Ferill 555. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 873  —  555. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um landgræðsluáætlun 2003–2014.

(Lögð fyrir Alþingi á 127. löggjafarþingi 2001–2002.)


    Alþingi ályktar að á næstu 12 árum skuli fjármagn veitt til landgræðslu í samræmi við lög nr. 17/1965, um landgræðslu, og lög nr. 43/1975, um heftingu landbrots og varnir gegn ágangi vatna. Fjármagni þessu skal varið til landgræðsluaðgerða samkvæmt eftirfarandi áætlun:

I. Áætlun um fjáröflun.


(Fjárhæðir í millj. kr. á áætluðu meðalverði árið 2002.)



Tímabil Ríkisframlag Sértekjur Samtals
1.    2003–2006 1.930 140 2.070
2.    2007–2010 2.050 150 2.200
3.    2011–2014 2.100 160 2.260
Samtals 2003–2014 6.080 450 6.530

II. Kostnaðaráætlun.
(Fjárhæðir í millj. kr.)


A. Kostnaðaráætlun 2003–2014
2003–06 2007–10 2011–14 Samtals
1.    Almennur rekstur 615 630 640 1.885
2.    Uppgræðsluverkefni 995 1.050 1.070 3.115
3.    Verkefnið Bændur græða landið 170 190 200 560
4.    Landbótasjóður 90 110 120 320
5.    Fyrirhleðslur 200 220 230 650
Samtals gjöld 2.070 2.200 2.260 6.530
Sértekjur -140 -150 -160 -450
Gjöld umfram sértekjur 1.930 2.050 2.100 6.080




Prentað upp.

B.     Kostnaðaráætlun 2003–2006
2003 2004 2005–06 Samtals
1.    Almennur rekstur 150 155 310 615
2.    Uppgræðsluverkefni 235 240 520 995
3.    Verkefnið Bændur græða landið 40 40 90 170
4.    Landbótasjóður 5 20 65 90
5.    Fyrirhleðslur 45 50 105 200
Samtals gjöld 475 505 1.090 2.070
Sértekjur -35 -35 -70 -140
Gjöld umfram sértekjur 440 470 1.020 2.930

III. Sundurliðuð kostnaðaráætlun 2003–2006.
(Fjárhæðir í millj. kr.)

2003 2004 2005–06 Samtals
1. Almennur rekstur 150 155 310 615
    1.1.    Yfirstjórn 15 15 30 60
    1.2.    Stoðþættir 135 140 280 555
2. Uppgræðsluverkefni 235 240 520 995
    2.1.    Vesturland 20 21 42 83
    2.2.    Norðurland 85 86 190 361
    2.3.    Austurland 25 26 50 101
    2.4.    Suðurland 105 107 238 450
3. Bændur græða landið 40 40 90 170
4. Landbótasjóður 5 20 65 90
5. Fyrirhleðslur 45 50 105 200
    5.1.    Vesturland 2 3 6 11
    5.2.    Norðurland 9 9 20 38
    5.3.    Austurland 6 9 20 35
    5.4.    Suðurland 25 26 59 110
    5.5.    Heildarúttekt 3 3 0 6
Samtals gjöld 475 505 1.090 2.070
Sértekjur -35 -35 -70 -140
Gjöld umfram sértekjur 440 470 1.020 1.930

Athugasemdir við þingsályktunartillögu þessa.


I. Inngangur.


    
Landgræðsla ríkisins hefur unnið árangursríkt landgræðslustarf í áratugi. Þrátt fyrir það á sér enn stað mikið jarðvegsrof og ástand jarðvegs og gróðurs er víða í ósamræmi við möguleg gróðurskilyrði. Tryggja þarf að landnýting verði alls staðar sjálfbær, þ.e. að ekki verði gengið á gæði landsins.
    Landgræðsluáætlunin mótar ramma um landbætur og verndun landkosta til ársins 2014. Markaðar eru áherslur í stöðvun jarðvegseyðingar, uppgræðslu, eftirliti með ástandi gróðurs og jarðvegs, stjórn landnýtingar, fræðslu, ráðgjöf, rannsóknum og upplýsingamiðlun. Áætlunin felur í sér aukna landgræðslu sem mun veita atvinnu og bæta landkosti víða um land. Árangurinn byggist á samstarfi við fjölmarga aðila, ekki síst bændur og aðra íbúa á viðkomandi svæðum. Stór hluti landgræðsluverkefna tekur langan tíma og mörg þeirra þurfa nokkurn aðdraganda vegna undirbúnings og samninga um beitarstjórn. Landgræðsluaðgerðir þurfa einnig að falla að gildandi stefnu í skipulagsmálum og náttúruvernd. Landgræðslustarf það sem áætlunin tekur til miðar jafnframt að því að uppfylla alþjóðasamninga sem Íslendingar eru aðilar að. Landgræðsla er hagkvæm leið til að binda kolefni og hjálpar á þann hátt til að mæta hluta af skuldbindingum Íslands gagnvart loftslagssáttmála Sameinuðu þjóðanna. Stöðvun jarðvegsrofs og uppgræðsla lands getur einnig stuðlað að líffræðilegum fjölbreytileika.
    Gert er ráð fyrir að áætlun þessi verði endurskoðuð fyrir árslok 2005.

1.1. Landgræðsla ríkisins.
    Landgræðsla ríkisins starfar eftir lögum nr. 17/1965, um landgræðslu, og ber að vinna að stöðvun gróðureyðingar og jarðvegsrofs, gróðureftirliti, gróðurvernd og landbótum. Landgræðslan var stofnuð árið 1907 og hét þá Sandgræðsla Íslands. Hún hefur höfuðstöðvar í Gunnarsholti á Rangárvöllum en starfrækir auk þess sex héraðssetur, í Árnesi, Reykjavík, Hvanneyri, Hólum, Húsavík og Kirkjubæjarklaustri. Einnig starfa landgræðsluverðir víða um land. Landgræðslan fer einnig með fyrirhleðslur samkvæmt lögum nr. 43/1975, um heftingu landbrots og varnir gegn ágangi vatna.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Fjárveitingar ríkisins til landgræðslu jukust verulega eftir samþykkt „þjóðargjafarinnar“ 1974. Þær fóru síðan stöðugt lækkandi til ársins 1997 en þá hófst átak í landgræðslu vegna aðildar Íslands að rammasáttmála Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar. Framlög ríkisins til varnar landbroti af völdum fallvatna voru hæst rétt fyrir þjóðargjöfina en hafa síðan farið lækkandi.

1.2. Landgræðslustarfið.
    Starfsemin er mjög fjölþætt og víðfeðm og hefur tekið miklum breytingum á síðustu árum. Fjölmörg verkefni hafa verið færð til bænda og annarra verktaka. Stöðvun jarðvegsrofs og sandfoks, verndun gróðurs, ræktun beitilanda og bætt ásýnd lands eru dæmi um mismunandi tilgang landgræðslustarfsins. Rík áhersla er lögð á samstarf við landnotendur um sjálfbæra landnotkun. Frá árinu 1907 hefur Landgræðslan girt af alls um 160 svæði. Um 65 uppgrædd svæði hafa verið afhent fyrri eigendum. Nú eru um 304.000 ha innan landgræðslugirðinga. Þá hafa fyrirhleðslur á undanförnum árum og áratugum ekki aðeins bjargað hundruðum eða jafnvel þúsundum hektara gróins lands heldur hafa einnig gróið upp þúsundir hektara af gróðurvana landi í skjóli þeirra varnargarða sem gerðir hafa verið, t.d. í Austur-Skaftafells- og Rangárvallasýslu.

1.3. Alþjóðlegir sáttmálar.
    Með aðild að erlendum sáttmálum um umhverfismál, sem Íslendingar hafa staðfest, eru þeir skuldbundnir til að vinna að þeim markmiðum sem sáttmálarnir kveða á um. Slíkir sáttmálar sem tengjast landgræðslustarfinu eru:
     Sáttmáli um varnir gegn myndun eyðimarka sem var samþykktur 1994 og tók gildi hér á landi snemma árs 1997. Eitt helsta markmið hans er að bæta landnýtingu og koma í veg fyrir uppblástur og gróðureyðingu. Kveðið er á um að aðildarríki starfi eftir sérstökum landgræðsluáætlunum sem hafi sjálfbæra þróun að leiðarljósi.
     Rammasamningur um loftslagsbreytingar. Á umhverfisráðstefnunni í Ríó 1992 var gerður rammasamningur um loftslagsbreytingar sem Ísland staðfesti 1993. Samningurinn tók gildi 1994. Markmið hans er að halda styrk gróðurhúsalofttegunda innan hættumarka svo að áhrif manna á loftslag jarðar verði sem minnst. Landgræðsluaðgerðir er ein þeirra leiða sem færar eru til að minnka koltvísýring í andrúmslofti og draga þannig úr gróðurhúsaáhrifum.
     Sáttmáli um líffræðilega fjölbreytni stuðlar að verndun líffræðilegrar fjölbreytni, stöðvun jarðvegsrofs og verndun vistkerfa. Hann var samþykktur 1992 og tók gildi hér á landi 1994.

1.4. Markmið.
    Meginmarkmið landgræðslustarfsins eru:
          Að stöðva hraðfara jarðvegsrof og gróðureyðingu og fyrirbyggja frekari eyðingu og landspjöll.
          Að byggja upp gróður og jarðveg í samræmi við gróðurskilyrði og landnýtingarþörf.
          Að öll landnýting verði sjálfbær.
          Að binda kolefni í gróðri og jarðvegi til mótvægis við losun gróðurhúsalofttegunda.
    Til að ná þessum markmiðum er mikilvægt:
          Að auka þekkingu á þeim vandamálum sem við er að etja og leita hagkvæmustu leiða við lausn þeirra.
          Að veita fræðslu og ráðgjöf til að efla skilning á verndun og sjálfbærri landnýtingu og auka þátttöku í landgræðslustarfinu.
          Að allir notendur og eigendur lands axli ábyrgð á meðferð gróðurs og jarðvegs.
          Að lög og reglugerðir sem snerta verndun gróðurs og jarðvegs verði samræmd, gerð markvissari og felld að áðurgreindum markmiðum.
          Að fjárveitingar til landgræðslu verði auknar verulega.

1.5.     Áherslur til 2014.
    Forgangsröðun landgræðsluverkefna byggist m.a. á úttekt og kortlagningu á jarðvegsrofi á öllu landinu og markmiðum um vistfræðilega sjálfbæra landnýtingu. (Sjá nánar ritið Jarðvegsrof á Íslandi 1997.) Land með rofeinkunn 0–2 er jafnan í góðu eða ásættanlegu ástandi með tilliti til jarðvegsrofs. Svæði á láglendi með rofeinkunn 3 er víða unnt að bæta með uppgræðslu og beitarstjórn til að ná markmiðum sjálfbærrar landnýtingar. Svæði með rofeinkunnir 4 og 5 þarfnast yfirleitt mikilla landgræðsluaðgerða.

Kortlagning á jarðvegsrofi.

% km2
Rofeinkunn 0–2 (Lítið eða ekkert rof) 37 38.501
Rofeinkunn 3 (Talsvert rof) 23 23.669
Rofeinkunn 4 (Mikið rof) 11 10.872
Rofeinkunn 5 (Mjög mikið rof) 6 6.641
Jöklar, vötn og hæstu fjöll 22 22.210
Ókortlagt 1 1.129
Samtals: 100 103.022

    Gróðurskilyrði versna yfirleitt eftir því sem land hækkar og kostnaður við landgræðslu eykst að sama skapi. Því er gert ráð fyrir að landgræðsluverkefni til 2013 verði að mestu neðan við 500 m y.s. Ekki er því gert ráð fyrir uppgræðslu á hálendi nema þar sem jarðvegsrof ógnar mannvirkjum eða náttúruminjum.
    Svæði í rofflokkum 4 og 5 neðan við 200 m y.s. eru að langstærstum hluta sjávarsandar. Á hæðarbilinu 200–500 m eru hins vegar yfir 4.300 km2 með rofeinkunn 4 og 5 sem er um 4% af heildarflatarmáli landsins. Svo mikið jarðvegsrof á þessu hæðarbili sýnir glöggt hversu alvarlegt ástandið er. Svæði neðan við 500 m y.s. sem fá rofeinkunnina 3 eru 10.800 km2, það er meira en 10% af heildarflatarmáli landsins. Stöðugt þarf að fylgjast með ástandi og framvindu gróðurs og jarðvegs. Góð stjórn landnýtingar er forsenda þess að árangur náist en víða þarf að grípa til beinna uppgræðsluaðgerða til þess að flýta fyrir árangri.

Í landgræðsluáætlun til 2014 er lögð megináhersla á eftirfarandi:
          Stöðvun hraðfara jarðvegseyðingar, einkum þar sem rof er í grónu landi og þar sem sandur ógnar mannvirkjum. Til 2006 verði einkum unnið á láglendi þar sem aðgerða er brýn þörf.
          Gróðurvernd og stjórn landnýtingar. Stefnt er að því að öll landnýting verði sjálfbær. Gerðar verði gróður- og jarðvegsverndaráætlanir fyrir þá afrétti sem verst eru farnir og unnið að samkomulagi við landnotendur um framkvæmd þeirra. Einnig verði unnið að samningum um beitarstjórn þar sem ofbeit er í heimalöndum. Til 2006 verði komið á vöktunarkerfi og kerfi til að votta sjálfbæra landnýtingu. Einnig að veita ráðgjöf og aðstoð við gerð landnýtingaráætlana einkum fyrir jarðir í verkefninu Bændur græða landið.
          Uppgræðslu lands, einkum á láglendi. Til 2006 verði stuðlað að auknu frumkvæði og þátttöku heimamanna í landgræðslu. Stofnaður verði sérstakur sjóður, Landbótasjóður, í þessu skyni og samstarfsverkefnið Bændur græða landið verði eflt enn frekar.
          Heftingu landbrots. Gerð verði heildarúttekt á þörfinni og verkefnum forgangsraðað. Til 2006 verði auk heildarúttektar einkum unnið að brýnu viðhaldi eldri mannvirkja og nýverkefnum við Skaftá, Jökulsá á Dal, Héraðsvötn og Markarfljót.
          Upplýsingaaöflun. Haldið verði áfram kortlagningu landgræðslusvæða og uppbyggingu landupplýsingakerfis. Til 2006 verði lokið við að kortleggja landsvæði í umsjá Landgræðslunnar og öllum gögnum komið í samræmdan gagnagrunn sem starfsmenn hafi aðgang að hvar sem er á landinu.
          Rannsóknir og þróun til að auka hagkvæmni og bæta árangur í landgræðslustarfinu. Stefnt er að því að fjölga úrræðum við landbætur, m.a. með aukinni notkun innlendra tegunda. Til 2006 verði lögð áhersla á að bæta árangur uppgræðslu, þróa aðferðir við mat á ástandi lands og árangri aðgerða og rannsaka framvindu landgræðslusvæða, m.a. með tilliti til bindingar kolefnis og líffjölbreytileika.
          Fræðslu og ráðgjöf. Unnið verður áfram að fræðslu um landgræðslustarfið og landnýtingu í sátt við landið svo og aukinni ráðgjöf fyrir umsjónarmenn lands. Til 2006 verði einkum unnið að gerð fræðsluefnis fyrir grunn- og framhaldsskóla, og fræðsluefnis fyrir landnotendur, m.a. á vefsíðu Landgræðslunnar.

1.6.     Binding kolefnis með landgræðslu.
    Markmið loftslagssáttmála Sameinuðu þjóðanna sem sett voru á umhverfisráðstefnunni í Ríó 1992 eru að halda styrk gróðurhúsalofttegunda í lofthjúpnum innan hættumarka svo að áhrif manna á loftslag jarðar verði sem minnst. Umbreyting koltvísýrings úr andrúmslofti í lífræn efni í gróðri og jarðvegi vinnur að þessu markmiði og gerir sama gagn og að draga úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda. Landgræðsla er bæði gagnleg og örugg leið til að binda koltvísýring í gróðri og jarðvegi á hagkvæman hátt.
    Árangur af átaksverkefni ríkisstjórnarinnar í bindingu koltvísýrings með landgræðslu og skógrækt var mjög góður. Það markmið, að auka árlega bindingu um 100 þúsund tonn af koltvísýringi (liðlega 27 þúsund tonn af kolefni) umfram það sem var árið 1990, náðist árið 2000 eins og stefnt var að. Þar af náðist að binda 17.500 tonn af koltvísýringi á nýjum landgræðslusvæðum sem er mun meira en vænst var. Þrátt fyrir að átaksverkefninu sé formlega lokið er lögð rík áhersla á að halda áfram aðgerðum til að auka bindingu kolefnis. Hingað til hefur verið unnið á 19 skilgreindum svæðum í þessu skyni og er aðgerðum á nokkrum þeirra lokið.
    Hér á landi eru sérstaklega góðar aðstæður til að binda kolefni með uppgræðslu vegna þess hve mikið er af ógrónu landi með litlum kolefnisforða en jafnframt viðunandi aðstæðum til að græða það upp. Þá er hér ríkjandi eldfjallajarðvegur sem bindur meira kolefni en nokkur annar þurrlendisjarðvegur. Mikilvægt er að skoða vel þá möguleika sem felast í aukinni landgræðslu og skógrækt til að breyta koltvísýringi andrúmsloftsins í lífræn efni til hagsbóta fyrir land og þjóð. Meta þarf kolefnisbindingu landgræðsluaðgerða og þróa aðferðir til þess. Aukin kolefnisbinding mundi einnig auka frjósemi landsins og til lengri tíma litið styrkja búsetuskilyrði þjóðarinnar.

1.7.     Þátttaka og frumkvæði heimamanna.
    Landgræðsla ríkisins leggur ríka áherslu á að sú þróun haldi áfram að verkefni hennar verði unnin meira af heimamönnum í hverju héraði. Búið er að leggja grunn að slíku starfi með samstarfsverkefninu „Bændur græða landið“ (BGL). Þó eru miklir möguleikar á enn meira samstarfi, t.d. er uppgræðsla á afréttum í umsjón heimamanna vænleg til árangurs. Þeir þekkja landið best og eiga yfirleitt þau tæki sem þarf til uppgræðslu. Byggð mun styrkjast með því að auka þátttöku og áhrif heimamanna á þennan hátt, t.d. sem verktakar Landgræðslunnar. Þar sem landgæði aukast verður auðveldara að bæta beitarstýringu og létta beit af þeim svæðum sem eru verst farin og færa hana á nýuppgrædd beitarsvæði. Með betri beitarstýringu fást meiri afurðir og með lífrænni eða vistvænni framleiðslu fæst væntanlega hærra afurðaverð og betri lífskjör. Auk þess binda uppgræðsluaðgerðir kolefni í gróðri og jarðvegi og stuðla þannig að minni gróðurhúsaáhrifum í anda loftlagssáttmála Sameinuðu þjóðanna.
    Héraðssetur Landgræðslunnar eru víða um land og hafa héraðsfulltrúar umsjón með verkefnum Landgræðslunnar í héraðinu. Efling setranna mun skila sér í bættum tengslum Landgræðslunnar og íbúa héraðanna.
    Komið verður á landgræðsluráði í hverjum landshluta sem verði stuðningsaðili héraðssetranna, og umræðuvettvangur um aðgerðir. Ráðinu er ætlað að beita sér fyrir aukinni landgræðslu í landshlutanum og framlögum til landgræðsluverkefna.

1.8. Samstarf við umhverfisráðuneytið og stofnanir þess.
    Ákveðnir þættir landgræðsluáætlunar tengjast verkefnum umhverfisráðuneytisins og stofnana þess, svo sem Náttúrverndar ríkisins, Náttúrufræðistofnunar Íslands og Skipulagsstofnunar. Þar sem svo háttar mun Landgræðslan hafa náið samstarf við umhverfisráðuneytið við undirbúning framkvæmda þar sem gætt verði laga um náttúruverndar- og skipulagsmál.

II. Verkefni og aðgerðir.


Helstu verkefni til 2006.

1. Almennur rekstur.
1.1. Yfirstjórn.
    Höfuðstöðvar Landgræðslunnar eru í Gunnarsholti og annast aðalskrifstofan skipulag, samhæfingu og stjórn landgræðslustarfsins. Héraðssetur Landgræðslunnar verða efld til að gegna mikilvægu hlutverki við að auka þátttöku heimaaðila. Þátttaka Landgræðslunnar í erlendu samstarfi um umhverfismál er mikilvæg og skilar árangri heima fyrir. Þá getur íslensk reynsla nýst á erlendum vettvangi enda höfum við hvað lengsta reynslu allra þjóða af landgræðslu.

Helstu verkefni:
          Efla starf héraðssetra og koma á fót héraðssetri á Austurlandi.
          Þátttaka í fjölþjóðlegu samstarfi vegna alþjóðlegra sáttmála er varða landgræðslu.

1.2. Stoðverkefni.
    Í stoðverkefnum felast verkefni við fræöflun, sjálfbæra landnýtingu, gagnaöflun, áætlanagerð, rannsóknir, þróun, fræðslu og ráðgjöf.

a. Fræöflun.
    Fræ af helstu landgræðslutegundum fæst ekki á alþjóðamarkaði og verður Landgræðslan því að treysta á innlenda fræöflun. Til að mæta aukinni fræþörf verður leitað í auknum mæli til bænda og annarra aðila um framleiðslu á fræi til landgræðslu m.a. til að dreifa ræktuninni um landið og minnka þannig staðbundna áhættu. Jafnframt verður þróuð frærækt af nýjum landgræðslutegundum.

Helstu verkefni:
          Auka fræframleiðslu af landgræðsluplöntum með því að stækka fræakra og bæta afrakstur þeirra.
          Auka samstarf við bændur um fræframleiðslu.
          Þróa aðferðir við öflun og meðferð fræs af landgræðslutegundum.
          Auka gæðastjórnun og bæta frægæði og aðferðir við frærækt og hreinsun og húðun á fræi.

b.     Sjálfbær landnýting.
    Eitt meginhlutverk Landgræðslunnar er að fylgjast með ástandi og nýtingu lands, koma í veg fyrir hnignun þess og stuðla að eðlilegri gróðurframvindu. Æskilegt er að færa eftirlit með beitilöndum í auknum mæli til sveitarfélaga. Búfjáreftirlitsmenn sinni eftirliti með beit og fóðrun búfjár árið um kring. Unnið verður með sveitarstjórnum að því að tryggja sjálfbæra nýtingu á afréttum landsins. Víða er nýting afrétta í samræmi við landgæði, annars staðar þarf að girða góð beitarsvæði frá auðnum. Brýnt er að gera samkomulag um beitarstjórn á þeim svæðum sem verst eru farin, einkum svæðum á hálendinu með mikið rof.
    Skipulegt mat á árangri verður aukið til að tryggja sem bestan árangur landgræðsluaðgerða. Allir sem vinna að landgræðslu þurfa að geta metið árangur verka sinna.

Helstu verkefni:
          Koma á vöktunarkerfi fyrir ástand og nýtingu beitilanda, bæði heimalanda og afrétta.
          Vinna að úrbótum þar sem nýting skerðir landgæði eða tefur framvindu gróðurs.
          Vinna að mati á árangri aðgerða við mismunandi aðstæður.
          Veita bændum og samtökum búfjáreigenda aðstoð og ráðgjöf við beitarskipulag og mat á hóflegri nýtingu lands svo og aðrar fyrirbyggjandi ráðstafanir til að koma í veg fyrir að land spillist vegna nýtingar.

c.     Gagnaöflun og áætlanagerð.
    Mikilvægur hluti landgræðslustarfsins er öflun upplýsinga um vistkerfið, kortlagning til að geta unnið áætlanir um uppgræðslu og landnýtingu, eftirlit með ástandi og nýtingu lands og mat á árangri aðgerða. Mörg verkefni á þessu sviði eru langtímaverkefni þar sem afla þarf upplýsinga reglulega til að meta breytingar og endurskoða áætlanir. Upplýsingar um jarðvegsrof eru forsenda forgangsröðunar verkefna, áætlanagerðar og áhættuflokkunar lands varðandi nýtingu. Samræma þarf upplýsingar frá ýmsum aðilum, svo sem um landgæði og álagsþol afrétta og annarra beitilanda til að tryggja sjálfbæra nýtingu þeirra og vinna landnýtingaráætlanir. Afla þarf upplýsinga um svæði sem Landgræðslunni er ætlað að gefa umsögn um, m.a. vegna skipulagsmála. Þá er nauðsynlegt að hafa góða skrá um öll svæði Landgræðslunnar og verkefni sem unnin eru á hennar vegum í gagnagrunni sem verði aðgengilegur starfsmönnum og almenningi. Nauðsynlegt er að halda greinagott og trúverðugt bókhald um bindingu kolefnis í gróðri og jarðvegi, m.a. vegna skuldbindinga Íslands um að minnka magn kolefnis í andrúmslofti.

Helstu verkefni:
          Byggja upp samræmdan gagnagrunn um vistkerfi, ástand lands og landgræðslustarfið, í samstarfi við aðrar stofnanir landbúnaðarins.
          Gera áætlanir um úrbætur og forvarnir í kjölfar könnunar á ástandi bithaga.
          Gera áætlanir um aðgerðir á landgræðslusvæðum.
          Gera gróður- og jarðvegsverndaráætlanir fyrir þá afrétti sem verst eru farnir.
          Veita ráðgjöf við gerð landnýtingaráætlana fyrir einstakar jarðir.

d.     Rannsóknir og þróun.
    Landgræðslustarfið þarf að byggjast á traustum faglegum grunni. Ein af undirstöðum þess er öflugt og fjölþætt rannsóknar- og þróunarstarf. Unnið verður að rannsóknum og þróun á sviði uppgræðslu, vistheimtar og ástandi lands. Landgræðslurannsóknir eru í eðli sínu þverfaglegar og verða þær unnar í samstarfi við aðra rannsóknarhópa á sviði landbúnaðar-, umhverfis- og náttúrufræða, innan lands og utan. Lögð verður áhersla á að rannsóknarverkefni séu í samræmi við þarfir og forgangsröðun landgræðslustarfsins og niðurstöðurnar nýtist fljótt og vel.

Helstu verkefni:
          Rannsaka eiginleika, ræktunaraðferðir og notkunarmöguleika tegunda til landgræðslu með áherslu á innlendar tegundir.
          Þróa uppgræðslutækni til að bæta árangur og draga úr kostnaði við uppgræðslu, m.a. örva sjálfgræðslu og gróðurframvindu.
          Þróa aðferðir við mat á ástandi gróðurs og jarðvegs og árangri landgræðsluaðgerða, þ.m.t. kolefnisbindingu.
          Rannsaka áhrif beitar á gróður og jarðveg.
          Hefja uppsetningu reitakerfis til langtímarannsókna á gróðurfari og ástandi gróðurs.
          Rannsaka forsendur sjálfbærrar landnýtingar og tækni við beitarstjórn.
          Þátttaka í vísindastarfi Evrópusambandsins á sviði landgræðslu og gróðureyðingar.

e.     Fræðsla og ráðgjöf.
    Fræðslustarf Landgræðslunnar miðar að því að efla skilning á nauðsyn þess að stöðva landeyðingu og vernda gróður og jarðveg. Enn fremur að efla skilning á því hvað felst í sjálfbærri nýtingu lands og miðla þekkingu á aðferðum til að græða upp landið og bæta illa farin vistkerfi þess. Fræðsla og ráðgjöf eru skilvirkustu leiðir til að efla þátttöku almennings í landgræðslustarfi og stuðla að verndun og sjálfbærri landnýtingu.

Helstu verkefni:
          Gerð fræðsluefnis um landgræðslustarfið og verndun vistkerfa og koma því efni á framfæri.
          Samstarf við skóla og aðra aðila um gerð fræðsluefnis fyrir grunn- og framhaldsskóla um landgræðslu og gróðurvernd. Enn fremur leiðsögn fyrir kennara um notkun þess.
          Námskeið um landlæsi og beitarstjórn fyrir landnotendur o.fl.
          Samstarf við menntastofnanir landbúnaðarins um fræðslu á sviði landgræðslu og land-nýtingar.

2.     Uppgræðsluverkefni.
    Gerð hefur verið kostnaðaráætlun fyrir verkefni sem ráðast þarf í á næstu árum. Við endurskoðun landgræðsluáætlunar þarf að huga að landgræðslu á fleiri svæðum en hér eru talin.

2.1. Vesturland.
    Gróðurfar er víðast hvar gott á Vesturlandi, sérstaklega í lágsveitum. Þó er talsvert rof sem m.a. endurspeglar mikla útbreiðslu mela og hnignaðs gróðurfars. Á Reykjanesskaga eru slæm rofsvæði einkum í Krísuvík. Jarðsil er ein algengasta rofmyndin en helstu aðgerðir á slíkum svæðum væri beitarstjórn. Stærstu rofsvæðin, með mikið eða mjög mikið rof, eru umhverfis Langjökul. Þar eru sandar og rofabörð ríkjandi rofmyndir.
    Nokkur smærri rofsvæði eru á Vesturlandi þar sem rofabörð og sandfok frá sjávarströnd er algengast.
    Á Vestfjörðum er hálendi með bröttum hlíðum og rýrum heiðarlöndum. Þar er víða talsvert rof mest jarðsil, vatnsrof og brattar ógrónar urðir. Á Vesturlandi eru rúmlega 3.500 km2 (um 3,5% af flatarmáli alls landsins) af söndum og melum, neðan 400 m y.s. og mikið af þeim henta mjög vel til uppgræðslu.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Helstu verkefni:
     *      Í Krísuvík á Reykjanesi eru stór rofsvæði. Haldið verður áfram uppgræðslu þar.
     *      Á Hafnarmelum í Borgarfirði eru stór svæði í slæmu ástandi. Brýnt er að stöðva jarðvegsrof og vernda þær skógarleifar sem enn tóra og græða örfoka land. Uppgræðslu þar verður haldið áfram.
     *      Vesturbyggð. Unnið verður að varnaraðgerðum á nokkrum sjávarsandsvæðum með áfoksgeirum í Breiðavík, Kollsvík og Sauðlauksdal. Aðgerða er þörf á fleiri svæðum.
     *      Sveitarfélögum á Reykjanesi verður veitt aðstoð við að takmarka lausagöngu búfjár, einkum með uppgræðslu í beitarhólfum, og fjölþættu samstarfi um landbætur.
     *      Unnið verður að heftingu sandfoks í Sandvíkum á Reykjanesi.
     *      Unnið verður að samkomulagi um beitarstjórn á Oddsstaðaafrétti, Hallmundarhrauni og austasta hluta Arnarvatnsheiðar.
     *      Hítardalur er eitt stærsta rofsvæðið á Miðvesturlandi. Botn dalsins að utanverðu er örfoka hraun og einnig er mikið jarðvegsrof í hlíðum dalsins. Unnið verður með landeigendum að uppgræðslu dalsins og beitarstjórn.

2.2.     Norðurland.
    Á vesturhluta Norðurlands eru láglendi og heiðarlönd yfirleitt vel gróin og lítið um jarðvegsrof. Landnýting er þó sums staðar í ósamræmi við landkosti. Mikið er um ofbeit af völdum hrossa í Húnavatns- og Skagafjarðarsýslum og ofbeittum hrossahögum fer fjölgandi austar í fjórðungnum. Láglendi Eyjafjarðarsvæðisins er vel gróið og lítið um jarðvegsrof en á afréttum sunnan til eru auðnir alls ráðandi. Í Þingeyjarsýslum eru svæði þar sem rof er hvað minnst á landinu en einnig eru þar stærstu samfelldu rofsvæði landsins og örasta gróðureyðingin. Neðan 400 m y.s. eru um 1.550 km2 af melum og söndum sem henta til uppgræðslu heimalanda.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Á Tjörnesi er land víða illa farið og brýnt að ná betri tökum á landnýtingunni og styrkja enn frekar uppgræðslu heimalanda. Gerð verður heildstæð landgræðsluáætlun fyrir hreppinn. Á Vaðlaheiði eru stór rofsvæði, aðallega rofabörð og vatnsrásir. Aukin beitarstjórn og uppgræðsla á vegum heimaaðila verða helstu aðgerðir. Á Reykjaheiði er víðáttumikið rofabarðasvæði. Unnið verður að því að koma á beitarstjórn og samhliða því styrkja uppgræðslu bænda í heimalöndum. Á Grjóthálsi og í þjóðgarðinum í Jökulsárgljúfrum er víða mikið jarðvegsrof sem gengur á gróið land og gæti ógnað náttúruperlum þjóðgarðsins. Landið er friðað fyrir beit og unnið verður að stöðvun rofs og uppgræðslu í samvinnu við Náttúruvernd ríkisins. Á Öxarfjarðarheiði er víða hraðfara jarðvegsrof og gróðureyðing. Þar þarf að bæta beitarstjórn og auka uppgræðslu á vegum bænda.

Helstu verkefni:
     *      Í Bárðdælahreppi er mikið jarðvegsrof á ásunum beggja vegna dalsins. Unnin verður heildaráætlun um landnýtingu og uppgræðslustörf bænda styrkt.
     *      Í Aðaldal eru tæplega 1.000 ha sandfokssvæði frá Skjálfandafljóti og austur að Laxá. Landið er friðað en sandur sækir á gróið land. Landgræðslugirðing verði stækkuð til suðvesturs til að friða birkiskóg fyrir sandágangi.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


     *      Hólasandur er stórt sandsvæði með miklu jarðvegsrofi á jöðrum svæðisins. Landið er friðað en mikið land ógrætt. Unnið verður að alhliða landgræðslu samkvæmt fyrirliggjandi áætlun.
     *      Á Mývatnsöræfum er stærsta rofsvæði landsins. Á öræfunum frá Skjálfandafljóti austur að Jökulsá á Fjöllum verður unnið að samkomulagi um að girða vel gróin svæði af til beitar frá auðnum öræfanna. Sáð verður í verstu sandfokssvæðin.
     *      Kelduhverfi/Öxarfjörður. Þar eru sandfokssvæði við sjó og meðfram Jökulsá á Fjöllum. Unnið verður áfram að heftingu sandfoks.
     *      Hólsfjöll eru annað stærsta rofsvæði landsins. Svæðið er friðað fyrir búfjárbeit og mikið hefur verið unnið þar síðustu ár. Þörf er umfangsmikilla aðgerða til að stöðva hraðfara jarðvegsrof og verður unnið að því.
     *      Landgræðslan mun vinna að bættri landnýtingu í Skagafirði í samvinnu við hlutaðeigandi aðila.
     *      Gert verði samkomulag um bætta landnýtingu fyrir syðstu hluta afrétta Austur-Húnavatnssýslu og einnig afrétti frá Eyvindarstaðaheiði austur að Jökulsá á Fjöllum.
     *      Gerðar verði landgræðslu- og landnýtingaráætlanir fyrir stór samfelld svæði svo sem Tjörnes, Vaðlaheiði, Reykjaheiði og Öxarfjarðarheiði.

2.3. Austurland.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Landgæði eru mismikil á Austurlandi. Í byggð er víðast vel gróið og lítið jarðvegsrof á sléttlendi en mikið í hlíðum og öðru brattlendi þar sem gróðurfar er víða rýrt. Afréttir eru sums staðar mjög illa farnir, sérstaklega afréttir Vopnfirðinga, Jökuldalsheiði og Brúaröræfi. Einnig eru þar afréttir í góðu ástandi og með lítið jarðvegsrof, svo sem á Hofteigsheiði og suður yfir Fljótsdalsheiði, að hálendinu við Vatnajökul. Suðurhluti fjórðungsins er víða brattlendur og því hætt við jarðvegsrofi. Fjalllendið einkennist af bröttum, ógrónum urðarhlíðum sem margar voru grónar áður fyrr. Í Austur-Skaftafellssýslu er mikið af sandsvæðum, þar er nú ör gróðurframför í kjölfar ýmissa aðgerða og breyttra búskaparhátta á undanförnum árum. Melar og sandar neðan 400 m y.s. eru rúmlega 1.200 km2. Stór hluti þeirra hentar vel til uppgræðslu.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Helstu verkefni:

     *      Héraðssandur. Milli Selfljóts og Jökulsárhlíðar eru víðáttumikil sandfokssvæði friðuð að hluta. Unnið verður áfram að sáningu og styrkingu gróðurs.
     *      Skógey er stórt friðað sandsvæði. Þar hefur uppgræðsla gengið mjög vel. Haldið verður áfram uppgræðslu til að stöðva sandfokið varanlega.
     *      Í Öræfasveit verður aðallega unnið ofan Fagurhólsmýrar og að heftingu sandfoks við Ingólfshöfða.
     *      Eflt verði samstarf um uppgræðslu heimalanda einkum í Vopnafirði, Jökuldal, Skriðdal og Álftafirði. Samhliða þarf víða að bæta beitarstjórn.
     *      Gert verði samkomulag um friðun öræfanna milli Jökulsár á Fjöllum og Jökulsár á Brú. Einnig afréttarlanda upp af Vopnafirði svo og Lónsöræfa.

2.4.     Suðurland.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Suðurlandsundirlendið er víðast vel gróið. Þar hefur verið mikið uppgræðslustarf og sjálfgræðsla á undanförnum áratugum. Á láglendi er lítið um svæði með miklu rofi að frátöldum sandfokssvæðum með ströndinni og meðfram nokkrum jökulám en svæði með talsverðu rofi eru nokkuð algeng. Afréttir eru flestir illa farnir, rofabörð og sandsvæði eru algengar rofmyndir og laus sandur og gjóska herjar á gróðurleifar. Neðan 400 m y.s. eru rúmlega 1.100 km2 af melum og söndum sem henta vel til uppgræðslu. Ofbeit hrossa hefur farið vaxandi á Suðurlandi.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Helstu verkefni:

     *      Í Skaftárhreppi verður unnið að því hefta sandfok út frá farvegum Skaftár og Hverfisfljóts þar sem sandur fýkur á gróið land. Aðgerðir eru brýnar á mörgum svæðum. Við Atley verða grædd upp stór moldarflög sem eru að eyðast.
     *      Mýrdalssandur. Sandfok hamlar oft umferð um sandinn. Unnið verður áfram í samvinnu við Vegagerðina að uppgræðslu í samræmi við áætlun frá 2000.
     *      Land- og Árskógar í ofanverðri Rangárvallasýslu. Haldið verður áfram uppgræðslu þar og bætt við nýjum svæðum.
     *      Tunguheiði. Unnið verður áfram að uppgræðslu í samstarfi við Landgræðslufélag Biskupstungna.
     *      Haukadalsheiði hefur verið eitt mesta uppblásturssvæði landsins á þessari öld. Svæðið er friðað fyrir beit. Miklar landgræðsluframkvæmdir hafa verið á heiðinni og verður þeim haldið áfram í samræmi við landgræðsluáætlun um heiðina.
     *      Í Þorlákshöfn verður unnið að því að fyrirbyggja sandfok inn í kauptúnið. Græða verður upp helstu sandfokssvæðin. Unnið verður eftir áætlun um svæðið frá 1996.
     *      Efla samstarf um uppgræðslu á láglendi, í hálendisjaðrinum og á nokkrum stöðum á afréttum.
     *      Undirbúa örfoka land til skógræktar með uppgræðslu í samvinnu við Suðurlandsskóga og fleiri aðila.
     *      Vakta landbrot af völdum sjávar við Vík í Mýrdal einkum með tilliti til sandfoks á þorpið.
     *      Landeyjasandar er stórt sandfokssvæði við ströndina. Landið er friðað en gífurleg verkefni eru fram undan við stöðvun sandfoks. Að þeim verði unnið
     *      Rangárvallaafréttur er sá afréttur landsins sem hvað verst er farinn. Unnið verður að samkomulagi um friðun afréttarins og sáningu á verstu svæðunum.
     *      Á „Hafinu“ og sunnanverðum Gnúpverjaafrétti eru mikil jarðvegsrofsvæði. Þar verður uppgræðslu haldið áfram.
     *      Hagavatnssvæði. Útfall Hagavatns hefur færst til við hopun jökla. Vatnið hefur minnkað og verulegt jarðvegsrof er á öllu svæðinu sunnan og vestan Langjökuls. Ört gengur á þær gróðurleifar sem enn eru eftir. Verið er að leita leiða til að leysa þennan vanda.

3.     Samstarfsverkefnið Bændur græða landið.
    Formlegt samstarf Landgræðslunnar og bænda um uppgræðslu heimalanda hefur staðið í 12 ár. Samstarfsverkefni þetta nefnist Bændur græða landið (BGL). Þátttakendum hefur fjölgað ár frá ári og voru nær 600 árið 2000. Þátttaka landnotenda í landgræðslustörfum ýtir undir frumkvæði og ábyrgð þeirra í gróðurvernd og stuðlar að sjálfbærri landnýtingu. Áhugi bænda á uppgræðslu er mikill en fjárskortur kemur í veg fyrir enn meira uppgræðslustarf á þeirra vegum. Landgræðslan hefur umsjón og eftirlit með verkefninu, veitir ráðgjöf, styrkir bændur við áburðarkaup á uppgræðslusvæðin og lætur í té fræ þar sem þess er þörf. BGL hefur verið styrkt verulega af umhverfislið búvörusamnings um sauðfjárafurðir og einnig hafa nokkur sveitarfélög styrkt það. Efla þarf BGL og gera samninga við þátttakendur þar sem kveðið verði á um gagnkvæmt hlutverk og skyldur.

Helstu verkefni:
     *      Veita bændum ráðgjöf og stuðning við uppgræðslu heimalanda gegn mótframlagi þeirra.

4.     Landbótasjóður.
    Stofnaður verður sérstakur sjóður – Landbótasjóður – sem landeigendur og aðrir umsjónaraðilar lands geta sótt um styrk úr til landbóta. Markmið sjóðsins er að færa verkefni heim í héruð og að bændur, landgræðslufélög og önnur grasrótarfélög geti fengið greitt að verulegu leyti fyrir vinnu, tæki og hráefni en leggi jafnframt að mörkum hluta af heildarkostnaði aðgerðanna. Verkefnin verða undir forsjá og ábyrgð heimaaðila en Landgræðslan veitir ráðgjöf og fjármagn og hafi eftirlit með verkefnunum. Auglýst verður eftir umsóknum um styrki úr sjóðnum. Forgangsröðun umsókna falli að markmiðum og áherslum þessarar áætlunar, þá njóti þeir aðilar sem unnið hafa landgræðslu- og landnýtingaráætlanir fyrir aðgerðasvæði að öðru jöfnu forgangs.

Helstu verkefni:
     *      Ráðgjöf og fjárhagslegur stuðningur við landgræðsluverkefni.
     *      Styrkja landgræðslustörf áhugafólks.

5.      Fyrirhleðslur.
    Unnið verður að ítarlegri heildarúttekt á landbroti og þörf fyrir fyrirhleðslur og verkefnum forgangsraðað. Slík úttekt er kostnaðarsöm. Vegagerðin hefur gert kostnaðaráætlanir fyrir varnaraðgerðir við nokkur af stærstu fallvötnunum. Unnið er að varnaraðgerðum á 30–40 stöðum á landinu. Brýnustu verkefni eru við Markarfljót, Héraðsvötn, Jökulsá á Dal og Skaftá en þörf er aðgerða á miklu fleiri stöðum.

Helstu verkefni:
     *      Vesturland. Allmörg verkefni eru vegna viðhalds eldri mannvirkja. Ný verkefni eru helst við Hvítá, Norðurá og margar ár í Dalasýslu.
     *      Norðurland. Viðhald eldri mannvirkja er mikið einkum í vestari hluta fjórðungsins. Ný verkefni eru fjölmörg. Þau helstu eru við Miðfjarðará, Víðidalsá, Vatnsdalsá, Blöndu, Svartá, Héraðsvötn, Hörgá, Fnjóská, Skjálfandafljót og Jökulsá á Fjöllum. Verulegt landbrot er einnig við mörg smærri vatnsföll.
     *      Austurland. Við ár á Austurlandi bíða mörg verkefni við viðhald eldri mannvirkja, sérstaklega við Hornafjarðarfljót. Ný verkefni eru helst við Jökulsá á Dal, Jökulsá í Lóni, Djúpá, og Kotá. Einnig bíða mörg smærri verkefni við flestar ár í fjórðungnum.
     *      Suðurland. Landbrot af völdum fallvatna er mest á Suðurlandi. Þörf er á viðhaldi eldri mannvirkja við nær öll stærri vatnsföll þó sérstaklega í austurhluta fjórðungsins. Stærstu verkefni eru við Skaftá, Kúðafljót, Markarfljót, Þjórsá og Hvítá. Þá bíða verkefni við nær öll vatnsföll í Skaftárhreppi, Austur- og Vestur-Eyjafjallahreppi og enn fremur víða í uppsveitum Árnessýslu.