Fjáraukalög 2003

Fimmtudaginn 06. mars 2003, kl. 11:55:07 (4455)

2003-03-06 11:55:07# 128. lþ. 90.2 fundur 653. mál: #A fjáraukalög 2003# (aðgerðir í atvinnu- og byggðamálum) frv. 58/2003, KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur, 128. lþ.

[11:55]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Ég hygg að við getum dregið þann lærdóm af þeim verkefnum sem ég nefndi að stjórnvöld hefðu ákveðið að ráðast í með beinum hætti eða koma að að þau hafa skilað árangri. Það segir okkur að við getum haft áhrif á byggðaþróunina með beinum aðgerðum, hvort sem þær eru almennar eða sértækar. Þess vegna nefndi ég þessi dæmi af höfuðborgarsvæðinu til þess að undirstrika að þróun, hvort sem hún er á landsbyggðinni eða höfuðborgarsvæðinu, er ekki tilviljun. Hún er afleiðing af því sem menn ákvarða á hverjum tíma.

Mér finnst nefnilega umræða um byggðamál allt of oft hafa snúist um það að menn telji að það þurfi aðgerðir á landsbyggðinni en svo sé einhver þróun sem enginn þurfi að koma að og enginn komi að en engu að síður leiði til þess að byggðin vaxi og dafni á höfuðborgarsvæðinu. Það er auðvitað ekki þannig. Það gerist ekki af sjálfu sér, heldur vegna ákvarðana sem menn taka og þá ekki hvað síst stjórnvöld.

Ég er alveg á sömu skoðun og ég hef verið, herra forseti, og tel að menn eigi að skilgreina og ákvarða stefnu stjórnvalda fyrir landið í heild. Ég tel að menn eigi sérstaklega að skilgreina stöðu höfuðborgarinnar í þeirri stefnu sem segir þá hvað það er, hverjar skyldur ríkisvaldsins eru gagnvart sveitarfélaginu sem er jafnframt höfuðborg. Ég held að það sé algerlega nauðsynlegt að hafa það skýrt og ná góðu samkomulagi um það því að það felur líka í sér ákvörðun um aðgerðir gagnvart öðrum sveitarfélögum sem að öðru leyti þurfa þá að vera sambærilegar.