Ferill 459. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 739  —  459. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um alþjóðlega ráðstefnu um sjálfbæra þróun og nýtingu lífríkis á Vestur-Norðurlöndum.

Flm.: Einar Oddur Kristjánsson, Hjálmar Árnason, Guðmundur Hallvarðsson,


Gísli S. Einarsson, Svanfríður Jónasdóttir, Kjartan Ólafsson.


    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni, í samvinnu við landstjórnir Færeyja og Grænlands, að halda alþjóðlega ráðstefnu um sjálfbæra þróun og nýtingu lífríkis á Vestur-Norðurlöndum. Tilgangur með ráðstefnuhaldinu væri að efna til opinnar og gagnrýnnar umræðu á milli sem flestra fylkinga um þessi málefni og ráðstefnugestir kæmu úr mismunandi áttum, þar yrðu fulltrúar stjórnmálamanna, vísindamanna, leikmanna og ólíkra hagsmunasamtaka, svo sem dýra- og náttúruverndarsamtaka.

Greinargerð.


    Íbúar Vestur-Norðurlanda hafa ávallt verið mjög háðir því sem náttúran ber á borð, bæði í sjó og á landi, og allir vita að veiðimennska er hluti vestnorrænnar menningar og lífsbjargar. Því er það hagur allra Vestur-Norðurlandabúa að sú veiði sem þeir byggja afkomu sína á sé sjálfbær og að komandi kynslóðir geti þrifist á þessum auðlindum um ókomna tíð.
    Fólksfjölgun, velmegun og ör þróun veiðivopna, samgöngutækja og annarrar tækni hefur skapað vaxandi hættu á ofveiði og aukið nauðsyn þess að vel sé með lífríkið farið. Vaxandi mengun, sem einnig berst til vestnorrænu landanna frá iðnvæddum stórþjóðum, eykur enn álagið sem á lífríkinu hvílir. Fáir vita betur en fólkið sem í vestnorrænu löndunum býr hversu vel verður að umgangast lífríkið svo að það nýtist óbornum kynslóðum til framfærslu.
    Útbreiddur misskilningur og fáfræði á alþjóðavettvangi um veiðimenningu og samfélög Vestur-Norðurlanda er hins vegar vaxandi ógn við framtíðarafkomu þeirra og lífshætti. Löndin hafa í seinni tíð orðið fyrir harðri gagnrýni á alþjóðavettvangi fyrir nýtingu sína á eigin dýraríki, ekki síst frá alþjóðlegum dýra- og náttúruverndarsamtökum. Áróðursherferðir gegn selveiðum á Grænlandi og aðgerðir gegn hvalveiðum á Íslandi og í Færeyjum eru skýr dæmi um þetta. Vestur-Norðurlönd munu ekki geta sætt sig við slíkar aðgerðir, né heldur þær ógnir sem felast í viðskiptahöftum, bönnum og áróðursherferðum gegn sjálfbærri og skynsamlegri nýtingu eigin lífríkis.
    Samstaða þessara strjálbýlu smáþjóða og sameiginleg afstaða á alþjóðlegum vettvangi getur í þessu sambandi gegnt mikilvægu hlutverki. Það er hagur vestnorrænu landanna að tryggja alþjóðlegt upplýsingastreymi sem eykur þekkingu og virðingu fyrir veiðihefðum landanna og menningu. Alþjóðleg ráðstefna um sjálfbæra veiði og nýtingu lífríkisins væri mikilvægt framlag til aukins skilnings fylkinga á milli og bæri vitni um sameiginlega hagsmuni og menningararfleifð Vestur-Norðurlanda.