Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 425. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 551  —  425. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 86/2002, um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) og XXII. viðauka (Félagaréttur) við EES-samninginn.

(Lögð fyrir Alþingi á 128. löggjafarþingi 2002–2003.)



    Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 86/2002 frá 25. júní 2002, um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) og XXII. viðauka (Félagaréttur) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2001/65/EB frá 27. september 2001, um breytingu á tilskipunum 78/660/EBE, 83/349/EBE og 86/635/EBE að því er varðar matsreglur vegna ársreikninga og samstæðureikninga félaga af tiltekinni gerð sem og banka og annarra fjármálastofnana.

Athugasemdir við þingsályktunartillögu þessa.


1. Inngangur.
    Með þingsályktunartillögu þessari er leitað heimildar Alþingis til staðfestingar á ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 86/2002 frá 25. júní 2002, um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) og XXII. viðauka (Félagaréttur) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og til að fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2001/65/EB frá 27. september 2001, um breytingu á tilskipunum 78/660/EBE, 83/349/EBE og 86/635/EBE að því er varðar matsreglur vegna ársreikninga og samstæðureikninga félaga af tiltekinni gerð sem og banka og annarra fjármálastofnana.
    Ákvörðun þessi kallar á lagabreytingar hér á landi og var tekin af sameiginlegu EES- nefndinni með stjórnskipulegum fyrirvara af Íslands hálfu. Í tillögu þessari er gerð nánari grein fyrir því hvað felst í slíkum fyrirvara, sbr. 103. gr. EES-samningsins. Jafnframt er gerð grein fyrir efni þeirrar tilskipunar sem hér um ræðir. Gerð þessi felur ekki í sér breytingar á þeim meginreglum sem í EES-samningnum felast.
    Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar sem hér um ræðir er prentuð sem fylgiskjal með tillögu þessari ásamt gerðinni sjálfri.

2. Um stjórnskipulegan fyrirvara.
    Ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingar á viðaukum eða bókunum við EES-samninginn eru þjóðréttarsamningar. Samkvæmt samningnum er ekki gert ráð fyrir því að í ákvörðunum sé kveðið á um að gildistaka þeirra gagnvart aðildarríkjunum sé háð staðfestingu þeirra heima fyrir. Þær verða með öðrum orðum skuldbindandi fyrir aðildarríkin um leið og þær hafa verið teknar nema eitthvert aðildarríkjanna beiti heimild í 103. gr. EES- samningsins til að gera fyrirvara um að ákvörðun geti ekki orðið bindandi strax vegna stjórnskipulegra skilyrða heima fyrir. Hafa ríkin sex mánaða frest frá töku ákvörðunar í sameiginlegu nefndinni til að aflétta fyrirvaranum. Með þessu er vísað til nauðsynlegs atbeina þjóðþinga aðildarríkjanna og af hálfu Íslands hefur fyrirvara þessum því einungis verið beitt þegar ljóst er að ákvörðun kallar á lagabreytingar. Almennt hefur ekki verið leitað sérstaks samþykkis Alþingis áður en stjórnskipulegum fyrirvara er aflétt heldur látið við það sitja að Alþingi hafi samþykkt nauðsynlegar lagabreytingar vegna innleiðingar ákvarðana. Þetta felur í sér nokkurt frávik frá almennri meðferð vegna staðfestingar þjóðréttarsamninga þar sem atbeina Alþingis er krafist en á sér skýringar í sérstöðu ákvarðana sameiginlegu EES-nefndarinnar meðal þjóðréttarsamninga. Hins vegar hafa nokkrir ókostir fylgt þessu fyrirkomulagi. Má þar helst nefna annars vegar að nokkuð mismunandi er með hvaða hætti það hefur komið fram í lagafrumvörpum hvernig þau tengjast tilteknum ákvörðunum sameiginlegu EES- nefndarinnar og hins vegar að með þessari aðferð hefur skort á að Alþingi hafi verið gefinn kostur á að taka beina afstöðu til staðfestingar einstakra ákvarðana nefndarinnar. Í vissum tilvikum hafa ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar kveðið á um að bætt sé við EES- samninginn tiltekinni EB-gerð sem ekki öðlast gildi innan Evrópusambandsins fyrr en einhverjum missirum eða jafnvel árum seinna. Samkvæmt EES-samningnum er Ísland skuldbundið til að taka endanlega afstöðu til þess hvort slík gerð verði hluti samningsins innan sex mánaða frá töku ákvörðunarinnar í sameiginlegu EES-nefndinni en hefur sama svigrúm og önnur aðildarríki samningsins til að innleiða viðkomandi gerð í landsrétt. Fram að þessu hefði eina leiðin verið sú að setja lög til innleiðingar þessara gerða innan sex mánaða frestsins en þau lög hefðu þá að sjálfsögðu ekki þurft að taka gildi fyrr en á ætluðum gildistökudegi gerðarinnar. Þetta er mjög óheppileg leið þar sem við undirbúning slíkrar lagasetningar er oft og tíðum horft til fordæma erlendis frá en þar er að jafnaði ekki hugað að slíkri lagasetningu fyrr en nær dregur gildistöku viðkomandi gerðar. Að þessari leið slepptri er eina leiðin til að virða samningsskuldbindingar Íslands að leita sérstaks samþykkis Alþingis í formi þingsályktunar.
    Að öllu þessu virtu hefur almenn meðferð þeirra ákvarðana sameiginlegu EES-nefndarinnar þar sem Ísland hefur gert stjórnskipulegan fyrirvara verið færð til samræmis við meðferð þjóðréttarsamninga. Í því felst að almennt er leitað sérstaklega eftir samþykki Alþingis til staðfestingar sérhverri ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar sem stjórnskipulegur fyrirvari hefur verið gerður við. Slíks samþykkis er leitað í formi þingsályktunar en viðeigandi ráðuneyti munu samhliða undirbúa nauðsynleg frumvörp til lagabreytinga. Jafnframt hefur þeirri föstu vinnureglu verið komið á, með vísan til 24. gr. laga um þingsköp Alþingis, að haft verði samráð við utanríkismálanefnd um efni þessara ákvarðana meðan þær eru á undirbúningsstigi.

3. Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2001/65/EB frá 27. september 2001, um breytingu á tilskipunum 78/660/EBE, 83/349/EBE og 86/635/EBE að því er varðar matsreglur vegna ársreikninga og samstæðureikninga félaga af tiltekinni gerð sem og banka og annarra fjármálastofnana.
    Tilskipunin tekur gildi innan Evrópusambandsins 1. janúar 2004 og ber aðildarríkjum þess að taka upp reglur hennar fyrir þann tíma.
    Tilskipunin lýtur að því að vikið er frá kröfu skv. 32. gr. fjórðu tilskipunar 78/660/EBE um ársreikninga félaga af tiltekinni gerð (félög með takmarkaða ábyrgð), að liðir ársreiknings séu metnir á grundvelli meginreglunnar um innkaupsverð eða kostnaðarverð. Undanþága frá þessari reglu er þó í 33. gr. tilskipunarinnar er heimilar endurmat eigna með tilliti til áhrifa verðbólgu á þá liði sem sýndir eru í ársreikningi og verðbólgureikingsskil á Íslandi byggðust á meðan þau voru við lýði.
    Hreyfanleiki alþjóðlegra fjármálamarkaða hefur ekki aðeins í för með sér víðtæka notkun hefðbundinna fjármálaskjala eins og hlutabréfa og skuldabréfa heldur einnig notkun margs konar afleiddra fjármálaskjala, svo sem framvirkra samninga, valréttar- og skiptasamninga. Evrópusambandið hefur unnið að samræmingu milli tilskipana bandalagsins um reikningsskil og þróun í setningu alþjóðlegra reikningsskilastaðla, einkum innan alþjóðlegu reikningsskilanefndarinnar (International Accounting Standards Committee – IASC). Til að viðhalda slíku samræmi milli alþjóðlegra viðurkenndra reikningsskilastaðla og tilskipana ESB hefur verið talið nauðsynlegt að breyta þessum tilskipunum til að leyfa notkun alþjóðlegra reikningsskilastaðla í tengslum við greiningu og mat á fjármálaskjölum. Þessi heimild gerir evrópskum fyrirtækjum, a.m.k. skráðum félögum á verðbréfamörkuðum, kleift að gera reikningsskil í samræmi við þá þróun sem á sér stað á alþjóðavettvangi.
    Samkvæmt tilskipuninni er þess krafist að aðildarríkin taki upp kerfi gangverðsreikningsskila fyrir tiltekin fjármálaskjöl til að fjármálaupplýsingar innan bandalagsins séu sambærilegar. Aðildarríkin skulu heimila öllum fyrirtækjum eða flokkum fyrirtækja sem starfa samkvæmt fyrrnefndum tilskipunum að taka upp þetta kerfi, bæði fyrir ársreikninga og samstæðureikninga svo og samstæðureikninga eingöngu.
    Tilskipunin mun kalla á breytingar á lögum nr. 144/1994, um ársreikninga. Þar sem tilskipunin tekur ekki gildi innan ESB fyrr en 1. janúar 2004 er ekki hafinn undirbúningur að innleiðingu tilskipunarinnar í íslenskan rétt. Ráðuneytið telur að þessi breyting muni ekki hafa mikil áhrif á kostnað fyrirtækja við gerð reikningsskila.



Fylgiskjal I.


ÁKVÖRÐUN SAMEIGINLEGU EES-NEFNDARINNAR nr. 86/2002

frá 25. júní 2002

um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) og XXII. viðauka (Félagaréttur) við EES-samninginn

SAMEIGINLEGA EES-NEFNDIN HEFUR,

með hliðsjón af samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, eins og hann var aðlagaður með bókun um breytingu á samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, er nefnist hér á eftir samningurinn, einkum 98. gr.,

og að teknu tilliti til eftirfarandi:

1)         IX. viðauka við samninginn var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 37/2002 frá 19. apríl 2002 ( 1 ).

2)         XXII. viðauka við samninginn var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 10/2002 frá 1. febrúar 2002 ( 2 ).

3)         Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2001/65/EB frá 27. september 2001 um breytingu á tilskipunum 78/660/EBE, 83/349/EBE og 86/635/EBE að því er varðar matsreglur vegna ársreikninga og samstæðureikninga félaga af tiltekinni gerð sem og banka og annarra fjármálastofnana ( 3 ) skal felld inn í samninginn.

ÁKVEÐIÐ EFTIRFARANDI:

1. gr.

Eftirfarandi bætist við í 21. lið (tilskipun ráðsins 86/635/EBE) í IX. viðauka við samninginn:

„eins og henni var breytt með:

     32001 L 0065: Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2001/65/EB frá 27. september 2001 (Stjtíð. EB L 283, 17.10.2001, bls. 28).“

2. gr.

Eftirfarandi undirliður bætist við í 4. lið (tilskipun ráðsins 78/660/EBE) og í 6. lið (tilskipun ráðsins 83/349/EBE) í XXII. viðauka við samninginn:

    „ 32001 L 0065: Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2001/65/EB frá 27. september 2001 (Stjtíð. EB L 283, 17.10.2001, bls. 28).“

3. gr.

Texti tilskipunar 2001/65/EB á íslensku og norsku, sem verður birtur í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópubandalaganna, telst fullgiltur.

4. gr.

Ákvörðun þessi öðlast gildi hinn 26. júní 2002, að því tilskildu að allar tilkynningar samkvæmt 1. mgr. 103. gr. samningsins hafi verið sendar sameiginlegu EES-nefndinni ( * ).

5. gr.

Ákvörðun þessi skal birt í EES-deild og EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópubandalaganna.

Gjört í Brussel 25. júní 2002.


     Fyrir hönd sameiginlegu EES-nefndarinnar
    Formaður

    P. Westerlund


    Ritarar
    sameiginlegu EES-nefndarinnar

    P.K. Mannes     M. Brinkmann




Fylgiskjal II.


TILSKIPUN EVRÓPUÞINGSINS OG RÁÐSINS 2001/65/EB

frá 27. september 2001

um breytingu á tilskipunum 78/660/EBE, 83/349/EBE og 86/635/EBE að því er varðar matsreglur vegna ársreikninga og samstæðureikninga félaga af tiltekinni gerð sem og banka og annarra fjármálastofnana


EVRÓPUÞINGIÐ OG RÁÐ EVRÓPUSAMBANDSINS HAFA,

með hliðsjón af stofnsáttmála Evrópubandalagsins, einkum g-liðar 2. mgr. 44. gr.,

með hliðsjón af tillögu framkvæmdastjórnarinnar ( 1 ),

með hliðsjón af áliti efnahags- og félagsmálanefndarinnar ( 2 ),

í samræmi við málsmeðferðina sem mælt er fyrir um í 251. gr. sáttmálans ( 3 ),

og að teknu tilliti til eftirfarandi:

     1)      Í 32. gr. fjórðu tilskipunar ráðsins 78/660/EBE frá 25. júlí 1978 um ársreikninga félaga af tiltekinni gerð ( 4 ) er þess krafist að liðir ársreikninga séu metnir á grundvelli meginreglunnar um innkaupsverð eða kostnaðarverð.

     2)      Í 33. gr. tilskipunar 78/660/EBE er aðildarríkjunum heimilað að leyfa eða krefjast þess af fyrirtækjum að þau endurmeti tilteknar eignir, meti tilteknar eignir á endurkaupsverði eða beiti öðrum aðferðum þar sem tekið er tillit til áhrifa verðbólgu á þá liði sem eru sýndir í ársreikningi.

     3)      Í 29. gr. sjöundu tilskipunar ráðsins 83/349/EBE frá 13. júní 1983 um samstæðureikninga ( 5 ) er þess krafist að eignir og skuldir sem fella á undir samstæðuna skuli metnar skv. 31.–42. gr. og 60. gr. tilskipunar 78/660/EBE.

     4)      Í 1. gr. tilskipunar ráðsins 86/635/EBE frá 8. desember 1986 um ársreikninga og samstæðureikninga banka og annarra fjármálastofnana ( 6 ) er þess krafist að eignir og skuldir séu metnar skv. 31.–42. gr. í tilskipun 78/660/EBE nema kveðið sé á um annað í tilskipun 86/635/EBE.

     5)      Ársreikningar og samstæðureikningar vátryggingafélaga skulu gerðir í samræmi við tilskipun ráðsins 91/674/EBE frá 19. desember 1991 um ársreikninga og samstæðureikninga vátryggingafélaga ( 7 ). Breytingar á tilskipunum 78/660/EBE og 83/349/EBE gilda ekki um ákvæði tilskipunar 91/674/EBE en framkvæmdastjórnin getur lagt fram svipaðar tillögur um breytingar á þeirri tilskipun að höfðu samráði við viðkomandi ráðgjafarnefnd.

     6)      Hreyfanleiki alþjóðlegra fjármálamarkaða hefur ekki aðeins haft í för með sér víðtæka notkun hefðbundinna grunnfjármálaskjala eins og hlutabréfa og skuldabréfa heldur einnig notkun margs konar afleiddra fjármálaskjala, svo sem staðlaðra og óstaðlaðra, framvirkra samninga, valréttar og skiptasamninga.

     7)      Þeir aðilar, sem eru í fararbroddi í heiminum við setningu reikningsskilastaðla, eru við það að leggja til hliðar aðferð sem miðast við upphaflegan kostnað þegar þessi fjármálaskjöl eru verðmetin og taka upp aðferð sem byggir á gangverðsreikningsskilum.

     8)      Í orðsendingu framkvæmdastjórnarinnar um bókhaldslega samhæfingu, nýrri áætlun í átt til alþjóðasamhæfingar, er leitað eftir því við Evrópusambandið að það vinni að því að viðhalda samræmi milli tilskipana bandalagsins um reikningsskil og þróunar í setningu alþjóðlegra reikningsskilastaðla, einkum innan alþjóðlegu reikningsskilanefndarinnar (International Accounting Standards Committee (IASC)).

     9)      Til að viðhalda slíku samræmi milli alþjóðlega viðurkenndra reikningsskilastaðla og tilskipana 78/660/EBE, 83/349/EBE og 86/635/EBE er nauðsynlegt að breyta þessum tilskipunum til að hægt sé að meta tilteknar peningalegar eignir og skuldir til sannvirðis. Þetta gerir evrópskum fyrirtækjum kleift að gera reikningsskil í samræmi við þá þróun sem á sér stað á alþjóðavettvangi.

     10)      Þessi breyting á tilskipunum 78/660/EBE, 83/349/EBE og 86/635/EBE er í samræmi við orðsendingu framkvæmdastjórnarinnar til Evrópuþingsins og ráðsins frá 13. júní 2000 um áætlun Evrópusambandsins um fjárhagsskýrslur þar sem lagt er til að skráð fyrirtæki noti alþjóðlega viðurkennda reikningsskilastaðla við samstæðureikningsskil. Tilgangurinn með þessari breytingu er að leyfa notkun alþjóðlegra reikningsskilastaðla í tengslum við greiningu og mat á fjármálaskjölum.

     11)      Nauðsynlegt er að krefjast þess að aðildarríkin taki upp kerfi gangverðsreikningsskila fyrir tiltekin fjármálaskjöl til að fjármálaupplýsingar innan bandalagsins séu sambærilegar. Aðildarríkin skulu heimila öllum fyrirtækjum eða flokkum fyrirtækja, sem starfa samkvæmt tilskipunum 78/660/EBE, 83/349/EBE og 86/635/EBE, að taka upp þetta kerfi, bæði fyrir ársreikninga og samstæðureikninga og samstæðureikninga eingöngu. Enn fremur skal aðildarríkjunum heimilt að krefjast þess öll fyrirtæki eða flokkar fyrirtækja taki upp þetta kerfi, bæði fyrir ársreikninga og samstæðureikninga og samstæðureikninga eingöngu.

     12)      Gangverðsreikningsskil skulu einungis notuð fyrir þá liði þar sem almennt alþjóðlegt samkomulag er um að heppilegast sé að nota þá aðferð. Núverandi, almennt samkomulag er á þá leið að ekki skuli beita gangverðsreikningsskilum á allar peningalegar eignir og skuldir, t.d. ekki á megnið af þeim sem tengjast veltubókinni.

     13)      Skýringar með ársreikningi skulu ná yfir tilteknar upplýsingar um fjármálaskjöl í efnahagsreikningnum sem hafa verið metin á sannvirði. Í ársskýrslunni skulu koma fram upplýsingar um markmið og stefnu félagsins í áhættustjórnun með tilliti til notkunar þess á stjórntækjum á sviði fjármála.

     14)      Afleidd fjármálaskjöl geta haft umtalsverð áhrif á fjárhagsstöðu fyrirtækja. Talið er heppilegt að tilgreina afleidd fjármálaskjöl og sannvirði þeirra jafnvel þótt félagið noti ekki gangverðsreikningsskil. Til að takmarka stjórnunarlegt álag á lítil fyrirtæki hafa aðildarríkin leyfi til að veita litlum fyrirtækjum undanþágu frá kröfum um að veita þessar upplýsingar.

     15)      Reikningsskil fjármálaskjala er svið innan fjárhagsskýrslugerðar sem er í örri þróun og kallar því á endurskoðun framkvæmdastjórnarinnar á grundvelli reynslu aðildarríkjanna af gangverðsreikningsskilum.

SAMÞYKKT TILSKIPUN ÞESSA:

1. gr.

Tilskipun 78/660/EBE er breytt sem hér segir:

1.     Eftirfarandi þáttur bætist við:

    „7. ÞÁTTUR a

     Mat á sannvirði

     42. gr. a

1.     Þrátt fyrir 32. gr. og með fyrirvara um skilyrðin, sem eru sett fram í 2.–4. mgr. þessarar greinar, skulu aðildarríkin leyfa eða krefjast þess af öllum félögum og hópum félaga að fjármálaskjöl séu metin á sannvirði, þ.m.t. afleidd skjöl.

Takmarka má slíkt leyfi eða kröfu við samstæðureikninga eins og skilgreint er í tilskipun 83/349/EBE.

2.     Að því er þessa tilskipun varðar skulu samningar sem byggjast á hrávöru, sem veita öðrum hvorum samningsaðilanum rétt til að greiða með peningum eða einhverjum öðrum fjármálaskjölum, teljast vera afleidd fjármálaskjöl nema:

a)      gengið hafi verið til samninga með það fyrir augum að samningurinn uppfylli þær kröfur sem félagið gerir varðandi kaup, sölu og notkun og að hann geri það áfram;

b)      samningarnir hafi verið sniðnir að þessu markmiði frá upphafi; og

c)      reiknað sé með því að uppgjör fari fram við afhendingu hrávörunnar.

3.     1. mgr. gildir einungis um skuldir sem:

a)      eru hluti af viðskiptasamvali; eða

b)      eru afleidd fjármálaskjöl.
4.     Mat á verði skv. 1. mgr. gildir ekki um:

a)      fjármálaskjöl sem eru ekki afleidd og er haldið út binditímann;

b)      útlán og viðskiptakröfur félagsins sem ekki er fyrirhugað að versla með; og

c)      vexti í dótturfyrirtækjum, hlutdeildarfyrirtækjum og samáhættufyrirtækjum, skírteini fyrir hlut í eign, gefin út af félaginu, samninga um skilyrt endurgjald í fyrirtækjasamsteypum og einnig önnur fjármálaskjöl sem eru svo sérstaks eðlis að gera skal, samkvæmt því sem almennt er viðurkennt, grein fyrir þeim á annan hátt en öðrum fjármálaskjölum.

5.     Þrátt fyrir 32. gr. geta aðildarríkin, að því er varðar allar eignir og skuldir sem uppfylla kröfur um baktryggingar samkvæmt baktryggingakerfi sem grundvallast á sannvirði, eða tiltekna hluta slíkra eigna og skulda, heimilað að þessar eignir eða skuldir séu metnar til þeirrar sérstöku fjárhæðar sem krafist er samkvæmt því kerfi.

42. gr. b

1.     Sannvirðið, sem um getur í 42. gr. a, skal ákvarðað með tilliti til:

a)      markaðsvirðis þeirra fjármálaskjala sem auðveldlega er hægt að finna traustan markað fyrir. Þegar ekki er hægt að finna markaðsvirði fjármálaskjals auðveldlega en hins vegar er hægt að finna markaðsvirði hluta þess eða svipaðra skjala er hægt að ákvarða það út frá markaðsvirði einstakra hluta skjalsins eða markaðsvirði svipaðs skjals; eða

b)      virðis sem er reiknað út með almennt viðurkenndum virðislíkönum og -aðferðum fyrir þau skjöl sem ekki er auðveldlega hægt að finna traustan markað fyrir. Slík virðislíkön og -aðferðir skulu gefa góða hugmynd um markaðsvirðið.

2.     Fjármálaskjöl, sem ekki er hægt að meta á öruggan hátt með neinni af aðferðunum sem lýst er í 1. mgr., skal meta í samræmi við 34.–42. gr.

42. gr. c

1.     Þrátt fyrir c-lið 1. mgr. 31. gr. skal taka breytingu á virði með í rekstrarreikningi ef fjármálaskjöl eru metin í samræmi við 42. gr. b. Slík breyting skal þó reiknast beint sem eigið fé í sannvirðisvarasjóð ef:

a)      skjalið, sem um er að ræða, er baktryggingarskjal í kerfi baktryggingarbókhalds þar sem leyfilegt er að sumar eða allar verðbreytingarnar séu ekki teknar með í rekstrarreikningi; eða

b)      verðbreytingarnar tengjast gengismun sem verður á peningalið sem er hluti af nettófjárfestingu félagsins í erlendri einingu.

2.     Aðildarríkin geta leyft eða krafist þess að breyting á virði fjáreignar, sem er til sölu og er ekki afleitt fjármálaskjal, verði bókfærð beint sem eigið fé í sannvirðisvarasjóði.

3.     Sannvirðisvarasjóður skal leiðréttur þegar fjárhæðir, sem koma fram þar, eru ekki lengur nauðsynlegar vegna framkvæmdar 1. og 2. mgr.

42. gr. d

Þegar sannvirði fjármálaskjala hefur verið metið skulu eftirfarandi upplýsingar koma fram í athugasemdum með reikningunum:

a)      helstu ályktanir sem liggja að baki matslíkönum og -aðferðum þegar sannvirði er ákvarðað í samræmi við b-lið 1. mgr. 42. gr. b;

b)      fyrir hvern flokk fjármálaskjala, sannvirði, breytingar á virði sem hafa verið reiknaðar beint inn í rekstrarreikninginn og einnig breytingar á sannvirðisvarasjóði;

c)      fyrir hvern flokk afleiddra fjármálaskjala, upplýsingar um umfang og eðli skjalanna, þ.m.t. mikilvægir skilmálar og skilyrði sem gætu haft áhrif á fjárhæð, tímasetningu og áreiðanleika sjóðstreymis í framtíðinni; og

d)      tafla sem sýnir hreyfingar í sannvirðisvarasjóði á fjárhagsárinu.“

2.     Í 1. mgr. 43. gr.:

a)      í stað tilvísunar í 10. lið í „31. gr. og 34.–42. gr.“ komi tilvísun í „31. gr. og 34.–42. gr. c“, og

b)      eftirfarandi liður bætist við:

    „14.    Þegar mat á sannvirði fjármálaskjala hefur ekki farið fram í samræmi við 7. þátt a:

                   a)    fyrir hvern flokk afleiddra fjármálaskjala:

                     i)        sannvirði skjalanna ef hægt er að ákvarða það með einhverri af aðferðunum sem lýst er í 1. mgr. 42. gr. b;

                      ii)    upplýsingar um umfang og eðli skjalanna; og

                   b)    þegar um er að ræða fastafjármuni sem falla undir 42. gr. a og eru hærri fjárhæð en sannvirði þeirra og án þess að sá kostur hafi verið valinn að gera virðisleiðréttingu í samræmi við aa-lið c-liðar 1. mgr. 35. gr.:

                        i)        bókfært virði og sannvirði annaðhvort einstakra eigna eða viðeigandi flokka einstakra eigna;

                        ii)    ástæðurnar fyrir því að hafa ekki lækkað bókfært verð, þ.m.t. hvers eðlis sá rökstuðningur er sem liggur til grundvallar því áliti að unnt verði að ná bókfærða verðinu til baka.“

3.     Í stað 1. mgr. 44. gr. komi eftirfarandi:

    „1.     Aðildarríkin geta leyft félögunum, sem um getur í 11. gr., að setja fram styttar skýringar með reikningum sínum en þó ekki upplýsingarnar sem krafist er skv. 5.–12. lið og 14. lið a. í 1. mgr. 43. gr. Í skýringunum skulu þó koma fram heildarupplýsingar um öll atriði sem eru tilgreind í 6. lið 1. mgr. 43. gr.“

4.     Í 2. mgr. 46. gr. bætist eftirfarandi liður við:

    „f)    að því er varðar notkun félagsins á fjármálaskjölum og þar sem það skiptir verulegu máli fyrir mat á eignum þess og skuldum, fjárhagsstöðu og hagnaði eða tapi,

            —    markmiðum og stefnu félagsins að því er varðar fjármögnunaráhættu, þ.m.t. baktryggingarstefnu þess fyrir hverja tegund mikilvægra, fyrirsjáanlegra viðskipta þar sem baktryggingar eru notaðar, og

            —    verðlagsáhættu, lánsáhættu, lausafjáráhættu og sjóðstreymisáhættu sem félagið þarf að taka.“

5.     Í a- og b-lið 2. mgr. 59. gr. komi tilvísun í „7. þátt eða 7. þátt a“ í stað tilvísunar í „31.–42. gr.“

6.     Eftirfarandi grein bætist við:

     „61. gr. a

    Eigi síðar en 1. janúar 2007 skal framkvæmdastjórnin endurskoða ákvæði 42. gr. a til 42. gr. d, 43. gr. (10. og 14. liðar 1. mgr.), 44. gr. (1. mgr.), 46. gr. (f-liðar 2. mgr.) og 59. gr. (a- og b-liðar 2. mgr.) í ljósi fenginnar reynslu af því að beita ákvæðum um sannvirðisbókhald og að teknu tilliti til alþjóðlegrar þróunar á sviði bókhalds og, ef við á, leggja tillögu fyrir Evrópuþingið og ráðið í því skyni að breyta framangreindum greinum.“

2. gr.


Tilskipun 83/349/EBE er breytt sem hér segir:

1.     Í stað 1. mgr. 29. gr. komi eftirfarandi:

    „1.     Eignir og skuldir, sem falla undir samstæðureikninga, skulu metnar eftir sömu aðferðum og í samræmi við 7. þátt og 7. þátt a og 60. gr. tilskipunar 78/660/EBE.“

2.     Í 34. gr.:

a)      komi tilvísun í 10. lið í „31. gr. og 34.–42. gr. c“ í stað tilvísunarinnar í „31. gr. og 34.–42. gr“, og

b)      eftirfarandi liðir bætist við:

    „14.    Þegar sannvirði fjármálaskjala hefur verið metið í samræmi við 7. þátt a í tilskipun 78/660/EBE:

                a)    helstu ályktanir sem liggja að baki matslíkönum og -aðferðum þegar sannvirði er ákvarðað í samræmi við b-lið 1. mgr. 42. gr. b í þeirri tilskipun;

                b)    fyrir hvern flokk fjármálaskjala, sannvirði, breytingar á virði sem hafa verið reiknaðar beint inn í rekstrarreikninginn og einnig breytingar á sannvirðisvarasjóði í samræmi við 42. gr. c í þeirri tilskipun;

                c)    fyrir hvern flokk afleiddra fjármálaskjala, upplýsingar um umfang og eðli skjalanna, þ.m.t. mikilvægir skilmálar og skilyrði sem gætu haft áhrif á fjárhæð, tímasetningu og áreiðanleika sjóðstreymis í framtíðinni; og

                d)    tafla sem sýnir hreyfingar í sannvirðisvarasjóði á fjárhagsárinu.

    15.    Þegar mat á sannvirði fjármálaskjala hefur ekki farið fram í samræmi við 7. þátt a í tilskipun 78/660/EBE:

            a)     fyrir hvern flokk afleiddra skjala:

                        i)        sannvirði skjalanna ef hægt er að ákvarða það með einhverri af aðferðunum sem lýst er í 1. mgr. 42. gr. b í þeirri tilskipun;

                        ii)    upplýsingar um umfang og eðli skjalanna; og

              b)    þegar um er að ræða fastafjármuni sem falla undir 42. gr. a í þeirri tilskipun og eru hærri fjárhæð en sannvirði þeirra og án þess að sá kostur hafi verið valinn að gera virðisleiðréttingu í samræmi við aa- lið c-liðar 1. mgr. 35. gr. í þeirri tilskipun:

                        i)         bókfært virði og sannvirði annaðhvort einstakra eigna eða viðeigandi flokka einstakra verðbréfa;

                        ii)    ástæðurnar fyrir því að hafa ekki lækkað bókfært verð, þ.m.t. hvers eðlis sá rökstuðningur er sem liggur til grundvallar því áliti að unnt verði að ná bókfærða verðinu til baka.“

3.     Í 2. mgr. 36. gr. bætist eftirfarandi liður við:

    „e)    að því er varðar notkun fyrirtækjanna á fjármálaskjölum og þar sem það skiptir verulegu máli fyrir mat á eignum þeirra og skuldum, fjárhagsstöðu og hagnaði eða tapi,

              —    markmiðum og stefnu fyrirtækjanna að því er varðar fjármögnunaráhættu, þ.m.t. baktryggingarstefnu þeirra fyrir hverja tegund mikilvægra, fyrirsjáanlegra viðskipta þar sem baktryggingar eru notaðar, og

            —    verðlagsáhættu, lánsáhættu, lausafjáráhættu og sjóðstreymisáhættu.“

4.     Eftirfarandi grein bætist við:

     „50. gr. a

    Eigi síðar en 1. janúar 2007 skal framkvæmdastjórnin endurskoða ákvæði 29. gr. (1. mgr.), 34. gr. (10. 14. og 15. mgr.) og 36. gr. (e-liðar 2. mgr.) í ljósi fenginnar reynslu af því að beita ákvæðum um sannvirðisbókhald og að teknu tilliti til alþjóðlegrar þróunar á sviði bókhalds og, ef við á, leggja tillögu fyrir Evrópuþingið og ráðið í því skyni að breyta framangreindum greinum.“

3. gr.


Í stað 1. mgr. 1. gr. í tilskipun 86/635/EBE komi eftirfarandi:

    „1.     Beita skal 2. gr., 3. gr., 4. gr. (1. og 3.–5. mgr.), 6. gr., 7. gr., 13. gr., 14. gr., 15. gr. (3. og 4. mgr.), 16.–21. gr., 29.–35. gr., 37.–41. gr., 42. gr. (fyrsta málslið), 42. gr. a–d, 45. gr. (1. mgr.), 46. gr. (1. og 2. mgr.), 48.– 50. gr., 50. gr. a, 51. gr. (1. mgr.), 56.–59. gr., 61 gr. og 61. gr. a í tilskipun 78/660/EBE að því er varðar stofnanir sem getið er um í 2. gr. þessarar tilskipunar nema kveðið sé á um annað í þessari tilskipun. Ekki skal þó beita 35. gr. (3. mgr.), 36. gr., 37. gr. og 39. gr. (1.–4. mgr.) þessarar tilskipunar þegar um er að ræða eignir og skuldir sem eru metnar í samræmi við 7. þátt a í tilskipun 78/660/EBE.“

4. gr.


1.     Aðildarríkin skulu samþykkja nauðsynleg lög og stjórnsýslufyrirmæli til að fara að tilskipun þessari fyrir 1. janúar 2004. Þau skulu tilkynna það framkvæmdastjórninni þegar í stað.

Þegar aðildarríkin samþykkja þessar ráðstafanir skal vera í þeim tilvísun í þessa tilskipun eða þeim fylgja slík tilvísun þegar þær eru birtar opinberlega. Aðildarríkin skulu setja nánari reglur um slíka tilvísun.

2.     Aðildarríkin skulu senda framkvæmdastjórninni helstu ákvæði landslaga sem þau samþykkja um málefni sem tilskipun þessi nær til.

5. gr.


Tilskipun þessari er beint til aðildarríkjanna.

Gjört í Brussel 27. september 2001.

Fyrir hönd Evrópuþingsins,     Fyrir hönd ráðsins,

N. FONTAINE     C. PICQUÉ
forseti.     forseti.
Neðanmálsgrein: 1
(1)    Stjtíð. EB L 154, 13.6.2002, bls. 22 og EES-viðbætir við Stjtíð. EB nr. 29, 13.6.2002, bls. 16.
Neðanmálsgrein: 2
(2)    Stjtíð. EB L 88, 4.4.2002, bls. 22 og EES-viðbætir við Stjtíð. EB nr. 18, 13.6.2002, bls. 14.
Neðanmálsgrein: 3
(3)    Stjtíð. EB L 283, 27.10.2002, bls. 28.
Neðanmálsgrein: 4
(*)    Stjórnskipuleg skilyrði gefin til kynna.
Neðanmálsgrein: 5
(1)    Stjtíð. EB C 311, 31.10.2000, bls. 1.
Neðanmálsgrein: 6
(2)    Stjtíð. EB C 268, 19.9.2000, bls. 1.
Neðanmálsgrein: 7
(3)    Álit Evrópuþingsins frá 15. maí 2001 (hefur enn ekki verið birt í Stjórnartíðindum EB) og ákvörðun ráðsins frá 30. maí 2001.
Neðanmálsgrein: 8
(4)    Stjtíð. EB L 222, 14.8.1978, bls. 11. Tilskipuninni var síðast breytt með tilskipun 1999/60/EB (Stjtíð. EB L 162, 26.6.1999, bls. 65).
Neðanmálsgrein: 9
(5)    Stjtíð. EB L 193, 18.7.1983, bls. 1. Tilskipuninni var síðast breytt með aðildarlögunum frá 1994.
Neðanmálsgrein: 10
(6)    Stjtíð. EB L 372, 31.12.1986, bls. 1.
Neðanmálsgrein: 11
(7)    Stjtíð. EB L 374, 31.12.1991, bls. 7.