Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 426. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 552  —  426. mál.
Tillaga til þingsályktunarum staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 58/2002, um breytingu á XVIII. viðauka (Öryggi og hollustuhættir á vinnustöðum, vinnuréttur og jafnrétti kynjanna) við EES-samninginn.

(Lögð fyrir Alþingi á 128. löggjafarþingi 2002–2003.)    Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 58/2002 frá 31. maí 2002, um breytingu á XVIII. viðauka (Öryggi og hollustuhættir á vinnustöðum, vinnuréttur og jafnrétti kynjanna) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2000/34/EB frá 22. júní 2000, um breytingu á tilskipun ráðsins 93/104/EB um ákveðna þætti er varða skipulag vinnutíma þannig að hún taki til þeirra geira og þeirrar starfsemi sem fellur utan gildissviðs þeirrar tilskipunar.

Athugasemdir við þingsályktunartillögu þessa.


1. Inngangur.
    Með þingsályktunartillögu þessari er leitað heimildar Alþingis til staðfestingar á ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 58/2002 frá 31. maí 2002, um breytingu á XVIII. viðauka (Öryggi og hollustuhættir á vinnustöðum, vinnuréttur og jafnrétti kynjanna) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og til að fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2000/34/EB frá 22. júní 2000, um breytingu á tilskipun ráðsins 93/104/EB, um ákveðna þætti er varða skipulag vinnutíma þannig að hún taki til þeirra geira og þeirrar starfsemi sem fellur utan gildissviðs þeirrar tilskipunar.
    Ákvörðun þessi kallar á lagabreytingar hér á landi og var tekin af sameiginlegu EES- nefndinni með stjórnskipulegum fyrirvara af Íslands hálfu. Í tillögu þessari er gerð nánari grein fyrir því hvað felst í slíkum fyrirvara, sbr. 103. gr. EES-samningsins. Jafnframt er gerð grein fyrir efni þeirrar tilskipunar sem hér um ræðir. Gerð þessi felur ekki í sér breytingar á þeim meginreglum sem í EES-samningnum felast.
    Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar sem hér um ræðir er prentuð sem fylgiskjal með tillögu þessari ásamt gerðinni sjálfri.

2. Um stjórnskipulegan fyrirvara.
    Ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingar á viðaukum eða bókunum við EES-samninginn eru þjóðréttarsamningar. Samkvæmt samningnum er ekki gert ráð fyrir því að í ákvörðunum sé kveðið á um að gildistaka þeirra gagnvart aðildarríkjunum sé háð staðfestingu þeirra heima fyrir. Þær verða með öðrum orðum skuldbindandi fyrir aðildarríkin um leið og þær hafa verið teknar nema eitthvert aðildarríkjanna beiti heimild í 103. gr. EES- samningsins til að gera fyrirvara um að ákvörðun geti ekki orðið bindandi strax vegna stjórnskipulegra skilyrða heima fyrir. Hafa ríkin sex mánaða frest frá töku ákvörðunar í sameiginlegu nefndinni til að aflétta fyrirvaranum. Með þessu er vísað til nauðsynlegs atbeina þjóðþinga aðildarríkjanna og af hálfu Íslands hefur fyrirvara þessum því einungis verið beitt þegar ljóst er að ákvörðun kallar á lagabreytingar. Almennt hefur ekki verið leitað sérstaks samþykkis Alþingis áður en stjórnskipulegum fyrirvara er aflétt heldur látið við það sitja að Alþingi hafi samþykkt nauðsynlegar lagabreytingar vegna innleiðingar ákvarðana. Þetta felur í sér nokkurt frávik frá almennri meðferð vegna staðfestingar þjóðréttarsamninga þar sem atbeina Alþingis er krafist en á sér skýringar í sérstöðu ákvarðana sameiginlegu EES-nefndarinnar meðal þjóðréttarsamninga. Hins vegar hafa nokkrir ókostir fylgt þessu fyrirkomulagi. Má þar helst nefna annars vegar að nokkuð mismunandi er með hvaða hætti það hefur komið fram í lagafrumvörpum hvernig þau tengjast tilteknum ákvörðunum sameiginlegu EES-nefndarinnar og hins vegar að með þessari aðferð hefur skort á að Alþingi hafi verið gefinn kostur á að taka beina afstöðu til staðfestingar einstakra ákvarðana nefndarinnar. Í vissum tilvikum hafa ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar kveðið á um að bætt sé við EES-samninginn tiltekinni EB-gerð sem ekki öðlast gildi innan Evrópusambandsins fyrr en einhverjum missirum eða jafnvel árum seinna. Samkvæmt EES-samningnum er Ísland skuldbundið til að taka endanlega afstöðu til þess hvort slík gerð verði hluti samningsins innan sex mánaða frá töku ákvörðunarinnar í sameiginlegu EES-nefndinni en hefur sama svigrúm og önnur aðildarríki samningsins til að innleiða viðkomandi gerð í landsrétt. Fram að þessu hefði eina leiðin verið sú að setja lög til innleiðingar þessara gerða innan sex mánaða frestsins en þau lög hefðu þá að sjálfsögðu ekki þurft að taka gildi fyrr en á ætluðum gildistökudegi gerðarinnar. Þetta er mjög óheppileg leið þar sem við undirbúning slíkrar lagasetningar er oft og tíðum horft til fordæma erlendis frá en þar er að jafnaði ekki hugað að slíkri lagasetningu fyrr en nær dregur gildistöku viðkomandi gerðar. Að þessari leið slepptri er eina leiðin til að virða samningsskuldbindingar Íslands að leita sérstaks samþykkis Alþingis í formi þingsályktunar.
    Að öllu þessu virtu hefur almenn meðferð þeirra ákvarðana sameiginlegu EES-nefndarinnar þar sem Ísland hefur gert stjórnskipulegan fyrirvara verið færð til samræmis við meðferð þjóðréttarsamninga. Í því felst að almennt er leitað sérstaklega eftir samþykki Alþingis til staðfestingar sérhverri ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar sem stjórnskipulegur fyrirvari hefur verið gerður við. Slíks samþykkis er leitað í formi þingsályktunar en viðeigandi ráðuneyti munu samhliða undirbúa nauðsynleg frumvörp til lagabreytinga. Jafnframt hefur þeirri föstu vinnureglu verið komið á, með vísan til 24. gr. laga um þingsköp Alþingis, að haft verði samráð við utanríkismálanefnd um efni þessara ákvarðana meðan þær eru á undirbúningsstigi.

3. Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2000/34/EB frá 22. júní 2000, um breytingu á tilskipun ráðsins 93/104/EB, um ákveðna þætti er varða skipulag vinnutíma þannig að hún taki til þeirra geira og þeirrar starfsemi sem fellur utan gildissviðs þeirrar tilskipunar.
    Tilskipun nr. 2000/34/EB breytir tilskipun nr. 93/104/EB um ákveðna þætti er varða skipulag vinnutíma (vinnutímatilskipunin). Sú breyting felst aðallega í því að læknar í starfsnámi, þeir sem starfa við flutninga á vegum ásamt þeim sem vinna á sjó og í flugi munu falla undir gildissvið vinnutímatilskipunarinnar. Í tilskipuninni er þó gert ráð fyrir að margvíslegar undanþáguheimildir frá reglum vinnutímatilskipunarinnar gildi enn varðandi þessa hópa.
    Vinnutímatilskipunin gildir um daglegan og vikulegan lágmarkshvíldartíma, árlegt orlof, um hlé og hámarksvinnutíma á viku og tiltekna þætti í tengslum við næturvinnu, vaktavinnu og vinnumynstur. Hún felur í sér lágmarksréttindi til að tryggja öryggi og heilsu starfsmanna.
    Eftir breytinguna með tilskipun nr. 2000/34/EB gildir vinnutímatilskipunin um alla starfsemi í öllum geirum, hvort sem hún er á vegum opinberra aðila eða einkaaðila, í skilningi 2. gr. tilskipunar nr. 89/391/EBE, sbr. þó 14. gr. og 17. gr. tilskipunarinnar. Ákvæði vinnutímatilskipunarinnar gilda því ekki um sérstakar aðstæður sem tengjast starfsemi hins opinbera, svo sem her og lögreglu, eða starfsemi almannavarna, sbr. tilvísun í 2. gr. tilskipunar nr. 89/391/EBE. Farmenn samkvæmt skilgreiningu í tilskipun nr. 1999/36/EB munu enn fremur falla áfram utan gildissviðs tilskipunarinnar. Reglur um vinnutíma farmanna er að finna í tilskipun ráðsins 1999/63/EB varðandi samninginn um skipulag vinnutíma á farskipum sem gerður var af Evrópusamtökum skipaeigenda (ESCA) og Sambandi flutningaverkamanna. Auk þess gildir um þetta efni tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 1999/95/EB frá 13. desember 1999, um framkvæmd ákvæða um vinnutíma á skipum sem fara um hafnir innan ríkja Evrópusambandsins. Þá er tekið fram að tilskipunin gildi ekki á þeim sviðum þar sem sérreglur annarra gerða bandalagsins fela í sér sérhæfðari kröfur varðandi skipulag vinnutíma tiltekinna starfsgreina eða atvinnustarfsemi. Í því samhengi má geta tilskipunar nr. 2000/79/EB frá 27. nóvember 2000, um vinnutíma í flugi, sem byggist á samningum samtaka aðila vinnumarkaðarins á evrópskum vettvangi í þessari atvinnugrein sem gerðir voru í mars 2000.
    Meginreglur vinnutímatilskipunarinnar eru þær að aðildarríkjum er skylt að tryggja starfsmönnum rétt á:
     a.      11 klst. samfelldum daglegum hvíldartíma,
     b.      hvíldarhléi ef daglegur vinnutími er lengri en 6 klst.,
     c.      samfelldum 24 klst. hvíldartíma í viku hverri sem tengist daglegum hvíldartíma, sbr. a- lið,
     d.      að virkur vikulegur vinnutími sé takmarkaður og að meðalvinnustundafjöldi fari ekki yfir 48 klst., að yfirvinnu meðtalinni,
     e.      árlegu fjögurra vikna launuðu orlofi,
     f.      að venjulegur vinnutími næturvinnustarfsmanns fari ekki að jafnaði yfir 8 klst. á hverju 24 klst. tímabili og að þetta viðmið sé hámark ef starfi fylgir mikið andlegt eða líkamlegt álag,
     g.      ókeypis heilsufarsskoðun næturvinnustarfsmanna og, sé þess kostur, tilfærslu í dagvinnustörf ef rekja má heilsufarsvandamál þeirra til næturvinnu.
    Tilskipunin hefur enn fremur að geyma nánari ákvæði er varða heilsuvernd og öryggi næturvinnustarfsmanna og vaktavinnustarfsmanna. Þá kveður hún á um að gera skuli viðeigandi ráðstafanir vegna þeirra starfsmanna sem vinna eftir ákveðnu mynstri.
    Heimilt er þó að veita undanþágur frá meginreglum vinnutímatilskipunarinnar. Slíkar heimildir byggjast m.a. á því að skipulag vinnutíma í ákveðnum starfsgreinum er eða kann að vera með þeim hætti að æskilegt sé að heimila tiltekinn sveigjanleika við beitingu framangreindra meginreglna. Ef aðildarríki nýta þessar undanþágur ber þeim að gæta að meginreglum tilskipunarinnar um öryggis- og heilsuvernd starfsmanna og gæta þess að starfsmenn fái samsvarandi hvíld í staðinn.
    Að því er varðar lækna í starfsnámi er ríkjum veittur sérstakur aðlögunartími til að hrinda í framkvæmd meginreglu vinnutímatilskipunarinnar um 48 klst. vikulegan hámarksvinnutíma að meðaltali í allt að átta ár samkvæmt sérstökum skilyrðum og veitt svigrúm með tilliti til viðmiðunartíma vikulegs hámarksvinnutíma, sbr. 6. tölul. 1. gr. tilskipunar nr. 2000/34/EB.
    Innleiðing tilskipunar þessarar krefst lagabreytinga en enn fremur kemur til greina að innleiða hana með kjarasamningum samtaka aðila vinnumarkaðarins. Íslensk stjórnvöld skulu sjá til þess að efni tilskipunarinnar taki gildi hér á landi eigi síðar en 1. ágúst 2003 en fyrir 1. ágúst 2004 að því er varðar lækna í starfsnámi.Fylgiskjal I.


ÁKVÖRÐUN SAMEIGINLEGU EES-NEFNDARINNAR nr. 58/2002

frá 31. maí 2002

um breytingu á XVIII. viðauka (Öryggi og hollustuhættir á vinnustöðum, vinnuréttur og jafnrétti kynjanna) við EES-samninginn


SAMEIGINLEGA EES-NEFNDIN HEFUR,

með hliðsjón af samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, eins og hann var aðlagaður með bókun um breytingu á samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, er nefnist hér á eftir samningurinn, einkum 98. gr.,

og að teknu tilliti til eftirfarandi:

1)         XVIII. viðauka við samninginn var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES nefndarinnar nr. 39/2002 frá 19. apríl 2002( 1 ).

2)         Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2000/34/EB frá 22. júní 2000 um breytingu á tilskipun ráðsins 93/104/EB um ákveðna þætti er varða skipulag vinnutíma þannig að hún taki til þeirra geira og þeirrar starfsemi sem fellur utan gildissviðs þeirrar tilskipunar( 2 ) skal felld inn í samninginn.

ÁKVEÐIÐ EFTIRFARANDI:

1. gr.

Eftirfarandi komi aftan við 28. lið (tilskipun ráðsins 93/104/EB) í XVIII. viðauka við samninginn:

„eins og henni var breytt með:

-    32000 L 0034: Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2000/34/EB frá 22. júní 2000 (Stjtíð. EB L 195, 1.8.2000, bls. 41).“

Ákvæði tilskipunarinnar skulu, að því er þennan samning varðar, aðlöguð sem hér segir:

Sú skylda sem kveðið er á um í i-lið a-liðar í lið 2.4. í 2. mgr. 17. gr. um að áframsenda ákveðnar tilkynningar, skýringar og álit til Evrópuþingsins gildir ekki um EFTA-ríkin né EFTA-stofnanir.“.

2. gr.

Texti tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2000/34/EB á íslensku og norsku, sem verður birtur í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópubandalaganna, telst fullgiltur.

3. gr.

Ákvörðun þessi öðlast gildi hinn 1. júní 2002, að því tilskildu að allar tilkynningar samkvæmt 1. mgr. 103. gr. samningsins hafi verið sendar sameiginlegu EES-nefndinni( * ).

4. gr.

Ákvörðun þessi skal birt í EES-deild og EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópubandalaganna.

Gjört í Brussel 31. maí 2002.

     Fyrir hönd sameiginlegu EES-nefndarinnar
    Formaður

    P. Westerlund


    Ritarar
    sameiginlegu EES-nefndarinnar

    P.K. Mannes     M. Brinkmann
Fylgiskjal II.


TILSKIPUN EVRÓPUÞINGSINS OG RÁÐSINS 2000/34/EB

frá 22. júní 2000

um breytingu á tilskipun ráðsins 93/104/EB um ákveðna þætti er varða skipulag vinnutíma þannig að hún taki til þeirra geira og þeirrar starfsemi sem fellur utan gildissviðs þeirrar tilskipunar


EVRÓPUÞINGIÐ OG RÁÐ EVRÓPUSAMBANDSINS HAFA,

með hliðsjón af stofnsáttmála Evrópubandalagsins, einkum 2. mgr. 137. gr.,

með hliðsjón af tillögu framkvæmdastjórnarinnar ( 1 ),

með hliðsjón af áliti efnahags- og félagsmálanefndarinnar ( 2 ),

í samræmi við málsmeðferðina sem mælt er fyrir um í 251. gr. sáttmálans ( 3 ) á grundvelli sameiginlegs texta sáttanefndarinnar frá 3. apríl 2000,

og að teknu tilliti til eftirfarandi:

     1)      Í 137. gr. sáttmálans er kveðið á um að bandalagið skuli styðja og bæta við starfsemi aðildarríkjanna með það í huga að bæta vinnuumhverfi og vernda þannig öryggi og heilsu starfsmanna. Í tilskipunum, sem samþykktar eru á grundvelli þeirrar greinar, skal forðast að leggja á hömlur á sviði stjórnsýslu, fjármála eða löggjafar sem staðið gætu í vegi fyrir stofnun og vexti lítilla og meðalstórra fyrirtækja.

     2)      Í tilskipun ráðsins 93/104/EB frá 23. nóvember 1993 um ákveðna þætti er varða skipulag vinnutíma ( 4 ) er mælt fyrir um lágmarkskröfur um öryggi og heilbrigði við skipulag vinnutíma, að því er varðar daglegan hvíldartíma, hlé, vikulegan hvíldartíma, vikulegan hámarksvinnutíma, árlegt orlof og þætti varðandi næturvinnu, vaktavinnu og vinnumynstur. Tilskipuninni skal breytt af eftirfarandi ástæðum.

     3)      Flutningar á vegum, í lofti, á sjó, járnbrautum og skipgengum vatnaleiðum, fiskveiðar og önnur vinna á sjó og starfsemi lækna í starfsþjálfun falla utan gildissviðs tilskipunar ráðsins 93/104/EB.

     4)      Í tillögu framkvæmdastjórnarinnar frá 20. september 1990 voru engar undanþágur veittar frá tilskipun ráðsins 93/104/EB fyrir tiltekna geira eða starfsemi né samþykkti Evrópuþingið slíkar undanþágur í áliti sínu frá 20. febrúar 1991.

     5)      Vernda skal heilbrigði og öryggi starfsmanna á vinnustað af þeirri ástæðu að þeir eru starfsmenn en ekki vegna þess að þeir vinna innan tiltekins geira eða við tiltekna starfsemi.

     6)      Að því er varðar löggjöf, sem bundin er við tiltekinn geira, fyrir farstarfsmenn er þörf á hliðstæðri nálgun til fyllingar ákvæðum um öryggi í flutningum og heilbrigði og öryggi viðkomandi starfsmanna.

     7)      Taka þarf tillit til sérstöðu starfsemi á sjó og starfsemi lækna í starfsþjálfun.

     8)      Tryggja skal einnig verndun heilbrigðis og öryggis farstarfsmanna innan þeirra geira og þeirrar starfsemi sem undanþegin var.

     9)      Rýmka ber gildandi ákvæði um árlegt orlof og heilbrigðiseftirlit vegna næturvinnu og vaktavinnu þannig að þau taki til farstarfsmanna innan þeirra geira og þeirrar starfsemi sem undanþegin var.

     10)      Aðlaga ber gildandi ákvæði um vinnu- og hvíldartíma fyrir farstarfsmenn innan þeirra geira og þeirrar starfsemi sem undanþegin var.
     11)      Allir starfsmenn skulu fá viðunandi hvíldartíma. Hugtakið „hvíld“ skal tjá í tímaeiningum, þ.e. dögum, klukkustundum og/eða hlutum þeirra.

     12)      Evrópusamningur um skipulag á vinnutíma sjómanna gekk í gildi með tilskipun ráðsins ( 1 ), samkvæmt tillögu framkvæmdastjórnarinnar í samræmi við 2. mgr. 139. gr. sáttmálans. Því skulu ákvæði þessarar tilskipunar ekki gilda um sjómenn.

     13)      Að því er varðar „sjómenn sem fiska upp á hlut“ og eru starfsmenn er það aðildarríkjanna að ákvarða, skv. 7. gr. tilskipunar ráðsins 93/104/EB skilyrðin fyrir rétti til árlegs orlofs og veitingu þess, þar á meðal tilhögun greiðslna.

     14)      Sérstakir staðlar, sem mælt er fyrir um í öðrum bandalagsgerningum og tengjast t.d. hvíldartíma, vinnutíma, árlegu orlofi og næturvinnu fyrir tiltekna flokka starfsmanna, skulu vera rétthærri en ákvæði tilskipunar ráðsins 93/104/EB eins og henni er breytt með þessari tilskipun.

     15)      Með hliðsjón af fordæmi dómstóls Evrópubandalaganna skal ákvæðið um hvíld á sunnudögum falla niður.

     16)      Í máli C-84/94, Breska konungsríkið gegn ráðinu ( 2 ), kvað dómstóllinn upp þann dóm að tilskipun ráðsins 93/104/EB væri í samræmi við dreifræðisregluna og meðalhófsregluna sem settar eru fram í 5. gr. sáttmálans. Ekkert tilefni er til að ætla að þessi dómur eigi ekki við um sambærilegar reglur um ýmsa þætti er varða skipulag vinnutíma í þeim geirum og þeirri starfsemi sem undanþegin var.

SAMÞYKKT TILSKIPUN ÞESSA:

1. gr.

Tilskipun 93/104/EB er breytt sem hér segir:

1.    Í stað 3. mgr. 1. gr. komi eftirfarandi:

    „3. Þessi tilskipun skal gilda um starfsemi í öllum geirum, jafnt opinbera geiranum sem einkageiranum, í skilningi 2. gr. tilskipunar 89/391/EBE, sbr. þó 14. og 17. gr. þessarar tilskipunar.

    Þessi tilskipun skal ekki gilda um sjómenn, eins og þeir eru skilgreindir í tilskipun ráðsins 1999/63/EB frá 21. júní 1999 um samning um skipulag á vinnutíma sjómanna á kaupskipum milli Samtaka skipaeigenda í Evrópubandalaginu (ECSA) og Samtaka félaga flutningaverkamanna í Evrópusambandinu (FST)(*), sbr. þó 8. mgr. 2. gr. þessarar tilskipunar.


    (*) Stjtíð. EB L 167, 2.7.1999, bls. 33).“;

2.    Í 2. gr. bætist eftirfarandi við:

    „7.    „farstarfsmaður“: starfsmaður í áhöfn hjá fyrirtæki sem rekur flutningaþjónustu fyrir farþega eða vörur á vegum, í lofti eða á skipgengum vatnaleiðum;

    8.         „vinna á hafi úti“: vinna sem er unnin að mestu leyti á eða frá mannvirkjum á hafi úti (þ.m.t. borpöllum), í beinum eða óbeinum tengslum við leit, vinnslu eða nýtingu á jarðefnaauðlindum, þ.m.t. á kolvatnsefnum, og köfun í tengslum við slíka starfsemi, hvort sem hún fer fram frá mannvirki á hafi úti eða frá skipi;

    9.         „viðunandi hvíld“: það að starfsmenn hafi reglubundinn hvíldartíma sem mældur er í tímaeiningum og er nægilega langur og samfelldur til að tryggja að þeir valdi ekki sjálfum sér, samstarfsmönnum eða öðrum tjóni vegna þreytu eða óreglulegs vinnumynsturs og að þeir skaði ekki heilsu sína, hvorki til skamms tíma né lengri tíma litið.“;

3.    Eftirfarandi undirgrein í 5. gr. falli niður:

    „Lágmarkshvíldartíminn, sem um getur í fyrstu undirgrein, skal að jafnaði taka til sunnudags.“

4.    Í stað 14. gr. komi eftirfarandi:

     „14. gr.

     Sérhæfðari bandalagsákvæði

    Þessi tilskipun skal ekki gilda þegar aðrir bandalagsgerningar fela í sér sérhæfðari kröfur varðandi skipulag vinnutíma tiltekinna starfsgreina eða atvinnustarfsemi.“

5.    Í stað málsgreinar 2.1 í 17. gr. komi eftirfarandi:

    „2.1.    úr 3., 4., 5., 8. og 16. gr.:

                  a)    vegna starfa þar sem vinnustaður er fjarri búsetustað viðkomandi starfsmanns, þ.m.t. vinna á hafi úti, eða langt er á milli mismunandi vinnustaða starfsmannsins;

                  b)    vegna öryggis- og eftirlitsstarfa sem krefjast stöðugrar viðveru til verndar eignum og fólki. Hér er einkum átt við öryggisverði, húsverði eða öryggisgæslufyrirtæki;

                   c)    vegna starfa sem fela í sér þörf á samfelldri þjónustu eða framleiðslu, hér er einkum átt við:

                      i)    þjónustu sem tengist móttöku, meðferð og/eða umönnun á sjúkrahúsum eða sambærilegum stofnunum, þ.m.t. starfsemi lækna í starfsþjálfun, á dvalarstofnunum og í fangelsum,

                     ii)    hafnar- eða flugvallarstarfsmenn,

                      iii)    fólk sem starfar við blöð, útvarp, sjónvarp, kvikmyndaframleiðslu, póst- og fjarskiptaþjónustu, sjúkra-, bruna- og almannavarnaþjónustu,

                      iv)    gas-, vatns- og rafmagnsframleiðslu og dreifingu, sorphirðu og brennsluver,

                      v)    atvinnugreinar þar sem ekki er unnt að rjúfa vinnuferli af tæknilegum ástæðum,

                      vi)    rannsóknar- og þróunarvinnu,

                      vii)    landbúnað,

                        viii)    starfsmenn sem annast reglubundna farþegaflutninga í borgum;

                   d)    þegar vinnuhrota er fyrirsjáanleg, einkum í:

                      i)    landbúnaði,

                      ii)    ferðaþjónustu,

                      iii)    póstþjónustu;

                   e)    þegar um er að ræða fólk sem vinnur við járnbrautarflutninga:

                        i)    sem vinnur ósamfellt,

                        ii)    sem dvelur á vinnutíma um borð í lestum, eða

                        iii)    við störf sem eru háð tímaáætlunum flutninga og þar sem tryggja verður að járnbrautarumferð sé samfelld og reglubundin.“

6.    Í 2. mgr. 17. gr. bætist eftirfarandi við:

    „2.4.    úr 6. gr. og 2. mgr. 16. gr. þegar um er að ræða lækna í starfsþjálfun:

                  a)    að því er varðar 6. gr. á 5 ára aðlögunartímabili frá 1. ágúst 2004.

                      i)    Aðildarríkjunum er heimilt að taka sér allt að tveimur árum í viðbót, ef nauðsyn ber til, til að takast á við þau vandkvæði sem fylgja því að uppfylla ákvæði um vinnutíma sem tengjast skyldum þeirra til að skipuleggja og sjá fyrir heilbrigðisþjónustu og heilsuvernd. Að minnsta kosti sex mánuðum fyrir lok aðlögunartímabilsins skal viðkomandi aðildarríki tilkynna framkvæmdastjórninni það ásamt rökstuðningi svo að framkvæmdastjórnin geti gefið álit sitt, eftir viðeigandi samráð, innan þriggja mánaða frá viðtöku slíkra upplýsinga. Fari aðildarríkið ekki að áliti framkvæmdastjórnarinnar skal það færa rök fyrir þeirri ákvörðun sinni. Tilkynning og rökstuðningur aðildarríkisins og álit framkvæmdastjórnarinnar skulu birt í Stjórnartíðindum Evrópubandalaganna og send áfram til Evrópuþingsins.

                      ii)    Aðildarríkjum er heimilt að taka sér allt að einu ári í viðbót, ef nauðsyn ber til, til að takast á við sérstök vandkvæði sem fylgja því að uppfylla áðurnefndar skyldur. Þau skulu fylgja málsmeðferðinni sem sett er fram í i-lið.

                      Að því er varðar aðlögunartímabilið:

                      iii)    Aðildarríkin skulu sjá til þess að fjöldi vinnustunda á viku fari aldrei yfir 58 stundir að meðaltali á fyrstu þremur árum aðlögunartímabilsins, 56 stundir að meðaltali á næstu tveimur árum þar á eftir og að meðaltali 52 stundir á þeim tíma sem kann að vera eftir.

                      iv)    Vinnuveitandi skal hafa samráð við fulltrúa starfsmanna með góðum fyrirvara með það í huga að ná samkomulagi, þar sem því verður komið við, um tilhögun á aðlögunartímabilinu. Innan þeirra takmarkana, sem settar eru fram í iii-lið, getur slíkt samkomulag tekið til:

                         —    meðalfjölda vinnustunda á viku á aðlögunartímabilinu; og

                         —    ráðstafana til að fækka vinnustundum á viku í 48 að meðaltali í lok aðlögunartímabilsins;

                  b)    að því er varðar 2. mgr. 16. gr., að því tilskildu að viðmiðunartímabilið sé ekki lengra en 12 mánuðir á fyrsta hluta aðlögunartímabilsins, sem tiltekið er í iii-lið a-liðar, og sex mánuðir þar á eftir.“;

7.    Eftirfarandi greinar bætist við:

     „17. gr. a

     Farstarfsmenn og vinna á hafi úti

    1.          Ákvæði 3., 4., 5. og 8. gr. gilda ekki um farstarfsmenn.

    2.          Aðildarríkin skulu hins vegar gera nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að farstarfsmenn eigi rétt á viðunandi hvíld, nema við þær aðstæður sem mælt er fyrir um í málsgrein 2.2 í 17. gr.

    3.          Með fyrirvara um almennar meginreglur um verndun öryggis og heilbrigðis starfsmanna og að því tilskildu að samráð sé haft við fulltrúa vinnuveitanda og viðkomandi starfsmanna og að kapp sé lagt á að hvetja til hverskonar viðeigandi skoðanaskipta milli aðila vinnumarkaðarins, þ.m.t. samningaviðræðna ef aðilar óska þess, er aðildarríkjunum heimilt, af hlutlægum og tæknilegum ástæðum eða ástæðum sem varða skipulag vinnunnar, að lengja viðmiðunartímabilið, sem um getur í 2. mgr. 16. gr., í tólf mánuði fyrir starfsmenn sem aðallega stunda vinnu á hafi úti.

    4.          Eigi síðar en 1. ágúst 2005 skal framkvæmdastjórnin, að höfðu samráði við aðildarríkin og vinnuveitendur og launþega á evrópskum vettvangi, endurskoða hvernig ákvæðunum er framfylgt, að því er varðar starfsmenn á hafi úti, með tilliti til öryggis- og heilbrigðismála með það í huga að koma fram með viðeigandi breytingar ef þörf er á.

     17. gr. b

     Starfsmenn á sjófiskiskipum

    1.          Ákvæði 3., 4., 5., 6. og 8. gr. gilda ekki um starfsmenn á sjófiskiskipum, sem sigla undir fána aðildarríkis.

    2.          Aðildarríkin skulu hins vegar gera nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að sérhver starfsmaður á sjófiskiskipi, sem siglir undir fána aðildarríkis, eigi rétt á viðunandi hvíld og takmarka fjölda vinnustunda við 48 klukkustundir á viku að meðaltali á viðmiðunartímabili sem er ekki lengra en tólf mánuðir.

    3.          Í samræmi við þörfina á að vernda öryggi og heilbrigði slíkra starfsmanna skulu aðildarríkin, innan þeirra takmarkana sem settar eru fram í 2., 4. og 5. mgr., gera nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja:

    a)    að vinnutími takmarkist við hámarksfjölda klukkustunda sem ekki má fara yfir á tilteknu tímabili, eða

    b)    að veittur sé lágmarksfjöldi hvíldarstunda á tilteknu tímabili.

    Hámarksfjöldi vinnustunda eða lágmarksfjöldi hvíldarstunda skal skilgreindur í lögum eða stjórnsýslufyrirmælum eða í kjarasamningum eða samningum milli aðila vinnumarkaðarins.

    4.          Mörk vinnu- eða hvíldartíma skulu vera annaðhvort:

    a)    hámarksfjöldi vinnustunda, sem ekki skal vera meiri en:

            i)    14 klukkustundir á hverju 24 klukkustunda tímabili, og

            ii)    72 klukkustundir á hverju sjö daga tímabili;

            eða

    b)    lágmarksfjöldi hvíldarstunda, sem ekki skal vera minni en:

            i)    10 klukkustundir á hverju 24 klukkustunda tímabili, og

            ii)    77 klukkustundir á hverju sjö daga tímabili.

    5.          Hvíldartíma má ekki skipta upp í meira en tvo hluta og skal annar hluti hvíldartímans vera að minnsta kosti sex klukkustundir og ekki skulu líða meira en 14 klukkustundir á milli tveggja hvíldartíma.

    6.          Í samræmi við almennar meginreglur um verndun öryggis og heilbrigðis starfsmanna og af hlutlægum og tæknilegum ástæðum eða ástæðum, sem varða skipulag vinnunnar, er aðildarríkjunum heimilt að leyfa undanþágur, þ.m.t. að koma á viðmiðunartímabilum, frá þeim takmörkunum sem mælt er fyrir um í 2., 4. og 5. mgr. Slíkar undanþágur skulu, að því marki sem hægt er, vera í samræmi við setta staðla en heimilt er að miða við tíðari eða lengri orlofstímabil eða veitingu uppbótarorlofs fyrir starfsmennina. Mæla má fyrir um slíkar undantekningar í

    i)         lögum eða stjórnsýslufyrirmælum, að því tilskildu að samráð sé haft við fulltrúa vinnuveitenda og viðkomandi starfsmanna og að kapp sé lagt á að hvetja til hverskonar skoðanaskipta milli aðila vinnumarkaðarins, eða

    ii)    kjarasamningum eða samningum milli aðila vinnumarkaðarins.

    7.          Skipstjóri á sjófiskiskipi getur krafist þess að starfsmenn um borð vinni þá tíma sem nauðsynlegir eru á þeirri stundu vegna öryggis skipsins, skipverja um borð eða farms eða til að koma til aðstoðar öðrum skipum eða skipverjum í nauð á hafi úti.

    8.          Aðildarríki geta kveðið á um að starfsmenn á sjófiskiskipum, sem landslög eða venja mæla fyrir um að megi ekki stunda veiðar á tilteknu tímabili almanaksársins sem er lengra en einn mánuður, skulu taka árlegt orlof, í samræmi við 7. gr., innan framangreinds tímabils.“

2. gr.

1.     Aðildarríkin skulu samþykkja nauðsynleg lög og stjórnsýslufyrirmæli til að fara að tilskipun þessari eigi síðar en 1. ágúst 2003 eða sjá til þess að í síðasta lagi þann dag hafi aðilar vinnumarkaðarins gert nauðsynlegar ráðstafanir, með samningi, enda er aðildarríkjunum skylt að gera allar nauðsynlegar ráðstafanir til vera ávallt í aðstöðu til að ábyrgjast þær niðurstöður sem mælt er fyrir um í þessari tilskipun. Að því er varðar lækna í starfsþjálfun skal þessi dagsetning vera 1. ágúst 2004. Þau skulu tilkynna það framkvæmdastjórninni þegar í stað.

2.     Þegar aðildarríkin samþykkja ráðstafanirnar sem um getur í 1. mgr. skal vera í þeim tilvísun í þessa tilskipun eða þeim fylgja slík tilvísun þegar þær eru birtar opinberlega. Aðildarríkin skulu setja nánari reglur um slíka tilvísun.

3.     Með fyrirvara um rétt aðildarríkjanna til að setja ný laga-, stjórnsýslu- eða samningsákvæði á sviði vinnutíma í ljósi breyttra aðstæðna að uppfylltum lágmarkskröfunum, sem kveðið er á um í þessari tilskipun, skal framkvæmd þessarar tilskipunar ekki teljast gild rök fyrir því að draga úr þeirri almennu vernd sem starfsmönnum er búin.

4.     Aðildarríkin skulu senda framkvæmdastjórninni þau ákvæði úr landslögum sem þegar hafa verið samþykkt eða sem samþykkt verða um málefni sem tilskipun þessi nær til.

3. gr.

Eigi síðar en 1. ágúst 2009 skal framkvæmdastjórnin, að höfðu samráði við aðildarríkin og vinnuveitendur og launþega á evrópskum vettvangi, endurskoða hvernig ákvæðunum er framfylgt, að því er varðar starfsmenn á sjófiskiskipum og kanna sérstaklega hvort þessi ákvæði eiga við, einkum með tilliti til öryggis- og heilbrigðismála, með það í huga að leggja til viðeigandi breytingar ef þörf er á.

4. gr.

Eigi síðar en 1. ágúst 2005 skal framkvæmdastjórnin, að höfðu samráði við aðildarríkin og vinnuveitendur og launþega á evrópskum vettvangi, endurskoða hvernig ákvæðunum er framfylgt, að því er varðar starfsmenn sem annast reglubundna farþegaflutninga í borgum, með það í huga að leggja til viðeigandi breytingar, ef þörf er á, til að tryggja samfellda og viðeigandi stefnu innan geirans.

5. gr.

Tilskipun þessi öðlast gildi á þeim degi sem hún birtist í Stjórnartíðindum Evrópubandalaganna.

6. gr.

Tilskipun þessari er beint til aðildarríkjanna.

Gjört í Lúxemborg 22. júní 2000.

Fyrir hönd Evrópuþingsins,
N. FONTAINE
forseti.
Fyrir hönd ráðsins,
J. SÓCRATES
forseti.


Yfirlýsing framkvæmdastjórnarinnar um hvíld á sunnudögum

Framkvæmdastjórnin lýsir því yfir að hún muni fjalla um stöðu aðildarríkjanna, að því er varðar löggjöf um hvíld á sunnudögum, í næstu skýrslu sinni um framkvæmd vinnutímatilskipunarinnar (93/104/EB).


Yfirlýsing framkvæmdastjórnarinnar um framkvæmd 6. mgr. 1. gr.

Framkvæmdastjórnin lýsir því yfir að hún hyggist hafa samráð við vinnuveitendur og launþega á evrópskum vettvangi og fulltrúa aðildarríkjanna, áður en hún gefur álit sitt, með það í huga að skila áliti sínu þremur mánuðum eftir að hún fær tilkynningu frá aðildarríkjunum.
Neðanmálsgrein: 1
(1)    Stjtíð. EB L 154, bls. 25. EES-viðbætir við Stjtíð. EB nr. 29,13.06.2002, bls. 19.
Neðanmálsgrein: 2
(2)    Stjtíð. EB L 195, 1.8.2000, bls. 41.
Neðanmálsgrein: 3
(*)    Stjórnskipuleg skilyrði gefin til kynna.
Neðanmálsgrein: 4
(1)    Stjtíð. EB C 43, 17.2.1999, bls. 1.
Neðanmálsgrein: 5
(2)    Stjtíð. EB C 138, 18.5.1999, bls. 33.
Neðanmálsgrein: 6
(3)    Álit Evrópuþingsins frá 14. apríl 1999 (Stjtíð. EB C 219, 30.7.1999, bls. 231), sameiginleg afstaða ráðsins frá 12. júlí 1999 (Stjtíð. EB C 249, 1.9.1999, bls. 17) og ákvörðun Evrópuþingsins frá 16. nóvember 1999 (hefur enn ekki verið birt í Stjórnartíðindum EB). Ákvörðun Evrópuþingsins frá 17. maí 2000 og ákvörðun ráðsins frá 18. maí 2000.
Neðanmálsgrein: 7
(4)    Stjtíð. EB L 307, 13.12.1993, bls. 18.
Neðanmálsgrein: 8
(1)    Tilskipun ráðsins 1999/63/EB frá 21. júní 1999 um samning um skipulag á vinnutíma sjómanna á kaupskipum milli Samtaka skipaeigenda í Evrópubandalaginu (ECSA) og Samtaka félaga flutningaverkamanna í Evrópusambandinu (FST) (Stjtíð. EB L 167, 2.7.1999, bls. 33).
Neðanmálsgrein: 9
(2)    Dómasafn EB (ECR) 1996, bls I – 5755.