Ferill 649. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 1048  —  649. mál.
Frumvarp til lagaum Tækniháskóla Íslands.

(Lagt fyrir Alþingi á 127. löggjafarþingi 2001–2002.)


I. KAFLI
Hlutverk.
1. gr.

    Tækniháskóli Íslands er menntastofnun á háskólastigi. Skólinn veitir nemendum sínum menntun til þess að gegna ýmsum ábyrgðarstörfum í atvinnulífinu þar sem æðri menntunar er krafist. Tækniháskólinn leggur áherslu á að veita menntun á tæknisviðum. Skólanum er heimilt að sinna hagnýtum rannsóknum og þróunarstörfum, auk þess að veita símenntun í þeim fræðum sem stunduð eru í deildum hans.

II. KAFLI
Kennarar og nemendur.
2. gr.

    Kennarar við Tækniháskóla Íslands eru prófessorar, dósentar, lektorar, aðjúnktar og stundakennarar. Aðjúnktar eru ráðnir til eins árs hið skemmsta. Stundakennarar eru ráðnir til eins árs eða skemmri tíma.
    Háskólaráð setur nánari reglur um starfsheiti og starfsskyldur kennara.

3. gr.

    Rektor ræður prófessora, dósenta, lektora, aðjúnkta og stundakennara.
    Þeir sem ráðnir eru í starf prófessors, dósents eða lektors skulu hafa lokið meistaraprófi hið minnsta eða hafa jafngilda þekkingu og reynslu að mati dómnefndar.
    Rektor skipar þriggja manna dómnefnd eftir tilnefningu háskólaráðs og menntamálaráðherra til tveggja ára í senn til þess að dæma um hæfi umsækjenda til að gegna starfi prófessors, dósents eða lektors. Háskólaráð tilnefnir tvo menn í nefndina og er annar þeirra formaður. Annar fulltrúa háskólaráðs skal starfa utan háskólans. Menntamálaráðherra tilnefnir einn mann í nefndina. Varamenn skulu skipaðir á sama hátt. Í dómnefnd má skipa þá eina sem lokið hafa meistaraprófi úr háskóla.
    Að ábendingu viðkomandi deildar skal rektor hverju sinni tilnefna sérfræðing til ráðgjafar fyrir dómnefnd um mat á fræðistörfum umsækjenda.
    Dómnefnd skal gefa rökstutt álit um hvort ráða megi af námsferli umsækjanda og störfum að hann sé hæfur til að gegna starfinu. Engum manni má veita starf prófessors, dósents eða lektors nema meiri hluti dómnefndar hafi látið það álit í ljós að hann sé til þess hæfur.
    Háskólaráði er heimilt að setja reglur sem kveða á um að ákvæði 3. mgr. gildi við ráðningu sérfræðinga á sviði rannsókna og annarra fræðistarfa við háskólann.
    Háskólaráð setur nánari reglur um nýráðningar í starfi þar sem einnig er kveðið á um störf dómnefnda og meðferð umsókna.

4. gr.

    Háskólaráð skal, að fengnum tillögum deilda, staðfesta reglur um skráningu nemenda í einstakar deildir þar sem nánar er kveðið á um inntökuskilyrði í viðkomandi deild. Þeir einir teljast nemendur við Tækniháskóla Íslands sem skrásettir hafa verið til náms samkvæmt þeim reglum.
    Við skrásetningu til náms greiðir nemandi skrásetningargjald, allt að 32.500 kr. Háskólaráð tekur ákvörðun um fjárhæð skrásetningargjalda. Heimilt er að taka 15% hærra gjald af þeim sem fá leyfi til skrásetningar utan auglýstra skrásetningartímabila.

III. KAFLI
Stjórnskipulag.
5. gr.

    Háskólaráð er æðsti ákvörðunaraðili innan háskólans nema annað sé ótvírætt tekið fram í lögum. Í háskólaráði eiga sæti:
     1.      Rektor sem er sjálfkjörinn í ráðið og er jafnframt forseti þess.
     2.      Tveir fulltrúar kennara sem ráðnir eru ótímabundið við háskólann og tveir til vara, kosnir á almennum fundi þeirra til tveggja ára í senn.
     3.      Einn fulltrúi nemenda og einn til vara kosnir til tveggja ára í senn samkvæmt reglum nemendafélags skólans.
     4.      Tveir fulltrúar skipaðir af menntamálaráðherra og tveir til vara til tveggja ára í senn.
    Varaforseta og ritara kýs ráðið úr hópi háskólaráðsfulltrúa ótímabundið ráðinna kennara.

6. gr.

    Rektor boðar til fundar í háskólaráði eftir þörfum. Óski tveir háskólaráðsfulltrúar eftir fundi er rektor skylt að boða til hans. Rektor stýrir fundum ráðsins.
    Háskólaráðsfundur er ályktunarhæfur ef helmingur atkvæðisbærra manna sækja fund hið fæsta. Afl atkvæða ræður úrslitum mála. Ef atkvæði eru jöfn sker atkvæði rektors úr eða þess sem gegnir forsetastörfum.
    Varamenn skulu sitja fundi háskólaráðs í forföllum aðalmanna.

7. gr.

    Menntamálaráðherra skipar rektor til fimm ára samkvæmt tilnefningu háskólaráðs. Skal staðan auglýst laus til umsóknar. Háskólaráð setur reglur um hvernig staðið skuli að tilnefningu rektors.
    Rektor er yfirmaður stjórnsýslu háskólans. Hann hefur almennt eftirlit með allri starfsemi háskólans. Á milli funda háskólaráðs fer rektor í umboði þess með ákvörðunarvald í öllum málum háskólans. Rektor hefur ráðningarvald yfir öllum starfsmönnum háskólans.
    

8. gr.

    Háskólaráð ákvarðar deildaskipan háskólans. Háskólaráð setur deildum starfsreglur og hvert skuli vera verksvið, vald og ábyrgð hverrar stjórnunareiningar innan háskólans. Háskólaráð setur reglur um yfirstjórn deilda og um val á deildarforsetum.

IV. KAFLI
Kennsla, framkvæmd prófa, agaviðurlög o.fl.
9. gr.

    Fyrir hverja deild háskólans og skilgreindar námsbrautir innan hennar skal setja námskrá sem kveður á um markmið, inntak og meginviðfangsefni námsins, þar með talda starfsþjálfun á vettvangi þar sem það á við.
    Á grundvelli námskrár skal árlega gefa út kennsluskrá þar sem m.a. er gerð grein fyrir tilhögun náms, kennsluháttum og námsmati. Í kennsluskrá eða öðrum starfsáætlunum einstakra deilda skal enn fremur kveðið á um missira- eða annaskiptingu, kennslutíma, próftímabil, leyfi og önnur atriði er varða skipulag náms.
    Háskólaráð samþykkir námskrá og kennsluskrá en deildir bera ábyrgð á gerð þeirra.

10. gr.

    Háskólaráð skal setja reglur um prófgráður, prófgreinar, próftíma, prófdómara, endurtekningu prófa, viðurkenningu erlendra prófa, skiptingu fullnaðarprófs í fleiri en einn hluta, undirbúningspróf, einkunnir og annað er að prófum lýtur. Heimilt er í reglum háskólaráðs að kveða á um hámarkstímalengd í námi eða einstökum hlutum þess og um afleiðingar ef þeim ákvæðum er ekki fullnægt. Háskólakennarar standa fyrir prófum en hver deild ræður tilhögun prófa hjá sér að svo miklu leyti sem ekki eru sett bindandi ákvæði um það í lögum eða reglum háskólaráðs. Sameiginleg stjórnsýsla háskólans annast skipulag og framkvæmd prófa.
    Nemandi á rétt til að fá útskýringar kennara á mati skriflegrar úrlausnar sinnar ef hann æskir þess innan 15 daga frá birtingu einkunnar. Vilji nemandi sem ekki hefur staðist próf þá eigi una mati kennarans getur hann snúið sér til viðkomandi deildarforseta. Skal þá prófdómari skipaður í hverju tilviki. Einnig getur kennari eða meiri hluti nemenda, telji þeir til þess sérstaka ástæðu, óskað skipunar prófdómara í einstöku prófi. Rektor skipar prófdómendur að fengnum tillögum háskóladeildar.

11. gr.

    Rektor getur veitt nemanda áminningu eða vikið honum úr háskóla um tiltekinn tíma eða að fullu ef hann hefur gerst sekur um brot á lögum eða öðrum reglum háskólans eða framkoma hans gagnvart starfsmönnum háskólans eða öðrum nemendum er ósæmileg eða óhæfileg. Áður en ákvörðun um brottrekstur er tekin skal leita umsagnar háskóladeildar og gefa nemanda kost á að tjá sig um málið. Nemanda er heimilt að skjóta ákvörðun rektors til áfrýjunarnefndar samkvæmt lögum um háskóla. Málskot frestar framkvæmd ákvörðunar rektors. Rektor getur að hæfilegum tíma liðnum heimilað nemanda sem vikið hefur verið að fullu úr háskóla að skrá sig aftur til náms í háskólanum ef aðstæður hafa breyst. Nemanda er heimilt að skjóta synjun rektors um skráningu til áfrýjunarnefndar.

V. KAFLI
Rannsóknir og gjaldtaka fyrir þjónustu.
12. gr.

    Tækniháskóla Íslands er heimilt að starfrækja rannsóknastofnun, á eigin vegum eða í samvinnu við aðra, sem sinnir hagnýtum rannsóknum og þróunarstörfum í þágu atvinnulífsins. Kennarar háskólans geta fullnægt rannsóknarskyldu sinni að nokkru eða öllu leyti með störfum í þágu stofnunarinnar. Heimilt er að ráða sérfræðinga til starfa við hana.
    Rannsóknastofnunin skal eftir því sem aðstæður leyfa veita nemendum skólans ráðgjöf og fræðslu um skipulagningu og framkvæmd rannsókna.
    Háskólaráð skal setja reglur, sem menntamálaráðherra staðfestir, um starfsemi rannsóknastofnunarinnar, um skipan stjórnar og gjaldtöku fyrir þjónustu sem stofnunin veitir.
    Heimilt er háskólaráði að stofna sérstaka rannsóknasjóði. Skal um þá sett skipulagsskrá.

13. gr.

    Tækniháskóla Íslands skal heimilt að taka gjald fyrir þjónustu sem telst utan þeirrar lögmæltu þjónustu sem háskólanum er skylt að veita. Honum er enn fremur heimilt að taka gjöld fyrir símenntun og fræðslu fyrir almenning. Háskólaráð setur nánari reglur um slík þjónustugjöld.
    Háskólaráði er heimilt að semja við félög nemenda, hollvinasamtök, einstaklinga, samtök þeirra og fyrirtæki eða opinberar stofnanir um að taka að sér þjónustu fyrir Tækniháskóla Íslands, enda sé farið að ákvæðum í 30. gr. laga um fjárreiður ríkisins.

14. gr.

    Tækniháskólanum er heimilt að gera samstarfssamninga við aðrar stofnanir og fyrirtæki sem tengjast starfssviði háskólans, t.d. um kennslu, rannsóknir og ráðningu kennara og annarra starfsmanna. Háskólaráð setur nánari reglur um stöðu þeirra starfsmanna innan háskólans sem þannig eru ráðnir til starfa.

VI. KAFLI
Gildistaka, reglugerð o.fl.
15. gr.

    Við gildistöku laga þessara renna eignir Tækniskóla Íslands til Tækniháskóla Íslands og um leið tekur Tækniháskóli Íslands við skuldbindingum sem gerðar hafa verið í nafni Tækniskóla Íslands.

16. gr.

    Menntamálaráðherra er heimilt að setja í reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd þessara laga.

17. gr.

    Allar reglur sem háskólaráð setur á grundvelli laga þessara skulu birtar í Stjórnartíðindum.

18. gr.

    Lög þessi eru sett með hliðsjón af lögum um háskóla, nr. 136/1997, og öðlast þegar gildi. Jafnframt falla úr gildi lög nr. 66/1972, um Tækniskóla Íslands, með síðari breytingum.

Ákvæði til bráðabirgða.

    Þrátt fyrir ákvæði 18. gr. gildir eftirfarandi:
    Tækniskóli Íslands skal starfa áfram fram að brautskráningu nemenda 1. júní 2002 í samræmi við lög nr. 66/1972, með síðari breytingum.
    Um þá sem við gildistöku laga þessara eru starfsmenn eða nemendur í Tækniskóla Íslands gildir eftirfarandi:
     a.      Nemendur sem við gildistöku laga þessara stunda nám í Tækniskóla Íslands eiga rétt á að ljúka námi frá Tækniháskóla Íslands samkvæmt gildandi námsskipulagi Tækniskóla Íslands.
     b.      Embætti rektors Tækniskóla Íslands er lagt niður 3. júní 2002. Þó skal sá sem gegnir því embætti við gildistöku laga þessara eiga rétt til starfa við Tækniháskóla Íslands skv. d- og e-lið.
     c.      Eftir gildistöku laga þessara skipar menntamálaráðherra háskólaráð til 1. júní 2003. Hlutverk ráðsins er að tryggja yfirfærslu starfsemi Tækniskóla Íslands til Tækniháskóla Íslands og framkvæmd laga þessara að öðru leyti, þar með talið að ganga frá tilnefningu rektors, sem ráðherra skal skipa skv. 7. gr. eigi síðar en 1. júlí 2002. Staða rektors skal auglýst eins og lög þessi gera ráð fyrir. Háskólaráð skal meta hæfni umsækjenda um stöðu rektors og taka ákvörðun um þann sem tilnefndur verður með meiri hluta greiddra atkvæða í kosningu innan ráðsins. Almennur fundur kennara sem ráðnir eru ótímabundið við Tækniskóla Íslands tilnefnda tvo fulltrúa í háskólaráð og tvo til vara. Nemendafélag Tækniskóla Íslands tilnefna einn fulltrúa í ráðið og einn til vara. Menntamálaráðherra skipar þrjá fulltrúa án tilnefningar, þar af einn sem gegnir störfum forseta ráðsins þar til rektor hefur verið skipaður. Eftir að rektor hefur verið skipaður skal fulltrúum sem skipaðir eru í háskólaráð án tilnefningar fækka um einn. Varaforseti ráðsins skal valinn úr hópi háskólaráðsfulltrúa ótímabundið ráðinna kennara.
     d.      Skipaðir og ótímabundið ráðnir kennarar við Tækniskóla Íslands sem uppfylla starfsskilyrði samkvæmt lögum um háskóla eru starfsmenn Tækniháskóla Íslands frá og með gildistöku laga þessara. Sama gildir um þá starfsmenn sem gegna öðrum störfum en talin eru upp í e-lið.
     e.      Störf skipaðra og ótímabundið ráðinna kennara við Tækniskóla Íslands sem ekki uppfylla starfsskilyrði samkvæmt lögum um háskóla skulu lögð niður frá og með 1. ágúst 2002. Þó er heimilt að fresta niðurlagningu starfanna til 31. júlí 2005. Sé heimild til frestunar á niðurlagningu starfanna nýtt teljast starfsmenn samkvæmt þessum lið vera starfsmenn Tækniháskóla Íslands frá og með 1. ágúst 2002, en störf þeirra verða þá lögð niður í síðasta lagi 31. júní 2005, fullnægi þeir ekki hæfisskilyrði laga um háskóla á þeim tíma.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Með lagafrumvarpi þessu er verið að samræma lög um Tækniskóla Íslands lögum um háskóla, nr. 136/1997, en þau lög kveða á um að sérlög um einstakar háskólastofnanir verði endurskoðuð og efni þeirra aðlagað þeim lögum. Mestur hluti náms við Tækniskóla Íslands hefur verið á háskólastigi og hefur skólinn útskrifað nemendur með viðurkenndar háskólagráður. Jafnframt hefur skólinn átt aðild að samstarfsnefnd háskólastigsins ásamt öðrum háskólum. Með frumvarpinu er því verið að staðfesta stöðu skólans sem háskóla í skólakerfinu jafnframt því sem skipulag skólans er aðlagað háskólalögum.
    Núverandi starfsemi skólans byggist á lögum nr. 66/1972, með síðari breytingum, en þau lög hafa um alllangt skeið verið í endurskoðun. Á undanförnum tveimur árum hefur menntamálaráðuneytið leitað til aðila vinnumarkaðarins um að þeir tækju þátt í eða tækju yfir rekstur skólans, en viðræður þar að lútandi skiluðu ekki árangri. Niðurstaðan er því sú að leggja þetta frumvarp fram, þar sem lög um háskóla frá 1997 gera ráð fyrir því að endurskoða skuli lög um háskólastofnanir sem undir lögin heyra. Sú endurskoðun hefur farið fram síðustu árin hjá öðrum ríkisháskólum og er Tækniskólinn sá síðasti í þeirri röð.
    Frá árinu 1999 hefur menntamálaráðuneytið gert samninga um kennslu við alla skóla á háskólastigi. Með þessum samningum hefur fjárhagslegum samskiptum menntamálaráðuneytisins og skólanna verið komið í fastan farveg, svo og eftirliti með kennslu, reglum um mat á gæðum kennslunnar o.fl. Ákveðið var að gera slíkt hið sama gagnvart Tækniskólanum til að stíga fyrsta skrefið til samræmis við aðra skóla á háskólastigi. Hinn 10. ágúst 2001 var undirritaður samningur um kennslu og fjárhagsleg samskipti milli menntamálaráðuneytisins og Tækniskóla Íslands. Samningurinn felur m.a. í sér að fjárframlög skólans eru ákveðin út frá reikniflokkum náms og nemendaígildum innan þeirra. Gert er ráð fyrir að Tækniháskóli Íslands taki yfir samning Tækniskólans ef frumvarp þetta verður að lögum.
    Ákvæði frumvarpsins um stjórnsýslu Tækniháskóla Íslands eru í samræmi við lög um háskóla og hafa verið löguð að þeim auknu völdum og ábyrgð sem fylgir í kjölfar aukins sjálfstæðis skólans. Auk þess eru ýmis ákvæði frumvarpsins sambærileg ákvæðum laga um Háskóla Íslands, Kennaraháskóla Íslands og Háskólann á Akureyri. Þannig er stuðlað að samræmi á milli þessara háskóla og jafnframt lagður traustari grunnur að auknu samstarfi Tækniháskólans við aðra skóla á háskólastigi. Meginmarkmið frumvarpsins er því að koma á innri skipulagsbreytingu í skólanum en í því felst m.a. að skólastjórnendum er falin aukin ábyrgð og vald. Verði frumvarpið að lögum munu skólastjórnendur, þ.e. háskólaráð og rektor, hafa tækifæri til þess að laga skólann að breyttum aðstæðum og hrinda í framkvæmd hugmyndum sem komu fram við samningu frumvarpsins.
    Við Tækniskóla Íslands hefur verið rekin frumgreinadeild sem veitir sérhæfðan undirbúning fyrir nám í tæknigreinum og fleiri greinum á háskólastigi. Námið telst vera á framhaldsskólastigi. Samningur menntamálaráðuneytisins og Tækniskóla Íslands sem undirritaður var í ágúst 2001 fjallar m.a. um áframhaldandi rekstur frumgreinadeildar. Ekki er fjallað sérstaklega um frumgreinadeildina í frumvarpi þessu, enda er þar ekki um að ræða nám á háskólastigi. Hins vegar er gert ráð fyrir áframhaldandi rekstri frumgreinadeildar við Tækniháskóla Íslands sem verði byggður á samningi milli háskólans og ráðuneytisins.
    Við frumvarpsgerð þessa hefur nokkuð verið fjallað um nafn skólans. Hér er lagt til að skólinn heiti Tækniháskóli Íslands. Tækniháskóli Íslands á að vera fagháskóli á sviði tækni og rekstrar sem miðlar sérhæfðri þekkingu á háskólastigi. Markmið hans er að búa nemendur undir að takast á við síbreytileg viðfangsefni og krefjandi störf í atvinnulífinu. Nám í Tækniháskóla Íslands á að opna nemendum sínum leið til viðbótarmenntunar í öðrum háskólum.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Hér er hlutverk og markmið Tækniháskóla Íslands almennt orðað, svo sem gert er í lögum um aðra ríkisháskóla. Lögð er áhersla á að skólinn veiti æðri menntun á tæknisviðum. Tækniskóli Íslands veitir nú menntun á tækni-, iðnaðar-, heilbrigðis- og rekstrarsviðum, en ekkert er því til fyrirstöðu að námsframboð muni breytast í framtíðinni verði það talið æskilegt, þótt áherslan verði ávallt á tæknimenntun. Sérstaklega er tekið fram að skólanum sé heimilt að sinna hagnýtum rannsóknum og þróunarstörfum, en slíkar rannsóknir eru ávallt háðar fjárframlögum ríkissjóðs samkvæmt sérstökum samningi, styrkjum eða tekjum vegna slíkra verkefna háskólans. Þá er gert ráð fyrir því að skólanum verði heimilt að annast símenntun í þeim fræðum sem kennd eru við skólann. Ekki er talin þörf á því að lögfesta sérstaklega að Tækniháskólinn veiti framhaldsmenntun heldur almennt orðað að hann sé menntastofnun á háskólastigi. Umfang starfsemi háskólans ræðst af fjárveitingum og þeim samningum sem gerðir eru við menntamálaráðuneytið um þær. Í slíkum samningum væri unnt að taka ákvörðun um að framhaldsmenntun á háskólastigi skuli veitt við Tækniháskólann.

Um 2. gr.

    Hér er starfsheitum kennara háskólans lýst. Gert er ráð fyrir að háskólaráð setji almennar reglur um hvernig starfsskyldur kennara skiptast á einstaka þætti, svo sem kennslu, rannsóknir, þjónustu og stjórnun.

Um 3. gr.

    Hér er lagt til í samræmi við ákvæði laga um háskóla og lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins að forstöðumaður stofnunarinnar, rektor, annist sjálfur ráðningu allra kennara. Þetta samræmist auknu sjálfstæði háskólastofnana og þar með aukinni ábyrgð. Hæfniskröfur þeirra sem ráðnir eru í starf prófessors, dósents eða lektors eru í samræmi við kröfur laga um háskóla. Hér er einnig lagt til að rektor skipi dómnefnd eftir tilnefningu háskólaráðs og menntamálaráðherra til tveggja ára í senn til þess að dæma um hæfi umsækjenda um prófessorsstörf, lektors- og dósentsstörf. Þær hæfniskröfur eru gerðar til dómnefndarmanna að þeir hafi lokið meistaraprófi úr háskóla. Dómnefndin á að meta allar umsóknir um nýráðningar í störf kennara við háskólann en í hverju tilviki á nefndin að njóta leiðsagnar ráðgjafa sem rektor tilnefnir eftir ábendingu frá viðkomandi deild. Þannig er tryggt að dómnefndarkerfið sé skilvirkt og einfalt en jafnframt að í hverju tilviki sé hægt að meta hæfni umsækjenda út frá reynslu og þekkingu þeirra sem starfa á viðkomandi fræðasviði. Jafnframt er gert ráð fyrir að háskólaráð setji reglur um ráðningu sérfræðinga á sviði rannsókna og annarra fræðistarfa. Í þeim reglum verði kveðið á um störf dómnefnda og meðferð umsókna.

Um 4. gr.

    Samkvæmt lögum um háskóla geta háskólar ákveðið sérstök inntökuskilyrði til viðbótar þeim almennu, sem eru stúdentspróf eða sambærileg menntun. Hér er lagt til að háskólaráð setji nánari reglur um inntökuskilyrði eftir tillögum einstakra deilda. Þannig geta inntökuskilyrði verið mismunandi eftir deildum. Hér er þó gert ráð fyrir að háskólaráð hafi síðasta orðið. Ákvæði þessarar greinar um skrásetningargjald er sambærilegt öðrum slíkum lagaákvæðum í lögum um aðra ríkisháskóla, þ.e. Háskóla Íslands, Háskólann á Akureyri og Kennaraháskóla Íslands.

Um 5. gr.

    Hér er kveðið á um skipan háskólaráðs sem er æðsti ákvörðunaraðili innan háskólans. Greinin er í samræmi við IV. kafla laga um háskóla, nr. 136/1997. Lagt er til að háskólaráð verði ekki fjölmennara en nauðsynlegt má teljast eða að sex fulltrúar skipi ráðið. Gert er ráð fyrir því að menntamálaráðherra skipi tvo fulltrúa í háskólaráð og er það í samræmi við skipan fulltrúa í háskólaráð annarra ríkisháskóla. Er það talið styrkja háskólann að fá utanaðkomandi aðila í æðstu stjórn hans og til þess fallið að veita honum aukið aðhald. Hér er um grundvallarbreytingu að ræða á stjórn skólans. Skólastjórn og skólanefnd eru lagðar niður og stjórnskipulagið lagað að nýskipan rammalöggjafar um háskólastigið.

Um 6. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 7. gr.

    Verksvið og ábyrgð rektors er skýrt afmarkað í lögum um háskóla. Þar er einnig að finna skýrar reglur um skipan rektors. Háskólaráð setur reglur um tilnefningu rektors en menntamálaráðherra skipar rektor eftir tilnefningu ráðsins. Skal staðan jafnan auglýst laus til umsóknar að loknu skipunartímabili rektors. Að öðru leyti þarfnast greinin ekki skýringa.

Um 8. gr.

    Lagt er til að háskólaráð taki ákvörðun um stjórnskipulag skólans, þar á meðal um deildaskiptingu hans. Tilhögunin felur ekki í sér að skólinn hafi algjört sjálfdæmi um að ákvarða hvaða menntun er í boði eða á hvaða sviðum skólinn veitir menntun, heldur tengist ákvörðun þar að lútandi samningi við stjórnvöld. Samkvæmt lögum um háskóla á háskólaráð að samþykkja fjárhagsáætlun allra deilda skólans og skólans í heild og síðan að semja við menntamálaráðherra um fjárveitingar til skólans á grundvelli langtímaáætlunar, sbr. 19. og 20. gr. laga um háskóla.

Um 9. gr.

    Þessi grein kveður á um skyldur skólans til að gefa út nám- og kennsluskrá fyrir nám sem í boði er. Háskólaráði ber að staðfesta námskrár í samræmi við opinbera stefnumörkun skólans um nám í boði. Háskólaráði ber jafnframt að staðfesta kennsluskrá. Sambærileg ákvæði er að finna í lögum um Háskólann á Akureyri og í lögum um Kennaraháskóla Íslands.

Um 10. gr.

    Hér eru dregnar saman reglur sem varða prófgráður, framkvæmd prófa, prófdómara og fleira. Miðað er við að háskólaráð setji reglur um þessi efni. Með ákvæði þessu og ákvæði 11. gr. um áminningar og áfrýjunarrétt stúdenta er ætlunin að tryggja að prófreglur og málsmeðferðarreglur í málum sem tengjast réttindum nemenda verði sambærilegar í öllum háskólum landsins. Sambærileg ákvæði er að finna í lögum um Háskóla Íslands, Háskólann á Akureyri og Kennaraháskóla Íslands.

Um 11. gr.

    Samhljóða reglu er að finna í lögum um aðra ríkisháskóla þar sem kveðið er á um að nemandi geti skotið ákvörðun um viðurlög til áfrýjunarnefndar samkvæmt lögum um háskóla. Með því er tryggt að nemandi geti skotið ágreiningsmálum sínum við háskólayfirvöld til sjálfstæðs úrskurðaraðila utan háskólans. Mikilvægt er að agaviðurlög styðjist við heimildir í lögum þar sem um íþyngjandi ákvarðanir getur verið að ræða af hálfu háskólayfirvalda.

Um 12. gr.

    Sambærilega grein er að finna í lögum um Háskólann á Akureyri. Rannsóknastofnun sú sem greinin kveður á um mun sinna hagnýtum rannsóknum í þágu atvinnulífsins í samræmi við 1. gr. frumvarpsins. Að öðru leyti þarfnast greinin ekki skýringa.

Um 13. gr.

    Í 13. gr. er kveðið á um að heimilt sé að taka gjald fyrir þjónustu sem Tækniháskólinn lætur í té. Með hliðsjón af 3. mgr. 19. gr. laga um háskóla, nr. 136/1997, er hér einkum átt við aðra þjónustu en þá sem háskólanum er lögum samkvæmt skylt að veita. Dæmi um slíkt gæti verið aukin þjónusta vegna tölvuaðgangs og innhringisambanda fyrir þá nemendur sem þess óska. Einnig gæti hér fallið undir gjaldtaka fyrir veitingu vottorða um námsástundun og próf sem er utan reglulegrar upplýsingagjafar um þetta efni. Með ákvæðinu er lagt til að þessi möguleiki verði rýmkaður, en um leið er lögð áhersla á að ákvarðanir um slík þjónustugjöld verða að byggjast á þeim kostnaði sem felst í því að veita þjónustuna. 2. mgr. 13. gr. er ætlað að tryggja að háskólaráði sé heimilt að ganga til samninga við félög nemenda eða önnur félög um tiltekin afmörkuð rekstrarverkefni sem falla ekki undir þá lögmæltu þjónustu sem háskólanum er skylt að veita. Eins má fela fyrirtækjum, samtökum eða stofnunum að sinna þessum verkefnum. Hér undir geta fallið ýmis verkefni, t.d. stoðþjónusta við nemendur. Gert er ráð fyrir því að það sé á valdi háskólaráðs að semja við félög nemenda eða fyrirtæki um þjónustu af þessu tagi.

Um 14. gr.

    Með greininni er Tækniháskólanum tryggð heimild til að gera samstarfssamning við aðrar stofnanir og fyrirtæki sem tengjast starfssviði háskólans, t.d. um kennslu, rannsóknir og ráðningu kennara og annarra starfsmanna. Tækniháskólanum er þannig gert kleift að hafa samstarf við fyrirtæki og rannsóknastofnanir atvinnulífsins á fjölbreyttum grunni sem er mikilvægt til að efla og styrkja starfsemi hans og uppbyggingu til framtíðar. Háskólaráð setur nánari reglur um stöðu þeirra starfsmanna innan háskólans sem þannig eru ráðnir til starfa.

Um 15.–18. gr.

    Greinarnar þarfnast ekki skýringa.

Um ákvæði til bráðabirgða.

    Í ákvæði til bráðabirgða er fjallað um réttindi nemenda og starfsmanna og stjórnskipulag hinnar nýju stofnunar. Þar er m.a. annars kveðið á um að nemendur eigi rétt á að ljúka námi og prófum samkvæmt gildandi námsskipulagi Tækniskóla Íslands við Tækniháskóla Íslands eftir gildistöku laganna og er þessu ákvæði ætlað að koma í veg fyrir að samhliða því að ný stofnun rís af grunni og önnur er lögð niður rofni námsferill þeirra nemenda sem þá stunda þar nám.
    Í c-lið er fjallað um tímabundna skipun háskólaráðs Tækniháskóla Íslands sem menntamálaráðherra skipar til 1. júní 2003 til að tryggja framkvæmd laganna.
    Hvað varðar störf við Tækniskóla Íslands þá eru þau ýmist lögð niður samkvæmt bráðabirgðaákvæðinu í skilningi laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996, með síðari breytingum, eða að þau flytjast til Tækniháskóla Íslands. Skv. e-lið er heimilt að fresta niðurlagningu þeirra starfa sem leggja á niður frá og með 1. ágúst 2002 til 31. júní 2005 til þess að gefa þeim starfsmönnum sem þar er fjallað um svigrúm til þess að afla sér frekari menntunar þannig að þeir uppfylli hæfisskilyrði laga um háskóla og eigi þar með rétt til áframhaldandi starfs við Tækniháskóla Íslands. Sé heimild til frestunar á niðurlagningu starfa nýtt teljast þeir starfsmenn sem þannig háttar um starfsmenn Tækniháskóla Íslands frá og með 1. ágúst 2002, en störf þeirra verða þá lögð niður í síðasta lagi 31. júní 2005, fullnægi þeir ekki hæfisskilyrðum laga um háskóla á þeim tíma.Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um Tækniháskóla Íslands.

    Í frumvarpinu er lagt til að stofnaður verði nýr háskóli sem taki við rekstri, eignum og skuldbindingum Tækniskóla Íslands og að lög um þann skóla falli jafnframt úr gildi. Með frumvarpinu er verið að staðfesta stöðu Tækniskólans í skólakerfinu og breyta innra stjórnkerfi hans til samræmis við almenn lög um háskóla. Í umsögn þessari er vikið að þeim efnisatriðum frumvarpsins sem hafa áhrif á kostnað ríkissjóðs.
    Tækniháskólanum er samkvæmt frumvarpinu ætlað að leggja áherslu á að veita menntun á tæknisviðum. Í fjárlögum 2002 er veitt um það bil 337 m.kr. framlagi til kennslu 650 nemendaígilda í Tækniskóla Íslands. Skiptast þau þannig að 150 eru í frumgreinadeild sem er á framhaldsskólastigi, 270 í rekstrarnámi á háskólastigi og 230 á tæknisviði. Samkvæmt þessu er áætlað að aðeins liðlega þriðjungur nemendaígilda í skólanum sé í einhvers konar tækninámi. Nemandi sem gengur til prófa í 30 einingum samsvarar einu nemandaígildi. Á síðustu fimm árum var árlegur meðalfjöldi innritaðra nemenda í skólanum um 600, þar af 200 á tækni- og heilbrigðissviði, að undanskildu árinu 2001 er þeim fjölgaði í 250 á haustönn, en þá voru 690 nemendur skráðir í skólann. Reglur menntamálaráðuneytisins um framlag á nemanda í tækninámi gera ráð fyrir um það bil 800 þús. kr. framlagi á nemanda eftir að skráningargjöld hafa verið dregin frá. Ógerningur er að spá því hvort nemendum á tæknisviði fjölgi eins og frumvarpið gerir ráð fyrir að áhersla verði lögð á.
    Bráðabirgðatölur Ríkisbókhalds benda til þess að uppsafnaður rekstrarhalli Tækniskólans hafi numið um 180 m.kr. í árslok 2001 og hafi aukist um fast að 80 m.kr. á árinu, samanborið við 45 m.kr. hallarekstur árið 2000. Þessar tölur benda til þess að skólinn muni ekki halda sig innan fjárheimilda á yfirstandandi ári enda þótt þær hafi verið ákveðnar á grundvelli samnings við skólann frá því í ágúst 2001. Fjárhagsvandi skólans er ekki síst tilkominn vegna fámennra nemendahópa á tæknisviðum og mikils kennslustundafjölda. Að óbreyttum fjárveitingum þarf að gera verulegar breytingar á náminu og endurskipuleggja þjónustuna til að draga úr kostnaði.
    Frumvarpið gerir ráð fyrir að stjórnkerfi hins nýja háskóla verði í samræmi við almenn lög um háskóla eins og hjá öðrum ríkisháskólum. Samkvæmt því verður rektor framkvæmdastjóri stjórnsýslu skólans og deilir stjórnunarvaldi með sex manna háskólaráði sem fer með yfirstjórn skólans og tekur við af ráðgefandi skólanefnd Tækniskóla Íslands. Frumvarpið gerir ráð fyrir að stofnaðar verði dómnefndir til að meta hæfni umsækjenda um kennarastöður. Að óbreyttum reglum um fjárveitingar þarf skólinn að draga úr öðrum kostnaði til að mæta því að væntanlega mun stjórnunarkostnaður aukast.
    Í frumvarpinu er lagt til að krafa verði gerð um að prófessorar, dósentar og lektorar við skólann hafi lokið meistaraprófi hið minnsta. Að mati fjármálaráðuneytisins munu auknar menntunarkröfur leiða til hærri meðallauna fastra kennara í dagvinnu en ekki eru forsendur til að meta hækkunina. Kostnaði vegna hærri meðallauna þarf skólinn að mæta með lækkun kostnaðar á öðrum sviðum að óbreyttum reglum um framlög til kennslu í háskólum.
    Frumvarpið gerir ráð fyrir að Tækniháskólanum verði heimilað að sinna hagnýtum rannsóknum og þróunarstörfum. Frumvarpið felur því ekki í sér fyrirheit um framlög til rannsókna, en gera má ráð fyrir að skólinn vilji nýta heimildina innan fárra ára. Í drögum menntamálaráðuneytisins að reglum um skiptingu framlaga til rannsókna í háskólum er gert ráð fyrir að skólar sem stunda rannsóknir fái grunnframlag miðað við fjölda nemendaígilda en að öðru leyti ráðist framlag af rannsóknarvirkni, fjölda nemenda sem útskrifast úr rannsóknarnámi og árangri skóla í samkeppni um fé úr rannsóknarsjóðum.
    Skólanum verður samkvæmt frumvarpinu heimilt að veita símenntun í þeim fræðum sem stunduð eru í deildum hans, starfrækja rannsóknastofnun á eigin vegum og stofna rannsóknasjóði. Gert er ráð fyrir að honum sé heimilt að taka gjald fyrir þjónustu sem telst utan þeirrar lögmæltu þjónustu sem honum er skylt að veita. Af þessum sökum telur fjármálaráðuneytið að ákvæði um þessi atriði leiði ekki til aukins kostnaðar ríkisins.
    Í bráðabirgðaákvæði er gert ráð fyrir að embætti rektors Tækniskóla Íslands verði lagt niður um mitt ár 2002 en sá sem gegnir starfinu nú eigi rétt til starfa við hinn nýja Tækniháskóla. Einnig er gert ráð fyrir að störf skipaðra og ótímabundið ráðinna kennara við Tækniskóla Íslands sem ekki uppfylla starfsskilyrði samkvæmt lögum um háskóla verði lögð niður frá og með 1. ágúst 2002 en þó sé heimilt að fresta niðurlagningu starfanna til 31. júlí 2005. Ef fresturinn verður nýttur til fulls er talið að núverandi fastir kennarar á háskólastigi öðlist rétt til allt að 88 mánaða biðlauna, enda bjóðist þeim ekki sambærileg kennslustörf við frumgreinadeild sem reikna má með að verði áfram við skólann. Kostnaðurinn er lauslega áætlaður 24 m.kr. í heildina ef allir nýta rétt sinn, sem er fremur ólíklegt.
    Þegar á allt er litið telur fjármálaráðuneytið í fyrsta lagi að frumvarpið gefi tilefni til nokkurs útgjaldaauka sem skólinn þarf að óbreyttum reglum um fjárveitingar að mæta með hagræðingu í rekstri. Í öðru lagi gefur frumvarpið tilefni til aukins kostnaðar vegna nemendafjölgunar, breytinga á námsframboði og rannsókna sem eðlilegt er talið að ákveða við fjárlagagerð hverju sinni. Að lokum vekur frumvarpið upp rétt til biðlauna sem að hámarki er áætlaður kosta 24 m.kr. en verður líklega töluvert minni í reynd.