Ferill 33. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Nr. 32/127.

Þskj. 1480  —  33. mál.


Þingsályktun

um stöðu óhefðbundinna lækninga.


    Alþingi ályktar að fela heilbrigðisráðherra að skipa nefnd er geri úttekt á stöðu óhefðbundinna lækninga hér á landi og beri hana saman við stöðu mála annars staðar á Norðurlöndunum, í Evrópusambandinu og í Bandaríkjunum. Með óhefðbundnum lækningum er hér átt við nálastungumeðferð (acupuncture), smáskammtalækningar (homeopathy), lið- og beinskekkjulækningar (osteopathy), nudd o.fl.
    Atriði sem nefndinni ber að kanna sérstaklega:
     1.      Hvaða menntun er í boði á þessu sviði og hver er menntun leiðbeinenda sem þar starfa.
     2.      Hvaða reglur gilda um viðurkenningu náms og starfsréttindi á þessu sviði.
     3.      Að hvaða marki samvinna og samstarf eigi sér stað á milli þeirra sem stunda óhefðbundnar lækningar og hefðbundinna heilbrigðisstétta. Jafnframt að kanna hvort og þá að hvaða marki læknar og aðrar heilbrigðisstéttir nýti sér aðferðir óhefðbundinna lækninga í störfum sínum.
     4.      Hver staða óhefðbundinna lækninga er með tilliti til skatta og þá einkum virðisaukaskatts.
    Enn fremur skal nefndin safna saman aðgengilegum niðurstöðum úr rannsóknum sem gerðar hafa verið á áhrifum og virkni þessara aðferða og á þeirri áhættu sem þeim fylgir.
    Nefndin skal sjá til þess að gerð verði könnun á viðhorfi almennings til óhefðbundinna lækninga og hversu algengt það er að fólk leiti til þeirra sem bjóða slíka þjónustu.
    Þá skal nefndin skila tillögum til heilbrigðisráðherra um hvernig best sé að koma til móts við vaxandi umsvif á sviði óhefðbundinna lækninga hér landi og meta hvort rétt kunni að vera að viðurkenna í auknum mæli nám í þessum greinum með veitingu starfsréttinda.
    Nefndin skal skila skýrslu til Alþingis um framvindu mála 1. apríl 2003 og endanlegum niðurstöðum 1. október 2003.

Samþykkt á Alþingi 3. maí 2002.