Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 55. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 55  —  55. mál.Tillaga til þingsályktunarum aðgerðir til verndunar búsetu og menningarlandslags í Árneshreppi.

Flm.: Einar K. Guðfinnsson, Karl V. Matthíasson, Kristinn H. Gunnarsson,


Guðjón A. Kristjánsson, Einar Oddur Kristjánsson.


    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að setja á stofn nefnd er vinni að gerð tillagna um aðgerðir til verndunar búsetu og menningarlandslags í Árneshreppi í Strandasýslu á grundvelli samþykktar norrænu ráðherranefndarinnar frá 12. nóvember 1996 og leita eftir víðtæku samstarfi heimamanna og félagasamtaka í þeim tilgangi.

Greinargerð.


    Tillaga þessi var flutt á síðasta þingi en varð þá eigi útrædd og er því er endurflutt nú.
    Þjóðfélag sem á samfélag á borð við Árneshrepp í Strandasýslu er auðugt. Sveitarfélagið hefur algjöra sérstöðu hér á landi, m.a. vegna landfræðilegrar legu. Sauðfjárrækt er ráðandi atvinnugrein, en síðustu ár hefur þess verið freistað að skjóta öðrum stoðum undir atvinnulífið. Allnokkur útgerð á smábátum er stunduð frá Norðurfirði og ferðamannastraumur um Árneshrepp hefur vaxið að undanförnu.
    Eigi að síður hefur byggðin átt undir högg að sækja. Flutningsmenn þessarar tillögu telja brýnt að þeirri þróun sé snúið við og að búseta í Árneshreppi verði treyst. Í því skyni þarf að efla forsendur byggðarinnar. Mestu skiptir að íbúarnir fái notið staðarkostanna, sem augljóslega snúa að sjávarútvegi, landbúnaði og ferðaþjónustu, en einnig að efnahagslegri, félagslegri og menningarlegri sérstöðu sem óumdeilanlega er fyrir hendi í Árneshreppi.
    Stjórn Landverndar samþykkti árið 1998 ályktun um að hrinda af stað tilraunaverkefni um verndun menningarumhverfis landslags hér á landi (sjá fylgiskjal I). Undir þetta var tekið á aðalfundi Landverndar árið 1999 og hvatt til þess að leitað yrði til íbúa Árneshrepps í Strandasýslu í þessu skyni. Hefur síðan verið unnið að þessu máli með margvíslegu móti. Fram hefur komið jákvæð afstaða Árneshrepps gagnvart þessari hugmynd, sbr. bréf oddvita Árneshrepps frá 21. desember 1998 (sjá fylgiskjal II). Dagana 17.–18. mars 2001 var efnt til ráðstefnu í Árneshreppi þar sem þessi mál voru m.a. á dagskrá og hlaut hugmyndin góðar viðtökur.
    Hugmyndin um verndun menningarminja og menningararfs á rætur sínar að rekja til samþykktar ráðherranefndar Norðurlanda frá 12. september 1996 um framkvæmdaáætlun um verndun menningarumhverfis. Á fyrrnefndri ráðstefnu í Árneshreppi flutti Jón Helgason, fyrrverandi alþingismaður og þáverandi formaður Landsverndar, ávarp þar sem hann færði fram rök fyrir því að unnið skyldi „að því að samþykkt norrænu ráðherranefndarinnar yrði ekki dauður bókstafur, heldur skyldi þegar í stað hafist handa við að sýna viljann í verki,“ eins og hann komst að orði. Vék hann síðan sérstaklega að aðstæðum í Árneshreppi og sagði þá m.a.:
    „Fólki hefur fækkað ört í byggðarlaginu síðustu áratugi eftir uppgang á fyrri hluta aldarinnar. Vegna þess fámennis ætti tiltölulega lítið fjármagn að nægja til að leiða í ljós, hvort að gagni geti komið einhver þau úrræði, sem eru föl fyrir krónur og aura. Byggðin er skýrt afmörkuð, svo auðvelt verður að meta áhrif aðgerða, og aðstæður svo sérstakar, að teljast verður illkvittni að fyllast öfund vegna einhvers stuðnings í þessu skyni við hana.
    Með þessum rökum lagði Landvernd fram tillögu um, að ríkisvaldið ákvæði að gera 5–10 ára tilraun hér í Árneshreppi til að styrkja búsetu á jaðarsvæði með raunhæfum aðgerðum í samræmi við samþykkt norrænu ráðherranefndarinnar og Norðurlandaráðs. Það yrði gert með þeim hætti að íbúar Árneshrepps skyldu spurðir, hvað ríkisvaldið gæti gert til að fá þá fram til samstarfs við að varðveita þennan menningararf með gróandi mannlíf í byggðarlaginu.
    Það eru að sjálfsögðu fyrst og fremst íbúarnir sjálfir, sem geta gefið góð ráð og leiðbeiningar um hvað þurfi til, þó að einhver atriði liggi í augum uppi. Framtíð þess hlýtur auðvitað hér eftir sem hingað til að byggjast á því, að gæði náttúrunnar til lands og sjávar verði nýtt með þeim hætti, að afkoma þeirra sem að því vinna verði viðunandi.“
    Mikilvægt er að áfram verði unnið að framgangi málsins. Ljóst er að það snertir ýmis ráðuneyti og stofnanir sem þurfa að koma að verkinu, enda er hér um að ræða nýstárlega nálgun gagnvart verkefni af þessu tagi. Því er nauðsynlegt að sett verði á laggirnar nefnd sem fari betur ofan í málin, móti stefnu og leggi fram fyrir stjórnvöld til að vinna eftir. Verkefni af þessu tagi ætti ekki að þurfa að taka langan tíma og ýmsar ákvarðanir sem það snerta væri hægt að taka án þess að vinnunni væri að fullu lokið. Því er brýnt að hafist verði handa hið fyrsta til þess að unnt sé að móta stefnu um mikilvægt mál sem ekki þolir langa bið.


Fylgiskjal I.


Ályktun Landverndar frá 1998 um tilraunaverkefni
um verndun menningarumhverfis landslags.

    Stjórn Landverndar tekur undir samþykkt norrænu ráðherranefndarinnar 12. nóvember 1996 um framkvæmdaáætlun um verndun menningarumhverfis. Beinir stjórnin þeirri eindregnu áskorun til ríkisstjórnarinnar að gera nú þegar markvisst átak til að hefja framkvæmd hennar hér.
    Stjórnin bendir í því sambandi sérstaklega á Árneshrepp á Ströndum, þar sem í því afmarkaða byggðarlagi hafa á liðnum öldum verið stundaðir þeir atvinnuhættir til lands og sjávar, sem sýna glögga mynd af lífsbaráttu genginna kynslóða. Þar er ennþá lifandi mannlíf sem forsenda fyrir varðveislu menningararfsins. Engu að síður er ljóst, að engan tíma má missa til að glata ekki tækifærinu til að fá íbúa byggðarlagsins til aðstoðar og samstarfs við það verkefni.

Greinargerð.

    Í framkvæmdaáætlun, sem Norræna ráðherranefndin samþykkti 12. nóv. 1996, er lögð áhersla á verndun menningarminja og setja þannig þriðja hjólið undir umhverfisvagninn eins og Ragnar Frank Kristjánsson, fulltrúi Íslands í verkefnahópnum sem undirbjó áætlunina, segir. Hingað til hefur verið lögð áhersla á verndun náttúru annars vegar og mengunarmál hins vegar og er að verða almennur skilningur á, að lífsnauðsynlegt er að koma þróun þeirra á farsæla braut.
    Með þriðja þættinum, menningararfinum, er átt við menningarminjar í landslagi, þ.e. söguminjar við ströndina (verbúðir, uppsátur, vita o.s.frv.), hefðbundinn landbúnað þeirrar tíðar, hlunnindabúskap og mannlífið, sem aðlagaði sig aðstæðum og lifði af landsins gæðum.
    Í framkvæmdaáætluninni er sérstaklega bent á eftirfarandi áherslusvið:
          Sérstöðu og lífskraft norrænnar strandmenningar.
          Menningarverðmæti landbúnaðarsvæða.
          Ferðaþjónustu og afþreyingu í menningarumhverfinu.
          Norðurlönd í alþjóðlegu samstarfi.
    Hér er um að ræða afar umfangsmikið verkefni og því nauðsynlegt að finna sér afmarkað svið til að hefjast handa við fyrsta skrefið, þar sem fengist þá mikilvæg reynsla og hvatning til að halda áfram. En á hverju skal byrja?
    Það er augljóst að of seint er að hugsa um varðveislu menningar á svæðum, sem þegar eru komin í eyði, horfin menning verður aldrei endurvakin. Því verður að hefjast handa, þar sem mannlíf er ennþá fyrir hendi.
    Í framkvæmdaáætlun Norðurlandaráðs er sagt að markmiðið sé að stuðla að varðveislu norrænnar strandmenningar með því að draga fjölbreytileika hennar og ríkidæmi fram í dagsljósið og þar verði unnið samkvæmt þeirri meginreglu að setja markið eins hátt og aðstæður leyfa. Það er þáttur í að varðveita menningarumhverfið, sameiginlegan menningararf Norðurlanda, sem grundvöll sjálfbærrar þróunar til langs tíma.
    Vegna menningarlegs gildis landbúnaðarsvæða þarf að skapa grundvöll fyrir breyttum viðhorfum til jarðræktarumhverfis og þróunar sveitanna. Þegar jarðir fara í eyði tekur órækt og hnignun við. Þar má nefna fjalla- og heiðabýli og staði við sjávarsíðu og inni í fjörðum, þar sem víða er bæði stundaður búskapur og fiskveiðar.
    Þegar lesnar eru þessar setningar úr framkvæmdaáætluninni, sem hér er vitnað til, og ýmislegt fleira sem þar stendur, höfðar þar margt til Árneshrepps á Ströndum. Þar var um aldir lifað af fjölbreyttum landkostum og hlunnindum lands og sjávar. Auk hefðbundins landbúnaðar má nefna rekasæld, fuglatekju, selveiði og fiskveiðar, þar á meðal hákarlaveiði. Og á fyrri hluta þessarar aldar voru reistar tvær síldarverksmiðjur í hreppnum, í Ingólfsfirði og Djúpuvík, sem ennþá standa miklar leifar af. Enn lifir og starfar í sveitinni fólk, sem man og tók þátt í vinnubrgöðum sem lítt höfðu breyst um aldir.
    Í Árneshreppi hefur því þróast í aldanna rás merkilegt samfélag og íbúar þar voru á fimmta hundrað árið 1940. Nú eru þeir aðeins um áttatíu og vegna grisjunar byggðar á þessum slóðum er nú orðin nærri 100 km fjarlægð til næsta byggðarlags og leiðin þangað á landi getur lokast marga mánuði á veturna vegna snjóa.
    Það er því ljóst, að bregðast þarf skjótt við, ef takast á að koma í veg fyrir algjöra eyðingu byggðarinnar. Fari svo mun sú menning, sem þar hefur dafnað, hverfa algjörlega og verður aldrei endurvakin. Þar með yrði þjóðin öll fyrir óbætanlegu tjóni, því að slík endalok eru ekki fyrst og fremst áfall fyrir fólkið, sem býr þar enn, heldur íslenska menningu og sögu.
    Það er því verkefni og skylda þjóðfélagsins að gera það, sem í mannlegu valdi stendur, til að koma í veg fyrir slíkt. Það á því ekki að gerast með þeim hugsunarhætti að spyrja, hvað þurfi að gera fyrir íbúana, heldur hvað þjóðfélagið geti gert til að fá íbúana þar til að vinna með sér að björgunarstarfinu áður en tækifærið glatast.
    Það er vaxandi skilningur á verndun íslenskrar náttúru, gamalla bygginga og annarra fornra minja og flestir orðnir sammála um, að auknu fjármagni til þeirra verkefna er vel varið. Takmarkaður skilningur hefur hins vegar verið á varðveislu mannlífs og lifandi menningar heilla byggðarlaga. Vissulega hafa úrræði þjóðfélagsins til þeirra hluta verið takmörkuð lengst af, en nú er tæknin sífellt að veita nýja möguleika á því sviði eins og öðrum.
    Ríkisvaldið, undir forystu umhverfisráðuneytisins, þarf því nú að láta hendur standa fram úr ermum þegar í stað til að vinna að þessu verkefni. Í því skyni verði skipuð fámenn framkvæmdanefnd fulltrúa ríkisvalds og íbúnna, sem fái það veganesti, að viðkomandi ríkisstofnanir skuli veita henni lið við úttekt og aðgerðir í einstökum málaflokkum.
    Að sjálfsögðu hlýtur slík vinna að taka nokkurn tíma. Því skiptir máli, að bæði íbúar og framkvæmdanefnd fái engu að síður strax tilfinningu og sönnun með einhverjum raunhæfum aðgerðum fyrir því að hugur fylgi máli. Það má sjálfsagt nefna ýmislegt, sem kæmi fljótt til greina, svo sem beingreiðslur út á alla kindakjötsframleiðslu í hreppnum, fullkomin búnað til fjarnáms undir handleiðslu kennara í heimaskóla, sem veitti nemendum möguleika til að fá ekki lakari kennslu en gerist í öðrum skólum til loka grunnskóla eða jafnvel lengur, bættar aðstæður til fiskveiða og vinnslu o.s.frv.
    Á þetta yrði litið sem tilraunaverkefni, ekki til að koma upp lifandi safni, enda væri slíkt fyrir fram dauðadæmt, heldur til að viðhalda frjóu og lifandi mannlífi, sem um leið gæti á mörgum sviðum verið lærdómsríkt bæði fyrir okkur hér á landi og einnig sem framlag okkar í erlendu samstarfi. Með tilliti til hins vaxandi áhuga, sem m.a. er fyrir mannlíf á norðurslóðum, mætti ætla að unnt yrði að fá til samstarfs ýmsar erlendar stofnanir til að veita því stuðning og fá um leið kærkomið tækifæri til að fylgjast með framvindu þess.


Fylgiskjal II.


Bréf hreppsnefndar Árneshrepps til forsætisráðherra, Davíðs Oddssonar.
(Norðurfirði, 21. desember 1998.)


    Hreppsnefnd Árneshrepps barst nýlega ályktun aðalfundar Landverndar. Þar er bent á nauðsyn aðgerða til að viðhalda byggð á afskekktum svæðum landsins, þar sem byggð er í hættu. Þarna mun kveða við nýjan tón í áherslum Landverndar. Í þessari ályktun er fjallað sérstaklega um slæma stöðu byggðar í Árneshreppi og bent á leið, sem gæti orðið, ef næði fram að ganga, til að styrkja stöðu bænda í hreppsfélaginu, ásamt fleiru, sem þar er minnst á og yrði þá væntanlega til að styrkja byggðina.
    Hreppsnefndin tekur undir áhyggjur, sem fram koma í áðurnefndri ályktun, að það væri býsna alvarlegt, ef landsvæði eins og Árneshreppur, yrði innan tiltölulega fárra ára mannlaust. Hreppsnefndarmönnum er, ef til vill manna ljósast, að erfitt getur verið að snúa þessari þróun við.
    Í Árneshreppi er eingöngu stundaður sauðfjárbúskapur, og eru bú bænda í byggðarlaginu smá. Skerðingar sem fylgdu framleiðslustýringunni komu því illa við afkomumöguleika bænda. Bú bænda smækkuðu í kjölfarið, sem var óhjákvæmilegt meðan nauðsynlegt var, að framleiðsla og framleiðsluréttur héldust í hendur. Undanfarin ár hafa bændur eitthvað aukið við bústofn sinn, þannig að allir munu nú vera farnir að framleiða meira en greiðslumark þeirra er. Hreppsnefndin telur ekki líklegt að sauðfjárframleiðsla aukist mikið frá því sem nú er.
    Allar aðgerðir, sem hér er verið að tala um eru sértækar, og því vandmeðfarnar, en ekki verður séð, að hugmyndum Landverndar, sem hreppsnefnd styður einnig, verði komið í framkvæmd með öðru móti.
    Hreppsnefndin telur þær aðgerðir, sem snúa að sauðfjárræktinni áhugaverðar, sem fyrsta skref. Kemur þar tvennt til, það er auðvelt að gera sér grein fyrir hvað miklu fjármagni þyrfti að verja til að greiða beingreiðslur út á alla sauðfjárframleiðslu í hreppsfélaginu, og einnig auðvelt að áætla það einhver ár fram í tímann. Annað er það, að búseta bænda hefir alltaf verið undirstaða undir búsetu í hreppsfélaginu og ekki annað sýnt, en svo verði áfram, því er nauðsynlegt að huga fyrst að þeim þætti.
    Einnig er mjög brýnt að huga að hvernig væri hægt að styðja við fjölbreyttari tekjuöflun fólks í hreppnum. Sjósókn í hreppsfélaginu er lítil, en af henni hafa alltaf verið æði mikil búdrýgindi. Nú hafa veiðiheimildir smábáta þrengst, þannig að frekari stuðningur við hana væri mjög mikilsverður.
    Ekki er ástæða til að ræða þetta nánar í þessu bréfi, en hreppsnefnd Árneshrepps lýsir sig reiðubúna til viðræðna um þessi mál, telji stjórnvöld sig geta tekið á þessu máli með jákvæðum hætti.