Ferill 680. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 1096  —  680. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um breytingu á vegáætlun fyrir árin 2000–2004.

(Lögð fyrir Alþingi á 127. löggjafarþingi 2001–2002.)


    Alþingi ályktar, skv. V. kafla vegalaga, nr. 45/1994, að árið 2002 skuli framkvæmdum í vegamálum hagað samkvæmt eftirfarandi vegáætlun:

I.     ÁÆTLUN UM FJÁRÖFLUN*
(Fjárhæðir í m.kr.)

2002
1.1. Markaðar tekjur:
1. Bensíngjald
5.434
2. Þungaskattur, km-gjald
2.499
3. Þungaskattur, árgjald
2.465
10.398
1.2.
Umsýslugjald 0,5%
-52
10.346
1.3. Aðrar tekjur:
1. Leyfisgjöld flutninga
9
2. Fjárveitingar úr ríkissjóði til flugmála
123
10.478
1.4.
Viðbótarfé
500
1.5.
Sérstök fjáröflun
2.300
1.6.
Frestun framkvæmda
-1.616
11.662
1.7. Lánsfé:
1. Vegna vegtenginga Hvalfjarðarganga
-40
2. Vegna ferja
-263
Samtals
11.359

*     Áætlunin er sett upp á áætluðu meðalverðlagi árið 2002 sem er 6740 stig, hækkunin frá 2001 nemur um 6% sem er í takt við forsendur fjárlaga 2002.

II. SKIPTING ÚTGJALDA
(Fjárhæðir í m.kr.)

2002
GJÖLD
2.1. Rekstur og þjónusta
1.
Yfirstjórn
264
2.
Upplýsingaþjónusta
56
3.
Umferðareftirlit
52
4.
Þjónusta
2.194
1.    Þjónustusvæði
300
2.    Vegir og vegyfirborð
385
3.    Brýr og veggöng
60
4.    Vegmerkingar og vegbúnaður
364
5.    Þéttbýlisvegir
263
6.    Vetrarþjónusta
822
5.
Almenningssamgöngur
750
1.    Ferjur og flóabátar
518
    Þar af afborganir ferjulána til ríkissjóðs
-263
2.    Áætlunarflug
123
3.    Sérleyfi á landi
109
6.
Rannsóknir
98
Rekstur og þjónusta samtals
3.151
2.2. Viðhald
1.
Endurnýjun bundinna slitlaga.
860
2.
Endurnýjun malarslitlaga
235
3.
Styrkingar og endurbætur
543
4.
Brýr, varnargarðar og veggöng
179
5.
Öryggisaðgerðir
130
6.
Vatnaskemmdir
123
Viðhald samtals
2.070
2.3. Stofnkostnaður
1.
Stofnvegir
4.263
1.    Almenn verkefni
500
2.    Höfuðborgarsvæðið
1.287
3.    Stórverkefni
2.476
    Þar af afborganir lána vegna Hvalfj. til ríkissjóðs
-40
2.
Jarðgangaáætlun
1.450
3.
Tengivegir
477
4.
Til brúargerðar
266
1.    Brýr 10 m og lengri
242
2.    Smábrýr
24
5.
Ferðamannaleiðir
386
6.
Orku- og iðjuvegir
300
7.
Girðingar
55
8.
Landsvegir
125
9.
Safnvegir
282
10.
Styrkvegir
54
11.
Reiðvegir
39
Frestun stofnkostnaðar
-1.519
Stofnkostnaður samtals
6.138
Samtals 11.359

Athugasemdir við þingsályktunartillögu þessa.



0. Inngangur.
    Vorið 2000 var samþykkt á Alþingi tillaga til þingsályktunar um vegáætlun 2000–2004. Samkvæmt vegalögum á að endurskoða vegáætlun þegar hún hefur gilt í tvö ár og því á reglubundin endurskoðun að fara fram nú.
    Langtímaáætlun í vegagerð 1999–2010 var samþykkt á Alþingi 1998. Var henni skipt í þrjú tímabil og tekur hvert þeirra yfir fjögur ár, hið fyrsta yfir árin 1999–2002, bæði ár meðtalin. Langtímaáætlun skal endurskoðuð eftir fjögur ár í samræmi við vegalög.
    Samgönguráðherra hefur lagt fram á Alþingi frumvarp til laga um samgönguáætlun, sem tekur til allra þátta samgangna, flugmála, siglingamála og vegamála. Samkvæmt frumvarpinu er samgönguáætlun tvíþætt. Annars vegar er tólf ára áætlun, sem skipt er í þrjú tímabil, fjögur ár hvert, hliðstætt því sem gert var í áðurnefndri langtímaáætlun og kemur hún í stað langtímaáætlunar. Hins vegar er fjögurra ára áætlun, sem tekur til stofnanaáætlana svo sem vegáætlunar og lýtur hún svipuðum reglum og stofnanaáætlanirnar hafa gert.
    Miðað er við að frumvarp um samgönguáætlun verði samþykkt á yfirstandandi þingi. Verður þá tillaga að samgönguáætlun, bæði tólf ára áætlun og fjögurra ára áætlun, lögð fram á næsta þingi. Gildistími tólf ára áætlunar verður þá 2003–2014, en fjögurra ára áætlunar 2003–2006.
    Með hliðsjón af framanrituðu þykir eðlilegt að endurskoðunin nú taki einungis til eins árs, þ.e. 2002, enda verði ný fjögurra ára áætlun afgreidd á næsta þingi.
    Fjármagn 2002 er í samræmi við fjárlög 2002. Fjármagn til vegamála lækkar þá um 1.616 m.kr. frá gildandi vegáætlun. Þessi lækkun er dregin frá ríkisframlagi.
    Á síðasta ári var ákveðið að Vegagerðin hefði umsjón með því áætlunarflugi sem ríkið styrkir. Þetta kemur nú inn í vegáætlun sem sérstakur liður sem greiddur er með ríkisframlagi.
    Nokkur breyting er gerð á sundurliðun útgjalda. Hún er færð nær uppsetningu fjárlaga og til meira samræmis við uppsetningu annarra stofnanaáætlana í því skyni að undirbúa gerð samgönguáætlunar.
    Þar sem endurskoðunin nú tekur einungis til eins árs er ekki fjallað hér um flokkun þjóðvega eða breytingar á þjóðvegum. Verður sú umfjöllun tekin fyrir við gerð fjögurra ára áætlunar á næsta þingi.

0.1. Frestun framkvæmda og heildarfjármagn.
    Frestun framkvæmda 2002 frá gildandi vegáætlun er 1.616 m.kr. eins og áður var nefnt. Af þessari upphæð falla 97 m.kr. á rekstur og þjónustu og viðhald. Það sem eftir er, 1.519 m.kr., veldur frestun á stofnkostnaði. Á síðasta ári var framkvæmdum frestað fyrir 700 m.kr. Samkvæmt þessu þarf því að færa til verkefni sem eru í gildandi vegáætlun 2002 fyrir 2.219 m.kr.
    Þrátt fyrir frestun framkvæmda 2002 er heildarfjármagnið heldur hærra að krónutölu en á síðasta ári.

0.2. Verðgrundvöllur.
    Verðlag vegáætlunar er hið sama og verðlag fjárlaga 2002, en þar var gert ráð fyrir að hækkun milli áranna 2001 og 2002 væri 6%. Vísitala vegagerðar er þá 6740. Eins og áður sagði eru tölur ársins 2002 festar í fjárlögum ársins og hafa því í raun ekki verið hækkaðar til þessa verðlags.

I. FJÁRÖFLUN TIL VEGAMÁLA 2002
1.1. Markaðar tekjur.
    Vegagerðin hefur samkvæmt lögum tekjur af mörkuðum tekjustofnum. Jafnan hefur verið miðað við byggingarvísitölu þegar upphæð bensíngjalds og gjaldskrá þungaskatts hafa verið ákveðnar og voru viðmiðunarmörk sett með lögum um fjáröflun til vegagerðar árið 1986. Bensíngjald var síðast hækkað 1. júní 1999 um 3,89%. Þungaskattur var síðast hækkaður 1. júní 1999 um 2%. Þungaskattur, km-gjald, var síðan lækkaður 11. febrúar 2001 um 10%. Dregið hefur verulega í sundur með gjaldskrám bensíngjalds og þungaskatts og byggingarvísitölu, þ.e. breytingar á gjaldskrám hafa ekki fylgt þróun byggingarvísitölu. Slaki í bensíngjaldi var í ársbyrjun 22,7% en 22,5% í gjaldskrá þungaskatts, árgjald, og 32,5% km-gjald. Hækkanir á gjaldskrám markaðra tekna Vegagerðarinnar hafa ekki þótt vænlegar á árunum 2000 og 2001 vegna verðhækkana á bensíni og dísilolíu.
    Áætlað er að markaðar tekjur á árinu 2002 verði sem hér segir (fjárhæðir eru í m.kr.):


Ár
Bensín-
gjald
Þungaskattur,
km-gjald
Þungaskattur,
árgjald

Alls
2002 5.434 2.499 2.465 10.398

1.2. Umsýslugjald.
    Umsýslugjald er 0,5% af mörkuðum tekjum eins og verið hefur og rennur það í ríkissjóð.

1.3. Aðrar tekjur.
    Aðrar tekjur eru annars vegar fjárveitingar úr ríkissjóði til styrktar almenningssamgöngum með flugi og hins vegar leyfisgjöld flutninga. Framlög ríkisins til styrktar áætlunarflugi eru 123 m.kr. Vegagerðin sér um útgáfu leyfa til hópferða-, sér- og vöruflutningaleyfishafa og atvinnuleyfa til leigubílstjóra og innheimtir gjald fyrir leyfin samkvæmt lögum. Ný lög um fólksflutninga, vöruflutninga og efnisflutninga á landi, nr. 73/2001, voru samþykkt á Alþingi síðasta vor og lög um leigubifreiðar, nr. 134/2001, voru samþykkt í desember sl. og gjaldtaka fyrir leyfisveitingar var ákveðin með þeim. Áætlaðar tekjur af leyfisveitingum eru 9 m.kr.

1.4. Viðbótarfé.
    Framkvæmdaátak í vegagerð var ákveðið vorið 1999 af ríkisstjórn og skyldi verja 500 m.kr. viðbótarfé árlega árin 1999–2002 til nýbyggingar vega. Árið 2002 koma 500 m.kr. sem sérstakt framlag í viðbót við markaðar tekjur, sem á ekki að endurgreiða.

1.5. Sérstök fjáröflun.
    Við afgreiðslu gildandi vegáætlunar á Alþingi vorið 2000 var tekin ákvörðun um að veita umtalsvert fjármagn úr ríkissjóði til vegamála og þá einkum árin 2002–2004. Þessa fjár var ætlað að afla meðal annars með sölu ríkiseigna. Árið 2002 var ætlað að inn kæmu í fjárframlög 2.300 m.kr. en hluta af því verður frestað, sjá kafla 1.6.

1.6. Frestun framkvæmda.
    Með fjárlögum 2002 er gert ráð fyrir að fresta framkvæmdum fyrir 1.616 m.kr. og er þessi fjárhæð dregin frá framlagi ríkisins með sérstakri fjáröflun.

1.7. Lánsfé.
    Árin 2002–2008 er gert ráð fyrir að endurgreiða lán sem tekið var vegna vegtenginga Hvalfjarðarganga og er sú greiðsla 40 m.kr. á ári. Auk þess verður á árunum 2002–2007 haldið áfram að greiða afborganir af lánum vegna kaupa á ferjum. Árið 2002 er þessi greiðsla rúmlega 260 m.kr.

II. SKIPTING ÚTGJALDA 2002–2005.
    Eins og fram kom í inngangi eru nokkrar breytingar gerðar á sundurliðun útgjalda. Er uppsetning áætlunarinnar færð nær uppsetningu fjárlaga og annarra stofnanaáætlana.
    Útgjöldum er nú skipt í þrjá meginkafla, þ.e. Rekstur og þjónustu, Viðhald og Stofnkostnað. Í gildandi áætlun eru kaflarnir fimm auk sex sérstaklega talinna verkefna.
    Til fyrsta kaflans, Rekstrar og þjónustu, teljast eftirtaldir kaflar gildandi vegáætlunar: Stjórn og undirbúningur, Almenn þjónusta og Vetrarþjónusta. Því til viðbótar eru verkefnin Til tilrauna og Til flóabáta og sérleyfa.
    Kaflinn Viðhald samsvarar kaflanum Viðhald þjóðvega í vegáætlun 2000–2004. Til kaflans Stofnkostnaður telst kaflinn Til nýrra þjóðvega í vegáætlun 2000–2004 og því til viðbótar verkefnin Til safnvega, Til landsvega, Til styrkvega og Til reiðvega.
    Hér á eftir verður gerð grein fyrir einstökum liðum áætlunarinnar.

2.1. Rekstur og þjónusta.
2.1.1. Yfirstjórn.
    Undir þennan lið falla liðirnir yfirstjórn og skrifstofa, og tæknilegur undirbúningur (2.1.1. og 2.1.2.) í vegáætlun 2000–2004. Til þessa liðar telst eftirfarandi starfsemi: Yfirstjórn Vegagerðarinnar, stjórnsýslusvið, tæknisvið og þróunarsvið. Þessi svið sjá um fjármál stofnunarinnar, bókhald og almennt skrifstofuhald í Reykjavík, fjárhags- og rekstraráætlanir, kostnaðareftirlit, lögfræði og starfsmannamál, hönnun verka, stjórnun verka og eftirlit með þeim, gerð áætlana, setningu staðla og ýmsar rannsóknir.
    Verkefni á þessu sviði hafa orðið æ umfangsmeiri með árunum. Stafar það ekki síst af því að framkvæmdirnar sem ráðist er í hafa stöðugt orðið stærri og flóknari. Þá þarf að leita umsagnar og samráðs við fleiri aðila en áður. Undirbúningur verkanna verður því tímafrekari og dýrari. Þá er vex stöðugt þörfin fyrir gerð staðla og annarra grunngagna, svo og gerð áætlana, tæknilegra og fjárhagslegra, og eftirlit með þeim. Mjög mikil vinna hefur reynst við stjórn og eftirlit nýrra verkefna varðandi fólks- og vöruflutninga og við gerð þjónustusamninga um almenningssamgöngur og eftirlit með þeim. Loks má nefna að auknar kröfur um upplýsingagjöf og þjónustu til vegfarenda auka kostnaðinn.
    Lagt er til að fjárveiting til þessa liðar verði 264 m.kr.

2.1.2. Upplýsingaþjónusta.
    Þessi liður er hluti liðar 2.1.3. Umferðareftirlit og þjónusta í vegáætlun 2000–2004. Upplýsingasöfnun um ástand vegakerfisins og um umferð hefur farið mjög vaxandi á undanförnum árum. Jafnframt hefur þörf á upplýsingagjöf til vegfarenda vaxið hröðum skrefum. Lagt er til að fjárveitingar verði 56 m.kr.

2.1.3. Umferðareftirlit.
    Þessi liður er einnig hluti liðar 2.1.3. Umferðareftirlit og þjónusta í vegáætlun 2000–2004.
    Verkefnum sem falla undir þennan lið fjölgar stöðugt. Frá ársbyrjun 1994 hefur umferðareftirlit Vegagerðarinnar annast eftirlit með þungaskatti sem áður var í höndum fjármálaráðuneytis.
    Frá árinu 1996 annast umferðareftirlit eftirlit með ökuritum og að reglum um hvíldartíma ökumanna sé fylgt. Á síðasta ári var bætt við leyfisveitingum og eftirliti með fólks-, vöru- og efnisflutningum og á þessu ári bætast við leyfisveitingar fyrir leigubifreiðar.
    Gert er ráð fyrir að ýmis verkefni á sviði umferðaröryggis sem áður tilheyrðu þessum lið verði flutt á liðinn öryggisaðgerðir sem gerð verður grein fyrir síðar.
    Lagt er til að fjárveiting verði 52 m.kr.

2.1.4. Þjónusta.
    Þessi liður samsvarar kafla 2.2. Almenn þjónusta og kafla 2.3. Vetrarþjónusta í vegáætlun 2000–2004.
    Áætlað hefur verið að fjárþörf til almennrar þjónustu sé um 1.500–1.600 m.kr. á ári. Meðalkostnaður við vetrarþjónustu hefur verið rúmlega 900 m.kr. á ári undanfarin fimm ár. Lagt er til að fjárveiting verði 2.194 m.kr.

2.1.4.1. Þjónustusvæði.
    Lagt er til að fjárveiting verði 300 m.kr. og verði varið til þess að greiða kostnað í umdæmum við stjórnun, upplýsingamiðlun og eftirlit með vegum auk margs annars sem stuðlar því að fólk komist leiðar sinnar á öruggan og þægilegan hátt. Ýmis sameiginleg og ófyrirséð verkefni verða einnig greidd af þessum lið.

2.1.4.2. Vegir og vegyfirborð.
    Lagt er til að fjárveiting verði 385 m.kr. en helstu kostnaðarliðir eru viðgerðir á bundnu slitlagi og malarvegum, vegheflun, rykbinding, lagfæring á öxlum (hliðarsvæði við akbraut) og aðrir þættir sem tengdir eru þjónustu á vegum.

2.1.4.3. Brýr og veggöng.
    Lagt er til að fjárveiting verði 60 m.kr. og henni verði varið til þess að greiða kostnað við umhirðu og minni háttar viðgerðir á brúm, ristarhliðum og undirgöngum, stærri vegræsum og jarðgöngum, svo og vegskálum og öðrum hrun- og snjóflóðavörnum.

2.1.4.4. Vegmerkingar og vegbúnaður.
    Lagt er til að fjárveiting verði 364 m.kr. og verði henni varið til þess að greiða kostnað við lýsingu með fram vegum, endurnýjun og viðhald á kantstikum, umferðarmerkjum og vegriðum, yfirborðsmerkingar á vegum og gerð og viðhald áningarstaða. Fjárþörf til þessara verkefna hefur aukist verulega á undanförnum árum, m.a. vegna aukinnar lýsingar og vaxandi krafna um yfirborðsmerkingar.

2.1.4.5. Þéttbýlisvegir.
    Fjárveitingum á þessum lið er varið til að greiða kostnað við þjónustu á þjóðvegum inni í þéttbýli.
    Vegagerðin hefur í flestum tilfellum samið við viðkomandi sveitarfélög um að annast þessa þjónustu og er það ástæða þess að hagkvæmt þykir að halda þessum þætti sem sérstökum lið en í eðli sínu er þjónusta á þessum vegum á engan hátt frábrugðin þjónustu á öðrum vegum.
    Lagt er til að fjárveiting verði 263 m.kr.

2.1.4.6. Vetrarþjónusta.
    Vetrarþjónusta tekur, auk snjómoksturs og hálkuvarnar, til kostnaðar í umdæmum við eftirlit og upplýsingaþjónustu við vegfarendur, viðgerða á minni háttar snjóvarnarvirkjum, svo og viðhalds á snjóstikum, merkinga og annars er varðar öryggi vegfaraenda að vetrarlagi. Kröfur til þessarar þjónustu aukast ört og þá ekki síst kröfur um auknar hálkuvarnir. Mun kostnaður því fara vaxandi.
    Eins og áður kom fram hefur meðalkostnaður við vetrarþjónustu verið rúmlega 900 m.kr. á ári undanfarin fimm ár, lægstur um 750 m.kr. 2001 en hæstur um 1.020 m.kr. 2000. Fjárveitingar undanfarinna ára hafa ekki nægt fyrir kostnaði nema árið 2001 og hafa safnast verulegar skuldir á þennan lið sem námu rúmlega 260 m.kr. um síðustu áramót.
    Lagt er til að fjárveiting verði 822 m.kr. sem er mun minna en æskilegt væri. Óhjákvæmilegt er að fjárveitingar hækki verulega á næstu árum, bæði til að mæta vaxandi kostnaði og til að greiða niður áðurnefnda skuld.

2.1.5. Almenningssamgöngur.
    Lagt er til að fjárveiting til þessa liðar verði 750 m.kr.

2.1.5.1. Ferjur og flóabátar.
    Af þessum lið eru greiddir rekstrarstyrkir til ferjurekstraraðila á leiðum sem falla undir ákvæði vegalaga, svo og kostnaður, afborganir af lánum og vextir vegna nýsmíði eða kaupa á ferjunum og búnaði þeirra. Greiðslur rekstrarstyrkja eru áætlaðar um 254 m.kr. á ári en stofnkostnaður, þ.m.t. afborganir og vextir af lánum, er áætlaður 263 m.kr.
    Rekstur fimm ferjuleiða hefur verið boðinn út og þá hefur aðeins ein leið ekki verið boðin út, þ.e. rekstur Mjóafjarðarferjunnar, en þar er í gildi þjónustusamningur, sem gerður var án útboðs.

2.1.5.2. Áætlunarflug.
    Árið 2001 var ákveðið að Vegagerðin hefði umsjón með því áætlunarflugi sem ríkið styrkir. Þetta kemur því inn í vegáætlun, sem nýr liður undir almenningssamgöngum. Á árinu 2001 voru sex áætlunarleiðir styrktar og sú sjöunda bættist við á árinu.

2.1.5.3. Sérleyfi.
    Af þessum lið eru greiddir styrkir til sérleyfishafa. Þeir fengu áður endurgreiddan hluta þungaskatts af akstri á sérleyfisleiðum samkvæmt lögum um fjáröflun til vegagerðar. Lögunum hefur nú verið breytt, endurgreiðslur þessar aflagðar en í staðinn hefur sérleyfishöfum verið greiddur styrkur af vegáætlun.
    Vegagerðin hefur gert þjónustusamninga við stóran hluta sérleyfishafa og ætlunin er að því verði lokið fyrir 31. ágúst 2002. Samkvæmt lögum um fólksflutninga, vöruflutninga og efnisflutninga á landi skal útboð á öllum sérleyfum hafa farið fram eigi síðar en árið 2005.

2.1.6. Rannsóknir.
    Fjárveiting til þessa liðar er 1% af mörkuðum tekjum til vegagerðar í samræmi við 24. gr. vegalaga. Er áætlað að halda áfram rannsóknum sem snerta ýmsa þætti vegagerðar og umferðar.

2.2. Viðhald vega.
    Viðhald vega miðar að því að varðveita verðmæti þeirra og hæfni til að bera þann umferðarþunga, sem þeim er ætlaður.
    Viðhald vega tekur til endurnýjunar bundinna slitlaga, endurnýjunar malarslitlaga, styrkinga og endurbóta vega með bundnu slitlagi og vega með malarslitlagi, viðhalds brúa og varnargarða, öryggisaðgerða og vatnaskemmda.
    Árið 1979 voru vegir með bundnu slitlagi 270 km en þeir voru 3.966 km í árslok 2001 og hafa því að meðaltali bæst við 168 km á ári. Aukningin var mest á árunum 1985–1988 eða 266 km á ári. Gera má ráð fyrir að meðalendingartími efra burðarlags þessara vega sé um 20 ár. Um síðustu áramót voru stofn- og tengivegir um 47% af heildarlengd stofn- og tengivega, en umferðin á þeim var um 94% af heildarumferðinni. Með hliðsjón af þeim miklu verðmætum sem liggja í vegum með bundnu slitlagi, aukinni þungaumferð og kröfum vegfarenda um betra vegyfirborð, er nauðsynlegt að leggja meiri áherslu á styrkingu vega með bundnu slitlagi. Slík verkefni verða að falla undir viðhald meðan ekki fæst nýbyggingafjármagn til þeirra endurbóta.
    Þörf fyrir fé til viðhalds hefur verið áætluð um 2.800–2.900 m.kr. og eykst með aukinni umferð. Hér er lagt til að fjárveiting verði 2.070 m.kr.

2.2.1.     Endurnýjun bundinna slitlaga.
    Viðhald bundinna slitlaga er mjög þýðingarmikið vegna varðveislu þeirra miklu verðmæta sem þar liggja. Frestun á yfirlögn getur á mjög skömmum tíma valdið eyðileggingu á öllu slitlaginu. Þar sem bundið slitlag í vegakerfinu eykst á hverju ári eykst þörf fyrir fé til viðhalds. Hér þarf því að ná mestum hluta af áætlaðri þörf. Lagt er til að fjárveiting verði 860 m.kr. Er þá gert ráð fyrir að viðhald bundinna slitlaga á stofn- og tengivegum í þéttbýli sé innifalið í þessum lið.

2.2.2. Endurnýjun malarslitlaga.
    Stofn- og tengivegir með malarslitlagi eru nú um 4.350 km, en um þá fer einungis um 6% af umferðinni á stofn- og tengivegum. Mikill hluti malarvega er án raunverulegs slitlags þar sem fjármagn til endurnýjunar þeirra hefur einungis verið um 60% af áætlaðri þörf, en þar sem malarvegir styttast í takt við lengingu vega með bundnu slitlagi ætti fjárþörf til þeirra að fara minnkandi.
    Hér er lagt til að fjárveiting verði 235 m.kr.

2.2.3. Styrkingar og endurbætur.
    Þessum lið er ætlað að kosta styrkingar og endurbætur á stofn- og tengivegum með bundnu slitlagi og á malarvegum eða á um 8.200 km. Fyrst og fremst er um að ræða styrkingu á efra burðarlagi veganna sem brotnar niður undan aukinni og sífellt þyngri umferð en einnig er um að ræða eðlilegt slit og niðurbrot. Fyrir rúmlega 20 árum hófst að verulegu marki uppbygging vega með bundnu slitlagi en 20 ár eru talin eðlilegur endingartími burðarlaga. Nú þegar er komin fram veruleg þörf fyrir endurbætur á þessum vegum og mun hún fara vaxandi á næstu árum, sérstaklega þegar horft er til þeirrar miklu lengingar á vegum með bundnu slitlagi sem varð á 9. áratugnum.
    Þörf fyrir fjármagn til styrkingar vega er metin á um 900 m. kr. á ári og er þá ekki tekið tillit til annarra endurbóta. Gera má ráð fyrir að fjárþörf til styrkingar vega með bundnu slitlagi aukist á næstu árum, en fjárþörf malarveganna standi nokkuð í stað. Hér er lagt til að fjárveiting verði 543 m.kr. Styrking stofn- og tengivega í þéttbýli er hér innifalin.

2.2.4. Brýr, varnargarðar og veggöng.
    Verðmæti brúa er metið á um 28 milljarða kr. og eðlileg viðhaldsþörf um 1% á ári eða 280 m.kr. Rúmlega helmingur brúa í þjóðvegakerfinu er byggður á árunum 1950–1970. Þessar brýr voru hvorki byggðar fyrir þann umferðarhraða sem er núna né heldur þungann sem fer eftir vegunum. Endurbyggingu þeirra miðar hægt og hafa fjárveitingar til viðhalds brúa ekki dugað til að halda í horfinu.
    Auk þessa er að koma að eðlilegu viðhaldi á nokkrum stórum mannvirkjum sem byggð voru eftir 1970 og viðhald jarðganga fer vaxandi. Lagt er til að fjárveiting til þessa liðar verði 179 m.kr.

2.2.5. Öryggisaðgerðir.
    Fjárveitingum samkvæmt þessum lið er varið til að auka öryggi í umferðnni. Að undanförnu hefur verið unnið að endurbótum á hættulegum stöðum og sérstök áhersla lögð á breikkun einbreiðra brúa. Unnið er að úttekt á slysastöðum og að endurbótum á þeim eftir sérstakri framkvæmdaáætlun. Einnig hefur verið samið um samstarf við lögregluna um aukið umferðareftirlit á vegum úti. Lagt er til að fjárveiting verði 130 m.kr.

2.2.6. Vatnaskemmdir.
    Fjárþörf þessa liðar er eðlilega breytileg. Lagt er til að fjárveiting verði 123 m.kr.

2.3. stofnkostnaður.
    Útgjöldum er skipt niður á vegflokka í samræmi við gildandi vegalög.
    Sundurliðun verkefnaflokka er í samræmi við gildandi vegáætlun fyrir árin 2000–2004 með þeirri undantekningu til einföldunar að ekki er sundurliðað eftir uppruna fjármagns (viðbótarfé, sérstök verkefni) heldur er framkvæmdum sem fjármagnaðar eru utan markaðra tekna raðað eftir því sem við á í framkvæmdaflokka með öðrum framkvæmdum.
    Í samræmi við fjárlög ársins 2002 er gert ráð fyrir að fresta stofnkostnaðarframkvæmdum fyrir 1.519 m.kr. á þessu ári, sbr. kafla 0.1. hér að framan.
    Gert er ráð fyrir að útfærsla frestunarinnar verði nánar ákvörðuð við meðhöndlun tillögunnar á Alþingi og eru upphæðir til einstakra liða settar fram án tillits til frestunarinnar. Við meðhöndlun tillögunnar á Alþingi þarf einnig að taka tillit til frestunar framkvæmda árið 2001 en hún nam 700 m.kr. Fjármagn til endurgreiðslu láns vegna vegtenginga Hvalfjarðarganga er innifalið í liðnum stórverkefni.

2.3.1. Stofnvegir.
    Lagt er til að skipting fjárveitinga til einstakra verkefnaflokka verði eins og sýnt er á eftirfarandi töflu.

2002
m.kr.
1. Almenn verkefni
500
2. Höfuðborgarsvæðið
1.287
3. Stórverkefni
2.476

2.3.1.1. Almenn verkefni.
    Fjárveiting er í samræmi við gildandi vegáætlun.

2.3.1.2. Höfuðborgarsvæðið.
    Hér er miðað við að höfuðborgarsvæðið nái frá Hafnarfirði (vegamótum Krýsuvíkurvegar) í suðri og til Mosfellsbæjar (vegamótum Þingvallavegar) í norðri. Til austurs er miðað við vegamót Hringvegar og Hafravatnsvegar. Á þessu svæði er þjóðvegaumferð langmest og slys tíðust. Þörf fyrir úrbætur hefur vaxið ört á undanförnum árum og ýmsar kostnaðarsamar aðgerðir aðkallandi. Á þessu svæði er einnig unnt að fækka umferðarslysum mest. Fjárveitingar til þessa liðar taka mið af gildandi vegáætlun og eru teknar saman fjárveitingar sem voru á lið 2.5.1.2. Höfuðborgarsvæðið og fjárveitingar til vega á ofangreindu svæði sem voru á lið 2.5.8. Sérstök verkefni.

2.3.1.3. Stórverkefni.
    Fjárveitingar eru miðaðar við gildandi vegáætlun og teknar saman fjárveitingar til stórverkefna, viðbótarfé og sérstök verkefni eftir því sem við á.

2.3.2. Jarðgangaáætlun.
    Þegar fjallað var um vegáætlun fyrir árin 2000–2004 á Alþingi var ákveðið að fella jarðgangaáætlun inn í hana og þannig var áætlunin samþykkt árið 2000.
    Hér er gert ráð fyrir að sami háttur verði hafður á og eru fjárveitingar nú í samræmi við gildandi vegáætlun fyrir árin 2000–2004.
    Undirbúið hefur verið útboð jarðganga milli Reyðarfjarðar og Fáskrúðsfjarðar og á milli Ólafsfjarðar og Siglufjarðar.

2.3.3. Tengivegir.
    Lagt er til að fjárveiting til tengivega verði 477 m.kr.

2.3.4. Til brúargerðar.
    Lagt er til að fjárveiting til brúa verði 266 m.kr. Þessu til viðbótar koma fjárveitingar til brúargerðar af liðnum stórverkefni. Gert er ráð fyrir að fjárveitingin skiptist eins og áður á milli brúa 10 m og lengri og smábrúa.
    Að undanförnu hefur mest áhersla verið lögð á breikkun eða endurbyggingu einbreiðra brúa og endurbyggingu brúa sem ekki þola þá þyngd ökutækja sem heimiluð hefur verið í samræmi við reglur sem í gildi eru á Evrópska efnahagssvæðinu Gert er ráð fyrir að áfram verði megináhersla lögð á þessi atriði.

2.3.5. Ferðamannaleiðir.
    Í gildandi vegáætlun fyrir árin 2000–2004 er samnefndur liður með 86 m.kr. fjárveitingu á ári 2002–2004. Þeirri upphæð var skipt jafnt á milli kjördæma. Í sömu áætlun eru 300 m.kr. á hverju áranna 2002–2004 veittar til jaðarbyggða og ferðamannaleiða undir liðnum Sérstök verkefni. Þessari upphæð er skipt annars vegar til ákveðinna verkefna og hins vegar fá öll kjördæmi utan höfuðborgarsvæðisins jafna upphæð.
    Lagt er til að þessir liðir verði sameinaðir og fjárveiting verði 386 m.kr.

2.3.6. Orku- og iðjuvegir.
    Þessi liður kom inn í vegáætlun 2000–2004 við samþykkt hennar árið 2000. Gert var ráð fyrir fjárveitingum árin 2000–2003.
    Lagt er til að fjárveiting verði 300 m.kr., og er það sama tala og í gildandi vegáætlun.

2.3.7. Girðingar.
    Lagt er til að fjárveiting til þessa verkefnis verði 55 m.kr.

2.3.8. Landsvegir.
    Landsvegir eru vegir yfir fjöll og heiðar, þar á meðal vegir sem tengja saman landshluta og ekki teljast stofnvegir eða tengivegir auk vega innan þjóðgarða og vega til nokkurra fjölsóttra ferðamannastaða.
    Gert er ráð fyrir að viðhald og almenn þjónusta hluta þessara vega (þeirra sem opnir eru fyrir allri almennri umferð) verði greidd af liðum 2.1.4. og 2.2. Mikil þörf er á auknum fjárveitingum til þessa liðar vegna stóraukinnar umferðar ferðamanna.
    Lagt er til að fjárveiting verði 125 m.kr.

2.3.9. Safnvegir.
    Safnvegir nú svara að mestu til sýsluvega áður. Lagt er til að fjárveiting verði 282 m.kr.

2.3.10. Styrkvegir.
    Styrkvegir eru ýmsir vegir sem áður gátu verið sýsluvegir eða aðrir fjallvegir, sbr. 16. gr. vegalaga.
    Lagt er til að fjárveiting verði 54 m.kr.

2.3.11. Reiðvegir.
    Lagt er til að fjárveiting verði 39 m.kr.

Frestun stofnkostnaðar.
    Eins og nefnt var í kafla 2.3. nemur frestun stofnkostnaðar 1.519 m.kr. Eftir er að ákvarða útfærslu frestunarinnar og er miðað við að það verði gert af Alþingi. Þá þarf einnig að taka tillit til frestunar framkvæmda 2001 fyrir 700 m.kr.