Skráning ökutækja

Miðvikudaginn 29. janúar 2003, kl. 13:41:17 (3159)

2003-01-29 13:41:17# 128. lþ. 67.1 fundur 401. mál: #A skráning ökutækja# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., Fyrirspyrjandi JÁ
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur, 128. lþ.

[13:41]

Fyrirspyrjandi (Jóhann Ársælsson):

Hæstv. forseti. Ég verð að segja að ég er ekki fyllilega ánægður með að hæstv. ráðherra skuli vera svona ánægð með ástandið vegna þess að það er alveg ljóst að þetta er töluvert vandamál. Ef bílainnflytjendur eða kaupendur bíla breyta ekki háttum sínum og sjá til þess að við nýskráningu bíla komi fram framleiðsluár þá verður þessi vandi áfram við líði.

Svo er hitt atriðið, þ.e. innflutningur notaðra bíla sem er út af fyrir sig alveg sérstakt vandamál í þessu. Enginn veit í raun um það þegar hann kaupir notaðan bíl hér á markaðnum nema að hann hafi verið fluttur inn notaður frá útlöndum og að nýskráningarárið sem kemur fram í skráningarskírteininu segi eingöngu til um það. En það gæti hafa verið búið að nota þennan bíl jafnvel tvö, þrjú ár erlendis eða lengur. Ég sé ekki að neytendur geti sætt sig við að erfiðara sé að kaupa sér bíl og vita um hann það sem þeir þurfa að vita en hest á hestamannamóti því þar eru menn farnir að viðhafa reglur um að skrá þannig að þeir geti fylgst með því hvað þeir eru að kaupa.

Ég segi eins og er að mér finnst að hæstv. ráðherra ætti að láta fara fram könnun á þessu, skoða þessar tölur vandlega og velta því svolítið fyrir sér hvort ekki sé ástæða til þess að reyna að hafa áhrif á það að þær upplýsingar sem neytendum sem kaupa bíla á markaðnum eru nauðsynlegar, séu til staðar þannig að dýrir hlutir eins og þessir séu ekki keyptir eins og kötturinn í sekknum.