nema sú ákvörðun sé röng eða aðrar ástæður liggi til þess.

50. gr.
Stjórnvald og málsmeðferð.

    Útlendingastofnun tekur ákvörðun í málum um vernd gegn sendingu úr landi, réttarstöðu flóttamanns og hæli, svo og um ferðaskírteini fyrir flóttamenn og vegabréf fyrir útlendinga.
    Útlendingastofnun tekur einnig ákvörðun um hvort útlendingi, sem kemur til landsins á grundvelli 51. gr., skuli veitt réttarstaða flóttamanns.
    Við meðferð máls skv. 1. og 2. mgr. skal Útlendingastofnun af sjálfsdáðum afla nauðsynlegra og aðgengilegra upplýsinga. Þrátt fyrir lagaákvæði um þagnarskyldu má kynna Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna efni málsskjala. Einnig má kynna mannúðar- eða mannréttindasamtökum efni málsskjala að því leyti sem það er nauðsynlegt í tengslum við öflun upplýsinga.


51. gr.
Flóttamannahópar.

    Útlendingastofnun heimilar hópum flóttamanna komu til landsins í samræmi við ákvörðun stjórnvalda. Sama gildir um hópa útlendinga sem ekki teljast flóttamenn.
    Ákvæði IV. og V. kafla stjórnsýslulaga um andmælarétt og um birtingu ákvörðunar, rökstuðning o.fl., og viðeigandi ákvæði V. kafla laga þessara, gilda ekki um ákvarðanir skv. 1. mgr. Ákvörðun verður einungis kærð af þeim sem bein afstaða er tekin til í máli.
    Útlendingur, sem heimiluð er koma skv. 1. mgr., skal fá dvalarleyfi. Þegar endanleg ákvörðun hefur verið tekin um að útlendingur skuli hafa réttarstöðu flóttamanns, sbr. 2. mgr. 50. gr., á hann rétt til hælis og ferðaskírteinis fyrir flóttamenn, sbr. 46.–48. gr.

VIII. KAFLI
Ýmis ákvæði.
52. gr.
Sérákvæði vegna öryggis ríkisins o.fl.

    Meina má landgöngu og synja um útgáfu dvalarleyfis og búsetuleyfis eða setja takmarkanir eða skilyrði ef nauðsynlegt þykir vegna utanríkisstefnu ríkisins, öryggis ríkisins eða mikilvægra þjóðarhagsmuna. Af sömu ástæðum má framkvæma ákvörðun fyrr en greinir í 31. og 32. gr. Útlendingastofnun tekur ákvörðun samkvæmt þessari málsgrein.
    Dómsmálaráðherra getur, ef nauðsynlegt þykir vegna öryggis ríkisins, sett nánari reglur um tilkynningarskyldu en segir í 17. gr. eða reglum skv. 54. gr.

53. gr.
Upplýsinga- og tilkynningarskylda útlendinga.

    Útlendingi er skylt að kröfu lögreglunnar að sýna skilríki og, ef þörf er á, veita upplýsingar svo að ljóst sé hver hann er og um lögmæti dvalar hans í landinu.
    Dómsmálaráðherra getur ákveðið að útlendingar, aðrir en danskir, finnskir, norskir og sænskir ríkisborgarar, skuli ávallt bera vegabréf eða annað kennivottorð við dvöl hér á landi. Ráðherra getur undanþegið aðra útlendinga skyldu þessari.
    Við undirbúning máls samkvæmt lögunum má leggja fyrir útlending sem málið varðar að mæta sjálfur og veita upplýsingar sem geta haft þýðingu við úrlausn þess.

54. gr.
Tilkynningarskylda annarra.

    Dómsmálaráðherra getur sett reglur um:
     a.      að sá sem rekur gististað, af hvers kyns tagi, eða heldur tjaldsvæði og þess háttar skuli halda skrá yfir þá sem þar gista og tilkynna lögreglunni um þá, svo og að aðrir skuli einnig veita Útlendingastofnun upplýsingar um útlendinga sem hjá þeim gista ef ástæða þykir til vegna öryggissjónarmiða eða sérstaks viðbúnaðar,
     b.      að stjórnandi loftfars sem kemur frá útlöndum eða fer til útlanda skuli láta lögreglunni í té skrá um farþega og áhöfn,
     c.      að stjórnandi skips sem siglir yfir mörk landhelginnar á leið til eða frá íslenskri höfn skuli láta lögreglunni í té skrá um farþega og áhöfn,
     d.      að sá sem fær útlending í þjónustu sína eða ræður útlending í launaða atvinnu skuli tilkynna það Útlendingastofnun áður en vinnan hefst,
     e.      að atvinnumiðlanir skuli tilkynna Útlendingastofnun um útlendinga sem leita eða fá atvinnu,
     f.      að þjóðskráin skuli tilkynna Útlendingastofnun um útlendinga sem eru þar skráðir eða teknir af skrá,
     g.      að menntastofnanir skuli samkvæmt beiðni láta Útlendingastofnun í té skrá um erlenda námsmenn,
     h.      að stjórnvöld skuli, samkvæmt beiðni, láta Útlendingastofnun eða lögreglunni í té upplýsingar um nafn útlendings og heimili til nota í máli samkvæmt lögunum þrátt fyrir reglur um þagnarskyldu í lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga og barnaverndarlögum.
    Dómsmálaráðherra getur sett nánari reglur um hvaða upplýsingar skrár skv. 1. mgr. skuli hafa að geyma.
    Þeim sem tilkynna á um er skylt að láta í té þær upplýsingar sem nauðsynlegar eru til að tilkynningarskyldunni verði fullnægt.

55. gr.
Vinnsla persónuupplýsinga.

    Útlendingastofnun og lögreglu er heimil vinnsla persónuupplýsinga, þar á meðal þeirra sem viðkvæmar geta talist, að því marki sem slík vinnsla telst nauðsynleg við framkvæmd laganna. Eftir þörfum er heimilt við vinnslu persónuupplýsinga að samkeyra upplýsingar Útlendingastofnunar og lögreglu. Að öðru leyti fer um meðferð persónuupplýsinga samkvæmt lögum um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga.
    Dómsmálaráðherra skal, að fenginni umsögn Persónuverndar, setja reglur um hvaða skrár skulu haldnar af Útlendingastofnun og lögreglu.


56. gr.
Ábyrgð á kostnaði.

    Útlendingur, sem færður er úr landi samkvæmt lögunum, skal greiða kostnað af brottför sinni. Útlendingurinn skal einnig greiða kostnað af gæslu þegar hennar er þörf vegna þess að útlendingurinn fer ekki úr landi af sjálfsdáðum. Krafan er aðfararhæf og hún getur auk þess verið grundvöllur frávísunar við síðari komu til landsins, sbr. h-lið 1. mgr. 18. gr. Lögreglunni er heimilt að leggja hald á farseðla sem finnast í fórum útlendingsins til notkunar við brottför.
    Nú er útlendingi, sem komið hefur með skipi eða loftfari, vísað frá landi skv. 18., 19. eða 42. gr. og skal þá eigandi farsins eða leigutaki, og á þeirra vegum stjórnandi þess eða umboðsmaður hér á landi, annaðhvort taka útlendinginn um borð á ný eða flytja hann úr landi á annan hátt eða greiða kostnað sem hið opinbera hefur af því að færa útlendinginn úr landi. Á sama hátt er þeim skylt að taka fylgdarmenn um borð og greiða kostnað af fylgd með útlendingnum úr landi ef lögregla telur þess þörf.
    Kostnaður við að færa útlending úr landi, sem ekki fæst greiddur skv. 1. eða 2. mgr., greiðist úr ríkissjóði.
    Nú gengur útlendingur, sem þarf leyfi lögreglunnar skv. 7. gr., á land án þess að hafa fengið slíkt leyfi og fer þá eftir reglum 2. mgr. um ábyrgð á kostnaði. Sama gildir þá að jafnaði einnig um kostnað sem hið opinbera kann að hafa af dvöl útlendingsins hér í allt að þrjá mánuði.
    Ábyrgð skv. 2. og 4. mgr. gildir ekki við komu yfir innri landamæri Schengen-svæðisins.

57. gr.
Refsiákvæði.

    Það varðar sektum eða fangelsi allt að sex mánuðum ef maður:
     a.      af ásetningi eða gáleysi brýtur gegn lögunum eða reglum, banni, boði eða skilyrðum sem sett eru samkvæmt lögunum eða
     b.      af ásetningi eða stórfelldu gáleysi veitir í máli samkvæmt lögunum upplýsingar sem eru í verulegum atriðum rangar eða augljóslega villandi.
    Það varðar sektum eða fangelsi allt að tveimur árum ef maður:
     a.      af ásetningi eða stórfelldu gáleysi nýtir starfskrafta útlendings sem ekki hefur tilskilið leyfi lögum samkvæmt eða
     b.      af ásetningi eða stórfelldu gáleysi hefur milligöngu um vinnu eða húsnæði fyrir útlending eða gefur út eða miðlar yfirlýsingum, umsögnum eða skjölum til notkunar í máli samkvæmt lögunum ef hann með því notfærir sér ótilhlýðilega aðstæður útlendingsins eða
     c.      af ásetningi með því að vekja, styrkja eða hagnýta sér ranga eða óljósa hugmynd, eða á annan ótilhlýðilegan hátt, tælir útlending til að koma til landsins í því skyni að setjast þar að eða
     d.      lætur öðrum í té vegabréf, ferðaskírteini fyrir flóttamenn, önnur ferðaskilríki eða svipuð skilríki sem nota má sem ferðaskilríki og hlutaðeigandi veit eða má vita að útlendingur getur notað þau til að koma til landsins eða til annars ríkis eða
     e.      í hagnaðarskyni aðstoðar útlending til að dveljast ólöglega hér á landi eða í öðru ríki sem tekur þátt í Schengen-samstarfinu eða
     f.      í hagnaðarskyni aðstoðar útlending við að koma ólöglega til landsins eða annars ríkis sem tekur þátt í Schengen-samstarfinu.
    Það varðar sektum eða fangelsi allt að sex árum að reka í hagnaðarskyni skipulagða starfsemi til að aðstoða útlendinga við að koma ólöglega til landsins eða til annars ríkis.
    Nú er útlendingur fluttur til landsins með skipi eða loftfari án þess að hafa fullnægjandi ferðaskilríki og stjórnandi skips eða loftfars hefur ekki gengið úr skugga um að hann beri gild ferðaskilríki, sbr. 3. mgr. 4. gr., og er þá heimilt að gera stjórnanda farartækis sekt.
    Þegar brot er framið í starfsemi lögaðila má gera lögaðilanum sekt skv. II. kafla A almennra hegningarlaga.
    Tilraun eða hlutdeild í brotum á lögum þessum er refsiverð eftir því sem segir í III. kafla almennra hegningarlaga.

IX. KAFLI
Reglugerð og gildistaka.
58. gr.
Reglugerð.

    Dómsmálaráðherra getur sett nánari reglur um framkvæmd laganna.

59. gr.
Gildistaka.

    Lög þessi öðlast gildi 1. júlí 2002.
    Jafnframt falla úr gildi lög um eftirlit með útlendingum, nr. 45 12. maí 1965, með síðari breytingum, sbr. lög nr. 19 26. mars 1991, nr. 133 31. desember 1993, nr. 90 13. júní 1996, nr. 82 16. júní 1998, nr. 23 16. mars 1999, nr. 25 9. maí 2000 og nr. 7 13. mars 2001.
    Frá sama tíma breytast eftirfarandi lagaákvæði:
     1.      Í stað orðsins „Útlendingaeftirlitið“ í 2. mgr. 14. gr. laga um tilkynningar aðsetursskipta, nr. 73 25. nóvember 1952, kemur: Útlendingastofnun.
     2.      Lög um íslenskan ríkisborgararétt, nr. 100 23. desember 1952, sbr. lög 62 12. júní 1998, breytist þannig:
       a.      Í stað orðsins „útlendingaeftirlits“ í 1. mgr. 5. gr. a laganna kemur: Útlendingastofnunar.
       b.      Í stað orðsins „útlendingaeftirlits“ í 2. mgr. 6. gr. laganna kemur: Útlendingastofnunar.
     3.      Í stað orðsins „útlendingaeftirlits“ í 6. tölul. 1. mgr. 4. gr. laga um þjóðskrá og almannaskráningu, nr. 54 27. apríl 1962, kemur: Útlendingastofnunar.
     4.      Lög um atvinnuréttindi útlendinga, nr. 133 21. desember 1994, breytast þannig:
       a.      Í stað orðanna „ótímabundið dvalarleyfi á Íslandi, sbr. lög um eftirlit með útlendingum“ í b-lið 2. mgr. 8. gr. kemur: búsetuleyfi, sbr. lög um útlendinga.
       b.      Í stað orðsins „útlendingaeftirlitsins“ í 2. mgr. 12. gr. kemur: Útlendingastofnunar.
       c.      Í stað orðanna „útlendingaeftirlitinu heimilt að vísa honum úr landi, sbr. ákvæði laga um eftirlit með útlendingum“ í 17. gr. kemur: heimilt að vísa honum úr landi, sbr. lög um útlendinga.
       d.      Í stað orðsins „útlendingaeftirlitinu“ í 1. mgr. 19. gr. kemur: Útlendingastofnun.
     5.      Í stað orðanna „forstjóri Útlendingaeftirlitsins“ í 7. tölul. 1. mgr. 22. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70 11. júní 1996, sbr. lög nr. 150 27. desember 1996 og nr. 23 16. mars 1999, kemur: forstjóri Útlendingastofnunar.
     6.      Lög um vegabréf, nr. 136 22. desember 1998, sbr. lög nr. 23 16. mars 1999, breytast þannig:
       a.      Í stað orðsins „Útlendingaeftirlitinu“ í 1. mgr. 2. gr., 1. mgr. 7. gr. og 9. gr. kemur: Útlendingastofnun.
       b.      Í stað orðsins „Útlendingaeftirlitið“ í 1. mgr. 8. gr. kemur: Útlendingastofnun.
     7.      Lög um Schengen-upplýsingakerfið á Íslandi, nr. 16 14. apríl 2000, breytast þannig:
       a.      B-liður 1. mgr. 6. gr. laganna orðast svo: þegar synja á útlendingi um komu til landsins vegna endurkomubanns sem enn er í gildi á grundvelli brottvísunar:
             1.      skv. a-lið 1. mgr. 22. gr. laga um útlendinga,
             2.      skv. b-, c- eða d-lið 1. mgr. 22. gr. laga um útlendinga og ákvörðunin er reist á því að dvöl hlutaðeigandi í landinu geti stofnað allsherjarreglu, almannaöryggi eða öryggi ríkisins í hættu.
       b.      Í stað orðsins „Útlendingaeftirlitið“ í b-lið 1. mgr. 10. gr. kemur: Útlendingastofnun.
       c.      Í stað orðsins „Útlendingaeftirlits“ í b-lið 19. gr. kemur: Útlendingastofnunar.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.
I.

    Frumvarp þetta er samið í dómsmálaráðuneytinu. Frumvarpið felur í sér heildarendurskoðun á lögum um eftirlit með útlendingum, nr. 45 12. maí 1965, og er því ætlað að leysa þau af hólmi.
    Í frumvarpinu er að finna reglur um réttarstöðu útlendinga hér á landi, við komu þeirra, dvöl og brottför. Því er lagt til að heiti nýrra laga vísi til útlendinga almennt en ekki verði einvörðungu vísað til eftirlits með útlendingum. Í því sambandi er og gert ráð fyrir breyttu heiti á Útlendingaeftirlitinu sem farið hefur með framkvæmd laga um eftirlit með útlendingum. Þá eru í frumvarpinu settar reglur um rétt flóttamanna til hælis hér á landi og um vernd gegn ofsóknum. Við samningu frumvarpsins hefur verið höfð hliðsjón af norrænni löggjöf um þetta efni og að verulegu leyti stuðst við norsku útlendingalögin. Þykja norsk lög heppileg fyrirmynd þar sem Ísland og Noregur eru einu ríkin á Norðurlöndum sem eiga aðild að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið (EES-samningnum) en ekki Evrópusambandinu (ESB), auk þess sem ríkin hafa hliðstæða stöðu gagnvart ESB innan Schengen-samstarfsins. Að því er varðar rétt útlendinga til atvinnu er miðað við óbreytt fyrirkomulag, þ.e. að um það efni gildi sérstök löggjöf undir yfirstjórn félagsmálaráðherra, sbr. lög um atvinnuréttindi útlendinga, nr. 133 21. desember 1994.
    Í frumvarpinu hefur verið tekið tillit til almennrar þróunar sem á undanförnum árum hefur orðið á löggjöf og viðhorfi til málefna útlendinga, svo sem breytinga á stjórnarskránni árið 1995, þróunar á sviði stjórnsýsluréttar og mannréttinda, svo og þátttöku Íslands í alþjóðlegu samstarfi, bæði norrænu og evrópsku, aðildar að mannréttindasamningum og flóttamannasamningi Sameinuðu þjóðanna o.fl.
    Með stjórnarskipunarlögum, nr. 97 28. júní 1995, voru sett ákvæði í 2. mgr. 66. gr. stjórnarskrárinnar þar sem segir að með lögum skuli skipað rétti útlendinga til að koma til landsins og dveljast hér, svo og fyrir hverjar sakir sé hægt að vísa þeim úr landi. Ákvæði þetta var nýmæli. Í athugasemdum við þetta ákvæði í frumvarpi til laganna sagði að með þessu væri fyrst og fremst lögð skylda á löggjafann að setja lög til að girða fyrir að framkvæmdarvaldið hafi ákvörðunarvald þar um án skýrra lögákveðinna skilyrða. Löggjafinn hefur á hinn bóginn frjálsar hendur um efni slíkra skilyrða innan þeirra marka sem leiðir af almennum jafnræðisreglum og þjóðréttarlegum skuldbindingum. Í ýmsum greinum frumvarpsins er gert ráð fyrir að ráðherra setji nánari ákvæði í reglugerð. Þau ákvæði er varða efnisreglur tilgreina að jafnaði það svið sem kveða skal á um í reglugerð. Meginreglur allar koma hins vegar fram í frumvarpsgreinunum en reglugerðarheimild varðar þá útfærslu tiltekinna reglna. Með þessu hafa stjórnvöld óvíræða heimild til að setja nauðsynlegar reglur samhliða því að afmarka glögglega efni slíkra reglna. Er stjórnvöldum þannig fengin skýrari staða til að framkvæma þær reglur sem fara á eftir í stað þess að ákvæði yrði að túlka á grundvelli lögskýringarreglna. Gert er ráð fyrir að samtímis gildistöku nýrra útlendingalaga verði sett heildarreglugerð um þessi efnisatriði og að öðru leyti um atriði sem varða framkvæmd laganna. Jafnframt er ljóst að framkvæmd málefna útlendinga að samþykktum nýjum útlendingalögum eins og frumvarpið liggur fyrir mun gera auknar kröfur til stjórnsýslu málaflokksins, hvort heldur er hjá lögreglunni, Útlendingastofnun eða ráðuneyti.
    Ákvæði frumvarpsins eru verulega ítarlegri en gildandi löggjöf (60 efnisgreinar í stað 22). Í því sambandi ber að hafa í huga að sérreglur, sem settar voru í tengslum við aðild Íslands að EES-samningnum, þar sem kveðið var á um réttarstöðu útlendinga sem falla undir ákvæði þess samnings um frjálsa fólksflutninga, voru settar í reglugerð.
    Drög að frumvarpi til laga um útlendinga voru send ýmsum aðilum til kynningar og umsagnar í maí 1998 og var þess óskað að athugasemdir og ábendingar yrðu sendar dómsmálaráðuneytinu. Umsagnir, athugasemdir og ábendingar bárust frá félagsmálaráðuneytinu, fjármálaráðuneytinu, Flóttamannaráði Íslands, Hagstofu Íslands (þjóðskrá), heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu, Íslandsdeild Amnesty International, lögreglustjóranum í Reykjavík, Mannréttindaskrifstofu Íslands, menntamálaráðuneytinu, Rauða krossi Íslands, refsiréttarnefnd, réttarfarsnefnd, ríkislögreglustjóra, ríkissaksóknara, ríkistollstjóra, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, samgönguráðuneytinu, Siglingastofnun Íslands, Sýslumannafélagi Íslands, tölvunefnd, utanríkisráðuneytinu, Útlendingaeftirlitinu og útlendingaráði. Í ljósi athugasemda og ábendinga voru gerðar nokkrar breytingar á texta frumvarpsins, einkum í athugasemdum, og var frumvarpið síðan lagt fyrir Alþingi til kynningar á 123. löggjafarþingi vorið 1999.
    Eftir að frumvarpið var lagt fram á Alþingi vorið 1999 var það til nánari athugunar í dómsmálaráðuneytinu og voru gerðar á því nokkrar breytingar. Þær breytingar leiddi einkum af fyrirhugaðri þátttöku Íslands í Schengen-samstarfinu, en fyrra frumvarp tók ekki mið af þeim reglum sem gilda á vettvangi Schengen-ríkjanna. Breytingar á frumvarpinu af þessum sökum voru hliðstæðar þeim sem gerðar voru á lögum um eftirlit með útlendingum með lögum nr. 25 9. maí 2000 að því frátöldu að bætt var við ákvæðum um meðferð umsókna um hæli í samræmi við þær reglur sem gilda innan Schengen-samstarfsins. Um Schengen-samstarfið er nánar fjallað í III. kafla 5 og 6.
    Frumvarpið var aftur lagt fram á Alþingi á 126. löggjafarþingi síðla árs 2000 en hlaut ekki afgreiðslu. Frumvarpið er nú lagt fram á ný með nokkrum breytingum, m.a. varðandi bráðabirgðadvalarleyfi í 3. mgr. 11. gr., og minni háttar lagfæringum á refsiákvæði frumvarpsins.

II.

    Löggjöf um málefni útlendinga á sér nokkurn aðdraganda svo sem hér verður nánar rakið. Með ályktun Alþingis 13. ágúst 1919 var skorað á landsstjórnina að undirbúa og leggja fyrir næsta Alþingi frumvarp til laga um „heimild utanríkismanna til þess að ná landsvist á landi hér ... og um það, hvenær þeim verði úr landi vísað, og hvaða ráðstafanir stjórnvöld skuli gera í því skyni“. Í kjölfarið voru síðan samþykkt á Alþingi lög um eftirlit með útlendingum, nr. 10 18. maí 1920, og voru það fyrstu heildarlögin um málefni útlendinga. Fram að þeim tíma var hins vegar að finna einstök ákvæði í löggjöfinni sem vörðuðu útlendinga. Í lögunum var meðal annars kveðið á um heimild útlendinga til að koma til landsins og dveljast hér og heimild stjórnvalda til að vísa útlendingum úr landi.
    Lögin frá 1920 um eftirlit með útlendingum voru leyst af hólmi með nýjum lögum um sama efni, nr. 59 23. júní 1936. Þau lög fólu ekki í sér verulega breytingu frá fyrri lögum að því frátöldu að þar var að finna ítarlegri ákvæði um eftirlit með útlendingum. Þannig voru lögin í raun viðauki við fyrri lög fremur en breyting á ákvæðum þeirra.
    Í stað laganna frá árinu 1936 komu síðan gildandi lög um eftirlit með útlendingum, nr. 45 12. maí 1965. Sú endurskoðun laganna miðaði fyrst og fremst að því að gera nauðsynlegar breytingar til að Ísland gæti orðið aðili að samningi Norðurlandanna frá 12. júní 1957 um afnám vegabréfaskoðunar við landamæri milli Norðurlandanna. Jafnframt voru lögin endurskoðuð að öðru leyti og kveðið nánar á um ýmis atriði, meðal annars með sérstöku ákvæði um réttarstöðu flóttamanna, án þess þó að verulega væri hnikað frá ákvæðum fyrri laga.
    Með lögum nr. 133 31. desember 1993 voru gerðar breytingar á lögum um eftirlit með útlendingum í tilefni af aðild Íslands að EES-samningnum. Í þeim samningi felst að þær reglur, sem gilda innan ESB um frjálsa fólksflutninga, gilda einnig á Evrópska efnahagssvæðinu. Af þessum sökum var nauðsynlegt að gera breytingar á lögunum varðandi aukinn rétt útlendinga, sem falla undir EES-samninginn, til að koma til landsins og dveljast hér og um meðferð mála, sem þetta varða, fyrir stjórnvöldum.
    Lögunum var á ný breytt með lögum nr. 23 16. mars 1999. Með þeim lögum fékk Útlendingaeftirlið sérstakan forstjóra, en fram til þess hafði lögreglustjórinn í Reykjavík og síðar ríkislögreglustjóri, eftir stofnun þess embættis, veitt Útlendingaeftirlitinu forstöðu. Með lögum þessum voru starfsemi og rekstur Útlendingaeftirlitsins að fullu skilin frá starfsemi lögreglu. Að baki þeirri breytingu voru meðal annars þau rök að málefni sem Útlendingaeftirlitið sinnti væru ekki í eðli sínu löggæslustörf.
    Með lögum nr. 25 9. maí 2000 voru síðan gerðar breytingar á lögunum um eftirlit með útlendingum vegna þátttöku Íslands í Schengen-samstarfinu. Þau lög öðluðust gildi 25. mars 2001 en þá hófst þátttaka Íslands og annarra norrænna ríkja í Schengen-samstarfinu. Með þessum lögum var fellt niður persónueftirlit hér á landi með einstaklingum á ferð til og frá öðrum ríkjum sem taka þátt í Schengen-samstarfinu en eftirlitið gagnvart ferðum til og frá ríkjum utan Schengen-samstarfsins samræmt þeim kröfum sem gerðar eru innan þess. Einnig voru gerðar breytingar á ákvæðum um heimild útlendinga til að dvelja hér á landi og um vegabréfsáritanir í samræmi við reglur Schengen-samstarfsins.
    Lögunum var loks breytt með lögum nr. 7 13. mars 2001 vegna þátttöku Íslands í samstarfi á grundvelli samnings aðildarríkja Evrópusambandsins sem undirritaður var í Dyflinni 15. júní 1990 (hér eftir nefndur Dyflinnarsamningurinn), en samstarf á grundvelli þess samnings er liður í Schengen-samstarfinu. Í þeim samningi er fjallað um hvaða ríki beri ábyrgð á meðferð beiðna um hæli þegar vafi leikur á hvar slík umsókn skuli tekin til meðferðar.

III.

    Ísland hefur gerst aðili að ýmsum þjóðréttarsamningum sem varða málefni útlendinga og réttarstöðu þeirra. Við samningu frumvarpsins hefur verið tekið tillit til þessara alþjóðlegu skuldbindinga Íslands þannig að sem best samræmi verði milli laga og þjóðréttarreglna. Hér verður í stuttu máli gerð grein fyrir helstu þjóðréttarsamningum sem Ísland er bundið af á þessu sviði.

1.     Samningur um stöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951.
    Hinn 30. nóvember 1955 var fullgiltur af Íslands hálfu samningur um stöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951 (hér eftir nefndur flóttamannasamningurinn en samningurinn hefur einnig verið nefndur Genfarsamningurinn) og tók hann gildi hér á landi 1. mars 1956. Hinn 26. apríl 1968 var einnig fullgiltur viðbótarsamningur um breytingu á samningnum um stöðu flóttamanna frá 31. janúar 1968. Flóttamannasamningurinn og viðaukinn eru birtir sem fylgiskjal I með frumvarpinu.
    Í 1. gr. flóttamannasamningsins er hugtakið fóttamaður skilgreint. Samkvæmt A-lið ákvæðisins telst sá útlendingur flóttamaður sem „er utan heimalands síns ... af ástæðuríkum ótta við að verða ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar í sérstökum félagsmálaflokkum eða stjórnmálaskoðana, og getur ekki eða vill ekki, vegna slíks ótta, færa sér í nyt vernd þess lands; eða [sá], sem er ríkisfangslaus, og er utan þess lands, þar sem hann áður hafði reglulegt aðsetur, vegna slíkra atburða og getur ekki eða vill ekki, vegna slíks ótta, hverfa þangað aftur“. Samkvæmt þessu verður útlendingur að hafa raunverulega ástæðu til að óttast ofsóknir til að skilgreiningin eigi við um hann. Ekki er fyrir hendi samræmd alþjóðleg túlkun á flóttamannahugtakinu sem einstök lönd eru bundin af. Það er því hvers lands að taka afstöðu til þess hvort útlendingur telst flóttamaður. Hins vegar hefur Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna gefið út handbók sem gefur leiðbeiningar um túlkun hugtaksins.
    Þótt ekki sé fyrir hendi einhlít túlkun á flóttamannahugtakinu hefur verið talið að mat á því hvort útlendingur teljist flóttamaður verði á hvíla á hlutlægum grundvelli. Þannig má sá sem hefur það mat á hendi ekki láta hafa áhrif á matið jákvæða eða neikvæða afstöðu til útlendings eða heimalands hans. Kjarni flóttamannahugtaksins felst í því að útlendingur hafi ástæðuríkan ótta við að verða ofsóttur (well-founded fear of being persecuted) og að ofsóknir verði raktar til kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar í sérstökum félagsmálaflokkum eða stjórnmálaskoðana. Þannig falla þeir utan hugtaksins sem flýja heimaland af öðrum ástæðum, svo sem vegna náttúruhamfara, hungursneyðar eða bágs efnahagsástands.
    Samkvæmt flóttamannasamningnum getur útlendingur ekki gert kröfu um það eitt og sér að verða viðurkenndur sem flóttamaður. Mat í þeim efnum fer ekki fram nema við úrlausn þess hvort útlendingi verði veitt tiltekin réttindi sem bundin eru við flóttamenn, svo sem með veitingu hælis eða útgáfu ferðaskilríkja samkvæmt flóttamannasamningnum.
    Í C–F-lið 1. gr. samningsins er mælt fyrir um að við ákveðnar aðstæður falli niður réttur útlendings til þeirrar verndar sem hann hefur notið samkvæmt samningnum eða að hann sé útilokaður frá slíkri vernd. Í C-lið er að finna brottfallsástæður en meginefni ákvæðisins er að samningurinn hætti að gilda um útlending sem sjálfviljugur notfærir sér á ný vernd heimalands, endurheimtir þar sjálfviljugur ríkisfang, öðlast nýtt ríkisfang eða flytur til heimalands. Einnig fellur niður vernd samkvæmt samningnum ef ekki eru lengur fyrir hendi þær aðstæður sem leiddu til þess að útlendingur var viðurkenndur sem flóttamaður. Samkvæmt D–F-lið nýtur útlendingur ekki verndar samkvæmt samningnum ef hann nýtur verndar eða aðstoðar hjá stofnunum eða deildum Sameinuðu þjóðanna öðrum en erindreka Sameinuðu þjóðanna í málefnum flóttamanna eða ef stjórnvöld þess lands sem útlendingur hefur sest að í hafa viðurkennt að hann njóti þeirra réttinda og beri þær skyldur sem fylgja ríkisfangi í því landi. Einnig nýtur útlendingur ekki verndar flóttamannasamningsins ef hann hefur framið glæp gegn friði, stríðsglæp eða glæp gegn mannkyninu eins og slíkir glæpir eru skilgreindir í alþjóðlegum samningum. Sama gildir er útlendingur hefur framið alvarlegan ópólitískan glæp utan þess lands þar sem leitað er hælis eða hann hefur orðið sekur um athafnir sem brjóta í bága við tilgang og meginreglur Sameinuðu þjóðanna.
    Flóttamannasamningurinn hefur að geyma skuldbindingar fyrir aðildarríkin um að veita flóttamönnum tiltekna réttarvernd. Samningurinn mælir ekki fyrir um skyldu aðildarríkjanna til að veita flóttamönnum hæli heldur hefur hann að geyma ákvæði um réttarstöðu flóttamanns meðan hann dvelur í samningsríki. Þannig segir í 3. gr. samningsins að beita skuli ákvæðum hans um alla flóttamenn án manngreinarálits vegna kynþátta, trúarbragða eða ættlands. Í 4. gr. er mælt fyrir um frelsi flóttamanna til að iðka trú sína og til trúarlegrar uppfræðslu barna sinna. Í 12. gr. er að finna ákvæði um persónu- og sifjaréttindi flóttamanns og í 13. og 14. gr. er mælt fyrir um vernd eignaréttinda hans. Þá er í 15. gr. ákvæði um félagafrelsi og í 16. gr. ákvæði um rétt flóttamanns til að leita til dómstóla. Í III. kafla samningsins er síðan að finna ákvæði um atvinnuréttindi flóttamanns og IV. kafli hefur að geyma ýmis ákvæði um velferðarmál flóttamanna.
    Í V. kafla flóttamannasamningsins er að finna reglur um þá vernd sem flóttamenn njóta. Skv. 31. gr. skulu aðildarríkin ekki beita refsingum gagnvart flóttamönnum vegna ólöglegrar komu þeirra til landsins eða dvalar þar ef komið er beint frá landi þar sem lífi þeirra eða frelsi er ógnað, enda gefi þeir sig tafarlaust fram við stjórnvöld og beri fram gildar ástæður fyrir ólöglegri komu eða dvöl. Einnig skal flóttamanni, sem löglega dvelur í aðildarríki, ekki vísað úr landi nema vegna öryggis landsins eða allsherjarreglu, sbr. 32. gr. Þá er í 33. gr. að finna bann við því að senda flóttamann brott eða endursenda hann til ríkis þar sem lífi hans eða frelsi er ógnað vegna kynþáttar hans, þjóðernis, aðildar að sérstökum félagsmálaflokkum eða stjórnmálaskoðana. Þetta á þó ekki við ef skynsamlegar ástæður eru til að álíta flóttamann hættulegan öryggi landsins eða ef hann er talinn hættulegur þjóðfélaginu vegna þess að hann hefur með endanlegum dómi verið fundinn sekur um mjög alvarlegan glæp. Því hefur verið haldið fram að þessi regla um bann gegn brottvísun eða endursendingu (non-refoulement) sé þjóðréttarregla á grundvelli þjóðréttarvenju og sé því bindandi fyrir ríki án tillits til alþjóðasamninga.

2.     Samningar á sviði mannréttinda.
    Ísland á aðild að ýmsum mannréttindasamningum sem gerðir hafa verið á vettvangi Sameinuðu þjóðanna og Evrópuráðsins. Þessir samningar geta haft áhrif á réttarstöðu útlendinga en þar er að finna ákvæði sem mæla fyrir um tiltekin réttindi þeirra, svo sem hér verður nánar rakið. Þeir þjóðréttarsamningar á þessu sviði sem koma til álita eru:
          samningur um verndun mannréttinda og mannfrelsis frá 4. nóvember 1950, ásamt samningsviðaukum, öðru nafni mannréttindasáttmáli Evrópu, sem nú hefur lagagildi hér á landi, sbr. lög nr. 62 19. maí 1994 og lög nr. 25 24. mars 1998,
          samningur um afnám alls kynþáttamisréttis frá 21. desember 1965,
          samningur um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi frá 16. desember 1966,
          samningur um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi, ásamt valkvæðri bókun, frá 16. desember 1966,
          samningur um afnám allrar mismununar gagnvart konum frá 18. desember 1979,
          samningur gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu frá 10. desember 1984, með breytingu frá 9. september 1992, og
          samningur um réttindi barnsins frá 20. nóvember 1989.
    Þjóðréttarsamningar á sviði mannréttinda eru venjulega ekki bundnir við ríkisborgara eða þá sem búsettir eru í viðkomandi aðildarríki og eiga því einnig við um útlendinga sem þar dveljast. Þannig segir í 1. mgr. 2. gr. samnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi að sérhvert ríki sem er aðili að samningnum takist á hendur að virða og ábyrgjast öllum einstaklingum innan landsvæðis síns og undir lögsögu sinni réttindi þau sem viðurkennd séu í samningnum. Þá segir í 6. gr. samnings um afnám alls kynþáttamisréttis að aðildarríkin skuli tryggja öllum innan lögsögu sinnar raunhæfa vernd og úrræði, með til þess bærum dómstólum eða öðrum ríkisstofnunum, vegna allra athafna sem í felast kynþáttamisrétti og brjóta gegn mannréttindum þeirra og grundvallarfrelsi samkvæmt samningnum. Loks segir í 1. mgr. 2. gr. samnings um réttindi barnsins að aðildarríkin skuli virða og tryggja hverju barni innan lögsögu sinnar þau réttindi sem kveðið er á um í samningnum.
    Hliðstætt við þau ákvæði sem hér hafa verið rakin segir í 1. gr. mannréttindasáttmála Evrópu að samningsaðilar skuli tryggja hverjum þeim sem innan yfirráðasvæðis þeirra dvelst réttindi þau og frelsi sem skilgreind eru í I. kafla samningsins. Í 16. gr. er þó gildissvið samningsins takmarkað gagnvart útlendingum og aðildarríkjunum veitt heimild til að setja skorður við stjórnmálaumsvifum þeirra. Þetta ákvæði hefur verið gagnrýnt og þing Evrópuráðsins hefur farið þess á leit að það verði fellt úr gildi.
    Mannréttindasáttmáli Evrópu hefur að geyma ákvæði um heimild til að vísa útlendingum úr landi. Í 4. gr. samningsviðauka nr. 4 er lagt bann við því að hópar útlendinga séu gerðir landrækir. Í þessu felst að meta verður hvert mál sjálfstætt og því verður útlendingi ekki vísað úr landi af þeirri ástæðu einni að hann sé hluti af einhverjum hópi útlendinga. Í 1. gr. samningsviðauka nr. 7 eru síðan réttarfarsreglur um brottvísun útlendinga. Þar segir að útlendingi, sem löglega er búsettur á landsvæði ríkis, skuli ekki vísað þaðan nema eftir ákvörðun sem tekin hefur verið í samræmi við lög. Einnig skal útlendingi vera heimilt að bera fram ástæður gegn brottvísun sinni, fá mál sitt tekið upp að nýju og fá erindi sitt flutt í þessu skyni fyrir réttu stjórnvaldi eða manni eða mönnum sem það stjórnvald tilnefnir. Heimilt er þó að vísa útlendingi brott áður en hann neytir þessara réttinda þegar slík brottvísun er nauðsynleg vegna allsherjarreglu eða á grundvelli þjóðaröryggis.
    Í samningnum um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi er einnig vikið að réttindum útlendinga sem vísa á úr landi. Þar segir í 13. gr. að aðeins megi vísa úr landi útlendingi, sem er á löglegan hátt á landsvæði aðildarríkis, eftir ákvörðun sem tekin hefur verið í samræmi við lög og skal, nema þar sem brýnar ástæður vegna þjóðaröryggis krefjast annars, leyfast að skjóta ástæðum gegn brottvísuninni til lögbærs stjórnvalds eða manns eða manna sem sérstaklega eru til þess tilnefndir af því lögbæra stjórnvaldi, og fá mál sitt tekið til endurskoðunar og hafa málsvarnarmann í þessu skyni. Við fullgildingu samningsins var af Íslands hálfu gerður fyrirvari við þetta ákvæði að því leyti sem það var ekki í samræmi við gildandi lög um rétt útlendings til að koma að andmælum vegna ákvörðunar um brottvísun hans. Fallið var frá þessum fyrirvara á grundvelli breytinga á lögum um eftirlit með útlendingum með lögum nr. 133 31. desember 1993.
    Í samningi gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu er vikið að réttindum útlendinga. Skv. 3. gr. samningsins skal ekkert aðildarríki vísa úr landi, endursenda (refouler) eða framselja mann til annars ríkis ef veruleg ástæða er til að ætla að hann eigi þar á hættu að sæta pyndingum. Þegar ákveðið er hvort slíkar aðstæður séu fyrir hendi skulu þar til bær yfirvöld hafa hliðsjón af öllum atriðum sem máli skipta, þar á meðal, eftir því sem við á, hvort í ríki því sem um ræðir viðgangist gróf, augljós eða stórfelld mannréttindabrot.

3. Samstarf Norðurlandanna.
    Norðurlöndin hafa um langa hríð haft með sér samvinnu um útlendingamálefni og landamæraeftirlit og hluti af því samstarfi er það sem nefnt hefur verið Norræna vegabréfasambandið. Í samstarfinu felst að sameiginlegar reglur gilda um réttindi norrænna ríkisborgara í löndunum og um réttarstöðu útlendinga sem ekki eru norrænir ríkisborgarar. Þetta samstarf hvílir á tveimur meginstoðum, en þær eru annars vegar bókun frá 22. maí 1954 um að leysa ríkisborgara annarra Norðurlanda undan skyldu til að hafa í höndum vegabréf og dvalarleyfi við dvöl í öðru norrænu landi en heimalandinu og hins vegar samningur frá 12. júlí 1957 um afnám vegabréfaskoðunar við landamæri milli Norðurlandanna, ásamt viðbótarbókun frá 20. maí 1963, breytingum frá 27. júlí 1979 og viðaukum frá 2. apríl 1973 og 18. september 2000. Bókunin tók gildi að því er Ísland varðar 1. desember 1955 en samningurinn (sem gengur undir nafninu norræni vegabréfaeftirlitssamningurinn) 1. janúar 1966. Bókunin er birt sem fylgiskjal II með frumvarpinu og samningurinn með öllum breytingum og viðaukum sem fylgskjal III.
    Bókunin og samningurinn eru grundvöllur að frjálsri för fólks á milli Norðurlandanna. Í því felst að ríkisborgarar Norðurlandanna eru undanþegnir vegabréfaskyldu og útlendingum, sem ekki eru norrænir ríkisborgarar, er leyft að ferðast beint frá einu landi til annars innan landanna á viðurkenndum landamærastöðvum án þess að vera háðir vegabréfaskoðun. Af þessu leiðir að vegabréfaskoðun fer eingöngu fram við norræn útmörk ríkjanna og þurfa bæði norrænir ríkisborgarar og ríkisborgarar annarra ríkja að sæta slíku eftirliti, sbr. 2. gr. samningsins. Þótt vegabréfaskoðun sé felld niður milli Norðurlandanna er ríkjunum heimilt að framkvæma úrtaksskoðun við landamæri sín og annars norræns ríkis, en í því felst að útlendingi verður gert að sýna vegabréf sitt og láta í té þær upplýsingar sem óskað er eftir, sbr. 8. gr.
    Með því að fella niður vegabréfaskoðun við landamæri milli Norðurlanda hafa ríkin falið hvort öðru að framkvæma sameiginlega vegabréfaskoðun á norrænum landamærum gagnvart öðrum ríkjum. Þetta semeiginlega eftirlit hvílir á þeirri forsendu að hvert landanna skuldbindur sig til að taka aftur við útlendingi sem ekki er norrænn ríkisborgari og hafna hefði átt af hlutaðeigandi ríki við útmörk þess ef útlendingurinn hefur ferðast án heimildar frá þessu ríki til annars norræns ríkis, sbr. 10. gr. samningsins. Einnig skuldbinda ríkin sig til að leyfa ekki útlendingi, sem annað norrænt ríki hefur vísað úr landi, að koma inn í landið án sérstaks leyfis, sbr. 9. gr.
    Í 1. mgr. 6. gr. samningsins segir að ríkin eigi að vísa burt við hin norrænu útmörk sín sérhverjum útlendingi sem:
     a.      ekki hefur í höndum gilt vegabréf eða önnur ferðaskilríki, sem hlutaðeigandi yfirvöld í aðildarildarríkjunum geta viðurkennt sem gilt vegabréf,
     b.      hvorki hefur nauðsynlegt leyfi til að fara inn í hlutaðeigandi ríki eða vinna þar, né slíkt leyfi í öðru norrænu ríki sem útlendingurinn ætlar að ferðast til,
     c.      álíta verður að hvorki hafi nægjanlegt fé til fyrirhugaðrar dvalar né heimferðar,
     d.      álíta verður að muni ekki vinna fyrir sér á heiðarlegan hátt,
     e.      hefur áður verið dæmdur til fangelsisrefsingar og gera má ráð fyrir að muni fremja afbrot í norrænu ríki eða búast má við að muni fremja skemmdarverk, stunda njósnir eða óleyfilegt fréttastarf í ríkjunum,
     f.      er í einhverju ríkjanna færður á skrá yfir útlendinga sem vísað hefur verið úr landi.
    Samkvæmt 2. mgr. 6. gr. er ríkjunum einnig heimilt að hafna hvaða útlendingi sem er þegar af öðrum ástæðum á ekki að veita honum leyfi til að koma inn í eitt eða fleiri af ríkjunum.
    Norræni vegabréfaeftirlitssamningurinn felur ekki í sér skyldu fyrir ríkin í einstökum tilvikum til að vísa útlendingi frá landi og fær engan veginn haggað því að hvert ríki fyrir sig tekur sjálfstæða ákvörðun í þeim efnum. Hins vegar verða ríkin að haga löggjöf sinni í samræmi við 6. gr. samningsins og hafa hliðsjón af því ákvæði þegar tekin er ákvörðun um hvort útlendingi verði vísað frá landi.
    Auk þess sem hér hefur verið rakið hefur samningurinn einnig að geyma nánari reglur um sameiginlegt eftirlit með útlendingum sem þurfa að hafa vegabréfsáritun, sbr. 2. og 4. gr., og um skyldu ríkjanna til að krefjast þess að útlendingar, sem dveljast í ríki lengur en þrjá mánuði, skuli sækja um dvalarleyfi, sbr. 5. gr. samningsins.
    Vegna þátttöku Norðurlandanna í Schengen-samstarfinu gerðu ríkin með sér samkomulag sem undirritað var 18. september 2000 um viðauka við vegabréfaeftirlitssamninginn þar sem kveðið er á um frávik frá honum að því leyti sem það er nauðsynlegt til að fullnægja skuldbindingum samkvæmt Schengen-samningnum. Í viðaukanum segir meðal annars að þrátt fyrir ákvæði f-liðar 1. mgr. 6. gr. samningsins geti samningsríki því aðeins vísað burt útlendingi, sem færður er á skrá annars samningsríkis yfir útlendinga sem vísað hefur verið úr landi, að útlendingurinn hafi jafnframt verið tilkynntur sem óæskilegur í Schengen-upplýsingakerfið. Einnig segir að þrátt fyrir ákvæði 9. gr. samningsins geti samningsríki því aðeins meinað útlendingi, sem annað samningsríki hefur vísað úr landi, að koma án sérstaks leyfis að útlendingurinn hafi verið tilkynntur sem óæskilegur í Schengen-upplýsingakerfið. Þá er tekið fram í viðaukanum að túlka beri samninginn í samræmi við viðeigandi Schengen-reglur og frekari þróun þeirra. Breytingar eru þó ekki aðrar en nauðsynlegt er vegna Schengen-samstarfsins og rýmri ákvæði sem samrýmast Schengen-reglum standa óbreytt. Þannig er heimilt að leyfa útlendingi sem hefur dvalarleyfi í norrænu landi að njóta hagstæðari reglu við dvöl í öðru norrænu landi en útlendingi sem hefur dvalarleyfi í Schengen-landi sem ekki er norrænt. Hér á eftir verður gerð nánari grein fyrir Schengen-samstarfinu og þeim skuldbindingum sem felast í þátttöku í því samstarfi á sviði löggjafar um málefni útlendinga.

4. Samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið.
    Með lögum um Evrópska efnahagssvæðið, nr. 2 13. janúar 1993, var samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið lögfestur. Á grundvelli samningsins njóta útlendingar sem eru ríkisborgarar í aðildarríkjunum réttinda af ýmsu tagi hér á landi. Samningurinn hefur því mikil áhrif á réttarstöðu þeirra útlendinga sem falla undir samninginn.
    Í 1. mgr. 1. gr. EES-samningsins segir að markmið hans sé að stuðla að stöðugri og jafnri eflingu viðskipta- og efnahagstengsla við sömu samkeppnisskilyrði og eftir sömu reglum með það fyrir augum að mynda einsleitt Evrópskt efnahagssvæði. Til að ná þessu markmiði felur samstarfið í sér sex þætti og er einn þeirra frjálsir fólksflutningar, sbr. b-lið 2. mgr. sömu greinar. Frjálsir fólksflutningar eru reyndar einn hluti af hinu fjórþætta frelsi Evrópusambandsins (ESB) en það tekur að auki til frjáls flæðis vöru, þjónustu og fjármagns.
    EES-samningurinn felur í sér að reglur ESB gilda um rétt launþega og sjálfstætt starfandi fólks til að flytja búferlum innan Evrópska efnahagssvæðisins og setjast að þar sem það getur hafið störf. Þessi réttur nær einnig til fjölskyldu viðkomandi, svo og þeirra sem látið hafa af störfum vegna aldurs og óska eftir að dvelja áfram þar sem þeir höfðu síðast stundað atvinnu. Þá nær þessi réttur einnig til námsmanna og fleiri. Ákvæði um þetta eru í 1.–3. kafla III. hluta samningsins og í V. og VIII. viðauka við samninginn.
    Í 28. gr. EES-samningsins er fjallað um frjálsa för launþega en þar er því slegið föstu að slíkt frelsi skuli vera tryggt á EES-svæðinu. Þetta frelsi felur í sér afnám allrar mismununar launþega í aðildarríkjunum sem byggð er á ríkisfangi og lýtur að atvinnu, launakjörum og öðrum starfs- og ráðningarskilyrðum. Á grundvelli þessa frelsis hefur launþegi meðal annars rétt til að þiggja atvinnutilboð sem raunverulega eru lögð fram og fara að vild í þeim tilgangi um yfirráðasvæði aðildarríkjanna, dvelja í ríkjunum í atvinnuskyni í samræmi við lög og stjórnsýslufyrirmæli um starfskjör ríkisborgara viðkomandi ríkis og loks að dvelja áfram í ríki eftir að hafa starfað þar. Nánari ákvæði um frelsi launþega til flutninga eru síðan í viðeigandi gerðum ESB sem teknar hafa verið upp í EES-samninginn, en þær er að finna V. viðauka samningsins. Einni af þessum gerðum, reglugerð nr. 1612/68/EBE, sbr. reglugerðir nr. 312/76/EBE og nr. 2434/92/EBE, eins og henni var breytt með EES-samningnum, var veitt lagagildi hér á landi með lögum um frjálsan atvinnu- og búseturétt launafólks innan Evrópska efnahagssvæðisins, nr. 47/1993.
    Í 29. gr. samningsins er fjallað um réttindi launþega og sjálfstætt starfandi einstaklinga til almannatrygginga. Þetta ákvæði miðar að því að greiða fyrir frjálsum fólksflutningum, en mikilvæg forsenda fyrir slíku frelsi er að réttur til almannatrygginga glatist ekki við búferlaflutninga milli landa. Einnig eru ákvæði í 30. gr. til að auðvelda frjálsa fólksflutninga, en þar segir að aðildarríkin skuli gera nauðsynlegar ráðstafanir varðandi gagnkvæma viðurkenningu á prófskírteinum, vottorðum og öðrum vitnisburði um formlega menntun og hæfi, svo og samræmingu ákvæða í lögum og stjórnsýslufyrirmælum samningsaðila varðandi rétt launþega og sjálfstætt starfandi einstaklinga til að hefja og stunda starfsemi.
    EES-samningurinn felur í sér heimild fyrir borgara aðildarríkjanna til að setjast að og hefja atvinnurekstur hvar sem er á EES-svæðinu. Um svokallaðan staðfesturétt er fjallað í 31.–35. gr. EES-samningsins en sá réttur nær bæði til einstaklinga og fyrirtækja. Staðfesturéttur felur í sér rétt til að hefja og stunda sjálfstæða atvinnustarfsemi og til að stofna og reka fyrirtæki með þeim skilyrðum sem gilda að landslögum um ríkisborgara þess ríkis þar sem staðfestan er fengin. Innan ramma ákvæða EES-samningsins skulu engin höft vera á rétti ríkisborgara aðildarríkis til að öðlast staðfestu á yfirráðasvæði annars aðildarríkis, sbr. 31. gr. samningsins. Í VIII. viðauka samningsins er að finna þær gerðir ESB sem gilda um staðfesturétt og hafa verið teknar upp í EES-samninginn.
    Í 36.–39. gr. EES-samningsins er fjallað um frelsi ríkisborgara aðildarríkjanna til að veita þjónustu á yfirráðasvæði aðildarríkis, enda þótt viðkomandi hafi staðfestu í öðru aðildarríki. Skv. 37. gr. samningsins er þeim sem veitir þjónustu heimilt að stunda starfsemi sína tímabundið í því ríki þar sem þjónustan er veitt með sömu skilyrðum og það ríki setur eigin ríkisborgurum. Með þjónustu í skilningi ákvæðisins er einkum átt við starfsemi á sviði iðnaðar, viðskipta, starfsemi handverksmanna og sérfræðistörf.

5. Schengen-samstarfið.
    Aðild Íslands að Schengen-samstarfinu byggist á samningi milli Evrópusambandsins annars vegar og Íslands og Noregs hins vegar um þátttöku síðargreindu landanna í framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna sem undirritaður var í Brussel 18. maí 1999. Samningurinn var fullgiltur af Íslands hálfu 26. maí 2000 að undangengnu samþykki Alþingis. Í athugasemdum með þingsályktunartillögu þess efnis er ítarlega fjallað um Schengen-samstarfið. Framkvæmd samstarfsins á Íslandi og annars staðar á Norðurlöndum hófst 25. mars 2001, svo sem áður er getið.
    Kjarni Schengen-samstarfsins felst í því að tryggja frjálsa för einstaklinga um innri landamæri þátttökuríkjanna og fella niður persónueftirlit með einstaklingum á ferð milli ríkjanna. Schengen-samstarfið tekur einnig til annarra málefni á sviði útlendingalöggjafar og má þar helst nefna samræmingu á persónueftirliti á ytri landamærum þátttökuríkjanna, samvinnu um vegabréfsáritanir, sem meðal annars felur í sér að samræmd áritun gildir á öllu Schengen-svæðinu, og sameiginlegar reglur um vissa þætti málsmeðferðar vegna beiðni um hæli.
    Í Schengen-samstarfinu hafa ítarlegar reglur verið settar um landamæraeftirlit og önnur málefni sem varða útlendinga og réttarstöðu þeirra. Þessi ákvæði er einkum að finna í II. bálki (2.–38. gr.) samnings frá 19. júní 1990 um framkvæmd Schengen-samkomulagsins frá 14. júní 1985 (hér eftir nefndur Schengen-samningurinn), en sá bálkur ber heitið „Afnám eftirlits á innri landamærum og för fólks“. Bálkurinn skiptist í sjö kafla og verður hér gerð grein fyrir efni hans í grófum dráttum. Þessi hluti samningsins er birtur sem fylgiskjal IV með frumvarpinu að undanskildum 7. kafla sem gildir ekki gagnvart Íslandi. Auk Schengen-samningsins hafa ýmsar aðrar Schengen-gerðir þýðingu varðandi málefni á sviði útlendingalöggjafar og verður gerð grein fyrir þeim á viðeigandi stöðum í frumvarpinu.

Um 1. kafla – farið yfir innri landamæri.
    Samkvæmt 2. gr. samningsins er heimilt að fara yfir innri landamæri ríkjanna hvar sem er án þess að persónueftirliti sé framfylgt. Þegar allsherjarregla og þjóðaröryggi krefst þess getur ríki þó ákveðið, að höfðu samráði við önnur þátttökuríki, að taka tímabundið upp landamæraeftirlit á innri landamærum í samræmi við tilefni. Ef bregðast þarf við af þessum sökum án tafar skal gripið til nauðsynlegra ráðstafana og öðrum þátttökuríkjum tilkynnt um þær svo fljótt sem unnt er.
    Þótt fella beri niður persónueftirlit á innri landamærum hefur samningurinn hvorki áhrif á heimildir ríkja til löggæslu innan eigin landamæra né skyldu einstaklinga til að hafa meðferðis og framvísa leyfum og skilríkjum í samræmi við reglur hlutaðeigandi ríkis.

Um 2. kafla – farið yfir ytri landamæri.
    Þegar farið er yfir ytri landamæri skal það gert á landamærastöðvum og á ákveðnum afgreiðslutímum. Skuldbinda þátttökuríkin sig til að taka upp viðurlög ef farið er í heimildarleysi yfir ytri landamæri utan landamærastöðva og afgreiðslutíma þeirra, sbr. 3. gr. samningsins.
    Samkvæmt 4. gr. samningsins skulu flugfarþegar, sem koma til þátttökuríkis frá þriðja ríki, sæta persónueftirliti og eftirliti með handfarangri áður en þeir skipta yfir í innansvæðisflug. Einnig skulu farþegar, sem koma með flugi innan Schengen-svæðisins, sæta sama eftirliti við brottför úr flughöfn þaðan sem flogið er til þriðja ríkis.
    Í 1. mgr. 5. gr. samningsins er að finna heimild til að veita útlendingi leyfi til að koma inn og dvelja á Schengen-svæðinu í allt að þrjá mánuði ef hann hefur gild skilríki sem veita heimild til að fara yfir landamæri og gilda vegabréfsáritun ef þess er krafist. Einnig þarf útlendingur að geta lagt fram viðhlítandi gögn til staðfestingar á tilgangi dvalar og að hann hafi nægjanleg fjárráð til að geta séð fyrir sér meðan á dvöl stendur. Enn fremur þarf útlendingur að geta greitt fargjald til heimaríkis eða þriðja ríkis þar sem honum hefur verið tryggður aðgangur. Loks má útlendingur ekki koma inn á Schengen-svæðið ef hann er á skrá yfir þá sem synja á um komu eða af honum stafar ógnun við allsherjarreglu, þjóðaröryggi eða alþjóðasamskipti einhvers þátttökuríkjanna. Ef útlendingur fullnægir ekki þeim skilyrðum sem hér hafa verið rakin skal honum synjað um komu inn á Schengen-svæðið nema þátttökuríki telji nauðsynlegt að víkja frá þessum skilyrðum af mannúðarástæðum eða vegna þjóðarhagsmuna eða alþjóðlegra skuldbindinga. Er þá heimild til komu inn á Schengen-svæðið bundin við hlutaðeigandi ríki og skal öðrum þátttökuríkjum tilkynnt um slíka ákvörðun, sbr. 2. mgr. 5. gr. Í 3. mgr. segir síðan að útlendingi, sem hefur dvalarleyfi eða vegabréfsáritun til endurkomu sem þátttökuríki hefur gefið út, eða hvorutveggja ef það á við, skuli heimilað að fara um annað þátttökuríki, sem komið er til frá þriðja ríki, nema það ríki hafi lýst viðkomandi útlending óæskilegan.
    Á ytri landamærum skal persónueftirliti framfylgt af þar til bærum yfirvöldum samkvæmt samræmdum reglum og innlendri löggjöf með sameiginlega hagsmuni allra þátttökuríkjanna að leiðarljósi. Við eftirlitið skulu ekki aðeins ferðaskilríki sannprófuð heldur ber einnig að rannsaka atriði sem geta falið í sér ógnun við þjóðaröryggi og allsherjarreglu þátttökuríkjanna. Við komu skulu allir sæta eftirliti með ferðaskilríkjum, en eftirlit með útlendingum skal vera ítarlegra. Allir útlendingar skulu einnig sæta eftirliti við brottför. Þegar sérstakar aðstæður hamla eftirliti skal forgangsraðað og þá skal eftirlit með komu hafa forgang fram yfir eftirlit með brottför, sbr. 6. gr. samningsins.
    Í 7. gr. samningsins segir að þátttökuríkin skuli aðstoða hvert annað og hafa nána og stöðuga samvinnu við að halda uppi öflugu eftirliti. Skulu þau meðal annars skiptast á mikilvægum upplýsingum um annað en nafngreinda einstaklinga, nema til þess standi heimild, og samræma fyrirmæli til þeirra yfirvalda sem sinna eftirliti og stuðla að samræmdri þjálfun eftirlitsmanna.

Um 3. kafla – vegabréfsáritanir.
    Samkvæmt 9. gr. samningsins skuldbinda þátttökuríkin sig til að fylgja sameiginlegri stefnu í málefnum sem varða för fólks og þá sérstaklega með tilliti til reglna um vegabréfsáritanir.
    Taka skal upp samræmda vegabréfsáritun sem gildir á öllu Schengen-svæðinu og má gefa út slíka áritun til dvalar í allt að þrjá mánuði, sbr. 10. gr. samningsins. Vegabréfsáritun gildir fyrir eina eða fleiri komur inn á svæðið, en hvorki samanlagður né samfelldur dvalartími má vera lengri en þrír mánuðir á hálfs árs tímabili miðað við þann dag þegar fyrst er komið inn á svæðið. Einnig er heimilt að gefa út vegabréfsáritun vegna gegnumferðar sem veitir handhafa heimild til þess að fara einu sinni, tvisvar eða oftar í undantekningartilvikum um Schengen-svæðið til þriðja ríkis, enda taki gegnumferðin að hámarki fimm daga, sbr. 11. gr. samningsins.
    Vegabréfsáritun skal gefin út af sendiráðum eða ræðisskrifstofum þátttökuríkjanna. Það ríki, sem för er heitið til, skal gefa út vegabréfsáritun. Þegar ákvörðunarstaður verður ekki ákveðinn fyrir fram skal áritun gefin út af því þátttökuríki sem fyrst er komið til, sbr. 12. gr. samningsins.
    Samkvæmt 13. gr. samningsins skal ekki setja vegabréfsáritun í ferðaskilríki sem fallin eru úr gildi. Þau skulu einnig hafa lengri gildistíma en vegabréfsáritunin og skal tekið tillit til þess hve lengi má fresta því að nota áritunina. Enn fremur skal gildistími ferðaskilríkja vera nægilega langur til að útlendingur geti snúið aftur til heimaríkis eða þriðja ríkis. Þá skal ekki setja vegabréfsáritun í ferðaskilríki sem ekki gilda hjá neinu þátttökuríki. Ef ferðaskilríki gilda aðeins hjá einu eða nokkrum þátttökuríkjum skal áritunin takmörkuð við það eða þau ríki, sbr. 14. gr. samningsins.
    Vegabréfsáritun má að meginreglu ekki gefa út nema útlendingur fullnægi skilyrðum fyrir komu inn á Schengen-svæðið, sbr. 15. gr. samningsins. Þó getur þátttökuríki vikið frá þessu af mannúðarástæðum eða vegna þjóðarhagsmuna eða alþjóðlegra skuldbindinga, en þá takmarkast vegabréfsáritunin við yfirráðasvæði viðkomandi þátttökuríkis og skal það gera öðrum ríkjum grein fyrir þessari ákvörðun, sbr. 16. gr. samningsins.
    Samkvæmt 18. gr. samningsins skulu vegabréfsáritanir til lengri dvalar en þriggja mánaða gefnar út í samræmi við löggjöf hvers þátttökuríkis. Slík vegabréfsáritun felur í sér heimild fyrir útlending til gegnumferðar um önnur þátttökuríki til þess ríkis sem gaf út áritunina nema hann fullnægi ekki skilyrðum fyrir komu inn á Schengen-svæðið eða sé á skrá yfir óæskilega útlendinga hjá því þátttökuríki sem farið er um.

Um 4. kafla – skilyrði fyrir för útlendinga.
    Útlendingur, sem er handhafi samræmdrar vegabréfsáritunar á Schengen-svæðinu og hefur komið löglega inn á svæðið, getur ferðast frjálst um yfirráðavæði allra þátttökuríkjanna meðan vegabréfsáritunin er í gildi að því tilskildu að hann fullnægi komuskilyrðum, sbr. 19. gr. samningsins. Þeir útlendingar, sem eru undanþegnir skyldu til að afla vegabréfsáritunar, geta hins vegar ferðast frjálst um þátttökuríkin í allt að þrjá mánuði á sex mánaða tímabili frá því að þeir komu fyrst inn á svæðið ef þeir fullnægja skilyrðum fyrir komu, sbr. 20. gr. samningsins. Þá er útlendingum með gild ferðaskilríki og dvalarleyfi, sem gefið er út af þátttökuríki, heimilt að ferðast um yfirráðasvæði annarra þátttökuríkja í þrjá mánuði, enda fullnægi þeir skilyrðum fyrir komu og séu ekki á innlendri skrá viðkomandi þátttökuríkis um óæskilega útlendinga, sbr. 21. gr. samningsins.
    Samkvæmt 22. gr. samningsins er útlendingi, sem kemur löglega til Schengen-ríkis, skylt að tilkynna sig hjá þar til bærum yfirvöldum eftir þeim reglum sem gilda í viðkomandi ríki. Slík tilkynningarskylda getur verið við komu eða innan þriggja virkra daga frá komu. Þessi skylda tekur einnig til útlendinga sem búsettir eru í einu af þátttökuríkjunum og ferðast til annars þátttökuríkis. Undantekningar frá þessum reglum um tilkynningarskyldu ákveður hvert þátttökuríki fyrir sig.
    Útlendingur, sem fullnægir ekki lengur skilyrðum fyrir stuttri dvöl í þátttökuríki, skal tafarlaust yfirgefa Schengen-svæðið. Hafi viðkomandi útlendingur dvalarleyfi eða bráðabirgðadvalarleyfi útgefið af öðru þátttökuríki skal hann tafarlaust fara til þess ef hann yfirgefur ekki svæðið. Ef útlendingur fer ekki sjálfviljugur úr landi eða ætla má að hann muni ekki fara úr landi, eða hann verður að yfirgefa landið tafarlaust vegna þjóðaröryggis eða allsherjarreglu, skal í samræmi við lög viðkomandi þátttökuríkis vísa honum úr landi til heimaríkis hans eða annars ríkis sem veitir honum viðtöku. Þetta hefur ekki áhrif á rétt þátttökuríkjanna til að beita eigin löggjöf um hæli eða reglum samningsins um réttarstöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951, sbr. 23. gr. Schengen-samningsins.

Um 5. kafla – dvalarleyfi og skráning þegar synja á um komu.
    Þegar til stendur að gefa út dvalarleyfi til útlendings sem er á skrá yfir þá sem meina á komu inn á Schengen-svæðið skal viðkomandi þátttökuríki fyrir fram hafa samráð við það þátttökuríki sem stendur að þeirri skráningu og taka tillit til hagsmuna þess. Í þessum tilvikum skal dvalarleyfi ekki veitt nema ríkar ástæður mæli með, svo sem mannúðarástæður eða ástæður sem leiðir af alþjóðlegum skuldbindingum. Ef dvalarleyfi er gefið út skal það ríki, sem skráð hefur útlendinginn óæskilegan á Schengen-svæðinu, afturkalla þá skráningu en getur þess í stað fært hann á landsskrá yfir útlendinga sem meina ber landgöngu.
    Ef útlendingur, sem hefur undir höndum gilt dvalarleyfi útgefið af þátttökuríki, er á skrá yfir þá sem meina á komu á svæðið skal það ríki sem skráð hefur viðkomandi útlending hafa samráð við það ríki sem gaf út dvalarleyfið um hvort fullnægjandi ástæður séu til að afturkalla dvalarleyfið. Verði leyfi ekki afturkallað skal ríki, sem skráði útlendinginn óæskilegan á Schengen-svæðinu, afturkalla skráninguna en getur fært hann á landsskrá yfir útlendinga sem meina ber landgöngu.

Um 6. kafla – viðbótarráðstafanir.
    Með fyrirvara um þær skuldbindingar sem leiðir af flóttamannasamningnum skuldbinda þátttökuríkin sig til að lögfesta reglur um að sá sem í atvinnuskyni flytur útlending sem synjað er um komu inn á Schengen-svæðið að ytri landamærum beri ábyrgð á honum og skuli flytja hann til baka ef þess er krafist. Einnig skuldbinda þátttökuríkin sig til að mæla fyrir um viðurlög á hendur þeim sem í atvinnuskyni flytur útlending til svæðisins frá þriðja ríki án þess að hann hafi viðhlítandi ferðaskilríki undir höndum, sbr. 26. gr. samningsins. Þá skuldbinda ríkin sig til að taka upp viðeigandi viðurlög gegn þeim sem í hagnaðarskyni aðstoðar eða reynir að aðstoða útlending við að komast til þátttökuríkis eða dvelja þar í andstöðu við lög hlutaðeigandi ríkis, sbr. 27. gr. samningsins.

Um 7. kafla – ábyrgð á meðferð beiðna um hæli.
    Í þessum kafla er fjallað um hvaða þátttökuríki ber ábyrgð á meðferð beiðni um hæli sem lögð er fram á Schengen-svæðinu. Með samningi milli aðildarríkja Evrópusambandsins um sama efni, sem undirritaður var í Dyflinni 15. júní 1990, hefur þessi kafli Schengen-samningsins verið leystur af hólmi. Því er tekið fram í 1. hluta viðauka A við Brussel-samninginn um þátttöku Íslands og Noregs í framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna að ákvæði kaflans gildi ekki gagnvart löndunum. Þess í stað er gert ráð fyrir því í 7. gr. samningsins að sérstaklega verði samið milli Evrópusambandsins og landanna tveggja um ábyrgð á meðferð hælisbeiðna en slíkt samkomulag var forsenda fyrir þátttöku Íslands og Noregs í Schengen-samstarfinu. Samningur þess efnis var síðan gerður milli Evrópubandalagsins annars vegar og Íslands og Noregs hins vegar og undirritaður í Brussel 19. janúar 2001. Samningurinn var síðan fullgiltur af Íslands hálfu 28. febrúar sama ár. Hér á eftir er gerð grein fyrir efni Dyflinnarsamningsins en sá samningur og samningur Evrópubandalagsins við Ísland og Noreg eru birtir sem fylgiskjöl V og VI með frumvarpinu.

6.     Dyflinnarsamningurinn.
    Dyflinnarsamningurinn hefur að geyma ákvæði um í hvaða ríki eigi að fjalla um umsókn um hæli þegar vafi leikur á hvar slík umsókn skuli tekin til meðferðar. Samningnum er ætlað að tryggja að umsókn hljóti meðferð í einu aðildarríkjanna og fyrirbyggja að umsækjandi verði sendur frá einu aðildarríki til annars án þess að nokkurt þeirra viðurkenni ábyrgð sína á meðferð umsóknar. Með samningnum er því bætt réttarstaða þeirra sem sækja um hæli á samningssvæðinu.
    Samkvæmt Dyflinnarsamningnum skal aðeins eitt ríki bera ábyrgð á meðferð beiðni um hæli. Í 4.–8. gr. samningsins eru nákvæmlega afmörkuð þau atriði sem ráða því hvaða ríki beri ábyrgð á meðferð beiðni hverju sinni. Einnig getur hvert aðildarríki tekið umsókn til meðferðar þótt því sé það ekki skylt, enda samþykki umsækjandi það. Þá færist ábyrgð á meðferð beiðni til þess ríkis.
    Komi fram beiðni um hæli í ríki sem ekki ber ábyrgð á meðferð málsins getur það óskað eftir því að umækjandi verði fluttur til ríkis þar sem taka ber málið til meðferðar. Skylt er að verða við slíkum tilmælum ef beiðni þar að lútandi berst innan sex mánaða frá því að beiðni um hæli var móttekin, sbr. 10. og 11. gr. samningsins. Einnig ber ríki sem ber ábyrgð á máli að taka aftur við umsækjanda um hæli eða útlendingi sem synjað hefur verið um hæli ef sá sem í hlut á dvelur ólöglega í öðru aðildarríki, sbr. 10. og 13. gr. samningsins.
    Um meðferð á beiðni um hæli fer eftir reglum þess ríkis sem ber ábyrgð á meðferð umsóknar.
    Samkvæmt 15. gr. samningsins skulu aðildarríkin senda öðru aðildarríki eftir beiðni þær upplýsingar um einstök mál sem nauðsynlegar eru til að kanna hvort ríki beri ábyrgð á meðferð máls og til að meta umsókn um hæli. Þetta tekur bæði til upplýsinga um persónulega hagi umsækjanda og um þær ástæður sem hann færði fyrir umsókn sinni. Einnig ber að veita upplýsingar um rökstuðning fyrir þeim ákvörðunum sem ríki kann að hafa tekið í máli viðkomandi umsækjanda.
    Í öllum tilvikum er miðlun upplýsinga háð samþykki umsækjanda og má aðeins fara fram milli þeirra stjórnvalda sem aðildarríkin hafa tilnefnt. Þá verður upplýsingum sem hefur verið miðlað einungis miðlað áfram til stjórnvalda og dómstóla sem ákveða hvaða ríki ber ábyrgð á beiðni og meta umsókn um hæli eða skuldbindingar samkvæmt samningnum.
    Ríki sem miðlar upplýsingum skal sjá um að þær séu nákvæmar og uppfærðar. Komi í ljós að aðildarríki hafi veitt ónákvæmar upplýsingar eða upplýsingar sem ekki hefði átt að veita skal viðkomandi ríki sem tók við upplýsingum skýrt frá því. Ber ríkjunum að leiðrétta þessar upplýsingar eða eyða þeim.
    Umsækjandi um hæli á samkvæmt beiðni rétt á að fá í hendur þær upplýsingar sem veittar hafa verið um hann meðan þær eru tiltækar. Ef hann sýnir fram á að þessar upplýsingar séu rangar eða ekki hafi átt að miðla þeim getur hann krafist þess að upplýsingar verði leiðréttar eða þeim eytt.
    Upplýsingar skulu ekki geymdar lengur en nauðsyn krefur með hliðsjón af tilgangi upplýsingaskipta. Viðkomandi aðildarríki skal þegar við á athuga nauðsyn þess að varðveita upplýsingar.
    Upplýsingar sem hefur verið miðlað skulu að minnsta kosti njóta sömu verndar og sambærilegar upplýsingar í því ríki sem við upplýsingum tekur.

IV.

    Meðal helstu atriða frumvarpsins má nefna:
          Lagt er til að Útlendingaeftirlitið fái nýtt heiti, Útlendingastofnun.
          Reglur um komu- og brottfarareftirlit eru samræmdar Schengen-reglum.
          Miðað er við að veita megi útlendingi dvalarleyfi og að endurnýja megi slík leyfi. Eftir þriggja ára samfellda búsetu er heimilt að gefa út búsetuleyfi sem er ótímabundið dvalarleyfi.
          Ákvæði eru um dvalarleyfi af mannúðarástæðum.
          Ákvæði eru um bráðabirgðadvalarleyfi á meðan hælisbeiðni er til meðferðar eða ef endanleg synjun um hæli eða dvalarleyfi kemur ekki til framkvæmda að svo stöddu.
          Ákvæði eru um sameiginlega vernd vegna fjöldaflótta.
          Ákvæði eru sem tryggja eiga rétt nánustu aðstandenda útlendings með dvalarleyfi eða búsetuleyfi til að fá dvalarleyfi.
          Ákvæði eru um afturköllun dvalarleyfis og búsetuleyfis.
          Ítarleg ákvæði eru um frávísun og um brottvísun.
          Lögregla getur vísað útlendingi frá landi allt að sjö sólarhringum eftir landgöngu og Útlendingastofnun þótt lengri tími líði.
          Ekki má vísa útlendingi sem fæddur er hér á landi og átt hefur hér óslitið lögheimili frá landi, né heldur vísa honum úr landi.
          Takmarkanir eru á heimild til að vísa þeim sem hefur búsetuleyfi frá landi eða úr landi.
          Að jafnaði má ekki vísa útlendingi úr landi ef það með hliðsjón af málsatvikum og tengslum við landið mundi leiða til ósanngjarnar niðurstöðu fyrir hann eða nánustu ættingja hans.
          Leiðbeina skal útlendingi sem vísa skal frá landi eða úr landi, ef afturkalla á leyfi eða ef hann sækir um hæli um rétt hans til að ráða sér á eigin kostnað lögmann eða annan fulltrúa, að fá sér skipaðan talsmann þegar það á við og um að hafa samband við fulltrúa heimaríkis síns, fulltrúa Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og mannúðar- eða mannréttindasamtök hér á landi.
          Ákvæði eru um miðlun upplýsinga úr landi.
          Ákvæði eru um heimild til að taka ljósmyndir og fingraför af útlendingum og færslu fingrafara í fingrafarabanka.
          Ákvæði eru um skipun talsmanns fyrir dómi, svo sem þegar krafist er gæsluvarðhalds, og um skipun talsmanns þegar kærð er ákvörðun um frávísun, brottvísun eða afturköllun leyfis og í máli vegna umsóknar um hæli, svo og um ábyrgð ríkissjóðs á þeim kostnaði.
          Ákvæði eru um ábyrgð á kostnaði við brottflutning.
          Sérstakur kafli er um vernd gegn ofsóknum og um flóttamenn.
    Frumvarpið skiptist í níu kafla. Efnisskipan frumvarpsins og helstu nýmæli eru þessi:
    Í I. kafla eru almenn ákvæði, um gildissvið og tilgang, svo og ákvæði um hverjir skuli annast framkvæmd laganna.
    Í II. kafla eru almennar reglur um komu og brottför. Í kaflanum eru reglur um vegabréfaeftirlit, vegabréf og vegabréfsáritanir, svo og ákvæði um áhafnir skipa og loftfara.
    Í III. kafla eru reglur um dvöl og búsetu. Þar eru ákvæði um dvöl án dvalarleyfis, hverjir þurfi dvalarleyfi, um útgáfu dvalarleyfis, skilyrði dvalarleyfis, meðal annars um dvalarleyfi af mannúðarástæðum, endurnýjun dvalarleyfis, um búsetuleyfi og afturköllun leyfa. Þar eru og ákvæði um dvalarleyfi fyrir aðstandendur og um tilkynningarskyldu. Þá eru þar ákvæði um dvalarleyfi vegna sameiginlegrar verndar vegna fjöldaflótta og um sérstakt bráðabirgðadvalarleyfi.
    Í IV. kafla eru reglur um frávísun og brottvísun. Um er að ræða mun ítarlegri reglur en að gildandi lögum um skilyrði þess að vísa megi útlendingi frá landi og úr landi.
    Í V. kafla eru reglur um meðferð mála en í gildandi lögum eru fá ákvæði um málsmeðferð. Þannig eru þar ákvæði um andmælarétt, leiðbeiningarskyldu, miðlun upplýsinga úr landi, vanhæfi, öflun sönnunargagna fyrir dómi, rannsóknarúrræði, kæruheimild, hvenær ákvörðun getur komið til framkvæmda og um framkvæmd ákvörðunar og loks um réttaraðstoð.
    Í VI. kafla eru sérreglur um útlendinga sem falla undir samninginn um Evrópska efnahagssvæðið. Um er að ræða reglur um dvalarleyfi og um synjun landgöngu og brottvísun EES-útlendinga. Reglur um þetta efni eru nú í sérstakri reglugerð um dvöl útlendinga sem falla undir samninginn um Evrópska efnahagssvæðið hér á landi. Eðlilegt þykir að meginákvæði um þetta efni verði í lögum.
    Í VII. kafla er að finna reglur um vernd gegn ofsóknum og um flóttamenn. Ákvæði þessi eru verulega ítarlegri en í gildandi lögum, til dæmis er flóttamannahugtakið skilgreint. Í kaflanum eru ákvæði um vernd gegn ofsóknum, um rétt til hælis, réttaráhrif hælis, ferðaskírteini fyrir flóttamenn og vegabréf fyrir útlendinga og um flóttamannahópa.
    Í VIII. kafla er að finna ýmis ákvæði. Þar eru sérákvæði vegna öryggis ríkisins, um upplýsinga- og tilkynningarskyldu, um vinnslu persónuupplýsinga og um ábyrgð á kostnaði og refsiákvæði.
    IX. kafli hefur loks að geyma almenna reglugerðarheimild og ákvæði um gildistöku.

V.

    Til að gefa gleggri mynd af málefnum útlendinga hér á landi hefur Útlendingaeftirlitið tekið saman ýmsar tölfræðilegar upplýsingar. Í þeim upplýsingum kemur fram fjöldi erlendra farþega til landsins og hve margir af þeim voru áritunarskyldir, fjöldi útgefinna dvalarleyfa, fjöldi synjana um vegabréfsáritun og landgöngu og fjöldi brottvísana á árunum 1990–2000. Einnig kemur fram fjöldi erlendra ríkisborgara með búsetu hér á landi á árunum 1981–2000.

     Tafla 1. Fjöldi erlendra farþega til landsins.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


     Tafla 2. Fjöldi áritunarskyldra farþega til landsins.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.     Tafla 3. Fjöldi útgefinna dvalarleyfa.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


     Tafla 4. Fjöldi synjana um vegabréfsáritun.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
    Tafla 5.
Fjöldi synjana um landgöngu.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
     Tafla 6. Fjöldi brottvísana.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


     Tafla 7. Fjöldi erlendra ríkisborgara með búsetu á Íslandi.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.
Um I. kafla.

    Í I. kafla er að finna almenn ákvæði, um gildissvið nýrra laga og um tilgang þeirra, auk ákvæðis um hverjir skuli annast framkvæmd laganna.

Um 1. gr.

    Í þessari grein er fjallað um gildissvið laganna. Ákvæðum laganna er ætlað að gilda um yfirráðasvæði hins íslenska ríkis en þó fyrst og fremst landið sjálft þar sem um er að ræða ákvæði um heimild útlendinga til að koma til landsins og dvöl þeirra hér á landi.
    Eins og nánar er rakið í almennum athugasemdum voru með stjórnarskipunarlögum, nr. 97 28. júní 1995, sett ákvæði í 2. mgr. 66. gr. stjórnarskrárinnar um að rétti útlendinga til að koma til landsins og dveljast hér, svo og fyrir hverjar sakir sé hægt að vísa þeim úr landi, skuli skipað með lögum. Í athugasemdum við þetta ákvæði í frumvarpi til stjórnarskipunarlaganna segir að með þessu sé fyrst og fremst lögð skylda á löggjafann að setja lög til að girða fyrir að framkvæmdarvaldið hafi ákvörðunarvald um þessi efni án skýrra lögákveðinna skilyrða. Ákvæði frumvarpsins eru í samræmi við þennan áskilnað stjórnarskrárinnar.
    Í 1. mgr. segir að ákvæði laganna gildi um heimild útlendinga til að koma til landsins og dvöl þeirra hér. Ákvæðið nefnir ekki för úr landi. Er skýringin á því sú að skv. 3. mgr. 66. gr. stjórnarskrárinnar verður engum meinað að hverfa úr landi nema með ákvörðun dómara. Þó má stöðva brottför manns úr landi með lögmætri handtöku. Þetta kemur hins vegar ekki í veg fyrir að settar séu reglur um eftirlit með brottför úr landi, sbr. 1. mgr. 2. gr. og 4. gr.
    Samkvæmt 1. mgr. kemur fram að ákvæðunum er ætlað að gilda um útlendinga, en útlendingur telst hver sá sem ekki er íslenskur ríkisborgari samkvæmt lögum um íslenskan ríkisborgararétt, sbr. lög nr. 100 23. desember 1952. Ákvæðið kemur ekki í veg fyrir að mismunandi reglur gildi um einstaka flokka útlendinga. Þannig hafa ýmis ákvæði frumvarpsins að geyma sérreglur um norræna ríkisborgara. Þá leiðir af aðild Íslands að þjóðréttarsamningum, annars vegar samningi um stjórnmálasamband frá 18. apríl 1961, sbr. lög nr. 16 31. mars 1971, og hins vegar samningi um ræðissamband frá 24. apríl 1963, sbr. lög nr. 4 24. febrúar 1978, að ákvæðin geta ekki nema að hluta til náð til útlendinga sem eru starfsmenn sendiráða eða sendiræðisskrifstofa eða fjölskyldna þeirra. Sama er um aðra útlendinga sem njóta úrlendisréttar. Sérreglur gilda um réttarstöðu liðs Bandaríkjanna samkvæmt viðbæti við varnarsamning Íslands og Bandaríkjanna, sbr. lög nr. 110 19. desember 1951. Um útlendinga sem falla undir samninginn um Evrópska efnahagssvæðið gilda og sérreglur sem fram koma í VI. kafla, sbr. 2. mgr.
    Með 3. mgr. er lögð áhersla á að íslenskir ríkisborgarar geta einnig borið skyldur samkvæmt lögunum. Þannig segir í 4. gr. að hver sá sem kemur til landsins skuli gefa sig fram við vegabréfaeftirlitið. Þá verður tilkynningarskylda lögð á íslenska ríkisborgara skv. 54. gr. og refsiábyrgð skv. 57. gr.
    Í 4. mgr. er tekið fram að íslensk skip í siglingum erlendis falli ekki undir gildissvið laganna. Lögin gilda hins vegar um íslensk skip sem verið hafa í siglingum erlendis þegar þau koma til íslenskrar hafnar.

Um 2. gr.

    Í þessari grein er tilgangi laganna lýst. Í 1. mgr. segir að lögunum sé ætlað að veita heimild til að halda uppi nauðsynlegu eftirliti með komu til landsins og för úr landi og með dvöl útlendinga hér á landi. Útlendingur á að þjóðarétti ekki rétt til að flytja inn í annað land til að setjast þar að. Um það fer þá eftir landslögum. Stjórnvöldum er þannig nauðsyn að hafa stjórn á og eftirlit með flutningi útlendinga til landsins. Skal þetta gert í samræmi við stefnu stjórnvalda hverju sinni. Stefna stjórnvalda mundi meðal annars koma fram í þeim reglum sem settar verða um framkvæmd laga um útlendinga. Stefnan getur varðað almennar takmarkanir á komu útlendinga til landsins. Hún getur einnig varðað takmarkanir á komu til landsins sérstaklega með hliðsjón af vinnuaflsþörf í landinu, svo og tekið mið af almennri stefnu í utanríkismálum eða af atriðum sem varða öryggi ríkisins. Frumvarpið hefur þannig að geyma sérstakan kafla um komu og brottför (II. kafla), auk annarra ákvæða um þetta efni, til dæmis III. kafla um dvöl og búsetu og ákvæða um brottvísun. Gert er ráð fyrir að nánari ákvæði um þetta verði sett í reglugerð, sbr. 1. mgr. 3. gr.
    Samkvæmt 2. mgr. er lögunum ætlað að kveða á um réttarstöðu útlendinga sem falla undir þau. Þannig eru í V. kafla ítarlegar reglur um málsmeðferð sem meðal annars kveða á um leiðbeiningarskyldu, um skipun réttargæslumanns eða talsmanns og um réttaraðstoð.

Um 3. gr.

    Í greininni er tiltekið hverjir skuli annast framkvæmd laganna og hvernig verkaskiptingu milli þeirra skuli háttað. Dómsmálaráðherra fer með yfirstjórn mála samkvæmt lögunum og setur nánari reglur um heimild útlendinga til að koma til landsins og dveljast hér á landi. Nauðsynlegt verður að setja reglur er kveði nánar á um heimild útlendinga til að koma til landsins, hvaða skilyrðum þeir þurfi að fullnægja í því sambandi o.s.frv. Þessar reglur og beiting þeirra mundu taka mið af stefnu stjórnvalda hverju sinni að því er varðar heimild útlendinga til að koma til landsins, dveljast hér á landi og starfa, sbr. 1. mgr. 2. gr.
    Samkvæmt 2. mgr. verður framkvæmd laganna einkum í höndum Útlendingastofnunar og lögreglunnar. Útlendingastofnun er nýtt heiti á Útlendingaeftirlitinu sem þykir betur hæfa hlutverki stofnunarinnar. Af öðrum stjórnvöldum sem koma að framkvæmd laganna má nefna að gert er ráð fyrir að sendiráðum, fastanefndum og ræðismönnum verði ætlað að taka á móti umsóknum um vegabréfsáritun og dvalarleyfi og gefa út áritanir að fenginni heimild Útlendingastofnunar, svo sem verið hefur. Sendiráðum, fastanefndum og ræðismönnum kann einnig að verða heimilað að taka ákvörðun um útgáfu vegabréfsáritana, sbr. 5. mgr. 6. gr. Utanríkisráðuneytið sjálft hefur einnig hlutverki að gegna, svo sem að því er varðar erlenda stjórnarerindreka, við gerð milliríkjasamninga um afnám vegabréfsáritana og við framkvæmd reglna um vegabréfsáritanir. Þá sinna bæði utanríkisráðuneytið og félagsmálaráðuneytið málum sem varða flóttamenn, auk þess sem félagsmálaráðuneytið fer með mál er varða atvinnuréttindi útlendinga.
    Samkvæmt reglugerð um Stjórnarráð Íslands, sbr. auglýsingu nr. 96 31. desember 1969, fer utanríkisráðuneytið með mál er varða framkvæmd varnarsamnings Íslands og Bandaríkjanna, „þar á meðal innan marka varnarsvæðanna, lögreglumál, og önnur þau mál, er leiðir af dvöl hins erlenda varnarliðs í landinu“, sbr. lög um yfirstjórn mála á varnarsvæðunum o.fl., nr. 106 17. desember 1954. Utanríkisráðherra fer þannig með mál er varða málefni útlendinga vegna framkvæmdar varnarsamningsins.
    Í 4. mgr. er gert ráð fyrir að dómsmálaráðherra kveði á um starfssvið einstakra stofnana að því leyti sem lögin kveða ekki á um það, svo sem að því er varðar tengsl Útlendingastofnunar, lögreglunnar og utanríkisþjónustunnar.

Um II. kafla.

    Í II. kafla er að finna almennar reglur um komu til landsins og brottför. Í kaflanum eru ákvæði um vegabréfaeftirlit, vegabréfaskyldu og vegabréfsáritanir, svo og ákvæði um áhafnir skipa og loftfara.

Um 4. gr.

    Í greininni er fjallað um vegabréfaeftirlit. Gert er ráð fyrir að slíku eftirliti verði hagað í samræmi við þær reglur sem gilda innan Schengen-samstarfsins.
    Samkvæmt 1. mgr. skal hver sá sem kemur til landsins þegar í stað gefa sig fram við vegabréfaeftirlitið eða næsta lögregluyfirvald. Sama skylda hvílir einnig á þeim sem fer af landi brott. Þessi skylda hvílir ekki aðeins á útlendingum heldur einnig íslenskum ríkisborgurum. Ákvæðið tekur mið af 6. gr. Schengen-samningsins sem gerir ráð fyrir eftirliti á landamærum bæði við komu og brottför af Schengen-svæðinu. Eftirlitinu ber að haga í samræmi við þá grein samningsins en í grófum dráttum má segja að það feli í sér athugun á því hvort fullnægt sé skilyrðum fyrir komu og brottför af Schengen-svæðinu. Þessi könnun á meðal annars að taka tillit til þess hvort fyrir hendi sé eitthvert þeirra atriða sem leiða á til þess að útlendingi verði vísað frá við komu til landsins, sbr. 18. gr. frumvarpsins. Eftirlit samkvæmt þessari grein á við um ytri landamæri Schengen-svæðisins og gildir því gagnvart þeim sem koma frá ríkjum sem ekki taka þátt í því samstarfi. Beinlínis er tekið fram að eftirlitið eigi ekki við um þá sem fara yfir innri landamæri Schengen-svæðisins og er hér fylgt ákvæðum 1. mgr. 2. gr. Schengen-samningsins um að persónueftirliti skuli ekki framfylgt við för yfir innri landamæri. Með innri landamærum er átt við sameiginleg landamæri þátttökuríkjanna á landi, svo og flughafnir fyrir innansvæðisflug og hafnir fyrir reglubundnar ferjusiglingar sem eru eingöngu á milli hafna á yfirráðasvæðum þátttökuríkjanna án viðkomu í höfnum sem eru utan þessara yfirráðasvæða, sbr. skilgreiningu í 1. gr. samningsins. Frá tilkynningarskyldu má að öðru leyti víkja með reglum sem dómsmálaráðherra setur. Slík undanþága gæti til dæmis náð til þeirra sem eru í áhöfn skips eða loftfars og láta ekki af starfi, sbr. 7. gr. Afnám persónueftirlits á innri landamærum hefur hins vegar engin áhrif á tollgæslu þar sem 4. mgr. 2. gr. samningsins um eftirlit með vörum gildir ekki gagnvart Íslandi og Noregi, sbr. 1. hluta viðauka A við Brussel-samning um þátttöku Íslands og Noregs í framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerða frá 18. maí 1999.
    Í 2. mgr. segir að koma til landsins og för úr landi skuli fara fram á stöðum og afgreiðslutímum sem dómsmálaráðherra ákveður. Þetta ákvæði er efnislega samhljóða 1. mgr. 3. gr. Schengen-samningsins og í samræmi við gildandi reglur, sbr. reglugerð um landamærastöðvar og tilkynningarskyldu flytjenda, nr. 223/2001. Lagt er til að víkja megi frá reglum um landamærastöðvar og afgreiðslutíma með leyfi hlutaðeigandi lögreglustjóra. Einnig er tekið fram í samræmi við 1. mgr. 2. gr. Schengen-samningsins að fara megi yfir innri landamæri svæðisins utan viðurkenndra landamærastöðva. Sú heimild breytir hins vegar engu um tollgæslu á landamærum og er það sérstaklega áréttað.
    Samkvæmt 3. mgr. setur dómamálaráðherra nánari reglur um komu- og brottfarareftirlit, sbr. 6. gr. Schengen-samningsins, svo og um undantekningu frá ákvæðum 1. og 2. mgr. og er þá höfð hliðsjón af 2. mgr. 2. gr. Schengen-samningsins sem felur í sér heimild til að taka upp tímabundið persónueftirlit á innri landamærum vegna allsherjarreglu eða þjóðaröryggis. Einnig er gert ráð fyrir að settar verði reglur um skyldu stjórnanda skips eða loftfars til að ganga úr skugga um að ferðamenn hafi gild ferðaskilríki.

Um 5. gr.

    Þessi grein fjallar um skyldu útlendinga til að hafa vegabréf eða annað kennivottorð sem viðurkennt er sem ferðaskilríki við komu til landsins nema annað sé ákveðið í reglum sem dómsmálaráðherra setur. Undanþágu frá vegabréfaskyldu getur leitt af samningum við önnur ríki, sbr. samkomulag Norðurlandanna frá 1954 um það efni.
    Þá er í 2. mgr. gert ráð fyrir að dómsmálaráðherra setji reglur um hvaða skilyrðum vegabréf eða annað kennivottorð þurfi að fullnægja til að teljast gilt til ferðar til landsins og dvalar. Helstu kröfur sem gerðar eru til vegabréfs eru að það sé gefið út af þar til bæru yfirvaldi í því ríki sem handhafinn er ríkisborgari, að það veiti handhafa þess rétt til að koma aftur til útgáfuríkisins eða þriðja ríkis og að það hafi að geyma fullnægjandi upplýsingar svo að greina megi hver handhafi þess er. Þá þarf vegabréf að bera með sér að það sé í gildi. Ýmis önnur ferðaskilríki eru viðurkennd sem ferðaskilríki í stað vegabréfs, svo sem kennivottorð gefin út af ýmsum ríkjum á meginlandi Evrópu. Samkvæmt EES-samningnum er skylt að viðurkenna slík kennivottorð gefin út í aðildarríkjunum. Hér koma einnig til álita önnur skilríki, til dæmis ferðaskírteini fyrir sjómenn (sjóferðabækur) o.fl.
    Í 3. mgr. er loks lagt til að Útlendingastofnun geti, ef sérstaklega stendur á, undanþegið útlending þeirri skyldu að hafa vegabréf eða viðurkennt önnur skilríki en leiðir af almennum reglum. Slík undanþága kann að verða veitt fyrir fram og þá meðhöndluð á svipaðan hátt og umsókn um vegabréfsáritun. Álitaefnið kann og að koma upp við komu til landsins. Ákvörðun um slíka undanþágu verður að byggjast á mati á aðstæðum hverju sinni.

Um 6. gr.

    Í þessari grein er fjallað um vegabréfsáritanir.
    Í 1. mgr. er lagt til að meginreglan verði sú að útlendingur þurfi að hafa vegabréfsáritun til að mega koma til landsins. Ef áritunarskyldur útlendingur kemur til landsins án áritunar er heimilt að vísa honum frá landi skv. a-lið 1. mgr. 18. gr. Þessi meginregla um áritunarskyldu er afdráttarlausari en ákvæði gildandi laga. Þar segir í 2. mgr. 1. gr. að dómsmálaráðherra geti kveðið á um hvort í vegabréfi skuli vera áritun um heimild til að koma til landsins. Að gildandi lögum er áritunarskylda því ekki fyrir hendi nema svo hafi verið ákveðið sérstaklega.
    Gert er ráð fyrir að dómsmálaráðherra geti sett reglur um að áritunar sé ekki þörf. Þessar undanþágur gætu varðað ríkisborgara einstakra landa, eftir atvikum bundið við tiltekin erindi, til dæmis ferðamenn, svo sem verið hefur. Slíkar undanþágur byggjast að sumu leyti á gagnkvæmum samningum ríkja en geta einnig verið ákveðnar einhliða. Í inngangsorðum norræna vegabréfaeftirlitssamningsins kemur fram að löndin „vilja í meginatriðum stefna að því að samræma kröfur um vegabréfsáritun og vilja leitast við að koma á samræmdum venjum að því er snertir veitingu vegabréfsáritana“. Þá segir í 9. gr. Schengen-samningsins að þátttökuríkin skuldbindi sig til að fylgja sameiginlegri stefnu í málefnum sem varði för fólks, „sérstaklega með tilliti til reglna um vegabréfsáritanir“. Í 3. kafla II. bálks samningsins eru síðan nánari ákvæði um vegabréfsáritanir, svo sem rakið er í kafla III.5 í almennum athugasemdum. Í reglum sem dómsmálaráðherra setur er gert er ráð fyrir að mælt verði fyrir um hvenær lögreglunni skuli heimilt samkvæmt ákvörðun Útlendingastofnunar og að fullnægðum nánari skilyrðum að leyfa útlendingi sem kemur til landsins án áritunar landgöngu.
    Vegabréfsáritun felur í sér heimild fyrir handhafa áritunarinnar til að koma til landsins og dveljast hér tiltekið tímabil. Þessi heimild er þó háð almennum takmörkunum sem gilda um rétt til að koma til landsins og dveljast hér á landi, þar á meðal reglum um frávísun. Ástæða þessa er bæði sú að könnun sem fram fer við meðferð á umsókn um vegabréfsáritun byggist oft á ótraustum forsendum, svo og að aðstæður útlendingsins eftir að áritunin var gefin út kunna að hafa breyst þannig að nú liggi fyrir forsendur til að vísa honum frá landi eða úr landi. Vegabréfsáritun getur hvort heldur verið færð inn á vegabréf eða gefin út á sérstöku skjali.
    Lagt er til að útlendingur sem hefur dvalarleyfi útgefið af ríki sem tekur þátt í Schengen-samstarfinu verði undanþeginn áritunarskyldu. Þetta tekur mið af því að útlendingur með slíkt leyfi getur ferðast frjálst um yfirráðasvæði hinna Schengen-ríkjanna í allt að þrjá mánuði, sbr. 1. mgr. 21. gr. Schengen-samningsins. Í 1. gr. samningsins kemur fram að með dvalarleyfi er átt við leyfi sem þátttökuríki gefur út og veitir rétt til dvalar á yfirráðasvæði þess. Með dvalarleyfi er hins vegar ekki átt við bráðabirgðaleyfi til dvalar á yfirráðasvæði þátttökuríkis á meðan beiðni um hæli eða umsókn um dvalarleyfi er til meðferðar. Skv. 2. mgr. 21. gr. samningsins hefur útlendingur með slíkt bráðabirgðaleyfi og ferðaskilríki útgefin af sama ríki sömu heimild til að ferðast um Schengen-svæðið og útlendingur með dvalarleyfi. Því er lagt til að útlendingur með þessi leyfi verði einnig undanþeginn áritunarskyldu.
    Í 2. mgr. er lagt til að vegabréfsáritun sem gefin er út af ríki sem tekur þátt í Schengen-samstarfinu hafi gildi hér á landi. Þetta er nauðsynlegt til að fullnægja skuldbindingum skv. 9. og 10. gr. Schengen-samningsins um samræmda vegabréfsáritun og sameiginlega stefnu ríkjanna í þeim málum. Til að vegabréfsáritun útgefin af öðru ríki hafi gildi hér á landi verður það að koma fram í sjálfri árituninni. Í 16. gr. Schengen-samningsins er gert ráð fyrir að þátttökuríkin geti gefið út vegabréfsáritun sem gildir eingöngu fyrir viðkomandi ríki. Áritun annars Schengen-ríkis af því tagi hefur því ekki gildi hér á landi.
    Í 3. mgr. er gert ráð fyrir að dómsmálaráðherra geti sett reglur um skyldu til að hafa vegabréfsáritun til að fara um flugvöll. Slíkar reglur yrðu meðal annars að taka mið af b-lið 11. gr. Schengen-samningsins þar sem fjallað er um þessar áritanir. Varðandi tilhögun við útgáfu vegabréfsáritana hafa verið gefin út sameiginleg fyrirmæli til sendiráða og ræðisskrifstofa, en þar kemur fram í lið 2.1.1 í I. hluta að vegabréfsáritun til farar um flugvöll heimili útlendingi, sem sætir slíkri áritunarskyldu, að fara um gegnumfararsvæði flughafnar vegna millilendingar eða þegar skipt er um vél á alþjóðlegri flugleið með viðkomu á tveimur stöðum. Áritunin er bundin við þetta svæði flughafnarinnar og því má viðkomandi ekki yfirgefa það og fara inn á landsvæði ríkisins.
    Samkvæmt 4. mgr. getur vegabréfsáritun gilt fyrir eina eða fleiri komur til landsins og til allt að þriggja mánaða dvalar á nánar tilgreindu tímabili. Ákvörðun um hvort veita skuli vegabréfsáritun og til hve langs tíma hlýtur að ráðast af tilefni og öðrum ástæðum.
    Í 5. mgr. er tekið fram að Útlendingastofnun taki ákvörðun um umsókn um útgáfu vegabréfsáritunar. Miðað er við að umsóknir um vegabréfsáritun verði lagðar fram í skrifstofum sendiráða, fastanefnda og ræðisskrifstofa erlendis og þær sendar Útlendingastofnun til fyrirsagnar svo sem verið hefur. Viðkomandi sendiráð, fastanefnd eða ræðisskrifstofa mun síðan gefa áritunina út að fenginni heimild Útlendingastofnunar. Þá er gert ráð fyrir að dómsmálaráðherra geti heimilað utanríkisþjónustunni að taka ákvörðun um slíkar umsóknir. Slík heimild yrði veitt að höfðu samráði við utanríkisráðuneytið. Hún gæti náð til tiltekinna sendiráða, fastanefnda eða ræðisskrifstofa en ekki annarra. Í reglugerð um eftirlit með útlendingum, nr. 148/1965, er þannig heimild en hún hefur nánast ekkert verið notuð um langt skeið heldur hefur verið leitað fyrirsagnar Útlendingaeftirlitsins áður en áritun er veitt. Loks er lagt til að heimilt verði að fela utanríkisþjónustu annars ríkis sem tekur þátt í Schengen-samstarfinu að verða við umsókn um vegabréfsáritun fyrir hönd íslenskra stjórnvalda. Í þessu felst eingöngu heimild til að gefa út áritun en ekki til að synja um hana. Ef forsendur til að gefa út áritun teljast ekki fyrir hendi mundi umsækjanda tilkynnt að ekki væri unnt að taka umsókn til meðferðar og honum vísað á íslensk stjórnvöld. Gert er ráð fyrir þessari tilhögun í Schengen-samstarfinu og er nánari reglur þar að lútandi að finna í lið 1.1.2. í II. hluta í sameiginlegum fyrirmælum til sendiráða og ræðisskrifstofa. Í Schengen-samstarfinu er eingöngu gert ráð fyrir að sendiráð og útsendir ræðismenn gefi út vegabréfsáritun. Með gildistöku Schengen-samstarfsins hefur heimild kjörræðismanna til að gefa út áritun fallið niður. Til að bæta þjónustuna við þá sem hingað ætla hefur nú verið gert samkomulag við ýmis Schengen-ríki um að sendiráð þeirra og ræðismenn annist útgáfu vegabréfsáritana hingað til lands.

Um 7. gr.

    Greinin geymir sérreglu um áhafnir skipa og loftfara, svo og um laumufarþega. Útlendingur sem lætur af starfi um borð í skipi eða loftfari má ekki ganga á land án leyfis lögreglunnar. Samkvæmt gildandi lögum er þetta verkefni nú á vegum Útlendingaeftirlitsins. Nánari reglur um framkvæmd þessa munu verða settar í reglugerð. Ábyrgð á þessu mundi hvíla á skipstjóra eða umboðsmanni útgerðar sem tilkynnir lögreglunni um fyrirhugaða afskráningu og leitar heimildar til landgöngu. Sama gildir um laumufarþega. Ákvæði um stjórnvald í málum vegna synjunar landgöngu og um málskot gilda eftir því sem við á, sbr. 22. og 30. gr. Ef laumufarþegi ber fyrir sig aðstæður sem greinir í 1. mgr. 45. gr. mundi eiga að leggja mál fyrir Útlendingastofnun til meðferðar og ákvörðunar, sbr. 3. mgr. 18. gr.
    Í 2. mgr. er gert ráð fyrir að settar verði sérstakar reglur um landgönguleyfi útlendra sjómanna við dvöl skips í höfn og um heimild til að meina þeim landgöngu. Þær reglur gætu falið í sér almenna heimild áhafna til landgöngu meðan skip er í höfn, þó þannig að lögregla geti meinað þeim landgöngu ef nauðsyn ber til, auk þess sem heimild væri til eftirlits þegar ástæða þykir.

Um III. kafla.

    Í III. kafla er að finna reglur um dvöl og búsetu. Þar eru ákvæði um dvöl án dvalarleyfis, hverjir þurfi á dvalarleyfi að halda, um útgáfu dvalarleyfis, skilyrði fyrir útgáfu þess og endurnýjun, um búsetuleyfi, um afturköllun dvalarleyfis og búsetuleyfis, um sameiningu fjölskyldna og um tilkynningarskyldu. Þá eru þar ákvæði um dvalarleyfi vegna sameiginlegrar verndar vegna fjöldaflótta og um sérstakt bráðabirgðadvalarleyfi.

Um 8. gr.

    Hér eru ákvæði um dvöl án dvalarleyfis. Ákvæðið tekur mið af 20. og 21. gr. Schengen-samningsins.
    Samkvæmt 1. mgr. má útlendingur sem fengið hefur vegabréfsáritun ekki dveljast hér á landi lengur en þann tíma sem áritunin segir til um nema sérstakt leyfi komi til. Öðrum útlendingum er óheimilt án sérstaks leyfis að dveljast hér lengur en þrjá mánuði frá komu til landsins. Dvöl í öðru ríki sem tekur þátt í Schengen-samstarfinu telst jafngilda dvöl hér á landi. Gert er ráð fyrir að dómsmálaráðherra geti sett reglur um dvöl umfram þrjá mánuði ef það leiðir af þjóðréttarsamningi. Þessi heimild er í samræmi við 2. mgr. 20. gr. Schengen-samningsins. Þá er lagt til að unnt verði að setja nánari reglur um útreikning dvalartíma. Þær reglur yrðu að taka mið af Schengen-samningnum og norræna vegabréfaeftirlitssamningnum. Til lengri dvalar þarf jafnan sérstakt leyfi.
    Samkvæmt 2. mgr. eru norrænir ríkisborgarar undanþegnir áskilnaði um dvalarleyfi í samræmi við samkomulag Norðurlandanna um það efni frá 1954. Þá er og gert ráð fyrir að setja megi frekari reglur um undanþágu frá dvalarleyfi. Slík undanþága gæti til dæmis náð til þeirra sem koma til stuttrar dvalar og undanþegnir eru atvinnuleyfi skv. 14. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga.

Um 9. gr.

    Hér er kveðið á um hverjir þurfi dvalarleyfi. Hver útlendingur sem hyggst ráða sig í vinnu, hvort heldur er fyrir endurgjald eða án þess, eða stunda sjálfstæða atvinnustarfsemi hér á landi þarf, auk atvinnuleyfis þar sem það er áskilið að lögum, að hafa dvalarleyfi nema dvöl sé heimil án dvalarleyfis skv. 2. mgr. 8. gr.
    Í 2. mgr. er tekið fram að útlendingur sem hyggst dveljast hér lengur en honum er heimilt skv. 1. mgr. 8. gr. þarf að hafa dvalarleyfi. Þetta gildir um þann tíma sem er lengur en vegabréfsáritun kveður á um varðandi þá sem þurfa að hafa slíka áritun eða lengri dvöl en þrjá mánuði að því er varðar þá sem heimil er koma til landsins án leyfis.

Um 10. gr.

    Hér er kveðið á um útgáfu dvalarleyfis. Meginreglan er sú að sótt skal um fyrsta dvalarleyfi og það veitt áður en komið er til landsins. Er það í samræmi við gildandi meginreglu að leyfis skuli aflað áður en komið er til landsins. Reglan á við um útlendinga sem ekki þurfa vegabréfsáritun jafnt sem áritunarskylda. Gert er ráð fyrir að frá þessu megi víkja ef ríkar sanngirnisástæður mæla með, en það gæti til dæmis átt við ef um er að ræða náin fjölskyldutengsl við einhvern búsettan hér á landi.
    Samkvæmt 2. mgr. skal dvalarleyfi sem veitt er fyrsta sinni að jafnaði gefið út til eins árs. Þetta mundi vera meginreglan. Hins vegar er heimilt að gefa út dvalarleyfi til skemmri tíma eða allt að tveimur árum ef rétt þykir vegna tilgangs dvalarinnar eða af öðrum ástæðum. Sem dæmi um dvalarleyfi til skemmri tíma má nefna það ef tilefni dvalar, t.d. vinna, nær einungis til takmarkaðs tíma eða þegar dvöl skyldmennis ræðst af dvalarleyfi ættingja. Óheppilegt er að dvalarleyfi gildi lengur en nemur raunverulegri dvöl. Skiptir það máli, svo sem vegna eftirlits ef útlendingur er horfinn af landi brott. Sama er ef leyfishafi fullnægir ekki lengur skilyrðum leyfis. Þá kynni að þurfa að beita afturköllun. Dvalarleyfi til lengri tíma mundi eins geta ráðist af tilgangi dvalar, til dæmis vinnu sem fyrirhuguð er í afmarkaðan tíma. Hámarkslengd dvalarleyfis er þó bundin við tvö ár.
    Í 3. mgr. er loks kveðið á um að Útlendingastofnun taki ákvörðun um dvalarleyfi.

Um 11. gr.

    Hér er kveðið á um hver skuli vera skilyrði dvalarleyfis. Það að skilyrðum er fullnægt veitir heimild til útgáfu dvalarleyfis en ekki rétt til leyfis. Skilyrðin eru tilgreind í a–c-lið 1. mgr.
    Útlendingur skal í fyrsta lagi hafa trygga framfærslu, sjúkratryggingu og húsnæði. Gert er ráð fyrir að ráðherra setji nánari reglur um þetta. Trygg framfærsla getur ráðist af launatekjum eða greiðslum fyrir sjálfstæða starfsemi, en einnig af lífeyrisgreiðslum, fjármagnstekjum, námslánum, rannsókna- eða námsstyrksgreiðslum, svo að eitthvað sé nefnt. Greiðslur úr félagslega kerfinu mundu hins vegar ekki veita rétt til dvalarleyfis. Sjúkratrygging er nauðsynleg þar til útlendingur öðlast rétt til almannatrygginga samkvæmt reglum sem um þær gilda. Þá mundi húsnæði þurfa að fullnægja kröfum heilbrigðisyfirvalda.
    Þá skal útlendingur fullnægja skilyrðum fyrir dvalarleyfi sem sett eru í reglum skv. 1. mgr. 3. gr. Í þeim reglum mundu koma fram meginskilyrði fyrir útgáfu dvalarleyfis.
    Loks er það skilyrði dvalarleyfis að ekki liggi fyrir atvik sem valdið geta því að útlendingnum verði meinuð landganga hér á landi eða dvöl samkvæmt öðrum ákvæðum laganna. Þau atvik, sem geta leitt til synjunar, eru ákvæðin um frávísun og brottvísun í 18.–20. gr., sbr. og ákvæði 52. gr. Miða ber við að fyrir hendi sé ástæða sem muni leiða til synjunar.
    Samkvæmt 2. mgr. má veita útlendingi dvalarleyfi, þótt skilyrðum sé annars ekki fullnægt, ef rík mannúðarsjónarmið standa til þess eða vegna sérstakra tengsla útlendingsins við landið. Undir fyrra atriðið mundu geta fallið útlendingar sem ekki mundu njóta reglna 1. mgr. 44. gr. eða 1. mgr. 45. gr. Síðara atriðið gæti til dæmis náð til útlendings sem áður hefur búið í landinu eða ættingja sem ekki falla undir ákvæði 13. gr.
    Í 3. mgr. er nýmæli sem eru reglur um svokallað bráðabirgðadvalarleyfi. Samkvæmt þeim er lagt til að Útlendingastofnun geti gefið út bráðabirgðadvalarleyfi til útlendings í undantekningartilvikum. Þessi tilvik eru nánar tiltekið af tvennum toga. Um er að ræða tilvik þar sem útlendingur uppfyllir hvorki skilyrði til að öðlast dvalarleyfi né hæli, og þá heldur ekki dvalarleyfi af mannúðarástæðum. Annars vegar er ráðgert að unnt verði að veita hælisumsækjanda bráðabirgðadvalarleyfi sem gildir þar til endanleg ákvörðun hefur verið tekin um hælisumsóknina. Hins vegar er lagt til að heimilt verði að veita bráðabirgðadvalarleyfi til útlendings sem fengið hefur endanlega synjun um hæli eða dvalarleyfi og gildir þá bráðabirgðadvalarleyfið þar til synjunin kemur til framkvæmda.
    Meðferð umsóknar um hæli getur af ýmsum ástæðum tekið langan tíma, m.a. vegna gagnaöflunar í tengslum við rannsókn og meðferð máls, og einnig eru oft örðugleikar á að framkvæma synjun um hæli eða dvalarleyfi. Af þeim sökum þykir rétt að unnt verði að veita útlendingi sem þannig stendur á fyrir bráðabirgðadvalarleyfi til að gera honum kleift að afla sér tekna með vinnu sér til framfærslu.
    Ekki er þó gert ráð fyrir að þessi heimild taki sjálfkrafa til allra sem þannig stendur á um. Þannig yrði heimildinni ekki beitt ef umsækjandi ber sjálfur ábyrgð á þessari aðstöðu, svo sem vegna þess að hann hefur ekki verið samvinnuþýður við úrlausn máls. Þegar skilríkjalaus útlendingur t.d. neitar að gefa á sér deili eða láta í té upplýsingar um ríkisfang eða heimaland og ekki er vitað hvaðan hann kemur kemst synjunin ekki til framkvæmda. Þar sem ómöguleikinn stafar af því að útlendingur neitar samvinnu við úrlausn málsins verða hins vegar ekki forsendur til útgáfu bráðabirgðadvalarleyfis.
    Bráðabirgðadvalarleyfi er ekki markaður ákveðinn tími. Það gildir á meðan umsókn um hæli er til meðferðar eða þar til unnt verður að framkvæma synjun um hæli eða dvalarleyfi. Tilgangur ákvæðisins er þannig fyrst og fremst sá að leggja grunn að því að veita megi útlendingnum atvinnuleyfi svo að hann geti framfleytt sér. Er því lagt til að tekið verði sérstaklega fram að bráðabirgðadvalarleyfi hafi ekki önnur réttaráhrif en þau sem sérstaklega er getið í lögum. Með þessu er undirstrikað að slíkt leyfi er samkvæmt eðli sínu aðeins til bráðabirgða. Því er ráðgert að sett verði sérregla í lög um atvinnuréttindi útlendinga þar sem bráðabirgðadvalarleyfi veitir útlendingi rétt til þess að fá tímabundið atvinnuleyfi á meðan bráðabirgðadvalarleyfið gildir.

Um 12. gr.

    Í 1. mgr. er gert ráð fyrir að dómsmálaráðherra geti tekið ákvörðun um að við sérstakar aðstæður þegar fjöldi fjöldi flóttamanna flýr tiltekið landsvæði skuli beitt sérstökum ákvæðum greinarinnar sem fela í sér heimild til að veita dvalarleyfi á grundvelli sameiginlegrar verndar. Ákvörðun um það hvenær slíkt ástand hefur skapast að ástæða sé til að tala um fjöldaflótta mundi að jafnaði vera tekin að undangengnu nánara samráði, innan lands sem utan, þar á meðal við Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna. Með sama hætti mun dómsmálaráðherra taka ákvörðun um hvenær slík ákvörðun skuli niður falla. Ákvæði þessa efnis voru tekin í norsk lög á árinu 1997 og var þeim beitt í sambandi við flóttafólk frá Kósóvó en áður höfðu þar verið sett sérstök lög er tóku til flóttafólks frá Bosníu-Hersegóvínu.
    Gert er ráð fyrir að þegar ákvörðun skv. 1. mgr. hefur verið tekin verði unnt að veita þeim sem frá slíku svæði koma vernd á grundvelli hópmats (sameiginlega vernd) og að útlendingar sem þannig koma fái dvalarleyfi sem ekki myndar heimild til útgáfu búsetuleyfis. Slíkt leyfi mundi mega hvort heldur er endurnýja eða framlengja í allt að þrjú ár frá því að leyfi var fyrst veitt, sbr. 3. mgr. Heimild til að framlengja leyfi felur í sér að Útlendingastofnun getur af sjálfsdáðum framlengt leyfi. Þá er miðað við að endurnýjun eða framlenging verði að jafnaði til eins árs í senn. Að árunum þremur liðnum mundi mega veita dvalarleyfi á grundvelli sameiginlegrar verndar sem getur myndað heimild til útgáfu búsetuleyfis. Á þessu stigi kann útlendingur hins vegar að leggja fram ósk um að umsókn hans um hæli verði tekin til meðferðar, sbr. 4. mgr., og ef orðið verður við þeirri ósk eða dvalarleyfi verður veitt af mannúðarástæðum, sbr. 2. mgr. 11. gr., mundi dvalarleyfi sem reist er á mati á einstaklingnum koma í stað dvalarleyfis sem byggt er á sameiginlegri vernd. Að liðnu einu ári með slíkt dvalarleyfi sem byggist á sameiginlegri vernd er heimilt að gefa út búsetuleyfi, enda séu skilyrði til að halda slíku leyfi enn fyrir hendi og skilyrðum að öðru leyti fullnægt, sbr. 15. gr.
    Ákvörðun um sameiginlega vernd mundi fyrst og fremst ná til útlendinga frá viðkomandi svæði sem koma til landsins eftir að ákvörðunin er tekin. Útlendingur, sem er í landinu og á mál óafgreitt hjá stjórnvöldum, mundi einnig falla undir ákvörðunina. Ákvörðunin útilokar ekki að mál hljóti meðferð sem umsókn um hæli en skv. 4. mgr. verður hins vegar heimilt að leggja slíkar umsóknir til hliðar í allt að þrjú ár. Að því leyti sem ákvörðun um að tilteknir flóttamenn frá viðkomandi svæði megi koma til landsins í flóttamannahópi sem ekki er kominn til landsins þegar ákvörðun er tekin skv. 1. mgr. mundi slíkur hópur hins vegar ekki falla undir ákvörðun um sameiginlega vernd.
    Samkvæmt 4. mgr. má leggja umsókn um hæli til hliðar í allt að þrjú ár frá því að umsækjandinn fékk fyrst leyfi. Þegar heimildin til að veita sameiginlega vernd er niður fallin eða þegar þrjú ár eru liðin frá því að umsækjandinn fékk fyrst leyfi verður umsókn um hæli þó ekki tekin sjálfkrafa til meðferðar. Er þá áskilið að umsækjanda um hæli skuli tilkynnt að umsóknin verði ekki tekin til meðferðar nema hann láti í ljós ótvíræða ósk um það innan tilskilins frests.


Um 13. gr.

    Hér er kveðið á um rétt útlendings sem telst til nánustu aðstandenda íslensks ríkisborgara eða annars norræns ríkisborgara sem búsettur er hér á landi, eða útlendings sem dvelst eða fær að dveljast löglega í landinu samkvæmt dvalarleyfi sem ekki er háð takmörkunum eða búsetuleyfi, til að fá dvalarleyfi. Réttur manna til friðhelgi einkalífs og fjölskyldu nýtur verndar skv. 71. gr. stjórnarskrárinnar og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Með dvalarleyfi sem ekki er háð takmörkunum er átt við leyfi sem getur orðið grundvöllur búsetuleyfis, sbr. 15. gr. Útlendingi, sem telst til nánustu aðstandenda, er með ákvæðinu tryggður réttur til dvalar hér á landi samkvæmt nánari reglum. Er þar einkum um að ræða að ekki liggi fyrir atvik sem tilgreind eru í c-lið 1. mgr. 11. gr., auk áskilnaðar um framfærslu, sjúkratryggingu og húsnæði.
    Í 2. mgr. er rakið hverjir teljist nánustu aðstandendur íslensks ríkisborgara eða útlendings í skilningi 1. mgr. Er átt við maka, sambúðarmaka, niðja yngri en 18 ára og á framfæri viðkomandi og ættmenni hans eða maka að feðgatali og á þeirra framfæri.
    Í 3. mgr. er tekið fram að dvalarleyfi aðstandanda útlendings skuli gefið út til sama tíma og leyfi þess síðarnefnda, þó þannig að það gildi ekki lengur en leyfi hans. Réttur aðstandandans til dvalarleyfis er leiddur af dvalarleyfi útlendingsins og er því eðlilegt að dvalarleyfi aðstandandans taki mið af því.

Um 14. gr.

    Greinin fjallar um endurnýjun dvalarleyfis. Eins og um fyrsta dvalarleyfi er hér um heimild til útgáfu að ræða en ekki rétt til leyfis, enda sé fullnægt skilyrðum 11. gr.
    Endurnýjað dvalarleyfi skal að jafnaði gefið út til eins árs. Gert er ráð fyrir að gefa megi leyfið út fyrir annað tímabil, til dæmis níu eða átján mánuði, ef rétt þykir vegna tilgangs dvalarinnar eða af öðrum ástæðum, en þó ekki til lengri tíma en tveggja ára. Um þetta má að öðru leyti vísa til athugasemda við 2. mgr. 10. gr.
    Í 3. mgr. er kveðið á um rétt útlendings til dvalar meðan umsókn um endurnýjun dvalarleyfis er til meðferðar. Er kveðið svo á að útlendingi, sem sækir um endurnýjun dvalarleyfis, megi heimila áframhaldandi dvöl með sömu skilyrðum þar til ákvörðun hefur verið tekin um umsóknina og að hann eigi rétt á því ef hann leggur umsókn fram a.m.k. mánuði áður en leyfið fellur úr gildi.

Um 15. gr.

    Greinin fjallar um búsetuleyfi sem er nýmæli. Í framkvæmd hefur þó útlendingum, sem svo háttar um sem lýst er í greininni, verið veitt svonefnt óbundið dvalarleyfi sem felur í sér rétt til ótímabundinnar dvalar hér á landi. Hér er um að ræða heimild til að veita útlendingi, sem dvalist hefur í landinu samfellt síðustu þrjú ár samkvæmt dvalarleyfi sem ekki er háð takmörkunum, þ.e. leyfi sem gefið er út með varanlega dvöl í huga, búsetuleyfi. Gert er ráð fyrir að skemmri dvöl erlendis, til dæmis vegna orlofs, starfs eða náms, leiði ekki til þess að dvölin teljist ekki samfelld. Forsendur fyrir útgáfu búsetuleyfis mundu vera að skilyrðum fyrir útgáfu dvalarleyfisins sé enn fullnægt þannig að leyfið verði ekki afturkallað. Rétturinn er háður því skilyrði að ekki liggi fyrir ástæður sem valdið geta því að honum verði vísað úr landi, sbr. 1. mgr. 20. gr., og að hann hafi sótt námskeið í íslensku fyrir útlendinga. Markmið með slíku námskeiði væri að veita útlendingi innsýn í tungumálið til að auðvelda honum að aðlagast íslensku þjóðfélagi. Eðlilegt er að gera kröfu til þess að sá sem leitar eftir búsetuleyfi hafi lokið slíku námskeiði. Á hinn bóginn þykir ekki ástæða til að gera sérstakar kröfur um námsárangur, til að mynda að sá sem lokið hefur námskeiði hafi náð góðum tökum á málinu eða tali það reiprennandi.
    Búsetuleyfi felur í sér rétt til ótímabundinnar dvalar. Sá sem hefur búsetuleyfi nýtur ríkari verndar gegn frávísun og brottvísun, sbr. 21. gr. Ákvæði 3. mgr. 14. gr. gilda um umsóknir um búsetuleyfi eftir því sem við á.
    Forsenda búsetuleyfis er að hlutaðeigandi búi hér á landi. Því er tekið fram í 4. mgr. að búsetuleyfi falli niður þegar leyfishafi hefur verið búsettur eða dvalist í raun erlendis samfellt lengur en 12 mánuði. Gert er ráð fyrir að Útlendingastofnun þurfi að taka sjálfstæða ákvörðun um brottfall búsetuleyfis. Þá er gert ráð fyrir að fallast megi á umsókn útlendings um lengri dvöl erlendis án þess að búsetuleyfi falli úr gildi.
    Í 5. mgr. er gert ráð fyrir að dómsmálaráðherra setji reglur um námskeið í íslensku fyrir útlendinga. Þar skal meðal annars kveðið á um lengd námskeiðs, lágmarkstímasókn og vottorð til staðfestingar þátttöku. Gert er ráð fyrir að hvert námskeið standi í u.þ.b. 2–3 mánuði og verði stundað samhliða vinnu. Þá er heimilt að mæla fyrir um undanþágu frá þátttöku í námskeiði fyrir útlendinga sem náð hafa viðhlítandi þekkingu í íslensku og staðist hafa próf því til staðfestingar. Loks er lagt til að heimilt verði að ákveða með reglugerð gjald fyrir þátttöku í námskeiði skv. 1. mgr. og fyrir að þreyta próf til að fá undanþágu frá því að sitja námskeið. Í samræmi við almennar reglur er miðað við að slíkt gjald taki mið af kostnaði við námskeiðahald og próf, þ.m.t. umsjón og skipulag, kennslu- og námsgögn og launakostnaður. Gert er ráð fyrir að gjaldið yrði áætlað með hliðsjón af meðalþátttöku og því tæki það ekki mið af raunverulegri þátttöku í hvert og eitt skipti.

Um 16. gr.

    Greinin fjallar um afturköllun dvalarleyfis og búsetuleyfis. Gert er ráð fyrir að Útlendingastofnun verði heimilt að afturkalla dvalarleyfi og búsetuleyfi ef útlendingur hefur við umsókn, gegn betri vitund, veitt rangar upplýsingar eða leynt atvikum sem hefðu getað haft verulega þýðingu við leyfisveitinguna eða ekki er lengur fullnægt skilyrðum fyrir veitingu dvalarleyfis eða búsetuleyfis eða það að öðru leyti leiðir af almennum stjórnsýslureglum. Meta verður hverju sinni hvort heimild þessi skuli nýtt.

Um 17. gr.

    Greinin kveður á um skyldu útlendings til að tilkynna um komu sína og dvöl. Í fyrsta lagi er útlendingi sem fengið hefur dvalarleyfi áður en hann kom til landsins skylt að gefa sig fram við Útlendingastofnun eða embætti sýslumanns utan Reykjavíkur innan viku frá komu. Meginreglan er að dvalarleyfi fyrsta sinni skuli gefið út áður en komið er til landsins, sbr. 10. gr. Nauðsynlegt er að yfirvöld hafi vitneskju um komu þeirra sem fá dvalarleyfi fyrir fram til landsins, meðal annars til að ákvarða gildistíma dvalarleyfisins. Gert er ráð fyrir að útlendingurinn mæti sjálfur hjá Útlendingastofnun eða hlutaðeigandi sýslumanni utan Reykjavíkur. Jafnframt mundi þá verða gengið eftir því að skilyrðum dvalarleyfis sé fullnægt, til dæmis um læknisvottorð, ef því er að skipta. Sama tilkynningarskylda hvílir á útlendingi sem hyggst sækja um dvalarleyfi eða að öðru leyti þarfnast slíks leyfis. Slíkt mundi einkum eiga við um þá sem undanþegnir eru meginreglunni um að fyrsta dvalarleyfi skuli hafa verið veitt fyrir komu til landsins, sbr. 1. mgr. 10. gr.
    Í 2. mgr. er ákvæði þess efnis að útlendingur sem flytur heimili sitt meðan mál samkvæmt lögunum er til meðferðar skuli tilkynna lögreglunni um flutninginn. Hins vegar er ekki gert ráð fyrir almennri lagaskyldu útlendings til að tilkynna lögreglunni um heimili sitt. Gert er ráð fyrir að nægilegt sé að almennri tilkynningarskylda til þjóðskrár sé fullnægt, en skv. f-lið 1. mgr. 54. gr. má ákveða að þjóðskráin skuli tilkynna Útlendingastofnun um útlendinga sem þar eru skráðir eða teknir af skrá.
    Í 3. mgr. er loks gert ráð fyrir að dómsmálaráðherra geti sett reglur um að útlendingur sem ekki þarf dvalarleyfi skuli tilkynna lögreglunni um heimili sitt hér á landi og um vinnu sína og starf. Þótt heimildin sé almennt orðuð er einkum höfð í huga tilkynningarskylda þeirra sem ekki þurfa dvalarleyfi skv. 2. málsl. 2. mgr. 8. gr.

Um IV. kafla.

    Í IV. kafla er að finna reglur um frávísun og brottvísun. Um er að ræða mun ítarlegri reglur en eru í 10.–12. gr. gildandi laga um skilyrði þess að synja megi útlendingi landgöngu og vísa brott úr landi. Hugtakið frávísun kemur í stað synjunar landgöngu um það þegar útlendingi er meinuð landganga. Er gert ráð fyrir að heimild til að vísa útlendingi frá landinu verði einnig notuð eftir komu hans til landsins. Á því ekki lengur við að tala um synjun landgöngu í þessu sambandi.

Um 18. gr.

    Í greininni er fjallað um heimildir til að vísa útlendingi frá landi. Heimild til að vísa útlendingi frá landi samkvæmt greininni gildir við komu til landsins og í allt að sjö sólarhringa þar á eftir. Oftast mun ákvörðun verða tekin þegar við komu til landsins, en annars er nægilegt að meðferð máls hefjist innan sjö sólarhringa frestsins, sbr. 2. mgr.
    Heimildir til að vísa útlendingi frá landi eru nánar tilgreindar í 1. mgr. Í 21. gr. er hins vegar að finna takmarkanir á þessari heimild að því er varðar útlendinga sem fæddir eru hér á landi eða fullnægja skilyrðum til að fá búsetuleyfi.
    Lögreglustjóri tekur ákvörðun um frávísun skv. a–i-lið 1. mgr., en aðrar ákvarðanir um frávísun tekur Útlendingastofnun, sbr. 1. mgr. 22. gr.
    Ákvæði greinarinnar taka mið af 6. gr. norræna vegabréfaeftirlitssamningsins og 5. gr. Schengen-samningsins. Norræna samninginn ber þá að skoða með hliðsjón af viðauka við þann samning sem gerður var til að fullnægja skuldbindingum Norðurlandanna samkvæmt Schengen-samningnum þannig að ákvæði þessara tveggja samninga rekist ekki á.
    Samkvæmt a-lið er heimilt að vísa frá landi útlendingi sem ekki fullnægir reglum sem settar eru um vegabréf, vegabréfsáritun eða komu til landsins. Reglur um þetta munu byggjast á ákvæðunum í II. kafla um komu og dvöl. Vegabréf þarf þannig að vera gilt bæði að formi til og efni, þar á meðal að því er varðar gildistíma. Ákvæðið svarar að nokkru til 1. tölul. 1. mgr. 10. gr. gildandi laga og er hliðstætt a-lið 1. mgr. 6. gr. norræna vegabréfaeftirlitssamningsins og a- og b-lið 1. mgr. 5. gr. Schengen-samningsins.
    Samkvæmt b-lið er heimilt að vísa frá landi þeim sem vísað hefur verið úr landi hér eða í öðru norrænu ríki og ef endurkomubann er enn í gildi og honum hefur ekki verið veitt heimild til að koma til landsins. Ákvæðið svarar til 7. tölul. 1. mgr. 10. gr. gildandi laga. Um endurkomubann er fjallað í 3. mgr. 20. gr. frumvarpsins. Skv. f-lið 1. mgr. 6. gr. norræna vegabréfaeftirlitssamningsins gildir brottvísun og endurkomubann til hinna Norðurlandanna einnig hér. Þrátt fyrir það er íslenskum stjórnvöldum heimilt að leyfa þeim sem er með endurkomubann að koma til landsins.
    Samkvæmt c-lið er heimilt að vísa frá landi þeim sem ekki hefur tilskilið leyfi til dvalar eða vinnu, sbr. b-lið 1. mgr. 6. gr. norræna vegabréfaeftirlitssamningsins. Meginreglan er að leyfa þessara skal aflað áður en komið er til landsins. Einnig er heimilt að vísa útlendingi frá landi ef hann getur ekki leitt líkur að þeim tilgangi sem gefinn er upp fyrir dvölinni. Hér er fylgt efnislega samhljóða ákvæði í c-lið 1. mgr. 5. gr. Schengen-samningsins. Hvaða kröfur verða gerðar í þessum efnum verður að meta í hverju tilviki fyrir sig. Við það mat ber að hafa hliðsjón af sameiginlegri handbók sem gefin hefur verið út um landamæraeftirlit á Schengen-svæðinu.
    Samkvæmt d-lið er heimilt að vísa frá landi þeim sem ekki getur sýnt fram á að hann hafi eða eigi tryggð nægileg fjárráð til dvalar hér á landi og til heimferðar, sbr. og c-lið 1. mgr. 6. gr. norræna vegabréfaeftirlitssamningsins og c-lið 1. mgr. 5. gr. Schengen-samningsins. Meta þarf hverju sinni hvenær útlendingur telst hafa nægileg fjárráð til framfærslu og til heimferðar. Skilyrði um nægileg fjárráð til framfærslu mundi til dæmis teljast fullnægt ef útlendingur hefur fengið útgefið dvalar- og atvinnuleyfi áður en hann kemur til landsins eða, ef um ferðamann er að ræða, hann hefur nægilegan farareyri. Skilyrði um nægileg fjárráð til heimferðar yrði til dæmis fullnægt með framvísun farmiða.
    Samkvæmt e-lið er heimilt að vísa frá landi þeim sem hlotið hefur refsingu eins og greinir í b- eða c-lið 1. mgr. 20. gr. (um brottvísun) eða sérstök ástæða er til af öðrum ástæðum að óttast að hann muni fremja hér á landi eða í öðru norrænu landi refsiverðan verknað sem varðað getur fangelsi lengur en þrjá mánuði, sbr. einnig e-lið 1. mgr. 6. gr. norræna vegabréfaeftirlitssamningsins. Heimildir til frávísunar og til brottvísunar eru þær sömu þegar svo stendur á að útlendingur hefur á síðustu fimm árum afplánað refsingu erlendis eða verið dæmdur þar til refsingar fyrir háttsemi sem getur varðað meira en þriggja mánaða fangelsi að íslenskum lögum. Það er sjálfur refsiramminn samkvæmt íslenskum lögum sem hér skiptir máli. Sem dæmi um tilvik sem fallið geta undir þetta má nefna útlendinga sem fremja auðgunarbrot sem ferðamenn og óróaseggi sem fylgja keppnisliðum í knattspyrnu. Ákvæðið getur einnig náð til þess að útlendingur hlýtur refsingu hér á landi eftir komu til landsins. Ekki er þörf á að meta hvort ástæða sé til að ætla að útlendingurinn muni brjóta af sér eftir komu til landsins. Það að útlendingurinn hefur framið refsiverðan verknað er í sjálfu sér talið hafa í för með sér ítrekunarhættu. Ef á hinn bóginn eitthvað bendir til að ástæðulaust sé að óttast nýjan refsiverðan verknað mundi þó tæplega rétt að vísa útlendingi frá landinu. Ástæður, sem greinir í síðari hluta e-liðar, um að útlendingur kunni að fremja refsiverðan verknað, og hér gætu komið til, geta til dæmis verið upplýsingar frá alþjóðalögreglunni Interpol eða að vopn eða tæki finnast í fórum útlendings sem benda til að hann komi til landsins til að fremja afbrot.
    Samkvæmt f-lið er heimilt að vísa frá landi útlendingi ef reglur 6. gr. norræna vegabréfaeftirlitssamningsins eiga við og ætla má að hann muni fara til annars norræns ríkis og að honum muni að öllum líkindum verða vísað frá landi þar vegna þess að ekki er fullnægt reglum um vegabréf eða vegabréfsáritun, eða frávísun er heimil af öðrum ástæðum í viðkomandi ríki. Ákvæðið vísar til allra frávísunarástæðna í 6. gr. samningsins. Beiting þessa ákvæðis verður að byggjast á mati á því hvort útlendingurinn ætli að fara annað. Farmiði til annars ríkis gæti þannig verið fullnægjandi tilefni.
    Samkvæmt g-lið er heimilt að vísa frá landi útlendingi ef hann að mati læknis getur ekki ráðið persónulegum högum sínum sjálfur meðan á dvöl hér stendur eða hætta er á að hann muni með framkomu sinni valda sér eða öðrum tjóni. Sama gildir ef hann er haldinn alvarlegum smitsjúkdómi. Við mat á því hvort þessari frávísunarheimild verður beitt verður að líta til allra aðstæðna útlendings, þar með talið hvort hann njóti umsjár samferðamanna eða honum sé tryggð viðhlítandi umönnun hér á landi.
    Samkvæmt h-lið er heimilt að vísa frá landi útlendingi ef hann hefur ekki greitt kostnað hins opinbera af fyrri færslu hans úr landi. Um þetta vísast til 1. mgr. 56. gr. frumvarpsins.
    Samkvæmt i-lið er heimilt að vísa frá landi útlendingi sem er skráður í Schengen-upplýsingakerfið í því skyni að honum verði synjað um komu til landsins. Þetta ákvæði leiðir af d-lið 1. mgr. 5. gr. Schengen-samningsins.
    Loks má skv. j-lið vísa útlendingi frá landi ef það er nauðsynlegt vegna allsherjarreglu, þjóðaröryggis eða alþjóðasamskipta ríkisins eða annars ríkis sem tekur þátt í Schengen- samstarfinu. Þetta ákvæði er samhljóða e-lið 1. mgr. 5. gr. Schengen-samningsins.
    Samkvæmt 2. mgr. er nægjanlegt að meðferð máls hefjist innan sjö sólarhringa frestsins sem greinir í upphafi 1. mgr. Að jafnaði mun ákvörðun um frávísun tekin í beinum tengslum við komu til landsins. Meðferð máls telst að öðru leyti hefjast þegar útlendingi er tilkynnt að honum kunni að verða vísað frá landi eða eftir atvikum að hann er handtekinn eða færður til yfirheyrslu.
    Í 3. mgr. er kveðið á um að ef útlendingur ber að hann sé flóttamaður eða veitir að öðru leyti upplýsingar sem benda til að ákvæði 1. mgr. 45. gr. eigi við skuli leggja málið fyrir Útlendingastofnun til meðferðar og ákvörðunar. Ákvæði þetta svarar til 4. mgr. 10. gr. gildandi laga.
    Loks er lagt til að í 4. mgr. verði að finna heimild til að setja reglur sem víkja frá skilyrðum 1. mgr. þegar í hlut á útlendingur sem hefur vegabréfsáritun eða dvalarleyfi útgefið af ríki sem tekur þátt í Schengen-samstarfinu. Á grundvelli þessarar heimildar verður unnt að fullnægja skuldbindingum skv. 3. mgr. 5. gr. og 18. gr. Schengen-samningsins um heimild útlendinga til gegnumferðar á leið til annarra ríkja sem taka þátt í samstarfinu.

Um 19. gr.

    Samkvæmt 18. gr. er heimilt að vísa útlendingi frá landi við komu til landsins eða allt að sjö sólarhringum þar á eftir. Í þessari grein er heimilað að vísa útlendingi frá landi eftir reglum 1. mgr. 18. gr. þótt sjö sólarhringa fresturinn sé liðinn. Þau atvik sem geta valdið því að vísa beri útlendingi frá landi kunna að koma upp eftir að sá frestur er liðinn. Ákvörðun um frávísun samkvæmt þessari heimild tekur Útlendingastofnun en ekki lögreglustjóri, sbr. 1. mgr. 22. gr. Þessi heimild til frávísunar að liðnum sjö sólarhringa frestinum er þó bundin því að meðferð máls hefjist innan þriggja mánaða frá komu útlendings til landsins. Að þeim tíma liðnum verður því að beita brottvísun skv. 20. gr. til að koma útlendingi úr landi.
    Samkvæmt 2. mgr. verður útlendingi sem hefur dvalarleyfi eða búsetuleyfi ekki vísað frá landi samkvæmt greininni. Ákvæðið nær þannig einkum til ferðamanna og þeirra sem eru í heimsókn og þess háttar.

Um 20. gr.

    Í greininni er fjallað um heimildir til að vísa útlendingi úr landi (brottvísun).
    Ástæður brottvísunar eru þrenns konar. Í fyrsta lagi þegar útlendingur hefur brotið gegn ákvæðum laganna eða hann kemur sér hjá að hlíta ákvörðun sem felur í sér að hann skuli yfirgefa landið, í öðru lagi ef útlendingur hefur verið dæmdur fyrir alvarleg brot erlendis eða hérlendis og í þriðja lagi ef það það er nauðsynlegt vegna öryggis ríkisins.
    Takmarkanir á heimild til brottvísunar koma fram í 2. mgr., svo og í 21. gr. að því er varðar útlendinga sem fæddir eru hér á landi eða hafa búsetuleyfi. Ákvörðun um brottvísun verður tekin hvort heldur útlendingurinn er hér á landi eða ekki, enda felur brottvísun í sér bann við að koma aftur til landsins.
    Við beitingu reglna um brottvísun ber að hafa hliðsjón af ákvæðum um vernd gegn ofsóknum, sbr. 4. mgr. 45. gr.
    Samkvæmt a-lið 1. mgr. er í fyrsta lagi heimilt að vísa útlendingi úr landi ef hann hefur brotið alvarlega eða margsinnis gegn einu eða fleiri ákvæðum laganna. Hér undir mundu geta fallið fleiri en eitt brot gegn lögunum sem hvert fyrir sig telst ekki alvarlegt. Skv. c-lið 1. mgr. 11. gr. er það skilyrði dvalarleyfis að ekki liggi fyrir atvik sem valdið geta því að útlendingi verði meinuð landganga eða dvöl. Útlendingur sem vísa má úr landi á þannig ekki kröfu á dvalarleyfi þótt öðrum skilyrðum sé fullnægt. Í annan stað er heimilt að vísa útlendingi úr landi ef hann kemur sér hjá að hlíta ákvörðun sem felur í sér að hann skuli yfirgefa landið. Undir þetta mundu geta fallið ákvarðanir um að vísa útlendingi frá landi, synjun á umsókn um fyrsta dvalarleyfi eða endurnýjun leyfis eða synjun á umsókn um hæli þegar dvalarleyfi verður heldur ekki gefið út á grundvelli mannúðarsjónarmiða eða um afturköllun leyfis. Þessir útlendingar hafa ekki lengur leyfi til að dveljast í landinu. Aðrir útlendingar kunna hins vegar að dveljast ólöglega í landinu án þess að fyrir liggi ákvörðun um að þeir skuli yfirgefa landið. Þá mundi eftir atvikum mega beita brottvísun á grundvelli fyrri hluta a-liðar eða frávísun á grundvelli 19. gr., sbr. c-lið 1. mgr. 18. gr.
    Samkvæmt b-lið 1. mgr. nær heimild til brottvísunar til þess ef útlendingur hefur afplánað refsingu erlendis á síðustu fimm árum eða verið dæmdur þar til refsingar á sama tíma enda geti brotið að íslenskum lögum varðað fangelsi lengur en þrjá mánuði. Það er því refsiramminn sem slíkur samkvæmt íslenskum lögum sem skiptir máli. Samsvarandi gildir um sérstakar ráðstafanir sem ákvarðaðar eru vegna refsiverðrar háttsemi sem fellur undir liðinn.
    Samkvæmt c-lið 1. mgr. er heimilt að vísa útlendingi úr landi ef hann hefur verið dæmdur hér á landi til refsingar eða til að sæta öryggisráðstöfunum fyrir háttsemi sem getur varðað fangelsi lengur en þrjá mánuði eða verið dæmdur oftar en einu sinni á síðustu þremur árum til fangelsisrefsingar. Einnig hér er það refsiramminn sem skiptir máli.
    Samkvæmt d-lið 1. mgr. er loks heimilt að vísa útlendingi úr landi ef það er nauðsynlegt vegna öryggis ríkisins eða almannahagsmuna.
    Í 2. mgr. er kveðið á um að við ákvörðun um það hvort vísa skuli útlendingi úr landi skv. a-, b- og c-lið 1. mgr. skuli horft til málsatvika og tengsla útlendingsins við landið. Skal ekki ákveða brottvísun ef hún af þessum ástæðum mundi fela í sér ósanngjarna ráðstöfun gagnvart honum eða nánustu ættingjum hans. Þannig ber ekki einungis að líta til sjálfs refsirammans heldur og til dæmdrar refsingar og þess hvort um er að ræða fleiri dóma. Þá getur verið eðlilegt og sanngjarnt að meira þurfi til að vísa útlendingi sem dvalist hefur í landinu um lengri tíma úr landi en þeim sem haft hefur stutta viðdvöl. Fjölskyldutengsl koma hér og til álita. Þannig er ákveðið í 2. málsl. 2. mgr. að útlendingi sem hefur dvalarleyfi og norrænum ríkisborgara sem hefur átt heimili hér á landi lengur en þrjá mánuði megi því aðeins vísa úr landi að hin refsiverða háttsemi geti varðað eins árs fangelsi eða meira.
    Samkvæmt 3. mgr. hefur brottvísun í för með sér bann við komu til landsins síðar. Endurkomubannið getur verið fyrir fullt og allt eða um tiltekinn tíma sem að jafnaði skal ekki vera skemmri en þrjú ár. Endurkomubannið felur jafnframt í sér bann við komu útlendings sem ekki er norrænn ríkisborgari til annars norræns lands án sérstaks leyfis. Samkvæmt umsókn er þó heimilt að heimila þeim sem vísað hefur verið úr landi endurkomu en það skal að jafnaði ekki gert fyrr en tvö ár eru liðin frá brottför. Slík ákvörðun gæti þá náð til einstakrar ferðar til landsins en þyrfti ekki að fela í sér brottfall bannsins. Við ákvörðun um hvort útlendingi skuli heimiluð endurkoma skal meðal annars taka mið af persónuhögum viðkomandi og fjölskyldu hans. Ákvörðun um brottvísun er í höndum Útlendingastofnunar, sbr. 1. mgr. 22. gr.

Um 21. gr.

    Í greininni felast takmarkanir á heimild til að vísa frá landi eða úr landi útlendingi sem hefur tiltekin tengsl við landið.
    Samkvæmt 1. mgr. er óheimilt að vísa frá landi eða úr landi útlendingi sem fæddur er hér á landi og hefur átt hér fast heimili óslitið síðan. Auk fæðingar hér á landi þarf að hafa verið um að ræða órofna búsetu hér allan tímann. Skemmri dvöl erlendis mundi þó ekki leiða til þess að búseta teljist rofin, sbr. athugasemdir við 1. mgr. 15. gr.
    Samkvæmt 2. mgr. eru svo takmarkanir á heimild til að vísa frá landi eða úr landi útlendingi sem hefur búsetuleyfi. Þessum útlendingum má því aðeins vísa frá landi eða úr landi að þess sé annaðhvort nauðsyn vegna öryggis ríkisins (a-liður) eða að um hafi verið að ræða afplánun refsingar eða refsidóm fyrir háttsemi þar sem refsirammi að íslenskum lögum er þriggja ára fangelsi eða meira (b-liður), þ.e. hærri en segir í 18. og 20. gr. Þá er áskilið að ef um er að ræða afplánun refsingar eða refsidóm hér á landi hafi það átt sér stað árið áður. Eins og í b-lið 1. mgr. 20. gr. er tekið fram að samsvarandi gildi um sérstakar ráðstafanir sem ákvarðaðar eru vegna refsiverðrar háttsemi.
    Samkvæmt 3. mgr. gilda um brottvísun skv. b-lið 2. mgr. auk þessa sömu sjónarmið og fram koma í 1. málsl. 2. mgr. 20. gr.

Um 22. gr.

    Í greininni er kveðið á um hvaða stjórnvald fari með mál og undirbúning máls sem varðar frávísun eða brottvísun.
    Samkvæmt 1. mgr. er það meginregla að lögreglustjóri taki ákvörðun um frávísun. Undan eru þó skilin mál skv. j-lið 1. mgr. 18. gr., mál þar sem reynir á ákvæði 1. mgr. 45. gr., sbr. 3. mgr. 18. gr., og mál sem falla undir 19. gr. Útlendingastofnun tekur aðrar ákvarðanir.
    Samkvæmt 2. mgr. skal lögregla undirbúa mál sem Útlendingastofnun tekur ákvörðun um. Telji lögregla að skilyrði séu til að vísa útlendingi frá landi eða úr landi sendir hún gögn málsins Útlendingastofnun til ákvörðunar.

Um V. kafla.

    Í kaflanum er að finna reglur um meðferð mála. Gildandi lög geyma fá ákvæði um það efni en frumvarpið gerir meðal annars ráð fyrir að lögfestar verði heimildir um rannsóknarúrræði, að kæruheimildir verði rýmkaðar og að settar verði reglur um framkvæmd ákvarðana. Nýmæli er einnig að gert er ráð fyrir að við tilteknar aðstæður skuli útlendingi veitt réttaraðstoð með skipun talsmanns og að hann skuli njóta þjónustu túlks.

Um 23. gr.

    Greinin felur í sér almenna tilvísun til þess að við meðferð mála samkvæmt lögunum skuli fara eftir stjórnsýslulögum, sbr. lög nr. 37 30. apríl 1993, nema annað leiði af öðrum ákvæðum laganna. Mál samkvæmt lögunum falla undir stjórnsýslu ríkisins og því gilda stjórnsýslulögin um þau. Ákvæðið er því fyrst og fremst sett í upplýsingaskyni. Þar sem frumvarpið hefur að geyma sérákvæði munu þau ákvæði hins vegar gilda.

Um 24. gr.

    Í 1. mgr. segir að áður en ákvörðun sé tekin í máli útlendings skuli hann eiga þess kost að tjá sig um efni máls skriflega eða munnlega, enda komi ekki fram í gögnum málsins afstaða hans og rök fyrir henni eða slíkt sé augljóslega óþarft. Þegar útlendingur beinir til stjórnvalda umsókn samkvæmt lögunum ætti afstaða hans að hafa komið fram með fullnægjandi hætti og því þyrfti venjulega ekki að veita honum frekara færi á að tjá sig um málið. Réttur útlendings til að tjá sig skriflega er ekki fyrir hendi þegar honum ber að tjá sig munnlega við vegabréfaeftirlit eða lögreglu.
    Samkvæmt 2. mgr. skal stjórnvald eftir því sem unnt er sjá um að í máli vegna umsóknar um hæli eða máli þar sem ákvæði 45. gr. eiga við, svo og í máli er varðar frávísun eða brottvísun, eigi útlendingur kost á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri á tungumáli sem hann getur tjáð sig á svo að viðunandi sé. Þetta felur ekki í sér rétt útlendings til að leggja fram sjónarmið á eigin máli eða máli heimalands. Af ákvæðinu leiðir að stjórnvaldinu ber að útvega túlk þegar þess er þörf þannig að útlendingurinn geti tjáð sig svo að viðunandi sé. Stjórnvaldi ber að sjá til þess að útlendingurinn hafi hæfilegan tíma til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Frestur ræðst af eðli ákvörðunar hverju sinni og kann því að vera stuttur í málum vegna frávísunar. Frest má þó ekki ákvarða svo stuttan að útlendingurinn eigi þess ekki raunverulegan kost að tjá sig.

Um 25. gr.

    Í greininni er kveðið á um sérstaka leiðbeiningarskyldu stjórnvalda í málum er varða útlendinga. Í þeim málum sem ákvæðið nær til skal stjórnvald leiðbeina útlendingi um hvaða rétt hann á til að leita aðstoðar lögmanns eða annars fulltrúa, um rétt hans á að fá sér skipaðan talsmann, sbr. 2. mgr. 34. gr., og um rétt hans til að hafa samband við fulltrúa heimalands síns (sendiráð eða ræðisskrifstofu) og til að hafa samband við fulltrúa Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og mannúðar- eða mannréttindasamtök hér á landi, svo sem Rauða kross Íslands. Leiðbeiningarskyldan hvílir á stjórnvaldi þegar mál hefst og því fyrst og fremst á lögreglunni.
    Leiðbeiningarskylda þessi kemur til viðbótar almennum ákvæðum 7. gr. stjórnsýslulaga. Ákvæðið stendur ekki í vegi fyrir að útlendingur hafi samband við hvern þann sem hann óskar. Leiðbeiningarskyldan gildir um tiltekin mál, þ.e. um mál er varða frávísun, brottvísun eða afturköllun leyfis, svo og í máli vegna umsóknar um hæli. Það leiðir af eðli máls að sá sem sækir um hæli mun að jafnaði ekki leita eftir sambandi við fulltrúa heimalands síns.

Um 26. gr.

    Með greininni er lagt til að stjórnvöldum sem fara með málefni útlendinga verði heimilt að láta erlendum stjórnvöldum í té upplýsingar um útlending vegna meðferðar á máli er varðar vegabréfsáritun, dvalarleyfi eða hæli að því marki sem nauðsynlegt er vegna skuldbindinga Íslands sem þátttakanda í Schengen-samstafinu og samstarfi samkvæmt Dyflinnarsamningnum. Einnig er lagt til að dómsmálaráðherra geti sett nánari reglur um hvaða upplýsingar megi veita og um skilyrði sem þarf að fullnægja til að upplýsingar verði veittar. Þessi heimild er til að fullnægja þeim þjóðréttarlegu skuldbindingum sem Ísland hefur gengist undir með þátttöku í Schengen-samstarfinu.
    Í Schengen-samstarfinu er í ákveðnum tilvikum gert ráð fyrir upplýsingagjöf milli þátttökuríkjanna um málefni sem varða útlendinga. Skv. 16. gr. Schengen-samningsins skal ríki, sem gefur út vegabréfsáritun til útlendings af mannúðarástæðum eða vegna þjóðarhagsmuna eða alþjóðlegra skuldbindinga, þótt hann fullnægi ekki skilyrðum fyrir komu inn á Schengen-svæðið, gera öðrum ríkjum grein fyrir þeirri ákvörðun. Í slíkri tilkynningu þarf að veita upplýsingar um viðkomandi útlending, svo sem nafn, fæðingardag, þjóðerni, útgáfudag og útgáfustað áritunar og ástæður fyrir útgáfu hennar. Nánari reglur um miðlun upplýsinga vegna vegabréfsáritana er að finna í 14. viðauka við sameignleg fyrirmæli til sendiráða og ræðisskrifstofa. Einnig er gert ráð fyrir að upplýsingum um útlendinga verði miðlað milli þátttökuríkjanna vegna útgáfu dvalarleyfis til útlendings sem er skráður í Schengen-upplýsingakerfið til að honum verði meinuð koma á svæðið, sbr. 25. gr. Schengen-samningsins. Þá er gert ráð fyrir miðlun upplýsinga skv. 15. gr. Dyflinnarsamningsins, svo sem nánar var rakið í kafla III.6 í almennum athugasemdum. Eftir því sem samstarf þátttökuríkjanna þróast má gera ráð fyrir að teknar verði ákvarðanir um frekari upplýsingagjöf milli ríkjanna um málefni sem varða útlendinga.

Um 27. gr.

    Greinin fjallar um sérstakt vanhæfi stjórnvalds til meðferðar máls. Opinber starfsmaður, sem tekið hefur þátt í meðferð opinbers máls á hendur útlendingi, má ekki taka þátt í undirbúningi að ákvörðun eða taka sjálfur ákvörðun í máli um frávísun, dvalarleyfi, búsetuleyfi eða brottvísun. Tilgangur ákvæðisins er að greina á milli starfa lögreglunnar að málum útlendinga annars vegar og starfa við meðferð refsimála hins vegar. Vanhæfið tekur þó ekki til mála vegna brota á ákvæðum laganna eða ákvæðum sem sett eru samkvæmt þeim. Að öðru leyti gilda vanhæfisreglur stjórnsýslulaga um meðferð mála.

Um 28. gr.

    Greinin fjallar um heimild útlendings og stjórnvalds sem fer með mál hans samkvæmt lögunum til að afla upplýsinga fyrir dómi. Greinin felur í sér undantekningu frá meginreglunni um rannsóknarskyldu stjórnvalds. Bæði stjórnvald og útlendingur geta lagt fram beiðni. Skilyrði er að upplýsinganna verði ekki aflað á annan hátt svo að fullnægjandi sé. Sem dæmi má nefna að nauðsynlegt þyki að yfirheyra vitni í þágu rannsóknar máls en viðkomandi neiti að tjá sig fyrir stjórnvaldi. Það er dómari sem ákveður hvort skilyrði eru til að fallast á beiðni. Um meðferð mála er vísað til XII. kafla laga um meðferð einkamála, nr. 91 31. desember 1991.
    Samkvæmt 2. mgr. gildir heimild til öflunar gagna fyrir dómi ekki þegar til meðferðar er mál gegn útlendingi um frávísun. Heimildin tekur þá ekki heldur til máls samkvæmt lögunum sem er til meðferðar samtímis máli vegna frávísunar, til dæmis beiðni um hæli. Nauðsynlegt er að meðferð máls vegna frávísunar sé hraðað. Því þarf að koma í veg fyrir að útlendingur geti notað heimild til að leita eftir skýrslutöku fyrir dómi í þeim tilgangi að tefja mál. Þá tekur heimildin ekki heldur til öflunar gagna þegar sá sem óskað er að gefi skýrslu fyrir dómi er erlendis.

Um 29. gr.

    Í greininni eru rakin þau úrræði sem stjórnvald hefur til að fá úr því skorið hver útlendingur er. Mjög hefur færst í vöxt að útlendingar komi til landsins án þess að hafa nokkur skilríki eða þeir framvísa fölsuðum skilríkjum. Margir farga skilríkjum sínum og gera stjórnvöldum þannig erfitt um vik að ganga úr skugga um hverjir þeir raunverulega eru. Miðað er við að útlendingur, sem ekki framvísar tilskildum skilríkjum, fái ekki landgöngu. Hins vegar þykir nauðsynlegt að gengið sé úr skugga um að útlendingur fái landvist á réttum forsendum, ekki síst með hliðsjón af þeirri grundvallarreglu að stjórnvöld skulu við úrlausn máls gæta samræmis og jafnræðis í lagalegu tilliti. Þá telst það vera andstætt þjóðfélagshagsmunum að í landinu sé búsettur fjöldi einstaklinga sem ekki er vitað hverjir raunverulega eru.
    Í 1. mgr. er fyrst tekið á því að vafi kann að vera um hvort útlendingur er sá sem hann segist vera. Meðan það liggur ekki ljóst fyrir er útlendingnum skylt að veita atbeina sinn til að upplýsa það. Stjórnvald skv. 2. mgr. 3. gr. sem fer með mál getur gefið slík fyrirmæli. Vafi kann einnig að koma upp um deili á útlendingi sem stjórnvöld hafa talið sig vita deili á. Þótt útlendingur hafi um árabil dvalist í landinu og deili á honum hafi virst rétt getur hlutaðeigandi stjórnvald lagt fyrir útlendinginn að veita atbeina sinn í þessu skyni, enda sé ástæða til að ætla að það sem skráð er um deili á útlendingnum sé ekki rétt. Gert er ráð fyrir að nánari reglur verði settar um hvað skylda má útlending til að gera til að fullnægja þessari skyldu. Hér gæti til dæmis verið um að ræða uppýsingagjöf, afhendingu nánar tilgreindra skjala eða þátttöku í tungumálaprófi.
    Samkvæmt 2. mgr. er lögreglunni heimilt, ef vafi leikur á hver útlendingur sé, við komu til landsins eða síðar, að leggja hald á ferðaskilríki, farseðla og annað sem getur verið til upplýsinga um hver hann er. Sama er ef vafi er um fyrri dvalarstað útlendings og það skiptir máli um rétt til dvalar hér á landi. Réttmæti haldlagningar má bera undir dómara, sbr. 79. gr. laga um meðferð opinberra mála, nr. 19 26. mars 1991, og skal lögregla benda útlendingi á þann rétt.
    Í 3. mgr. er kveðið á um úrræði sem lögregla hefur ef útlendingur veitir ekki atbeina til að upplýsa hver hann er eða um fyrri dvalarstað. Er þá annars vegar um að ræða að útlendingurinn, í bága við fyrirmæli sem greinir í 1. mgr., haldi eftir eða leyni upplýsingum um hver hann er og hins vegar að hann, í bága við fyrirmæli sem greinir í 53. gr., haldi eftir eða leyni upplýsingum um fyrri dvalarstað. Þegar þannig stendur á er lögreglunni heimilt að leita á útlendingnum sjálfum, á heimili hans, herbergi eða hirslum samkvæmt reglum laga um meðferð opinberra mála, eftir því sem við á. Heimild til leitar felur í sér heimild til leitar í fötum útlendingsins og í farartæki hans.
    Með 4. mgr. er lögreglunni veitt heimild til að taka ljósmyndir og fingraför útlendings. Þau tilvik þar sem heimild þessi gildir eru tilgreind nánar í fjórum liðum. Í fyrsta lagi þegar útlendingur getur ekki fært sönnur á hver hann er eða ef ástæða er til að ætla að útlendingurinn gefi rangt upp hver hann er. Slíkt mundi til dæmis heimilt ef grunur er um að útlendingur framvísi fölsuðu vegabréfi eða vegabréfi sem varðar annan mann en hann sjálfan. Í öðru lagi ef útlendingur leitar hælis eða sækir um leyfi samkvæmt lögunum. Í þriðja lagi ef útlendingi hefur verið synjað um hæli eða leyfi samkvæmt lögunum og í fjórða lagi ef útlendingi hefur verið vísað frá landi eða úr landi eða ætla má að hann dveljist hér ólöglega.
    Í 5. mgr. er tekið fram að fingraför megi færa í tölvufærða fingrafaraskrá samkvæmt nánari reglum sem ráðherra setur. Við færslu skrárinnar og notkun ber að sjálfsögðu að fylgja reglum um vernd persónuupplýsinga.
    Í 6. mgr. eru loks úrræði ef útlendingur neitar að gefa upp hver hann er eða rökstuddur grunur er um að hann gefi rangar upplýsingar um hver hann er. Getur lögregla þá lagt fyrir útlendinginn að tilkynna sig eða halda sig á ákveðnu svæði. Ef slíkum fyrirmælum er ekki sinnt eða þau teljast ófullnægjandi er lögreglu heimilt að handtaka útlendinginn og síðan er unnt úrskurða hann í gæsluvarðhald en til þess þarf atbeina dómara. Fer þá um það samkvæmt reglum XII. og XIII. kafla laga um meðferð opinberra mála eftir því sem við á. Skv. 34. gr. skal þá skipa útlendingi talsmann. Gæsla má ekki standa lengur en 12 vikur samanlagt nema sérstaklega standi á. Þá þörf metur dómari. Ef í beinu framhaldi af gæslu skv. 6. mgr. á að undirbúa framkvæmd ákvörðunar um að færa útlending úr landi er unnt að beita ákvæði 6. mgr. 33. gr. Geta þá sex vikur bæst við gæslutímann.

Um 30. gr.

    Í greininni er kveðið á um kærurétt til æðra stjórnvalds. Tekið er fram að ákvörðun lögreglunnar, svo og ákvörðun sendiráðs, fastanefndar eða ræðismanns skv. 5. mgr. 6. gr., megi kæra til Útlendingastofnunar en að öðru leyti megi kæra ákvörðun til dómsmálaráðuneytisins. Heimildir til að kæra ákvörðun eru þannig rýmkaðar og taka til allra ákvarðana en ekki einungis til ákvarðana um synjun dvalarleyfis, brottfall eða afturköllun dvalarleyfis, brottvísun eða synjun hælis, sbr. 12. gr. a í gildandi lögum. Ákvörðun Útlendingastofnunar sem æðra stjórnvalds verður ekki kærð.
    Lagt er til að kærufrestur verði óbreyttur frá því sem ákveðið var með lögum nr. 133/1993, 15 dagar, en almennur kærufrestur skv. 27. gr. stjórnsýslulaga, þrír mánuðir, þykir of langur í málum þessum. Kæru skal lýsa fyrir þeim sem kynnir ákvörðun sem kemur kærunni þá á framfæri við æðra stjórnvald. Kæru á frávísun skal þannig lýsa fyrir lögreglu. Að öðru leyti er gert ráð fyrir að um kæru fari skv. VII. kafla stjórnsýslulaga.

Um 31. gr.

    Í greininni eru ákvæði um hvenær einstakar ákvarðanir geta komið til framkvæmda. Um ákvarðanir í málum um hæli eða vernd gegn ofsóknum eru ákvæði í 30. gr.
    Samkvæmt 1. málsl. 1. mgr. má framkvæma ákvörðun um frávísun skv. 18. gr. þegar í stað í samræmi við almennar reglur. Gagnstæð regla um að kæra fresti ákvörðun mundi skapa verulega erfiðleika við framkvæmd útlendingaeftirlits. Ákvæðið felur hins vegar ekki í sér skyldu til að framkvæma ákvörðun um frávísun þegar í stað heldur verður það undir mati stjórnvalds komið. Um kærufrest fer skv. 2. mgr. 30. gr. Ákvæðið breytir ekki þeirri reglu að æðra stjórnvald megi ákveða að kæra fresti framkvæmd ákvörðunar. Þá ber að gæta þess að útlendingi sem vill kæra ákvörðun gefist tími til að leggja fram kæru. Skv. 2. málsl. 1. mgr. má ekki framkvæma synjun á umsókn um endurnýjun dvalarleyfis eða um búsetuleyfi ef sótt er um innan þess frests sem greinir í 3. mgr. 14. gr., þ.e. a.m.k. mánuði áður en leyfið fellur úr gildi, fyrr en ákvörðunin er endanleg. Ákvörðun er endanleg þegar kærufrestur er úti eða fyrir liggur endanleg stjórnsýsluákvörðun í kærumáli. Sama á við skv. 3. málsl. um ákvörðun um afturköllun skv. 16. gr. og um ákvörðun um brottvísun útlendings sem hefur dvalarleyfi eða búsetuleyfi eða norræns ríkisborgara sem hefur dvalið hér á landi lengur en þrjá mánuði. Hvað norræna ríkisborgara varðar er haft í huga að þeir þurfa ekki dvalarleyfi, sbr. 2. mgr. 8. gr. Af ákvæðinu leiðir að réttarstaða norræna ríkisborgara verður ekki lakari en útlendinga með dvalarleyfi, en slíkt leyfi þarf ef útlendingur hyggst dveljast hér lengur en þrjá mánuði. Skv. 4. málsl. gilda ákvæði 29. gr. stjórnsýslulaga að öðru leyti um frestun réttaráhrifa. Ákvörðun getur þá komið til framkvæmda þótt ákvörðun sé ekki orðin endanleg, einnig áður en kærufrestur rennur út, sbr. þó 2. mgr.
    Samkvæmt 2. mgr. gilda sérákvæði um synjun á umsókn um dvalarleyfi sem sótt er um í fyrsta sinn og á umsókn um endurnýjun sem greinir í 1. mgr. og sótt er um að liðnum fresti skv. 3. mgr. 14. gr. Þeirri synjun má ekki framfylgja fyrr en útlendingurinn hefur fengið færi á að leggja fram kæru og aldrei fyrr en liðnir eru tveir sólarhringar frá því að honum var tilkynnt um ákvörðunina.

Um 32. gr.

    Greinin hefur að geyma sérákvæði um hvenær ákvörðun í málum um hæli eða vernd gegn ofsóknum geti komið til framkvæmda.
    Meginreglan er sú skv. 1. mgr. að þegar útlendingur ber að aðstæður séu þannig að ákvæði 1. mgr. 45. gr. eigi við má ekki framkvæma ákvörðun um að hann skuli yfirgefa landið fyrr en ákvörðunin er endanleg. Undir ákvæðið falla ekki einungis þeir sem sækja um hæli heldur og þeir sem bera fyrir sig vernd gegn sendingu úr landi skv. 45. gr. Tvær undantekningar eru þó frá þessari reglu. Annars vegar er nefnt að Útlendingastofnun telji augljóst að aðstæður séu ekki þannig. Getur þá skipt máli hvert heimaríki hlutaðeigandi er eða fyrsta griðland sem senda á útlendinginn til. Hins vegar eru mál þar sem útlendingur á umsókn um hæli til meðferðar í öðru landi eða slíkri umsókn hefur verið hafnað þar. Þetta ákvæði byggist einnig á reglunni um fyrsta griðland. Ákvörðun í öðru landi um að útlendingur sé ekki flóttamaður verður þó ekki sjálfkrafa lögð til grundvallar hér á landi heldur verður að fara fram sjálfstætt mat á þeirri ákvörðun í máli sem er til meðferðar hverju sinni.
    Framkvæmd ákvarðana verður í höndum lögreglu. Skv. 2. mgr. skal lögregla leggja ákvörðun um frestun á framkvæmd fyrir Útlendingastofnun ef útlendingur ber fyrir sig aðstæður sem greinir í 1. mgr. 45. gr. þegar framkvæma á ákvörðunina og ekki kemur fram að afstaða hafi verið tekin til þeirra aðstæðna sem borið er við. Ef útlendingur ber fyrir sig aðstæður sem greinir í 1. mgr. 45. gr. þarf að taka afstöðu til verndar gegn sendingu úr landi áður en ákvörðun er tekin. Heimilt er þá að framkvæma ákvörðun ef útlendingur ber á ný fyrir sig sömu aðstæður. Útlendingurinn kann hins vegar að bera fyrir sig nýjar aðstæður í máli og álitaefni um vernd gegn sendingu úr landi kann fyrst að koma fram eftir að fyrir liggur ákvörðun sem á að framkvæma. Lögregla hefur hins vegar ekki heimild til að taka afstöðu til þess hvort útlendingurinn nýtur verndar skv. 1. mgr. 45. gr. og ber henni að leggja málið fyrir Útlendingastofnun. Ef Útlendingastofnun telur augljóst að slík skilyrði séu ekki fyrir hendi getur hún ákveðið að ákvörðunin skuli koma til framkvæmda. Ef hún hins vegar telur ekki augljóst að skilyrðin séu fyrir hendi verður að fresta framkvæmd þar til leyst hefur verið úr álitaefninu.
    Í 3. mgr. er tekið fram að reglur stjórnsýslulaga um andmælarétt, um birtingu ákvörðunar og rökstuðning o.fl. og um kæru gildi ekki um ákvarðanir skv. 1. og 2. mgr. Af þessu leiðir að ákvörðun er unnt að taka munnlega og á grundvelli munnlegrar greinargerðar frá lögreglu.

Um 33. gr.

    Í greininni er kveðið á um þau úrræði sem beita má þegar nauðsynlegt er að framkvæma ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið. Útlendingi, sem ekki þarf vegabréfsáritun til dvalar hér á landi, ber að yfirgefa landið þegar sá tími er liðinn sem hann má dveljast hér án dvalarleyfis. Þeir sem hafa vegabréfsáritun skulu yfirgefa landið þegar áritunin rennur út og þeir sem hafa dvalarleyfi skulu hverfa af landi þegar leyfið er fallið úr gildi. Dvöl fram yfir þetta er þannig óheimil. Þeir sem dveljast hér lengur eiga á hættu að ákvörðun verði tekin um að þeir skuli yfirgefa landið og gilda þá ákvæði greinarinnar.
    Samkvæmt 1. mgr. skal framkvæma ákvörðun sem felur í sér að útlendingur skuli yfirgefa landið þannig að lagt er fyrir útlendinginn að hverfa þegar á brott eða innan tiltekins frests. Í 31. og 32. gr. eru ákvæði um hvenær ákvörðun getur í fyrsta lagi komið til framkvæmda. Ef ekki kemur fram í ákvörðun hvenær hún skuli koma til framkvæmda tiltekur lögregla frest til brottfarar. Við ákvörðun um frest til brottfarar ber að taka tillit til aðstæðna útlendings. Útlendingnum er skylt að hverfa úr landi innan tilskilins frests og á eigin kostnað.
    Þá segir í 1. mgr. að ef útlendingurinn fer ekki úr landi svo sem fyrir er lagt eða líkur eru á að hann muni ekki gera það megi lögregla færa hann úr landi. Miðað er við að flestir fari sjálfviljugir úr landi og án útgjalda fyrir hið opinbera. Í öðrum tilvikum kann að vera nauðsynlegt að fylgja ákvörðun eftir. Einnig kann að vera nauðsynlegt að tryggja að útlendingurinn fari úr landi. Getur það meðal annars átt við um hælisleitendur sem fengið hafa synjun eða þá sem hlotið hafa refsidóm. Lögregla metur þörfina. Meginreglan er að útlendingur sé fluttur til þess lands sem hann kom frá og er það að jafnaði heimaland útlendingsins. Ef sérstaklega stendur á má færa hann til annars lands en þess sem hann kom frá, sbr. 3. málsl. Forsenda er þá að sjálfsögðu að hlutaðeigandi land heimili útlendingnum komu þangað. Í niðurlagi 1. mgr. segir að ákvarðanir sem varða framkvæmd verði ekki kærðar sérstaklega.
    Í tveimur lokamálsliðum 1. mgr. er fjallað um aðstöðuna þegar útlendingur hefur borið ákvörðun um að hann skuli yfirgefa landið undir dómstóla. Er hér átt við tilvik þar sem útlendingur hefur fengið endanlega synjun um dvalarleyfi eða hæli.
    Í ákvæðinu er mælt fyrir um að málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið fresti ekki framkvæmd hennar. Er hér byggt á þeirri meginreglu sem birtist í 60. gr. stjórnarskrárinnar að enginn sem leitar úrskurðar um embættistakmörk yfirvalda geti komið sér hjá því að hlýða yfirvaldsboði í bráð með því að skjóta málinu til dóms. Þrátt fyrir þetta er lagt til að dómsmálaráðherra verði veitt heimild til að fresta framkvæmd ákvörðunar um að útlendingur skuli yfirgefa landið ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því ákvörðun var tekin og henni hefur verið skotið til dómstóla. Dæmi eru um að langur tími hafi liðið þar til ákvörðun er tekin um að útlendingur skuli yfirgefa landið þar til slík ákvörðun kemst til framkvæmda. Á þeim tíma kunna að hafa komið upp breyttar forsendur miðað við þær sem ákvörðun stjórnvalds hvílir á. Nefna má sem dæmi að aðstæður í ríki sem vísa á útlendingi til hafi breyst verulega, þannig að hætta hafi skapast á að hann kunni að verða fyrir ofsóknum eða að ný gögn hafi komið fram sem varpa nýju ljósi á mál hans.
    Ljóst er að stjórnvald hefur ríkar heimildir til þess að endurupptaka mál og fresta um leið framkvæmd ákvörðunar, hvort heldur að beiðni aðila máls eða að eigin frumkvæði, ef það telur t.d. að niðurstaða þess sé röng eða ný gögn hafi komið fram sem hefðu getað leitt til til annarrar niðurstöðu í málinu. Hafi útlendingur hins vegar borið mál undir dómstóla til ógildingar getur horft öðruvísi við þar sem stjórnvald mundi ekki endurupptaka mál á sama tíma og það er til meðferðar hjá dómstólum. Því er lagt til að dómsmálaráðherra sem æðsta úrskurðarvald í málefnum útlendinga geti tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ákvörðunar þar til niðurstaða dómstóla í málinu liggur fyrir. Hér er um algera undantekningu að ræða og er heimild þessari aðeins ætlað að ná til tilvika þar sem verulega veigamiklar ástæður leiða til þess að rétt sé að fresta framkvæmd ákvörðunar, en ella er hætta á að úrræði þetta verði misnotað til þess þess að framlengja dvöl í landinu.
    Í 2. mgr. er tekið fram að útlendingi, sem fellur undir ákvæði 1. mgr. og ekki hefur gild ferðaskilríki, sé skylt að afla sér þeirra. Útlendingur kann að hafa komið til landsins án slíkra skilríkja eða fargað þeim eða gildistími þeirra hefur runnið á enda meðan á dvöl hér stendur. Sumir þeirra sem fá synjun á dvöl í landinu leita ekki eftir nýjum ferðaskilríkjum til heimferðar. Ákvæðinu er ásamt ákvæði 2. málsl. 5. mgr. ætlað að bregðast við þessum vanda.
    Samkvæmt 3. mgr. er lögreglunni, til að tryggja að ákvörðun um brottför verði framkvæmd, veitt heimild til leggja fyrir útlending að tilkynna sig, að afhenda vegabréf eða annað kennivottorð, sbr. 5. gr., og að halda sig á ákveðnu svæði. Þessi fyrirmæli má skv. 4. mgr. því aðeins gefa að sérstök ástæða sé til að ætla að útlendingurinn muni koma sér undan framkvæmd og má við mat á þessu taka tillit til almennrar reynslu af undankomu, þ.e. matið þarf ekki á byggjast á reynslu af hlutaðeigandi sjálfum. Slík fyrirmæli eru tímabundin og mega ekki standa lengur en í tvær vikur án samþykkis útlendingsins eða ákvörðunar dómara samkvæmt reglum laga um meðferð opinberra mála, sbr. 110. gr. þeirra laga.
    Með 5. mgr. eru veittar frekari heimildir til að tryggja framkvæmd brottfarar. Er þannig heimilt, ef nauðsyn ber til, að handtaka útlending og úrskurða í gæsluvarðhald samkvæmt reglum laga um meðferð opinberra mála, eftir því sem við á. Fer mál þá fyrir dómara þar sem skipa skal útlendingi löglærðan talsmann ef þess er krafist, sbr. 1. mgr. 34. gr. Samsvarandi gildir ef útlendingur gerir ekki það sem nauðsynlegt er til að afla sér ferðaskilríkja, sbr. 2. mgr., og tilgangurinn er að færa útlendinginn fyrir fulltrúa lands sem við á í því skyni að fá útgefin ferðaskilríki. Það getur verið heimaland útlendingsins en einnig annað land ef óvissa er um þjóðerni hans.
    Samkvæmt 6. mgr. eru takmörk á því hve lengi gæsla má standa. Skal gæsla ekki ákveðin lengur en í tvær vikur. Lögregla á ekki að leita eftir lengri gæslutíma en nauðsynlegt er. Nokkrir dagar eiga að jafnaði að nægja. Gæslutímann má þó framlengja ef útlendingurinn fer ekki sjálfviljugur úr landi og líkur eru á að hann muni koma sér undan framkvæmd ákvörðunar. Má þá framlengja frestinn í allt að tvær vikur, en þó ekki oftar en tvisvar. Gæsla samkvæmt þessu ákvæði getur þannig orðið alls sex vikur. Þessi gæslutími kemur til viðbótar gæslu sem nauðsynleg er vegna undirbúnings ákvörðunar skv. 6. mgr. 29. gr.
    Með 7. mgr. eru settar takmarkanir á rétti til að handtaka útlending eða úrskurða í gæsluvarðhald. Má ekki beita þessu úrræði ef það með hliðsjón af eðli máls og atvikum að öðru leyti mundi fela í sér ósanngjarna ráðstöfun eða ef dómarinn telur vægari úrræði skv. 3. mgr. fullnægjandi.
    Í 8. mgr. er loks tekið fram að úrræðum skv. 3. og 5. mgr. megi beita þegar ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið er tekin og þegar mál sem getur leitt til slíkrar ákvörðunar er til meðferðar.


Um 34. gr.

    Í grein þessari er kveðið á um rétt útlendings til að fá réttaraðstoð. Nauðsynlegt þykir að útlendingi, sem á mál til meðferðar, gefist kostur á réttaraðstoð þegar tiltekin mál er varða réttarstöðu hans eru til meðferðar. Er um að ræða skipun talsmanns annars vegar við meðferð mála fyrir dómi og hins vegar við meðferð mála í stjórnsýslu.
    Samkvæmt 1. mgr. skal skipa útlendingi talsmann þegar krafist er gæslu skv. 6. mgr. 29. gr. eða 5. mgr. 33. gr. Sama er þegar fyrir dómi er krafist úrræða skv. 3. og 4. mgr. 33. gr. nema það hafi í för með sér sérstakt úrræði eða töf eða dómarinn telur ekki varhugavert að láta hjá líða að skipa talsmann. Hlutverk talsmanns er að koma fram fyrir hönd útlendings og veita honum liðsinni. Þar sem mál samkvæmt þessum ákvæðum eru rekin fyrir dómi þykir rétt að talsmaður sé skipaður úr hópi lögmanna.
    Samkvæmt 2. mgr. á útlendingur rétt á að stjórnvald skipi sér talsmann þegar kærð er ákvörðun sem varðar frávísun, brottvísun eða afturköllun leyfis og í máli vegna umsóknar um hæli. Undanþegin eru þó nánar tiltekin mál þar sem ekki eru talin efni til að mæla sérstaklega fyrir um réttaraðstoð. Þegar talsmaður er skipaður við meðferð máls fyrir stjórnsýslu þykir ekki nauðsynlegt að gera kröfu um að hann sé lögmaður eins og þegar talsmaður er skipaður skv. 1. mgr. Skv. 2. mgr. á útlendingur og rétt á að kostnaður hans við lögfræðiaðstoð meðan öflun upplýsinga fer fram fyrir dómi skv. 28. gr. greiðist úr ríkissjóði.
    Samkvæmt 3. mgr. skulu ákvæði VI. kafla laga um meðferð opinberra mála gilda, eftir því sem við á, um réttaraðstoð skv. 1. og 2. mgr. Af því leiðir að þóknun réttargæslumanns eða talsmanns greiðist úr ríkissjóði. Hins vegar skal krefja útlending um endurgreiðslu kostnaðar við réttaraðstoð að hluta til eða að öllu leyti ef hann hefur ráð á því.

Um VI. kafla.

    Í VI. kafla er að finna reglur um útlendinga sem falla undir samninginn um Evrópska efnahagssvæðið (EES-samninginn). Svo sem rakið er í kafla III.4 í almennum athugasemdum var EES-samningurinn sem slíkur lögfestur með lögum um Evrópska efnahagssvæðið, nr. 2 13. janúar 1993. Jafnframt var lögum um eftirlit með útlendingum breytt með lögum nr. 133 31. desember 1993. Í athugasemdum með frumvarpi er varð að þeim lögum er gerð grein fyrir reglum um frjálsa fólksflutninga innan EES og þeim EBE-gerðum sem þar skipta máli. Er vísað til þeirra athugasemda, sbr. Alþt. 1993, 103. mál, þskj. 106. Í kjölfar þessa var gefin út reglugerð um dvöl útlendinga sem falla undir samninginn um Evrópska efnahagssvæðið hér á landi, nr. 674 20. desember 1995 (reglugerð um EES-útlendinga). Eðlilegt þykir nú að lögfesta meginreglur þessar en gert er ráð fyrir að nánari reglur verði einnig settar í reglugerð.

Um 35. gr.

    Í greininni er að finna reglur um heimild EES-útlendings til að koma til landsins og dveljast hér. Er ákvæðið í samræmi við 1. gr. reglugerðar um EES-útlendinga. Samsvarandi reglur um útlendinga almennt er að finna í 8. gr. frumvarpsins.
    EES-útlendingur má skv. 1. mgr. dveljast hér án dvalarleyfis í allt að þrjá mánuði frá komu til landsins og allt að sex mánuðum ef hann er í atvinnuleit. Hér er um að ræða rýmkun úr þremur mánuðum að því er varðar þann sem er í atvinnuleit. Ástæða breytingarinnar er túlkun EB-dómstólsins (mál C-292/89 – Antonissen) á því ákvæði Rómarsáttmálans sem svarar til 28. gr. EES-samningsins að sá sem er í atvinnuleit skuli hafa hæfilegan frest til að leita atvinnu sem svarar hæfni hans. Var fresturinn í því tilviki talinn hæfilegur sex mánuðir. Til að sanna rétt sinn til dvalar umfram þrjá mánuði þarf útlendingurinn að geta sýnt fram á að hann sé í atvinnuleit. Gert er ráð fyrir að settar verði reglur um undanþágu frá dvalarleyfi og reglur um tilkynningarskyldu, sbr. nú 1. og 2. gr. reglugerðar um EES-útlendinga.

Um 36. gr.

    Í greininni eru talin þau skilyrði sem EES-útlendingur þarf að fullnægja til að fá dvalarleyfi. Eru þau í meginatriðum í samræmi við 3. gr. reglugerðar um EES-útlendinga. Varðandi tilskipun 90/366/EBE um búseturétt námsmanna, sem greint er frá í athugasemdum með frumvarpi sem varð að lögum nr. 133/1993, er þess að geta að rétt tilvísun er nú tilskipun 93/96/ EBE. Gert er ráð fyrir að nánari reglur verði settar um framkvæmd þessa, sbr. nú ákvæði 4.–7. gr. reglugerðar um EES-útlendinga.

Um 37. gr.

    Greinin fjallar um dvalarleyfi fyrir aðstandendur EES-útlendings. Greinin er samhljóða 8. gr. reglugerðar um EES-útlendinga. Um nánari skilyrði vísast til 9. og 10. gr. reglugerðarinnar.

Um 38. gr.

    Greinin heimilar dómsmálaráðherra að setja reglur um heimild EES-útlendings og aðstandenda til áframhaldandi dvalar hér á landi að loknu starfi. Um efni þessa vísast til 11.–21. gr. reglugerðar um EES-útlendinga.

Um 39. gr.

    Greinin fjallar um gildistíma og efni dvalarleyfis fyrir EES-útlendinga. Meginreglan er að dvalarleyfi skal gefa út til fimm ára. Ákvæðið svarar til 22. gr. reglugerðar um EES-útlendinga.

Um 40. gr.

    Greinin fjallar um endurnýjun dvalarleyfis fyrir EES-útlending. Um ákvæðið og nánari reglur samkvæmt því vísast til 23. gr. reglugerðar um EES-útlendinga.

Um 41. gr.

    Greinin fjallar um afturköllun dvalarleyfis fyrir EES-útlending og svarar til 25. gr. reglugerðar um EES-útlendinga.

Um 42. gr.

    Greinin fjallar um hvenær vísa megi EES-útlendingi frá landi. Heimildir eru þrengri en gilda um útlendinga almennt skv. 18. og 19. gr. Ákvæðið er í meginatriðum í samræmi við 26. gr. reglugerðar um EES-útlendinga. Breytt tilvísun í c-lið stafar af breyttri uppbyggingu 43. gr. frumvarpsins miðað við 27. gr. reglugerðarinnar.

Um 43. gr.

    Greinin fjallar um hvenær heimilt er að vísa EES-útlendingi úr landi. Heimildir til brottvísunar eru þrengri en gilda um útlendinga almennt skv. 20. gr. Ákvæðinu er skipað á nokkuð annan hátt en þar og í 27. gr. reglugerðar um EES-útlendinga.
    Lagt er til að skírskotun til allsherjarreglu og almannaöryggis, sbr. c-lið 27. gr. reglugerðarinnar, verði tilgreind í 1. mgr. sem megingrundvöllur brottvísunar í samræmi við ákvæði 3. mgr. 28. gr. og 33. gr. EES-samningsins og tilskipun 64/221/EBE. Í 1. mgr. 28. gr. reglugerðar um EES-útlendinga er nánar greint frá hvað falist getur í skírskotun til allsherjarreglu og almannaöryggis, og er þar nefnt að útlendingur sé háður fíkniefnum eða öðrum eiturlyfjum eða haldinn alvarlegum geðrænum truflunum eða geðrænum truflunum sem einkennast af uppnámi, óráði, ofskynjunum eða hugsanabrenglum. Jafnframt er lagt til að felld verði niður skírskotun til almannaheilbrigðis, sbr. c-lið 27. gr. reglugerðarinnar, sem skilgreind er nánar í 3. mgr. 28. gr. Þykir sú skírskotun ekki raunhæf lengur og ekki er skylt að vísa til hennar á grundvelli EES-samningsins.
    Þá er lagt til að ný 2. mgr. komi í stað ákvæða sem eru í b-lið (um refsiverða háttsemi) og d-lið (öryggi ríkisins) 27. gr. reglugerðarinnar, en þessi atriði falla undir skilgreininguna „allsherjarregla og almannaöryggi“ þar sem nánar er kveðið á um hvenær brottvísun er heimil með skírskotun til allsherjarreglu og almannaöryggis.
    Ákvæði 3. mgr. svarar til a-liðar 27. gr. reglugerðar um EES-útlendinga.

Um VII. kafla.

    Í þessum kafla er að finna reglur sem tryggja eiga réttarvernd þeirra sem leita hér hælis sem flóttamenn. Að flóttamönnum er einungis vikið í 4. mgr. 10. gr. gildandi laga. Ákvæði kaflans eru ekki bundin við pólitíska flóttamenn heldur er byggt á skilgreiningu flóttamannasamnings Sameinuðu þjóðanna frá 1951. Enn fremur er gert ráð fyrir að veita megi útlendingi vernd vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu. Ákvæði kaflans taka mið af flóttamannasamningnum frá 28. júlí 1951 og alþjóðasamningum á sviði mannréttinda sem Ísland á aðild að.

Um 44. gr.

    Samkvæmt 1. mgr. telst sá útlendingur flóttamaður sem fellur undir ákvæði A-liðar 1. gr. flóttamannasamningsins. Réttur til hælis ræðst því af hinu alþjóðlega flóttamannahugtaki en um það er nánar fjallað í kafla III.1 í almennum athugasemdum.
    Samkvæmt 2. mgr. má ákveða að flóttamaður, sem fellur undir C–F-lið 1. gr. flóttamannasamningsins, skuli ekki, að öllu leyti eða að hluta til, njóta tiltekinna réttinda og verndar samkvæmt ákvæðum VII. kafla, annarra en málsmeðferðarreglna. Ákvæði flóttamannasamningsins taka ekki til þessara flóttamanna. Tekið er fram að flóttamaður sem fellur undir C–E-lið 1. gr. skuli njóta verndar gegn ofsóknum skv. 45. gr. Stjórnvald sem hverju sinni fer með mál flóttamanns tekur ákvörðun skv. 2. mgr.

Um 45. gr.

    Greinin lýtur að því að veita útlendingum vernd, hvort sem þeir fullnægja skilyrðum 46. gr. um hæli eða ekki. Greinin hefur að geyma reglur um bann við sendingu útlendings til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir sem geta leitt til þess að hann skuli teljast flóttamaður eða ef ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis. Reglur um slíkt bann eru í 1. mgr. 33. gr. flóttamannasamningsins þar sem lagt er bann við brottvísun eða endursendingu útlendings sem fellur undir flóttamannahugtakið. Lagt er til að útlendingum verði veitt nokkuð víðtækari vernd og að bann við endursendingu taki jafnframt til þeirra sem vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu eru í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Þykir þetta rétt í ljósi 3. gr. samnings gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Ef fyrir liggur, þegar taka á ákvörðun í máli sem felur í sér að útlendingur skuli yfirgefa landið, að beita skuli verndarreglunni skal ekki taka slíka ákvörðun, sbr. 4. mgr. Þessi regla kemur og fram í 3. mgr. 18. gr.
    Vernd samkvæmt greininni lýtur að ákvörðunum samkvæmt útlendingalögunum. Verndin tekur því ekki til ákvarðana um framsal sakamanna, enda gilda um það efni sérstök lög, sbr. 5.–7. gr. laga um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum, nr. 13 17. apríl 1984.
    Samkvæmt 2. mgr. kann útlendingi sem ekki fellur undir flóttamannahugtakið eftir sem áður að verða veitt dvalarleyfi af mannúðarástæðum á grundvelli 2. mgr. 11. gr. Ber stjórnvaldi sem fer með mál að eigin frumkvæði að taka til skoðunar hvort ákvæðinu skuli beitt.
    Samkvæmt 3. mgr. nýtur útlendingur ekki verndar ef skynsamlegar ástæður eru til að álíta hann hættulegan öryggi ríkisins eða hann hefur hlotið endanlegan dóm fyrir mjög alvarlegt afbrot og er af þeim sökum hættulegur samfélaginu. Þær takmarkanir eru í samræmi við 2. mgr. 33. gr. flóttamannasamningsins.
    Í 4. mgr. er tekið fram að vernd skv. 1. mgr. eigi við um hvers konar ákvarðanir samkvæmt lögunum. Vernd gegn ofsóknum gengur þannig framar öðrum ákvæðum. Því skal ekki taka ákvörðun um frávísun eða brottvísun eða synja umsókn um dvöl ef verndarákvæðin eiga við, enda falli útlendingurinn ekki undir ákvæði 3. mgr. Ef útlendingur ber verndarákvæðið ekki fyrir sig fyrr en kemur að framkvæmd ákvörðunar gilda ákvæði 2. mgr. 32. gr.

Um 46. gr.

    Rétt til hælis hér á landi á, samkvæmt umsókn, flóttamaður sem er hér á landi eða kemur hér að landi. Flóttamaður er útlendingur sem fellur undir flóttamannahugtakið, sbr. 1. mgr. 44. gr. Réttur þessi nær hins vegar ekki til flóttamanna sem eru utan marka landsins. Réttur til hælis nær ekki til flóttamanna sem svo er ástatt um sem rakið er í a–e-lið 1. mgr. Rétt er þó að taka fram að þótt ekki sé skylt að veita þessum flóttamönnum hæli er það ávallt heimilt. Meta verður hverju sinni hvort undanþágu skuli beita. Ef beita á undanþágu er þó ekki nauðsynlegt að staðreyna fyrst hvort hlutaðeigandi fellur undir flóttamannahugtakið þar sem undanþágunni má beita þótt útlendingurinn falli undir hugtakið.
    Í c-lið er að finna regluna um fyrsta griðland. Samkvæmt þeirri reglu skal hælisumsókn afgreidd í fyrsta ríki sem flóttamaður kemur til og veitt getur honum vernd. Reglunni er ætlað að varna því að flóttamenn verði sendir frá einu ríki til annars án þess að mál þeirra fái viðeigandi meðferð. Miðað er við að útlendingur hafi átt færi á að koma hælisumsókn á framfæri við stjórnvöld í ríkinu. Í því sambandi er nægjanlegt að hlutaðeigandi hafi átt þar mjög stutta dvöl, til dæmis farið um vegabréfaeftirlit á flugvelli. Þessari reglu er beitt með einum eða öðrum hætti í flestum löndum. Reglan kemur meðal annars fram í Schengen- og Dyflinnarsamningunum. Forsenda þess að reglu þessari sé beitt er að sjálfsögðu að hlutaðeigandi ríki samþykki að taka við honum.
    Ákvæði d-liðar er á sinn hátt viðbót við c-lið. Norðurlöndin hafa með norræna vegabréfaeftirlitssamningnum skuldbundið sig til að taka aftur við útlendingi sem komið hefur frá öðru norrænu ríki samkvæmt nánari reglum. Ef útlendingur sem á beiðni um hæli til meðferðar í öðru norrænu ríki kemur hingað til lands áður en meðferð umsóknar hans er lokið verður hann að jafnaði sendur þangað aftur. Ef útlendingur hefur hins vegar fengið endanlega synjun í öðru norrænu ríki þarf að taka umsókn til sérstakrar meðferðar hér, enda kveður vegabréfaeftirlitssamningurinn ekki á um að endanleg synjun í einu landi verði lögð til grundvallar í öðru. Synjun hér veitir hins vegar rétt til að senda hlutaðeigandi til þess norræna ríkis sem hann kom frá.
    Í e-lið er að finna ákvæði af sama meiði og í c- og d-lið og er það nauðsynlegt vegna þátttöku landsins í Schengen-samstarfinu og í samstarfi ríkja á grundvelli Dyflinnarsamningsins, svo sem nánar er rakið í kafla III.5 og III.6 í almennun athugasemdum.
    Með 2. mgr. er kveðið á um að ekki skuli endursenda flóttamann til annars ríkis skv. c-, d- og e-lið 1. mgr. ef hann hefur slík tengsl við landið að nærtækast sé að hann fái hér vernd. Á þessu stigi þarf ekki að liggja fyrir hvort útlendingurinn er flóttamaður.
    Í 3. mgr. eru ákvæði um rétt náinna aðstandenda flóttamanns til hælis hér á landi.
    Í 4. og 5. mgr. eru ákvæði um meðferð umsókna, þar á meðal heimild til að setja reglur um að útlendingur sem sækir um hæli skuli dveljast í tilteknu sveitarfélagi og í húsnæði sem lagt er til þar til endanleg ákvörðun liggur fyrir um umsókn.

Um 47. gr.

    Greinin fjallar um réttaráhrif hælis. Hælisveiting veitir útlendingi réttarstöðu flóttamanns og hann fær dvalarleyfi. Hann hefur þá réttarstöðu sem leiðir af lögum um útlendinga og öðrum íslenskum lögum, svo og flóttamannasamningnum eða öðrum þjóðréttarsamningum um flóttamenn. Flóttamannasamningurinn tilgreinir ýmis réttindi sem flóttamaður skal njóta. Nánari útfærsla þeirra réttinda, umfram það sem fram kemur í frumvarpi þessu, kemur fram í þeirri löggjöf sem gildir um viðkomandi svið en á ekki heima í lögum um útlendinga.
    Í 2. mgr. er heimild til að afturkalla hælisveitingu ef flóttamaður fellur ekki lengur undir flóttamannahugtakið skv. 44. gr. eða það að öðru leyti leiðir af almennum stjórnsýslureglum. Ástæða þess að hugtakið á ekki lengur við mundi að jafnaði vera breytt ástand í heimalandinu. Þá mundi það geta leitt til afturköllunar ef hæli hefur verið veitt á röngum forsendum.

Um 48. gr.

    Greinin kveður á um rétt flóttamanns til að fá útgefið ferðaskírteini fyrir flóttamenn. Ákvæði um ferðaskilríki fyrir flóttamenn er í samræmi við 28. gr. flóttamannasamningsins. Greinin kveður og á um rétt útlendings sem sótt hefur um hæli en ekki verið veitt það til sérstaks vegabréfs fyrir útlendinga. Um útgáfu þessara skilríkja skal setja nánari reglur og má þar ákveða að vegabréf fyrir útlendinga megi gefa út í öðrum tilvikum.
    Þessir flokkar skilríkja hafa verið gefnir út á grundvelli 3. mgr. 1. gr. laga um eftirlit með útlendingum, sbr. og f-lið 11. gr. laga um vegabréf, nr. 136 22. desember 1998, en rétt þykir að kveða í lögum nánar á um útgáfu þeirra.

Um 49. gr.

    Greinin fjallar um áhrif þess að útlendingi hefur verið ákvörðuð staða flóttamanns í öðru ríki. Á því er byggt að ákvörðun í einu ríki um stöðu flóttamanns bindur ekki stjórnvöld í öðru ríki. Hins vegar er eðlilegt og í samræmi við ályktun Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna að slík ákvörðun sé ekki vefengd nema ákvörðunin sé röng eða aðrar ástæður liggi til þess.

Um 50. gr.

    Samkvæmt 1. mgr. er lagt til að Útlendingastofnun skuli taka ákvörðun í málum sem varða flóttamenn, þ.e. um vernd gegn sendingu úr landi, réttarstöðu flóttamanns og hæli, svo og um ferðaskírteini fyrir flóttamenn og vegabréf fyrir útlendinga.
    Þá er Útlendingastofnun skv. 2. mgr. ætlað að taka sjálfstæða ákvörðun um hvort útlendingi sem kemur til landsins á grundvelli ákvörðunar stjórnvalda um móttöku flóttamanna skuli veitt réttarstaða flóttamanns. Val á flóttamönnum sem til landsins koma er að jafnaði byggt á gögnum frá Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna og viðtölum sérstakrar sendinefndar. Lagt er til að endanleg ákvörðun um flóttamannastöðu einstakra flóttamanna verði ekki tekin fyrr en eftir að flóttamannahópur er kominn til landsins og Útlendingastofnun hefur gefist aðstaða til að taka skýrslu af hlutaðeigandi.
    Í 3. mgr. er lögð sérstök rannsóknarskylda á Útlendingastofnun þar sem tekið er fram að hún skuli af sjálfsdáðum afla nauðsynlegra og aðgengilegra gagna við meðferð máls. Þessi skylda kemur einnig fram í 10. gr. stjórnsýslulaga, sbr. og 23. gr. frumvarpsins. Upplýsinga til nota í flóttamannamálum má afla frá Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna, frá mannúðar- eða mannréttindasamtökum hér á landi, til dæmis Rauða krossinum eða Amnesty, um hendur utanríkisþjónustunnar o.s.frv. Tekið er sérstaklega fram að þrátt fyrir lagaákvæði um þagnarskyldu megi kynna Flóttamannastofnuninni efni málsskjala. Flóttamannastofnun getur komið að máli hvort heldur er að frumkvæði umsækjanda eða umboðsmanns hans eða að frumkvæði stjórnvalds. Sama heimild til að kynna efni málsskjala gildir einnig gagnvart mannúðar- og mannréttindasamtökum að því leyti sem það er nauðsynlegt í tengslum við öflun upplýsinga. Taka verður sjálfstæða afstöðu til þess hver slík samtök skuli falla undir ákvæðið og meta hvaða skjöl skuli kynnt þeim. Þegar þessum aðilum hafa þannig verið kynnt málsskjöl hvílir þagnarskyldan á þeim.

Um 51. gr.

    Greinin fjallar um flóttamannahópa sem koma til landsins í samræmi við ákvörðun stjórnvalda. Þeirri skipan hefur verið komið á að ríkisstjórnin tekur að fenginni tillögu félagsmálaráðherra ákvörðun um að taka á móti hópi flóttamanna. Felur ákvörðunin í sér fjölda flóttamanna sem taka á við, þjóðerni þeirra og dvalarstað. Í ákvörðuninni mun jafnframt koma fram hverjar eru forsendur hennar að öðru leyti. Er tillaga ráðherra gerð á grundvelli tillagna frá flóttamannaráði. Ráðið er skipað fulltrúum fimm ráðuneyta, dóms- og kirkjumálaráðuneytis, heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytis, menntamálaráðuneytis og utanríkisráðuneytis, auk félagsmálaráðuneytis en fulltrúi þess er formaður ráðsins. Flóttamannaráði er meðal annars ætlað að gera tillögur um heildarstefnu og skipulag á móttöku flóttamanna og hafa yfirumsjón með framkvæmd hennar. Framkvæmd ákvörðunar ríkisstjórnarinnar er síðan á ábyrgð félagsmálaráðuneytisins sem annast undirbúning og móttöku flóttamannanna í samráði við flóttamannaráð, Rauða kross Íslands og hlutaðeigandi sveitarfélög. Val á flóttamönnum hefur farið þannig fram að sérstök sendinefnd, skipuð fulltrúum Rauða krossins og hlutaðeigandi sveitarfélags, hefur verið send á vettvang í því skyni. Útlendingaeftirlitið hefur hins vegar ekki átt formlega aðild að vali flóttamannanna. Nauðsynlegt er að Útlendingastofnun fjalli formlega um mál slíkra flóttamanna og réttarstöðu þeirra, en sú ákvörðun skal tekin í samræmi við ákvörðun stjórnvalda, sbr. og 2. mgr. 50. gr. Stjórnvöld kunna og að ákveða að taka á móti hópum útlendinga sem ekki teljast flóttamenn. Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna kann að telja þörf á að finna slíkum hópum samastað. Samkvæmt niðurlagi 1. mgr. skal Útlendingastofnun heimila komu slíkra hópa til landsins eins og ef um hópa flóttamanna væri að ræða.
    Af tilvísun til IV. og V. kafla stjórnsýslulaga í 2. mgr. leiðir meðal annars að ákvarðanir skv. 1. mgr. þarf ekki að rökstyðja, enda um ívilnandi ákvarðanir að ræða.

Um VIII. kafla.

    Í þessum kafla er að finna ýmis ákvæði sem lúta að öryggi ríkisins, upplýsinga- og tilkynningarskyldu, vinnslu persónuupplýsinga og ábyrgð á kostnaði við að flytja útlending úr landi, svo og refsiákvæði.

Um 52. gr.

    Greinin hefur að geyma ákvæði um að réttur sem útlendingur ella hefur til að koma til landsins eða dveljast í landinu gildi ekki ef nauðsynlegt þykir vegna utanríkisstefnu ríkisins, öryggis ríkisins eða mikilvægra þjóðarhagsmuna.
    Ef þessar aðstæður eru til staðar má þannig meina útlendingi landgöngu og synja um útgáfu dvalarleyfis og búsetuleyfis eða setja takmarkanir eða skilyrði. Einnig má við þessar aðstæður framkvæma ákvörðun fyrr en greinir í 31. og 32. gr.
    Vegna öryggis ríkisins má einnig, ef nauðsyn þykir, setja nánari reglur um tilkynningarskyldu en greinir í 17. gr. eða reglum skv. 54. gr.

Um 53. gr.

    Greinin kveður á um upplýsinga- og tilkynningarskyldu útlendinga og kemur í stað 9. gr. gildandi laga. Ekki er ætlast til að lögð verði frekari skylda á útlendinga en nauðsynlegt er.
    Samkvæmt 1. mgr. er útlendingi skylt að kröfu lögreglunnar að sýna skilríki og, ef þörf krefur, veita upplýsingar svo að ljóst verði hver hann er og um lögmæti dvalar hans í landinu. Ákvæðið gildir um útlendinga sem dveljast í landinu en um útlending sem kemur til landsins gilda ákvæði 5. gr. Skilríki, sem áskilin eru, geta verið vegabréf eða annað kennivottorð sem er viðurkennt sem ferðaskilríki, sbr. 5. gr., en annars konar skilríki mundu og geta verið fullnægjandi, til dæmis ökuskírteini, nafnskírteini með mynd og greiðslukort. Bent skal á að skv. 4. mgr. 15. gr. lögreglulaga, nr. 90 13. júní 1996, er lögreglunni heimilt að krefjast þess að hver maður segi til nafns síns, kennitölu og heimilisfangs og sýni skilríki því til sönnunar. Ef útlendingur getur ekki gert grein fyrir sér eða hann sýnir ekki skilríki getur komið til að beita þurfi úrræðum skv. 29. gr. Hér má og nefna b-lið 1. mgr. 16. gr. lögreglulaganna, en þar er ákvæði sem heimilar lögreglu að handtaka þann sem ekki hefur hér landvistarleyfi.
    Í 2. mgr. er að finna heimild til að setja reglur um skyldu útlendinga til að bera vegabréf eða annað kennivottorð við dvöl hér á landi. Tekið er fram að norrænir ríkisborgarar skuli undanþegnir þeirri skyldu, sbr. samkomulag Norðurlandanna um það efni, auk þess sem ákveða má að aðrir útlendingar skuli undanþegnir.
    Ákvæði 3. mgr. er nýmæli. Upplýsingaskylda samkvæmt því ákvæði hvílir aðeins á útlendingi sem er aðili máls til meðferðar. Er honum gert skylt að mæta sjálfur og veita upplýsingar sem geta haft þýðingu við úrlausn máls. Stjórnvald, sem fer með mál, eftir atvikum lögregla eða Útlendingastofnun, getur lagt þessa skyldu á útlending.

Um 54. gr.

    Greinin felur í sér heimild til ráðherra að ákveða að þeir einstaklingar og stofnanir sem þar eru taldir skuli veita lögreglunni eða Útlendingastofnun tilteknar upplýsingar. Stjórnvöldum, sem fara með málefni útlendinga, ber nauðsyn til að vita hvernig háttað er dvöl þeirra í landinu, svo sem hvar hlutaðeigandi dvelst eða hvort hann stundar eða hyggst stunda atvinnu, svo að staðreyna megi að fylgt sé reglum um dvalarleyfi og atvinnuleyfi. Tilkynningarskyldan er bundin við tiltekin atriði, sbr. nánar a–g-lið 1. mgr., sem ráðherra er bundinn af þegar reglur eru settar. Ákvæði um þagnarskyldu sem vísað er til í h-lið eru í 62. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40 27. mars 1991, og 5. gr. barnaverndarlaga, nr. 58 2. júní 1992.
    Samkvæmt 2. mgr. getur ráðherra sett nánari reglur um hvaða upplýsingar skrár skuli hafa að geyma. Þær upplýsingar mundu einkum lúta að nafni útlendings, fæðingardegi/kennitölu og þjóðerni. Önnur atriði geta einnig átt við, svo sem upplýsingar um dvalarstað, komudag eða ferðaskilríki.
    Til að tilkynningarskyldunni verði fullnægt er þeim sem gefa skal upplýsingar um skylt að láta þær í té. Ekki verður þó krafist annarra upplýsinga en þeirra sem nauðsynlegar eru, sbr. 3. mgr. Skylda þessi getur náð til íslenskra ríkisborgara, sbr. a-, b- og c-lið 1. mgr.

Um 55. gr.

    Í 1. mgr. er mælt fyrir um heimild Útlendingastofnunar og lögreglu til vinnslu persónuupplýsinga, þar á meðal þeirra sem viðkvæmar geta talist, að því marki sem slík vinnsla telst nauðsynleg við framkvæmd laganna. Er einnig ráðgert að heimilt verði eftir þörfum við vinnslu persónuupplýsinga að samkeyra upplýsingar Útlendingastofnunar og lögreglu. Geta slík upplýsingaskipti milli lögreglu og Útlendingastofnunar verið mjög mikilvæg fyrir framkvæmd laganna, t.d. að Útlendingastofnun geti fengið upplýsingar úr málaskrá lögreglunnar sem tengjast brotastarfsemi útlendings sem mundi girða fyrir að honum yrði veitt dvalarleyfi. Eins leiðir ákvæðið til þess að lögregla fær skýra heimild til aðgangs að upplýsingum Útlendingastofnunar um það hvort útlendingur er með tilskilin leyfi þegar lögregla sinnir eftirliti með útlendingum. Hafa ber í huga að sérreglur gilda áfram um takmörkun aðgangs að upplýsingum lögreglu í tengslum við Schengen-upplýsingakerfið, sbr. ákvæði laga nr. 16/2000.
    Víða í frumvarpinu er gert ráð fyrir vinnslu upplýsinga um afbrot útlendinga en slíkar upplýsingar teljast viðkvæmar persónuupplýsingar, sbr. b-lið 8. tölul. 2. gr. laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, nr. 77/2000. Þessi heimild til vinnslu persónuupplýsinga tekur mið af 2. tölul. 1. mgr. 9. gr. sömu laga, en þar er gert ráð fyrir að ákvæði annarra laga mæli fyrir um heimild til vinnslu viðkvæmra persónuupplýsinga. Það skal áréttað sérstaklega að vinnsla persónuupplýsinga samkvæmt þessu ákvæði er einungis heimil að því marki sem nauðsynlegt er með hliðsjón af lögbundnu hlutverki Útlendingastofnunar. Um meðferð Útlendingastofnunar á persónuupplýsingum fer eftir lögum um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga og á það einnig við um eftirlit Persónuverndar með vinnslu persónuupplýsinga hjá stofnuninni.
    Samkvæmt 2. mgr. skal dómsmálaráðherra, að fenginni umsögn Persónuverndar, setja reglur um hvaða skrár skulu haldnar af Útlendingastofnun og lögreglu.

Um 56. gr.

    Greinin kveður á um hver beri ábyrgð á kostnaði sem hlýst af því að útlendingur verður að fara úr landi. Greinin kemur í stað 16. gr. gildandi laga.
    Samkvæmt 1. mgr. skal útlendingur, sem færður er úr landi, greiða kostnað vegna brottfarar sinnar. Útlendingurinn skal einnig greiða kostnað við gæslu þegar hennar er þörf vegna þess að hann fer ekki úr landi af sjálfsdáðum. Út frá því er gengið að útlendingur fari sjálfviljugur úr landi og á eigin kostnað áður en heimilaður dvalartími er liðinn. Ef hins vegar útlendingur er færður úr landi skal hann greiða kostnað sem skapast af því, svo og kostnað af gæslu sem þörf er á í því sambandi, en það getur verið kostnaður við gæslu fyrir brottför og vegna fylgdarmanna. Stjórnvöld þurfa að geta sýnt fram á nauðsyn gæslu og fylgdar, til dæmis þannig að útlendingurinn hafi reynt að komast undan framkvæmd ákvörðunar um að yfirgefa landið eða lýst því yfir að hann muni reyna það. Þá er í ákvæðinu kveðið á um aðfararhæfi kröfunnar og að krafan geti verið grundvöllur frávísunar við síðari komu til landsins, sbr. h-lið 1. mgr. 18. gr., svo og um heimild lögreglu til að leggja hald á farseðla, sem finnast í fórum útlendingsins, til notkunar við brottför.
    Í 2. mgr. eru ákvæði um ábyrgð eiganda skips eða loftfars eða leigutaka farsins, svo og stjórnanda fars eða umboðsmanns. Ef útlendingi, sem komið hefur með fari, er vísað frá landi bera þessir aðilar ábyrgð á að færa útlendinginn úr landi. Er þá um þrjá kosti að ræða, að taka útlendinginn aftur um borð, að flytja hann úr landi með öðrum hætti eða greiða kostnað sem hið opinbera hefur af því að færa útlendinginn úr landi. Auk þess ber þeim skylda til að taka fylgdarmenn um borð og greiða kostnað vegna fylgdar með útlendingnum úr landi ef lögregla telur þess þörf. Útlendingur ber ábyrgð á kostnaði þessum skv. 1. mgr. en ábyrgð farsins er til vara. Í reynd mun það hins vegar yfirleitt lenda á flytjanda að innheimta kostnaðinn hjá útlendingum.
    Ef útlendingur greiðir ekki sjálfur kostnað við að færa hann úr landi og greiðsla fæst heldur ekki frá flytjanda stendur ríkissjóður straum af kostnaði, sbr. 3. mgr.
    Í 4. mgr. er ákvæði um ábyrgð á kostnaði vegna útlendings sem lætur af starfi um borð í skipi eða loftfari eða er laumufarþegi og gengur í land án leyfis.
    Samkvæmt 5. mgr. eru flytjendur undanþegnir ábyrgð skv. 2. og 4. mgr. þegar farið er um innri landamæri Schengen-svæðisins. Telja verður í ósamræmi við reglur Schengen-svæðisins um afnám persónueftirlits á innri landamærum að leggja slíka ábyrgð á flytjendur.

Um 57. gr.

    Í greininni er greint frá því hvaða háttsemi skuli refsiverð samkvæmt lögunum, hver sé refsirammi og hverjar saknæmiskröfur. Bæði íslenskir ríkisborgarar og erlendir geta bakað sér refsiábyrgð. Gert er ráð fyrir að brot geti varðað sektum eða fangelsi. Refsihámark er sex mánuðir skv. 1. mgr. og tvö ár skv. 2. mgr. Skv. 3. mgr. er refsihámark enn hærra eða sex ár ef um er að ræða skipulagða starfsemi sem rekin er í hagnaðarskyni til að aðstoða útlendinga við að koma með ólögmætum hætti til landsins eða til annars lands. Þessu til viðbótar gilda ákvæði 2. mgr. 49. gr. almennra hegningarlaga en þar er heimilað að dæma fésektir jafnframt refsivist þegar ákærði hefur aflað sér eða öðrum fjárvinnings með broti eða það hefur vakað fyrir honum.
    Í e- og f-lið 2. mgr. er að finna refsiákvæði sem svara til 1. mgr. 27. gr. Schengen-samningsins.
    Í 4. mgr. er að finna heimild til að gera stjórnanda skips eða loftfars sekt ef útlendingur er fluttur til landsins án þess að hafa fullnægjandi ferðaskilríki. Í þessu felst að sá sem annast flutning verður að kanna og fullvissa sig um að útlendingur hafi ferðaskilríki áður en hann er fluttur hingað, sbr. reglur skv. 3. mgr. 4. gr. Ef slíkt brot er framið í starfsemi lögaðila fer um refsiábyrgð eftir 5. mgr. Með þessu ákvæði er fullnægt skuldbindingu skv. 26. gr. Schengen-samningsins.
    Samkvæmt 5. mgr. er heimilt að leggja sekt á lögaðila ef brot er framið í starfsemi lögaðilans, til dæmis eiganda skips eða loftfars. Um slíka refsiábyrgð fer eftir reglum II. kafla A almennra hegningarlaga.
    Samkvæmt 6. mgr. er loks tekið fram að refsa skuli fyrir tilraun eða hlutdeild í broti eftir því sem segir í reglum III. kafla almennra hegningarlaga.

Um IX. kafla.

    Í þessum kafla er að finna reglugerðarheimild og ákvæði um gildistöku.

Um 58. gr.

    Í mörgum greinum er veitt heimild til að setja reglur um einstök atriði. Þær ná bæði til efnisreglna og reglna um framkvæmd. Greinin veitir hins vegar heimild til að setja nánari reglur um framkvæmd laganna. Hún er því til fyllingar öðrum ákvæðum en takmarkast við reglur um framkvæmd.

Um 59. gr.

    Lagt er til að lögin öðlist gildi 1. júlí 2002. Nauðsynlegt er að nokkur tími líði frá því að lögin verða samþykkt og þar til þau koma til framkvæmda. Áður en lögin koma til framkvæmda verður nauðsynlegt að setja í reglugerð ítarleg ákvæði um einstök atriði og þarf að ætla hæfilegan tíma til þess.
    Jafnframt er gert ráð fyrir að gildandi lög um eftirlit með útlendingum, nr. 45 12. maí 1965, með síðari breytingum, falli úr gildi.
    Loks er lagt til að ákvæðum nokkurra annarra laga verði breytt til samræmis við ákvæði frumvarpsins.

Fylgiskjöl:
     I.      Auglýsing um aðild Íslands að alþjóðasamningi um stöðu flóttamanna
  70

     II.      Bókun um að leysa ríkisborgara Íslands, Danmerkur, Finnlands, Noregs
        og Svíþjóðar undan skyldu til að hafa í höndum vegabréf og dvalarleyfi
        við dvöl í öðru norrænu landi en heimalandinu
104

     III.      Norræni vegabréfaeftirlitssamningurinn
105

     IV.      Úr Schengen-samningnum frá 19. júní 1990 um framkvæmd Schengen-
        samkomulagsins frá 14. júní 1985
113

     V.      Samningur um það, hvaða ríki beri ábyrgð á umfjöllun um beiðni um hæli
        sem lögð er fram í einhverju aðildarríkja Evrópubandalaganna
        (Dyflinnarsamningurinn frá 15. júní 1990)
121

     VI.      Samningur milli Evrópubandalagsins og lýðveldisins Íslands og konungsríkisins
        Noregs um viðmiðanir og fyrirkomulag við að ákvarða hvaða ríki skuli fara með
        beiðni um hæli sem lögð er fram í aðildarríki eða á Íslandi eða í Noregi,
        gerður 19. janúar 2001
131

     VII.      Umsögn um frumvarp til laga um útlendinga
138


Fylgiskjal I.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Fylgiskjal II.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Fylgiskjal III.


NORRÆNI VEGABRÉFAEFTIRLITSSAMNINGURINNSAMNINGUR


milli Danmerkur, Finnlands, Noregs og Svíþjóðar um afnám vegabréfaskoðunar við landamæri milli Norðurlandanna, gerður 12. júlí 1957, sem Ísland gerðist aðili að 24. september 1965, með breytingum frá 27. júlí 1979.

    Aðildarríkin,
    sem álíta að það sé æskilegt að auðvelda ferðalög milli Norðurlandanna,
    sem áður hafa algerlega afnumið vegabréfaskyldu fyrir ríkisborgara Norðurlandanna,
    sem eru sammála um að leyfa útlendingum að ferðast beint frá einu landi til annars innan Norðurlandanna á landamærastöð, sem er viðurkennd til ferða inn í landið og til útlanda, án þess að vera háðir vegabréfaskoðun, og
    sem vilja í meginatriðum stefna að því að samræma kröfur um vegabréfsáritun og vilja leitast við að koma á samræmdum venjum að því er snertir veitingu vegabréfaáritana fyrir verslunarferðir, námsferðir, skemmtiferðir og aðrar ferðir, sem taka álíka skamman tíma, hafa orðið sammála um eftirfarandi:

1. gr.

    Í þessum samningi er með orðinu útlendingur átt við hvern þann, sem er ekki ríkisborgari í Danmörku, Finnlandi, Noregi eða Svíþjóð.
    Með orðunum norræn ríki eða Norðurlöndin er í þessum samningi átt við Danmörku (að Grænlandi og Færeyjum undanteknum), Finnland, Noreg (að Svalbarða og Jan Mayen undanteknum) og Svíþjóð.
    Með orðunum norræn útmörk er í þessum samningi átt við:
     a)      landamæri milli norræns ríkis og ríkis utan Norðurlandanna,
     b)      flugvöll í norrænu ríki, sem hefur reglulegar flugsamgöngur við ríki utan Norðurlandanna,
     c)      höfn í norrænu ríki, sem hefur reglulegar skipa- eða ferjusamgöngur við ríki utan Norðurlandanna,
     d)      höfn eða flugvöll í norrænu ríki, sem skip og flugvélar frá ríki utan Norðurlandanna koma óreglulega til, eða þaðan sem skip eða flugvélar fara til ríkis utan Norðurlandanna.

2. gr.

    [Sérhvert aðildarríkjanna á að framkvæma vegabréfaskoðun hjá þeim sem koma inn í landið við norræn útmörk þess. Aðildarríki ákveður að hvaða marki vegabréfaskoðun skuli framkvæmd hjá þeim sem fara út úr landinu við norræn útmörk þess.
    Sérhvert aðildarríkjanna á að nota skráningarspjöld (komuspjöld) sem hjálpargögn við komueftirlit með:
     a)      útlendigum með vegabréf sem eru áritunarskyld í einhverju aðildarríkjanna, ef þetta aðildarríki krefst skráningarspjalda,
     b)      útlendingum sem aðildarríki hefur í sambandi við ákvörðun um brottvísun úr landi tilkynnt bann við endurkomu til þess ríkis án sérstaks leyfis.].
    . 1. gr. samkomulags frá 27. júlí 1979.

3. gr.

    [Það ríki sem komið er til skal geyma komuspjaldið. Hafi útlendingurinn fengið vegabréfsáritun til annars norræns ríkis, skal senda því ríki afrit af spjaldinu.].
    . 2. gr. samkomulags frá 27. júlí 1979.


4. gr.

    Vilji eitthvert aðildarríkjanna afnema eða koma á áritunarskyldu á vegabréf gagnvart ríki utan Norðurlandanna eða gera aðrar verulegar breytingar á samkomulagi sínu um áritanir við ríki utan Norðurlandanna, skal hið fyrrnefnda ríki fyrirfram tilkynna aðildarríkjunum um hinar fyrirhuguðu ráðstafanir, svo framarlega sem ekki eru brýnar ástæður fyrir hendi, sem gera það nauðsynlegt að framkvæma þessar ráðstafanir strax. Ef svo stendur á, skal tilkynna hinum aðildarríkjunum um framkvæmd þessara ráðstafana eins fljótt og auðið er, þegar þeim er lokið.
    Það, sem sagt er í 1. málsgrein, á einnig við um setningu annarra almennra ákvæða um komu og brottför útlendinga og dvöl í hlutaðeigandi ríki.

5. gr.

    Sérhvert aðildarríkjanna skal krefjast þess, að útlendingur, sem ber vegabréf, sem ekki er áritunarskylt, og óskar að dveljast í hlutaðeigandi ríki lengur en 3 mánuði, eftir að hann er kominn inn í norrænt ríki frá ríki utan Norðurlandanna, skuli sækja um dvalarleyfi í því norræna ríki, sem hann dvelst í, þegar þriggja mánaða tímabilið rennur út.
    Hafi útlendingur fengið dvalarleyfi í norrænu ríki, gildir leyfið aðeins fyrir dvöl í því ríki. Innan þess tímabils, sem dvalarleyfið gildir fyrir, skulu hin aðildarríkin, þar sem útlendingurinn er ekki skyldur til að útvega sér áritun á vegabréf sitt, leyfa honum að dvelja í landinu í 3 mánuði án dvalarleyfis. Þetta á ekki við, ef útlendingurinn ætlar að dvelja í ríkinu lengri tíma en þessa 3 mánuði eða hyggst leita eftir atvinnu eða taka við starfi eða reka sjálfstæðan atvinnurekstur þar, svo framarlega sem þess er krafist samkvæmt löggjöf hlutaðeigandi ríkis að sækja skuli um dvalarleyfi fyrr en við lok þriggja mánaða tímabilsins.
    Þegar beitt er ákvæðum í 1. málsgrein, skal telja það tímabil, sem dvalarleyfis er ekki krafist fyrir, frá og með komudegi, þó skal, ef útlendingurinn hefur, áður en hann kom síðast inn í landið, dvalist í norrænu ríki, draga frá því tímabili, sem hann má dvelja þar án dvalarleyfis, það tímabil, sem útlendingurinn hefur dvalist í norrænu ríki á síðustu 6 mánuðum, áður en hann síðast kom til landsins.
    Þegar beitt er ákvæðum í 2. málsgrein, skal telja það tímabil, sem dvalarleyfis er ekki krafist fyrir, frá og með komudegi í hlutaðeigandi ríki, þó skal, ef útlendingurinn hefur, áður en hann síðast kom til landsins, dvalist áður í þessu landi, draga frá því tímabili, sem hann má dvelja þar án dvalarleyfis, það tímabil, sem útlendingurinn hefur dvalist í þessu landi á síðustu 6 mánuðum, áður en hann síðast kom til landsins.

6. gr.

    Aðildarríkin eiga að vísa burt við hin norrænu útmörk sín sérhverjum útlending,
     a)      sem ekki hefur í höndum gilt vegabréf eða annað ferðaskírteini, sem hlutaðeigandi yfirvöld í aðildarríkjunum geta viðurkennt, sem gilt vegabréf,
     b)      sem hvorki hefur nauðsynlegt leyfi til að fara inn í hlutaðeigandi ríki eða vinna þar, né slík leyfi í hinu eða hinum norrænu ríkjunum, sem útlendingurinn ætlar að ferðast til,
     c)      sem álíta verður, að hvorki hafi nauðsynlegt fé til að dvelja í þessu ríki né þeim öðrum aðildarríkjanna, þar sem hann ætlar að dveljast, ásamt fé til heimferðarinnar,
     d)      sem álíta verður, að ekki muni vinna fyrir sér á heiðarlegan hátt,
     e)      sem áður hefur verið dæmdur til fangelsisvistar, og gera má ráð fyrir að muni fremja hegningarverðan verknað í norrænu ríki, eða sem vegna fyrri athafna sinna eða af öðrum ástæðum má búast við að muni fremja skemmdarverk, stunda njósnir eða óleyfilegt fréttastarf í einhverju aðildarríkjanna,
     f)      sem í einhverju aðildarríkjanna er færður á skrá yfir útlendinga, sem vísað hefur verið úr landi.
    Að öðru leyti er hægt að hafna hvaða útlendingi sem er, þegar af öðrum ástæðum á ekki að veita honum leyfi til að koma inn í eitt eða fleiri af aðildarríkjunum.
    Ákvæðin í bókstafsliðunum b) – f) eiga ekki við um útlending, sem ætlar að ferðast til eins af aðildarríkjunum, sem hann hefur leyfi til að ferðast til, eða þar sem hann hefur dvalarleyfi, sem gefur honum heimild til að koma inn í það land.

7. gr.

    [Ákvæði 2. og 6. gr. eiga ekki við um útlendinga sem koma frá ríki utan Norðurlanda sem einn af áhöfn skips. Þó skal útlendingur sem kemur frá ríki utan Norðurlanda sem einn af áhöfn skips og er afskráður í norrænu ríki sæta komueftirliti samkvæmt ákvæðum 2. og 6. gr.].
    Hvert um sig af aðildarríkjunum á rétt á því að ákveða, að maður af áhöfn skips megi án sérstaks leyfis dvelja í landi, meðan skipið dvelur í höfn vanalegan tíma.
    Ákvæði þessarar greinar eiga á sama hátt við um fólk, sem tilheyrir útlendri áhöfn flugvélar.
    . 3. gr. samkomulags frá 27. júlí 1979.

8. gr.

    [Aðildarríki skal heimilt að framkvæma úrtaksskoðun við landamæri sín og annars norræns ríkis. Aðildarríki getur auk þess einnig framkvæmt vegabréfaskoðun við landamæri sín og annars norræns ríkis, þegar það er talið nauðsynlegt til að koma í veg fyrir veruleg brögð að því að menn fari með ólöglegum hætti inn í ríkið vegna mismunar á áritunarskyldu aðildarríkjanna. Ákvörðun um þess háttar eftirlit má hverju sinni gilda í sex mánuði hið lengsta.
    Framkvæmi aðildarríki vegabréfaskoðun samkvæmt 1. málsgr. má gera útlendingi það skylt að sýna vegabréf sitt og láta í té þær upplýsingar sem óskað er eftir.
    Nú tekur aðildarríki ákvörðun um að framkvæma vegabréfaskoðun við landamæri sín og annars norræns ríkis samkvæmt 2. og 3. málslið 1. málsgr. og fellur þá niður skylda hins norræna ríkissins samkvæmt 10. gr. til að taka aftur við þeim, sem hafa komið inn í landið á slíku tímabili.
    Sérhvert aðildarríkjanna getur við landamæri sín og annars aðildarríkis vísað frá sérhverjum útlendingi sem ekki hefur leyfi til að fara inn í hlutaðeigandi ríki.].
    . 4. gr. samkomulags frá 27. júlí 1979.

9. gr.

    Aðildarríki má ekki leyfa útlendingi, sem annað aðildarríki hefur vísað úr landi, að koma inn í landið án sérstaks leyfis. Slíks leyfis er þó ekki krafist, ef aðildarríkið vill senda útlending, sem það hefur vísað úr landi, gegnum yfirráðasvæði annars aðildarríkis.
    Hafi útlendingur, sem vísað hefur verið úr landi í einu Norðurlandanna, dvalarleyfi í einhverju af hinum Norðurlöndunum, er síðarnefnda landið skyldugt til að taka við útlendingnum, ef þess er óskað.

10. gr.

    Sérhvert aðildarríkjanna skuldbindur sig til að taka aftur við útlendingi, sem í samræmi við 6. grein, bókstafsliðina a) og b), að því er snertir leyfi til að koma inn í landið, eða samkvæmt bókstafslið f) hefði átt að vera hafnað af hlutaðeigandi ríki við útmörk þess, og sem án leyfis hefur ferðast frá þessu ríki til annars norræns ríkis.
    Sömuleiðis skuldbindur sérhvert aðildarríkjanna sig til þess að taka aftur við útlendingi, sem án fullgilds vegabréfs og án sérstaks leyfis, þar sem þess er krafist, hefur ferðast beint frá hlutaðeigandi ríki til annars norræns ríkis.
    [Reglur þær sem gefnar eru í 1. og 2. málsgr. eiga ekki við um útlending, sem dvalist hefur í því ríki, sem krefst endursendingar, í að minnsta kosti 6 mánuði talið frá þeim tíma, þegar hann með ólöglegum hætti kom inn í ríkið, eða sem eftir að hafa komið með ólöglegum hætti inn í ríkið, hefur fengið dvalar- og eða atvinnuleyfi þar. Skylda til að taka aftur við manni er háð því skilyrði, að tilmæli þar um hafið verið borin fram innan eins mánaðar eftir að yfirvöldum varð kunnugt um dvöl útlendingsins í ríkinu.].
    . 5. gr. samkomulags frá 27. júlí 1979.

11. gr.

    [Að ósk aðildarríkis er hinum aðildarríkjunum skylt að framkvæma eftirgrennslan eftir útlendingi. Eftirgrennslan skal gerð án tafar þegar tilmæli um hana berast. Tilmæli um eftirgrennslan skulu hafa að geyma eins fullkomnar upplýsingar um útlendinginn og unnt er.
    Í tilkynningu um að útlendingur óskist færður á eða felldur af skrám hinna aðildarríkjanna um útlendinga, sem vísað hefur verið úr landi, skal eftir því sem unnt er að greina í stuttu máli ástæðuna til þess.].
    . 6. gr. samkomulags frá 27. júlí 1979.

12. gr.

    Það, sem í þessum samningi er tilgreint um útlendinga, sem vísað hefur verið úr landi, á einnig við um útlendinga, sem samkvæmt finnskum eða sænskum lögum „förvisats“ eða „förpassats“ og hefur verið bannað að koma aftur án sérstaks leyfis.

13. gr.

    Í þeim tilgangi að samræma eftirlitið með útlendingum í aðildarríkjunum og að öðru leyti bera fram og ræða atriði, sem snerta hið sameiginlega vegabréfaeftirlitssvæði á Norðurlöndunum, skal skipa samvinnunefnd (Det nordiske udlændingsudvalg). Í nefndinni skal eiga sæti einn fulltrúi fyrir hvert aðildarríkjanna. Fulltrúarnir geta kvatt sérfróða menn sér til aðstoðar, ef nauðsyn krefur.

14. gr.

    Að undangengnum samningum getur ríkisstjórn Íslands gerst aðili að þessum samningi. Að undangegnum samningum má einnig bæta því ákvæði við þennan samning, að hann nái til Færeyja og Grænlands.

15. gr.

    Samninginn skal fullgilda og koma fullgildingarskjölunum fyrir í Kaupmannahöfn til geymslu.
    Samningurinn öðlast gildi strax og öllum fullgildingarskjölum hefur verið komið fyrir til geymslu, þó ekki fyrr en 1. janúar 1958.
    Sérhvert aðildarríkjanna getur sagt samningnum upp með 6 mánaða fyrirvara.
    Sérhvert aðildarríkjanna getur fyrirvaralaust fellt samninginn úr gildi, að því er snertir eitt eða fleiri af hinum ríkjunum, þegar stríð kemur eða hætta er á stríði, eða ef sérstakar aðstæður aðrar, annaðhvort í því ríki sjálfu eða erlendis, gera þetta nauðsynlegt. Þegar svo stendur á, skal tafarlaust tilkynna ríkisstjórnum hinna ríkjanna um þær ráðstafanir, sem hafa verið gerðar.
    Til staðfestingar á ofanrituðu hafa fulltrúar hlutaðeigandi ríkja undirskrifað samninginn og sett innsigli sitt undir.
    Gert í Kaupmannahöfn 12. júlí 1957 í eintaki á dönsku, finnsku, norsku og sænsku og skal danska utanríkisráðuneytið fá ríkisstjórnum hinna aðildarríkjanna staðfest afrit.


VIÐBÓTARBÓKUN

við samning frá 12. júlí 1957 milli Danmerkur, Finnlands, Noregs og Svíþjóðar, um afnám vegabréfaskoðunar við sameiginleg landamæri Norðurlanda, gerð 20. maí 1963.

    Danmörk, Finnland, Noregur og Svíþjóð, sem hinn 12. júlí 1957, gerðu með sér samning um afnám vegabréfaskoðunar við hin sameiginlegu landamæri Norðurlanda, hafa orðið ásátt um eftirfarandi viðbót við samninginn:

1. gr.

    Leiðbeiningar þær fyrir vegabréfaskoðunarmenn, er skráð eru í fylgiskjali 1 með samningnum, skal nota á samsvarandi hátt í þeim tilvikum, er nafnskírteini eru tekin gild sem vegabréf, þó þannig, að sleppa má komu- og brottfararstimplun.

2. gr.

    Leiðbeiningareglur þær um brottvísun útlendinga við ytri landamæri Norðurlandanna, er skráðar eru í 6. grein samningsins, skal nota á samsvarandi hátt, þegar spurning rís um að fjarlægja útlending af yfirráðasvæði einhvers samningsríkjanna innan þess tíma, er ekki er krafist dvalarleyfis.

3. gr.

    Viðbótarbókun þessi gengur í gildi hinn 1. júní 1963.
    Þessu til staðfestu hafa undirritaðir, er hafa til þess umboð, undirritað bókun þessa.

    Gert í Kaupmannahöfn hinn 20. maí 1963 í einu eintaki á dönsku, finnsku, norsku og sænsku.
    Eintak þetta er geymt í danska utanríkisráðuneytinu.
    Staðfest eftirrit af viðbótarbókun þessari, skal sent hinum aðilunum frá danska utanríkisráðuneytinu.

SAMKOMULAG

milli Íslands, Danmerkur, Finnlands, Noregs og Svíþjóðar um viðauka við samkomulag sömu ríkja frá 12. júlí 1957 um afnám vegabréfaeftirlits við landamæri milli Norðurlandanna, gert 2. apríl 1973.

    Samningaríkin hafa orðið sammála um eftirfarandi viðauka við samkomulag milli Danmerkur, Finnlands, Noregs og Svíþjóðar frá 12. júlí 1957 um afnám vegabréfaeftirlits við landamæri milli Norðurlandanna (hér á eftir nefnt vegabréfaeftirlitssamningurinn), sem Ísland gerðist aðili að 24. september 1965.

1. gr.

    Að því leyti sem það er nauðsynlegt til að fullnægja skuldbindingum, sem 1. júlí 1973 hvíla á samningsríki gagnvart ríki, sem ekki er aðili að samningnum, getur samningsríkið gert eftirfarandi frávik frá vegabréfaeftirlitssamningnum:
     a)      Þrátt fyrir ákvæði 1. málsgr. 5. gr. getur samningsríki fallið frá kröfu um dvalarleyfi fyrir sérstaka flokka vinnuþega.
     b)      Þrátt fyrir ákvæði 3. málsgr. 5. gr. getur samningsríki við útreikning á því tímabili, sem dvalarleyfis er ekki krafist fyrir, látið hjá líða að draga frá tíma vegna fyrri dvalar í samningsríki.
     c)      Þrátt fyrir ákvæði 6. gr. getur samningsríki látið hjá líða að vísa útlendingi frá, enda mundi ákvörðun um frávísun hans ekki reist á tilliti til allsherjarreglu, öryggis eða heilbrigðis í því samningsríki.
                  Nú hefur ríki samkvæmt undanþáguákvæði þessu látið hjá líða að vísa útlendingi frá, og er það þá samt, með þeirri takmörkun, sem greinir í 3. málsgr. 10. gr., skuldbundið til að taka aftur við útlendingnum, ef hann er kominn inn í annað samningsríki. Sama gildir, ef samningsríki til að fullnægja skuldbindingum sínum gagnvart ríki, sem ekki er aðili að samningnum, hefur ekki vísað frá útlendingi, sem síðar er kominn inn í annað samningsríki án þess að hafa tilskilið vinnuleyfi þar.
     d)      Þrátt fyrir ákvæði 1. málsgr. 9. gr. getur samningsríki leyft útlendingi, sem annað samningsríki hefur vísað úr landi, að koma inn í landið án sérstaks leyfis, ef láta má hjá líða að vísa honum frá samkvæmt ákvæðum í staflið c).

2. gr.

    Nú er á sviði samstarfs samningsríkis við ríki, sem ekki er aðili að samningnum, lögð fram tillaga um ákvæði, sem ekki samrýmast vegabréfaeftirlitssamningnum og samkomulagi þessu, og skulu þá, eftir að hinum samningsríkjunum hefur samkvæmt 2. málsgr. 4. gr. vegabréfaeftirlitssamningsins verið tilkynnt um tillöguna, eftir kröfu samningsríkis, fara fram viðræður milli samningsríkjanna. Viðræðurnar skulu fara fram áður en ákvörðun er tekin um tillöguna, nema brýnar ástæður geri það nauðsynlegt að taka slíka ákvörðun strax. Í síðast nefndu tilviki skulu viðræður fara fram svo fljótt sem unnt er eftir að ákvörðun er tekin.
    Í viðræðunum skulu samningsríkin leitast við að skýra, hver áhrif hin nýju ákvæði muni hafa á hið norræna samstarf um vegabréfaeftrilit, og íhuga, hverjar breytingar muni þurfa að gera á vegabréfaeftirlitssamningnum eða á samkomulagi þessu.
    Samkomulag þetta skal fullgilda og fullgildinarskjölunum skal komið fyrir til geymslu í Kaupmannahöfn.
    Samkomulagið öðlast gildi 1. júlí 1973. Það helst í gildi að því er varðar samningsríki á meðan vegabréfaeftirlitssamningurinn er í gildi að því er varðar það ríki.
    Samkomulagið skal geyma í danska utanríkisráðuneytinu, og staðfest eftririt af því skal láta ríkisstjórnum hinna samningsríkjanna í té.
    Þessu til staðfestu hafa fulltrúar samningsríkjanna undirritað samkomulag þetta.

    Gjört í Kaupmannahöfn hinn 2. apríl 1973 í einu eintaki á íslensku, dönsku, finnsku, norsku og sænsku.

SAMKOMULAG

milli Danmerkur, Finnlands, Íslands, Noregs og Svíþjóðar um viðauka við norræna vegabréfaskoðunarsamninginn frá 12. júlí 1957 sem breytt var með samkomulagi frá 27. júlí 1979 og með viðaukasamkomulagi frá 2. apríl 1973, gert 18. september 2000.

    Samningsríkin,
    sem með samkomulagi frá 12. júlí 1957 milli Danmerkur, Finnlands, Noregs og Svíþjóðar hafa afnumið vegabréfaskoðun við samnorrænu landamærin (hér á eftir nefnt vegabréfaskoðunarsamningurinn), sem Ísland gerðist aðili að 24. september 1965, og sem breytt var með samkomulagi frá 27. júlí 1979 og samkomulagi frá 2. apríl 1973 milli Danmerkur, Finnlands, Íslands, Noregs og Svíþjóðar um viðauka við vegabréfaskoðunarsamninginn frá 12. júlí 1957,
    sem samkvæmt bókun um samþættingu Schengen-gerðanna innan Evrópusambandsins við Amsterdam-sáttmálann, sem undirrituð var 2. október 1997, eiga að taka upp nánara samstarf innan ramma Evrópusambandsins eða sem 18. maí 1999 undirrituðu samning um þátttöku í framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna við Evrópusambandið,
    sem telja að þörf sé á að kveða nánar á um beitingu einstakra ákvæða í vegabréfaskoðunarsamningnum með hliðsjón af þátttöku Norðurlandanna í Schengen-samstarfinu,
    hafa orðið sammála um eftirfarandi viðauka við vegabréfaskoðunarsamninginn:

1. gr.

    Við vegabréfaskoðunarsamninginn skulu ennfremur gilda eftirfarandi skilgreiningar:
     Skilgreiningar:
    Schengen-ríki    Ríki, sem samkvæmt bókun um samþættingu Schengen-gerðanna innan Evrópusambandsins á að taka upp nánara samstarf innan Evrópusambandsins eða sem gerst hefur aðili að samningnum um Schengen-samstarf, sem undirritaður var 18. maí 1999 við Evrópusambandið, og sem tekur þátt í hinu raunverulega samstarfi innan Schengen.
    Schengen-ríki sem ekki er norrænt    Schengen-ríki, annað en Danmörk, Finnland, Ísland, Noregur og Svíþjóð.
    Schengen-upplýsingakerfið (SIS)    Sameiginlega upplýsingakerfið sem komið var á fót samkvæmt samningnum frá 19. júní 1990 um framkvæmd Schengen-samkomulagsins frá 14. júní 1985.
    Útlendingur        Maður sem hvorki er ríkisborgari í einhverju aðildarríkja Evrópubandalaganna né á Íslandi eða í Noregi.


2. gr.

    Að því leyti sem það er nauðsynlegt til að fullnægja skuldbindingum sem hvíla á samningsríkjunum samkvæmt Schengen-samningnum gilda eftirfarandi frávik frá vegabréfaskoðunarsamningnum:
     a)      Ákvæði vegabréfaskoðunarsamningsins um vegabréfaskoðun eiga ekki við, ef norræn útmörk eru landamæri að Schengen-ríki sem ekki er norrænt.
     b)      Þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. (3. mgr. í norska textanum) 2. gr. og 3. gr. getur samningsríki látið hjá líða að nota komuspjöld.
     c)      Þrátt fyrir ákvæði 5. gr. getur samningsríki leyft útlendingi, sem hefur dvalarleyfi í eða vegabréfsáritun til annars samningsríkis eða Schengen-ríkis sem ekki er norrænt, að ferðast inn á svæði samningsríkisins án sérstaks leyfis í því skyni að halda för áfram til útgáfulandsins.
     d)      Þrátt fyrir ákvæði 5. gr. getur samningsríki við útreikning á því tímabili, sem dvalarleyfis er ekki krafist fyrir, talið það sem eitt dvalartímabil, ef hvorki lengd samfelldrar dvalar né heildarlengd fleiri dvalartímabila sem koma hvert á eftir öðru fer fram úr 3 mánuðum á 6 mánaða skeiði, talið frá fyrsta komudegi til samningsríkis eða Schengen-ríkis sem ekki er norrænt.
     e)      Þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. 5. gr. má leyfa útlendingi, sem hefur dvalarleyfi í samningsríki eða í Schengen-ríki sem ekki er norrænt, innan þess tímabils sem dvalarleyfið gildir, að dvelja á landssvæði hinna samningsríkjanna í allt að 3 mánuði.
     f)      Þrátt fyrir ákvæði f-liðar 1. mgr. 6. gr. getur samningsríki því aðeins vísað burt útlendingi, sem færður er á skrá annars samningsríkis yfir útlendinga sem vísað hefur verið úr landi, að útlendingurinn hafi jafnframt verið tilkynntur sem óæskilegur í Schengen-upplýsingakerfinu.
     g)      Þrátt fyrir ákvæði 3. mgr. 6. gr. skal ekki vísa burt samkvæmt a-lið 1. mgr. 6. gr.
     h)      Þrátt fyrir ákvæði 3. mgr. 6. gr. getur samningsríki þó vísað burt útlendingi, ef útlendingurinn er færður á skrá samningsríkisins yfir útlendinga sem vísað hefur verið úr landi.
     i)      Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. 8. gr. getur samningsríki einungis tímabundið framkvæmt vegabréfaskoðun við innri norræn landamæri, þegar tillit til allsherjarreglu eða þjóðaröryggis krefst þess, sbr. 2. mgr. 2. gr. Schengen-samningsins.
     j)      Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. 9. gr. getur samningsríki því aðeins meinað útlendingi, sem annað samningsríki hefur vísað úr landi, að koma án sérstaks leyfis, að útlendingurinn hafi verið tilkynntur sem óæskilegur í Schengen-upplýsingakerfinu.
     k)      11. gr. fellur brott.
     l)      Ákvæði vegabréfaskoðunarsamningsins ber að túlka í samræmi við viðeigandi reglur sem settar hafa verið á grundvelli Schengen-samningsins og frekari þróun þeirra.

3. gr.

    Nú er innan ramma þátttöku samningsríkjanna í Schengen-samstarfinu lögð fram tillaga um ákvæði sem ekki samrýmast vegabréfaskoðunarsamningnum, og skulu þá eftir kröfu eins samningsríkis fara fram viðræður milli samningsríkjanna. Viðræður skulu fara fram áður en ákvörðun er tekin um tillöguna, nema brýnar ástæður geri það nauðsynlegt að taka slíka ákvörðun strax. Í síðast nefndu tilviki skulu viðræðurnar fara fram svo fljótt sem unnt er eftir að ákvörðunin er tekin.
    Í viðræðunum skulu samningsríkin leitast við að skýra hver áhrif hin nýju ákvæði muni hafa á hið norræna samstarf um vegabréfaskoðun og íhuga hverjar breytingar muni þurfa að gera á vegabréfaskoðunarsamningnum.

4. gr.

    Samkomulag þetta öðlast gildi 30 dögum eftir þann dag þegar öll samningsríki hafa tilkynnt danska utanríkisráðuneytinu um staðfestingu þeirra á samkomulaginu. Samkomulagið getur þó í fyrsta falli öðlast gildi frá þeim degi sem ráð Evrópusambandsins hefur tekið ákvörðun um hina raunverulegu framkvæmd Schengen-samstarfsins á Norðurlöndunum.
    Danska utanríkisráðuneytið tilkynnir hinum samningsríkjunum um móttöku þessara tilkynninga og um það hvenær samkomulagið öðlast gildi.

5. gr.

    Samkomulagið heldur gildi fyrir samningsríki meðan vegabréfaskoðunar-samningurinn er í gildi fyrir viðkomandi ríki.

6. gr.

    Samkomulagið skal geyma í danska utanríkisráðuneytinu, og staðfest afrit þess skulu látin ríkisstjórnum hinna samningsríkjanna í té.
    Þessu til staðfestu hafa fulltrúar samningsríkjanna undirritað samkomulag þetta.

    Gjört í Kaupmannahöfn 18. september 2000 í einu eintaki á dönsku, finnsku, íslensku, norsku og sænsku, og eru allir textarnir jafngildir.Fylgiskjal IV.


Úr Schengen-samningnum frá 19. júní 1990 um framkvæmd
Schengen-samkomulagsins frá 14. júní 1985.

II. BÁLKUR
Afnám eftirlits á innri landamærum og för fólks
1. KAFLI
Farið yfir innri landamæri
2. gr.

    1.     Fara má yfir innri landamærin hvar sem er án þess að persónueftirliti sé framfylgt.
    2.     Þegar allsherjarregla eða þjóðaröryggi krefst þess getur samningsaðili þó ákveðið, að höfðu samráði við aðra samningsaðila, að taka tímabundið upp landamæraeftirlit á innri landamærum í samræmi við tilefni. Ef allsherjarregla eða þjóðaröryggi krefst þess að brugðist verði við án tafar skal viðkomandi samningsaðili grípa til nauðsynlegra ráðstafana og tilkynna hinum samningsaðilunum um þær eins fljótt og unnt er.
    3.     Afnám persónueftirlits á innri landamærum skal hvorki hafa áhrif á beitingu ákvæða 22. gr. né framkvæmd lögregluvalds þar til bærra yfirvalda samkvæmt löggjöf hvers samningsaðila, á gervöllu yfirráðasvæði hans né þær skyldur, sem kveðið er á um í löggjöf hans, til að eiga, hafa meðferðis og framvísa leyfum og skilríkjum.
    4.     Eftirliti með vörum skal framfylgt í samræmi við viðeigandi ákvæði þessa samnings. 1

2. KAFLI
Farið yfir ytri landamæri
3. gr.

    1.     Meginreglan er sú að aðeins má fara yfir ytri landamærin á landamærastöðvum og á ákveðnum afgreiðslutímum. Framkvæmdanefndin setur frekari ákvæði um þetta og einnig um undantekningar og reglur um staðbundna landamæraumferð, svo og reglur um sérstaka flokka skipasiglinga eins og skemmtisiglingar og strandveiðar.
    2.     Samningsaðilarnir skuldbinda sig til að taka upp viðurlög við því að fara í heimildarleysi yfir ytri landamærin utan landamærastöðvanna eða utan ákveðins afgreiðslutíma.

4. gr. 2

    1.     Samningsaðilarnir skulu tryggja að frá og með árinu 1993 þurfi farþegar, sem koma með flugi frá þriðja ríki, að sæta persónueftirliti og eftirliti með handfarangri við komu í flughöfn úr flugi frá viðkomandi þriðja ríki áður en þeir skipta yfir í innansvæðisflug. Farþegar, sem koma með innansvæðisflugi og skipta yfir í flug til þriðja ríkis, sæta persónueftirliti og eftirliti með handfarangri við brottför úr flughöfn þaðan sem flogið er til viðkomandi þriðja ríkis.
    2.     Samningsaðilarnir skulu grípa til nauðsynlegra ráðstafana til þess að eftirliti sé framfylgt í samræmi við ákvæði 1. mgr.
    3.     Ákvæði 1. og 2. mgr. hafa ekki áhrif á eftirlit með skráðum farangri; það fer annaðhvort fram í þeirri flughöfn, sem er lokaákvörðunarstaður, eða þeirri sem er upprunalegur brottfararstaður.
    4.     Fram að þeim tíma, sem kveðið er á um í 1. mgr., skal litið á flughafnir fyrir innansvæðisflug sem ytri landamæri þrátt fyrir skilgreininguna á innri landamærum.

5. gr.

    1.     Útlendingur getur fengið leyfi til að koma inn og dvelja í allt að þrjá mánuði á yfirráðasvæði samningsaðilanna ef hann uppfyllir eftirfarandi skilyrði:
     a.      hann þarf að hafa ein eða fleiri gild skilríki samkvæmt ákvörðun framkvæmdanefndarinnar sem veita heimild til að fara yfir landamærin;
     b.      hann þarf að hafa gilda vegabréfsáritun ef þess er krafist;
     c.      honum ber eftir atvikum að framvísa skjölum til staðfestingar á tilgangi dvalar og aðstæðum, meðan á dvölinni stendur, og að hann geti séð fyrir sér, meðan á fyrirhugaðri dvöl stendur, og greitt fyrir ferð til baka til upprunalandsins eða í gegnum þriðja ríki þar sem honum hefur verið tryggður aðgangur eða sýna fram á að hann sé í aðstöðu til að sjá fyrir sér á löglegan hátt;
     d.      hann má ekki vera á skrá yfir þá sem synja á um komu;
     e.      hann má ekki teljast geta verið ógnun við allsherjarreglu, þjóðaröryggi eða alþjóðasamskipti neins samningsaðilanna.
    2.     Útlendingi, sem uppfyllir ekki öll framangreind skilyrði, skal synja um komu inn á yfirráðasvæði samningsaðilanna, nema samningsaðili telji nauðsynlegt að víkja frá þessari meginreglu af mannúðarástæðum, vegna þjóðarhagsmuna eða alþjóðlegra skuldbindinga. Í þeim tilvikum verður aðgangur takmarkaður við yfirráðasvæði viðkomandi samningsaðila og skal hinum samningsaðilunum tilkynnt um þetta.
    Þessar reglur hafa ekki áhrif á beitingu sérstakra ákvæða um rétt til hælis eða þeirra ákvæða sem mælt er fyrir um í 18. gr.
    3.     Útlendingi, sem hefur dvalarleyfi eða vegabréfsáritun fyrir ferð til baka, sem einn samningsaðilanna hefur gefið út, eða hvor tveggja skilríkin ef þess er krafist, skal heimilað að fara í gegn, nema hann sé á landsskrá yfir þá sem synja á um komu hjá þeim samningsaðila þar sem hann óskar að koma yfir ytri landamærin.

6. gr.

    1.     Ferðir yfir ytri landamærin skulu vera undir eftirliti þar til bærra yfirvalda. Því skal framfylgt eftir samræmdum meginreglum, innan valdsviðs hvers ríkis og í samræmi við innlenda löggjöf og með tilliti til hagsmuna allra samningsaðilanna á yfirráðasvæðum þeirra.
    2.     Hinar samræmdu meginreglur, sem um getur í 1. mgr., eru:
     a)      Til þess að önnur skilyrði fyrir komu, dvöl, vinnu og brottför séu uppfyllt skal persónueftirlit ekki aðeins taka til sannprófunar ferðaskilríkja heldur einnig til rannsóknar á og varna gegn ógnunum við þjóðaröryggi og allsherjarreglu samningsaðilanna. Eftirlitið skal einnig taka til ökutækja fólks, sem fer yfir landamærin, og þeirra hluta sem það hefur meðferðis. Eftirlitinu skal framfylgt í samræmi við innlenda löggjöf hvers samningsaðila, sérstaklega þau ákvæði sem varða leit.
     b)      Allir skulu að minnsta kosti einu sinni sæta eftirliti sem gerir kleift að staðfesta hverjir þeir eru á grundvelli ferðaskilríkja sem þeir framvísa.
     c)      Útlendingar skulu sæta ítarlegu eftirliti við komu samkvæmt a- lið.
     d)      Við brottför skal því eftirliti framfylgt sem er nauðsynlegt til að tryggja hagsmuni allra samningsaðilanna samkvæmt lögum um útlendinga og er tilgangurinn með því rannsókn á og varnir gegn ógnunum við þjóðaröryggi og allsherjarreglu samningsaðilanna. Allir útlendingar skulu sæta slíku eftirliti.
     e)      Ef ekki er hægt að framfylgja slíku eftirliti af sérstökum ástæðum verður að raða í forgangsröð. Þá gildir sú meginregla að eftirlit við komu hefur forgang fram yfir eftirlit við brottför.
    3.     Þar til bær yfirvöld skulu halda uppi eftirliti með færanlegum einingum á ytri landamærunum á milli landamærastöðva; hið sama skal gilda um landamærastöðvar utan venjulegs afgreiðslutíma. Þetta eftirlit skal fara þannig fram að það hvetji ekki fólk til þess að komast hjá eftirliti á landamærastöðvunum. Framkvæmdanefndin kveður nánar á um tilhögun eftirlitsins ef svo ber undir.
    4.     Samningsaðilarnir skuldbinda sig til að hafa yfir að ráða nægilegum fjölda hæfra starfsmanna til að sinna eftirliti á ytri landamærunum.
    5.     Halda skal uppi sams konar eftirliti alls staðar á ytri landamærunum.

7. gr.

    Samningsaðilarnir skulu aðstoða hver annan og hafa nána og stöðuga samvinnu við að halda uppi öflugu eftirliti. Þeir skulu einkum skiptast á öllum mikilvægum upplýsingum sem máli skipta, að undanskildum upplýsingum um nafngreinda einstaklinga, nema þessi samningur kveði á um annað, og á sama hátt skulu þeir samræma, eftir því sem unnt er, fyrirmæli til þeirra yfirvalda sem sinna eftirliti auk þess að stuðla að því að þjálfun eftirlitsmanna, þar með talin framhaldsþjálfun, verði samræmd. Slík samvinna getur falist í gagnkvæmum skiptum á tengifulltrúum.

8. gr.

    Framkvæmdanefndin skal taka nauðsynlegar ákvarðanir um einstök hagnýt atriði er varða framkvæmd eftirlits á landamærunum.

3. KAFLI
Vegabréfsáritanir
1. þáttur
Vegabréfsáritanir til stuttrar dvalar
9. gr.

    1.     Samningsaðilarnir skuldbinda sig til þess að fylgja sameiginlegri stefnu í því sem varðar för fólks, sérstaklega með tilliti til reglna um vegabréfsáritanir. Með þetta í huga skulu þeir veita hver öðrum gagnkvæma aðstoð. Samningsaðilarnir skuldbinda sig einhuga til að samræma enn frekar stefnuna í málum sem varða vegabréfsáritanir.
    2.     Sameiginlegum reglum samningsaðilanna um vegabréfsáritanir fyrir ríkisborgara frá þriðju ríkjum, sem gilda við undirritun þessa samnings eða verða teknar upp síðar, verður aðeins breytt með samþykki allra samningsaðilanna. Í undantekningartilvikum getur samningsaðili vikið frá sameiginlegum reglum um vegabréfsáritanir gagnvart þriðja ríki þegar brýn þörf er á skjótri ákvörðun með tilliti til innlendrar stefnu þess aðila. Sá aðili skal hafa samráð við hina samningsaðilana fyrir fram og taka tillit til hagsmuna þeirra þegar ákvörðun er tekin og taka tillit til þeirra afleiðinga sem hún hefur í för með sér.

10. gr.

    1.     Taka skal upp samræmda vegabréfsáritun sem gildir á yfirráðasvæði allra samningsaðilanna. Þessa vegabréfsáritun má gefa út til dvalar í allt að þrjá mánuði; sjá þó nánar ákvæði 11. gr. um gildistíma.
    2.     Þangað til vegabréfsáritun af þessu tagi hefur verið tekin upp skulu samningsaðilarnir viðurkenna vegabréfsáritanir hinna landanna svo framarlega sem þær eru gefnar út á grundvelli sameiginlegra skilyrða og viðmiðana samkvæmt viðkomandi ákvæðum þessa kafla. 3
    3.     Þrátt fyrir ákvæði 1. og 2. mgr. áskilur hver samningsaðili sér rétt til að takmarka gildissvæði vegabréfsáritunarinnar á grundvelli sameiginlegs fyrirkomulags samkvæmt viðkomandi ákvæðum þessa kafla.

11. gr.

    1.     Vegabréfsáritunin, sem kveðið er á um í 10. gr., getur verið:
     a)      vegabréfsáritun sem gildir fyrir eina eða fleiri komur inn á svæðið, en hvorki samfelldur né samanlagður dvalartími nokkurra heimsókna í röð má vera lengri en þrír mánuðir á hálfs árs tímabili miðað við þann dag sem fyrst er komið inn á svæðið;
     b)      vegabréfsáritun vegna gegnumferðar sem veitir handhafa heimild til þess að fara einu sinni, tvisvar eða oftar í undantekningartilvikum um yfirráðasvæði samningsaðilanna yfir á yfirráðasvæði þriðja ríkis, enda taki gegnumferðin að hámarki fimm daga.
    2.     Ákvæði 1. mgr. skulu ekki koma í veg fyrir að samningsaðili geti, ef með þarf, gefið út á framangreindu hálfs árs tímabili nýja vegabréfsáritun sem gildir eingöngu á yfirráðasvæði þess aðila.

12. gr

    1.     Samræmda vegabréfsáritunin, sem kveðið er á um í 1. mgr. 10. gr., skal gefin út af sendiráðum eða ræðisskrifstofum samningsaðilanna og, þar sem við á, af þeim yfirvöldum samningsaðilanna sem tilgreind eru í 17. gr.
    2.     Meginreglan er sú að þar til bær samningsaðili til útgáfu slíkrar vegabréfsáritunar er samningsaðilinn þar sem aðalákvörðunarstaður ferðarinnar er. Ef ekki er hægt að fastákveða þennan ákvörðunarstað er meginreglan sú að vegabréfsáritun er gefin út af sendiráði eða ræðisskrifstofu þess samningsaðila sem fyrst er komið inn til.
    3.     Framkvæmdanefndin kveður nánar á um framkvæmdina og einkum þær viðmiðanir sem verða notaðar við að úrskurða hver teljist aðalákvörðunarstaður ferðarinnar.

13. gr.

    1.     Ekki má setja vegabréfsáritun í ferðaskilríki sem eru fallin úr gildi.
    2.     Ferðaskilríki skulu hafa lengri gildistíma en vegabréfsáritunin og þá skal tekið tillit til þess hve lengi má fresta því að nota vegabréfsáritunina. Vegabréfsáritun skal taka til ferðar útlendings til baka til upprunalands síns eða komu inn í þriðja ríki.

14. gr.

    1.     Ekki má setja vegabréfsáritun í ferðaskilríki sem gilda ekki hjá neinum samningsaðila. Ef ferðaskilríkin gilda aðeins hjá einum samningsaðila eða nokkrum samningsaðilum skal vegabréfsáritunin, sem sett er í þau, takmörkuð við þann eða þá samningsaðila.
    2.     Ef ferðaskilríki eru ekki tekin gild hjá einum eða fleiri samningsaðilum má gefa út leyfi sem kemur í stað vegabréfsáritunar.

15. gr.

    Meginreglan er sú að aðeins má gefa út vegabréfsáritanirnar, sem um getur í 10. gr., til handa útlendingi sem uppfyllir komuskilyrðin sem kveðið er á um í a-, c-, d- og e-lið 1. mgr. 5. gr.

16. gr.

    Telji samningsaðili nauðsynlegt að víkja frá meginreglunni, sem mælt er fyrir um í 15. gr., af einhverri þeirra ástæðna sem kveðið er á um í 2. mgr. 5. gr., og gefa út vegabréfsáritun til handa útlendingi sem uppfyllir ekki öll komuskilyrðin sem um getur í 1. mgr. 5. gr., gildir vegabréfsáritunin aðeins á yfirráðasvæði þess samningsaðila og skal hann gera hinum samningsaðilunum grein fyrir þessu.

17. gr.

    1.     Framkvæmdanefndin skal setja sameiginlegar reglur um meðferð umsókna um vegabréfsáritun, fylgjast með því að þær séu notaðar rétt og laga þær að nýjum aðstæðum og tilvikum.
    2.     Framkvæmdanefndin skal einnig ákveða í hvaða tilvikum útgáfa vegabréfsáritunar er háð samráði við miðlægt yfirvald þess samningsaðila, sem fékk umsóknina til meðferðar, og, ef við á, við miðlæg yfirvöld hinna samningsaðilanna.
    3.     Framkvæmdanefndin skal jafnframt taka nauðsynlegar ákvarðanir um eftirfarandi atriði:
     a)      ferðaskilríki sem mega bera vegabréfsáritun;
     b)      þá aðila sem eru þar til bærir að gefa út vegabréfsáritanir;
     c)      skilyrði fyrir útgáfu vegabréfsáritana á landamærum;
     d)      útlit, efni og gildistíma vegabréfsáritana og gjald sem skal innheimt fyrir útgáfu þeirra;
     e)      skilyrði fyrir framlengingu eða synjun um vegabréfsáritanirnar, sem um getur í c- og d-lið, með tilliti til hagsmuna allra samningsaðilanna;
     f)      takmarkanir á gildissvæði vegabréfsáritana;
     g)      meginreglur sem gilda um gerð sameiginlegrar skrár yfir þá sem synja á um komu, sbr. þó ákvæði 96. gr.

2. þáttur
Vegabréfsáritanir til langrar dvalar
18. gr.

    Vegabréfsáritanir til lengri dvalar en þriggja mánaða eru áritanir viðkomandi lands sem einstakir samningsaðilar gefa út í samræmi við eigin löggjöf. Vegabréfsáritun af því tagi heimilar handhafa að fara í gegnum yfirráðasvæði hinna samningsaðilanna til þess að komast inn á yfirráðasvæði þess samningsaðila sem gaf vegabréfsáritunina út, nema hann uppfylli ekki komuskilyrðin sem um getur í a-, d- og e-lið 1. mgr. 5. gr. eða sé á skrá yfir þá sem synja á um komu hjá þeim samningsaðila sem ræður yfirráðasvæðinu sem hann óskar að fara í gegnum.

4. KAFLI
Skilyrði fyrir för útlendinga
19. gr.

    1.     Útlendingar, sem eru handhafar samræmdrar vegabréfsáritunar og hafa komið löglega inn á yfirráðasvæði eins samningsaðila, hafa frelsi til að fara um yfirráðasvæði allra samningsaðilanna á meðan vegabréfsáritunin er í gildi, að því tilskildu að þeir uppfylli komuskilyrðin sem um getur í a-, c-, d- og e-lið 1. mgr. 5. gr.
    2.     Þangað til samræmd vegabréfsáritun verður tekin upp hafa útlendingar, sem eru handhafar vegabréfsáritunar sem er gefin út af einum samningsaðilanna og hafa komið löglega inn á yfirráðasvæði eins samningsaðila, frelsi til að fara um yfirráðasvæði allra samningsaðilanna á meðan vegabréfsáritunin er í gildi í allt að þrjá mánuði frá þeim degi sem þeir komu fyrst inn á svæðið, að því tilskildu að þeir uppfylli komuskilyrðin sem um getur í a-, c-, d- og e-lið 1. mgr. 5. gr. 4
    3.     Ekki skal beita ákvæðum 1. og 2. mgr. um vegabréfsáritanir sem hafa takmarkað gildissvæði í samræmi við ákvæði 3. kafla þessa bálks.
    4.     Ákvæði þessarar greinar gilda með fyrirvara um ákvæði 22. gr.

20. gr.

    1.     Útlendingar, sem falla ekki undir kvöð um vegabréfsáritun, hafa frelsi til að fara um yfirráðasvæði samningsaðilanna í allt að þrjá mánuði á sex mánaða tímabili frá þeim degi sem þeir komu fyrst inn á svæðið, að því tilskildu að þeir uppfylli komuskilyrðin sem um getur í a-, c-, d- og e-lið 1. mgr. 5. gr.
    2.     Ákvæði 1. mgr. hafa ekki áhrif á rétt hvers samningsaðila um sig til að heimila á yfirráðasvæði sínu að útlendingur dvelji lengur en þrjá mánuði í undantekningartilvikum eða vegna framkvæmdar tvíhliða samkomulags sem gert hefur verið áður en þessi samningur öðlast gildi.
    3.     Ákvæði þessarar greinar gilda með fyrirvara um ákvæði 22. gr.

21. gr.

    1.     Útlendingar, sem eru handhafar gilds dvalarleyfis, sem er gefið út af einum samningsaðilanna, og gildra ferðaskilríkja, hafa frelsi til að fara um yfirráðasvæði hinna samningsaðilanna í allt að þrjá mánuði, að því tilskildu að þeir uppfylli komuskilyrðin, sem um getur í a-, c- og e-lið 1. mgr. 5. gr., og séu ekki á innlendri skrá viðkomandi samningsaðila yfir þá sem synja á um komu.
    2.     Ákvæði 1. mgr. gilda einnig um útlendinga sem eru handhafar bráðabirgðadvalarleyfis, sem er gefið út af einum samningsaðilanna, og ferðaskilríkja sem eru gefin út af sama samningsaðila.
    3.     Samningsaðilarnir skulu senda framkvæmdanefndinni skrá yfir þau skjöl sem þeir gefa út sem dvalarleyfi eða bráðabirgðadvalarleyfi og sem ferðaskilríki í skilningi þessarar greinar.
    4.     Ákvæði þessarar greinar gilda með fyrirvara um ákvæði 22. gr.

22. gr.

    1.     Útlendingum, sem hafa komið löglega inn á yfirráðasvæði eins samningsaðilanna, er skylt að tilkynna sig hjá þar til bærum yfirvöldum á yfirráðasvæði þess samningsaðila, sem komið er til, í samræmi við þau skilyrði sem hver samningsaðili um sig setur. Hver samningsaðili um sig getur valið um hvort tilkynningin á sér stað við komu eða innan þriggja virkra daga frá komudegi inn á yfirráðasvæði viðkomandi samningsaðila.
    2.     Útlendingar, sem eru búsettir á yfirráðasvæði eins samningsaðila og ferðast inn á yfirráðasvæði annars samningsaðila, falla undir tilkynningarskyldu skv. 1. mgr.
    3.     Hver samningsaðili um sig skal ákveða undantekningar frá 1. og 2. mgr. og tilkynna framkvæmdanefndinni um þær.

23. gr.

    1.     Útlendingar, sem uppfylla ekki eða uppfylla ekki lengur þau skilyrði fyrir stuttri dvöl sem gilda á yfirráðasvæði eins samningsaðila, skulu fylgja þeirri meginreglu að yfirgefa tafarlaust yfirráðasvæði samningsaðilanna.
    2.     Ef útlendingur er handhafi gilds dvalarleyfis eða bráðabirgðadvalarleyfis sem annar samningsaðili hefur gefið út skal hann fara tafarlaust yfir á yfirráðasvæði þess samningsaðila.
    3.     Fari viðkomandi útlendingur ekki sjálfviljugur úr landi, eða ef ætla má að hann muni ekki fara úr landi, eða verði útlendingur að fara tafarlaust úr landi vegna þjóðaröryggis eða allsherjarreglu skal vísa honum brott af yfirráðasvæði samningsaðilans, þar sem hann var handtekinn, í samræmi við innlend lög þess samningsaðila. Ef brottvísun er óheimil samkvæmt þessum lögum má viðkomandi samningsaðili heimila útlendingnum dvöl á yfirráðasvæði sínu.
    4.     Viðkomandi útlendingi má vísa brott af yfirráðasvæði þess ríkis til upprunalands síns eða til einhvers annars lands sem hann má koma til, einkum samkvæmt viðeigandi ákvæðum samninga um endurviðtöku sem samningsaðilarnir hafa samþykkt.
    5.     Ákvæði 4. mgr. hafa ekki áhrif á innlend ákvæði um rétt til hælis, ákvæði Genfarsamningsins frá 28. júlí 1951 um réttarstöðu flóttamanna, eins og honum var breytt með New York-bókuninni frá 31. janúar 1967, né ákvæði 2. mgr. þessarar greinar né 1. mgr. 33. gr. þessa samnings.

24. gr.

    Með fyrirvara um viðeigandi hagnýtar viðmiðanir og fyrirkomulag, sem framkvæmdanefndin ákveður, skulu samningsaðilarnir jafna sín á milli þann mismun á kostnaði sem getur leitt af brottvísunarskyldu eins og kveðið er á um í 23. gr. þegar viðkomandi útlendingur getur ekki staðið straum af kostnaði við brottvísunina.

5. KAFLI
Dvalarleyfi og skráning þegar synja á um komu
25. gr.

    1.     Hafi samningsaðili í hyggju að veita útlendingi, sem er á skrá yfir þá sem synja á um komu, dvalarleyfi er haft samráð fyrir fram við þann samningsaðila sem skráði hann og skal taka tillit til hagsmuna þess aðila; dvalarleyfi skal aðeins veitt þegar um þungvægar ástæður er að ræða, sérstaklega mannúðarástæður eða ástæður sem leiðir af alþjóðlegum skuldbindingum.
    Ef dvalarleyfi er gefið út skal samningsaðilinn, sem skráði viðkomandi útlending, afturkalla skráninguna en er þó heimilt að hafa hann á sinni landsskrá.
    2.     Komi í ljós að útlendingur, sem hefur undir höndum gilt dvalarleyfi útgefið af einum samningsaðilanna, hefur verið skráður sem einstaklingur sem synja á um komu skal samningsaðilinn, sem skráði hann, hafa samráð við samningsaðilann, sem gaf út dvalarleyfið, um það hvort fullnægjandi ástæður eru til þess að afturkalla dvalarleyfið.
    Ef dvalarleyfið er ekki afturkallað skal samningsaðilinn, sem skráði hann, afturkalla skráninguna en er þó heimilt að hafa hann á sinni landsskrá.

6. KAFLI
Viðbótarráðstafanir
26. gr.

    1.     Með fyrirvara um þær skuldbindingar, sem leiðir af Genfarsamningnum frá 28. júlí 1951 um réttarstöðu flóttamanna, eins og honum var breytt með New York-bókuninni frá 31. janúar 1967, skuldbinda samningsaðilarnir sig til að taka upp eftirfarandi reglur í innlenda löggjöf:
     a)      Ef útlendingi er synjað um komu inn á yfirráðasvæði eins samningsaðilanna skal flutningsaðilinn, sem flutti hann að ytri landamærunum, hvort sem það var loft-, sjó- eða landleiðis, taka tafarlaust á sig ábyrgð á viðkomandi. Að kröfu þeirra yfirvalda, sem annast landamæraeftirlit, skal flutningsaðilinn flytja útlendinginn til baka til þess þriðja ríkis, sem hann kom frá, til þess þriðja ríkis, sem gaf út ferðaskilríkin sem hann notaði á ferðalaginu, eða til einhvers annars þriðja ríkis sem tryggir honum aðgang.
     b)      Flutningsaðilanum ber skylda til að grípa til allra nauðsynlegra ráðstafana til að fullvissa sig um að útlendingur, sem er fluttur loft- eða sjóleiðis, hafi undir höndum nauðsynleg ferðaskilríki til komu inn á yfirráðasvæði samningsaðilanna.
    2.     Með fyrirvara um þær skuldbindingar, sem leiðir af Genfarsamningnum frá 28. júlí 1951 um réttarstöðu flóttamanna, eins og honum var breytt með New York-bókuninni frá 31. janúar 1967, skuldbinda samningsaðilarnir sig til að taka upp viðurlög, hver í samræmi við eigin stjórnskipunarlög, gagnvart þeim flutningsaðilum sem flytja útlendinga, sem hafa ekki nauðsynleg ferðaskilríki undir höndum, loft- eða sjóleiðis frá þriðja ríki inn á yfirráðasvæði samningsaðilanna.
    3.     Ákvæði b-liðar 1. mgr. og 2. mgr. skulu einnig gilda um flutningsaðila sem annast alþjóðlega hópflutninga fólks í langferðabifreiðum, að undanskildum ferðum yfir landamæri.

27. gr.

    1.     Samningsaðilarnir skuldbinda sig til að taka upp viðeigandi viðurlög gagnvart öllum þeim sem í hagnaðarskyni hjálpa eða reyna að hjálpa útlendingi við að komast inn á yfirráðasvæði eins samningsaðila eða dvelja þar í andstöðu við lög þess aðila um komu og dvöl útlendinga.
    2.     Fái samningsaðili upplýsingar um málsatvik, eins og um getur í 1. mgr., sem stríða gegn löggjöf annars samningsaðila skal hann upplýsa þann síðarnefnda um málsatvik.
    3.     Hafi löggjöf eins samningsaðila verið brotin, og hann farið þess á leit við annan samningsaðila að hefja lögsókn vegna málsatvikanna sem um getur í 1. mgr., skulu þar til bær yfirvöld gefa út opinbera tilkynningu eða staðfestingu á því hvaða lagaákvæði hafa verið brotin.

7. KAFLI 5
Ábyrgð á meðferð beiðna um hæli

    …


Fylgiskjal V.


SAMNINGUR


um það, hvaða ríki beri ábyrgð á umfjöllun um beiðni um hæli sem lögð er fram í einhverju aðildarríkja Evrópubandalaganna (Dyflinnarsamningurinn frá 15. júní 1990).

    Hans hátign konungur Belgíu,
    hennar hátign drottning Danmerkur,
    forseti Sambandslýðveldisins Þýskalands,
    forseti lýðveldisins Grikklands,
    hans hátign konungur Spánar,
    forseti lýðveldisins Frakklands,
    forseti Írlands,
    forseti ítalska lýðveldisins,
    hans konunglega tign stórhertoginn af Lúxemborg,
    hennar hátign drottning Hollands,
    forseti portúgalska lýðveldisins,
    hennar hátign drottning Sameinaða konungsríkisins Stóra-Bretlands og Norður-Írlands,
    sem hafa hliðsjón af því markmiði sem ákveðið var á fundi evrópska ráðsins í Strassborg 8. og 9. desember 1989, um samræmingu stefnu sinnar um veitingu hælis,
    sem hafa einsett sér, í samræmi við sameiginlegar mannúðarhefðir sínar, að veita flóttamönnum fullnægjandi vernd samkvæmt skilmálum Genfarsamnings frá 28. júlí 1951, eins og honum var breytt með New York-bókuninni frá 31. janúar 1967, um réttarstöðu flóttamanna, hér á eftir nefnd „Genfarsamningurinn“ og „New York-bókunin“,
    sem líta til þess sameiginlega markmiðs sem felst í landsvæði án innri landamæra þar sem sérstaklega frjáls för fólks er tryggð eins og kveðið er á um í stofnsáttmála Efnahagsbandalags Evrópu eins og honum hefur verið breytt með einingarlögum Evrópu,
    sem er ljós nauðsyn þess, þegar stefnt er að þessu markmiði, að gera ráðstafanir til að hindra að upp komi aðstæður þar sem umsækjendur um hæli þurfa of lengi að velkjast í vafa um sennilegan árangur umsókna sinna, og umhugað um að tryggja öllum umsækjendum um hæli að umsóknir þeirra fái umfjöllun í einu aðildarríki og að séð verði til þess að umsækjendum um hæli verði ekki þráfaldlega vísað frá einu aðildarríki til annars án þess að neitt þeirra játi sig bært til að fjalla um umsókn um hæli,
    sem vilja halda áfram viðræðum við flóttamannafulltrúa Sameinuðu þjóðanna til að ná ofangreindum markmiðum,
    sem hafa einsett sér að eiga náið samstarf um framkvæmd samnings þessa með ýmsum ráðum, þar á meðal með skiptum á upplýsingum,
    hafa ákveðið að gera með sér samning þennan og hafa í því skyni tilnefnt sem umboðsmenn sína með fullri heimild:
    hans hátign konungur Belgíu Melchior Wathelet varaforsætisráðherra, ráðherra dómsmála og ráðherra málefna lítilla og meðalstórra fyrirtækja og sjálfstæðra atvinnurekenda,
    hennar hátign drottning Danmerkur Hans Engell dómsmálaráðherra,
    forseti Sambandslýðveldisins Þýskalands dr. Helmut Rückriegel, sendiherra Sambandslýðveldisins Þýskalands í Dublin, Wolfgang Schäuble, innanríkisráðherra Sambandslýðveldisins,
    forseti lýðveldisins Grikklands Ioannis Vassiliades innanríkisráðherra,
    hans hátign konungur Spánar José Luis Corcuera innanríkisráðherra,
    forseti lýðveldisins Frakklands Pierre Joxe innanríkisráðherra,
    forseti Írlands Ray Burke, dómsmála- og samgönguráðherra,
    forseti ítalska lýðveldisins Antonio Gava innanríkisráðherra,
    hans konunglega tign stórhertoginn af Lúxemborg Marc Fischbach, menntamála-, dómsmála- og stjórnsýsluráðherra,
    hennar hátign drottning Hollands Ernst Maurits Henricus Hirsch Ballin dómsmálaráðherra,
    forseti portúgalska lýðveldisins Manuel Pereira innanríkisráðherra,
    hennar hátign drottning Sameinaða konungsríkisins Stóra-Bretlands og Norður-Írlands David Waddington innanríkisráðherra, sir Nicholas Maxted Fenn, KCMG, sendiherra Sameinaða konungsríkisins Stóra-Bretlands og Norður-Írlands í Dublin,
    sem hafa skipst á trúnaðarskjölum og fundið þau gild og í réttu formi, hafa orðið ásátt um eftirfarandi:

1. gr.

1.     Í samningi þessum:
     a.      merkir „útlendingur“ hvern þann mann, sem ekki er ríkisborgari aðildarríkis,
     b.      merkir „umsókn um hæli“ beiðni útlendings um vernd aðildarríkis samkvæmt Genfarsamningnum, með vísan til þess að hann hafi réttarstöðu flóttamanns í merkingu 1. gr. þess samnings eins og honum hefur verið breytt með New York-bókuninni,
     c.      merkir „umsækjandi um hæli“ útlending sem sótt hefur um hæli meðan ekki hefur enn verið tekin endanleg ákvörðun um umsókn hans,
     d.      merkir „umfjöllun um umsókn um hæli“ allar ráðstafanir vegna umfjöllunar, ákvarðanir og dómsúrlausnir þar til bærra yfirvalda varðandi umsókn um hæli, að frátalinni málsmeðferð til að ákvarða hvaða ríki beri að fjalla um umsókn um hæli samkvæmt samningi þessum,
     e.      merkir „dvalarleyfi“ hverja þá heimild, sem yfirvöld aðildarríkis gefa út, er veitir útlendingi rétt til dvalar á forráðasvæði þess, að frátöldum vegabréfsáritunum og dvalarleyfum um stundarsakir sem gefin eru út meðan fjallað er um umsókn um dvalarleyfi eða hæli,
     f.      merkir „komuáritun“ heimild eða ákvörðun aðildarríkis er gerir útlendingi kleift að koma til forráðasvæðis þess að öðrum komuskilyrðum uppfylltum,
     g.      merkir „gegnumfararáritun“ heimild eða ákvörðun aðildarríkis er gerir útlendingi kleift að fara um forráðasvæði þess eða um gegnumfararsvæði hafnar eða flugvallar að öðrum gegnumfararskilyrðum uppfylltum.
2.     Meta skal í ljósi þeirra skilgreininga, sem settar eru fram í f- og g-lið 1. mgr., hvers konar vegabréfsáritun um er að ræða.

2. gr.

    Aðildarríkin staðfesta skuldbindingar sínar samkvæmt Genfarsamningnum eins og honum hefur verið breytt með New York-bókuninni, án þess að neinar takmarkanir séu gerðar varðandi staðarlegt gildi þeirra, svo og ásetning sinn um að eiga samstarf við flóttamannafulltrúa Sameinuðu þjóðanna um framkvæmd þeirra.

3. gr.

1.     Aðildarríkin skuldbinda sig til að fjalla um umsókn hvers þess útlendings um hæli, sem setur fram slíka umsókn á landamærum eða forráðasvæði þeirra.
2.     Fjalla skal um þessa umsókn af einu aðildarríki, sem ákvarða skal eftir þeim forsendum sem settar eru fram í samningi þessum. Þær forsendur, sem kveðið er á um í 4.–8. gr., skulu gilda í þeirri röð sem þær eru settar fram.
3.     Fjalla skal um þessa umsókn af því ríki eftir landslögum og þjóðréttarlegum skuldbindingum þess.
4.     Hvert aðildarríki á rétt á að fjalla um umsókn um hæli, sem útlendingur leggur fram við það, þrátt fyrir að því sé óskylt að fjalla um hana samkvæmt þeim forsendum sem kveðið er á um í samningi þessum, enda fallist sá á það, sem um hæli sækir.
    Skyldur þess aðildarríkis, sem ber að fjalla um umsóknina samkvæmt áðurgreindum forsendum, falla þá niður og færast til þess aðildarríkis sem lét í ljós vilja sinn til að fjalla um umsóknina. Hafi umsókn verið vísað til hins síðargreinda ríkis skal það skýra því ríki frá því, sem forsendurnar eiga við um.
5.     Hvert aðildarríki heldur rétti sínum til að senda umsækjanda um hæli til þriðja ríkis samkvæmt landslögum sínum eftir því sem kveðið er á um í Genfarsamningnum eins og honum hefur verið breytt með New York-bókuninni.
6.     Málsmeðferð til ákvörðunar á hvaða aðildarríki beri að fjalla um umsókn um hæli samkvæmt samningi þessum skal hafin um leið og umsókn um hæli er fyrst lögð fram í aðildarríki.
7.     Nú er umsækjandi um hæli í öðru aðildarríki og leggur þar fram umsókn um hæli eftir að hafa afturkallað umsókn sína meðan ákvörðunar er leitað á því, hvaða ríki skuli fjalla um umsókn hans, og skal þá það aðildarríki sem sú umsókn um hæli var lögð fram við taka aftur við honum með þeim hætti sem í 13. gr. segir, með tilliti til þess að leitt verði til lykta hvaða ríki beri ábyrgð á því að fjalla um hælisumsóknina.
    Skylda þessi á ekki lengur við ef hælisumsækjandi hefur síðan yfirgefið forráðasvæði aðildarríkjanna í að minnsta kosti þrjá mánuði, eða hefur fengið dvalarleyfi í aðildarríki er gildir lengur en í þrjá mánuði.

4. gr.

    Eigi umsækjandi um hæli fjölskyldumeðlim í aðildarríki, sem viðurkennt er að hafi réttarstöðu flóttamanns í skilningi Genfarsamningsins eins og honum hefur verið breytt með New York-bókuninni, og dvelur ólöglega þar, ber því ríki að fjalla um umsókn hans, enda sé það vilji þeirra einstaklinga sem málið varðar.
    Viðkomandi fjölskyldumeðlimur má aðeins vera maki umsækjanda um hæli eða ógift barn umsækjandans sem er ólögráða og ekki hefur náð átján ára aldri, eða faðir eða móðir umsækjanda ef umsækjandi er sjálfur ógiftur og ólögráða og hefur ekki náð átján ára aldri.

5. gr.

1.     Hafi umsækjandi um hæli gilt dvalarleyfi ber aðildarríki því sem gaf út leyfið að fjalla um hælisumsókn hans.
2.     Hafi umsækjandi um hæli gilda vegabréfsáritun ber aðildarríki því sem gaf út vegabréfsáritunina að fjalla um hælisumsókn hans, nema við eftirtaldar aðstæður:
     a.      Hafi vegabréfsáritunin verið útgefin samkvæmt skriflegri heimild annars aðildarríkis, ber því aðildarríki að fjalla um hælisumsóknina. Ef aðildarríki leitar fyrst samráðs hjá miðlægu stjórnvaldi annars aðildarríkis, m.a. af öryggisástæðum, skal samþykki hins síðargreinda ekki talið fela í sér skriflega heimild í skilningi þessa ákvæðis.
     b.      Hafi umsækjandi um hæli gegnumfararáritun og leggur fram umsókn sína í öðru aðildarríki þar sem ekki er gerð til hans krafa um vegabréfsáritun, ber því aðildarríki að fjalla um hælisumsóknina.
     c.      Hafi umsækjandi um hæli gegnumfararáritun og leggur umsókn sína fram við það ríki sem áritunina gaf út, og það ríki hefur veitt viðtöku skriflegri staðfestingu sendiráðs eða ræðismanns þess aðildarríkis þar sem ákvörðunarstaður er, þess efnis að sá útlendingur sem fallið var frá áritunarkröfu gagnvart fullnægi skilyrðum til að mega koma til þess ríkis, ber síðargreinda ríkinu að fjalla um hælisumsóknina.
3.     Hafi umsækjandi um hæli fleiri en eitt gilt dvalarleyfi eða vegabréfsáritanir, sem fleiri en eitt aðildarríki hafa gefið út, ber aðildarríkjunum að fjalla um hælisumsókn hans í þessari röð:
     a.      ríkið sem gaf út það dvalarleyfi sem veitir rétt til lengstrar dvalar, en sé gildistími allra dvalarleyfanna sá sami, það ríki sem veitti það dvalarleyfi er síðast rennur út,
     b.      séu hinar ýmsu vegabréfsáritanir af sama tagi, ríkið sem gaf út þá vegabréfsáritun sem síðast rennur út,
     c.      séu vegabréfsáritanirnar af mismunandi tagi, ríkið sem gaf út þá vegabréfsáritun sem lengst gildir, en séu gildistímar hinir sömu, það ríki sem gaf út þá vegabréfsáritun sem síðast rennur út. Ákvæði þetta skal ekki gilda ef umsækjandi hefur eina eða fleiri gegnumfararáritanir, sem útgefnar hafa verið gegn framvísun komuáritunar annars aðildarríkis. Í því tilviki ber það ríki ábyrgð á umfjölluninni.
4.     Hafi umsækjandi um hæli aðeins eitt eða fleiri dvalarleyfi sem runnið hafa út fyrir skemmri tíma en tveimur árum, eða eina eða fleiri vegabréfsáritanir sem runnið hafa út fyrir skemmri tíma en sex mánuðum, er gert hafa honum kleift að koma til forráðasvæðis aðildarríkis í raun, skulu ákvæði 1., 2. og 3. mgr. þessarar greinar gilda meðan útlendingurinn hefur ekki yfirgefið forráðasvæði aðildarríkjanna.
    Hafi umsækjandi um hæli eitt eða fleiri dvalarleyfi sem runnið hafa út fyrir lengri tíma en tveimur árum, eða eina eða fleiri vegabréfsáritanir sem runnið hafa út fyrir lengri tíma en sex mánuðum, er gert hafa honum kleift að koma til forráðasvæðis aðildarríkis, og útlendingurinn hefur ekki yfirgefið landsvæði bandalagsins, hvílir umfjöllunarskyldan á því aðildarríki sem umsóknin er lögð fram við.

6. gr.

    Þegar unnt er að sýna fram á að umsækjandi um hæli hafi ólöglega farið yfir landamæri aðildarríkis á landi, sjó eða í lofti frá ríki utan Evrópubandalaganna, ber því ríki sem hann kom til að fjalla um hælisumsóknina.
    Skylda þess ríkis fellur þó niður ef sýnt er fram á að umsækjandi hafi búið í því aðildarríki sem umsókn hans um hæli er lögð fram við, í að minnsta kosti sex mánuði áður en hann leggur fram umsókn sína. Sé svo ber hinu síðargreinda aðildarríki að fjalla um hælisumsóknina.

7. gr.

1.     Skylda til að fjalla um umsókn um hæli hvílir á því aðildarríki sem ber að hafa eftirlit með komu útlendingsins til landsvæðis aðildarríkjanna, nema útlendingurinn, eftir að hann hefur löglega komið til aðildarríkis, þar sem vegabréfsáritun fyrir hann er ekki krafist, leggi fram umsókn um hæli í öðru aðildarríki, þar sem vegabréfsáritunar er ekki heldur krafist fyrir hann til að mega koma þangað. Sé svo ber hinu síðargreinda aðildarríki að fjalla um umsókn hans um hæli.
2.     Þar til samningur aðildarríkjanna um fyrirkomulag um för yfir ytri landamæri öðlast gildi skal ekki líta svo á að aðildarríki sem heimilar gegnumför án vegabréfsáritunar um gegnumfararsvæði flugvalla sinna sé ábyrgt fyrir komueftirliti hvað varðar ferðamenn sem ekki yfirgefa gegnumfararsvæðið.
3.     Sé sótt um hæli þegar farið er um flugvöll aðildarríkis ber því aðildarríki að fjalla um umsóknina.

8. gr.

    Sé ekki unnt að ákvarða út frá öðrum forsendum sem tilgreindar eru í samningi þessum hvaða aðildarríki ber að fjalla um umsókn um hæli, ber því aðildarríki sem umsókn er lögð fram við að fjalla um hana.

9. gr.

    Hvert aðildarríki getur, enda þótt því beri ekki að fjalla um umsókn samkvæmt þeim forsendum sem kveðið er á um í samningi þessum, fjallað um umsókn um hæli að beiðni annars aðildarríkis af mannúðarástæðum, einkum með tilliti til fjölskyldu- og menningarsjónarmiða, enda standi vilji umsækjanda til þess.
    Ef aðildarríkið sem þannig er leitað til fellst á beiðnina flyst skylda til að fjalla um umsóknina til þess ríkis.

10. gr.

1.     Aðildarríki það sem fjalla ber um umsókn samkvæmt þeim forsendum sem kveðið er á um í samningi þessum skal:
     a.      Taka umsækjanda, sem lagt hefur fram beiðni um hæli í öðru aðildarríki, í sína umsjá samkvæmt því sem í 11. gr. segir,
     b.      ljúka umfjöllun um hælisumsóknina,
     c.      veita að nýju viðtöku eða taka aftur samkvæmt því sem í 13. gr. segir umsækjanda sem hefur lagt fram umsókn til umfjöllunar og dvelur ólöglega í öðru aðildarríki,
     d.      taka aftur samkvæmt því sem í 13. gr. segir umsækjanda er afturkallað hefur umsókn sem er til umfjöllunar og lagt fram umsókn í öðru aðildarríki,
     e.      taka aftur samkvæmt því sem í 13. gr. segir útlending sem fengið hefur synjun á umsókn sinni og dvelur ólöglega í öðru aðildarríki.
2.     Veiti aðildarríki umsækjanda dvalarleyfi sem gildir lengur en í þrjá mánuði flytjast þær skyldur, sem tilgreindar eru í a-e liðum 1. mgr. til þess aðildarríkis.
3.     Þær skyldur sem tilgreindar eru í a-d liðum 1. mgr. falla niður ef útlendingurinn hefur yfirgefið forráðasvæði aðildarríkisins í að minnsta kosti þrjá mánuði.
4.     Þær skyldur, sem tilgreindar eru í d-e liðum 1. mgr., falla niður ef ríki það, sem fjalla ber um umsókn um hæli, tekur og framfylgir nauðsynlegum ráðstöfunum til að senda útlendinginn aftur til heimalands síns eða annars lands sem hann fær löglega komið til, eftir að umsókn hans hefur verið afturkölluð eða hennar synjað.

11. gr.

1.     Telji aðildarríki sem umsókn um hæli hefur verið lögð fram við, að öðru aðildarríki beri að fjalla um umsóknina, getur það eins fljótt og unnt er og eigi síðar en innan sex mánaða eftir þann dag er umsókn var lögð fram, skorað á hitt aðildarríkið að taka umsækjanda í sína umsjá.
    Verði það ekki gert innan hins sex mánaða frests ber því ríki, þar sem umsóknin var lögð fram, að fjalla um umsóknina um hæli.
2.     Með beiðni um að umsækjandi sé tekinn í umsjá hins aðildarríkisins skulu fylgja upplýsingar er gera stjórnvöldum þess ríkis kleift að ganga úr skugga um hvort því beri að fjalla um umsókn samkvæmt þeim forsendum sem kveðið er á um í samningi þessum.
3.     Þegar ákvarðað er hvaða ríki beri að fjalla um umsókn samkvæmt þessum forsendum skal miða við stöðu máls þegar umsækjandi um hæli lagði fyrst fram umsókn sína við aðildarríki.
4.     Aðildarríki skal taka afstöðu til umsóknar um viðtöku innan þriggja mánaða frá því er áskorunin er sett fram. Bregðist það ekki við innan þess frests skal það talið jafngilt því að hún sé samþykkt.
5.     Flytja verður umsækjanda um hæli frá því aðildarríki þar sem umsókn er lögð fram og til þess aðildarríkis sem fjalla ber um umsóknina eigi síðar en einum mánuði eftir að beiðni um að taka hann í umsjá er samþykkt, eða einum mánuði eftir að meðferð kærumáls lýkur, er umsækjandi hefur átt frumkvæði að til að bera brigður á ákvörðun um flutning hans, hafi sú málsmeðferð frestunaráhrif.
6.     Ráðstafanir samkvæmt 18. gr. geta síðar ráðið þeirri málsmeðferð í einstökum atriðum, sem viðhöfð er til að taka umsækjanda í umsjá.

12. gr.

    Leggi umsækjandi fram umsókn um hæli til viðeigandi stjórnvalda aðildarríkis meðan hann er staddur á forráðasvæði annars aðildarríkis, skal það aðildarríki þar sem umsækjandi er staddur ákvarða hvaða aðildarríki beri að fjalla um umsókn hans um hæli. Það aðildarríki sem við umsókninni tekur skal án tafar skýra hinu síðargreinda aðildarríki frá umsókninni, og skal hvað framkvæmd samnings þessa snertir líta svo á að það aðildarríki sé aðildarríkið þar sem umsókn um hæli er lögð fram.

13. gr.

1.     Umsækjanda um hæli skal taka aftur í þeim tilvikum sem kveðið er á um í 7. mgr. 3. gr. og 10. gr., eins og hér segir:
     a.      í beiðni um að umsækjandi sé tekinn aftur skulu vera skýringar, er gera því ríki sem hún er lögð fram við kleift að ákvarða hvort því beri að fjalla um umsóknina samkvæmt 7. mgr. 3. gr. og 10. gr.;
     b.      ríkið sem ætlast er til að taki umsækjanda aftur skal svara beiðninni innan átta daga frá því er málinu er vísað til þess. Viðurkenni það skyldu sína skal það taka umsækjanda aftur eins fljótt og unnt er og eigi síðar en einum mánuði eftir að það fellst á að gera það.
2.     Með ráðstöfunum sem gerðar eru samkvæmt 18. gr. má síðar kveða nánar á um með hverjum hætti taka skuli umsækjanda aftur.

14. gr.

1.     Aðildarríki skulu eiga með sér gagnkvæm samskipti með tilliti til:
               ráðstafana á sviði innlendrar löggjafar, stjórnsýslureglna eða starfshátta er varða hæli;
               tölfræðilegra upplýsinga um mánaðarlegar komur umsækjenda um hæli og sundurliðun þeirra eftir þjóðerni. Slíkar upplýsingar skal senda ársfjórðungslega fyrir milligöngu skrifstofu ráðs Evrópubandalaganna, sem sjá skal til þess að þær séu framsendar aðildarríkjum, framkvæmdastjórn Evrópubandalaganna og flóttamannafulltrúa Sameinuðu þjóðanna.
2.     Aðildarríkin geta átt með sér gagnkvæm samskipti með tilliti til:
               almennra upplýsinga um nýja þróun varðandi hælisumsóknir;
               almennra upplýsinga um ástand í þeim löndum sem umsækjendur eru frá eða þaðan sem þeir koma.
3.     Vilji aðildarríki sem sendir upplýsingar samkvæmt 2. mgr. að þeim sé haldið leyndum skulu hin aðildarríkin virða það.

15. gr.

1.     Hvert aðildarríki skal senda hverju öðru aðildarríki sem þess óskar þær upplýsingar um einstök mál sem nauðsynlegar eru til að:
               ákvarða hvaða aðildarríki beri að fjalla um hælisumsókn,
               fjalla um hælisumsókn,
               framkvæma allar skuldbindingar samkvæmt samningi þessum.
2.     Í þeim upplýsingum skulu aðeins vera:
               atriði sem varða persónu umsækjanda, og, þar sem við á, fjölskyldu hans (fullt nafn, og þar sem við á fyrra nafn, gælunöfn eða uppfundin nöfn, núverandi og fyrrverandi ríkisfang, fæðingardagur og fæðingarstaður),
               persónu- og ferðaskilríki (tilvísanir, gildi, útgáfudagur, útgáfustjórnvald, útgáfustaður o.s.frv.),
               aðrar upplýsingar sem nauðsynlegar eru til að sýna fram á hver umsækjandi er,
               dvalarstaðir og ferðaleiðir,
               dvalarleyfi og vegabréfsáritanir sem aðildarríki hefur útgefið,
               umsóknarstaður,
               hvenær fyrri umsókn var lögð fram, ef um það er að ræða, hvenær núverandi umsókn er lögð fram, hvaða stigi málsmeðferð hefur náð, og hvaða ákvörðun hefur verið tekin ef því er að skipta.
3.     Enn fremur getur aðildarríki farið þess á leit við annað aðildarríki að það skýri sér frá á hverju umsækjandi byggir umsókn sína, og, þar sem við á, rök fyrir þeim ákvörðunum, sem kunna að hafa verið teknar varðandi umsækjandann. Það ríki sem um upplýsingarnar er beðið hefur ákvörðunarvald um hvort þær verði látnar í té. Í öllum tilvikum er afhending umbeðinna upplýsinga háð samþykki hælisumsækjanda.
4.     Upplýsingaskipti þessi skulu fara fram að beiðni aðildarríkis og mega einungis eiga sér stað milli þeirra stjórnvalda sem hvert aðildarríki hefur tilnefnt og tilkynnt nefnd þeirri sem kveðið er á um í 18. gr.
5.     Upplýsingar þær sem skipst er á má aðeins nota í þeim tilgangi sem kveðið er á um í 1. mgr. Í hverju aðildarríki má aðeins senda slíkar upplýsingar þeim stjórnvöldum, dómstólum og úrskurðaraðilum sem falið er að:
               ákvarða hvaða aðildarríki beri að fjalla um hælisumsókn,
               fjalla um hælisumsókn,
               framkvæma allar skuldbindingar samkvæmt samningi þessum.
6.     Aðildarríki það sem upplýsingarnar sendir skal sjá um að þær séu nákvæmar og uppfærðar.
    Ef í ljós kemur að það aðildarríki hafi veitt ónákvæmar upplýsingar eða upplýsingar sem ættu ekki að hafa verið veittar, skal aðildarríki því sem við þeim tekur þegar skýrt frá því. Þeim ber þá að leiðrétta upplýsingarnar eða eyða þeim.
7.     Umsækjandi um hæli á rétt til að fá í hendur, samkvæmt beiðni, þær upplýsingar sem skipst er á varðandi hann meðan þær eru tiltækar.
    Sýni umsækjandi fram á að upplýsingarnar séu ónákvæmar eða að ekki hefði átt að veita þær, á hann rétt á að fá þær leiðréttar eða þeim eytt. Réttar þessa skal neytt í samræmi við þau skilyrði sem kveðið er á um í 6. mgr.
8.     Í hverju aðildarríki sem um er að ræða skal skrá sendingu þeirra upplýsinga sem skipst er á og viðtöku þeirra.
9.     Upplýsingarnar skulu ekki geymdar lengur en nauðsyn krefur með tilliti til tilgangs upplýsingaskiptanna. Viðkomandi aðildarríki skal þegar við á fjalla um nauðsyn þess að þær séu geymdar.
10.     Hvernig sem á stendur skulu þær upplýsingar sem sendar eru njóta að minnsta kosti sömu verndar og veittar eru sambærilegum upplýsingum í því aðildarríki sem við þeim tekur.
11.     Ef úrvinnsla gagna fer ekki fram með sjálfvirkum hætti og þau sæta annarri meðhöndlun skal hvert aðildarríki gera viðeigandi raunhæfar eftirlitsráðstafanir til að tryggja að ákvæðum greinar þessarar sé fylgt. Ef aðildarríki hefur eftirlitsstofnun af því tagi sem fjallað er um í 12. mgr. má fela henni þetta eftirlitshlutverk.
12.     Vilji eitt eða fleiri aðildarríki tölvuvæða þær upplýsingar sem nefndar eru í 2.–3. mgr. að einhverju eða öllu leyti getur aðeins af því orðið ef viðkomandi ríki hafa leitt í landslög reglur um slíka gagnavinnslu í samræmi við Strassborgarsamning frá 28. janúar 1981 um vernd einstaklinga varðandi vélræna vinnslu persónuupplýsinga, og ef þau hafa falið viðeigandi ríkisstofnun að hafa sjálfstætt eftirlit með vinnslu og notkun gagna sem send eru samkvæmt samningi þessum.

16. gr.

1.     Hvert aðildarríki getur lagt fram við nefnd þá sem kveðið er á um í 18. gr. tillögur um endurskoðun samnings þessa í því skyni að bæta úr vandkvæðum við framkvæmd hans.
2.     Reynist nauðsynlegt að endurskoða eða breyta samningi þessum svo að náð verði þeim markmiðum sem kveðið er á um í 8. gr. a í stofnsáttmála Efnahagsbandalags Evrópu, sérstaklega ef samræming á stefnu um veitingu hælis og sameiginleg stefna varðandi vegabréfsáritanir er háð því að þeim markmiðum verði náð, skal það ríki sem fer með forsæti í ráði Evrópubandalaganna kalla nefnd þá, sem kveðið er á um í 18. gr., saman til fundar.
3.     Öll endurskoðun samnings þessa, svo og allar breytingar á honum, skulu samþykktar af nefnd þeirri sem kveðið er á um í 18. gr. Skal endurskoðun eða breyting öðlast gildi samkvæmt ákvæðum 22. gr.

17. gr.

1.     Ef aðildarríki verður fyrir alvarlegum erfiðleikum vegna verulegra breytinga á þeim aðstæðum sem ríkja við gerð samnings þessa getur það ríki borið málið fram fyrir nefnd þá sem kveðið er á um í 18. gr. svo hún geti lagt til við aðildarríkin aðgerðir til að bregðast við því ástandi eða samþykkt endurskoðun eða breytingar eins og nauðsynlegt virðist, og skal endurskoðun eða breyting öðlast gildi eins og kveðið er á um í 3. mgr. 16. gr.
2.     Vari það ástand, sem í 1. mgr. getur, enn að sex mánuðum liðnum, getur nefndin samkvæmt því sem í 2. mgr. 18. gr. segir heimilað því aðildarríki þar sem breytingin hefur áhrif sín tímabundna frestun á framkvæmd ákvæða samnings þessa, þó þannig að frestunin hamli ekki því að náð verði þeim markmiðum sem kveðið er á um í 8. gr. a í stofnsáttmála Efnahagsbandalags Evrópu eða gangi gegn öðrum þjóðréttarlegum skuldbindingum aðildarríkjanna.
3.     Meðan á frestun stendur skal nefndin halda áfram umræðum sínum í því skyni að endurskoða ákvæði samnings þessa, hafi hún þá ekki þegar náð samkomulagi.

18. gr.

1.     Stofnuð skal nefnd þar sem í eiga sæti einn fulltrúi frá ríkisstjórn hvers aðildarríkis.
    Það aðildarríki sem er í forsæti í ráði Evrópubandalaganna skal veita nefndinni forstöðu.
    Framkvæmdastjórn Evrópubandalagsins getur tekið þátt í umræðum nefndarinnar og starfshópa þeirra sem fjallað er um í 4. mgr.
2.     Að beiðni eins eða fleiri aðildarríkja skal nefndin fjalla um öll almenn atriði varðandi framkvæmd eða túlkun samnings þessa.
    Nefndin skal ákvarða þær ráðstafanir sem fjallað er um í 6. mgr. 11. gr. og 2. mgr. 13. gr., og veita heimildir samkvæmt 2. mgr. 17. gr.
    Nefndin skal samþykkja ákvarðanir um endurskoðun eða breytingar á samningi þessum samkvæmt 16. og 17. gr.
3.     Nefndin skal taka ákvarðanir sínar samhljóða, nema þegar hún starfar samkvæmt 2. mgr. 17. gr., en þá skulu ákvarðanir hennar teknar með tveimur þriðju hlutum atkvæða nefndarmanna.
4.     Nefndin skal setja sér starfsreglur, og getur hún sett á fót starfshópa.
    Skrifstofa ráðs Evrópubandalaganna skal annast skrifstofuhald fyrir nefndina og starfshópa hennar.

19. gr.

    Hvað konungsríkið Danmörk snertir skulu ákvæði samnings þessa ekki gilda um Færeyjar og Grænland nema konungsríkið Danmörk gefi yfirlýsingu um það. Slíka yfirlýsingu má hvenær sem er gefa með orðsendingu til ríkisstjórnar Írlands, sem skal tilkynna öðrum aðildarríkjum um hana.
    Hvað snertir lýðveldið Frakkland skulu ákvæði samnings þessa aðeins gilda á evrópsku forráðasvæði þess.
    Hvað snertir konungsríkið Holland skulu ákvæði samnings þessa aðeins gilda á evrópsku forráðasvæði þess.
    Hvað snertir Sameinaða konungsríkið skulu ákvæði samnings þessa aðeins gilda í Sameinaða konungsríkinu Stóra-Bretlandi og Norður-Írlandi. Þau skulu ekki gilda á landsvæðum í Evrópu, sem Sameinaða konungsríkið hefur fyrirsvar fyrir á sviði utanríkismála, nema Sameinaða konungsríkið gefi yfirlýsingu um það. Slíka yfirlýsingu má hvenær sem er gefa með orðsendingu til ríkisstjórnar Írlands, sem skal tilkynna öðrum aðildarríkjum um hana.

20. gr.

    Enga fyrirvara má gera við samning þennan.

21. gr.

1.     Hverju því ríki, sem gerist aðili að Evrópubandalögunum, er heimil aðild að samningi þessum. Aðildarskjöl skulu afhent ríkisstjórn Írlands til varðveislu.
2.     Gagnvart hverju því ríki sem gerist aðili að samningi þessum skal hann öðlast gildi á fyrsta degi þriðja mánaðar eftir að aðildarskjal þess hefur verið afhent.

22. gr.

1.     Samningur þessi er háður fullgildingu, viðurkenningu eða samþykkt. Fullgildingar-, viðurkenningar- eða samþykktarskjöl skulu afhent ríkisstjórn Írlands til varðveislu.
2.     Ríkisstjórn Írlands skal tilkynna ríkisstjórnum annarra aðildarríkja um afhendingar fullgildingar-, viðurkenningar- og samþykktarskjala.
3.     Samningur þessi skal öðlast gildi á fyrsta degi þriðja mánaðar eftir að síðasta fullgildingar-, viðurkenningar- eða samþykktarskjal undirritunarríkis er afhent.
    Ríki það sem fullgildingar-, viðurkenningar- og samþykktarsjöl eru lögð fram við skal tilkynna aðildarríkjunum um gildistökudag samnings þessa.

    Til staðfestingar þessu hafa undirritaðir umboðsmenn undirritað þennan samning.
    Gjört í Dyflinni fimmtánda júní nítján hundruð og níutíu í einu frumriti á dönsku, ensku, frönsku, hollensku, grísku, írsku, ítölsku, portúgölsku, spænsku og þýsku tungumáli og eru textarnir jafngildir og skulu varðveittir í skjalasafni írsku ríkisstjórnarinnar sem skal senda staðfest endurrit til hvers annars aðildarríkis.Fylgiskjal VI.


SAMNINGUR


milli Evrópubandalagsins og lýðveldisins Íslands og konungsríkisins Noregs um viðmiðanir og fyrirkomulag við að ákvarða hvaða ríki skuli fara með beiðni um hæli sem lögð er fram í aðildarríki eða á Íslandi eða í Noregi, gerður 19. janúar 2001.

EVRÓPUBANDALAGIÐ

og

LÝÐVELDIÐ ÍSLAND

og

KONUNGSRÍKIÐ NOREGUR,

hér á eftir nefnd „samningsaðilarnir“,

HAFA Í HUGA að aðildarríki Evrópusambandsins hafa gert með sér Dyflinnarsamninginn um það hvaða ríki beri ábyrgð á meðferð beiðna um hæli sem lagðar eru fram í einhverju aðildarríkja Evrópubandalaganna 1 , sem undirritaður var í Dyflinni 15. júní 1990 (hér á eftir nefndur „Dyflinnarsamningurinn“),

MINNAST ÞESS að í 7. gr. samningsins frá 18. maí 1999, sem ráð Evrópusambandsins (hér á eftir nefnt „ráðið“) og Lýðveldið Ísland og Konungsríkið Noregur gerðu með sér um þátttöku hinna síðarnefndu í framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna 2 , er kveðið á um gerð viðeigandi samkomulags um viðmiðanir og fyrirkomulag við að ákvarða hvaða ríki skuli fara með beiðni um hæli sem lögð er fram í einhverju aðildarríkjanna eða á Íslandi eða í Noregi,

ÁLÍTA að það sé viðeigandi að ákvæði Dyflinnarsamningsins og viðkomandi ákvæði sem nefndin, sem komið var á fót skv. 18. gr. þess samnings, hefur þegar samþykkt, skuli felld inn í samning þennan, sbr. þó þau tengsl sem komið hefur verið á samkvæmt Dyflinnarsamningnum milli ríkjanna sem eru aðilar að þeim samningi,

ÁLÍTA að tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 95/46/EB frá 24. október 1995 um vernd einstaklinga í tengslum við vinnslu persónuupplýsinga og um frjálsa miðlun slíkra upplýsinga 3 (hér á eftir nefnd „tilskipunin um vernd persónuupplýsinga“) skuli beitt á Íslandi og í Noregi með sama hætti og í aðildarríkjum Evrópubandalagsins við vinnslu persónuupplýsinga í þeim tilgangi sem fjallað er um í samningi þessum,

VIÐURKENNA, engu að síður, að ákvæðin, sem felld eru inn í samning þennan, verði, ef við á, að aðlaga þannig að tekið sé mið af stöðu Íslands og Noregs sem eru ekki aðildarríki,

ERU SANNFÆRÐ UM að það sé nauðsynlegt að samningur þessi feli í sér ferli þar sem kveðið er á um samræmi við þróun bandalagsgerða, einkum í tengslum við málefnin sem um getur í a-lið 1. mgr. 63. gr. stofnsáttmála Evrópubandalagsins,

ERU SANNFÆRÐ UM að það sé nauðsynlegt að skipuleggja samstarfið við Lýðveldið Ísland og Konungsríkið Noreg á öllum stigum með tilliti til framkvæmdar Dyflinnarsamningsins, beitingar hans í reynd og frekari þróunar hans,

ÁLÍTA að í þeim tilgangi sé nauðsynlegt að mynda skipulagseiningu sem tryggi þátttöku Lýðveldisins Íslands og Konungsríkisins Noregs í starfi á þessum sviðum og geri þeim kleift að taka þátt í þessu starfi í nefnd,

HAFA Í HUGA að ráðið samþykkti 11. desember 2000 reglugerð (EB) nr. 2725/2000 um stofnun „Eurodac“ til að bera saman fingraför í því skyni að stuðla að skilvirkri beitingu Dyflinnarsamningsins 4 í því augnamiði að auðvelda ákvörðun um hvaða samningsaðili beri ábyrgð á meðferð beiðni um hæli samkvæmt Dyflinnarsamningnum (hér á eftir nefnd „Eurodac-reglugerðin“),

ÁLÍTA að víkka skuli út samning þennan þannig að hann nái yfir það viðfangsefni sem fjallað er um í Eurodac-reglugerðinni með það í huga að framkvæmd reglugerðarinnar verði hliðstæð á Íslandi, í Noregi og í Evrópubandalögunum,

HAFA Í HUGA að ákvæði IV. bálks stofnsáttmálans um Evrópubandalagið og gerðir, sem samþykktar hafa verið á grundvelli þess bálks, gilda ekki um Konungsríkið Danmörku en Danmörk skuli fá tækifæri til að taka þátt í samningi þessum ef ríkið óskar þess,

HAFA ORÐIÐ ÁSÁTT UM EFTIRFARANDI:

1. gr.


          Ákvæði Dyflinnarsamningsins, sem tilgreind eru í 1. hluta viðaukans við þennan samning, og ákvarðanir nefndarinnar, sem komið var á fót skv. 18. gr. Dyflinnarsamningsins, sem tilgreindar eru í 2. hluta téðs viðauka, skulu koma til framkvæmda á Íslandi og í Noregi og beitt í gagnkvæmum samskiptum þeirra og í samskiptum þeirra við aðildarríkin, sbr. þó 4. mgr.
          Aðildarríki skulu beita reglunum, sem um getur í 1. mgr., að því er varðar Ísland og Noreg, sbr. þó 4. mgr.
          Ákvæði tilskipunarinnar um vernd persónuupplýsinga, eins og þeim er beitt í aðildarríkjunum að því er varðar persónuupplýsingar sem unnar eru til þess að framkvæma og beita ákvæðunum sem skilgreind eru í viðaukanum, skulu koma til framkvæmda og beitt að breyttu breytanda á Íslandi og í Noregi.
          Að því er varðar 1. og 2. mgr. ber að skilja tilvísanir í ákvæðin, sem fjallað er um í viðaukanum og ná til „aðildarríkja“, þannig að þær taki einnig til Íslands og Noregs.
          Þessi samningur skal gilda um Eurodac-reglugerðina að teknu tilliti til sérstakrar stöðu Noregs og Íslands utan Evrópusambandsins með það í huga að framkvæmd þeirrar reglugerðar verði hliðstæð á Íslandi, í Noregi og í Evrópubandalaginu.

2. gr.


1)           Þegar unnið er að drögum að nýrri löggjöf á grundvelli a-liðar 1. mgr. 63. gr. stofnsáttmála Evrópubandalagsins á sviði sem fellur undir viðfangsefni viðaukans við þennan samning eða 5. mgr. 1. gr. skal framkvæmdastjórn Evrópubandalaganna (hér á eftir nefnd „framkvæmdastjórnin“) óformlega leita ráða hjá sérfræðingum Íslands og Noregs á sama hátt og hún leitar ráða hjá sérfræðingum aðildarríkjanna við gerð tillagna sinna.
2)           Þegar framkvæmdastjórnin sendir Evrópuþinginu og ráðinu tillögur sínar sem skipta máli varðandi þennan samning skal hún senda Íslandi og Noregi afrit af þeim.
    Fyrstu skoðanaskipti geta farið fram í sameiginlegu nefndinni sem komið var á fót skv. 3. gr. óski einhver samningsaðila þess.
3)           Á þeim tíma sem líður fram að samþykkt löggjafar skulu samningsaðilarnir, í samfelldu ferli upplýsingaskipta og samráðs, ráðgast hver við annan á ný í sameiginlegu nefndinni á öllum tímamótum að beiðni einhvers þeirra. Þegar löggjöf hefur verið samþykkt skal beitt málsmeðferðinni sem mælt er fyrir um í 2.–7. mgr. 4. gr.
4)           Samningsaðilarnir skulu starfa saman af heilum hug á upplýsinga- og samráðstímabilinu með það fyrir augum að auðvelda starf sameiginlegu nefndarinnar samkvæmt þessum samningi í lok meðferðar málsins.
5)           Fulltrúar ríkisstjórna Íslands og Noregs skulu hafa rétt til að leggja fram tillögur í sameiginlegu nefndinni varðandi málefni sem um getur í 1. mgr.
6)           Framkvæmdastjórnin skal tryggja sérfræðingum Noregs og Íslands eins víðtæka þátttöku og unnt er á viðkomandi sviðum við undirbúning á drögum að tillögum að ráðstöfunum er síðar eiga að fara fyrir þær nefndir sem aðstoða framkvæmdastjórnina við að beita framkvæmdarvaldi sínu. Í þessum málum skal framkvæmdastjórnin, þegar hún gengur frá tillögum að ráðstöfunum, ráðgast við sérfræðinga Íslands og Noregs á sama grundvelli og hún ráðgast við sérfræðinga aðildarríkjanna.
7)           Í tilvikum þegar mál er til meðferðar hjá ráðinu í samræmi við málsmeðferð sem gildir um viðkomandi nefnd skal framkvæmdastjórnin koma áliti sérfræðinga Íslands og Noregs á framfæri við ráðið.

3. gr.


1)           Hér með er komið á fót sameiginlegri nefnd sem skipuð er fulltrúum samningsaðilanna.
2)           Sameiginlega nefndin skal samþykkja samhljóða reglur um málsmeðferð.
3)           Sameiginlega nefndin skal halda fundi að frumkvæði forseta hennar eða að ósk einhvers nefndarmanna.
4)           Sameiginlega nefndin skal koma saman á viðeigandi vettvangi, eftir því sem aðstæður krefjast, í þeim tilgangi að endurskoða eiginlega framkvæmd og beitingu ákvæðanna sem fjallað er um í viðaukanum, þar með taldar nýjar gerðir eða ráðstafanir sem um getur í 1. gr. og nefndin, sem komið var á fót skv. 18. gr. Dyflinnarsamningsins, hefur samþykkt, og til að skiptast á skoðunum um mótun nýrrar löggjafar á grundvelli a-liðar 1. mgr. 63. gr. stofnsáttmála Evrópubandalagsins þar sem fjallað er um viðfangsefni viðaukans eða 5. mgr. 1. gr.
    Miða skal við að öll upplýsingaskipti, sem varða þennan samning, fari fram innan valdsviðs sameiginlegu nefndarinnar.
5)           Embætti forseta sameiginlegu nefndarinnar skal skipa til skiptis, til sex mánaða í senn, fulltrúi Evrópubandalagsins og fulltrúi ríkisstjórnar Íslands eða Noregs, eftir stafrófsröð.

4. gr.


1)           Með fyrirvara um 2. mgr. skal nýjum gerðum eða ráðstöfunum, sem varða málefni sem um getur í 1. gr., og nefndin, sem komið var á fót skv. 18. gr. Dyflinnarsamningsins, samþykkir, nema í þeim sé skýrt kveðið á um annað, beitt frá og með sama tíma í aðildarríkjunum annars vegar og á Íslandi og í Noregi hins vegar.
2)           Framkvæmdastjórnin skal tilkynna Íslandi og Noregi tafarlaust um samþykkt gerða eða ráðstafana sem um getur í 1. mgr. Ísland og Noregur skulu ákveða, hvort í sínu lagi, hvort þau samþykkja efni þeirra og taka þær upp í landsrétt sinn. Þessar ákvarðanir skulu tilkynntar aðalskrifstofu ráðsins og framkvæmdastjórninni innan þrjátíu daga frá samþykkt viðkomandi gerða eða ráðstafana.
3)           Ef efni slíkrar gerðar eða ráðstöfunar getur ekki orðið bindandi fyrir Ísland fyrr en stjórnskipuleg skilyrði hafa verið uppfyllt skal Ísland gera aðalskrifstofu ráðsins og framkvæmdastjórninni grein fyrir því þegar Ísland sendir tilkynningu sína. Þegar öll stjórnskipuleg skilyrði hafa verið uppfyllt skal Ísland þegar í stað gera aðalskrifstofu ráðsins og framkvæmdastjórninni skriflega grein fyrir því og upplýsa þetta eins fljótt og unnt er fyrir daginn sem mælt er fyrir um að gerðin eða ráðstöfunin öðlist gildi, að því er Ísland varðar, í samræmi við 1. mgr.
4)           Ef efni slíkrar gerðar eða ráðstöfunar getur ekki orðið bindandi fyrir Noreg fyrr en stjórnskipuleg skilyrði hafa verið uppfyllt skal Noregur gera aðalskrifstofu ráðsins og framkvæmdastjórninni grein fyrir því þegar Noregur sendir tilkynningu sína. Þegar öll stjórnskipuleg skilyrði hafa verið uppfyllt skal Noregur þegar í stað gera aðalskrifstofu ráðsins og framkvæmdastjórninni skriflega grein fyrir því og eigi síðar en sex mánuðum frá því að tilkynning þar til bærrar stofnunar Evrópusambandsins berst. Frá þeim degi sem mælt er fyrir um að gerðin eða ráðstöfunin öðlist gildi að því er Noreg varðar og þar til upplýst hefur verið að stjórnskipuleg skilyrði hafi verið uppfyllt skal Noregur, eftir því sem unnt er, beita efni gerðarinnar eða ráðstöfunarinnar til bráðabirgða.
5)           Við samþykki Íslands og Noregs á efni gerða og ráðstafana, sem um getur í 1. mgr., skapast réttindi og skyldur milli Íslands og Noregs svo og milli Íslands og Noregs annars vegar og aðildarríkja Evrópusambandsins hins vegar.
6)           Í þeim tilvikum þegar:
       a)      annaðhvort Ísland eða Noregur tilkynnir þá ákvörðun sína að samþykkja ekki efni gerðar eða ráðstöfunar sem um getur í 1. mgr. og farið hefur verið með samkvæmt þeim málsmeðferðarreglum sem settar eru í þessum samningi; eða
       b)      annaðhvort Ísland eða Noregur sendir ekki tilkynningu innan þeirra þrjátíu daga tímamarka sem sett eru í 2. mgr.; eða
       c)      Ísland sendir ekki tilkynningu fyrir þann dag sem mælt er fyrir um að viðkomandi gerð eða ráðstöfun öðlist gildi að því er Ísland varðar; eða
       d)      Noregur sendir ekki tilkynningu innan þeirra sex mánaða tímamarka sem sett eru í 4. mgr. eða gerir ekki ráðstafanir til beitingar til bráðabirgða, eins og gert er ráð fyrir í sömu málsgrein, frá þeim degi að telja sem mælt er fyrir um að viðkomandi gerð eða ráðstöfun öðlist gildi að því er Noreg varðar;
telst samningi þessum frestað að því er Ísland eða Noreg varðar, eftir því sem við á.
7)           Sameiginlega nefndin skal kanna málið sem leiddi til frestunar og tekur að sér að ráða bót, innan níutíu daga, á þeim atriðum sem leiddu til þess að samþykki eða fullgildingu var hafnað. Þegar allir frekari möguleikar til þess að viðhalda góðri framkvæmd þessa samnings hafa verið kannaðir, þar á meðal sá möguleiki að taka tillit til jafngildrar löggjafar, getur nefndin ákveðið með samhljóða samþykki að koma samningnum aftur á. Ef frestun þessa samnings er enn í gildi níutíu dögum síðar telst honum slitið að því er Ísland eða Noreg varðar, eftir því sem við á.

5. gr.


    Þangað til ráðstafanirnar, sem um getur í 1. mgr. 2. gr., öðlast gildi og koma í stað ákvæðanna, sem um getur í 1. mgr. 1. gr., í samræmi við 3. og 4. mgr. 4. gr., getur samningsaðili, sem lendir í miklum erfiðleikum vegna verulega breyttra aðstæðna frá því sem var við gerð þessa samnings, lagt málið fyrir sameiginlegu nefndina sem komið var á fót skv. 3. gr. og getur hún lagt fyrir samningsaðilana tillögur um ráðstafanir til að taka á málinu. Sameiginlega nefndin skal taka ákvörðun um þessar ráðstafanir með samhljóða samþykki. Náist ekki samhljóða samþykki skal 8. gr. beitt.

6. gr.


1)           Til að ná því markmiði samningsaðilanna að ná fram eins samræmdri beitingu og túlkun og unnt er á ákvæðunum sem um getur í 1. gr. skal sameiginlega nefndin fylgjast stöðugt með þróun dómaframkvæmdar dómstóls Evrópubandalaganna (hér á eftir nefndur „dómstóllinn“) og einnig þróun dómaframkvæmdar þar til bærra dómstóla Íslands og Noregs varðandi slík ákvæði. Í þessu augnamiði samþykkja samningsaðilarnir að tryggja tafarlausa og gagnkvæma miðlun þessarar dómaframkvæmdar.
2)           Með fyrirvara um samþykkt nauðsynlegra breytinga á samþykktum dómstólsins skulu Ísland og Noregur eiga rétt á að leggja greinargerð eða skriflegar athugasemdir fyrir dómstólinn í málum sem dómstóll aðildarríkis hefur vísað til hans til að fá forúrskurð um túlkun ákvæðis sem um getur í 5. mgr. 1. gr. eða 1. mgr. 2. gr.

7. gr.


1)           Ísland og Noregur skulu árlega gefa sameiginlegu nefndinni skýrslu þar sem fram kemur hvernig stjórnvöld þeirra og dómstólar hafa beitt og túlkað ákvæðin sem um getur í 1. gr. og, ef við á, eins og dómstóllinn hefur túlkað þau.
2)           Ef sameiginlega nefndin hefur ekki getað tryggt samræmda beitingu og túlkun innan tveggja mánaða frá því að athygli hennar er vakin á verulegum mun á dómaframkvæmd dómstólsins og dómstóla Íslands eða Noregs eða verulegum mun á beitingu yfirvalda viðkomandi aðildarríkja annars vegar og Íslands eða Noregs hins vegar, að því er varðar ákvæðin sem um getur í 1. gr., skal málsmeðferð skv. 8. gr. koma til framkvæmda.

8. gr.


1)           Rísi ágreiningur um beitingu eða túlkun þessa samnings, eða komi upp þær aðstæður sem kveðið er á um í 5. gr. eða 2. mgr. 7. gr., skal setja málið opinberlega á dagskrá fundar sameiginlegu nefndarinnar sem ágreiningsmál.
2)           Sameiginlega nefndin skal hafa níutíu daga til að leysa ágreininginn frá þeim degi að telja sem dagskráin, sem ágreiningsmálið hefur verið sett á, er samþykkt.
3)           Geti sameiginlega nefndin ekki leyst ágreininginn á því níutíu daga tímabili sem gert er ráð fyrir í 2. mgr. skal bætt við níutíu dögum til að finna endanlega lausn. Hafi sameiginlega nefndin ekki tekið ákvörðun við lok þess tímabils telst samningnum slitið að því er Ísland eða Noreg varðar, eftir því sem við á, þegar síðasti dagur þess tímabils er liðinn.

9. gr.


1)           Ísland og Noregur skulu á hverju ári leggja til fjárlaga Evrópusambandsins, vegna stjórnsýslu- og rekstrarkostnaðar við uppsetningu og rekstur miðlægrar einingar fyrir Eurodac, fjárhæð sem nemur:
          0,1% fyrir Ísland
          4,995% fyrir Noreg
af viðmiðunarfjárhæð, sem í upphafi var 9 575 000 evrur í heildarskuldbindingum og 5 000 000 evrur í greiðsluskuldbindingum, og, frá og með fjárhagsárinu 2002, af viðeigandi fjárveitingum á fjárlögum fyrir viðkomandi fjárlagaár.
    Að því er varðar annan stjórnsýslu- eða rekstrarkostnað í tengslum við beitingu þessa samnings skal hlutur Íslands og Noregs í honum greiðast með árlegum framlögum inn á fjárlög Evrópusambandsins í samræmi við hundraðshluta vergrar þjóðarframleiðslu þessara landa af vergri þjóðarframleiðslu allra þátttökuríkjanna.
2)           Ísland og Noregur skulu eiga rétt á að fá afhent skjöl sem varða þennan samning og fá túlkun á fundum sameiginlegu nefndarinnar á opinbert tungumál stofnana Evrópubandalaganna að eigin vali. Ísland eða Noregur skal þó bera kostnað við þýðingu og túlkun úr og á íslensku eða norsku, eftir því sem við á.

10. gr.


    Yfirvöld á Íslandi og í Noregi, sem hafa eftirlit með vernd persónuupplýsinga innan lands, og óháða eftirlitsstofnunin, sem komið er á fót skv. 2. mgr. 286. gr. stofnsáttmála Evrópubandalagsins, skulu hafa með sér samstarf, eftir því sem þörf er á, við skyldustörf sín, ekki síst með því að skiptast á öllum þeim upplýsingum sem að gagni geta komið. Gera skal samkomulag um hvernig slíku samstarfi verður háttað um leið og þessari stofnun hefur verið komið á fót.

11. gr.


1)           Samningur þessi skal engin áhrif hafa á samninginn um Evrópska efnahagssvæðið eða aðra samninga sem Evrópubandalagið og Ísland og/eða Noregur eða ráðið og Ísland og/eða Noregur hafa gert með sér.
2)           Samningur þessi skal engin áhrif hafa á samninga sem gerðir verða milli Íslands og/eða Noregs og Evrópubandalagsins.
3)           Samningur þessi skal engin áhrif hafa á samstarfið innan ramma Norræna vegabréfasambandsins að því marki sem samstarfið er ekki andstætt eða til fyrirstöðu þessum samningi og þeim gerðum og ráðstöfunum sem byggjast á honum.

12. gr.


    Konungsríkið Danmörk getur farið þess á leit að taka þátt í samningi þessum. Skilyrði fyrir þeirri þátttöku skulu samningsaðilarnir ákveða og skal það gert með samþykki Konungsríkisins Danmerkur í bókun við samning þennan.

13. gr.


1)           Með fyrirvara um 2.–5. mgr. tekur samningur þessi til þess yfirráðasvæðis, sem stofnsáttmáli Evrópubandalagsins gildir á, og til Íslands og Noregs.
2)           Samningur þessi tekur ekki til Svalbarða (Spitzbergen).
3)           Samningur þessi tekur aðeins til yfirráðasvæðis Konungsríkisins Danmerkur í samræmi við ákvæði 12. gr. og því aðeins til Færeyja og Grænlands að Dyflinnarsamningurinn verði rýmkaður þannig að hann nái til þessara yfirráðasvæða.
4)           Samningur þessi tekur ekki til frönsku umdæmanna handan hafsins.
5)           Samningur þessi öðlast því aðeins gildi á Gíbraltar að Dyflinnarsamningurinn, eða bandalagsráðstöfun sem kemur í stað þess samnings, taki til Gíbraltar.

14. gr.


1)           Samningur þessi er háður fullgildingu eða samþykki samningsaðilanna. Skjöl um fullgildingu eða samþykki verða afhent framkvæmdastjóra ráðsins til vörslu en hann skal vera vörsluaðili.
2)           Samningur þessi öðlast gildi á fyrsta degi næsta mánaðar eftir að vörsluaðili hans tilkynnir samningsaðilunum að síðasta skjalið um fullgildingu eða samþykki hafi verið afhent til vörslu.

15. gr.


    Hver samningsaðili getur slitið samningi þessum með skriflegri yfirlýsingu til vörsluaðila. Slík yfirlýsing öðlast gildi sex mánuðum eftir að hún er afhent til vörslu. Samningurinn fellur úr gildi ef annaðhvort Evrópubandalagið eða bæði Ísland og Noregur hafa sagt honum upp.

Gjört í Brussel á nítjánda degi janúarmánaðar árið 2001 í einu frumriti á dönsku, ensku, finnsku, frönsku, grísku, hollensku, ítölsku, portúgölsku, spænsku, sænsku, þýsku, íslensku og norsku og eru allir textarnir jafngildir en frumritið verður afhent til vörslu í skjalasafni aðalskrifstofu ráðs Evrópusambandsins.Fylgiskjal VII.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um útlendinga.

    Frumvarp þetta felur í sér heildstæðar reglur um réttarstöðu útlendinga hér á landi, við komu þeirra, dvöl og brottför. Frumvarpið var fyrst flutt á 123. löggjafarþingi en var síðan til frekari athugunar hjá dómsmálaráðuneytinu og var endurflutt á 126. löggjafarþingi með nokkrum breytingum en hlaut ekki afgreiðslu. Frumvarpinu er ætlað að koma í stað laga nr. 45/1965, um eftirlit með útlendingum, og eru ákvæði þess mun ítarlegri en gildandi löggjöf. Í ýmsum greinum frumvarpsins er gert ráð fyrir að ráðherra setji nánari ákvæði í reglugerð. Í því hefur verið tekið tillit til breytinga sem gerðar voru á stjórnarskrá árið 1995, þróunar á sviði stjórnsýsluréttar og mannréttinda og skuldbindinga sem leiðir af alþjóðlegum samningum og af þátttöku Íslands í alþjóðlegu samstarfi, svo sem Schengen-samstarfinu. Að mestu leyti hafa framangreind efnisatriði þegar komið til framkvæmda. Með fjölgun kæruheimilda samkvæmt frumvarpinu kann þó kærumálum að fjölga og ítarlegri reglur kunna að leiða til krafna um vandaðri málsmeðferð, svo sem öflun upplýsinga um aðstæður í upprunalöndum málsaðila.
    Ef frumvarpið verður lögfest eru horfur á að stjórnsýsla málaflokksins hjá Útlendingastofnun muni aukast nokkuð og að fullnægja þarf auknum kröfum. Erfitt er að meta aukin útgjöld ríkissjóðs verði frumvarpið að lögum þar sem þau ráðast að mestu leyti af áhrifum þess á fjölgun erinda og úrskurða sem kveða þarf upp og fjölda mála er sæta kæru. Enn fremur mun ráða miklu hvort ákvæði frumvarpsins hafa áhrif á fjölda þeirra er leita hælis hér á landi, fjölda brottvísana, fjölda umsókna um dvalarleyfi o.s.frv. Þá er erfitt um vik að greina bein áhrif af ákvæðum frumvarpsins frá almennri aukningu verkefna á þessu sviði vegna aukinna alþjóðlegra samskipta og fólksflutninga í heiminum. Hér er gert ráð fyrir að auknar kröfur til stjórnsýslu Útlendingastofnunar í frumvarpinu leiði í heild til þess að fjölga þurfi sérfræðingum stofnunarinnar um tvo. Áætlað er að við það aukist árleg útgjöld ríkisins um 10 m.kr. vegna launa og starfstengds kostnaðar. Þá er reiknað með að rekstrarkostnaður aukist um 1 m.kr. þar sem færa þurfi vegabréfaprentun stofnunarinnar í annað húsnæði til að rýma til fyrir nýjum starfsmönnum. Auk þess er gert ráð fyrir 1,5 m.kr. tímabundnum útgjöldum til að skapa nýjum starfsmönnum starfsaðstöðu að tölvubúnaði meðtöldum. Samkvæmt gildistökuákvæði frumvarpsins tekur það gildi 1. júlí árið 2002. Gert er ráð fyrir að nokkur tími muni líða frá því að nýr lagarammi á þessu sviði gengur í gildi þar til áhrifa hans taki að gæta í aukinni vinnu hjá Útlendingastofnun. Er því ekki gert ráð fyrir að framlög vegna aukins rekstrarkostnaðar sem hér er tilgreindur komi til ákvörðunar fyrr en í fjárlögum ársins 2003.
    Samkvæmt frumvarpinu er heimilt að veita útlendingi sem haft hefur dvalarleyfi hér á landi í þrjú ár búsetuleyfi hafi hann sótt námskeið í íslensku fyrir útlendinga. Í sömu grein er gert ráð fyrir að lagt verði á gjald fyrir þátttöku í slíkum námskeiðum. Í athugasemdum við greinina kemur ekki fram með hvaða hætti staðið verður að slíkum námskeiðum að öðru leyti en því að þau standi yfir í 2–3 mánuði og að ekki verði gerðar kröfur um árangur af náminu. Fyrirkomulagið felur í sér að innheimt verður gjald sem sett verður af dómsmálaráðherra í reglugerð og notað til að standa straum af öllum kostnaði við íslenskunámskeiðin á vegum dómsmálaráðuneytisins. Sá kostnaður mun færast sem rekstrargjöld við íslenskukennslu hjá dómsmálaráðuneytinu vegna umsjónar og skipulags, námsgagna, launakostnaðar, aðkeyptrar þjónustu o.fl. Tekjur af námskeiðsgjaldinu færast hins vegar á móti á tekjuhlið ríkissjóðs. Dómsmálaráðuneytið hefur látið vinna áætlun um kostnað við námskeiðin og samkvæmt henni er talið að hann geti orðið um 60 m.kr. á ári. Þá er reiknað með að tímabundinn upphafskostnaður dómsmálaráðuneytisins við gerð og útgáfu námsefnis og þjálfun kennara gæti orðið í kringum 25–30 m.kr. Á fyrsta árinu sem kennslan færi fram gæti kostnaðurinn við hana því numið um 85–90 m.kr. en um 60 m.kr. á ári eftir það. Nokkurn tíma mun þurfa til að undirbúa íslenskukennsluna og gerir dómsmálaráðuneytið því ekki ráð fyrir að hefja kennsluna fyrr en á árinu 2003 og að fjárveiting til hennar komi því ekki til ákvörðunar fyrr en í fjárlögum þess árs.

1     Samkvæmt 1. hluta viðauka A við Brussel-samninginn gildir ákvæðið ekki fyrir Ísland og Noreg.
2     Samkvæmt 1. hluta viðauka A við Brussel-samninginn gildir ákvæðið ekki fyrir Ísland og Noreg, að því er tekur til eftirlits með farangri.
3     Samkvæmt 1. hluta viðauka A við Brussel-samninginn gildir ákvæðið ekki fyrir Ísland og Noreg.
4     Samkvæmt 1. hluta viðauka A við Brussel-samninginn gildir ákvæðið ekki fyrir Ísland og Noreg.
5     Samkvæmt 1. hluta viðauka A við Brussel-samninginn gildir kaflinn ekki fyrir Ísland og Noreg.
1      Stjtíð. EB C 254, 19.8.1997, bls. 1.
2      Stjtíð. EB L 176, 10.7.1999, bls. 36.
3      Stjtíð. EB L 281, 23.11.1995, bls. 31.
4      Stjtíð. EB L 316, 15.12.2000, bls. 1.