Ferill 681. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 1209  —  681. mál.
Nefndarálitum till. til þál. um flugmálaáætlun árið 2002.

Frá samgöngunefnd.    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Jóhann Guðmundsson frá samgönguráðuneyti og Þorgeir Pálsson og Hauk Hauksson frá Flugmálastjórn Íslands.
    Flugmálaáætlun þessi er frábrugðin fyrri áætlunum að því leyti að hún tekur eingöngu til eins árs. Ástæður þessa eru raktar í framhaldsnefndaráliti meiri hluta nefndarinnar með frumvarpi til laga um breytingar á lagaákvæðum er varða samgönguáætlun o.fl. og vísast til þess sem þar segir, en samhliða því áliti leggur nefndin til breytingu sem veitir Alþingi heimild til að samþykkja flugmálaáætlun í því formi sem hér er lagt til.
    Nefndin leggur til eina breytingu á tillögunni. Lagt er til að lántökuheimildir verði hækkaðar um 125 millj. kr., sem færast á lið 3.2 Reykjavíkurflugvöllur, flugbrautir og hlöð. Upphaflegar áætlanir frá desember 1998 gerðu ráð fyrir að framkvæmdir við völlinn kostuðu 1.520 millj. kr., um 1.814 millj. kr. á verðlagi dagsins í dag. Verktakinn hefur fengið greiddar rúmlega 93 millj. kr. í verðbætur það sem af er og er gert ráð fyrir að þessar greiðslur verði 125 millj. kr. í verklok. Breytingin er nauðsynleg til að Flugmálastjórn geti lokið framkvæmdum samkvæmt samningi við verktaka og lagfæringu þeirra svæða sem blasa við frá göngustígum og umferðaræðum í nágrenni flugvallarins.
    Í fylgiskjali með nefndaráliti þessu eru taldar upp framkvæmdir sem nauðsynlegt er að tryggja fjármagn til á árinu 2003 svo að útboð og aðrar undirbúningsaðgerðir geti hafist.
    Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt með breytingu sem gerð er grein fyrir í sérstöku þingskjali.
    Þorgerður K. Gunnarsdóttir, Jón Bjarnason og Lúðvík Bergvinsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 15. apríl 2002.Guðmundur Hallvarðsson,


form., frsm.


Hjálmar Árnason.


Arnbjörg Sveinsdóttir.Magnús Stefánsson.


Sigríður Ingvarsdóttir.


Kristján Möller,


með fyrirvara.Fylgiskjal.


Bréf samgönguráðuneytis til samgöngunefndar.
(14. apríl 2002.)


    Vísað er til tillögu til þingsályktunar um flugmálaáætlun 2002 sem nú liggur fyrir Alþingi. Í framsöguræðu samgönguráðherra með þeirri tillögu voru ástæður þess að nú er aðeins lögð fram tillaga um eitt ár útskýrðar. Eftir sem áður er mikilvægt að Flugmálastjórn hafi heimild til ráðstöfunar fjármagns til tiltekinna framkvæmda á árinu 2003 vegna nauðsynlegs undirbúnings þeirra og útboða á þessu ári sem hafa í för með sér skuldbindingar á næsta ári. Um er að ræða eftirfarandi verkefni:

Reykjavíkurflugvöllur.
Rif gamalla bygginga, 45 m.kr.
Samningar eru í gangi um uppkaup á húsum til niðurrifs. Nú þegar liggur fyrir heimild fjármálaráðuneytisins til kaupa á byggingunum.
Björgunarbátur-sjósetning, 10 m.kr.
Mikil umræða hefur farið fram um björgunarbátamál vallarins. Ekki hefur verið tekin endanleg ákvörðun um gerð aðstöðu en að hámarki er kostnaður við að koma henni upp talinn geta orðið allt að 20 m.kr. og er gert ráð fyrir að helmingur þess kostnaðar félli til á árinu 2002 og helmingur á árinu 2003.

Akureyrarflugvöllur.
Tækjageymsla 61 m.kr.
Á árinu 2002 er gert ráð fyrir 3 m.kr. vegna deiliskipulags, hönnunar og útboðs tækja- og sandgeymslu. Nauðsynlegt er að heimild liggi fyrir um að framkvæmd geti hafist árið 2003. Áætlanir gera ráð fyrir að framkvæmdakostnaður á árinu 2003 verði um 61 m.kr.

Ísafjarðarflugvöllur.
Flugturn 15 m.kr.
Núverandi turn þarfnast gagngerðrar endurnýjunar og er talið heppilegri kostur að byggja nýjan turn áfastan við véla- og tækjageymslu, vegna samnýtingar starfsmanna í flugturni og á vélaverkstæði og samnýtingar starfsmannaaðstöðu. Frumhönnun að flugturni liggur fyrir. Verkið yrði boðið út á þessu ári og gert er ráð fyrir að ráðast í byggingu turnsins í ár og ljúka árið 2003. Heildarkostnaður er áætlaður 15 m.kr. og gert ráð fyrir að greiðslur til verktaka verði 10 m.kr. á þessu ári og 5 m.kr. á því næsta.

Tækjasjóður.
Vegna brýnnar þarfar á endurnýjun snjóruðnings-, slökkvi- og björgunarbúnaðar sem fyrst á árinu 2003 er mikilvægt að hægt sé að bjóða út og ganga til samninga á árinu 2002 en miða við að greiðslur fari fram 2003. Því er lagt til að gert verði ráð fyrir að heimild verði til ráðstöfunar 70 m.kr. á næsta ári.

    Þær fjárheimildir sem hér eru nefndar eru allar afleiðing af ákvörðunum sem að teknar eru með samþykkt þingsályktunartillögu um flugmálaáætlun 2002. Í því millibilsástandi sem varir þar til samgönguáætlun er samþykkt er mikilvægt að starfsemin skaðist ekki. Því lítur ráðuneytið svo á að með sendingu þessa bréfs sé samgöngunefnd kunnugt um þau áform ráðuneytisins að heimila Flugmálastjórn undirbúning og skuldbindingar vegna þeirra verkefna sem nefnd eru hér að ofan þegar á þessu ári.

f.h.r.
Jóhann Guðmundsson