Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 395. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 456  —  395. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 85/2002, um breytingu á VII. viðauka (Gagnkvæm viðurkenning á starfsmenntun og hæfi) við EES-samninginn.

(Lögð fyrir Alþingi á 128. löggjafarþingi 2002–2003.)



    Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 85/2002 frá 25. júní 2002, um breytingu á VII. viðauka (Gagnkvæm viðurkenning á starfsmenntun og hæfi) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 98/5/EB frá 16. febrúar 1998, um að auðvelda lögmönnum að starfa til frambúðar í öðru aðildarríki en þar sem þeir hlutu starfsmenntun sína og hæfi.

Athugasemdir við þingsályktunartillögu þessa.


1. Inngangur.
    Með þingsályktunartillögu þessari er leitað heimildar Alþingis til staðfestingar á ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 85/2002 frá 25. júní 2002, um breytingu á VII. viðauka (Gagnkvæm viðurkenning á starfsmenntun og hæfi) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og til að fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 98/5/EB frá 16. febrúar 1998, um að auðvelda lögmönnum að starfa til frambúðar í öðru aðildarríki en þar sem þeir hlutu starfsmenntun sína og hæfi.
    Ákvörðun þessi kallar á lagabreytingar hér á landi og var tekin af sameiginlegu EES- nefndinni með stjórnskipulegum fyrirvara af Íslands hálfu. Í tillögu þessari er gerð nánari grein fyrir því hvað felst í slíkum fyrirvara, sbr. 103. gr. EES-samningsins. Jafnframt er gerð grein fyrir efni þeirrar tilskipunar sem hér um ræðir. Gerð þessi felur ekki í sér breytingar á þeim meginreglum sem í EES-samningnum felast.
    Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar sem hér um ræðir er prentuð sem fylgiskjal með tillögu þessari ásamt gerðinni sjálfri.

2. Um stjórnskipulegan fyrirvara.
    Ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingar á viðaukum eða bókunum við EES-samninginn eru þjóðréttarsamningar. Samkvæmt samningnum er ekki gert ráð fyrir því að í ákvörðunum sé kveðið á um að gildistaka þeirra gagnvart aðildarríkjunum sé háð staðfestingu þeirra heima fyrir. Þær verða með öðrum orðum skuldbindandi fyrir aðildarríkin um leið og þær hafa verið teknar nema eitthvert aðildarríkjanna beiti heimild í 103. gr. EES- samningsins til að gera fyrirvara um að ákvörðun geti ekki orðið bindandi strax vegna stjórnskipulegra skilyrða heima fyrir. Hafa ríkin sex mánaða frest frá töku ákvörðunar í sameiginlegu nefndinni til að aflétta fyrirvaranum. Með þessu er vísað til nauðsynlegs atbeina þjóðþinga aðildarríkjanna og af hálfu Íslands hefur fyrirvara þessum því einungis verið beitt þegar ljóst er að ákvörðun kallar á lagabreytingar. Almennt hefur ekki verið leitað sérstaks samþykkis Alþingis áður en stjórnskipulegum fyrirvara er aflétt heldur látið við það sitja að Alþingi hafi samþykkt nauðsynlegar lagabreytingar vegna innleiðingar ákvarðana. Þetta felur í sér nokkurt frávik frá almennri meðferð vegna staðfestingar þjóðréttarsamninga þar sem atbeina Alþingis er krafist en á sér skýringar í sérstöðu ákvarðana sameiginlegu EES-nefndarinnar meðal þjóðréttarsamninga. Hins vegar hafa nokkrir ókostir fylgt þessu fyrirkomulagi. Má þar helst nefna annars vegar að nokkuð mismunandi er með hvaða hætti það hefur komið fram í lagafrumvörpum hvernig þau tengjast tilteknum ákvörðunum sameiginlegu EES- nefndarinnar og hins vegar að með þessari aðferð hefur skort á að Alþingi hafi verið gefinn kostur á að taka beina afstöðu til staðfestingar einstakra ákvarðana nefndarinnar. Í vissum tilvikum hafa ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar kveðið á um að bætt sé við EES- samninginn tiltekinni EB-gerð sem ekki öðlast gildi innan Evrópusambandsins fyrr en einhverjum missirum eða jafnvel árum seinna. Samkvæmt EES-samningnum er Ísland skuldbundið til að taka endanlega afstöðu til þess hvort slík gerð verði hluti samningsins innan sex mánaða frá töku ákvörðunarinnar í sameiginlegu EES-nefndinni en hefur sama svigrúm og önnur aðildarríki samningsins til að innleiða viðkomandi gerð í landsrétt. Fram að þessu hefði eina leiðin verið sú að setja lög til innleiðingar þessara gerða innan sex mánaða frestsins en þau lög hefðu þá að sjálfsögðu ekki þurft að taka gildi fyrr en á ætluðum gildistökudegi gerðarinnar. Þetta er mjög óheppileg leið þar sem við undirbúning slíkrar lagasetningar er oft og tíðum horft til fordæma erlendis frá en þar er að jafnaði ekki hugað að slíkri lagasetningu fyrr en nær dregur gildistöku viðkomandi gerðar. Að þessari leið slepptri er eina leiðin til að virða samningsskuldbindingar Íslands að leita sérstaks samþykkis Alþingis í formi þingsályktunar.
    Að öllu þessu virtu hefur almenn meðferð þeirra ákvarðana sameiginlegu EES-nefndarinnar þar sem Ísland hefur gert stjórnskipulegan fyrirvara verið færð til samræmis við meðferð þjóðréttarsamninga. Í því felst að almennt er leitað sérstaklega eftir samþykki Alþingis til staðfestingar sérhverri ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar sem stjórnskipulegur fyrirvari hefur verið gerður við. Slíks samþykkis er leitað í formi þingsályktunar en viðeigandi ráðuneyti munu samhliða undirbúa nauðsynleg frumvörp til lagabreytinga. Jafnframt hefur þeirri föstu vinnureglu verið komið á, með vísan til 24. gr. laga um þingsköp Alþingis, að haft verði samráð við utanríkismálanefnd um efni þessara ákvarðana meðan þær eru á undirbúningsstigi.

3. Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 98/5/EB frá 16. febrúar 1998, um að auðvelda lögmönnum að starfa til frambúðar í öðru aðildarríki en þar sem þeir hlutu starfsmenntun sína og hæfi.
    Tilgangur þessarar tilskipunar er að gera lögmönnum kleift að starfa í öðru aðildarríki en þar sem þeir fengu starfsréttindi sín, undir starfsheiti heimalands síns og einnig að auðvelda þeim að fá starfsheiti gistiríkisins. Þessum lögmönnum er skylt að skrá sig í gistiríkinu auk þess að vera áfram skráðir í heimalandi sínu og þeir skulu lúta lögum, siðareglum og viðurlögum sem í gistiríkinu gilda. Tilskipunin auðveldar erlendum lögmönnum að starfa hér á landi en einnig auðvelda hinar samræmdu reglur íslenskum lögmönnum að starfa sem lögmenn í öðrum EES-ríkjum.
    Vegna upptöku tilskipunarinnar í EES-samninginn er nauðsynlegt að gera breytingar á lögum um lögmenn, nr. 77/1998, sem snúa fyrst og fremst að því að hafa ákvæði í lögunum um að þau taki einnig til þeirra lögmanna sem hér hafa rétt til að starfa á grundvelli tilskipana Evrópusambandsins og að veita dómsmálaráðherra heimild til að setja reglur um skráningu, skyldur, réttindi og störf þessara lögmanna í samræmi við tilskipunina.
    Tillögur um breytingar á lögum nr. 77/1998, um lögmenn, verða þessar helstar:
    Gerð verði sú breyting á 1. gr. laganna að tekið sé fram í lögunum að þau taki einnig til erlendra lögmanna sem starfa hér á landi undir starfsheiti heimalands síns í samræmi við tilskipanir Evrópusambandsins og að dómsmálaráðherra verði veitt heimild til að setja nánari reglur um skráningu, skyldur, réttindi og störf slíkra lögmanna hér á landi.
    Varðandi 3. gr. laganna er lögð til sú breyting að taka fram að úrskurðarnefnd lögmanna, sem úrskurðar í ágreiningsmálum um störf lögmanna, geti einnig leyst úr málum er varða þá lögmenn sem hér starfa á grundvelli tilskipana Evrópusambandins.
    Bætt verði nýrri málsgrein við 6. gr. laganna um að erlendum lögmönnum sem skráðir eru hér á landi og hafa starfað hér reglubundið í 3 ár í samræmi við 10. gr. tilskipunarinnar undir lögmannsheiti heimalands síns megi veita héraðsdómslögmannsréttindi.
    Lagt er til að bætt verði nýrri málsgrein við 29. gr. laganna um að það varði sektum að nota starfsheiti erlendra lögmanna sem greind eru í reglum sem dómsmálaráðherra setur skv. 1. mgr. 1. gr. laganna án þess að hafa hlotið tilskilið starfsleyfi í ríki á Evrópska efnahagssvæðinu.
    Stefnt er að því að leggja fram frumvarp til framangreindra breytinga á lögum nr. 77/1998, um lögmenn, á yfirstandandi þingi.
    Samkvæmt tilskipuninni kom efni hennar til framkvæmda innan ESB þann 14. mars 2000. Vegna stjórnskipulegs fyrirvara Íslands og Liechtenstein tekur hún gildi á öllu Evrópska efnahagssvæðinu eftir að bæði löndin hafa aflétt þeim fyrirvara.



Fylgiskjal I.


ÁKVÖRÐUN SAMEIGINLEGU EES-NEFNDARINNAR nr. 85/2002

frá 25. júní 2002

um breytingu á VII. viðauka (Gagnkvæm viðurkenning á starfsmenntun og hæfi) við EES-samninginn

SAMEIGINLEGA EES-NEFNDIN HEFUR,

með hliðsjón af samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, eins og hann var aðlagaður með bókun um breytingu á samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, er nefnist hér á eftir samningurinn, einkum 98. gr.,

og að teknu tilliti til eftirfarandi:

1)        VII. viðauka við samninginn var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 55/2001 frá 18. maí 2001 ( 1 ).

2)         Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 98/5/EB frá 16. febrúar 1998 um að auðvelda lögmönnum að starfa til frambúðar í öðru aðildarríki en þar sem þeir hlutu starfsmenntun sína og hæfi ( 2 ) skal felld inn í samninginn.

ÁKVEÐIÐ EFTIRFARANDI:

1. gr.

Eftirfarandi liður komi aftan við 2. lið (tilskipun ráðsins 77/249/EBE) í VII. viðauka við samninginn:

„2a.          398 L 0005: Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 98/5/EB frá 16. febrúar 1998 um að auðvelda lögmönnum að starfa til frambúðar í öðru aðildarríki en þar sem þeir hlutu starfsmenntun sína og hæfi (Stjtíð. EB L 77, 14.3.1998, bls. 36)

Ákvæði tilskipunarinnar skulu, að því er þennan samning varðar, aðlöguð sem hér segir:

Eftirfarandi bætist við í 2. mgr. 1. gr.

         „Ísland          Lögmaður

         Liechtenstein     Rechtsanwalt

         Noregur     Advokat““

2. gr.

Texti tilskipunar 98/5/EB, á íslensku og norsku, sem verður birtur í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópubandalaganna, telst fullgiltur.

3. gr.

Ákvörðun þessi öðlast gildi hinn 26. júní 2002, að því tilskildu að allar tilkynningar samkvæmt 1. mgr. 103. gr. samningsins hafi verið sendar sameiginlegu EES-nefndinni ( * ).

4. gr.

Ákvörðun þessi skal birt í EES-deild og EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópubandalaganna.

Gjört í Brussel 25. júní 2002.

     Fyrir hönd sameiginlegu EES-nefndarinnar
    Formaður

    P. Westerlund


    Ritarar
    sameiginlegu EES-nefndarinnar

    P.K. Mannes     M. Brinkmann




Fylgiskjal II.


TILSKIPUN EVRÓPUÞINGSINS OG RÁÐSINS 98/5/EB

frá 16. febrúar 1998

um að auðvelda lögmönnum að starfa til frambúðar í öðru aðildarríki en þar sem þeir hlutu starfsmenntun sína og hæfi


EVRÓPUÞINGIÐ OG RÁÐ EVRÓPUSAMBANDSINS HAFA,

með hliðsjón af stofnsáttmála Evrópubandalagsins, einkum 49. gr., 57. gr. (1. mgr.) og 57. gr. (fyrsta og þriðja málslið 2. mgr.),

með hliðsjón af tillögu framkvæmdastjórnarinnar ( 1 ),

með hliðsjón af áliti efnahags- og félagsmálanefndarinnar ( 2 ),

í samræmi við málsmeðferðina sem mælt er fyrir um í 189. gr. b í sáttmálanum ( 3 ),

og að teknu tilliti til eftirfarandi:

     1)      Samkvæmt 7. gr. a í sáttmálanum á innri markaðurinn að mynda svæði án innri landamæra. Eitt af markmiðum bandalagsins er, samkvæmt c-lið 3. gr. sáttmálans, að afnema hindranir á frjálsri för fólks og frelsi til þjónustu milli aðildarríkja. Fyrir ríkisborgara aðildarríkjanna merkir þetta meðal annars að þeir geta stundað starfsgrein sína, sjálfstætt starfandi eða sem launamenn, í öðru aðildarríki en þar sem þeir hlutu starfsmenntun sína og hæfi.

     2)      Samkvæmt tilskipun ráðsins 89/48/EBE frá 21. desember 1988 um almennt kerfi til viðurkenningar á prófskírteinum, sem veitt eru að lokinni sérfræðimenntun og starfsþjálfun á æðra skólastigi sem staðið hefur að minnsta kosti í þrjú ár ( 4 ), getur lögmaður, sem hefur fulla menntun og hæfi í einu aðildarríki, nú þegar farið fram á að fá prófskírteini sitt viðurkennt með það fyrir augum að setjast að í öðru aðildarríki og starfa þar sem lögmaður undir því starfsheiti sem er notað í því ríki. Markmiðið með tilskipun 89/48/EBE er að sjá til þess að lögmaður fái inngöngu í starfsgreinina í gistiaðildarríkinu og hún miðar hvorki að því að breyta reglum, sem gilda um starfsgreinina í því ríki, né að undanþiggja lögmanninn frá því að fara eftir þeim reglum.

     3)      Sumir lögmenn geta á skömmum tíma fengið inngöngu í starfsgreinina í gistiríkinu, meðal annars með því að gangast undir hæfnispróf eins og kveðið er á um í tilskipun 89/48/EBE en aðrir lögmenn, með fulla menntun og hæfi, eiga að geta fengið slíka inngöngu eftir að hafa starfað í faginu í tiltekinn tíma í gistiaðildarríkinu undir starfsheiti heimalands síns en halda að öðrum kosti áfram að starfa undir starfsheiti heimalands síns.

     4)      Að þeim tíma liðnum ætti lögmaðurinn að geta fengið inngöngu í starfsgreinina í gistiríkinu eftir að gengið hefur verið úr skugga um að hann hafi öðlast starfsreynslu í því aðildarríki.

     5)      Aðgerðir á þessu sviði eru réttlætanlegar á vettvangi bandalagsins, ekki aðeins vegna þess að þær opna lögmönnum greiðari leið inn í starfsgreinina í gistiaðildarríkinu, borið saman við hið almenna kerfi til viðurkenningar á prófskírteinum, heldur einnig vegna þess að þegar lögmönnum er gert kleift að stunda starfsemi til frambúðar í gistiaðildarríki undir starfsheiti heimalands síns er verið að uppfylla kröfur neytenda um lögfræðiþjónustu sem, vegna aukinna viðskipta, aðallega vegna innri markaðarins, leita eftir ráðgjöf þegar þeir stunda viðskipti yfir landamæri þar sem þjóðaréttur, bandalagsréttur og innlend réttarkerfi skarast oft.

     6)      Aðgerðir á vettvangi bandalagsins eru einnig réttlætanlegar vegna þess að einungis fáein aðildarríki leyfa nú þegar, á yfirráðasvæði sínu, að lögmenn frá öðrum aðildarríkjum, sem starfa undir starfsheiti heimalands síns, stundi aðra starfsemi en þá að veita þjónustu. Í þeim aðildarríkjum, þar sem þessi möguleiki er fyrir hendi, er umtalsverður munur á einstökum þáttum er varða til dæmis starfssviðið og skylduna að skrá sig hjá lögbærum yfirvöldum. Svo margbreytilegar aðstæður leiða til misréttis og röskunar á samkeppni milli lögmanna í aðildarríkjunum og valda hindrunum í frjálsri för. Þessa erfiðleika er einungis hægt að leysa með tilskipun þar sem mælt er fyrir um skilyrði fyrir því að lögmenn, sem starfa undir starfsheiti heimalandsins, geti stundað lögmannsstörf, önnur en þau að veita þjónustu, og með því að veita lögmönnum og notendum lögmannsþjónustu í öllum aðildarríkjunum sömu tækifæri.

     7)      Í samræmi við markmið þessarar tilskipunar er í henni ekki mælt fyrir um reglur er varða innlendar aðstæður eingöngu og hún hefur ekki áhrif á innlendar reglur, sem gilda um starfsgrein lögmanna, nema að því marki sem nauðsynlegt er til að unnt sé að ná markmiðum hennar á skilvirkan hátt. Hún hefur engin áhrif á innlenda löggjöf sem gildir um aðgang að og ástundun lögmannsstarfa undir starfsheiti sem notað er í gistiaðildarríkinu.

     8)      Lögmönnum, sem þessi tilskipun gildir um, skal gert skylt að skrá sig hjá lögbæru yfirvaldi í gistiaðildarríkinu svo að það yfirvald geti fullvissað sig um að þeir fari að gildandi siðareglum starfsgreinar í því aðildarríki. Réttaráhrif slíkrar skráningar, að því er varðar dómsögu og það á hvaða dómstigi og við hvers konar dómstóla lögmönnum er heimilt að starfa, eru ákvörðuð í gildandi lögum um lögmenn í gistiaðildarríkinu.

     9)      Rétt er að lögmenn, sem hafa ekki fengið inngöngu í starfsgreinina í gistiaðildarríkinu, starfi undir starfsheiti heimalands síns í því ríki til að tryggja að notendur séu nægilega vel upplýstir og til að greina á milli slíkra lögmanna og lögmanna gistiaðildarríkisins sem starfa undir starfsheitinu sem þar er notað.

     10)      Lögmenn, sem þessi tilskipun gildir um, skulu hafa leyfi til að veita lögfræðilega ráðgjöf einkum um réttarkerfi heimaaðildarríkis síns, um réttarkerfi bandalagsins, um þjóðarétt og um réttarkerfi gistiaðildarríkisins. Þetta er leyft nú þegar að því er varðar þjónustuveitingu samkvæmt tilskipun ráðsins 77/249/EBE frá 22. mars 1977 um að auðvelda lögmönnum að neyta réttar til að veita þjónustu ( 5 ). Þó er rétt að setja ákvæði, eins og í tilskipun 77/249/EBE, um að útiloka megi að lögmenn, sem stunda starf sitt undir starfsheiti heimalands síns á Stóra-Bretlandi og Írlandi, útbúi tiltekin formleg afsalsbréf og erfðaskjöl. Þessi tilskipun hefur á engan hátt áhrif á ákvæði þar sem mælt er fyrir um að tiltekin starfsemi flokkist, í öllum aðildarríkjum, undir aðrar starfsgreinar en starfsgrein lögmanna. Gistiaðildarríki skal, eins og kveðið er á um í tilskipun 77/249/EBE, hafa rétt til að krefjast þess að lögmaður, sem stundar störf undir starfsheiti heimalands síns, starfi í tengslum við lögmann á staðnum þegar hann kemur fram sem fulltrúi eða verjandi skjólstæðings í málarekstri. Túlka ber þá kröfu í ljósi fordæmisréttar dómstóls Evrópubandalaganna, einkum dóms frá 25. febrúar 1988 í máli 427/85 (framkvæmdastjórnin gegn Þýskalandi) ( 6 ).

     11)      Til að tryggja að réttarkerfið starfi eðlilega skulu aðildarríkin hafa heimild til, með sérstökum reglum, að veita einungis lögmönnum með sérþekkingu aðgang að æðstu dómstólum án þess þó að hindra inngöngu lögmanna í aðildarríkjunum sem uppfylla nauðsynleg skilyrði.

     12)      Lögmaður, sem er skráður undir starfsheiti heimalands síns í gistiaðildarríkinu, verður að vera skráður áfram hjá lögbæru yfirvaldi í heimaaðildarríki sínu til að geta haldið stöðu sinni sem lögmaður og fallið undir þessa tilskipun. Af þeim sökum er það óhjákvæmilegt að lögbær yfirvöld eigi náið samstarf, einkum í tengslum við hugsanlega meðferð agabrota.

     13)      Lögmenn, sem þessi tilskipun gildir um, hvort heldur þeir eru sjálfstætt starfandi eða launamenn í heimaaðildarríki sínu, geta starfað í þjónustu annarra í gistiaðildarríkinu ef lögmönnum í því aðildarríki er gefinn kostur á því sama.

     14)      Tilgangurinn með þessari tilskipun er að gera lögmönnum kleift að stunda störf í öðru aðildarríki undir starfsheiti heimalandsins en einnig sá að auðvelda þeim að fá starfsheiti í gistiaðildarríkinu. Samkvæmt 48. og 52. gr. sáttmálans og í samræmi við túlkun Evrópudómstólsins skal gistiaðildarríkið taka til greina alla starfsreynslu sem aflað hefur verið á yfirráðasvæði þess. Þegar lögmaður hefur, reglubundið og með virkum hætti, starfað í réttarkerfi þess ríkis, þar á meðal réttarkerfi bandalagsins, í þrjú ár er eðlilegt að líta svo á að hann hafi öðlast nauðsynlega hæfni til að fá fulla inngöngu í starfsgrein lögmanna þar. Að þeim tíma liðnum ætti lögmaðurinn að geta fengið starfsheitið lögmaður í gistiríkinu eftir að gengið hefur verið úr skugga um að hann hafi öðlast starfsreynslu í því aðildarríki. Ef starfað er í réttarkerfi gistiaðildarríkisins í stuttan tíma á að minnsta kosti þriggja ára tímabili reglubundinnar og virkrar starfsemi skal yfirvald einnig taka tillit til allrar annarrar þekkingar á réttarkerfi þess ríkis en slíka þekkingu getur það sannreynt í viðtölum. Ef ekki eru færðar sönnur á að þessum skilyrðum sé fullnægt verður lögbæra yfirvaldið í gistiríkinu að rökstyðja þá ákvörðun sína að veita ekki starfsheiti ríkisins samkvæmt því einföldunarfyrirkomulagi sem tengist þeim skilyrðum og þeirri ákvörðun á að vera hægt að áfrýja samkvæmt landslögum.

     15)      Af efnahagslegum og faglegum ástæðum hefur vaxandi tilhneiging lögmanna í bandalaginu til að starfa saman, einnig í formi félaga, orðið að veruleika. Þó að lögmenn tilheyri lögmannahópi í heimaaðildarríki sínu skal ekki nota það sem yfirvarp til að koma í veg fyrir eða hindra að þeir hefji störf í gistiaðildarríkinu. Aðildarríkin skulu þó hafa leyfi til að gera viðeigandi ráðstafanir til að ná því lögmæta markmiði að vernda sjálfstæði starfsgreinarinnar. Tilteknar ábyrgðir skulu veittar í þeim aðildarríkjum sem leyfa sameiginlega starfsemi lögmanna.

SAMÞYKKT TILSKIPUN ÞESSA:

1. gr.

Tilgangur, gildissvið og skilgreiningar

1.     Tilgangurinn með þessari tilskipun er að auðvelda lögmönnum að stunda starf sitt til frambúðar, sjálfstætt starfandi eða sem launamenn, í öðru aðildarríki en þar sem þeir hlutu starfsmenntun sína og hæfi.

2.     Í þessari tilskipun er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:

a)      „lögmaður“: einstaklingur sem er ríkisborgari í aðildarríki og hefur leyfi til að starfa í sínu fagi undir einu af eftirfarandi starfsheitum:

    Belgía             Avocat/Advocaat/Rechtsanwalt

    Danmörk             Advokat

    Þýskaland         Rechtsanwalt

    Grikkland         .........

    Spánn             Abogado/Advocat/Avogado/
                            Abokatu

    Frakkland         Avocat

    Írland             Barrister/Solicitor

    Ítalía                 Avvocato

    Lúxemborg    Avocat

    Holland             Advocaat

    Austurríki         Rechtsanwalt

    Portúgal             Advogado

    Finnland             Asianajaja/Advokat

    Svíþjóð             Advokat

    Breska
    konungsríkið    Advocate/Barrister/Solicitor

b)      „heimaaðildarríki“: aðildarríkið þar sem lögmaður öðlaðist rétt til að nota eitt af starfsheitunum, sem um getur í a-lið, áður en hann hóf lögmannsstörf í öðru aðildarríki;

c)      „gistiaðildarríki“: aðildarríki þar sem lögmaður stundar störf samkvæmt þessari tilskipun;

d)      „starfsheiti heimalands“: starfsheitið sem er notað í aðildarríkinu þar sem lögmaður öðlaðist rétt til að nota það starfsheiti áður en hann hóf lögmannsstörf í gistiaðildarríkinu;

e)      „lögmannahópur“: eining, með eða án réttarstöðu lögpersónu, sem er mynduð samkvæmt lögum aðildarríkis þar sem lögmenn starfa sameiginlega í sínu fagi undir sameiginlegu nafni;

f)      „viðkomandi starfsheiti“ eða „viðkomandi starf“: starfsheitið eða starfið sem heyrir undir lögbært yfirvald sem lögmaðurinn hefur skráð sig hjá samkvæmt 3. gr., og „lögbært yfirvald“ merkir það yfirvald.

3.     Þessi tilskipun gildir bæði um lögmenn, sem starfa sjálfstætt, og um lögmenn sem starfa sem launamenn í heimaaðildarríki sínu og, með fyrirvara um 8. gr., í gistiaðildarríkinu.

4.     Veiting þjónustu er ekki talin með í störfum lögmanna í skilningi þessarar tilskipunar en ákvæði tilskipunar 77/249/EBE gilda um hana.

2. gr.

Réttur til að starfa undir starfsheiti heimalands

Lögmönnum skal vera frjálst að stunda þá starfsemi, sem er tilgreind í 5. gr., til frambúðar í hvaða öðru aðildarríki sem er undir starfsheiti heimalands síns.

Innganga lögmanna í starfsgreinina í gistiaðildarríkinu fellur undir ákvæði 10. gr.

3. gr.

Skráning hjá lögbæru yfirvaldi

1.     Lögmaður, sem óskar að starfa í öðru aðildarríki en þar sem hann aflaði sér faglegrar menntunar og hæfis, skal skrá sig hjá lögbæru yfirvaldi í því ríki.

2.     Lögbæra yfirvaldið í gistiaðildarríkinu skal skrá lögmanninn þegar hann framvísar skírteini sem vottar skráningu hans hjá lögbæru yfirvaldi í heimaaðildarríkinu. Það getur krafist þess að skírteini, sem er gefið út af lögbæru yfirvaldi í heimaaðildarríkinu, sé ekki meira en þriggja mánaða gamalt þegar því er framvísað. Það skal tilkynna lögbæra yfirvaldinu í heimaaðildarríkinu um skráninguna.

3.     Að því er varðar beitingu 1. mgr.:

—    í Breska konungsríkinu og á Írlandi skulu lögmenn, sem starfa undir öðrum starfsheitum en þeim sem notuð eru í Breska konungsríkinu eða á Írlandi, skrá sig, annaðhvort hjá yfirvaldinu sem ber ábyrgð á starfi lögmanna er kalla sig „barrister“ eða „advocate“ eða hjá yfirvaldinu sem ber ábyrgð á starfi lögmanna er kalla sig „solicitor“,

—    í Breska konungsríkinu skal yfirvaldið, sem ber ábyrgð á lögmönnum er kalla sig „barrister“ eða „advocate“, bera ábyrgð á lögmönnum frá Írlandi er kalla sig „barrister“ og yfirvaldið, sem ber ábyrgð á lögmönnum er kalla sig „solicitor“, skal bera ábyrgð á lögmönnum frá Írlandi er kalla sig „solicitor“,

—    á Írlandi skal yfirvaldið, sem ber ábyrgð á lögmönnum er kalla sig „barrister“, bera ábyrgð á lögmönnum frá Breska konungsríkinu er kalla sig „barrister“ eða „advocate“ og yfirvaldið, sem ber ábyrgð á lögmönnum er kalla sig „solicitor“, skal bera ábyrgð á lögmönnum frá Breska konungsríkinu er kalla sig „solicitor“.

4.     Þegar viðkomandi lögbært yfirvald í gistiaðildarríkinu birtir nöfn lögmanna sem skrá sig hjá því skal það einnig birta nöfn þeirra lögmanna sem eru skráðir samkvæmt þessari tilskipun.

4. gr.

Starfað undir starfsheiti heimalands

1.     Lögmaður, sem starfar í gistiaðildarríki undir starfsheiti heimalandsins, skal gera það undir því starfsheiti og skal setja það fram á opinberu tungumáli eða einu af opinberum tungumálum heimaaðildarríkis hans á greinilegan hátt svo að því sé ekki ruglað saman við starfsheiti gistiaðildarríkisins.

2.     Að því er varðar beitingu a-liðar 1. mgr. getur gistiaðildarríki krafist þess að lögmaður, sem starfar undir starfsheiti heimalandsins, gefi upp hvaða sérfræðistofnun hann tilheyrir í heimaaðildarríkinu eða hvaða dómsmálayfirvald hann hefur leyfi til að starfa fyrir samkvæmt lögum heimaaðildarríkis hans. Gistiaðildarríki getur einnig krafist þess að lögmaður, sem stundar starf undir starfsheiti heimalands síns, greini frá því hjá hvaða lögbæru yfirvaldi í því ríki hann sé skráður.

5. gr.

Starfssvið

1.     Með fyrirvara um 2. og 3. mgr. hefur lögmaður, sem starfar undir starfsheiti heimalandsins, með höndum sömu starfsemi í sínu fagi og lögmaður, sem starfar undir viðkomandi starfsheiti sem er notað í gistiaðildarríkinu, og hefur meðal annars heimild til að veita ráðgjöf varðandi réttarkerfi heimaaðildarríkis síns, réttarkerfi bandalagsins, þjóðarétt og réttarkerfi gistiaðildarríkisins. Hann skal í öllum tilvikum fara að gildandi málsmeðferðarreglum innlendra dómstóla.

2.     Aðildarríki, sem heimila tilteknum hópum lögmanna á yfirráðasvæði sínu að útbúa formleg skjöl, sem veita þeim rétt til að fara með eigur látins fólks eða rétt til að kaupa eða afsala fasteignum, sem í öðrum aðildarríkjum flokkast undir önnur störf en lögmannsstörf, geta útilokað frá slíkri starfsemi lögmenn sem starfa undir starfsheiti heimalands sem veitt er í einu af síðarnefndu aðildarríkjunum.

3.     Að því er varðar starfsemi er tengist því að koma fram fyrir hönd skjólstæðings sem fulltrúi hans eða verjandi í málarekstri og að svo miklu leyti sem lög gistiaðildarríkisins gera ráð fyrir því að slík starfsemi sé einungis á hendi lögmanna sem starfa undir starfsheiti þess ríkis getur það ríki krafist þess að lögmenn, sem starfa undir starfsheiti heimalands síns, vinni ásamt lögmanni, sem starfar fyrir viðkomandi dómsmálayfirvald og myndi, ef þörf krefði, vera ábyrgur gagnvart því yfirvaldi eða ásamt málflytjanda („avoué“) hjá dómstólnum.

Til að réttarkerfið starfi eðlilega geta aðildarríkin þó mælt fyrir um sérstakar reglur um aðgang að hæstarétti, til dæmis um lögmenn með sérþekkingu.

6. gr.

Gildandi siðareglur starfsgreinar

1.     Þrátt fyrir þær siðareglur starfsgreinar sem lögmaður er bundinn af í heimaaðildarríki sínu skal hann, ef hann starfar undir starfsheiti heimalands síns, vera bundinn af sömu siðareglum starfsgreinar og lögmenn sem starfa undir viðkomandi starfsheiti gistiaðildarríkisins að því er varðar alla starfsemi sem hann hefur með höndum á yfirráðasvæði þess.

2.     Fagfélag gistiaðildarríkis skal vera í viðeigandi fyrirsvari fyrir lögmenn sem starfa undir starfsheiti heimalands síns.Í slíku fyrirsvari skal að minnsta kosti felast réttur til að greiða atkvæði í stjórnarkosningum þessara fagfélaga.

3.     Gistiaðildarríkið getur krafist þess að lögmaður, sem starfar undir starfsheiti heimalands síns, hafi starfsábyrgðartryggingu eða gerist félagi í tryggingasjóði starfsgreinarinnar í samræmi við reglur sem það ríki mælir fyrir um vegna atvinnustarfsemi sem fer fram á yfirráðasvæði þess. Lögmaður, sem starfar undir starfsheiti heimalands síns, skal þó undanþeginn þeirri kröfu ef hann getur sannað að hann hafi vátryggingu eða ábyrgð í samræmi við reglur í heimaaðildarríkinu, að því tilskildu að slík trygging eða ábyrgð sé jafngild að því er varðar skilyrði og gildissvið. Ef tryggingin er aðeins jafngild að hluta til geta lögbær yfirvöld í gistiaðildarríkinu krafist þess að samið sé um viðbótartryggingu eða viðbótarábyrgð, sem nær yfir þá þætti sem falla ekki undir trygginguna eða ábyrgðina, sem samið er um í samræmi við reglur í heimaaðildarríkinu.

7. gr.

Meðferð agabrota

1.     Ef lögmaður, sem starfar undir starfsheiti heimalands síns, uppfyllir ekki skyldur sem eru gildandi í gistiaðildarríkinu, skulu málsmeðferðarreglur, refsing og viðurlög, sem kveðið er á um í gistiaðildarríkinu, gilda.

2.     Áður en meðferð agabrota er hafin gagnvart lögmanni sem starfar undir starfsheiti heimalands síns skal lögbært yfirvald í gistiaðildarríkinu tilkynna lögbæra yfirvaldinu í heimaaðildarríkinu það, eins fljótt og unnt er, og veita því allar viðeigandi upplýsingar.

Fyrsti undirliður skal að breyttu breytanda gilda þegar lögbært yfirvald í heimaaðildarríkinu hefur meðferð agabrota og skal það tilkynna lögbæra yfirvaldinu í gistiaðildarríkinu eða -ríkjunum um það.

3.     Það yfirvald skal eiga samstarf við lögbæra yfirvaldið í heimaaðildarríkinu á meðan á meðferð agabrots stendur en það hefur þó ekki áhrif á heimild lögbæra yfirvaldsins í gistiaðildarríkinu til ákvarðanatöku. Einkum skal gistiaðildarríkið gera þær ráðstafanir sem eru nauðsynlegar til að tryggja að lögbæra yfirvaldið í heimaaðildarríkinu geti lagt inn athugasemdir hjá þeim aðilum sem bera ábyrgð á réttarhaldi vegna áfrýjunar.

4.     Lögbæra yfirvaldið í heimaaðildarríkinu skal ákveða til hvaða aðgerða skuli grípa samkvæmt sínum eigin formlegu og efnislegu reglum í ljósi ákvörðunar sem lögbæra yfirvaldið í gistiaðildarríkinu hefur tekið varðandi lögmann sem starfar undir starfsheiti heimalandsins.

5.     Þó að það sé ekki forsenda fyrir ákvörðun lögbæra yfirvaldsins í gistiaðildarríkinu skal bráðabirgða- eða endanleg afturköllun lögbæra yfirvaldsins í heimaaðildarríkinu á starfsleyfi leiða sjálfkrafa til þess að viðkomandi lögmanni sé bannað, tímabundið eða endanlega, að starfa undir starfsheiti heimalands síns í gistiaðildarríkinu.

8. gr.

Launuð störf

Lögmaður, sem er skráður í gistiaðildarríki undir starfsheiti heimalandsins, getur starfað sem launaður lögmaður í þjónustu annars lögmanns, félags eða fyrirtækis lögmanna eða hjá opinberu eða einkareknu fyrirtæki svo framarlega sem gistiaðildarríkið veitir lögmönnum, sem eru skráðir undir starfsheiti sem er notað í því ríki, leyfi til þess.

9. gr.

Yfirlýsing um ástæður og úrræði

Gera skal grein fyrir ástæðum þess ef ákveðið er að synja um skráningu, sem um getur í 3. gr., eða ógilda slíka skráningu eða ákveðið er að gera ráðstafanir vegna agabrots.

Unnt á að vera að leita úrræða vegna slíkra ákvarðana fyrir dómstóli eða dómi í samræmi við ákvæði landslaga.

10. gr.

Sams konar meðferð og lögmaður í gistiaðildarríki

1.     Lögmaður sem hefur, reglubundið og með virkum hætti, stundað starfsemi undir starfsheiti heimalandsins í að minnsta kosti þrjú ár í gistiaðildarríkinu í réttarkerfi þess ríkis, þar með talið í bandalagsrétti, skal, með það fyrir augum að hann fái inngöngu í starfsgrein lögmanna í gistiaðildarríkinu, vera undanþeginn skilyrðunum sem sett eru fram í b-lið 1. mgr. 4. gr. í tilskipun 89/48/EBE. „Að stunda starfsemi reglubundið og með virkum hætti“ merkir að starfa samfellt og einungis með þeim hléum sem eðlilegt er að verði í daglegu lífi.

Viðkomandi lögmanni ber að láta lögbæru yfirvaldi í gistiaðildarríkinu í té sönnun fyrir því að hann hafi starfað, reglubundið og með virkum hætti, í réttarkerfi gistiaðildarríkisins í að minnsta kosti þrjú ár. Í því skyni:

a)      skal lögmaðurinn láta lögbæra yfirvaldinu í gistiaðildarríkinu í té allar viðeigandi upplýsingar og skjöl, einkum um fjölda mála sem hann hefur fengist við og hvers eðlis þau eru;

b)      getur lögbæra yfirvaldið í gistiaðildarríkinu sannprófað hvort starfsemin, sem um er að ræða, sé stunduð reglubundið og með virkum hætti og getur, ef þörf krefur, beðið lögmanninn að láta í té, munnlega eða skriflega, skýringar eða frekari útlistanir á upplýsingunum og skjölunum sem getið er í a-lið.

Rökstyðja verður þá ákvörðun lögbæra yfirvaldsins í gistiaðildarríkinu að veita ekki undanþágu þegar ekki er lögð fram sönnun fyrir því að kröfunum, sem mælt er fyrir um í fyrstu undirgrein, sé fullnægt og henni skal vera hægt að áfrýja samkvæmt landslögum.

2.     Lögmaður, sem starfar undir starfsheiti heimalands síns í gistiaðildarríki, getur, hvenær sem er, sótt um að fá prófskírteini sitt viðurkennt í samræmi við tilskipun 89/48/EBE með það fyrir augum að fá aðgang að starfsgrein lögmanna í gistiaðildarríkinu og starfa innan hennar undir starfsheiti sem svarar til starfsins í því ríki.

3.     Lögmaður sem starfar undir starfsheiti heimalandsins og hefur stundað starfsemi í sínu fagi, reglubundið og með virkum hætti, í að minnsta kosti þrjú ár í gistiaðildarríkinu en skemur í réttarkerfi þess aðildarríkis getur fengið aðgang að starfsgrein lögmanna í gistiaðildarríkinu og rétt til að stunda hana undir starfsheiti, sem svarar til starfsins í því aðildarríki, án þess að þurfa að uppfylla skilyrðin sem um getur í b-lið 1. mgr. 4. gr. í tilskipun 89/48/EBE, með þeim skilyrðum og í samræmi við málsmeðferðina sem er lýst hér á eftir.

a)      Lögbært yfirvald í heimaaðildarríkinu skal taka tillit til starfsemi í faginu, sem er stunduð reglubundið og með virkum hætti, á áðurnefndu tímabili og allrar þekkingar og starfsreynslu í réttarkerfi gistiaðildarríkisins og einnig þátttöku í fyrirlestrahaldi eða námskeiðum um réttarkerfi gistiaðildarríkisins, þar með talið reglna varðandi fagið og siðareglna.

b)      Lögmaðurinn skal láta lögbæra yfirvaldinu í gistiaðildarríkinu í té allar viðeigandi upplýsingar og skjöl, einkum um þau mál sem hann hefur fengist við. Mat á reglubundinni og virkri starfsemi lögmannsins í gistiaðildarríkinu og mat á getu hans til að halda áfram starfseminni, sem hann hefur stundað þar, skal fara fram í viðtölum við lögbæra yfirvaldið í gistiaðildarríkinu með það fyrir augum að sannreyna hve reglubundin og virk starfsemin er.

Rökstyðja verður þá ákvörðun lögbæra yfirvaldsins í gistiaðildarríkinu að veita ekki leyfi þegar ekki er lögð fram sönnun fyrir því að kröfunum, sem mælt er fyrir um í fyrstu undirgrein, sé fullnægt og ákvörðuninni skal vera hægt að skjóta til dómstóla samkvæmt landslögum.

4.     Lögbæra yfirvaldið í gistiaðildarríkinu getur, með rökstuddri ákvörðun sem hægt er að skjóta til dómstóla samkvæmt landslögum, synjað lögmanni um að njóta góðs af ákvæðum þessarar greinar ef það telur að það myndi stríða gegn allsherjarreglu, einkum þegar um er að ræða meðferð agabrota, kæru eða einhverja slíka atburði.

5.     Fulltrúar lögbæra yfirvaldsins, sem fjalla um umsóknina, skulu fara með allar upplýsingar sem þeir fá sem trúnaðarmál.

6.     Lögmaður, sem fær aðgang að starfsgrein lögmanna í gistiaðildarríkinu í samræmi við 1., 2. og 3. mgr., skal eiga rétt á því að nota starfsheiti heimalands síns, á opinberu tungumáli eða einu af opinberum tungumálum heimaaðildarríkisins, jafnhliða starfsheitinu sem svarar til lögmannsstarfsins í gistiaðildarríkinu.

11. gr.

Sameiginleg starfsemi

Þar sem sameiginleg starfsemi er leyfð meðal lögmanna sem stunda starfsemi undir viðkomandi starfsheiti í gistiaðildarríkinu skulu eftirfarandi ákvæði gilda þegar um er að ræða lögmenn sem æskja þess að stunda starfsemi undir því heiti eða skrá sig þannig hjá lögbæra yfirvaldinu:

     1)      Einn eða fleiri lögmenn, sem tilheyra sama lögmannahópi í heimaðildarríki sínu, og sem starfa undir starfsheiti heimalands síns í gistiaðildarríki, geta stundað starfsemi sína í faginu gegnum útibú eða umboð sem hópurinn kemur á fót í gistiaðildarríkinu. Þegar grundvallarreglurnar, sem gilda um slíka lögmannahópa í heimaaðildarríkinu, eru ósamrýmanlegar grundvallarreglum, sem mælt er fyrir um í lögum, reglum eða stjórnsýslufyrirmælum í gistiaðildarríkinu, skulu þær síðarnefndu ganga framar svo framarlega sem almannahagsmunir réttlæta að farið sé eftir þeim þegar vernda þarf viðskiptamenn og þriðju aðila.

     2)      Hvert aðildarríki skal veita tveimur eða fleiri lögmönnum úr sama lögmannahópi eða frá sama heimaaðildarríki, sem starfa á yfirráðasvæði þess undir starfsheiti heimalands síns, möguleika á að stunda sameiginlega starfsemi. Ef gistiaðildarríkið gefur lögmönnum sínum kost á að velja á milli nokkurra ólíkra tegunda af sameiginlegri starfsemi skulu þær tegundir starfsemi einnig standa áðurnefndum lögmönnum til boða. Sameiginleg starfsemi slíkra lögmanna í gistiaðildarríkinu skal vera með þeim hætti að samrýmist lögum og stjórnsýslufyrirmælum í því ríki.

     3)      Gistiaðildarríkið skal gera allar nauðsynlegar ráðstafanir til að einnig sé hægt að leyfa sameiginlega starfsemi:

            a)      nokkurra lögmanna frá mismunandi aðildarríkjum sem starfa undir starfsheitum heimalanda sinna;

            b)      eins eða fleiri lögmanna sem falla undir a- lið og eins eða fleiri lögmanna frá gistiaðildarríkinu.

        Sameiginleg starfsemi slíkra lögmanna í gistiaðildarríkinu skal vera með þeim hætti að samrýmist lögum og stjórnsýslufyrirmælum í því ríki.

     4)      Lögmaður, sem óskar eftir því að starfa undir starfsheiti heimalands síns, skal tilkynna lögbæru yfirvaldi í gistiaðildarríkinu um það ef hann er aðili að lögmannahópi í heimalandi sínu og láta í té allar viðeigandi upplýsingar um þann hóp.

     5)      Þrátt fyrir 1.–4. lið getur gistiaðildarríki synjað lögmanni, sem er með skráð starfsheiti heimalands síns, um leyfi til að starfa á yfirráðasvæði sínu sem félagsmaður í lögmannahópi ef það bannar lögmönnum, sem starfa undir sínu eigin starfsheiti, að stunda lögmannsstörf í lögmannahópi þar sem sumir aðilarnir eru ekki félagsmenn í starfsgreininni. Lögmannahópur telst hafa innan sinna vébanda einstaklinga sem eru ekki félagsmenn í starfsgreininni ef einstaklingar sem hafa ekki stöðu lögmanns í skilningi 2. mgr.:

        —    eiga fjármagn lögmannahópsins að öllu leyti eða að hluta, eða

        —    nota nafnið sem hópurinn starfar undir, eða

        —    hafa ákvörðunarvaldið í lögmannahópnum að lögum eða í raun.

        Ef grundvallarreglurnar, sem gilda um lögmannahópa í heimaaðildarríkinu, eru ósamrýmanlegar gildandi reglum í gistiaðildarríkinu eða ákvæðum fyrstu undirgreinar getur gistiaðildarríkið bannað að opnað verði útibú eða umboðsskrifstofa á yfirráðasvæði þess án þeirra takmarkana sem mælt er fyrir um í 1. lið.

12. gr.

Heiti lögmannahópa

Lögmenn geta notað heiti lögmannahóps, sem þeir tilheyra í heimaaðildarríki sínu, á hvaða hátt sem þeir starfa undir starfsheitum heimalanda sinna í gistiaðildarríki.

Gistiaðildarríki getur krafist þess að auk heitisins, sem um getur í fyrstu undirgrein, sé gefið upp félagsform lögmannahópsins í heimaaðildarríkinu og/eða nöfn þeirra félagsmanna sem starfa í gistiaðildarríkinu.

13. gr.

Samstarf lögbærra yfirvalda í heimaaðildarríkinu og gistiaðildarríkinu og trúnaðarkvaðir

Til að auðvelda beitingu þessarar tilskipunar og til að koma í veg fyrir að ákvæði hennar séu misnotuð í þeim tilgangi eingöngu að fara í kringum gildandi reglur í gistiaðildarríkinu skulu lögbært yfirvald í gistiaðildarríkinu og lögbært yfirvald í heimaaðildarríkinu hafa náið samráð og veita gagnkvæma aðstoð.

Þau skulu fara með upplýsingarnar sem þau skiptast á sem trúnaðarmál.

14. gr.

Tilnefning lögbærra yfirvalda

Aðildarríkin skulu, eigi síðar en 14. mars 2000, tilnefna lögbær yfirvöld sem er veitt umboð til að taka á móti umsóknum og taka þær ákvarðanir sem um getur í þessari tilskipun. Þau skulu koma þessum upplýsingum á framfæri við hin aðildarríkin og framkvæmdastjórnina.

15. gr.

Skýrsla framkvæmdastjórnarinnar

Eigi síðar en tíu árum eftir gildistöku þessarar tilskipunar skal framkvæmdastjórnin gefa Evrópuþinginu og ráðinu skýrslu um það hvernig framkvæmd þessarar tilskipunar miðar.

Eftir að hafa haft nauðsynlegt samráð skal hún, í þessu sambandi, gera grein fyrir niðurstöðum sínum ásamt þeim breytingum sem hugsanlega mætti gera á núverandi kerfi.

16. gr.

Framkvæmd

1.     Aðildarríkin skulu samþykkja nauðsynleg lög og stjórnsýslufyrirmæli til að fara að tilskipun þessari fyrir 14. mars 2000. Þau skulu tilkynna það framkvæmdastjórninni þegar í stað.

Þegar aðildarríkin samþykkja þessar ráðstafanir skal vera í þeim tilvísun í þessa tilskipun eða þeim fylgja slík tilvísun þegar þær eru birtar opinberlega. Aðildarríkin skulu setja nánari reglur um slíka tilvísun.

2.     Aðildarríkin skulu senda framkvæmdastjórninni helstu ákvæði úr landslögum sem þau samþykkja um málefni sem tilskipun þessi nær til.

17. gr.

Tilskipun þessi öðlast gildi á þeim degi sem hún birtist í Stjórnartíðindum Evrópubandalaganna.

18. gr.

Viðtakendur

Tilskipun þessari er beint til aðildarríkjanna.

Gjört í Brussel 16. febrúar 1998.

Fyrir hönd Evrópuþingsins,

J. M. GIL-ROBLES
forseti.
Fyrir hönd ráðsins,

J. CUNNINGHAM
forseti.

Neðanmálsgrein: 1
(1)    Stjtíð. EB L 165, 21.6.2001, bls. 60 og EES-viðbætir við Stjtíð. EB nr. 32, 21.6.2001, bls. 1.
Neðanmálsgrein: 2
(2)    Stjtíð. EB L 77, 14.3.1998, bls. 36.
Neðanmálsgrein: 3
(*)    Stjórnskipuleg skilyrði gefin til kynna.
Neðanmálsgrein: 4
(1)    Stjtíð. EB C 128, 24. 5. 1995, bls. 6 og Stjtíð. EB C 355, 25. 11. 1996, bls. 19.
Neðanmálsgrein: 5
(2)    Stjtíð. EB C 256, 2. 10. 1995, bls. 14.
Neðanmálsgrein: 6
(3)    Álit Evrópuþingsins frá 19. júní 1996 (Stjtíð. EB C 198, 8. 7. 1996, bls. 85), sameiginleg afstaða ráðsins frá 24. júlí 1997 (Stjtíð. EB C 297, 29. 9. 1997, bls. 6), ákvörðun Evrópuþingsins frá 19. nóvember 1997 (ákvörðun ráðsins frá 15. desember 1997).
Neðanmálsgrein: 7
(4)    Stjtíð. EB L 19, 24. 1. 1989, bls. 16.
Neðanmálsgrein: 8
(5)    Stjtíð. EB L 78, 26. 3. 1977, bls. 17. Tilskipuninni var síðast breytt með aðildarlögunum frá 1994.
Neðanmálsgrein: 9
(6)    Dómasafn EB (ECR) 1988, bls.1123.