Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1359, 125. löggjafarþing 553. mál: framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum (sauðfjárafurðir).
Lög nr. 88 22. maí 2000.

Lög um breyting á lögum nr. 99/1993, um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, með síðari breytingum.


1. gr.

     Við 1. mgr. 2. gr. laganna bætast eftirfarandi orðskýringar í réttri stafrófsröð:
     Álagsgreiðsla er tiltekin fjárhæð sem greiðist á gæðastýrða framleiðslu, sbr. 41. gr.
     Gæðastýrð sauðfjárframleiðsla er dilkakjöt sem framleitt hefur verið samkvæmt kröfum um skilgreindan framleiðsluferil, hollustu og umhverfisvernd.
     Jöfnunargreiðsla er tiltekin fjárhæð sem greiðist á framleiðslu umfram 18,2 kg dilkakjöts á ærgildi greiðslumarks samkvæmt skilyrðum sem fram koma í 40. gr.
     Útflutningsskylda merkir sameiginlega ábyrgð framleiðenda sauðfjárafurða á að tiltekinn hluti framleiðslu verði fluttur úr landi.

2. gr.

     1. mgr. 20. gr. laganna orðast svo:
     Innheimta skal verðskerðingargjald af verði hrossakjöts og nautgripakjöts til framleiðenda. Verðskerðingargjaldið skal vera 2% af framleiðendaverði hrossakjöts. Af nautgripakjöti skal gjaldið vera 800 kr. á alla slátraða gripi sem flokkast í UN og K gæðaflokka. Auk þess verði 400 kr. lagðar á hvern sláturgrip í framangreindum gæðaflokkum á tímabilinu frá 1. september til 31. desember ár hvert.

3. gr.

     4.–6. mgr. 29. gr. laganna orðast svo:
     Landbúnaðarráðherra skal fyrir 1. september ár hvert, að fengnum tillögum Bændasamtaka Íslands, ákveða það hlutfall kindakjöts sem flytja skal á erlendan markað. Ákvörðun þessi getur gilt fyrir allt að tólf mánaða framleiðslu- og sölutímabil.
     Sláturleyfishafa er skylt að leggja til kjöt til útflutnings samkvæmt ákvörðun landbúnaðarráðherra, semja um skipti á kjöti við sláturleyfishafa með heimild til útflutnings eða gera verktakasamning við útflutningshús um slátrun þess hluta innleggs hússins sem flytja þarf úr landi. Sé þess ekki kostur er sláturleyfishafa skylt að greiða vegna útflutningskvaðar gjald sem landbúnaðarráðherra auglýsir fyrir 1. september ár hvert og skal svara til mismunar á áætluðu heildsöluverði og viðmiðunarverði sem miðast við meðalverð við útflutning á undangengnum tólf mánuðum. Landbúnaðarráðherra skal, að fengnum tillögum Bændasamtaka Íslands og Landssamtaka sláturleyfishafa, setja nánari reglur um skipulag útflutnings svo að erlendir markaðir nýtist sem best.
     Allir sauðfjárframleiðendur skulu taka þátt í útflutningi eða sæta útflutningsuppgjöri vegna útflutningskvaðar fyrir sama hlutfall af framleiðslu sinni að undanskildu því magni sem framleiðandi tekur til eigin nota samkvæmt heimild í reglugerð. Undanþegnir útflutningsuppgjöri eru þó þeir framleiðendur sem hafa 0,7 vetrarfóðraðar kindur eða minna á hvert ærgildi greiðslumarks enda liggi fyrir fullnægjandi staðfesting um ásetning. Eru þeir þá skuldbundnir til að leggja aðeins inn afurðir þess fjár. Þetta hlutfall skal taka breytingum í samræmi við breytingar á sölu kindakjöts á innlendum markaði reiknað frá 7.000 tonna árlegri sölu. Þá getur landbúnaðarráðherra ákveðið, að fenginni tillögu Bændasamtaka Íslands, að kjöt af sauðfé sem slátrað er á ákveðnum tímabilum utan haustsláturtíðar verði undanþegið útflutningsuppgjöri.

4. gr.

     Fyrirsögn IX. kafla laganna verður: Um framleiðslu og greiðslumark sauðfjárafurða 2001–2007.

5. gr.

     36. gr. laganna orðast svo:
     Markmið með ákvæðum þessa kafla um framleiðslu sauðfjárafurða eru:
  1. að styrkja sauðfjárrækt sem atvinnugrein og bæta afkomu sauðfjárbænda,
  2. að ná fram aukinni hagræðingu í sauðfjárrækt,
  3. að sauðfjárrækt verði í samræmi við umhverfisvernd, landkosti og æskileg landnýtingarsjónarmið,
  4. að halda jafnvægi milli framleiðslu og sölu sauðfjárafurða,
  5. að efla fagmennsku, þekkingu og þróun í sauðfjárrækt.


6. gr.

     37. gr. laganna orðast svo:
     Frá og með 1. janúar 2001 verður beingreiðslumark sauðfjárafurða 1.740 millj. kr. á ári og skiptist hlutfallslega eins milli lögbýla og beingreiðslur gerðu árið 2000. Beingreiðslur til einstakra lögbýla taka breytingum í samræmi við ákvæði 2. og 4. mgr. 38. gr., 1. mgr. 39. gr. og 41. gr.

7. gr.

     38. gr. laganna orðast svo:
     Greiðslumark skal bundið við lögbýli. Bændasamtök Íslands skulu halda skrá yfir rétthafa greiðslumarks lögbýla og handhafa beingreiðslna samkvæmt því. Á hverju lögbýli skal aðeins einn framleiðandi vera skráður handhafi beingreiðslna. Þegar um fleiri sjálfstæða rekstraraðila er að ræða með aðskilinn búrekstur getur hver og einn þeirra verið handhafi beingreiðslna.
     Heimilt er að flytja greiðslumark milli lögbýla fram til 1. janúar 2004 eða þar til ríkissjóður hefur keypt upp 45.000 ærgildi, sbr. 4. mgr., með eftirtöldum skilyrðum: við sameiningu lögbýla; ef eigandi lögbýlis, sem hefur búið og stundað framleiðslu síðastliðin tvö ár, flytur á annað lögbýli; og ef eigandi að sérskráðu greiðslumarki flytur á annað lögbýli. Þegar ríkissjóður hefur keypt upp 45.000 ærgildi, sbr. 4. mgr., eða eigi síðar en 1. janúar 2004 verður framsal greiðslumarks milli lögbýla heimilt án framangreindra takmarkana. Framsal greiðslumarks skal taka gildi 1. janúar ár hvert og beingreiðslur greiðast framsalshafa frá sama tíma. Tilkynna skal Bændasamtökum Íslands framsal fyrir 15. janúar ár hvert vegna beingreiðslna fyrir viðkomandi ár.
     Sé ábúandi annar en eigandi lögbýlis þarf samþykki ábúanda og eiganda fyrir framsali greiðslumarks.
     Ríkissjóði er heimilt að kaupa upp greiðslumark í sauðfé. Beingreiðslum, sem svara til fyrstu 25.000 ærgildanna sem ríkið kaupir upp, skal varið til að greiða álag á framleitt dilkakjöt fyrstu tvö árin. Eftir það nýtast þær til álags á gæðastýrða framleiðslu. Ráðherra setur nánari ákvæði um framkvæmd þessa í reglugerð.

8. gr.

     39. gr. laganna orðast svo:
     Beingreiðslur greiðast úr ríkissjóði til handhafa í samræmi við greiðslumark lögbýlis eins og það er á hverjum tíma. Beingreiðslur skulu vera 4.399 kr. á hvert ærgildi á árunum 2001 og 2002 en lækka árlega eftir það miðað við framangreinda fjárhæð sem hér segir: árið 2003 um 12,5%, árið 2004 um 15%, árið 2005 um 17,5%, árið 2006 um 20% og árið 2007 um 22,5%.
     Réttur til beingreiðslna flyst milli aðila innan lögbýlis við ábúendaskipti og við breytingu skráningar ef um hjón eða sambúðarfólk er að ræða.
     Til að fá fullar beingreiðslur þarf handhafi að eiga að lágmarki 0,6 vetrarfóðraðar kindur fyrir hvert ærgildi greiðslumarks árið 2001. Síðan skal landbúnaðarráðherra ákveða árlega ásetningshlutfall að fengnum tillögum framkvæmdanefndar búvörusamninga. Nái ásetningur ekki því lágmarki skerðast beingreiðslur hlutfallslega. Á lögbýlum þar sem búfjárbeit kemur í veg fyrir eðlilega framkvæmd uppgræðslu eða veldur of miklu álagi á beitiland er ráðherra heimilt að ákveða lægra ásetningshlutfall að fenginni umsögn Landgræðslu ríkisins og/eða Skógræktar ríkisins. Þá getur ráðherra ákveðið að víkja frá framangreindu ásetningshlutfalli hjá framleiðendum sem hafa skorið niður fé til útrýmingar sjúkdómum.
     Falli beingreiðslur niður án þess að gerður hafi verið samningur um búskaparlok heldur viðkomandi lögbýli greiðslumarki sínu. Tilkynna skal Bændasamtökum Íslands um búskaparáform fyrir 15. janúar ár hvert ef handhafi óskar eftir að fá beingreiðslur aftur að loknu hléi. Beingreiðslur greiðast handhafa frá og með 1. janúar ár hvert eftir að hléi lýkur.
     Heimilt er að skerða eða fella niður beingreiðslur ef sauðfjárbóndi gefur rangar upplýsingar um ásettan fjölda sauðfjár eða stundar ólöglega sölu eða dreifingu á kjöti af heimaslátruðu sauðfé eða brýtur á annan hátt reglur eða samningsbundin ákvæði um afsetningu afurða.
     Beingreiðslur sem lausar eru án samninga um búskaparlok getur framkvæmdanefnd búvörusamninga ákveðið að nota í önnur verkefni.

9. gr.

     40. gr. laganna orðast svo:
     Jöfnunargreiðslur skal greiða til framleiðenda eftir nánari ákvæðum sem ráðherra setur í reglugerð.
     Jöfnunargreiðslur reiknast þannig að greidd verður jöfnun, að hámarki 100 kr. á kíló á greiðslugrunn, sem reiknast á eftirfarandi hátt: Finna skal það meðalinnlegg dilkakjöts tveggja ára af árunum 1997, 1998 og 1999 sem er umfram 18,2 kg á hvert ærgildi lögbýlisins eins og það var skráð við hver áramót þar á undan. Reikna skal 30% álag á framleiðslu júní- og júlímánaða og 12% álag á framleiðslu ágústmánaðar. Sala líflamba vegna fjárskipta skal talin til framleiðslu. Sama gildir um eigin ásetning líflamba vegna uppbyggingar bústofns eftir fjárleysi.
     Einungis þeir framleiðendur sem skiluðu árlega í afurðastöð að reiknuðu meðaltali meira en 1.250 kg dilkakjöts á árunum 1997, 1998 og 1999 geta átt rétt á jöfnunargreiðslum. Skilyrði til að hljóta jöfnunargreiðslur eru enn fremur að innlagt dilkakjöt á árinu fari ekki niður fyrir 18,2 kg á hvert ærgildi greiðslumarks og að innlagt dilkakjöt árið á undan sé að lágmarki 18,2 kg eftir hverja vetrarfóðraða á. Frá og með 1. janúar 2003 er réttur til að hljóta jöfnunargreiðslur einnig bundinn því skilyrði að framleiðendur hafi með höndum gæðastýrða framleiðslu, sbr. 41. gr.
     Jöfnunargreiðslur verða ekki framseldar eða uppkeyptar.

10. gr.

     41. gr. laganna orðast svo:
     Sauðfjárframleiðendur sem á árunum 2003–2007 uppfylla skilyrði um gæðastýrða framleiðslu eiga rétt til sérstakra álagsgreiðslna úr ríkissjóði. Álagsgreiðslur skulu greiddar af uppkaupaálagi, sbr. 4. mgr. 38. gr., og af þeim fjármunum sem beingreiðslur lækka um skv. 1. mgr. 39. gr. Álagsgreiðslur geta að hámarki numið 100 kr. á hvert kg dilkakjöts.

11. gr.

     2. mgr. 43. gr. laganna orðast svo:
     Landbúnaðarráðherra setur með reglugerð nánari ákvæði um greiðslumark lögbýla, beingreiðslur, framkvæmd og tilhögun þeirra, frávik frá ásetningshlutfalli, jöfnunargreiðslur, kaup ríkissjóðs á greiðslumarki, aðilaskipti að greiðslumarki o.fl.

12. gr.

     Í stað orðanna „ lögum nr. 30 28. apríl 1966, um meðferð, skoðun og mat á sláturafurðum, með síðari breytingum“ í 3. mgr. 51. gr. laganna kemur: lögum nr. 96 27. maí 1997, um eldi og heilbrigði sláturdýra, slátrun, vinnslu, heilbrigðisskoðun og gæðamat á sláturafurðum.

13. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 54. gr. laganna:
  1. Í stað orðanna „laga nr. 81 3. ágúst 1988, um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit“ í 1. mgr. kemur: laga nr. 7 12. mars 1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir.
  2. Í stað orðanna „laga nr. 24 1. febrúar 1936, um eftirlit með matvælum og öðrum neyslu- og nauðsynjavörum“ í 1. mgr. kemur: laga nr. 93 28. júní 1995, um matvæli.
  3. Í stað orðanna „lögum nr. 30 28. apríl 1966, um meðferð, skoðun og mat á sláturafurðum“ í 7. mgr. kemur: lögum nr. 96 27. maí 1997, um eldi og heilbrigði sláturdýra, slátrun, vinnslu, heilbrigðisskoðun og gæðamat á sláturafurðum.


14. gr.

     Í stað orðanna „ lögum nr. 30 28. apríl 1966, um meðferð, skoðun og mat á sláturafurðum, með síðari breytingum“ í 4. mgr. 62. gr. laganna kemur: lögum nr. 96 27. maí 1997, um eldi og heilbrigði sláturdýra, slátrun, vinnslu, heilbrigðisskoðun og gæðamat á sláturafurðum.

15. gr.

     Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2001 að undanskildu ákvæði 4. efnismgr. 7. gr., sem verður 4. mgr. 38. gr. laganna, sem öðlast þegar gildi.

Ákvæði til bráðabirgða.
     Landbúnaðarráðherra skal leggja fyrir Alþingi eigi síðar en 1. febrúar 2002 frumvarp til laga um breytingu á IX. kafla laganna með nánari ákvæðum um álagsgreiðslur vegna gæðastýringar.

Samþykkt á Alþingi 10. maí 2000.