Ferill 239. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 1350  —  239. mál.
Nefndarálitum till. til þál. um aukinn rétt foreldra vegna veikinda barna.

Frá heilbrigðis- og trygginganefnd.    Nefndin hefur fjallað um málið.
    Nefndin tekur undir efni tillögugreinarinnar en gerir fáeinar athugasemdir við atriði sem fram koma í greinargerð með tillögunni. Með lögum nr. 95/2000 var foreldrum tryggður réttur til töku foreldraorlofs vegna veikinda barna og þar með lögfest helstu efnisatriði í tilskipun Evrópusambandsins frá 3. júní 1996, um rammasamning um foreldraorlof. Lögin tryggja einnig að réttur foreldris samkvæmt ráðningarsamningi raskist ekki vegna töku foreldraorlofs. Skoða verður greinargerð tillögunnar með hliðsjón af þessu.
    Nefndin telur óhjákvæmilegt að breyta orðalagi 1. málsl. tillögugreinarinnar. Málsliðinn má skilja þannig að nefndinni, sem slíkri, sé beinlínis ætlað að tryggja betur rétt foreldra samkvæmt tillögunni. Slíkar valdheimildir verða ekki veittar með ályktun Alþingis einni saman, enda ljóst af samhenginu að nefndinni er einungis ætlað að gera tillögur um leiðir til að tryggja rétt foreldra til launa í fjarveru úr vinnu vegna veikinda barna.
    Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt með svofelldri

BREYTINGU:

    Á eftir orðunum „það verkefni að“ í 1. málsl. 1. mgr. komi: gera tillögur um það hvernig unnt sé að.

         Ólafur Örn Haraldsson, Einar Oddur Kristjánsson og Lára Margrét Ragnarsdóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 18. apríl 2002.Jónína Bjartmarz,


form., frsm.


Ásta Möller.


Katrín Fjeldsted.Ásta R. Jóhannesdóttir.


Margrét Frímannsdóttir.


Þuríður Backman.