Ferill 623. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 1268  —  623. mál.




Nefndarálit



um till. til þál. um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 159/2001, um breytingu á XVIII. viðauka (Öryggi og hollustuhættir á vinnustöðum, vinnuréttur og jafnrétti kynjanna) við EES-samninginn.

Frá utanríkismálanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Nikulás Hannigan og Önnu Jóhannsdóttur frá utanríkisráðuneyti og Hönnu S. Gunnsteinsdóttur frá félagsmálaráðuneyti.
    Með tillögunni er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 159/2001 frá 11. desember 2001, um breytingu á XVIII. viðauka (Öryggi og hollustuhættir á vinnustöðum, vinnuréttur og jafnrétti kynjanna) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og til að fella inn í samninginn tilskipun ráðsins 2001/23/EB frá 12. mars 2001, um samræmingu á lögum aðildarríkjanna um vernd launamanna við aðilaskipti að fyrirtækjum, atvinnurekstri eða hluta fyrirtækja eða atvinnurekstrar.
    Eitt meginmarkmið tilskipunar nr. 2001/23/EB, sem er endurútgefin tilskipun nr. 77/187/EBE með innfelldum breytingum sem leiddu af tilskipun nr. 98/50/EB, er að vernda réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum eða hluta fyrirtækja. Tilskipun nr. 77/187/EBE hefur verið innleidd í íslenskan rétt með lögum nr. 77/1993, um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum, en eftir stóð að taka upp ákvæði tilskipunar 98/50/EB og er það gert nú með innleiðingu hinnar endurútgefnu tilskipunar. Innleiðing tilskipunarinnar kallar á lagabreytingar hér á landi og hefur félagsmálaráðherra lagt fram frumvarp til laga um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum (þskj. 990, 629. mál).
    Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt.
    Lára Margrét Ragnarsdóttir og Þórunn Sveinbjarnardóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 12. apríl 2002.



Sigríður A. Þórðardóttir,


form., frsm.


Rannveig Guðmundsdóttir.


Magnús Stefánsson.



Vilhjálmur Egilsson.


Steingrímur J. Sigfússon.


Einar K. Guðfinnsson.



Jónína Bjartmarz.