Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1493, 127. löggjafarþing 621. mál: framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum (gæðastýrð sauðfjárframleiðsla).
Lög nr. 101 15. maí 2002.

Lög um breytingu á lögum nr. 99/1993, um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, með síðari breytingum.


1. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 38. gr. laganna:
  1. 2. mgr. orðast svo:
  2.      Heimilt er að flytja greiðslumark milli lögbýla. Aðilaskipti að greiðslumarki taka þó ekki gildi fyrr en staðfesting Bændasamtaka Íslands liggur fyrir. Framsal greiðslumarks skal taka gildi 1. janúar ár hvert og beingreiðslur greiðast framsalshafa frá sama tíma. Tilkynna skal Bændasamtökum Íslands framsal fyrir 15. janúar ár hvert vegna beingreiðslna fyrir viðkomandi ár.
  3. Í stað orðsins „tvö“ í 4. mgr. kemur: þrjú.


2. gr.

     Í stað orðanna „1. janúar 2003“ í 3. mgr. 40. gr. laganna kemur: 1. janúar 2004.

3. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 41. gr. laganna:
  1. Í stað tímabilsins „2003–2007“ kemur: 2004–2007.
  2. Við bætast tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
  3.      Með gæðastýrðri sauðfjárframleiðslu er átt við framleiðslu sauðfjárafurða samkvæmt gæðakerfi Bændasamtaka Íslands sem landbúnaðarráðherra staðfestir. Gæðakerfið nær til eftirtalinna þátta: landnota, aðbúnaðar og umhverfis, sauðfjárskýrsluhalds, jarðræktar, fóðrunar, heilsufars og lyfjanotkunar. Gæðakerfið byggist á því að skjalfesta framleiðsluaðferðir og framleiðsluaðstæður.
         Sauðfjárframleiðendur sem óska eftir að taka upp gæðastýrða sauðfjárframleiðslu skulu senda skriflega umsókn til búnaðarsambands á því svæði þar sem framleiðslan fer fram. Umsóknum skal skilað eigi síðar en 30. júní ef framleiðendur óska eftir álagsgreiðslum fyrir næsta almanaksár. Ef umsókn er endurnýjuð, sbr. 45. gr., er umsóknarfrestur til 15. desember. Búnaðarsamböndin fara yfir umsóknir og senda þær framkvæmdanefnd búvörusamninga sem heldur skrá yfir umsækjendur og aðila sem fengið hafa staðfest að þeir uppfylli skilyrði um gæðastýrða sauðfjárframleiðslu.


4. gr.

     Á eftir 41. gr. laganna koma sjö nýjar greinar og breytist röð annarra greina og millivísanir samkvæmt því.
     Hinar nýju greinar orðast svo:
     
     a. (42. gr.)
     Framkvæmdanefnd búvörusamninga tilkynnir framleiðendum sem sækja um að taka upp gæðastýrða sauðfjárframleiðslu hvort þeir uppfylla skilyrði samkvæmt lögum þessum. Framkvæmdanefnd búvörusamninga skal byggja tilkynningar sínar á eftirtöldum gögnum:
  1. Staðfestingu Bændasamtaka Íslands á því hvort einstakir framleiðendur hafi staðist lögbundna skoðun búfjáreftirlitsmanns um meðferð og aðbúnað búfjár, hvort framleiðendur hafi skilað fullnægjandi sauðfjárskýrslum og hvort þeir hafi sinnt skráningum í gæðahandbók á tilskilinn hátt.
  2. Staðfestingu Landgræðslu ríkisins á því hvort landnýting framleiðenda samrýmist skilyrðum skv. 43. gr.

     Landbúnaðarráðherra er heimilt að fela aðilum sem hlotið hafa faggildingu samkvæmt lögum nr. 100/1992, um vog, mál og faggildingu, að annast framkvæmd eftirlitsþátta með gæðastýrðri sauðfjárframleiðslu skv. 1. mgr.
     
     b. (43. gr.)
     Framleiðendur skulu hafa aðgang að nægu nýtanlegu beitilandi fyrir búfé sitt. Landnýting skal vera sjálfbær þannig að framleiðslugeta landsins sé nægileg og nýting innan þeirra marka að gróðurfar sé í jafnvægi eða framför að mati Landgræðslu ríkisins. Landgræðsla ríkisins leggur mat á land þeirra sem óska eftir að taka upp gæðastýrða sauðfjárframleiðslu og staðfestir með tilkynningu til framleiðenda og framkvæmdanefndar búvörusamninga hvort framleiðendur uppfylla skilyrði um landnýtingu. Matið skal byggjast á stærð gróðurlendis og gerð þess, gróðurfari og framleiðni ásamt fyrirliggjandi gögnum um nýtingu og ástand, t.d. vegna rofs, uppblásturs o.fl., samkvæmt nánari reglum sem landbúnaðarráðherra setur. Telji Landgræðsla ríkisins að einstakir framleiðendur uppfylli ekki skilyrði um landnýtingu skal hún greina þeim frá ástæðum þess. Gildir það einnig ef Landgræðsla ríkisins telur ástæðu til að afturkalla staðfestingu sem þegar hefur verið gefin út vegna þess að nýting hefur breyst eða ef í ljós kemur að nýting er umfram þol landsins. Landgræðsla ríkisins skal jafnframt kynna framleiðanda þau úrræði sem hann á samkvæmt lögum þessum og reglum um gæðastýrða sauðfjárframleiðslu, en þau felast í að semja tímasetta landbótaáætlun eða landnýtingaráætlun til allt að 10 ára. Áætlunin er því aðeins gild að hún hljóti staðfestingu Landgræðslu ríkisins.
     Framleiðendur, sem uppfylla ekki skilyrði um landnýtingu skv. 1. mgr. og hafa ekki fengið staðfestingu Landgræðslu ríkisins á landbótaáætlun eða landnýtingaráætlun innan fimm mánaða frá því að Landgræðsla ríkisins gerði athugasemdir við landnýtingu, uppfylla ekki skilyrði um gæðastýrða sauðfjárframleiðslu. Sama gildir ef framleiðendur framfylgja ekki áður staðfestri landbótaáætlun eða landnýtingaráætlun. Skal Landgræðsla ríkisins senda skriflega tilkynningu til framkvæmdanefndar búvörusamninga. Berist tilkynningin síðar en 15. febrúar leiðir hún þó ekki til þess að álagsgreiðslur vegna gæðastýringar falli niður fyrir sama almanaksár.
     
     c. (44. gr.)
     Búfjáreftirlitsmenn sveitarfélaga annast eftirlit með skráningum í gæðahandbók samkvæmt lögum þessum.
     Ef einstakir framleiðendur uppfylla ekki skilyrði um gæðastýrða sauðfjárframleiðslu, önnur en þau sem fjallað er um í 43. gr., skulu búfjáreftirlitsmaður eða Bændasamtök Íslands, eftir því sem við á, gefa þeim hæfilegan frest til úrbóta, að hámarki fjórar vikur, ef ætla má að þeir geti bætt úr annmörkunum og uppfylli eftir þann tíma skilyrði um gæðastýrða sauðfjárframleiðslu. Frestur til úrbóta skal þó ekki veittur ef um vísvitandi ranga skráningu eða upplýsingagjöf er að ræða. Bændasamtök Íslands tilkynna framkvæmdanefnd búvörusamninga fyrir 1. júlí ár hvert ef einstakir framleiðendur hafa ekki staðist lögbundið búfjáreftirlit, eftirlit með skráningum í gæðahandbók eða ekki skilað fullnægjandi sauðfjárskýrslum.
     
     d. (45. gr.)
     Réttur framleiðenda til álagsgreiðslna skv. 1. mgr. 41. gr. fellur því aðeins niður að þeir uppfylli ekki lengur skilyrði um gæðastýrða sauðfjárframleiðslu og tilkynnir framkvæmdanefnd búvörusamninga framleiðendum það eigi síðar en 31. júlí ár hvert ef réttur þeirra fellur niður það almanaksár.
     Framleiðendur sem missa rétt til álagsgreiðslna skv. 1. mgr. 41. gr. geta ekki öðlast rétt til álagsgreiðslna að nýju fyrr en næsta almanaksár. Óski framleiðendur eftir að öðlast rétt til álagsgreiðslna að nýju á næsta almanaksári verða þeir að endurnýja umsóknir sínar um að taka upp gæðastýrða sauðfjárframleiðslu skv. 3. mgr. 41. gr.
     
     e. (46. gr.)
     Ágreiningi um hvort einstakir framleiðendur uppfylla skilyrði um gæðastýrða sauðfjárframleiðslu er heimilt að skjóta til úrskurðarnefndar sem sker úr um ágreininginn. Í nefndinni eiga sæti þrír menn skipaðir af landbúnaðarráðherra til tveggja ára í senn, einn án tilnefningar og skal hann vera formaður nefndarinnar, einn samkvæmt tilnefningu Rannsóknastofnunar landbúnaðarins og einn samkvæmt tilnefningu Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri. Varamenn skulu skipaðir með sama hætti.
     Úrskurðarnefnd skal afgreiða mál eins fljótt og unnt er. Hafi nefndin ekki fellt úrskurð fyrir 15. október ár hvert fellur réttur framleiðenda til álagsgreiðslna fyrir það almanaksár ekki niður.
     Kostnaður af störfum nefndarinnar greiðist úr ríkissjóði.
     
     f. (47. gr.)
     Framkvæmdanefnd búvörusamninga hefur yfirumsjón með gæðastýrðri sauðfjárframleiðslu en er heimilt að leita aðstoðar hjá öðrum aðilum varðandi tiltekna þætti gæðastýringarinnar.
     
     g. (48. gr.)
     Landbúnaðarráðherra setur nánari reglur um framkvæmd gæðastýrðrar sauðfjárframleiðslu, m.a. um undirbúning, landnýtingu, inntak og umfang gæðakerfis, störf úrskurðarnefndar, tilhögun álagsgreiðslna o.fl. Meðal annars er landbúnaðarráðherra heimilt í reglugerð að kveða á um að þeim sem óska eftir að taka upp gæðastýrða sauðfjárframleiðslu sé skylt að sækja undirbúningsnámskeið um gæðastýringuna.

5. gr.

     Við lögin bætast tvö ný ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
  1. Samningur milli ríkisstjórnar Íslands og Bændasamtaka Íslands um framleiðslu sauðfjárafurða frá 11. mars 2000 skal tekinn til endurskoðunar á árinu 2002.
  2. Vegna frestunar á gildistökuákvæði um gæðastýrðan framleiðsluferil til 1. janúar 2004 skal sú fjárhæð sem beingreiðslur lækka um á árinu 2003, sbr. 39. gr., renna til greiðslu sérstaks álags á framleitt dilkakjöt á sama hátt og uppkaupaálag, sbr. 4. mgr. 38. gr.


6. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi og gilda til 31. desember 2007.

Samþykkt á Alþingi 3. maí 2002.