Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 421. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 530  —  421. mál.
Frumvarp til lagaum Lýðheilsustöð.

(Lagt fyrir Alþingi á 128. löggjafarþingi 2002–2003.)1. gr.

Markmið.

    Markmið laga þessara er að efla lýðheilsu. Með eflingu lýðheilsu er átt við aðgerðir sem ætlað er að viðhalda og bæta heilbrigði þjóðarinnar eða tilgreindra hópa í þjóðfélaginu með skipulegum og viðurkenndum aðferðum.

2. gr
Yfirstjórn.

    Starfrækja skal Lýðheilsustöð til að vinna að markmiðum laga þessara. Hún skal vera undir yfirstjórn heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra. Ráðherra skipar forstjóra Lýðheilsustöðvar til fimm ára í senn. Forstjóri ber ábyrgð á rekstri og fjárreiðum stöðvarinnar og ræður aðra starfsmenn hennar.

3. gr.
Hlutverk.

    Hlutverk stöðvarinnar er að efla lýðheilsustarf og samræma það, annast fræðslu til almennings um heilbrigði og heilsueflingu í samstarfi og samvinnu við landlækni og aðra eftir því sem við á og styðja starfsemi stofnana og frjálsra félagasamtaka til eflingar lýðheilsu. Lýðheilsustöð skal vera stjórnvöldum til ráðgjafar um stefnumótun á sviði lýðheilsu. Forgangsröðun verkefna skal vera í samræmi við heilbrigðisáætlun. Stöðin fylgist með árangri af lýðheilsustarfi og stuðlar að rannsóknum á sviði lýðheilsu í samvinnu við landlækni og mennta- og rannsóknastofnanir.
    Helstu verkefni Lýðheilsustöðvar eru:
     a.      að efla lýðheilsustarf í samvinnu við aðra sem að þeim málum starfa,
     b.      að annast áfengis- og vímuvarnir, manneldi, slysavarnir, tóbaksvarnir og önnur forvarna- og heilsueflingarverkefni á vegum ríkisins,
     c.      að fylgjast með og koma á framfæri nýrri þekkingu og reynslu sem að gagni mætti koma í lýðheilsustarfi,
     d.      að meta reglulega árangur af lýðheilsustarfi og bera hann saman við sett markmið,
     e.      að efla þekkingu og færni þeirra sem starfa að eflingu lýðheilsu,
     f.      að miðla upplýsingum og fræðslu til landsmanna og einstakra hópa í samfélaginu, eftir því sem við á, í samvinnu við landlækni og aðra,
     g.      að stuðla að eflingu kennslu og rannsókna á sviði lýðheilsu og samstarfi við háskóla og aðrar menntastofnanir,
     h.      að beina tillögum til stjórnvalda um aðgerðir til að efla lýðheilsu og forgangsröðun verkefna.
    Ráðherra er heimilt að skilgreina verkefni stöðvarinnar á sviði lýðheilsu nánar með reglugerð.
    Lýðheilsustöð er heimilt, í samráði við ráðherra, að semja við aðra um að sinna starfsemi sem stöðinni er falið að annast samkvæmt lögum eða reglugerðum.

4. gr.
Landsnefnd um lýðheilsu.

    Landsnefnd um lýðheilsu er ráðgjafarnefnd Lýðheilsustöðvar um fagleg málefni. Nefndin er skipuð af ráðherra til fjögurra ára í senn. Formenn sérfræðiráða skv. 5. gr. og landlæknir eða fulltrúi tilnefndur af honum skulu eiga sæti í nefndinni. Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra skipar formann án tilnefningar. Ráðherra skal kveða nánar á um skipan og hlutverk nefndarinnar í reglugerð, m.a. um tilnefningu félaga og stofnana sem vinna að lýðheilsu.

5. gr.
Sérfræðiráð.

    Áfengis- og vímuvarnaráð, manneldisráð, slysavarnaráð og tóbaksvarnaráð skulu starfa innan Lýðheilsustöðvar og gegna hlutverki sérfræðiráða Lýðheilsustöðvar. Heimilt er, með reglugerð, að fela þeim víðtækari verkefni en kveðið er á um í 6.–9. gr.
    Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra skal setja reglugerð um skipan og hlutverk annarra sérfræðiráða. Þau skulu skipuð sérfræðingum og fulltrúum stofnana og félaga sem starfa á viðkomandi sviði. Landlæknir skal tilnefna einn fulltrúa í hvert sérfræðiráð.
    Sérfræðiráð skv. 1. og 2. mgr. skulu vera Lýðheilsustöð og öðrum sem starfa að forvörnum til ráðgjafar hvert á sínu sviði.

6. gr.
Áfengis- og vímuvarnaráð.

    Hlutverk áfengis- og vímuvarnaráðs er að efla og styrkja áfengis- og vímuvarnir, sérstaklega meðal barna og ungmenna, og hafa eftirlit með að ákvæðum laga og reglugerða um áfengis- og vímuvarnir sé framfylgt.
    Ráðið skal stuðla að samvinnu og samræmingu milli þeirra sem starfa að áfengis- og vímuvörnum, svo sem heilsugæslu og annarra heilbrigðisstofnana, sveitarstjórna, löggæslu, menntakerfis, refsivörslukerfis og félagasamtaka.
    Lýðheilsustöð skal ráðstafa fé úr Forvarnasjóði skv. 7. gr. laga nr. 96/1995, um gjald af áfengi og tóbaki, til verkefna á sviði áfengis- og vímuvarna í samráði við ráðherra að fengnum tillögum áfengis- og vímuvarnaráðs.
    Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra skal setja reglugerð þar sem kveðið er á um skipan ráðsins og starfsemi þess, m.a. ráðstöfun fjár úr Forvarnasjóði.

7. gr.
Manneldisráð.

    Hlutverk manneldisráðs er að stuðla að heilsusamlegu mataræði þjóðarinnar í samræmi við manneldismarkmið. Ráðið skal vinna að samræmingu rannsókna og fræðslu á sviði manneldisfræði í samráði við skóla, heilsugæslu og stofnanir á sviði matvælaeftirlits.
    Ráðherra skal setja reglugerð þar sem kveðið er á um skipan ráðsins og starfsemi þess.

8. gr.
Slysavarnaráð.

    Hlutverk slysavarnaráðs er að stuðla að fækkun slysa.
    Ráðið skal sjá til þess að slys séu skráð með samræmdum hætti. Jafnframt skal ráðið hlutast til um úrvinnslu skráðra upplýsinga og birtingu þeirra. Ráðið mótar reglur um framkvæmd skráningar og aðgang að upplýsingum úr skránni.
    Samræmd slysaskrá skal varðveitt hjá landlækni.
    Ráðherra skal setja reglugerð þar sem kveðið er á um skipan ráðsins og starfsemi þess.

9. gr.
Tóbaksvarnaráð.

    Hlutverk tóbaksvarnaráðs er að stuðla að tóbaksvörnum.
    Fjármálaráðuneytið skal hafa samráð við tóbaksvarnaráð um stefnumörkun varðandi innflutning og verðlagningu tóbaks.
    Leita skal álits ráðsins á öllum reglugerðum sem snerta tóbaksvarnir og tóbakssölu.
    Lýðheilsustöð skal fá 0,9% af brúttósölu tóbaks til ráðstöfunar til tóbaksvarnastarfs og skal fénu ráðstafað í samráði við ráðherra að fengnum tillögum tóbaksvarnaráðs.
    Ráðherra skal setja nánari ákvæði um skipan og hlutverk tóbaksvarnaráðs í reglugerð.

10. gr.
Gildistaka.

    Lög þessi öðlast gildi 1. júlí 2003.
    Við gildistöku laga þessara falla eftirtalin lög og lagaákvæði úr gildi: Lög um slysavarnaráð, nr. 33/1994, lög um manneldisráð, nr. 45/1978, lög um áfengis- og vímuvarnaráð, nr. 76/1998, og 5. gr. laga um tóbaksvarnir, nr. 6/2002.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    20. maí 2001 var samþykkt á Alþingi þingsályktunartillaga um heilbrigðisáætlun til ársins 2010. Þar er lögð áhersla á heilbrigðismarkmið til langs tíma sem miða að því að bæta heilsufar þjóðarinnar. Forgangsverkefni heilbrigðisáætlunarinnar eru m.a. áfengis-, vímuefna- og tóbaksvarnir, að dregið verði úr slysum og slysadauða barna, mjaðmar- og hryggbrotum eldri borgara verði fækkað, tannheilsa barna og eldri borgara verði bætt, dauðsföllum af völdum hjarta- og æðasjúkdóma og heilablóðfalla verði fækkað, dregið verði úr tíðni geðraskana og sjálfsvíga, dauðsföllum vegna krabbameins fækki og að slysum, þ.m.t. dauðaslysum, verði fækkað.
    Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra lét vinna frumvarp um Lýðheilsustöð sem lagt var fram á 127. löggjafarþingi með það í huga að fylgja eftir markmiðum heilbrigðisáætlunar um forvarnir sem ætlað er að bæta heilsufar þjóðarinnar. Frumvarpinu var vísað til heilbrigðis- og trygginganefndar. Nefndin sendi frumvarpið út til umsagnar 13. maí 2002 og bárust umsagnir frá 37 aðilum. Umsagnirnar voru almennt jákvæðar. Nokkrir töldu þó að starfsemin væri betur komin hjá landlæknisembættinu, en einnig kom fram sú skoðun að slík starfsemi færi ekki vel saman við eftirlitshlutverk landlæknis. Þá voru gerðar athugasemdir við nokkur atriði frumvarpsins og nokkrar tillögur um breytingar og viðbætur. Farið hefur verið yfir umsagnirnar og gerðar nokkrar breytingar á frumvarpinu með hliðsjón af þeim. Þar er fyrst og fremst um að ræða lagfæringar á orðalagi og áherslum og verður gerð nánari grein fyrir þeim í umfjöllun um einstakar greinar.
    Helsta markmið heilbrigðisyfirvalda á hverjum tíma er að stuðla að heilbrigði allra landsmanna. Þetta markmið er m.a. að finna í 1. gr. laga um heilbrigðisþjónustu. Hlutverk heilbrigðisstarfsmanna og heilbrigðisstofnana er þó ekki einskorðað við að veita þjónustu þegar eftir henni er leitað vegna heilsuvanda heldur er það miklu víðtækara. Þótt aldrei verði lögð nógu mikil áhersla á ábyrgð fólks á eigin heilbrigði er ljóst að samfélagið og stofnanir þess bera einnig ábyrgð og hafa víðtæk áhrif á heilsufar þjóðarinnar og einstakra hópa á hverjum tíma. Þannig hafa ákvarðanir og aðgerðir stjórnvalda bein og óbein áhrif á líf þegnanna og heilbrigði þeirra þótt áhrifin séu ekki alltaf ljós þegar ákvörðun er tekin. Heilsufar verður að teljast almennt gott á Íslandi og heilbrigðisþjónustan stenst fyllilega samanburð við þær þjóðir sem við berum okkur saman við. Því má spyrja hvort þörf sé frekari aðgerða. Því er til að svara að þótt unnið sé mjög gott starf á ýmsum sviðum heilsueflingar og forvarna er ástæðulaust að ætla annað en unnt sé með aukinni samhæfingu að efla þetta starf enn frekar.
    Benda má á að aldurssamsetning þjóðarinnar er töluvert frábrugðin því sem gerist annars staðar á Norðurlöndum. Hér er hlutfall barna og ungmenna talsvert hærra en þeirra eldri og hlutfall aldraðra að sama skapi lægra. Spár um mannfjölda fram til ársins 2030 benda til að svo verði enn á þeim tíma þótt gert sé ráð fyrir að úr þessum mun dragi. Því má ætla að ávinningur af skipulögðum aðgerðum til að efla heilbrigði og draga úr sjúkdómum og slysum geti haft enn meiri áhrif hér á landi en meðal nálægra þjóða.
    „Lýðheilsa“ er í vaxandi mæli notað sem þýðing á enska heitinu „public health“. Með lýðheilsu er átt við aðgerðir hins opinbera og annarra í þeim tilgangi að viðhalda og bæta heilbrigði þjóðarinnar eða tilgreindra hópa í þjóðfélaginu með skipulegum, viðurkenndum og vísindalega sannreyndum aðferðum. Til þeirra teljast aðgerðir eða ráðstafanir sem stuðla að fækkun sjúkdóma og slysa, svo og aðgerðir er stuðla að forvörnum og heilsueflingu.
    Þrátt fyrir öflugt og árangursríkt heilsuverndarstarf um margra áratuga skeið er ljóst að endurskoðunar er þörf. Þau heilbrigðisvandamál sem nú ber hæst eru önnur en áður. Lífslíkur Íslendinga hafa aukist jafnt og þétt og eru með þeim mestu sem þekkjast, en bæði dánarorsakir og sjúkdómatíðni hafa breyst þannig að vægi svokallaðra langvinnra sjúkdóma hefur aukist verulega. Þessir sjúkdómar eiga það sammerkt að þá er sjaldan hægt að lækna svo að aðgerðir miða helst að því að draga sem mest úr neikvæðum áhrifum sjúkdómanna á einstaklinga, nánasta umhverfi þeirra og félagslega stöðu. Annað sem er langvinnum sjúkdómum sammerkt er að orsaka þeirra er oftast að leita í samspili áhættuþátta sem saman leiða frekar til sjúkdóms en hver um sig. Þar má nefna áhættuþætti eins og reykingar, offitu, kyrrsetu, ofneyslu áfengis, neyslu annarra vímuefna og streitu. Samspil áhættuþátta og áhrif lífsstíls á þróun lýðheilsunnar kallar á nýjar aðferðir þar sem áhersla er lögð á samræmdar aðgerðir, samþættingu og samvinnu. Færa má fyrir því rök að lýðheilsustarf sé í eðli sínu teymisvinna fjölmargra aðila, sérfróðra jafnt sem leikmanna og sjálfboðaliða. Bestur árangur næst þegar saman fer skýr stefnumörkun og markmið, vandað val viðfangsefna, náið samráð og samstarf við samstarfsaðila, jafnt opinbera sem einkaaðila, félagasamtök og fjölmiðla.
    Annars staðar á Norðurlöndum hafa verið settar á stofn sérstakar stofnanir sem hafa það meginmarkmið að vera frumkvöðlar og samræmingarafl í lýðheilsustarfi. Síðast voru það Statens institut for folkesundhed í Danmörku sem sett var á laggirnar í janúar 2001 og Nasjonalt folkeinstitutt í Noregi sem tók til starfa 1. janúar 2002.
    Með frumvarpi þessu er lagt til að komið verði á fót stofnun, Lýðheilsustöð, til að vinna að eflingu lýðheilsu. Henni er m.a. ætlað að samræma lýðheilsustarf, annast fræðslu til almennings, styðja starfsemi annarra sem vinna að eflingu lýðheilsu, stuðla að rannsóknum og fylgjast með árangri heilsueflingar, sbr. 3. gr. frumvarpsins. Gert er ráð fyrir að Lýðheilsustöð þjóni fyrst og fremst þeim tilgangi að vera frumkvöðull og samræmingarafl. Eftir sem áður verður þungamiðja heilsuverndar- og forvarnastarfs annars vegar hjá heilbrigðisstofnunum og heilbrigðisstarfsfólki og hins vegar hjá frjálsum félagasamtökum eins og verið hefur. Það sem breytist er að Lýðheilsustöð veitir öflugan stuðning hvers konar lýðheilsustarfi, á frumkvæði að samstarfi og samvinnu við þá fjölmörgu aðila sem starfa á þessum vettvangi og samræmir og samhæfir lýðheilsustarfið.
    Gert er ráð fyrir að Lýðheilsustöð verði ríkisstofnun undir yfirstjórn heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, en henni verði að öðru leyti stjórnað af forstjóra sem skipaður verði af ráðherra. Lagt er til að núgildandi lög um áfengis- og vímuvarnaráð, nr. 76/1998, lög um manneldisráð, nr. 45/1978, lög um slysavarnaráð, nr. 33/1994, og ákvæði 5. gr. laga nr. 6/2002, um tóbaksvarnir, verði felld úr gildi, en starf þessara ráða falli undir Lýðheilsustöð. Gert er ráð fyrir að fyrrgreind ráð og tóbaksvarnaráð verði svonefnd sérfræðiráð, sbr. 5. gr. frumvarpsins, og verði Lýðheilsustöð og öðrum til ráðgjafar hvert á sínu sviði.
    Í frumvarpinu eru ákvæði um helstu verkefni áfengis- og vímuvarnaráðs, manneldisráðs, slysavarnaráðs og tóbaksvarnaráðs, en gert er ráð fyrir að frekari ákvæði um skipan þeirra og hlutverk verði í reglugerðum. Þá er gert ráð fyrir að ýmis önnur heilsueflingar- og forvarnaverkefni á vegum ríkisins verði flutt til Lýðheilsustöðvar, t.d. starf tannverndarráðs, gigtarráðs og starf Árvekni að slysavörnum barna. Gert er ráð fyrir að starfsmönnum þeirra verði boðið starf innan Lýðheilsustöðvar.
    Eins og fram kemur í 1. og 3. gr. frumvarpsins er Lýðheilsustöð ætlað að sinna heilsueflingu á öllum sviðum. Í frumvarpinu eru þó ekki sérstök ákvæði um starfsemi sem tengist öðru en áfengis- og vímuvörnum, manneldi, slysavörnum og tóbaksvörnum. Ástæður þess eru þær að forvarnir á þessum sviðum eru þegar bundnar í lög og ekki þótti fært að fella ákvæði um fyrrgreinda starfsemi alfarið úr lögum. Hins vegar þótti ekki heppilegt að binda í lög ákvæði um heilsueflingu og forvarnir á öðrum sviðum, enda gæti verið erfitt að ákveða hvaða svið ætti að taka með. Þá eru þarfir fyrir forvarnir síbreytilegar og og ástæða getur verið til að gera sérstakt tímabundið átak á tilteknum sviðum. Því var ákveðið að leggja til að starfsemi Lýðheilsustöðvar verði ekki bundin við tiltekin svið heldur geti hún sinnt heilsueflingu og forvörnum á öllum sviðum í samræmi við heilbrigðisáætlun og stefnu ráðherra um forgangsröðun verkefna á sviði heilsueflingar á hverjum tíma. Eins og fram kemur í 4. og 5. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir að skipuð verði sérfræðiráð á öðrum sviðum og að formenn þeirra, auk formanna áfengis- og vímuvarnaráðs, manneldisráðs, slysavarnaráðs og tóbaksvarnaráðs, fulltrúa landlæknis, ráðherra og félaga og stofnana sem vinna að lýðheilsu, skipi landsnefnd um lýðheilsu sem verði ráðgjafarnefnd Lýðheilsustöðvar um fagleg málefni.
    Gert er ráð fyrir að það fé sem nú er veitt til ráðanna verði framvegis veitt til Lýðheilsustöðvar, en þó er tekið fram að fé samkvæmt sérmerktum tekjustofni til tóbaksvarna, þ.e. 0,9% af brúttósölu tóbaks, verði ráðstafað til tóbaksvarnastarfs, sbr. 4. mgr. 9. gr. frumvarpsins, og fé úr Forvarnasjóði skv. 7. gr. laga nr. 96/1995, um gjald af áfengi og tóbaki, verði varið til verkefna á sviði áfengis- og vímuvarna, sbr. 3. mgr. 6. gr. frumvarpsins. Þá er gert ráð fyrir að fjárveitingar til gigtarráðs, tannverndarsjóðs, fé sem flutt hefur verið til landlæknis vegna heilsueflingar og fé sem veitt hefur verið til Árvekni – átaksverkefnis um slysavarnir barna og unglinga renni framvegis til Lýðheilsustöðvar. Loks er gert ráð fyrir að hluti af því fé sem veitt hefur verið vegna slysavarnaráðs renni til stöðvarinnar en hluti af því verði áfram veittur landlæknisembættinu vegna slysaskrár. Gert er ráð fyrir að starfsmönnum sem greidd eru laun af fyrrgreindum liðum verði boðið starf hjá Lýðheilsustöð, en auk þess er gert ráð fyrir að skipaður verði forstjóri og fjármálastjóri.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Hér er gerð grein fyrir því meginmarkmiði laganna að efla lýðheilsu og nánar skilgreint hvað átt er við með eflingu lýðheilsu.

Um 2. gr.

    Hér kemur fram að starfrækja skuli sérstaka stofnun, Lýðheilsustöð, til að framfylgja markmiðum laganna um eflingu lýðheilsu. Tekið er fram að stöðin skuli vera undir yfirstjórn heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra. Þá er gert ráð fyrir að ráðherra skipi stöðinni forstjóra til fimm ára í senn í samræmi við meginreglu 23. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, um skipun embættismanna.

Um 3. gr.

    Hér er fjallað um hlutverk stöðvarinnar og verkefni og lögð áhersla á að hún skuli efla lýðheilsustarf, og samræma það, annast fræðslu, styðja starfsemi stofnana og frjálsra félagasamtaka í samvinnu við landlækni og aðra eftir því sem við á. Eftir sem áður er gert ráð fyrir að þungamiðja heilsuverndar- og forvarnastarfs verði annars vegar hjá heilbrigðisstofnunum og heilbrigðisstarfsfólki og hins vegar hjá frjálsum félagasamtökum eins og verið hefur. Hlutverk Lýðheilsustöðvar er að styðja hvers konar lýðheilsustarf, eiga frumkvæði að samstarfi og samvinnu við þá fjölmörgu aðila sem starfa á þessum vettvangi og vera stjórnvöldum til ráðgjafar. Forgangsröðun skal vera í samræmi við heilbrigðisáætlun og stefnu ráðherra sbr. 3. mgr. 42. gr. laga um heilbrigðisþjónustu, nr. 97/1990. Í 2. mgr. eru talin helstu verkefni Lýðheilsustöðvar og er framsetningin nokkuð breytt frá fyrra frumvarpi. Ekki er þó um að ræða efnisbreytingu heldur var upptalning verkefna sem var í athugasemdum með fyrra frumvarpi tekin inn í lagatextann.

Um 4. gr.

    Hér er lagt til að skipuð verði landsnefnd um lýðheilsu sem verði ráðgjafarnefnd Lýðheilsustöðvar um fagleg málefni. Í henni eigi sæti formaður, sem skipaður verði af ráðherra án tilnefningar, landlæknir eða fulltrúi tilnefndur af honum og formenn sérfræðiráða skv. 5. gr., þ.e. formenn áfengis- og vímuvarnaráðs, manneldisráðs, slysavarnaráðs, tóbaksvarnaráðs og sérfræðiráða á öðrum sviðum sem gert er ráð fyrir að skipuð verði skv. 2. mgr. 5. gr. Loks er gert ráð fyrir að í reglugerð verði kveðið á um tilnefningu félaga og stofnana sem vinna að lýðheilsu í nefndina.

Um 5. gr.

    Hér er gert ráð fyrir að sérfræðiráð á ýmsum sviðum heilsueflingar og forvarna verði Lýðheilsustöð til ráðgjafar. Þá er lagt til að áfengis- og vímuvarnaráð, manneldisráð, slysavarnaráð og tóbaksvarnanefnd gegni hlutverki sérfræðiráða hvert á sínu sérsviði. Gerð er tillaga um að nafni tóbaksvarnanefndar verði breytt í tóbaksvarnaráð til samræmis við nöfn fyrrgreindra ráða. Tekið er fram að heimilt sé að fela fyrrgreindum ráðum víðtækari verkefni en gert er ráð fyrir í 6.–9. gr. Þá væri hægt að fela einhverju ráðanna verkefni sem tengjast starfsemi þess með einhverjum hætti eða verkefni sem æskilegt væri talið að féllu undir sama ráðið, t.d. mætti hugsa sér að um manneldi og hreyfingu væri fjallað í einu sérfræðiráði. Kveðið er á um að ráðherra skuli setja reglugerð um skipan og hlutverk annarra sérfræðiráða, en gert er ráð fyrir að eðlilegt og nauðsynlegt sé að setja á laggirnar sérfræðiráð á fleiri sviðum en að framan greinir og/eða fela ráðum sem nú eru starfandi hlutverk sérfræðiráða. Slík ráð eru t.d. gigtarráð og tannverndarráð. Telja verður eðlilegt að stefnt verði að því að starfandi verði sérfræðiráð á ýmsum öðrum sviðum sem fjalli til dæmis um geðvernd og varnir gegn sjálfsvígum, fræðslu um kynlíf og varnir gegn ótímabærri þungun ungra stúlkna, krabbameinsvarnir o.fl. Sérfræðiráð skulu skipuð sérfræðingum á viðkomandi sviði og landlæknir skal tilnefna einn fulltrúa í hvert sérfræðiráð. Hér er gerð sú breyting frá fyrra frumvarpi að tekið er fram að ráðin skuli einnig skipuð fulltrúum stofnana og félaga sem starfa á viðkomandi sviði.

Um 6. gr.

    Hér eru tekin upp meginatriði laga um áfengis- og vímuvarnaráð, nr. 76/1998, en gert er ráð fyrir að þau falli úr gildi við gildistöku laga þessara. Gert er ráð fyrir að tekjur Forvarnasjóðs, sbr. 7. gr. laga nr. 96/1995, um gjald af áfengi og tóbaki, renni til Lýðheilsustöðvar, en þeim verði eftir sem áður varið til áfengis- og vímuvarna í samráði við ráðherra og að fengnum tillögum áfengis- og vímuvarnaráðs. Þá er gert ráð fyrir að ráðherra setji reglugerð þar sem kveðið verði á um skipan áfengis- og vímuvarnaráðs og sett nánari ákvæði um hlutverk þess og um ráðstöfun fjár úr Forvarnasjóði.

Um 7. gr.

    Hér eru tekin upp meginatriði laga um manneldisráð, nr. 45/1978, en gert er ráð fyrir að þau falli úr gildi við gildistöku laga þessara. Þá er gert ráð fyrir að ráðherra setji reglugerð þar sem kveðið verði á um skipan manneldisráðs og sett nánari ákvæði um hlutverk þess.

Um 8. gr.

    Hér eru tekin upp meginatriði laga um slysavarnaráð, nr. 33/1994, en gert er ráð fyrir að þau falli úr gildi við gildistöku laga þessara. Hér er tekið inn ákvæði þess efnis að ráðið skuli sjá til þess að slys séu skráð, hlutast til um úrvinnslu skráðra upplýsinga og birtingu þeirra og móta reglur um framkvæmd skráningar og aðgang að upplýsingum úr skránni. Hliðstætt ákvæði er í núgildandi lögum um slysavarnaráð. Þetta ákvæði var ekki í fyrra frumvarpi en talið er nauðsynlegt að hafa áfram skýra lagastoð fyrir skráningu og vinnslu þessara upplýsinga. Loks er gert ráð fyrir að nánari ákvæði um starfsemi ráðsins verði sett með reglugerð.

Um 9. gr.

    Hér eru tekin upp meginatriði ákvæðis 5. gr. laga um tóbaksvarnir, nr. 6/2002, en gert er ráð fyrir að það falli úr gildi við gildistöku laga þessara. Gert er ráð fyrir að þau 0,9% af brúttósölu tóbaks sem nú renna til tóbaksvarnanefndar samkvæmt ákvæðum tóbaksvarnalaga renni til Lýðheilsustöðvar, en þeim verði eftir sem áður varið til tóbaksvarna í samráði við ráðherra og að fengnum tillögum tóbaksvarnaráðs. Þá er gert ráð fyrir að ráðherra setji reglugerð þar sem kveðið verði á um skipan tóbaksvarnaráðs og sett nánari ákvæði um hlutverk þess.

Um 10. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.


Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um Lýðheilsustöð.


    Með frumvarpi þessu er lagt til að stofnuð verði Lýðheilsustöð í þeim tilgangi að efla lýðheilsu sem er að viðhalda og bæta heilbrigði þjóðarinnar eða tilgreindra hópa með skipulegum og viðurkenndum aðferðum.
    Lýðheilsustöð er m.a. ætlað að efla og samræma lýðheilsustarf, annast fræðslu til almennings um heilbrigði og heilsueflingu í samstarfi og samvinnu við landlækni og aðra eftir því sem við á og styðja starfsemi stofnana og frjálsra félagasamtaka til eflingar lýðheilsu. Lýðheilsustöð skal vera stjórnvöldum til ráðgjafar um stefnumótun á sviði lýðheilsu. Í frumvarpinu er lagt til að núgildandi lög um áfengis- og vímuvarnaráð, nr. 76/1998, lög um manneldisráð, nr. 45/1978, lög um slysavarnaráð, nr. 33/1994, og ákvæði 5. gr. laga nr. 6/2002, um tóbaksvarnir, verði felld úr gildi, en starf þessara ráða og nefndar falli undir Lýðheilsustöð. Þá er lagt til að starf tannverndarráðs, gigtarráðs og heilsueflingar og starf Árvekni að slysavörnum barna verði flutt til stöðvarinnar og að starfsmönnum fyrrgreindra aðila verði boðið starf innan Lýðheilsustöðvar. Gert er ráð fyrir að fjárveitingar til framangreindra verkefna verði færðar til stöðvarinnar en þær nema 165 m.kr. í fjárlögum fyrir árið 2002. Í frumvarpinu eru hvorki lagðar til breytingar á mörkuðum tekjum Forvarnasjóðs né lögbundnum framlögum til tóbaksvarnastarfs.
    Samkvæmt frumvarpinu skal Lýðheilsustöð vera undir stjórn forstjóra og í athugasemdum við frumvarpið er gert ráð fyrir að öðrum sem þegar starfa við framangreind verkefni verði boðið starf hjá stofnuninni. Áfengis- og vímuvarnaráð, manneldisráð, slysavarnaráð og tóbaksvarnaráð skulu starfa sem sérfræðiráð innan Lýðheilsustöðvar. Auk þeirra skal skipuð landsnefnd um lýðheilsu en í henni sitji a.m.k. formenn sérfræðiráðanna auk formanns.
    Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið gerir ráð fyrir í kostnaðaráætlun sinni að viðbótarkostnaður vegna launa forstjóra nemi 8,3 m.kr., 5,7 m.kr. þurfi til ráðningar fjármálastjóra og 4 m.kr. til skrifstofurekstrar. Þá verði tímabundinn 5 m.kr. stofnkostnaður árið 2003.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum eykur það útgjöld ríkissjóðs varanlega um 18 m.kr. á ári að meðtöldum kostnaði við landsnefnd um lýðheilsu. Þá kemur til 5 m.kr. stofnkostnaðar árið 2003. Auk þess er ekki hægt að útiloka að þessar breytingar leiði til þess að biðlaunaréttur myndist en kostnaður vegna hans gæti orðið 2–3 m.kr. Samkvæmt frumvarpinu tekur stofnunin til starfa síðari hluta árs 2003 og í fjárlagafrumvarpi 2003 er gert ráð fyrir 8 m.kr. rekstrarframlagi til Lýðheilsustöðvar. Viðbótarútgjöld miðað við heilt ár frá og með árinu 2004 verða fjármögnuð með hagræðingu í framlögum til framangreindra verkefna.