Ferill 582. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 911  —  582. mál.




Frumvarp til laga



um breyting á lögum nr. 113/1990, um tryggingagjald, lögum nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, og lögum nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 127. löggjafarþingi 2001–2002.)

I. KAFLI
Breyting á lögum nr. 113/1990, um tryggingagjald, með síðari breytingum.
1. gr.

    Við 1. mgr. 6. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Til stofns telst enn fremur endurgjald sem ber að reikna manni sem vinnur við atvinnurekstur lögaðila þar sem hann er ráðandi aðili vegna eignar- eða stjórnunaraðildar.

II. KAFLI
Breyting á lögum nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda,
með síðari breytingum.

2. gr.

    Við 6. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Ákvörðun skattstjóra skv. 2. mgr. má skjóta til ríkisskattstjóra sem tekur endanlega ákvörðun um fjárhæð endurgjalds á staðgreiðsluári.


III. KAFLI
Breyting á lögum nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda
og starfsemi lífeyrissjóða, með síðari breytingum.

3. gr.

    Á eftir orðunum „sjálfstæða starfsemi“ í 6. málsl. 1. mgr. 3. gr. laganna kemur: eða vegna vinnu hans við atvinnurekstur lögaðila þar sem hann er ráðandi aðili vegna eignar- eða stjórnunaraðildar.

4. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 36. gr. laganna:
     a.      Á eftir orðinu „(OECD)“ í 1. málsl. 2. mgr. kemur: og Liechtenstein.
     b.      Á eftir orðinu „OECD“ í 2. málsl. 2. mgr. kemur: eða Liechtenstein.
     c.      Á eftir orðinu „OECD“ í 1. málsl. 3. mgr. kemur: eða Liechtenstein.

IV. KAFLI
Gildistaka laganna.
5. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Í frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar á ákvæðum þrennra laga. Ástæður þess að breytingar þessar eru sameinaðar í eitt frumvarp til framlagningar á Alþingi eru tvenns konar: Annars vegar að lög þau sem breytingar eru lagðar til á snerta öll þær breytingar sem gerðar voru á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, með lögum nr. 133/2001 síðasta haust. Þær breytingar miðuðu m.a. að því að styrkja þá framkvæmd að maður sem vinnur við atvinnurekstur lögaðila þar sem hann er ráðandi vegna eignar- eða stjórnunaraðildar skuli reikna sér endurgjald. Hins vegar er ástæðan sú að einstakar breytingar eru hvorki flóknar né umfangsmiklar. Af þessum sökum þykir sameining þeirra í eitt frumvarp vera til þess fallin að einfalda meðferð þeirra á Alþingi.
    Eftirfarandi breytingar eru lagðar til í frumvarpinu: Í fyrsta lagi er lagt til að í lögum nr. 113/1990, um tryggingagjald, með síðari breytingum, verði kveðið skýrar á um að reiknað endurgjald manns sem vinnur við atvinnurekstur lögaðila þar sem hann er ráðandi vegna eignar- eða stjórnunaraðildar myndi stofn til tryggingagjalds. Í öðru lagi er lagt til að í lögum nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, með síðari breytingum, verði afdráttarlaust kveðið á um að reiknað endurgjald manns sem vinnur við atvinnurekstur lögaðila þar sem hann er ráðandi vegna eignar- eða stjórnunaraðildar myndi stofn til lágmarksiðgjalds til lífeyrissjóðs. Einnig er lagt til að í þeim lögum verði heimild fyrir lífeyrissjóði til að fjárfesta í verðbréfum sem skráð eru á skipulegum markaði í Liechtenstein, eða eftir atvikum eru gefin út af aðilum í Liechteinstein, eins og ef þau væru skráð á skipulögðum markaði innan OECD eða gefin út af aðilum innan OECD. Í þriðja lagi er lagt til að í lögum nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, með síðari breytingum, verði kveðið á um kæruheimild til ríkisskattstjóra á ákvörðun skattstjóra um reiknað endurgjald í staðgreiðslu. Um nánari skýringar og rök fyrir einstökum breytingum vísast til athugasemda við einstakar greinar frumvarpsins.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Í greinargerð með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 133/2001, um breyting á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt o.fl., sem voru samþykkt á Alþingi 12. desember 2001, kemur fram að nauðsynlegt er að styrkja þá framkvæmd að vinna manns í atvinnurekstri lögaðila, sem hann eða fjölskylda hans á eignar- eða stjórnunaraðild að, verði skattlögð með sambærilegum hætti og vinna hans í eigin rekstri. Í samræmi við þessa stefnumörkun lúta þær breytingar sem hér eru lagðar til að því að skýra betur í lögum um tryggingagjald hvernig farið skuli með reiknað endurgjald manns sem vinnur við atvinnurekstur lögaðila þar sem hann er ráðandi vegna eignar- eða stjórnunaraðildar. Yfirskattanefnd hefur í úrskurðum sínum komist að þeirri niðurstöðu að sú hækkun sem gerð er á reiknuðu endurgjaldi manns sem vinnur við atvinnurekstur lögaðila þar sem hann er ráðandi vegna eignar- eða stjórnunaraðildar sé frádráttarbær frá tekjum hlutafélagsins og sé jafnframt gjaldstofn félagsins til tryggingagjalds, líkt og um hverja aðra launagreiðslu væri að ræða.

Um 2. gr.

    Lagt er til að ákvörðun skattstjóra um fjárhæð reiknaðs endurgjalds í staðgreiðslu verði kæranleg til ríkisskattstjóra. Ákvörðun reiknaðs endurgjalds í staðgreiðslu er bráðabirgðaákvörðun þar sem ákvörðun um fjárhæð reiknaðs endurgjalds verður ekki endanleg fyrr en við álagningu. Samkvæmt núgildandi lögum er heimilt að kæra ákvörðun skattstjóra um fjárhæð reiknaðs endurgjalds í staðgreiðslu til yfirskattanefndar, sbr. 2. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, með síðari breytingum. Málsmeðferð hjá yfirskattanefnd tekur hins vegar oft langan tíma og því er hagkvæmara fyrir gjaldandann að eiga kost á skjótvirkara réttarúrræði þar sem um tímabundna ákvörðun er að ræða.

Um 3. gr.

    Lagt er til að reiknað endurgjald manns er vinnur við atvinnurekstur lögaðila þar sem hann er ráðandi vegna eignar- eða stjórnunaraðildar myndi stofn til lágmarksiðgjalds til lífeyrissjóðs líkt og reiknað endurgjald manns sem vinnur við eigin atvinnurekstur eða í sjálfstæðri starfsemi. Að öðru leyti vísast til almennra athugasemda og athugasemda við 1. gr.

Um 4. gr.

    Með greininni er lögð til breyting á lögum nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, sem leiðir af samningsskuldbindingum okkar samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið (EES-samningnum). Hún felst í því að tryggja lífeyrissjóðum heimild til að fjárfesta í verðbréfum sem skráð eru eða eftir atvikum gefin út af aðilum í Liechtenstein með sama hætti og aðilum innan Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD).
    Í 36. gr. laga nr. 129/1997, sbr. lög nr. 56/2000, er lífeyrissjóðum veitt heimild til að fjárfesta í verðbréfum sem skráð eru á skipulegum markaði innan aðildarríkja OECD og óskráðum verðbréfum sem gefin eru út af aðilum innan OECD. Sökum þess að Liechtenstein er ekki aðili að OECD nær heimild lífeyrissjóðanna ekki til verðbréfa sem skráð eru á skipulegum markaði í Liechtenstein né heldur til óskráðra bréfa sem gefin eru út af aðilum í Liechtenstein. Það er í ósamræmi við samningsskuldbindingar Íslands samkvæmt EES-samningnum og því er lagt til að 36. gr. laganna verði breytt þannig að lífeyrissjóðirnir hafi sömu heimild til að fjárfesta í verðbréfum sem skráð eru á skipulegum markaði í Liechteinstein, eða eftir atvikum eru gefin út af aðilum í Liechteinstein, eins og ef þau væru skráð á skipulögðum markaði innan OECD eða gefin út af aðilum innan OECD.

Um 5. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.


Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 113/1990, um tryggingagjald,
lögum nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, og lögum nr. 129/1997,
um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða,
með síðari breytingum.

         Frumvarp þetta er lagt fyrir í framhaldi af breytingum sem gerðar voru síðastliðið haust á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, en þær miðuðu að því að styrkja þá framkvæmd að þeir sem vinna við atvinnurekstur lögaðila og hafa ráðandi eignar- og stjórnunaraðild reikni sér endurgjald. Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar sem ætlað er að kveða skýrar á um að slíkt reiknað endurgjald myndi stofn til tryggingagjalds og lífeyrisiðgjalds. Þá er lagt til að heimilt verði að kæra ákvarðanir skattstjóra um reiknað endurgjald til ríkisskattstjóra. Gert er ráð fyrir að frumvarpið hafi óveruleg áhrif á útgjöld ríkissjóðs verði það óbreytt að lögum.