Ferill 458. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 738  —  458. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um að koma á fót vestnorrænni samráðsnefnd um nýtingu náttúruauðlinda.

Flm.: Einar Oddur Kristjánsson, Hjálmar Árnason, Guðmundur Hallvarðsson,


Gísli S. Einarsson, Svanfríður Jónasdóttir, Kjartan Ólafsson.


    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni, í samvinnu við landstjórnir Færeyja og Grænlands,
að koma á fót níu manna samráðsnefnd um nýtingu náttúruauðlinda. Nefndina skipi þrír fulltrúar frá hverju vestnorrænu landanna.

Greinargerð.


    Vestur-Norðurlönd búa yfir stórum haf- og landsvæðum þar sem fjölbreytilegar náttúruauðlindir er að finna. Afkoma vestnorrænu þjóðanna byggist öðru fremur á skynsamlegri og sjálfbærri nýtingu þessara auðlinda. Augu flestra beinast í þessu samhengi einkum að þeim auði sem býr í fiski og sjávarafurðum, en löndin eiga einnig margs konar aðrar nýtanlegar náttúru- og orkulindir sem gætu síðarmeir orðið afar dýrmætar fyrir afkomu þeirra.
    Aukið samstarf og upplýsingaflæði landanna á milli í þessum efnum gæti reynst þeim einkar notadrjúgt, ekki síst þar sem sérfræðingar þeirra búa að þekkingu á mismunandi sviðum auðlindanýtingar. Færeyingar hafa til dæmis mikla reynslu af olíuleit og ýmsum þáttum er lúta að uppbyggingu olíuiðnaðar, Íslendingar geta aftur á móti miðlað af reynslu sinni í orkumálum. Það gefur því auga leið að þjóðunum væri mikill akkur í skipulegri samræðu um auðlindanýtingu. Þannig mundu þær ekki einungis læra hver af annarri, heldur einnig koma í veg fyrir tvíverknað og mistök.
    Sérstök vestnorræn samráðsnefnd sérfræðinga, stjórnmálamanna og annarra sem reynslu hafa af auðlindanýtingu mundi gegna því hlutverki að tryggja upplýsingaflæði, þekkingarleit og samstarf landanna á milli. Þar eð mikilvægt er að sem flestir komi að þessari vinnu og úr sem flestum áttum yrði nefndin skipuð níu manns með þremur fulltrúum frá hverju landi. Nefndin kysi sér formann.