Ferill 621. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 974  —  621. mál.
Frumvarp til lagaum breytingu á lögum nr. 99/1993, um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 127. löggjafarþingi 2001–2002.)


1. gr.

    Við 41. gr. laganna bætast tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
    Með gæðastýrðri sauðfjárframleiðslu er átt við framleiðslu sauðfjárafurða samkvæmt gæðakerfi Bændasamtaka Íslands sem landbúnaðarráðherra staðfestir. Gæðakerfið nær til eftirtalinna þátta: landnota, aðbúnaðar og umhverfis, sauðfjárskýrsluhalds, jarðræktar, fóðrunar, heilsufars og lyfjanotkunar. Gæðakerfið byggist á því að skjalfesta framleiðsluaðferðir og framleiðsluaðstæður.
    Sauðfjárframleiðendur sem óska eftir að taka upp gæðastýrða sauðfjárframleiðslu skulu senda skriflega umsókn til búnaðarsambands á því svæði sem framleiðslan fer fram. Umsóknum skal skilað eigi síðar en 30. júní ef framleiðendur óska eftir álagsgreiðslum fyrir næsta almanaksár. Ef umsókn er endurnýjuð, sbr. 45. gr., er umsóknarfrestur til 15. desember. Búnaðarsamböndin yfirfara umsóknir og senda þær framkvæmdanefnd búvörusamninga sem heldur skrá yfir umsækjendur og aðila sem fengið hafa staðfest að þeir uppfylli skilyrði um gæðastýrða sauðfjárframleiðslu.

2. gr.

    Á eftir 41. gr. laganna koma sjö nýjar greinar og breytist töluröð annarra greina samkvæmt því.
    Hinar nýju greinar orðast svo:

    a. (42. gr.)
    Framkvæmdanefnd búvörusamninga tilkynnir framleiðendum sem sækja um að taka upp gæðastýrða sauðfjárframleiðslu hvort þeir uppfylla skilyrði samkvæmt lögum þessum. Framkvæmdanefnd búvörusamninga skal byggja tilkynningar sínar á eftirtöldum gögnum:
     a.      Staðfestingu Bændasamtaka Íslands á því hvort einstakir framleiðendur hafi staðist lögbundna skoðun búfjáreftirlitsmanns um meðferð og aðbúnað búfjár, hvort framleiðendur hafi skilað fullnægjandi sauðfjárskýrslum og hvort þeir hafi sinnt skráningum í gæðahandbók á tilskilinn hátt.
     b.      Staðfestingu Landgræðslunnar á því hvort landnýting framleiðenda samrýmist skilyrðum skv. 43. gr.
    Landbúnaðarráðherra er heimilt að fela aðilum sem hlotið hafa faggildingu samkvæmt lögum nr. 100/1992, um vog, mál og faggildingu, að annast framkvæmd eftirlitsþátta með gæðastýrðri sauðfjárframleiðslu skv. 1. mgr.

    b. (43. gr.)
    Framleiðendur skulu hafa aðgang að nægu nýtanlegu beitilandi fyrir búfé sitt. Landnýting skal vera sjálfbær þannig að framleiðslugeta landsins sé nægileg og nýting innan þeirra marka að gróðurfar sé í jafnvægi eða framför að mati Landgræðslunnar. Landgræðslan leggur mat á land þeirra sem óska eftir að taka upp gæðastýrða sauðfjárframleiðslu og staðfestir með tilkynningu til framleiðenda og framkvæmdanefndar búvörusamninga hvort framleiðendur uppfylla skilyrði um landnýtingu. Matið skal byggjast á stærð gróðurlendis og gerð þess, gróðurfari og framleiðni ásamt fyrirliggjandi gögnum um nýtingu og ástand, t.d. vegna rofs, uppblásturs o.fl. samkvæmt nánari reglum sem landbúnaðarráðherra setur. Telji Landgræðslan að einstakir framleiðendur uppfylli ekki skilyrði um landnýtingu skal hún greina þeim frá ástæðum þess. Gildir það einnig ef Landgræðslan telur ástæðu til að afturkalla staðfestingu sem þegar hefur verið gefin út vegna þess að nýting hefur breyst eða ef í ljós kemur að nýting er umfram þol landsins. Landgræðslan skal jafnframt kynna framleiðanda þau úrræði sem hann á samkvæmt lögum þessum og reglum um gæðastýrða sauðfjárframleiðslu, en þau felast í að semja tímasetta landbótaáætlun eða landnýtingaráætlun til allt að 10 ára. Áætlunin er því aðeins gild að hún hljóti staðfestingu Landgræðslunnar.
    Framleiðendur sem uppfylla ekki skilyrði um landnýtingu skv. 1. mgr. og hafa ekki fengið staðfestingu Landgræðslunnar á landbótaáætlun eða landnýtingaráætlun innan fimm mánaða frá því að Landgræðslan gerði athugasemdir við landnýtingu uppfylla ekki skilyrði um gæðastýrða sauðfjárframleiðslu. Sama gildir ef framleiðendur framfylgja ekki áður staðfestri landbótaáætlun eða landnýtingaráætlun. Skal Landgræðslan senda skriflega tilkynningu til framkvæmdanefndar búvörusamninga. Berist tilkynningin síðar en 15. febrúar leiðir hún þó ekki til þess að álagsgreiðslur vegna gæðastýringar falli niður fyrir sama almanaksár.

    c. (44. gr.)
    Búfjáreftirlitsmenn sveitarfélaga annast eftirlit með skráningum í gæðahandbók samkvæmt lögum þessum.
    Ef einstakir framleiðendur uppfylla ekki skilyrði um gæðastýrða sauðfjárframleiðslu, önnur en þau sem fjallað er um í 43. gr., skulu búfjáreftirlitsmaður eða Bændasamtök Íslands, eftir því sem við á, gefa þeim hæfilegan frest til úrbóta, að hámarki fjórar vikur, ef ætla má að þeir geti bætt úr annmörkunum og uppfylli eftir þann tíma skilyrði um gæðastýrða sauðfjárframleiðslu. Frestur til úrbóta skal þó ekki veittur ef um vísvitandi ranga skráningu eða upplýsingagjöf er að ræða. Bændasamtök Íslands tilkynna framkvæmdanefnd búvörusamninga fyrir 1. júlí ár hvert ef einstakir framleiðendur hafa ekki staðist lögbundið búfjáreftirlit, eftirlit með skráningum í gæðahandbók eða ekki skilað fullnægjandi sauðfjárskýrslum.

    d. (45. gr.)
    Réttur framleiðenda til álagsgreiðslna skv. 1. mgr. 41. gr. fellur því aðeins niður að þeir uppfylli ekki lengur skilyrði um gæðastýrða sauðfjárframleiðslu og tilkynnir framkvæmdanefnd búvörusamninga framleiðendum það eigi síðar en 31. júlí ár hvert ef réttur þeirra fellur niður það almanaksár.
    Framleiðendur sem missa rétt til álagsgreiðslna skv. 1. mgr. 41. gr. geta ekki öðlast rétt til álagsgreiðslna að nýju fyrr en næsta almanaksár. Óski framleiðendur eftir að öðlast rétt til álagsgreiðslna að nýju á næsta almanaksári verða þeir að endurnýja umsóknir sínar um að taka upp gæðastýrða sauðfjárframleiðslu skv. 3. mgr. 41. gr.

    e.     (46. gr.)
    Ágreiningi um hvort einstakir framleiðendur uppfylla skilyrði um gæðastýrða sauðfjárframleiðslu er heimilt að skjóta til úrskurðarnefndar sem sker úr um ágreininginn. Í nefndinni eiga sæti þrír menn skipaðir af landbúnaðarráðherra til tveggja ára í senn, einn án tilnefningar og skal hann vera formaður nefndarinnar, einn samkvæmt tilnefningu Rannsóknastofnunar landbúnaðarins og einn samkvæmt tilnefningu Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri. Varamenn skulu skipaðir með sama hætti.
    Úrskurðarnefnd skal afgreiða mál eins fljótt og unnt er. Hafi nefndin ekki fellt úrskurð fyrir 15. október ár hvert fellur réttur framleiðenda til álagsgreiðslna fyrir það almanaksár ekki niður.
    Kostnaður af störfum nefndarinnar greiðist úr ríkissjóði.

    f. (47. gr.)
    Framkvæmdanefnd búvörusamninga hefur yfirumsjón með gæðastýrðri sauðfjárframleiðslu en er heimilt að leita aðstoðar hjá öðrum aðilum varðandi tiltekna þætti gæðastýringarinnar.

    g. (48. gr.)
    Landbúnaðarráðherra setur nánari reglur um framkvæmd gæðastýrðrar sauðfjárframleiðslu, m.a. um undirbúning, landnýtingu, inntak og umfang gæðakerfis, störf úrskurðarnefndar, tilhögun álagsgreiðslna o.fl. Meðal annars er landbúnaðarráðherra heimilt í reglugerð að kveða á um að þeim sem óska eftir að taka upp gæðastýrða sauðfjárframleiðslu sé skylt að sækja undirbúningsnámskeið um gæðastýringuna.

3. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða sem hljóðar svo:
    Árið 2003 hafa Bændasamtök Íslands frest til 25. júlí til að tilkynna framkvæmdanefnd búvörusamninga ef fullnægjandi sauðfjárskýrslum hefur ekki verið skilað skv. 2. mgr. 44. gr.
    Árið 2003 hefur Landgræðslan frest til 1. september til að ljúka mati skv. 1. mgr. 43. gr. á því hvort þeir sem sækja um að taka upp gæðastýrða sauðfjárframleiðslu frá og með 1. janúar 2003 uppfylla skilyrði um landnýtingu. Þótt niðurstaða af mati Landgræðslunnar verði sú að einstakir framleiðendur uppfylli ekki skilyrði um landnýtingu skulu álagsgreiðslur til þeirra ekki falla niður fyrr en almanaksárið 2004.

4. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi og gilda til 31. desember 2007.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er samið að tilhlutan landbúnaðarráðherra í því skyni að lögfesta ákvæði um gæðastýrða sauðfjárframleiðslu á grundvelli gildandi samnings um framleiðslu sauðfjárafurða sem undirritaður var af Bændasamtökum Íslands og landbúnaðarráðherra og fjármálaráðherra fyrir hönd ríkisstjórnar Íslands 11. mars 2000 skv. 30. gr. laga nr. 99/1993, um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, með síðari breytingum. Gildistími samningsins er frá 1. janúar 2001 til 31. desember 2007.
    Markmið samningsins eru eftirfarandi:
          að styrkja sauðfjárrækt sem atvinnugrein og bæta afkomu sauðfjárbænda,
          að ná fram aukinni hagræðingu í sauðfjárrækt,
          að sauðfjárrækt sé í samræmi við umhverfisvernd, landkosti og æskileg landnýtingarsjónarmið,
          að halda jafnvægi milli framleiðslu og sölu sauðfjárafurða,
          að efla fagmennsku, þekkingu og þróun í sauðfjárrækt.
    Þessum markmiðum vilja samningsaðilar ná m.a. með því að beina stuðningi að gæðastýrðri framleiðslu, efla rannsóknir, kennslu, leiðbeiningar og þróun greinarinnar og vinna að sátt um landnýtingu. Samningnum fylgdu tvö fylgiskjöl, annars vegar fylgiskjal 1 sem bar yfirskriftina „Gæðastýrð sauðfjárrækt, stjórnun, ábyrgð, undirbúningur, framkvæmd, eftirlit og tilgangur gæðastýringar í sauðfjárrækt“ og hins vegar fylgiskjal 2, „Viljayfirlýsing vegna mats á landnýtingu vegna gæðastýringarþáttar í samningi um framleiðslu sauðfjárafurða“. Framangreind fylgiskjöl hafa að verulegu leyti verið lögð til grundvallar við gerð þessa frumvarps.
    Bændasamtökin samþykktu samninginn í almennri atkvæðagreiðslu meðal sauðfjárbænda og samningurinn var einnig lögfestur af Alþingi með lögum nr. 88/2000, um breyting á lögum nr. 99/1993.
    Samkvæmt 41. gr. laga nr. 99/1993 eins og ákvæðið hljóðar eftir þær breytingar sem gerðar voru á lögunum með lögum nr. 88/2000, sbr. 10. gr. laganna, eiga allir sauðfjárframleiðendur sem á árunum 2003–2007 uppfylla skilyrði um gæðastýrða framleiðslu rétt til sérstakra álagsgreiðslna úr ríkissjóði. Álagsgreiðslurnar skulu greiddar af uppkaupaálagi, sbr. 4. mgr. 38. gr., og af þeim fjármunum sem beingreiðslur lækka um skv. 1. mgr. 39. gr. laganna. Álagsgreiðslur geta að hámarki numið 100 kr. á hvert kg dilkakjöts.
    Jafnframt var við meðferð frumvarpsins á Alþingi gerð breyting á frumvarpinu þar sem lögfest var ákvæði til bráðabirgða (P) um að landbúnaðarráðherra skyldi leggja fyrir Alþingi frumvarp til laga um breytingu á IX. kafla laga nr. 99/1993, með nánari ákvæðum um álagsgreiðslur vegna gæðastýringar, eigi síðar en 1. febrúar 2002. Það frumvarp sem hér liggur fyrir er lagt fram í samræmi við framangreint ákvæði til bráðabirgða í lögum nr. 99/1993.
    Samkvæmt frumvarpi þessu byggist gæðastýrð sauðfjárframleiðsla á því að framleiðendur noti gæðakerfi Bændasamtaka Íslands sem landbúnaðarráðherra staðfestir. Með frumvarpinu er lagður grunnur að því að rekjanleiki sauðfjárafurða verði tryggður og hægt að votta framleiðsluaðferðir og aðstæður. Ábyrg meðferð lands að mati sérfræðinga Landgræðslunnar er einnig skilyrði fyrir gæðastýrðri framleiðslu. Bændasamtök Íslands og Landgræðslan munu staðfesta hvort einstakir framleiðendur uppfylla skilyrði um landnýtingu, gæðahandbók, sauðfjárskýrsluhald og aðbúnað og meðferð búfjár. Landbúnaðarráðherra er einnig heimilt að fela faggiltum aðilum samkvæmt lögum nr. 100/1992, um vog, mál og faggildingu, að hafa eftirlit með einstökum þáttum gæðastýringarinnar. Þá er í frumvarpinu gert ráð fyrir að sérstök úrskurðarnefnd skeri úr ef ágreiningur rís um rétt einstakra framleiðenda til álagsgreiðslna vegna gæðastýrðrar sauðfjárframleiðslu.
    Nú verður gerð grein fyrir hvernig hagað hefur verið undirbúningi að upptöku gæðastýringarkerfis í sauðfjárframleiðslu hér á landi og einnig gæðakerfinu sjálfu í helstu atriðum:

A. Undirbúningur gæðastýringar í sauðfjárframleiðslu.
    Samkvæmt samningnum um framleiðslu sauðfjárafurða sem undirritaður var 11. mars 2000 tekur gæðastýringin til eftirtalinna þátta:
     1.      Landnota. Framleiðendur skulu sýna fram á afnotarétt af landi, þ.m.t. afrétti, sem fullnægir beitarþörf alls búpenings viðkomandi bús. Nánar skilgreint í gæðahandbók.
     2.      Einstaklingsmerkinga. Sauðfé skal merkt og skráð samkvæmt gæðahandbók.
     3.      Kynbótaskýrsluhalds. Bústofn skal skráður og metinn í viðurkenndu kynbótaskýrsluhaldi.
     4.      Gæðadagbókar. Hirðing og meðferð bústofns skal skráð samkvæmt gæðahandbók.
     5.      Búfjáreftirlits. Leggja skal fram vottorð frá búfjáreftirlitsmanni sveitarfélags um fóður, aðbúnað og ástand búfjár í samræmi við ákvæði gæðahandbókar. Lagt skal mat á ytri ásýnd býlisins í samræmi við ákvæði gæðahandbókar.
     6.      Lyfjaeftirlits. Gera skal grein fyrir kaupum og notkun lyfja á búinu í gæðahandbók.
     7.      Áburðarnotkunar og uppskeru. Gera skal grein fyrir áburðarnotkun, hvernig hún er ákvörðuð og uppskera skráð af hverri spildu í samræmi við ákvæði gæðahandbókar.
     8.      Fóðrunar. Gera skal grein fyrir fóðrun og fóðurefnum (beit, heygjöf, kjarnfóður, annað) í samræmi við ákvæði gæðahandbókar.
    Þegar lög nr. 88/2000, um breyting á lögum nr. 99/1993, höfðu tekið gildi var þegar hafinn undirbúningur á vegum framkvæmdanefndar búvörusamninga að fyrirkomulagi gæðastýrðrar sauðfjárframleiðslu. Sérstök ráðgjafanefnd um gæðastýringu var fengin til að annast afmörkuð verkefni. Í nefndinni eiga sæti Jóhannes Sveinbjörnsson, fóðurfræðingur hjá Rannsóknastofnun landbúnaðarins og sauðfjárbóndi, formaður, Gunnar Guðmundsson, forstöðumaður ráðgjafarsviðs Bændasamtaka Íslands og Jóhannes Ríkharðsson, sauðfjárbóndi og þáverandi stjórnarmaður í Landssamtökum sauðfjárbænda.
    Jafnframt gerði framkvæmdanefnd búvörusamninga samning við Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri dags. 10. september 2000 um undirbúning að gerð gæðakerfis í sauðfjárframleiðslu í samræmi við áðurtalda þætti. Í samningnum var Landbúnaðarháskólanum falið að vinna að eftirtöldum verkefnum:
          Hönnun skráningarferlis um hverjir uppfylli skilyrði til að vera aðilar að gæðastýringarkerfi.
          Aðstoð við (umsjón með) gerð gæðahandbókar um landnot, kynbótaskýrsluhald, einstaklingsmerkingar, hirðingu og meðferð bústofns, búfjáreftirlit, áburðarnotkun, uppskeru og fóðrun.
          Uppbyggingu á tveggja daga námskeiðum og gerð kennslugagna fyrir þátttakendur gæðastýringar.
          Uppbyggingu á fagnámskeiðum og gerð kennslugagna um kynbætur, heyöflun, vetrarfóðrun, haustmeðferð, byggingar fyrir sauðfé og nýtingu þeirra, bútækni við sauðfjárhirðingu, sauðfjársjúkdóma og viðbrögð við þeim og nýtingu lands.
          Gerð reglna um eftirlit með framkvæmd gæðastýringar hjá einstökum framleiðendum við ákvörðun um hvort þeir standist skilyrði um gæðastýrða framleiðslu.
          Undirbúningi að gerð frumvarps til laga um gæðastýrða sauðfjárframleiðslu.
    Fyrir hönd Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri hefur Sigurður Eiríksson rekstrarfræðingur haft með höndum stjórn verkefnisins.
    Sauðfjárbændur í Norður-Þingeyjarsýslu og ráðunautur þeirra hafa lagt mikla vinnu af mörkum við að skipuleggja og prófa skráningarferli gæðastýringarinnar. Þeir unnu að því í eitt ár, að forgöngu Búnaðarsambands Norður-Þingeyinga, áður en gæðakerfið var kynnt á landsvísu. Einnig hafa ráðunautar og bændur víðs vegar um land haft nokkur áhrif á fyrirkomulag skráninga í gæðakerfið og þær kröfur sem gerðar eru til skráninga.
    Starfsmenn Rannsóknastofnunar landbúnaðarins og Landgræðslunnar hafa unnið með undirbúningsaðilum gæðastýringarinnar að því að móta landnýtingarþáttinn.
    Niðurstöður þessarar vinnu þar sem framlag allra áðurnefndra aðila hefur verið tvinnað saman hefur nú litið dagsins ljós í heilsteyptu gæðakerfi sem samið er eftir rekstrarfyrirkomulagi og aðstæðum sauðfjárbænda. Kerfið er í vörslu Bændasamtaka Íslands og hefur þegar verið kynnt bændum. Hafa 1630 framleiðendur sótt fyrri dag námskeiðs í notkun þess og fengið afhenta gæðahandbók. Þetta eru um 85% af greiðslumarkshöfum í sauðfé. Seinni dagur námskeiðsins verður um land allt á tímabilinu febrúar–apríl 2002.

B. Gæðakerfið.
    Áhersla á vottuð gæðastýringarkerfi í matvælaiðnaði hefur aukist mjög á síðustu árum í kjölfar meiri fjarlægðar milli framleiðenda og neytenda. Flest lönd sem við miðum okkur við eru að taka upp einhvers konar gæðastýringu í landbúnaði. Norðurlöndin eru komin þónokkuð áleiðis. Það má leiða að því líkum að allur búskapur framtíðarinnar muni nota gæðastýringarkerfi sem tekur til alls framleiðsluferilsins, nýtingar aðfanga og nýtingar náttúrunnar. Krafan um þetta hefur orðið háværari á síðustu missirum í kjölfar áfalla sem tengjast kúariðu, gin- og klaufaveiki o.fl.
    Þegar gæðakerfi eru samin er grundvallaratriði að þau falli vel að starfseminni sem þau ná yfir því að þau eiga að vera hluti af eðlilegri starfsemi fyrirtækisins en ekki megintilgangur þess. Það er því höfuðviðfangsefni að gera kerfið skilvirkt svo að það komi að sem mestu gagni án þess að verða skrifræðisbákn með sjálfstæða tilveru.
    Gæðakerfi Bændasamtaka Íslands sem sauðfjárframleiðendur munu taka í notkun ef frumvarp þetta verður að lögum er staðlað kerfi þannig að allir framleiðendur nota sama kerfið. Kostirnir við staðlað kerfi eru þeir að allir vinna með sama kerfi og fyrir vikið verður það ódýrara í uppbyggingu, viðhaldi og eftirliti auk þess sem það margfaldar úrvinnslumöguleika á þeim gögnum sem safnað er. Helstu gallar slíks fyrirkomulags eru þeir að kerfið er ekki sérsniðið að mismunandi verklagi og aðstæðum framleiðenda. Þó má benda á að þegar menn eru einu sinni byrjaðir að nota slíkt almennt kerfi eru óþrjótandi möguleikar fyrir hvern og einn að bæta við skráningu og úrvinnslu sér til gagns umfram það sem almennt er ætlast til. Síðast en ekki síst fylgir stöðluninni sá kostur að ódýrara er að votta að gæðakerfið skili tilgangi sínum án þess að skoða alla þátttakendur í kerfinu nákvæmlega.
    Gæðastýring í sauðfjárrækt byggist á skjalfestingu á þeim aðstæðum og aðferðum sem notaðar eru við framleiðsluna. Tilgangurinn með slíkum skráningum er tvíþættur: Annars vegar hefur skráning slíkra upplýsinga þann tilgang að vera hjálpartæki fyrir framleiðendur til þess að ná betri árangri í sínum rekstri. Stór hluti íslenskra sauðfjárbænda hefur þegar langa reynslu af notkun kynbótaskýrsluhalds og velkjast fáir í vafa um að það hefur skilað gríðarlegum árangri. Það skýrsluhald verður hrygglengjan í gæðastýringunni og inn í það verður byggð lyfja- og sjúkdómaskráning. Aðrir skráningarþættir gæðastýringarinnar, svo sem skráning á áburðarnotkun og uppskeru, eru í raun þættir sem þegar í dag eru skráðir á mörgum búum. Allt á þetta að geta nýst til að stórefla leiðbeiningar og faglegt starf í sauðfjárræktinni. Hins vegar eru upplýsingarnar notaðar við markaðssetningu á vörunum, þ.e. skráningin hefur þann tilgang að upplýsa neytandann eða fulltrúa hans um hvernig afurðin er framleidd. Á síðustu árum hafa markaðsaðstæður breyst á alþjóðlegum matvælamarkaði á þann hátt að nær ómögulegt er að markaðssetja vöru á þeim grundvelli að hún sé á einhvern hátt hreinni og betri en önnur án þess að sanna þá fullyrðingu með einhverju slíku skráningarkerfi. Gæðavottun og rekjanleiki er því grundvöllur að markaðssetningu íslenska lambakjötsins í framtíðinni, að minnsta kosti á erlendum mörkuðum.
    Til þess að gæðakerfi virki sem skyldi þurfa þau að falla vel að rekstri þess sem þau notar. Gæðastýring í sauðfjárrækt byggist á samræmdu kerfi fyrir alla sauðfjárbændur og það er því nauðsynlegt fyrir þróun og sveigjanleika að viðhald þess sé á hendi bænda sjálfra eða samtaka þeirra. Vegna þess að hluti ríkisstuðnings við sauðfjárbændur verður greiddur þeim sem uppfylla kröfur um notkun gæðakerfisins þykir rétt að landbúnaðarráðherra beri ábyrgð á og staðfesti gæðahandbók þá sem kerfið byggist á og jafnframt þær breytingar sem á henni verða í tímans rás.
    Til frekari skýringar á þeim þáttum sem gæðakerfið inniheldur fylgir hér örstutt lýsing á skráningarþáttum þess en fjöldi þeirra og útfærsla getur breyst eins og fram kemur hér að framan.

a. Grunnupplýsingar.

    Þessi þáttur felur í sér að ákveðnum staðreyndum um reksturinn er safnað saman og þær geymdar í gæðahandbókinni. Tilgangur þessa í gæðakerfinu er sá að á einum stað séu aðgengilegar allar helstu grunnupplýsingar um reksturinn og umhverfi hans. Með því að líta yfir grunnupplýsingarnar er þannig auðvelt að átta sig á einstökum skráningum í gæðakerfið.

b. Atburðaskráning.

    Byggð upp eins og útdráttur úr dagbók. Varpar ljósi á tímasetningar á einstökum búsverkum. Nokkurs konar yfirlitsblað um reksturinn og gagnast sem slíkt.

c. Sauðfjárskýrsluhald.

    Markvisst kynbótastarf eykur tekjur búsins. Skýrsluhaldið tryggir einnig rekjanleika afurðanna en það er lykilatriði í gæðastýringunni og grunnur að flestum skráningum í gæðakerfinu. Einstaklingsmerkingar eru forsenda rekjanleikans sem og kynbótastarfsins.

d. Landnýting og beitarskráning.

    Grunnskilyrðið er að beitiland hafi næga framleiðslugetu fyrir þær beitarnytjar sem því eru ætlaðar og sé einnig í stöðugu ástandi eða framför. Landgræðslan metur það og þarf einnig að staðfesta áætlun um úrbætur ef framleiðendur uppfylla ekki þessi grunnskilyrði. Skráning á beit hefur þann tilgang að safna upplýsingum til að styðja skipulag beitar með tilliti til viðhalds landgæða, heilbrigðis fjárins og afurðasemi. Með því að taka landnýtinguna á þennan hátt inn í gæðastýringu í sauðfjárrækt er stigið mikilvægt skref í þá átt að treysta sátt um nýtingu landsins.

e. Jarðrækt.

    Skjalfesting jarðræktarupplýsinga hefur það að meginmarkmiði að halda utan um upplýsingar um fóðuröflun búsins, bæði til þess að geta upplýst neytendur um þau aðföng sem notuð eru í framleiðslunni og í hagræðingarskyni. Ekki eru gerðar sérstakar kröfur um magn áburðarefna heldur reiknað með að skráningar upplýsinga og notkun þeirra leiði til næringarefnajafnvægis í jarðvegi og skynsamlegrar nýtingar áburðarefna.

f. Uppskera.
    Skráning þessara upplýsinga er eðlilegt framhald af skráningu á áburðarnotkun og úrvinnsla á skráningum þessara tveggja þátta er oftast samtengd. Þannig segir það framleiðandanum mun meira um hagkvæmni heyöflunarinnar að vita um áburðarkostnað á hvert tonn af heyi heldur en á hvern hektara. Þær upplýsingar sem hér er safnað nýtast einnig sem haustskýrsla vegna forðagæslu búfjáreftirlits.

g. Fóðrun.
    Þessi þáttur felur í sér skjalfestingu á fóðrun fjárins. Skráningarnar miðast við tegund og magn fóðurs og hafa þýðingu gagnvart rekjanleika afurðanna og rekstri búsins.

h. Aðbúnaður.
    Þessi þáttur felur í sér gátlista yfir aðbúnað og umhverfi býlisins.

i. Heilbrigði og lyfjanotkun.
    Heilbrigðisskráning og skráning á lyfjanotkun skal vera nákvæm og er tilgangurinn sá að til sé yfirlit yfir heilbrigðisástand hjarðarinnar og að hægt sé að rekja lyfjanotkun á einstaklinga í hjörðinni.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Framkvæmdanefnd búvörusamninga er framkvæmdaraðili samnings um framleiðslu sauðfjárafurða sem undirritaður var 11. mars 2000 og samkvæmt einstökum ákvæðum laga nr. 99/1993. Það er því eðlilegt að nefndin hafi einnig umsjón með gæðastýrðri sauðfjárframleiðslu samkvæmt lögunum. Samkvæmt ákvæðinu ber búnaðarsamböndum að senda umsóknir til framkvæmdanefndarinnar sem heldur skrá yfir umsækjendur og þá aðila sem hlotið hafa staðfestingu á að þeir uppfylli skilyrði um gæðastýrða sauðfjárframleiðslu. Greinin felur í sér skilgreiningu á því hvað er gæðastýrð sauðfjárframleiðsla, sem er skilyrði álagsgreiðslna fyrir gæðastýrða framleiðslu skv. 1. mgr. greinarinnar. Búnaðarsamböndin á hverju svæði veita viðtöku umsóknum um að taka upp gæðastýrða sauðfjárframleiðslu, staðfesta að þær séu fullnægjandi og senda þær áfram til framkvæmdanefndar búvörusamninga. Umsóknarfrestur er til 30. júní árið áður en þátttöku er óskað. Sá dagur er valinn til þess að Landgræðslunni gefist tækifæri til þess að meta land umsækjanda og staðfesta hvort það uppfyllir þau skilyrði sem sett eru í 43. gr. Falli þátttakandi út úr gæðastýringunni vegna einhverra atriða og missi rétt til álagsgreiðslna getur hann óskað eftir að taka upp gæðastýrða framleiðslu að nýju. Frestur til að skila umsóknum um að taka aftur upp gæðastýrða sauðfjárframleiðslu er til 15. desember enda liggur þá fyrir skoðun Landgræðslunnar á viðkomandi landi og það tekur því skemmri tíma en ella að afgreiða umsóknina.

Um 2. gr.

    Um a-lið (42. gr.).
    Eftirlitsþættir í gæðastýringu í sauðfjárrækt eru fjórir og er umsjón þriggja þeirra á hendi Bændasamtaka Íslands. Samtökin skila framkvæmdanefnd búvörusamninga skriflegri staðfestingu á því hvort framleiðendur standast skilyrði hvers þáttar fyrir sig. Eftirlitsþættirnir eru eftirfarandi:
     1.      Sauðfjárskýrslum er skilað til Bændasamtaka Íslands, ýmist handfærðum eða á rafrænu formi, og samtökin yfirfara þær og staðfesta hvort þær eru fullnægjandi.
     2.      Samkvæmt gildandi lögum og fyrirliggjandi frumvarpi til laga um búfjárhald o.fl. sem nú er til meðferðar á Alþingi ber sveitarfélögum að starfrækja búfjáreftirlit. Búfjáreftirlitsmenn sveitarfélaganna heimsækja hvert bú fyrir 15. apríl ár hvert og hafa eftirlit með meðferð og fóðrun búfjár. Bændasamtök Íslands halda utan um niðurstöður búfjáreftirlitsins og staðfesta ef ekki koma fram athugasemdir um meðferð og aðbúnað búfjár hjá framleiðendum.
     3.      Í áðurnefndu frumvarpi um búfjárhald o.fl. er ekki gert ráð fyrir að búfjáreftirlitsmaður skoði í heimsókn sinni hvort skráningar í gæðahandbók uppfylli settar kröfur. Það er hins vegar falið búfjáreftirlitsmönnum með þessu frumvarpi og gert ráð fyrir að það bætist við önnur störf þeirra við búfjáreftirlitið. Bændasamtök Íslands staðfesta einnig hvort framleiðendur standast þetta eftirlit.
     4.      Landgræðslan hefur á höndum eftirlitsskyldu með landi samkvæmt lögum þessum og mun hún senda framkvæmdanefnd búvörusamninga skriflega tilkynningu ef aðilar sem óskað hafa eftir að taka upp eða hafa þegar tekið upp gæðastýrða sauðfjárframleiðslu teljast að mati Landgræðslunnar ekki uppfylla skilyrði um landnýtingu.
    Eftirlitsþættir þessir eru valdir vegna þess að þeir lýsa mjög vel heildarstarfsemi framleiðandans og auk þess eru tveir þeirra, búfjáreftirlit og eftirlit með ástandi lands, lögbundnir og framkvæmdir hvort sem er. Samþætting búfjáreftirlits og eftirlits með skráningum í gæðahandbók er ódýr kostur auk þess sem hann fellur vel að búfjáreftirliti því að búfjáreftirlitsmaður mun að einhverju leyti styðjast við gæðahandbók við sitt lögbundna eftirlit. Þrátt fyrir þetta er ljóst að aðstæður og starfsumhverfi sauðfjárframleiðenda geta breyst og þær kröfur geta til dæmis komið upp að kaupendur afurða krefjist vottunar óháðs aðila, með faggildingu til vottunar gæðakerfa, á því að framleiðendurnir uppfylli skilyrði gæðastýringarinnar. Í 2. mgr. er gert ráð fyrir að landbúnaðarráðherra sé heimilt að fela aðilum sem hlotið hafa faggildingu samkvæmt lögum nr. 100/1992, um vog, mál og faggildingu, að annast eftirlitsþætti gæðastýrðrar sauðfjárframleiðslu skv. 1. mgr.
     Um b-lið (43. gr.).
    Í ákvæðinu er lýst á hvern hátt haga skuli nýtingu beitilanda og úrbótum, sé þeirra þörf, svo að nýting auðlindarinnar sé með skynsamlegum hætti og um hana skapist víðtæk sátt. Landgræðslan hefur samkvæmt lögum bæði ráðgjafarhlutverk og eftirlitshlutverk varðandi ástand og meðferð lands. Landgræðslunni hefur því verið falið að meta land þeirra sem óska eftir að taka upp gæðastýrða sauðfjárframleiðslu og staðfesta hvort það stenst skilyrði samkvæmt lögum þessum. Gildir það bæði um heimalönd og afrétti. Í því verki mun Landgræðslan styðjast við gögn sem verkefnið Nytjaland aflar. Nytjaland er samstarfsverkefni Rannsóknastofnunar landbúnaðarins, landbúnaðarráðuneytisins, Landgræðslunnar og Bændasamtaka Íslands um að mynda samræmdan gagnagrunn og landupplýsingavef landbúnaðarins. Þar eiga bændur, hagsmunaaðilar, vísindamenn og stjórnsýslan að geta nálgast upplýsingar um bújarðir landsins. Í gagnabanka Nytjalands verða jarðamörk kortlögð, jafnt staðfest sem óstaðfest, skráð landstærð, landið verður flokkað eftir samræmdu flokkunarkerfi og verður hverri bújörð skipt upp í tiltölulega einfalda meginflokka með tilliti til gróðurfars og landgerðar. Gert er ráð fyrir að Landgræðslan byggi mat sitt alfarið á gögnum Nytjalands ef gögnin sýna að hennar mati ótvírætt að ástand lands fullnægi settum kröfum. Þar sem gögn Nytjalands eru ekki nægileg sérfræðingum Landgræðslunnar til þess að byggja á ákvörðun sína þarf að fara fram frekari skoðun.
    Ef land framleiðanda telst ekki vera í samræmi við kröfur um landnýtingu samkvæmt lögum þessum að mati sérfræðinga Landgræðslunnar eru úrræði framleiðandans fólgin í að vinna landbótaáætlun og/eða landnýtingaráætlun sem miðar að því að landið standist þá nýtingu sem því er ætluð. Slíkar landbótaáætlanir og/eða landnýtingaráætlanir verða unnar að frumkvæði hvers framleiðanda og hann getur leitað aðstoðar starfsmanna Landgræðslunnar og ráðunauta eða annarra ef það hentar betur. Hægt verður að styðjast við reynslu af verkefni sem Landgræðslan hefur unnið að undanfarin ár í samvinnu við bændur og nefnist „Betra bú“ og nær meðal annars yfir beitar- og uppgræðsluáætlanir. Áætlanir þessar geta verið mjög mismunandi eftir eðli og umfangi þess vandamáls sem þeim er ætlað að leysa. Þannig getur landbótaáætlun og/eða landnýtingaráætlun falið í sér friðun, styttri beitartíma á beitarsvæði, fækkun fjár eða annars búfénaðar á beitarsvæði, áburðargjöf, uppgræðslu auðna, skjólbelti, skógrækt, lengri gjafatíma að vori og/eða hausti og sjálfsagt fleiri atriði en þessi ýmist ein og sér eða jafnvel mörg í sömu áætlun.
    Tilkynni Landgræðslan framkvæmdanefnd búvörusamninga um afturköllun staðfestingar á að einstakir framleiðendur standist skilyrði um landnýtingu eftir 15. febrúar hefur það ekki áhrif á álagsgreiðslur vegna gæðastýringar fyrir sama ár. Ástæða þess er sú að framleiðendur eiga rétt á að vísa slíkri ákvörðun til úrskurðarnefndar skv. 46. gr. og nefndin verður að hafa svigrúm til þess að vinna úrskurð sinn. Þar sem ákvæðið gerir ráð fyrir að framleiðendur hafi fimm mánuði til þess að vinna landbótaáætlun og/eða landnýtingaráætlun sem Landgræðslan samþykkir hafa athugasemdir Landgræðslunnar til framleiðanda fram komnar eftir 15. september ár hvert ekki áhrif á álagsgreiðslur vegna gæðastýringar fyrir næsta ár á eftir. Dæmi um framkvæmd þessara reglna er að geri Landgræðslan athugasemdir til framleiðanda hinn 16. september 2002 hefur hann fimm mánuði til að vinna landbótaáætlun og/eða landnýtingaráætlun, til 16. febrúar 2003, og sé ekki gerð fullnægjandi áætlun innan þess tíma hefur það ekki áhrif á álagsgreiðslur fyrr en árið 2004.
    Um c-lið (44. gr.).
    Í 1. mgr. ákvæðisins er gert ráð fyrir að búfjáreftirlitsmenn sveitarfélaga hafi eftirlit með skráningum í gæðahandbók samkvæmt lögum þessum. Gert er ráð fyrir að búfjáreftirlitsmenn skoði gæðahandbækur einstakra framleiðenda í sömu ferð og þeir framkvæma lögbundið búfjáreftirlit. Skilyrði um gæðastýrða sauðfjárframleiðslu önnur en varða landnýtingu eru í raun um skráningu þeirra atriða sem getið er um í 41. gr. auk þess sem sýna þarf fram á að viðhlítandi lög og reglur séu uppfyllt. Lagagreinin gerir ráð fyrir að eftirlitsaðilarnir, búfjáreftirlit og Bændasamtök Íslands geti gefið mönnum kost á að bæta um betur ef líkur eru á því að slíkt sé hægt innan fjögurra vikna, enda skila eftirlitsaðilar ekki af sér gögnum varðandi eftirlitið fyrr en fresturinn er liðinn. Komi í ljós við eftirlit að framleiðendur hafi vísvitandi gefið rangar eða villandi upplýsingar er þó ekki heimilt að veita frest til þess að bæta úr. Bændasamtök Íslands skulu staðfesta þá eftirlitsþætti sem þeim er falið að staðfesta í frumvarpi þessu fyrir 1. júlí ár hvert. Staðfestingar Bændasamtaka Íslands eru kæranlegar til úrskurðarnefndar skv. 46. gr. og skiladagurinn gefur úrskurðarnefndinni tíma til þess að vinna úr kærumálum ef þau berast. Tíminn sem úrskurðarnefndin hefur til þess að úrskurða um kærumál vegna þessara þátta er mun skemmri en varðandi landnýtingarþáttinn vegna þess að gera verður ráð fyrir að umfangsminna verði að skera úr um ágreiningsmál varðandi þessa þætti. Greinin þarfnast að öðru leyti ekki skýringa.
     Um d-lið (45. gr.).
    Hér er gerð grein fyrir að réttur framleiðenda til álagsgreiðslna falli því aðeins niður ef þeir uppfylla ekki lengur skilyrði um gæðastýrða sauðfjárframleiðslu en þá missa þeir rétt til álagsgreiðslna á því almanaksári. Ef einstakir framleiðendur missa rétt til álagsgreiðslna öðlast þeir ekki rétt til greiðslna að nýju á næsta almanaksári nema þeir endurnýi umsóknir sínar. Skiptir þá engu á hvaða forsendum þeir misstu álagsgreiðslurnar. Hafi framleiðendur misst rétt til álagsgreiðslna vegna athugasemda um landnýtingu eða aðbúnað verða þeir að sýna fram á að úr þeim atriðum hafi verið bætt áður en hægt er að taka umsóknir gildar. Sé endurnýjaðri umsókn hafnað er sú ákvörðun kæranleg til úrskurðarnefndar skv. 46. gr.
     Um e-lið (46. gr.).
    Allar ákvarðanir eftirlitsaðila um synjun á álagsgreiðslum fyrir gæðastýrða sauðfjárframleiðslu eru kæranlegar til úrskurðarnefndar sem starfar á grundvelli 46. gr. laganna. Talin var ástæða til þess að hafa sérstaka úrskurðarnefnd um gæðastýringu vegna þess að eðli kærumála krefst sérþekkingar á þeim aðstæðum sem sauðfjárframleiðslan byggist á. Á meðan mál eru til meðferðar hjá úrskurðarnefnd halda framleiðendur óskertum álagsgreiðslum vegna gæðastýringar. Nefndin hefur frest til 15. október ár hvert til þess að kveða upp úrskurði sem bindandi eru fyrir sama ár. Ekki er talið ásættanlegt að þeir framleiðendur sem skotið hafa máli til úrskurðarnefndar séu lengur í óvissu um álagsgreiðslur en þessum fresti nemur. Úrskurði nefndin síðar hefur úrskurðurinn gildi gagnvart næsta almanaksári og sé úrskurðurinn framleiðandanum í óhag verður hann að endurnýja umsókn sína um að taka upp gæðastýrða sauðfjárframleiðslu samkvæmt ákvæðum 45. gr.
     Um f-lið (47. gr.).
    Helstu kostnaðarliðir frumvarpsins eru kostnaður búfjáreftirlits við eftirlit með skráningum í gæðahandbók og kostnaður framkvæmdanefndar búvörusamninga við að senda tilkynningar og halda utan um skrá yfir þátttakendur. Gert er ráð fyrir að þessi kostnaður verði greiddur af fjármunum sem tilgreindir eru í gr. 5.1 í samningi um sauðfjárframleiðslu sem undirritaður var 11. mars 2000 og er birtur sem fylgiskjal með frumvarpi til laga nr. 88/2000. Einnig má hér nefna kostnað við úrskurðarnefnd um gæðastýringu en samkvæmt frumvarpinu er gert ráð fyrir að hann verði greiddur úr ríkissjóði.
     Um g-lið (48. gr.).
    Liðurinn þarfnast ekki skýringa.

Um 3. gr.

    Ákvæðið til bráðabirgða felur í sér frávik frá öðrum ákvæðum laganna um tímafresti sem Bændasamtökum Íslands og Landgræðslunni eru ætlaðir til að staðfesta að þeir sem óska eftir að taka upp gæðastýrða sauðfjárframleiðslu uppfylli sett skilyrði. Gert er ráð fyrir að þessi undantekningarákvæði gildi einungis á árinu 2003, þ.e. fyrsta árið eftir að gæðastýrð sauðfjárframleiðsla hefur verið tekin upp. Staðfesting á fullnægjandi sauðfjárskýrsluhaldi mun byggjast á skilum síðasta almanaksárs. Fyrsta ár gæðastýringar verður að byggjast á skilum á svokallaðri vorbók og er því ekki annað fært en gefa lengri frest á því ári. Jafnframt er ljóst að Landgræðslan mun ekki hafa mannafla til að meta land allra framleiðenda áður en gæðastýring hefst hinn 1. janúar 2003 og að tilkynna framkvæmdanefnd búvörusamninga um það fyrir 15. febrúar 2003 eins og ákvæði 43. gr. gerir ráð fyrir. Eðlilegt þykir því að hafa það alveg skýrt að framleiðendur munu ekki missa álagsgreiðslur fyrir árið 2003 þótt ekki hafi unnist tími til að meta land þeirra en samkvæmt þessu ákvæði til bráðabirgða hefur Landgræðslan frest til 1. september 2003 til að ljúka mati á landi þeirra.

Um 4. gr.

    Samningur um framleiðslu sauðfjárafurða sem undirritaður var 11. mars 2000 gildir til 31. desember 2007 og er því eðlilegt að ákvæðum laganna verði markaður sami gildistími. Greinin þarfnast að öðru leyti ekki skýringa.Fylgiskjal I.


Greinargerð um eftirlit með gæðastýrðri sauðfjárframleiðslu samkvæmt
frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 99/1993, um framleiðslu,
verðlagningu og sölu á búvörum, með síðari breytingum.

    „Þegar eftirlitsreglur eru samdar eða stofnað er til opinbers eftirlits skal viðkomandi stjórnvald meta þörf fyrir eftirlit, gildi þess og kostnað þjóðfélagsins af því. Slíkt mat getur m.a. falist í áhættumati, mati á alþjóðlegum skuldbindingum um eftirlit, mati á kostnaði opinberra aðila, fyrirtækja og einstaklinga, mati á hvort ná megi sama árangri með hagkvæmari aðferðum eða mati á þjóðhagslegu gildi eftirlits.“
    Áhersla á vottuð gæðastýringarkerfi í matvælaiðnaði hefur aukist mjög á síðustu árum í kjölfar meiri fjarlægðar milli framleiðenda og neytenda. Flest lönd sem við miðum okkur við eru að taka upp einhvers konar gæðastýringu í landbúnaði. Norðurlöndin eru komin þó nokkuð áleiðis. Það má leiða að því líkum að allur búskapur framtíðarinnar muni nota gæðastýringarkerfi sem tekur til alls framleiðsluferilsins, nýtingar aðfanga og nýtingar náttúrunnar. Krafan um þetta hefur orðið háværari á síðustu missirum í kjölfar áfalla tengdum kúariðu, gin og klaufaveiki o.fl.
    Gæðastýring í sauðfjárrækt byggist á skjalfestingu á þeim aðstæðum og aðferðum sem notaðar eru við framleiðsluna. Tilgangurinn með slíkum skráningum er tvíþættur: Annars vegar hefur skráning slíkra upplýsinga þann tilgang að vera hjálpartæki fyrir framleiðendur til þess að ná betri árangri í sínum rekstri. Hins vegar eru upplýsingarnar notaðar við markaðssetningu á vörunum, þ.e. skráningin hefur þann tilgang að upplýsa neytandann eða fulltrúa hans um hvernig afurðin er framleidd. Á síðustu árum hafa markaðsaðstæður breyst á alþjóðlegum matvælamarkaði á þann hátt að nær ómögulegt er að markaðssetja vöru á þeim grundvelli að hún sé á einhvern hátt hreinni og betri en önnur án þess að sanna þá fullyrðingu með einhverju slíku skráningarkerfi. Gæðavottun og rekjanleiki er því grundvöllur að markaðssetningu íslenska lambakjötsins í framtíðinni, að minnsta kosti á erlendum mörkuðum.
    Þeir eftirlitsþættir sem frumvarpið gerir ráð fyrir eru fjórir og eru þeir eftirfarandi: Búfjáreftirlitsmenn sveitarfélaga framkvæma beina skoðun varðandi aðbúnað og meðferð búfjár samkvæmt lögum og skoða einnig skráningar í gæðahandbók. Bændasamtök Íslands fylgjast með hvort fullnægjandi sauðfjárskýrslum er skilað og Landgræðsla ríkisins hefur eftirlit með ástandi lands og þróun þess. Bændasamtökin taka saman niðurstöður af eftirliti búfjáreftirlitsmanna og senda framkvæmdanefnd búvörusamninga tilkynningu um þá sem ekki standast kröfur.
    Tveir eftirlitsþáttanna eru lögbundnir og inntir af hendi óháð frumvarpi þessu. Samþætting þeirra inn í gæðakerfi Bændasamtaka Íslands styrkir gæðakerfið auk þess sem það kemur í veg fyrir tvíverknað í eftirliti. Þessir eftirlitsþættir eru búfjáreftirlit nær yfir alla búfjáreigendur samkvæmt lögum og eftirlit með ástandi lands sem Landgræðsla ríkisins hefur með höndum samkvæmt lögum.
    Það eftirlit sem frumvarp þetta leiðir af sér til viðbótar því sem fyrir er snýr þannig eingöngu að skráningum í gæðakerfi Bændasamtaka Íslands. Skráningarnar eru tvískiptar, annars vegar svokallað sauðfjárskýrsluhald sem vistað er í miðlægum gagnagrunni hjá Bændasamtökunum og hins vegar skráningar í gæðahandbókina sjálfa sem hver framleiðandi hefur undir höndum.
    Það er enginn beinn kostnaður fyrir einstaklinga áætlaður vegna eftirlitsins en gert er ráð fyrir því að störf búfjáreftirlitsmanns sveitarfélaga við að líta eftir skráningum í gæðahandbók taki árlega ½ til 1 klst á hvern framleiðanda og verði greidd af fjárveitingu samkvæmt lið 5.1 í samningi Bændasamtaka Íslands og ríkisins um framleiðslu sauðfjárafurða. Staðfesting Bændasamtaka Íslands á skilum á sauðfjárskýrslum hefur ekki í för með sér aukinn kostnað fyrir Bændasamtökin.
    Frumvarpið gerir ráð fyrir því að landbúnaðarráðherra geti falið aðilum sem hlotið hafa faggildingu samkvæmt lögum nr. 100/1992, um vog, mál og faggildingu, að annast framkvæmd eftirlitsþáttanna.
    Framkvæmdanefnd búvörusamninga heldur utan um ákvarðanir eftirlitsaðilanna og tilkynnir framleiðendum ef niðurstöður eftirlits leiðir til að framleiðandi missir rétt til álagsgreiðslna.
    Frumvarpið gerir ráð fyrir sérstakri úrskurðarnefnd vegna ágreiningsmála um álagsgreiðslur vegna gæðastýringar.
    Það er mat þeirra sem að frumvarpinu standa að eftirlitsþættir þeir sem valdir voru nái mjög vel yfir þá starfsemi sem líta skal eftir, samþætting við fyrirliggjandi eftirlit sé hagkvæm og kostnaður við þá eftirlitsþætti sem við bætast sé óverulegur.Fylgiskjal II.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 99/1993,
um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, með síðari breytingum.

    Frumvarpið er lagt fram með það að markmiði að lögfesta ákvæði um gæðastýrða sauðfjárframleiðslu á grundvelli gildandi samnings um framleiðslu sauðfjárafurða sem undirritaður var af Bændasamtökum Íslands, landbúnaðarráðherra og fjármálaráðherra, fyrir hönd ríkisstjórnarinnar, fyrir gildistíma samningsins, sem er frá 1. janúar 2001 til 31. desember 2007.
    Í 2. gr. frumvarpsins, e-lið, er lagt til að stofnuð verði þriggja manna úrskurðarnefnd um skilyrði fyrir gæðastýringu. Einnig er getið í a-lið sömu greinar um eftirlit búfjáreftirlitsmanns. Talið er að kostnaðarauki verði óverulegur og rúmist innan ramma landbúnaðarráðuneytis.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum er ekki séð að það leiði til kostnaðarauka fyrir ríkissjóð.