Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 355. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 392  —  355. mál.
Frumvarp til lagaum breyting á lögum nr. 45/1999, um Lífeyrissjóð sjómanna.

(Lagt fyrir Alþingi á 128. löggjafarþingi 2002–2003.)


1. gr.

    9. gr. laganna orðast svo:
    Sjóðfélagi, sem orðinn er fullra 65 ára að aldri, á rétt á ellilífeyri úr sjóðnum.
    Upphæð ellilífeyris er hundraðshluti af grundvallarlaunum sjóðsins og nemur hundraðshluti þessi samanlögðum stigafjölda sem sjóðfélaginn hefur áunnið sér, margfölduðum með 1,496.
    Heimilt er sjóðfélaga að hefja töku ellilífeyris áður en hann nær 65 ára aldri, en þó ekki fyrr en frá 60 ára aldri. Skal þá útreiknaður ellilífeyrir hans miðað við 65 ára aldur lækkaður fyrir hvern mánuð sem nemur samanlagðri prósentutölu samkvæmt eftirfarandi töflu:
Taka ellilíf- eyris hefst Lækkun fyrir hvern mánuð Aldur Samtals lækkun
64–65 ára 0,65% 64 ára 7,8%
63–64 ára 0,60% 63 ára 15,0%
62–63 ára 0,55% 62 ára 21,6%
61–62 ára 0,50% 61 ára 27,6%
60–61 ára 0,45% 60 ára 33,0%
    Á sama hátt er sjóðfélaga heimilt að fresta töku ellilífeyris um allt að fimm ár og skal þá útreiknaður ellilífeyrir hans miðað við 65 ára aldur hækkaður fyrir hvern mánuð sem nemur samanlagðri prósentutölu samkvæmt eftirfarandi töflu:
Taka ellilíf- eyris hefst Hækkun fyrir hvern mánuð Aldur Samtals hækkun
65–66 ára 0,70% 66 ára 8,4%
66–67 ára 0,75% 67 ára 17,4%
67–68 ára 0,80% 68 ára 27,0%
68–69 ára 0,85% 69 ára 37,2%
69–70 ára 0,90% 70 ára 48,0%
    Haldi sjóðfélagi áfram að ávinna sér réttindi eftir að hann hefur hafið töku ellilífeyris skulu stig hans reiknuð á ný við 65 og 70 ára aldur.

2. gr.

    11. gr. laganna orðast svo:
    Nú andast sjóðfélagi, sem naut elli- eða örorkulífeyris úr sjóðnum eða greitt hafði iðgjald til hans í a.m.k. 24 mánuði á undanfarandi 36 mánuðum fyrir andlátið og lætur eftir sig maka, og á þá hinn eftirlifandi maki rétt á lífeyri úr sjóðnum.
    Óskertur makalífeyrir skv. 7. mgr. er ætíð greiddur eftirlifandi maka í minnst 36 mánuði, enda hafi fjárfélagi ekki verið slitið fyrir andlátið.
    Eftirlifandi maki fær þó ávallt greiddan makalífeyri þar til yngsta barn sem var á framfæri sjóðfélagans nær 19 ára aldri, enda sé það á framfæri makans.
    Sé maki a.m.k. 50% öryrki skal greiddur makalífeyrir meðan sú örorka varir, enda sé eftirlifandi maki yngri en 65 ára.
    Ef maki sjóðfélaga er fæddur fyrir 1965 á hann rétt á ævilöngum makalífeyri. Makalífeyrir reiknast skv. 7. mgr., en lækkar um 2% fyrir hvert ár sem makinn er fæddur eftir 1. janúar 1945, 2% að auki fyrir hvert ár sem makinn er fæddur eftir 1. janúar 1950, 2% að auki fyrir hvert ár sem makinn er fæddur eftir 1. janúar 1955 og 2% að auki fyrir hvert ár sem makinn er fæddur eftir 1. janúar 1960. Skerðing innan fæðingarárs reiknast hlutfallslega út frá dagafjölda fram að fæðingardegi miðað við dagafjölda ársins. Önnur ákvæði um makalífeyri gilda þó meðan þau eru hagstæðari fyrir makann.
    Maki samkvæmt þessari grein telst sá eða sú sem við andlátið var í hjúskap með sjóðfélaga, staðfestri samvist eða óvígðri sambúð, enda hafi fjárfélagi ekki verið slitið fyrir andlát sjóðfélagans. Með óvígðri sambúð er átt við sambúð karls og konu sem eiga sameiginlegt lögheimili, eru samvistum, eiga barn saman eða konan er þunguð eða sambúðin hefur varað samfleytt í a.m.k. tvö ár. Heimilt er að greiða makalífeyri til aðila sem hefur sannanlega annast heimili sjóðfélaga um árabil fyrir andlát hans. Réttur til makalífeyris fellur niður ef makinn gengur í hjónaband á ný, stofnar til sambúðar sem jafna má til hjúskapar eða stofnar til staðfestrar samvistar, enda sé ekki kveðið á um annað í samþykktum sjóðsins.
    Upphæð makalífeyris er hundraðshluti af grundvallarlaunum sjóðsins og nemur hundraðshluti þessi samanlögðum stigafjölda sem sjóðfélaganum er reiknaður, margfölduðum með 0,792. Auk áunninna stiga skal telja með þau stig sem ætla má að sjóðfélaginn hefði áunnið sér fram til 60 ára aldurs, reiknuð í samræmi við ákvæði 5. og 6. mgr. 10. gr., en þó skal aldrei miða meðaltal stiga við fleiri almanaksár en þau sem sjóðfélaginn hefur greitt iðgjöld. Hafi sjóðfélaginn notið örorkulífeyris úr sjóðnum skal reikna stig frá þeim tíma er honum var veittur örorkulífeyrir til 60 ára aldurs í samræmi við stig þau sem lögð voru til grundvallar örorkulífeyri. Veiti dauðsfallið hinum eftirlifandi maka jafnframt rétt til lífeyris úr öðrum sjóði skal hann því aðeins fá lífeyri úr þessum sjóði vegna ókomins tíma að hann hafi síðast greitt iðgjöld til hans.

3. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2003.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

    Frumvarp þetta til breytinga á lögum um Lífeyrissjóð sjómanna er lagt fram að beiðni stjórnar sjóðsins. Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á ákvæðum laganna um ellilífeyri og makalífeyri. Tilgangurinn er að bæta stöðu sjóðsins, en samkvæmt tryggingafræðilegri úttekt Talnakönnunar hf., dags. 13. febrúar 2002, á stöðu sjóðsins miðað við 31. desember 2001 vantaði 7.514 milljónir kr. á að sjóðurinn ætti eignir á móti heildarskuldbindingum, eða 8,8%. Í skýrslu Talnakönnunar kemur fram að staða sjóðsins hafi versnað frá árslokum 2000 úr 6% halla miðað við heildarskuldbindingar í 8,8% halla. Ástæður þess að staðan versnar eru annars vegar neikvæð ávöxtun annað árið í röð og hins vegar betri lífeyrisréttindi hjá sjóðnum en hjá öðrum sjóðum þar sem skylduiðgjald er 10%. Betri réttindi hjá Lífeyrissjóði sjómanna felast fyrst og fremst í óskertum ævilöngum makalífeyri sem þekkist nánast ekki hjá öðrum sjóðum sem ekki njóta bakábyrgðar launagreiðanda.
    Samkvæmt lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða má heildarstaða lífeyrissjóðs aldrei vera verri eða betri en 10% af heildarskuldbindingu og jafnframt má staðan ekki vera verri eða betri en 5% samfellt í fimm ár. Staða Lífeyrissjóðs sjómanna er því innan þess ramma sem lögin setja þar sem heildarstaðan er innan 10% markanna og hún var innan 5% markanna fyrir tveimur árum. Hins vegar kemur fram í skýrslu Talnakönnunar að það sé nokkuð ljóst að staðan muni fara niður fyrir þessi mörk á næsta ári. Nýjar töflur um lífslíkur sem þá verða notaðar sýna að langlífi eykst enn þannig að staðan mun versna um 1–2% vegna þeirra. Það er því nokkuð ljóst að ávöxtun ársins 2002 þarf að vera gífurlega mikil til að vinna þetta upp.
    Eins og að framan greinir eru lagðar til breytingar á ákvæðum laga um sjóðinn annars vegar um makalífeyri og hins vegar um rétt til töku ellilífeyris fyrir 65 ára aldur. Ástæðurnar eru þessar: Makalífeyrisréttindi í Lífeyrissjóði sjómanna eru betri en þekkist í sambærilegum sjóðum. Þegar ljóst var að nauðsynlegt væri vegna stöðu sjóðsins að breyta réttindaákvæðum þótti eðlilegt að breyta þeim ákvæðum sem augljóslega eru betri en almennt þekkist. Þá var einnig haft að leiðarljósi að breytingarnar væru eins mildar og mögulegt er. Breytingarnar sem hér eru lagðar til leiða ekki til skerðingar á rétti þeirra sem hafa hafið töku lífeyris. Afnuminn er réttur til óskerts ævilangs makalífeyris, en tekið upp svokallað sólarlagsákvæði sem þýðir að þeir sem eru fæddir fyrir árið 1965 eiga rétt á ævilöngum makalífeyri; þeir sem fæddir eru fyrir árið 1945 njóta óskerts makalífeyris, en rétturinn minnkar síðan eftir því sem eftirlifandi maki er yngri. Þó er ávallt greiddur óskertur makalífeyrir þegar yngsta barn á framfæri makans er yngra en 19 ára og einnig ef eftirlifandi maki er a.m.k. 50% öryrki. Rökin fyrir óskertum ævilöngum makalífeyri eiga ekki við nú með sama hætti og áður. Samkvæmt könnunum sem gerðar hafa verið er atvinnuþátttaka maka sjómanna mjög svipuð því sem gerist hjá öðrum. Það styður það að ekki er lengur talið nauðsynlegt að tryggja ævilangan makalífeyri, t.d. fólki á besta aldri sem ekki er með börn á framfæri. Hugsunin er sú að styðja tímabundið við þá sem missa maka sinn, lengur ef viðkomandi er öryrki eða með börn á framfæri, en ekki að greiða fullvinnandi fólki ævilangan makalífeyri.
    Samkvæmt núgildandi lögum geta sjóðfélagar í Lífeyrissjóði sjómanna hafið töku ellilífeyris frá 60 ára aldri að uppfylltum ákveðnum skilyrðum; lögskráningu í a.m.k. 25 ár í 180 daga að meðaltali á ári. Ef taka hefst fyrir 65 ára aldur lækkar upphæð ellilífeyris um 0,4% fyrir hvern mánuð sem vantar upp á 65 ára aldur þegar taka hefst. Sú lækkun dugar þó ekki til þess að sjóðurinn standi eins að vígi og ef taka hæfist við 65 ára aldur. Það eru því í raun þeir sjóðfélagar sem ekki eiga rétt á töku ellilífeyris fyrir 65 ára aldur sem standa undir þeim kostnaði sem sjóðurinn hefur af því að greiða lífeyri fyrr, ef lækkunin er ekki tryggingafræðilega rétt reiknuð. Hér er því lagt til að öllum sjóðfélögum verði gefinn kostur á að hefja töku ellilífeyris frá 60 ára aldri og lækkun vegna þess að töku er flýtt verði tryggingafræðilega rétt. Hið sama gildir um hækkun lífeyris þegar töku er frestað. Sams konar ákvæði eru í samþykktum annarra lífeyrissjóða sem sjómenn greiða til, svo sem Lífeyrissjóðs Vestfirðinga, Lífeyrissjóðs Vestmannaeyja og Lífeyrissjóðs Austurlands.
    Talnakönnun hefur reiknað út áhrif þeirra breytinga sem hér eru lagðar til á stöðu Lífeyrissjóðs sjómanna og koma þær niðurstöður fram í bréfi dags. 16. mars 2002. Staða sjóðsins við árslok 2001 batnar um 6.252 milljónir kr. og halli miðað við heildarskuldbindingar lækkar úr -8,8% í -1,6%.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.
Um 1. gr.

    Þessi grein fjallar um ellilífeyri. 1. og 2. mgr. eru óbreyttar frá núgildandi lögum, en í þeim kemur fram að almennur ellilífeyrisaldur er 65 ár og síðan er fjallað um hvernig fjárhæð ellilífeyris er fundin út. Í 3. mgr. er að finna breytingu frá núgildandi lögum þar sem gert er ráð fyrir að öllum sjóðfélögum verði heimilt að hefja töku ellilífeyris frá 60 ára aldri, en samkvæmt núgildandi lögum er það aðeins heimilt að ákveðnum skilyrðum uppfylltum þannig að aðeins hluti sjóðfélaga nýtur þessa réttar. Ef taka lífeyris hefst fyrir 65 ára aldur skal útreiknaður ellilífeyrir lækkaður um ákveðna prósentu fyrir hvern mánuð sem vantar á 65 ára aldur sjóðfélaga. Á sama hátt er sjóðfélaga heimilt að fresta töku ellilífeyris til 70 ára aldurs og hækkar þá fjárhæð ellilífeyris um ákveðna prósentu fyrir hvern mánuð sem sjóðfélaginn er eldri en 65 ára. Prósentur þessar eru mismunandi eftir því á hvaða aldri sjóðfélaginn er þegar hann hefur töku lífeyris, en þær eru tryggingafræðilega rétt reiknaðar þannig að það á ekki að hafa áhrif á heildarskuldbindingar sjóðsins á hvaða aldri sjóðfélagi hefur töku ellilífeyris.
    Auk þess að fella niður skilyrði um 25 ára sjómennsku að meðaltali 180 daga á ári til þess að eiga rétt á ellilífeyri fyrir 65 ára aldur þá er einnig fellt niður ákvæði sem kveður á um að sjóðfélagi sem tekur ellilífeyri á aldrinum 60–65 ára og greiðir iðgjöld til sjóðsins á sama tíma ávinni sér aðeins réttindi að hálfu fyrir þann tíma.

Um 2. gr.

    Hér er fjallað um makalífeyrisréttindi. Gerð hefur verið grein fyrir helstu breytingunum á makalífeyrisákvæðunum í almennum athugasemdum. Samkvæmt núgildandi lögum er greiddur óskertur ævilangur makalífeyrir að ákveðnum skilyrðum uppfylltum, en þau eru að eftirlifandi maki verði að hafa náð 35 ára aldri, hjónabandið hafi staðið í a.m.k. fimm ár og verið stofnað áður en sjóðfélaginn náði 60 ára aldri. Ef þessi skilyrði eru ekki fyrir hendi er greiddur makalífeyrir í 24 mánuði. Nú er lagt til að þessi skilyrði verði felld niður og óskertur makalífeyrir verði aldrei greiddur skemur en í 36 mánuði. Síðan er tekið upp ákvæði sem almennt hefur verið tekið upp hjá lífeyrissjóðum án ábyrgðar launagreiðanda, en það er svokallað sólarlagsákvæði sem þýðir að þeir sem eru fæddir fyrir árið 1945 njóta óskerts makalífeyris, en rétturinn minnkar síðan um 2% fyrir hvert ár sem makinn er fæddur eftir 1945 og fellur niður ef makinn er fæddur eftir árið 1965. Ekki verður hreyft við þeim makalífeyrisréttindum sem þegar hafa verið úrskurðuð.
    Þrátt fyrir framangreind ákvæði greiðist þó ávallt óskertur makalífeyrir á meðan yngsta barn á framfæri maka hefur ekki náð 19 ára aldri og einnig ef makinn er 50% öryrki eða meira.

Um 3. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringar.


Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 45/1999,
um Lífeyrissjóð sjómanna.

    Frumvarp þetta er lagt fram að beiðni stjórnar Lífeyrissjóðs sjómanna og miðar að því að bæta stöðu sjóðsins þannig að hann standi undir skuldbindingum sínum í samræmi við tryggingafræðilega útreikninga og lög um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Verði frumvarpið lögfest hefur það ekki áhrif á útgjöld ríkissjóðs.