Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 132. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 132  —  132. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um skipun nefndar til að kanna réttarstöðu samkynhneigðs fólks.

Flm.: Guðrún Ögmundsdóttir, Einar K.Guðfinnsson, Hjálmar Árnason,


Kolbrún Halldórsdóttir, Sverrir Hermannsson, Þorgerður K. Gunnarsdóttir,
Össur Skarphéðinsson, Jónína Bjartmarz, Ögmundur Jónasson,
Guðjón A. Kristjánsson.


    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að skipa nefnd til þess að gera úttekt á réttarstöðu samkynhneigðs fólks á Íslandi. Skal nefndin jafnframt gera tillögur um úrbætur og nauðsynlegar aðgerðir til þess að jafna stöðu samkynhneigðra og gagnkynhneigðra í samfélaginu.
    Í nefndinni eigi sæti fulltrúi forsætisráðuneytis, sem jafnframt verði formaður nefndarinnar, félagsmálaráðuneytis, heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytis, menntamálaráðuneytis, dómsmálaráðuneytis og hagsmunasamtaka samkynhneigðra. Sérstakur starfsmaður verði nefndinni til aðstoðar.
    Nefndin skili Alþingi skýrslu og tillögum eigi síðar en 15. janúar 2004.

Greinargerð.


    Hér á landi hafa verið stigin mjög mikilvæg skref í þá átt að jafna stöðu samkynhneigðra og gagnkynhneigðra í samfélaginu. Enn vantar þó nokkuð upp á að fullt jafnræði sé til staðar á þessu sviði og er afar brýnt að bæta þar úr. Koma hér fyrst og fremst til álita tvö atriði, í fyrsta lagi réttur samkynhneigðra til að eignast og ala upp börn og í öðru lagi réttarstaða samkynhneigðra í sambúð.
    Hinn 11. október 2000 var samþykkt á Alþingi beiðni um skýrslu frá dómsmálaráðherra um réttarstöðu sambúðarfólks og að gerður yrði samanburður á réttarstöðu sambúðarfólks á Íslandi og annars staðar á Norðurlöndum. Skýrsla dómsmálaráðherra var lögð fram í mars 2001 (þskj. 935, 88. mál 126. löggjafarþings).
    Í skýrslunni kemur fram að engin heildarlög hafi verið sett á Íslandi um réttarstöðu sambúðarfólks. Krafa um sérstakar lagareglur um réttarstöðu sambúðarfólks hafi fyrst og fremst tengst þeim einstaklingum sem velji sér að búa í því sem kölluð hafi verið „óvígð sambúð“. Fram kemur að með hugtakinu „óvígð sambúð“ hafi almennt verið átt við sambúð karls og konu sem hafi sameiginlegt heimili, án þess að vera í hjúskap, og vissa fjárhagslega samstöðu. Stefnumið síðustu ára hafa ótvírætt verið í þá átt að leggja sambúð án vígslu í auknum mæli til jafns við hjúskap í einstökum lagasamböndum og er í skýrslunni gerð grein fyrir lagaákvæðum á fjölmörgum réttarsviðum sem sett hafa verið um réttarstöðu einstaklinga í óvígðri sambúð.
    Í skýrslunni er sérstaklega tekið fram að ekki hafi verið gerð úttekt á því hvort og þá hvernig rétt væri að setja sérstök lagaákvæði um réttarstöðu samkynhneigðra í „óstaðfestri samvist“. Þannig er mikil óvissa um hvort og á hvaða réttarsviðum unnt er að leggja að jöfnu sambúð gagnkynhneigðra og samkynhneigðra og rétt er að leggja áherslu á að þetta snertir bæði réttindi og skyldur samkynhneigðra í sambúð. Á sumum réttarsviðum njóta samkynhneigðir lakari réttinda, þ.e. njóta ekki þess hagræðis sem löggjafinn ætlar gagnkynhneigðu fólki óvígðri sambúð. Má hér nefna sem dæmi rétt til að krefjast opinberra skipta vegna sambúðarslita samkvæmt ákvæðum laga um skipti á dánarbúum o.fl., nr. 20/1991, rétt til að telja fram saman samkvæmt ákvæðum laga um tekjuskatt og eignarskatt, nr. 75/1981, og brottfall erfðafjárskatts þegar gerð er erfðaskrá til hagsbóta fyrir langlífari sambúðarmaka samkvæmt lögum um erfðafjárskatt, nr. 83/1984. Í öðrum tilvikum verður að telja að litið sé á samkynhneigða í sambúð sem einstaklinga sem aftur leiði til þess að þeir njóti sterkari stöðu en gagnkynhneigðir í óvígðri sambúð. Þannig hefur verið talið að fólk í hjúskap eða sambúð þurfi minna sér til framfærslu en sá sem býr einn og gerður hefur verið nokkur munur á greiðslum til einstaklinga úr opinberum sjóðum eftir því hvort viðkomandi er í sambúð eða ekki. Sambúðarstaða hefur þannig t.d. áhrif á ákvörðun vaxtabóta, barnabóta og bóta samkvæmt lögum um almannatryggingar.
    Skýrsla þessi er mjög gott yfirlit yfir þessa stöðu hér á landi, en varpar enn fremur ljósi á skort á réttarstöðu samkynhneigðra sem eru í sambúð en ekki staðfestri samvist. Nauðsynlegt er því að skoða þau mál náið og koma með tillögur til úrbóta. Jafnframt er nauðsynlegt að árétta að skráð sambúð er alltaf val, með kostum og göllum sem einstaklingarnir verða að vega og meta hverju sinni.
    Hinn 27. júní 1996 tóku gildi lög nr. 87/1996, um staðfesta samvist. Samkvæmt þeim geta tveir einstaklingar af sama kyni staðfest samvist sína og njóta þeir þá sömu réttarstöðu og einstaklingar í hjúskap með nánar tilgreindum undantekningum sem snerta fyrst og fremst tengsl samkynhneigðra og barna, nánar tiltekið ættleiðingar og tæknifrjóvgun. Í upphafi var ekki gert ráð fyrir að ákvæði ættleiðingarlaga um hjón giltu um einstaklinga í staðfestri samvist, þ.e. þeir gátu ekki sótt um að frumættleiða barn saman og hvorugur gat sótt um leyfi til að stjúpættleiða barn hins. Lögunum um staðfesta samvist var breytt með lögum nr. 52/2000 og nú getur maki í staðfestri samvist fengið heimild til þess að stjúpættleiða barn maka síns. Einstaklingar í staðfestri samvist geta ekki fengið tæknifrjóvgun samkvæmt lögum nr. 55/1996, um tæknifrjóvgun.
    Fullvíst er að afstaða samfélagsins til barna í fjölskyldum samkynhneigðra hefur breyst undanfarin ár og hefur þetta málefni verið ofarlega í umræðu á öllum Norðurlöndunum. Árið 1999 var skipuð í Svíþjóð nefnd sem skilaði viðamikilli skýrslu um málefnið árið 2001. Nefndin athugaði m.a. fyrirliggjandi alþjóðlegar rannsóknir á stöðu barna sem alist hafa upp hjá samkynhneigðum og lagði mat á gildi þeirra. Gerðar voru sérstakar rannsóknir í Svíþjóð, m.a. könnun á afstöðu almennings til samkynhneigðra með börn. Lögð var áhersla á meginregluna um jafna stöðu samkynhneigðra og gagnkynhneigðra og hagsmuni barnsins en jafnframt var farið yfir öll þau sjónarmið sem notuð hafa verið til að takmarka tengsl barna og samkynhneigðra. Var niðurstaða nefndarinnar sú að hvorki rannsóknir né fagleg rök lægju að baki því að neita samkynhneigðum almennt um leyfi til að ættleiða börn. Í kjölfarið var sænsku lögunum um staðfesta samvist breytt árið 2002 og geta samkynhneigðir nú sótt um að ættleiða börn á sama hátt og gagnkynhneigðir. Nauðsynlegt er í vinnu þeirrar nefndar sem lagt er til að hér verði skipuð að hún skoði vel þróun þessara mála, annars staðar á Norðurlöndum og víðar í Evrópu, með það að markmiði að styrkja réttarstöðu samkynhneigðra.
    Öll rök hníga að því að jafna verði stöðu sambúðarfólks í óvígðri sambúð og óstaðfestri samvist og mikilvægt að eyða óvissunni sem ríkir hér á landi.
    Með skipun nefndarinnar sem þessi þingsályktunartillaga felur í sér er lagt það lóð á vogarskálar jafnréttis að skoða stöðu samkynhneigðra í samfélaginu og koma með tillögur til úrbóta.