Ferill 538. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 1407  —  538. mál.




Nefndarálit



um till. til þál. um stefnu í byggðamálum fyrir árin 2002 2005.

Frá meiri hluta iðnaðarnefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Kristján Skarphéðinsson frá iðnaðarráðuneyti, Jón Kalmansson, starfsmann verkefnisstjórnar um byggðaáætlun, Halldór Halldórsson, Jónu Valgerði Kristjánsdóttur, Ingimar Halldórsson og Eystein Gunnarsson frá sveitarfélögum á Vestfjörðum, Þórð Skúlason og Gunnlaug Júlíusson frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Elísabetu Benediktsdóttur frá Atvinnuþróunarfélagi Austurlands, Benedikt Guðmundsson frá Atvinnuþróunarfélagi Eyjafjarðar, Ólaf Sveinsson frá Samtökum sveitarfélaga Vesturlands, Elínu R. Líndal frá Húnaþingi vestra, Magnús B. Jónsson frá Skagaströnd, Theodór Bjarnason og Bjarka Jóhannesson frá Byggðastofnun, Baldur Valgeirsson frá Iðnþróunarfélagi Norðurlands vestra, Ágúst Þór Bjarnason frá Blönduósbæ og Ingibjörgu Hafstað frá Sveitarfélaginu Skagafirði. Umsagnir bárust frá Landssíma Íslands hf., vinnuhópi sjö atvinnuþróunarfélaga, Nýsköpunarsjóði atvinnulífsins, Hólaskóla, Framleiðnisjóði landbúnaðarins, Samtökum sveitarfélaga á Vesturlandi, Eyþingi, Iðntæknistofnun, Kvasi samtökum fræðslu- og símenntunarmiðstöðva á landsbyggðinni, Samtökum sveitarfélaga á Norðurlandi vestra, Háskólanum á Akureyri, Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum, Alþýðusambandi Íslands, Íslandssíma hf., Félagi íslenskra framhaldsskóla, Búnaðarþingi 2002, Atvinnuþróunarsjóði Suðurlands, Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands, Vélstjórafélagi Íslands, Fræðslumiðstöð Vestfjarða, Háskólanum í Reykjavík, Lánasjóði landbúnaðarins, Samtökum sunnlenskra sveitarfélaga, Fræðsluneti Austurlands, Byggðastofnun, Bandalagi háskólamanna, Heilbrigðisstofnun Suðurnesja og Þjóðhagsstofnun. Jafnframt bárust nefndinni gögn frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga og sveitarfélögum á Vestfjörðum.
    Meiri hluti nefndarinnar mælir með samþykkt hinna almennu markmiða þingsályktunarinnar og telur að í þeim felist mikil sóknarfæri til byggðarþróunar á landinu. Meiri hlutinn telur að við umræður um byggðaáætlun þjóðarinnar sé mikilvægt að hafa í huga skynsamlega þróun byggðar á landinu öllu, jafnt svonefndu höfuðborgarsvæði sem landsbyggðinni, ásamt samhengi þeirra þátta. Höfuðborg þrífst naumast án landsbyggðar og landsbyggðin þarf á höfuðborg að halda. Því er mikilvægt að stuðla að skynsamlegu vægi beggja þeirra þátta.
    Meiri hlutinn tekur undir þau rök sem fram koma í greinargerð með tillögunni (bls. 29 og 30) þar sem færð eru rök fyrir þörf á byggðastefnu. Þar er bent á nýtingarsjónarmið og fjölbreytileika í lífsháttum og atvinnulífi. Með nýtingarsjónarmiðum er vísað til mikilvægis þess að fólk búi úti um land og sinni auðlindum landsins í sjávarútvegi, landbúnaði, orkumálum, ferðaþjónustu og öðrum þáttum. Án vinnuafls verða auðlindirnar tæpast nýttar. Fjölbreytileiki í lífsháttum og atvinnulífi styður sérkenni menningar og eflir sjálfsmynd þjóðarinnar.

Prentað upp.

Er það ekki síst mikilvægt á tímum alþjóðavæðingar. Með hliðsjón af þessu er brýnt að skoða jafnræði þegnanna með tilliti til búsetu og aðgengis að almennri þjónustu velferðarkerfis. Það eru með öðrum orðum þjóðfélagsleg rök sem mæla með byggðaaðgerðum.
    Meiri hlutinn styður þær hugmyndir til aðgerða er fylgja tillögunni. Sjálf tillögugreinin er í fimm stafliðum um almenn markmið byggðaáætlunar. Undir þau tekur meiri hlutinn. Í greinargerð er síðan kynnt framkvæmdaáætlun ráðuneytisins í 22 töluliðum. Meiri hlutinn telur að í þeim felist mikil sóknarfæri fyrir landsbyggðina alla en vekur jafnframt athygli á að þar er um að ræða framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar og stofnana hennar. Meiri hlutinn hvetur til þess að þeirri áætlun verði fylgt fast eftir.
    Meiri hlutinn mælir með því að ríkisstjórnin taki jafnframt til skoðunar eftirtalda þætti:
    1. Eðlilegt er að skilgreina nokkra byggðakjarna og skilgreina hlutverk þeirra og stöðu í þjóðfélaginu. Í ljósi byggðaþróunar þykir nefndinni rétt að taka mið af eftirfarandi skiptingu:
     a.      Byggðakjarnar: Meiri hlutinn tekur undir hlutverk Akureyrar sem mótvægis við höfuðborgarsvæðið. Meiri hlutinn telur jafnframt að byggðakjarnar skuli byggðir upp á Ísafirði og á Miðausturlandi. Með því móti væru sköpuð boðleg búsetuskilyrði fyrir stærstu landshluta. Í hverjum byggðakjarna er eðlilegt að styðjast við sérkenni hvers staðar og byggja upp innviði á þeim grunni, sbr. bls. 10 í greinargerð með tillögunni.
     b.      Vaxtarsvæði: Auk meginkjarna og byggðakjarna telur meiri hlutinn rétt að skilgreina vaxtarsvæði þar sem hið opinbera tryggir grunnþjónustu.
     c.      Jaðarsvæði. Fjalla þarf sérstaklega um búsetuskilyrði á jaðarsvæðum, þ.e. svæðum sem falla utan a- og b-liðar.
    Fram kom hjá fulltrúum Sambands íslenskra sveitarfélaga að ofangreind skipting hafi ekki átt sér stað. Meiri hlutinn telur mikilvægt að þeirri vinnu verði lokið fyrir 1. janúar 2003 í samstarfi ríkis og sveitarfélaga. Jafnframt telur meiri hlutinn mikilvægt að unnið verði landshlutaskipulag fyrir landið allt.
    2. Meiri hlutinn tekur undir skoðanir Sambands íslenskra sveitarfélaga, Háskólans á Akureyri og fleiri þess efnis að stækkun sveitarfélaga sé árangursrík byggðaaðgerð. Með því móti verða sveitarfélögin betur í stakk búin til að taka að sér verkefni og veita þá þjónustu sem íbúar kalla eftir.
    Í umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga er tekið undir þessa hugsun. Meiri hlutinn telur rétt að fylgjast með umfjöllun aðalfundar sambandsins um mál þetta og að Alþingi bregðist við í samræmi við þær niðurstöður.
    3. Meiri hlutinn tekur undir þau sjónarmið að góðar samgöngur séu byggðastefnu þjóðarinnar mikilvægar. Samræmd samgönguáætlun, sem liggur fyrir Alþingi, svarar því kalli að verulegu leyti enda er þar gert ráð fyrir greiðum samgöngum á sjó, lofti og landi milli byggðasvæða. Meiri hlutinn vekur sérstaka áherslu á gildi jarðganga milli helstu byggðakjarna. Þannig má segja að helstu byggðasvæði landsins verði tengd meginkjörnum.
    Meiri hlutinn telur einnig að sérstaklega þurfi að gefa gaum samgöngum við Vestmannaeyjar. Lagt er til að strax verði skoðaðir kostir samgangna við Vestmannaeyjar, einkum hagkvæmni þess að reka svifnökkva frá Vestmannaeyjum upp á Bakkafjöru, hugsanlega hafnaraðstöðu við Bakkafjöru, bættan skipakost í ferjusiglingum sem og tryggar flugsamgöngur.
    4. Meiri hlutinn telur tillöguna fela í sér mörg tækifæri til sóknar í íslensku atvinnulífi um land allt. Meiri hlutinn vill bæta við og leggja áherslu á eftirtalda þætti:
    A. Meiri hlutinn leggur áherslu á að efla rannsóknir og nýsköpun sem tengist auðlindum þjóðarinnar í landbúnaði og sjávarútvegi í því skyni að efla verðmætasköpun. Benda má á árangur m.a. á Siglufirði við vinnslu á rækjuskel, lyfjagerð úr jurtum og ámóta þætti sem áunnist hafa á síðustu árum.
    Meiri hlutinn tekur undir tillögur nr. 8 og nr. 16 í III. kafla greinargerðar með tillögunni en telur að áætlun um möguleika til sóknar í líftækni á sviði sjávarútvegs skuli kynnt að lokinni athugun eigi síðar en 1. nóvember 2003.
    B. Mikil vakning er meðal bænda um að nýta smávirkjanir til raforkuframleiðslu. Meiri hlutinn telur veruleg sóknarfæri geta fólgist í því. Getur þar verið um að ræða beina orkusölu inn á dreifikerfi raforku en ekki síður möguleika á að nýta orkuna á staðnum til verðmætasköpunar. Dæmi um hið síðarnefnda má nefna frá Írlandi þar sem bújörð með lítilli heimarafstöð var breytt í listmunaverkstæði. Árlega starfa þar nú um 20 manns og ársveltan er um einn milljarður kr.
    Meiri hlutinn mælir með því að Orkustofnun verði falið að hafa umsjá með úttekt á rennslismælingum vegna smávirkjana í samstarfi við atvinnuþróunarfélög einstakra svæða. Tryggja þarf fjármagn til þessa verkefnis. Þá hvetur meiri hlutinn til að Byggðastofnun leiti atvinnuskapandi verkefna er sinna mætti á jörðum með smávirkjunum.
    Tími: 2003.
    C. Vegna breyttra atvinnuhátta er þörf fyrir þrífösun rafmagns orðin aðkallandi á mörgum bæjum úti á landsbyggðinni. Skapast hefur vandi af þessum sökum og hindrar ástand rafmagnsmála í sumum sveitum alla sókn í atvinnulífi. Meiri hlutinn fagnar skýrslu iðnaðarráðuneytisins um þörf fyrir þrífösun rafmagns í landinu og hvetur til að framkvæmdir eftir þeirri áætlun hefjist þegar á þessu ári.
    D. Meiri hlutinn tekur undir tillögu nr. 19 í III. kafla greinargerðar með tillögunni um eflingu ferðaþjónustu. Fram hefur komið, m.a. hjá aðilum í ferðaþjónustu, að ekki þurfi það einungis að gerast eftir þeim leiðum, sem um er fjallað í tillögunni, heldur einnig með því að leggja áherslu á að lengja ferðamannatímabilið. Háannatími ferðaþjónustu nær aðeins yfir um þrjá mánuði ársins. Aðra mánuði nýtist fjárfesting í greininni illa. Því er mikilvægt að laða hingað ferðamenn einnig á þeim tíma. Flug til Íslands þykir tiltölulega dýrt vegna fjarlægðar landsins frá Evrópu og Ameríku. Er þar talin liggja ein meginástæða þess að treglega gengur að ná til landsins ferðafólki á þeim tíma. Meiri hlutinn mælir með því að við stefnumótun í ferðaþjónustu verði tekið til alvarlegrar skoðunar að endurskoða álögur hins opinbera á flugfargjöld og aðra þætti er beinlínis snerta ferðaþjónustu þannig að fjölga megi ferðum erlendra ferðamanna til landsins yfir vetrarmánuðina. Slík aukning ætti að nýtast vel flestum byggðarlögum.
    E. Meiri hlutinn mælir með því að ríkisstjórn geri áætlun um flutning ríkisstofnana út á landsbyggðina. Með bættum samgöngum og fjarskiptum hafa aðstæður breyst verulega varðandi aðgengi fólks að stofnunum. Því má færa rök fyrir því að skynsamlegt geti verið að dreifa stofnunum ríkisins betur um landið en verið hefur. Eðlilegt má telja að stofnanir, sem hafa starfsgrundvöll sinn á landsbyggðinni, séu staðsettar þar. Meiri hlutinn mælir með því að fyrir árslok 2002 skili ríkisstjórn tillögum um slíkan flutning. Við flutning af þessum toga er einnig eðlilegt að kanna hvort hluta af starfsemi einstakra stofnana megi ekki koma fyrir í byggðakjörnum úti á landsbyggðinni eftir aðstæðum á hverjum stað. Benda má á fyrirmynd að slíku þar sem rannsóknaraðilar nokkurra stofnana mynda sameiginlega starfsstöð á Ísafirði. Reynslan af slíkum flutningi og samstarfi hefur verið góð. Meiri hlutinn telur að slík rannsóknarsetur í samstarfi nokkurra stofnana megi vel staðsetja á nokkrum byggðasvæðum og í mörgum tilvikum færa starfið nær vettvangi.
    Meiri hlutinn tekur afdráttarlaust undir þau sjónarmið að nýjar stofnanir ríkisins skuli staðsettar á landsbyggðinni sem og sú aukning sem kann að verða í nýjum stofnunum.
    F. Talið er að fiskeldi muni eflast um heim allan í náinni framtíð. Þannig verja Norðmenn verulegum fjárhæðum til þorskeldis, auk hins mikla laxeldis. Sérfræðingar telja að eldi sjávarfisks sé að mörgu leyti hentugra við strendur Íslands en víða annars staðar. Því er mikilvægt að Íslendingar verði ekki eftirbátar annarra á sviði fiskeldis. Nokkur reynsla er fengin af því hérlendis og telur nefndin mikilvægt að byggja á þeirri reynslu. Þannig er árangur Stofnfisks í kynbótum fisks á heimsmælikvarða. Fiskeldi Eyjafjarðar hefur náð betri árangri en nokkur annar aðili í veröldinni við klak og eldi á lúðu. Hafrannsóknastofnunin hefur náð jákvæðum árangri í klaki og eldi þorsks. Áframeldi þeirra seiða (á Hauganesi við Eyjafjörð og á Nautseyri við Ísafjarðardjúp) lofar góðu um framhaldið. Talið er að með skipulögðum aðgerðum gætu Íslendingar framleitt með klaki og eldi 30–40.000 tonn af þorski til vinnslu að verðmæti 14–16 milljarðar kr. á ári. Meiri hlutinn telur að markviss uppbygging þorskeldis hérlendis kæmi sér vel fyrir efnahagslíf þjóðarinnar og nýttist ekki síst sjávarbyggðum.
    Í ljósi þessa mælir meiri hlutinn með því að haustið 2002 verði teknar upp viðræður við innlenda og erlenda aðila um stofnun hlutafélags um klak- og kynbótastöð fyrir þorskeldi. Enn fremur verði stefnt að aukinni þorskseiðaframleiðslu hjá Hafrannsóknastofnuninni í allt að 100 þúsund seiða framleiðslu á ári næstu tvö árin. Þá tekur meiri hlutinn undir nefndarálit meiri hluta sjávarútvegsnefndar Alþingis um að sjávarútvegsráðherra verði heimilað að veita sérstakar aflaheimildir allt að 500 lestum til veiða á þorski til áframeldis. Heimildum þessum verði jafnað niður á allt að sjö fyrirtæki/einstaklinga. Þá skuli Hafrannsóknastofnunin hið fyrsta hefja rannsóknir á aðstæðum í fjörðum og víkum fyrir sjókvíaeldi.
    5.     Menntun og menning eru lykilþættir í byggðaþróun. Sérkenni íslenskrar menningar er í senn lykill að sjálfsmynd þjóðarinnar og aðdráttarafl. Segja má að hvert byggðarlag búi yfir menningarlegri auðlind í formi sögu og ýmissa listgreina.
    A. Um leið og meiri hlutinn tekur undir tillögu nr. 17 í III. kafla greinargerðar með tillögunni fagnar hann hugmyndum í skýrslu samgönguráðherra um stofnun átakssjóðs í menningartengdri ferðaþjónustu. Meiri hlutinn hvetur til þess að slíkum sjóði verði sem fyrst komið á. Úthlutun úr honum verði til verkefna í einstökum sveitarfélögum sem vilja byggja upp og efla aðgengi ferðamanna að menningarlegum verðmætum hvers staðar. Um getur verið að ræða söfn, endurgerð og viðgerð menningarmuna eða listaverka, ritun, tónlist eða aðra menningar- og listræna þætti.
    Tími: Viðræður hefjist haustið 2002.
    B. Fátt eflir jafnmikið samkennd innan sveitarfélaga sem góður árangur íþróttafélags þeirra. Meiri hlutinn vekur athygli á því að þátttaka íþróttafélaga af landsbyggðinni í Íslands- eða bikarmótum er til muna kostnaðarsamari en sambærilegra félaga af höfuðborgarsvæðinu. Getur verið um að ræða margra milljóna króna kostnað aukalega vegna ferðalaga. Þátttaka íþróttafólks af landsbyggðinni styrkir íþróttamót landsmanna. Því mælir meiri hlutinn með því að komið verði upp Ferðasjóði íþróttafélaga til að jafna ferðakostnað íþróttafélaga í Íslandsmótum og bikarkeppni. Sjóðurinn verði vistaður hjá menntamálaráðuneytinu og úr honum verði úthlutað eftir reglum sem menntamálaráðherra setur.
    Tími: 2003.
    C. Mestar framfarir þjóða hafa orðið vegna aukinnar menntunar þeirra. Mikilvægt er að landsmenn allir hafi greiðan aðgang að menntun á sem flestum sviðum. Meiri hlutinn mælir með tillögum nr. 12 og nr. 20 í III. kafla greinargerðar með tillögunni í þessu skyni. Til viðbótar telur meiri hlutinn eðlilegt að stutt verði við bakið á þeim símenntunarstöðvum sem starfandi eru. Reynsla af slíkum stöðvum er afar jákvæð og hefur skapað aukna festu í þeim byggðarlögum þar sem þær eru starfræktar. Þörf atvinnulífs og fólks fyrir símenntun er orðinn grunnþáttur í menntastefnu og um leið byggðastefnu.
    Tími: 2002–2005.
    6. Meiri hlutinn mælir með því að annað hvert ár verði haldið Byggðaþing fyrir tilstuðlan iðnaðarráðherra. Á Byggðaþingi kynni einstök landsvæði stöðu sína og áætlanir í byggðamálum. Á grundvelli þeirra upplýsinga leggi svo iðnaðarráðherra tillögu til þingsályktunar fyrir Alþingi. Byggðaþing verði haldið í tengslum við ársfund Byggðastofnunar.
    Tími: Byggðaþing haldið fyrst árið 2004.
    7. Meiri hlutinn lítur svo á að Nýsköpunarmiðstöð atvinnulífs sé frekari útfærsla á starfsemi Impru á vegum Iðntæknistofnunar. Hins vegar séu með stofnun hennar ekki gerðar neinar grundvallarbreytingar á starfsemi Byggðastofnunar. Mikilvægt er að náið og gott samstarf verði milli Nýsköpunarmiðstöðvar og Byggðastofnunar vegna tengsla Byggðastofnunar við atvinnuþróunarfélögin. Til að tryggja þau tengsl mælir nefndin með því að Byggðastofnun tilnefni einn fulltrúa í stjórn Nýsköpunarmiðstöðvarinnar.
    Nefndin telur jafnframt mikilvægt að styrkja varanlega rekstur atvinnuþróunarfélaganna ásamt eignarhaldsfélögum og atvinnuþróunarsjóðum.
    8. Meiri hlutinn mælir með því að Byggðastofnun verði falið að meta gildi byggðaáætlunar, setja viðmið og mæla árangur af framkvæmd hennar. Sú könnun verði kynnt á Byggðaþingi.
    9. Meiri hlutinn tekur undir tillögu nr. 2 í III. kafla greinargerðar með tillögunni um mikilvægi þess að efla samstarf sjóða ríkisins sem tengjast nýsköpun og atvinnugreinum. Nefndin telur jafnframt að enn skynsamlegra gæti verið að sameina umræddar stofnanir að mestu leyti í eina stofnun og hvetur til að skoðun á kostum þess verði hafin þegar í stað og lokið fyrir árslok 2002 og niðurstöður þá birtar. Með sameiningu næst betri sýn yfir atvinnulífið og byggðir og skilvirkni eykst til muna.
    10. Meiri hlutinn er fylgjandi skynsamlegri nýtingu vistvænnar orku Íslendinga, m.a. til stóriðju. Bendir meiri hlutinn í því skyni á hve jákvæð áhrif stóriðja á Grundartanga og í Hafnarfirði hefur haft á efnahagslíf þjóðarinnar, byggðirnar umhverfis sem og fjölmörg afleidd störf er upp hafa sprottið í samstarfi við og vegna stóriðju.
    Því hvetur meiri hlutinn til þess að stöðugt verði unnið að tækifærum til skynsamlegrar nýtingar hinnar vistvænu orku þjóðarinnar.
    11. Meiri hlutinn mælir með að iðnaðarráðherra hefji þegar í stað undirbúning þess að koma á fót Hönnunarmiðstöð Íslands. Hönnun er eitt fyrsta skref framleiðslu. Íslendingar virðast hafa náð góðum árangri á því sviði. Flestir hönnuðir starfa hins vegar sem einyrkjar. Með samstilltu átaki á vegum Hönnunarmiðstöðvar mætti efla til muna árangur og verðmætasköpun tengda hönnun, framleiðslu, kynningu og sölu margvíslegra þátta. Slík miðstöð yrði hvatning fyrir hönnuði og framleiðendur um land allt og gæti vakið alþjóðlega athygli á íslenskri hönnun og framleiðslu. Írar komu slíkri miðstöð á stofn fyrir nokkrum árum. Markaðsátak á hennar vegum er talið skila söluverðmæti er nemur um 10 milljörðum kr. árlega.
    Tími: vorið 2003.
    Meiri hlutinn leggur til að tillagan verði samþykkt óbreytt.

Alþingi, 27. apríl 2002.



Hjálmar Árnason,


form., frsm.


Guðjón Guðmundsson.


Kristján Pálsson.



Helga Guðrún Jónasdóttir.


Kjartan Ólafsson.


Ármann Höskuldsson.