Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 445. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 625  —  445. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 90/2002, um breytingu á XX. viðauka (Umhverfismál) við EES-samninginn.

(Lögð fyrir Alþingi á 128. löggjafarþingi 2002–2003.)



    Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 90/2002 frá 25. júní 2002, um breytingu á XX. viðauka (Umhverfismál) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2001/42/EB frá 27. júní 2001, um mat á áhrifum tiltekinna skipulags- og framkvæmdaáætlana á umhverfið.

Athugasemdir við þingsályktunartillögu þessa.


1. Inngangur.
    Með þingsályktunartillögu þessari er leitað heimildar Alþingis til staðfestingar á ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 90/2002 frá 25. júní 2002, um breytingu á XX. viðauka (Umhverfismál) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og til að fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2001/42/EB frá 27. júní 2001, um mat á áhrifum tiltekinna skipulags- og framkvæmdaáætlana á umhverfið.
    Ákvörðun þessi kallar á lagabreytingar hér á landi og var tekin af sameiginlegu EES- nefndinni með stjórnskipulegum fyrirvara af Íslands hálfu. Í tillögu þessari er gerð nánari grein fyrir því hvað felst í slíkum fyrirvara, sbr. 103. gr. EES-samningsins. Jafnframt er gerð grein fyrir efni þeirrar tilskipunar sem hér um ræðir. Gerð þessi felur ekki í sér breytingar á þeim meginreglum sem í EES-samningnum felast.
    Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar sem hér um ræðir er prentuð sem fylgiskjal með tillögu þessari ásamt gerðinni sjálfri.

2. Um stjórnskipulegan fyrirvara.
    Ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingar á viðaukum eða bókunum við EES-samninginn eru þjóðréttarsamningar. Samkvæmt samningnum er ekki gert ráð fyrir því að í ákvörðunum sé kveðið á um að gildistaka þeirra gagnvart aðildarríkjunum sé háð staðfestingu þeirra heima fyrir. Þær verða með öðrum orðum skuldbindandi fyrir aðildarríkin um leið og þær hafa verið teknar nema eitthvert aðildarríkjanna beiti heimild í 103. gr. EES- samningsins til að gera fyrirvara um að ákvörðun geti ekki orðið bindandi strax vegna stjórnskipulegra skilyrða heima fyrir. Hafa ríkin sex mánaða frest frá töku ákvörðunar í sameiginlegu nefndinni til að aflétta fyrirvaranum. Með þessu er vísað til nauðsynlegs atbeina þjóðþinga aðildarríkjanna og af hálfu Íslands hefur fyrirvara þessum því einungis verið beitt þegar ljóst er að ákvörðun kallar á lagabreytingar. Almennt hefur ekki verið leitað sérstaks samþykkis Alþingis áður en stjórnskipulegum fyrirvara er aflétt heldur látið við það sitja að Alþingi hafi samþykkt nauðsynlegar lagabreytingar vegna innleiðingar ákvarðana. Þetta felur í sér nokkurt frávik frá almennri meðferð vegna staðfestingar þjóðréttarsamninga þar sem atbeina Alþingis er krafist en á sér skýringar í sérstöðu ákvarðana sameiginlegu EES-nefndarinnar meðal þjóðréttarsamninga. Hins vegar hafa nokkrir ókostir fylgt þessu fyrirkomulagi. Má þar helst nefna annars vegar að nokkuð mismunandi er með hvaða hætti það hefur komið fram í lagafrumvörpum hvernig þau tengjast tilteknum ákvörðunum sameiginlegu EES- nefndarinnar og hins vegar að með þessari aðferð hefur skort á að Alþingi hafi verið gefinn kostur á að taka beina afstöðu til staðfestingar einstakra ákvarðana nefndarinnar. Í vissum tilvikum hafa ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar kveðið á um að bætt sé við EES- samninginn tiltekinni EB-gerð sem ekki öðlast gildi innan Evrópusambandsins fyrr en einhverjum missirum eða jafnvel árum seinna. Samkvæmt EES-samningnum er Ísland skuldbundið til að taka endanlega afstöðu til þess hvort slík gerð verði hluti samningsins innan sex mánaða frá töku ákvörðunarinnar í sameiginlegu EES-nefndinni en hefur sama svigrúm og önnur aðildarríki samningsins til að innleiða viðkomandi gerð í landsrétt. Fram að þessu hefði eina leiðin verið sú að setja lög til innleiðingar þessara gerða innan sex mánaða frestsins en þau lög hefðu þá að sjálfsögðu ekki þurft að taka gildi fyrr en á ætluðum gildistökudegi gerðarinnar. Þetta er mjög óheppileg leið þar sem við undirbúning slíkrar lagasetningar er oft og tíðum horft til fordæma erlendis frá en þar er að jafnaði ekki hugað að slíkri lagasetningu fyrr en nær dregur gildistöku viðkomandi gerðar. Að þessari leið slepptri er eina leiðin til að virða samningsskuldbindingar Íslands að leita sérstaks samþykkis Alþingis í formi þingsályktunar.
    Að öllu þessu virtu hefur almenn meðferð þeirra ákvarðana sameiginlegu EES-nefndarinnar þar sem Ísland hefur gert stjórnskipulegan fyrirvara verið færð til samræmis við meðferð þjóðréttarsamninga. Í því felst að almennt er leitað sérstaklega eftir samþykki Alþingis til staðfestingar sérhverri ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar sem stjórnskipulegur fyrirvari hefur verið gerður við. Slíks samþykkis er leitað í formi þingsályktunar en viðeigandi ráðuneyti munu samhliða undirbúa nauðsynleg frumvörp til lagabreytinga. Jafnframt hefur þeirri föstu vinnureglu verið komið á, með vísan til 24. gr. laga um þingsköp Alþingis, að haft verði samráð við utanríkismálanefnd um efni þessara ákvarðana meðan þær eru á undirbúningsstigi.

3. Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2001/42/EB frá 27. júní 2001, um mat á áhrifum tiltekinna skipulags- og framkvæmdaáætlana á umhverfið.
    Tilskipun Evrópusambandsins 2001/42/EB er ætlað að tryggja að umhverfisáhrif skipulags- og framkvæmdaáætlana séu metin áður en áætlanirnar hljóta endanlega afgreiðslu. Markmið tilskipunarinnar eru að vernda umhverfið og stuðla að sjálfbærri þróun með því að fram fari umhverfismat við gerð tiltekinna áætlana sem eru taldar líklegar til að hafa veruleg áhrif á umhverfið.
    Tilskipunin fjallar um hvaða áætlanir skuli háðar umhverfismati, hvaða sjónarmið skuli hafa til viðmiðunar við ákvörðun um umhverfismat áætlunar, um nauðsynlega þætti í málsmeðferð og nauðsynlega þætti í efnistökum umhverfismats. Umhverfismat samkvæmt tilskipuninni felur í sér gerð umhverfisskýrslu, kynningu hennar fyrir stofnunum og almenningi þar sem þeim er gefinn kostur á að gera athugasemdir, ákvörðun þar sem tekið er tillit til umhverfisskýrslunnar, athugasemda stofnana og almennings, svo og kynningu á ákvörðuninni.
    Tilskipunin tekur til skipulagsáætlana (e. plans) og framkvæmdaáætlana (e. programmes) sem fjalla um landbúnað, skógrækt, fiskeldi, orku, iðnað, samgöngur, förgun úrgangs, vatnsnýtingu, fjarskipti, ferðaþjónustu og landnotkunarskipulag og markar stefnu fyrir leyfisveitingar um framkvæmdir sem falla undir tilskipun um mat á umhverfisáhrifum framkvæmda 85/337/EB og 97/11/EB. Áætlanir þessar falla undir tilskipunina þegar þær eru unnar á vegum stjórnvalda, hvort heldur ríkis eða sveitarfélaga, eða eru undirbúnar af stjórnvöldum til samþykktar á löggjafarþingi og sem krafist er samkvæmt lögum eða stjórnvaldsfyrirmælum. Einnig geta einstakar þjóðir ákveðið að aðrar áætlanir en þær sem tilgreindar eru í tilskipuninni skuli háðar umhverfismati ef þær eru taldar geta valdið verulegum umhverfisáhrifum.
    Nokkur reynsla hefur fengist síðustu missiri af framkvæmd umhverfismats aðal- og svæðisskipulagstillagna á grundvelli skipulags- og byggingarlaga. Einstök verkefni við umhverfismat annarrar áætlanagerðar hér á landi síðustu ár hafa verið unnin, nú síðast í sambandi við gerð Rammaáætlunar um nýtingu vatnsafls og jarðvarma. Áætlanir sem falla undir ákvæði tilskipunarinnar, aðrar en skipulagsáætlanir, eru hér á landi fyrst og fremst samgönguáætlanir, áætlanir um orkuöflun og skógræktar- og landgræðsluáætlanir.
    Ákvæði tilskipunarinnar eru að hluta þegar uppfyllt hér á landi, þ.e. í ákvæðum skipulags- og byggingarlaga, nr. 73/1997, og skipulagsreglugerðar, nr. 400/1998, um umhverfismat skipulagstillagna. Tilskipunin gerir þó ítarlegri kröfur til umhverfismats áætlana en fram koma í skipulags- og byggingarlögum og skipulagsreglugerð. Önnur bein laga- eða reglugerðarfyrirmæli eru ekki hér á landi um umhverfismat áætlana. Umhverfisráðuneytið hefur óskað eftir tilnefningum annarra ráðuneyta og Sambands íslenskra sveitarfélaga í samstarfshóp um undirbúning að gerð umhverfismats annarra áætlana en skipulagsáætlana. Verkefni hópsins er í fyrstu að fara yfir hvaða áætlanir muni falla undir tilskipunina og hvaða ráðuneyti og stofnanir vinni þær. Þá er samstarfshópnum ætlað að gera tillögu um hvernig lögleiðingu og samhæfingu um gerð umhverfismats framkvæmdaáætlana verði háttað.
    Samkvæmt efni tilskipunarinnar er henni ætlað að koma til framkvæmda á Evrópska efnahagssvæðinu eigi síðar en 21. júlí 2004.



Fylgiskjal I.


ÁKVÖRÐUN SAMEIGINLEGU EES-NEFNDARINNAR nr. 90/2002

frá 25. júní 2002

um breytingu á XX. viðauka (Umhverfismál) við EES-samninginn


SAMEIGINLEGA EES-NEFNDIN HEFUR,

með hliðsjón af samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, eins og hann var aðlagaður með bókun um breytingu á samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, er nefnist hér á eftir samningurinn, einkum 98. gr.,

og að teknu tilliti til eftirfarandi:

1)        XX. viðauka við samninginn var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 62/2002 frá 31. maí 2002 ( 1 ).

2)         Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2001/42/EB frá 27. júní 2001 um mat á áhrifum tiltekinna skipulags- og framkvæmdaáætlana á umhverfið ( 2 ) skal felld inn í samninginn.

ÁKVEÐIÐ EFTIRFARANDI:

1. gr.

Eftirfarandi liður komi aftan við lið 2h (ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar 1999/391/EB) í XX. viðauka við samninginn:

„2i.         32001 L 0042: Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2001/42/EB frá 27. júní 2001 um mat á áhrifum tiltekinna skipulags- og framkvæmdaáætlana á umhverfið (Stjtíð. EB L 197, 21.7.2001, bls. 30).

            Ákvæði tilskipunarinnar skulu, að því er þennan samning varðar, aðlöguð sem hér segir:

            a)    b-liður 2. mgr. 3. gr. tilskipunarinnar gildir ekki.

            b)    Orðin „svo sem svæði sem eru tilgreind samkvæmt tilskipunum 79/409/EBE og 92/43/EBE“ skulu felld brott úr d-lið I. viðauka (upplýsingar sem um getur í 1. mgr. 5. gr.) við tilskipunina.“

2. gr.

Texti ákvörðunar 2001/42/EB á íslensku og norsku, sem verður birtur í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópubandalaganna, telst fullgiltur.

3. gr.

Ákvörðun þessi öðlast gildi hinn 26. júní 2002, að því tilskildu að allar tilkynningar samkvæmt 1. mgr. 103. gr. samningsins hafi verið sendar sameiginlegu EES-nefndinni ( * ).

4. gr.

Ákvörðun þessi skal birt í EES-deild og EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópubandalaganna.

Gjört í Brussel 25. júní 2002.


     Fyrir hönd sameiginlegu EES-nefndarinnar
    Formaður

    P. Westerlund


    Ritarar
    sameiginlegu EES-nefndarinnar

    P.K. Mannes     M. Brinkmann




Fylgiskjal II.


TILSKIPUN EVRÓPUÞINGSINS OG RÁÐSINS 2001/42/EB

frá 27. júní 2001

um mat á áhrifum tiltekinna skipulags- og framkvæmdaáætlana á umhverfið


EVRÓPUÞINGIÐ OG RÁÐ EVRÓPUSAMBANDSINS HAFA,

með hliðsjón af stofnsáttmála Evrópubandalagsins, einkum 1. mgr. 175. gr.,

með hliðsjón af tillögu framkvæmdastjórnarinnar ( 1 ),

með hliðsjón af áliti efnahags- og félagsmálanefndarinnar ( 2 ),

með hliðsjón af áliti svæðanefndarinnar ( 3 ),

í samræmi við málsmeðferðina sem mælt er fyrir um í 251. gr. sáttmálans ( 4 ), á grundvelli sameiginlegs texta sem sáttanefndin samþykkti 21. mars 2001,

og að teknu tilliti til eftirfarandi:

     1)      Í 174. gr. sáttmálans er kveðið á um að með umhverfisstefnu bandalagsins skuli m.a. stuðla að varðveislu, vernd og umbótum á gæðum umhverfisins, heilsuvernd manna og að nýta náttúruauðlindir af varúð og skynsemi og að hún byggist á varúðarreglunni. Í 6. gr. sáttmálans er kveðið á um að fella beri umhverfisverndarkröfur inn í skilgreininguna á stefnu og starfsemi bandalagsins, einkum með tilliti til þess að stuðla að sjálfbærri þróun.

     2)      Í fimmtu aðgerðaáætluninni á sviði umhverfismála: „Fram til sjálfbæris – stefna og framkvæmdaáætlun bandalagsins um umhverfi og sjálfbæra þróun“ ( 5 ), að viðbættri tilskipun ráðsins nr. 2179/98/EB ( 6 ) um endurskoðun hennar, er lögð áhersla á mikilvægi þess að meta umhverfisáhrif sem líklegt er að verði af völdum skipulags- og framkvæmdaáætlana.

     3)      Í samningnum um líffræðilega fjölbreytni er kveðið á um að aðilarnir skuli, eftir því sem unnt er og við á, fella vernd og sjálfbæra notkun á fjölbreytni lífríkisins inn í viðeigandi skipulags- og framkvæmdaáætlanir í atvinnugreinum eða á sviðum sem liggja þvert á atvinnugreinar.

     4)      Umhverfismat er mikilvægt tæki til að fella umhverfissjónarmið inn í undirbúning og samþykkt á tilteknum skipulags- og framkvæmdaáætlunum, sem líklegt er að hafi veruleg áhrif á umhverfið í aðildarríkjunum, vegna þess að það tryggir að tekið sé tillit til þeirra áhrifa, sem koma fram við framkvæmd skipulags- og framkvæmdaáætlana, við undirbúning þeirra og áður en þær eru samþykktar.

     5)      Málsmeðferð, sem samþykkt er um umhverfismat við gerð skipulags- og framkvæmdaáætlana, skal vera til hagræðis fyrir fyrirtæki þar eð þau fá samræmdari starfsramma þar sem þau geta nýtt sér viðkomandi umhverfisupplýsingar við ákvarðanatöku. Þegar yfirgripsmeiri þættir eru fyrir hendi við ákvarðanatöku stuðlar það að sjálfbærari og skilvirkari lausnum.

     6)      Í mismunandi kerfum fyrir umhverfismat, sem notuð eru í aðildarríkjunum, skal gera almennar kröfur um málsmeðferð sem eru nauðsynlegar til að stuðla að víðtækri vernd fyrir umhverfið.

     7)      Í samningi efnahagsnefndar Sameinuðu þjóðanna fyrir Evrópu um mat á umhverfisáhrifum yfir landamæri frá 25. febrúar 1991, sem gildir bæði um aðildarríki og önnur ríki, eru aðilar að samningnum hvattir til þess að nota einnig meginreglur hans í skipulags- og framkvæmdaáætlunum. Á öðrum fundi aðila að samningnum í Sofíu, 26. og 27. febrúar 2001, var ákveðið að semja bindandi bókun um skipulagt umhverfismat sem kæmi til viðbótar við fyrirliggjandi ákvæði um mat á umhverfisáhrifum yfir landamæri, með hugsanlega samþykkt í huga á fimmtu ráðherrastefnunni „Umhverfi fyrir Evrópu“ á aukafundi aðila ráðstefnunnar sem ráðgert er að halda í maí 2003 í Kíev í Úkraínu. Kerfin, sem eru notuð í bandalaginu við umhverfismat á skipulags- og framkvæmdaáætlunum, skulu tryggja að nægilegt samráð sé haft milli landa þar sem líklegt er að framkvæmd þeirra áætlana, sem er í undirbúningi í einu aðildarríki, hafi veruleg áhrif á umhverfið í öðru aðildarríki. Upplýsingar um skipulags- og framkvæmdaáætlanir, sem hafa veruleg áhrif á umhverfið í öðrum ríkjum, skal framsenda á grundvelli gagnkvæmni og jafnræðis innan viðeigandi lagaramma milli aðildarríkja og viðkomandi ríkja.

     8)      Aðgerðar er því þörf á vettvangi bandalagsins til að setja lágmarksramma utan um umhverfismat þar sem í grófum dráttum koma fram meginreglur kerfisins fyrir umhverfismat en aðildarríki sjá um formsatriðin, sbr. dreifræðisregluna. Bandalagsaðgerðir skulu ekki ganga lengra en þörf krefur til að ná markmiðum sáttmálans.

     9)      Tilskipunin er um málsmeðferð og skulu kröfur í henni annaðhvort vera felldar inn í þá málsmeðferð, sem fyrir er í aðildarríkjum, eða teknar upp í málsmeðferð sem sérstaklega er komið á. Með það í huga að komast hjá endurtekningu á matinu skulu aðildarríkin taka til greina, þar sem við á, að matið mun fara fram á mismunandi stigum í stigskiptri áætlun fyrir skipulags- og framkvæmdaáætlanir.

     10)      Allar skipulags- og framkvæmdaáætlanir sem eru undirbúnar fyrir nokkur svið og eru stefnumarkandi að því er varðar veitingu leyfa fyrir framkvæmd verkefna sem talin eru upp í I. og II. viðauka tilskipunar ráðsins 85/337/EBE frá 27. júní 1985 um mat á áhrifum sem tilteknar framkvæmdir á vegum hins opinbera eða einkaaðila kunna að hafa á umhverfið ( 1 ), og allar skipulags- og framkvæmdaáætlanir, sem ákvörðun hefur verið tekin um að þurfi að meta, samkvæmt tilskipun ráðsins 92/43/EBE frá 21. maí 1992 um verndun náttúrulegra heimkynna og villtra plantna og dýra ( 2 ), og líklegt er að hafi veruleg umhverfisáhrif, skulu almennt háð kerfisbundnu umhverfismati. Þegar í þeim er ákveðið hvernig lítil landsvæði skulu nýtt á staðarvísu eða óverulegar breytingar gerðar á framangreindum skipulags- og framkvæmdaáætlunum skulu þær einungis metnar þegar aðildarríkin ákvarða að þær séu líklegar til að hafa veruleg áhrif á umhverfið.

     11)      Aðrar skipulags- og framkvæmdaáætlanir, sem eru stefnumarkandi að því er varðar veitingu leyfa fyrir framkvæmd verkefna, hafa ekki endilega í öllum tilvikum veruleg áhrif á umhverfið og skulu einungis metnar þegar aðildarríkin ákvarða að þær séu líklegar til að hafa slík áhrif.

     12)      Þegar aðildarríki taka slíkar ákvarðanir skulu þau taka tillit til viðeigandi viðmiðana sem settar eru fram í tilskipuninni.

     13)      Stundum falla skipulags- eða framkvæmdáætlanir ekki undir þessa tilskipun vegna sérkenna sinna.

     14)      Þar sem farið er fram á mat í tilskipuninni skal semja umhverfisskýrslu með viðeigandi upplýsingum, eins og mælt er fyrir um í tilskipuninni, þar sem sett er fram skilgreining, lýsing og mat á verulegum áhrifum sem líklegt er að umhverfið verði fyrir viðframkvæmd skipulags- eða framkvæmdaáætlunarinnar, ásamt öðrum eðlilegum valkostum þar sem tillit er tekið til markmiða og landfræðilegs umfangs skipulags- eða framkvæmdaáætlunarinnar. Aðildarríkin skulu tilkynna framkvæmdastjórninni um allar ráðstafanir sem þau gera og varða gæði umhverfisskýrslna.

     15)      Í því skyni að stuðla að gagnsærri ákvarðanatöku og tryggja að upplýsingarnar, sem fengnar eru fyrir matið, séu tæmandi og traustar er nauðsynlegt að kveða á um að samráð skuli haft við yfirvöld, sem viðkomandi umhverfismál heyra undir, og almenning við mat á skipulags- og framkvæmdaáætlunum, og að settur sé viðeigandi tímarammi þar sem gert er ráð fyrir nægum tíma til samráðs, þ.m.t. að gera athugasemdir.

     16)      Ef framkvæmd skipulags- eða framkvæmdaáætlunar, sem verið er að undirbúa í aðildarríki, er líkleg til að hafa veruleg áhrif á umhverfið í öðrum aðildarríkjum skal kveða á um að hlutaðeigandi aðildarríki skuli hafa með sér samráð og að viðkomandi yfirvöldum og almenningi sé gerð grein fyrir málinu og gert kleift að gera athugasemdir.

     17)      Taka skal tillit til umhverfisskýrslunnar og þeirra athugasemda sem viðkomandi yfirvöld og almenningur hafa gert, svo og niðurstaðna samráðs yfir landamæri, við undirbúning á skipulags- eða framkvæmdaáætlun, og áður en hún er samþykkt eða lögð fram til löggjafarmeðferðar.

     18)      Aðildarríki skulu tryggja, þegar skipulags- eða framkvæmdaáætlun er samþykkt, að viðkomandi yfirvöldum og almenningi sé tilkynnt það og veittur aðgangur að viðkomandi upplýsingum.

     19)      Þegar skylt er að mat á áhrifum á umhverfið fari fram bæði samkvæmt þessari tilskipun og annarri löggjöf bandalagsins, t.d. tilskipun ráðsins 79/409/EBE frá 2. apríl 1979 um verndun villtra fugla ( 1 ), tilskipun 92/43/EBE eða tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2000/60/EB frá 23. október 2000 um aðgerðaramma bandalagsins um stefnu í vatnsmálum ( 2 ), geta aðildarríki, til að komast hjá því að endurtaka matið, kveðið á um samræmda eða sameiginlega málsmeðferð til að uppfylla kröfur í viðkomandi löggjöf bandalagsins.

     20)      Framkvæmdastjórnin skal gera fyrstu skýrslu um beitingu þessar tilskipunar og reynsluna af henni fimm árum eftir að hún tekur gildi og á sjö ára fresti eftir það. Með tilliti til frekari samþættingar krafna um umhverfisvernd og fenginnar reynslu skulu, ef við á, fylgja tillögur að breytingu á þessari tilskipun með fyrstu skýrslunni, einkum að því er varðar möguleikann á að rýmka gildissvið hennar þannig að hún taki til annarra svæða/þátta og annarra tegunda af skipulags- og framkvæmdaáætlunum.

SAMÞYKKT TILSKIPUN ÞESSA:

1. gr.

Markmið

Markmiðið með þessari tilskipun er að veita víðtæka umhverfisvernd og stuðla að því að umhverfissjónarmið séu felld inn í undirbúning og samþykkt á skipulags- og framkvæmdaáætlunum í því skyni að stuðla að sjálfbærri þróun með því að tryggja, í samræmi við þessa tilskipun, að umhverfismat fari fram á tilteknum skipulags- og framkvæmdaáætlunum sem líklegt er að hafi veruleg áhrif á umhverfið.

2. gr.

Skilgreiningar

Í þessari tilskipun er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:

a)      „skipulags- og framkvæmdaáætlanir“: skipulags- og framkvæmdaáætlanir, þ.m.t. þær sem Evrópubandalagið tekur þátt í að fjármagna, ásamt öllum breytingum á þeim:

    —    sem eru háðar undirbúningi og/eða samþykki lands-, svæðis- eða staðaryfirvalds eða sem yfirvald undirbýr til samþykktar með löggjafarmeðferð á þingi eða í ríkisstjórn, og

    —    sem krafist er með laga- eða stjórnsýsluákvæðum;

b)      „umhverfismat“: umhverfismat felst í því að semja umhverfisskýrslu, hafa samráð, taka tillit til umhverfisskýrslunnar og niðurstaðna samráðs þegar kemur að ákvarðanatöku og að veita upplýsingar um ákvörðunina í samræmi við 4. til 9. gr.;

c)      „umhverfisskýrsla“: umhverfisskýrsla er sá hluti gagna, er varða skipulags- eða framkvæmdaáætlunina, sem inniheldur upplýsingarnar sem krafist er í 5. gr. og I. viðauka;

d)      „almenningur“: almenningur er einn eða fleiri einstaklingar eða lögaðilar og, í samræmi við innlend lög eða venju, samtök þeirra, félög eða hópar.

3. gr.

Gildissvið

1.     Gera skal umhverfismat, í samræmi við 4. til 9. gr., fyrir skipulags- og framkvæmdaáætlanir sem um getur í 2. til 4. mgr. og líklegt er að hafi veruleg áhrif á umhverfið.

2.     Með fyrirvara um 3. mgr. skal fara fram umhverfismat fyrir allar skipulags- og framkvæmdaáætlanir,

a)      sem eru gerðar fyrir landbúnað, skógrækt, fiskveiðar, orkumál, iðnað, samgöngur, meðhöndlun úrgangs, vatnsstjórnun, fjarskipti, ferðaþjónustu, skipulag bæja og landssvæða eða landnýtingu, og eru stefnumarkandi að því er varðar veitingu leyfa fyrir framkvæmd verkefna sem talin eru upp í I. og II. viðauka við tilskipun 85/337/EBE, eða

b)      sem ákveðið hefur verið að þarfnist mats skv. 6. eða 7. gr. tilskipunar 92/43/EBE með tilliti til líklegra áhrifa á tilteknum stöðum.

3.     Skipulags- og framkvæmdaáætlanir, sem um getur í 2. mgr., þar sem ákveðið er hvernig lítil landsvæði skulu nýtt á staðarvísu og óverulegar breytingar á skipulags- og framkvæmdaáætlunum, sem um getur í 2. mgr., þurfa einungis að fara í umhverfismat þegar aðildarríkin ákvarða að þær séu líklegar til að hafa veruleg áhrif á umhverfið.

4.     Aðildarríki skulu ákvarða hvort skipulags- og framkvæmdaáætlanir, aðrar en þær sem um getur í 2. mgr., sem eru stefnumarkandi að því er varðar veitingu leyfa fyrir framkvæmd verkefna, séu líklegar til að hafa veruleg áhrif á umhverfið.

5.     Aðildarríki skulu ákvarða hvort skipulags- eða framkvæmdaáætlanir, sem um getur í 3. og 4. mgr., séu líklegar til að hafa veruleg áhrif á umhverfið með því að skoða hvert tilvik um sig, tilgreina tegundir skipulags- og framkvæmdaáætlana eða með því að sameina þessar aðferðir. Í þessum tilgangi skulu aðildarríkin í öllum tilvikum taka tillit til viðeigandi viðmiðana, sem settar eru fram í II. viðauka, í því skyni að tryggja að tilskipunin taki til skipulags- og framkvæmdaáætlana sem líkur eru á að hafi veruleg áhrif á umhverfið.

6.     Þegar skoðað er hvert tilvik um sig og tegundir skipulags- og framkvæmdaáætlana eru tilgreindar í samræmi við 5. mgr. skal haft samráð við yfirvöld sem um getur í 3. mgr. 6. gr.

7.     Aðildarríki skulu tryggja að almenningur fái aðgang að niðurstöðum þeirra skv. 5. mgr., þ.m.t. ástæður þess að ekki sé þörf á umhverfismati skv. 4. til 9. gr.

8.     Eftirfarandi skipulags- og framkvæmdaáætlanir falla ekki undir þessa tilskipun:

—    skipulags- og framkvæmdaáætlanir sem eru gerðar í þeim eina tilgangi að þjóna landvörnum eða almannavörnum,

—    fjárhags- eða fjárlagaáætlanir.

9.     Þessi tilskipun gildir ekki um skipulags- og framkvæmdaáætlanir sem eru fjármagnaðar sameiginlega á þeim áætlunartímabilum ( 1 ) sem eiga við reglugerðir ráðsins (EB) nr. 1260/1999 ( 2 ) og (EB) nr. 1257/1999 ( 3 ).

4. gr.

Almennar skyldur

1.     Umhverfismatið, sem um getur í 3. gr., skal fara fram þegar verið er að undirbúa skipulags- eða framkvæmdaáætlun og áður en áætlunin er samþykkt eða lögð fram til löggjafarmeðferðar.

2.     Kröfurnar í þessari tilskipun skulu annaðhvort felldar inn í málsmeðferð sem er fyrir hendi í aðildarríkjunum til samþykktar á skipulags- og framkvæmdaáætlunum eða teknar upp í nýja málsmeðferð sem komið er á til að fara að þessari tilskipun.

3.     Þegar skipulags- og framkvæmdaáætlanir eru hluti af stigskiptri áætlun skulu aðildarríkin, í því skyni að komast hjá endurtekningu á umhverfismati, taka tillit til þess að umhverfismatið mun fara fram, í samræmi við þessa tilskipun, á mismunandi stigum í stigskiptu áætluninni. Aðildarríkin skulu beita 2. og 3. mgr. 5. gr. til þess m.a. að komast hjá því að endurtaka matið.

5. gr.

Umhverfisskýrsla

1.     Þar sem umhverfismats er krafist, skv. 1. mgr. 3. gr., skal semja umhverfisskýrslu þar sem sett er fram skilgreining, lýsing og mat á verulegum áhrifum sem líklegt er að umhverfið verði fyrir við framkvæmd skipulags- eða framkvæmdaáætlunarinnar, ásamt eðlilegum valkostum þar sem tekið er tillit til markmiða og landfræðilegs umfangs skipulags- eða framkvæmdaáætlunarinnar. Í I. viðauka er getið þeirra upplýsinga sem skal veita í þessum tilgangi.

2.     Í umhverfisskýrslunni, sem er samin skv. 1. mgr., skulu koma fram upplýsingar, sem sanngjarnt telst að krefjast í ljósi nútímaþekkingar og nýjustu matsaðferða, efni og nákvæmni skipulags- eða framkvæmdaáætlunar, á hvaða stigi hún er í ákvarðanatökuferlinu og að hvaða marki heppilegra er að meta tiltekin mál á mismunandi stigum í því ferli til þess að komast hjá því að endurtaka matið.

3.     Nota má viðeigandi, tiltækar upplýsingar um umhverfisáhrif skipulags- og framkvæmdaáætlana, sem fengnar eru á öðrum stigum ákvarðana eða með annarri löggjöf bandalagsins, til að láta í té upplýsingarnar sem um getur í I. viðauka.

4.     Samráð skal haft við yfirvöld, sem um getur í 3. mgr. 6. gr., þegar tekin er ákvörðun um umfang og nákvæmni upplýsinganna sem eiga að koma fram í umhverfisskýrslunni.

6. gr.

Samráð

1.     Yfirvöld, sem um getur í 3. mgr. þessarar greinar, og almenningur skulu hafa aðgang að drögum að skipulags- eða framkvæmdaáætlun og umhverfisskýrslunni sem gerð er í samræmi við 5. gr.

2.     Yfirvöldum, sem um getur í 3. mgr., og almenningi, sem um getur í 4. mgr., skal gefinn raunhæfur möguleiki snemma í ferlinu og innan viðeigandi tímaramma til að gera athugasemdir við drögum að skipulags- eða framkvæmdaáætluninni og meðfylgjandi umhverfisskýrslu áður en áætlunin er samþykkt eða lögð fram til löggjafarmeðferðar.

3.     Aðildarríki skulu tilgreina yfirvöld, sem samráð skal haft við og líklegt er að láti sig varða umhverfisáhrif, vegna framkvæmdar skipulags- og framkvæmdaáætlana sökum þess að umhverfismál heyra sérstaklega undir þau.

4.     Aðildarríki skulu skilgreina almenning, að því er varðar 2. mgr., þ.m.t. almenning sem verður fyrir áhrifum af eða líklegt er að verði fyrir áhrifum af ákvarðanatökunni, sem fellur undir þessa tilskipun, eða á hagsmuna að gæta, þ.m.t. viðkomandi frjáls félagasamtök, á borð við þau sem stuðla að umhverfisvernd, og önnur hlutaðeigandi samtök.

5.     Aðildarríkin skulu ákvarða nákvæma tilhögun á miðlun upplýsinga og samráði milli yfirvalda og almennings.

7. gr.

Samráð yfir landamæri

1.     Ef aðildarríki telur að líklegt sé að framkvæmd skipulags- eða framkvæmdaáætlunar, sem er í undirbúningi í tengslum við yfirráðasvæði þess, hafi veruleg áhrif á umhverfið í öðru aðildarríki eða ef aðildarríki, sem líklegt er að verði fyrir verulegum áhrifum, fer fram á það skal aðildarríkið, sem ræður því yfirráðasvæði þar sem skipulags- eða framkvæmdaáætlunin er í undirbúningi, senda afrit af drögum að áætluninni og viðkomandi umhverfisskýrslu til hins aðildarríkisins áður en það samþykkir áætlunina eða leggur fram til löggjafarmeðferðar.

2.     Þegar aðildarríki er sent afrit af drögum að skipulags- eða framkvæmdaáætlun og umhverfisskýrslu skv. 1. mgr. skal það tilkynna hinu aðildarríkinu hvort það óskar eftir samráði áður en skipulags- eða framkvæmdaáætlunin er samþykkt eða lögð fram til löggjafarmeðferðar og, ef það óskar þess, skulu hlutaðeigandi aðildarríki hafa með sér samráð um líkleg umhverfisáhrif yfir landamæri sem verða við framkvæmd áætlunarinnar og þær ráðstafanir sem fyrirhugaðar eru til að draga úr eða koma í veg fyrir slík áhrif.

Þegar slíkt samráð á sér stað skulu hlutaðeigandi aðildarríki samþykkja nákvæma tilhögun til að tryggja að yfirvöldum, sem um getur í 3. mgr. 6. gr., og almenningi, sem um getur í 4. mgr. 6. gr., í því aðildarríki, sem líkur eru á að verði fyrir verulegum áhrifum, sé tilkynnt það og hafi tækifæri til að senda inn athugasemdir innan hæfilegs tímaramma.

3.     Þegar þess er krafist, samkvæmt þessari grein, að aðildarríki hafi með sér samráð skulu þau, við upphaf slíks samráðs, vera sammála um hæfilega lengd samráðsins.

8. gr.

Ákvarðanataka

Taka skal tillit til umhverfisskýrslunnar, sem samin er skv. 5. gr., þeirra athugasemda, sem eru lagðar fram skv. 6. gr., og niðurstaðna úr samráði yfir landamæri, sem hafið er skv. 7. gr., við undirbúning á skipulags- eða framkvæmdaáætlun og áður en áætlunin er samþykkt eða lögð fram til löggjafarmeðferðar.

9. gr.

Upplýsingar um ákvörðunina

1.     Þegar skipulags- eða framkvæmdaáætlun er samþykkt skulu aðildarríki tryggja að yfirvöldum, sem um getur í 3. mgr. 6. gr., almenningi og aðildarríkjum, sem samráð er haft við skv. 7. gr., sé tilkynnt um það og að þeir sem fá tilkynninguna hafi aðgang að eftirfarandi atriðum:

a)      samþykktri skipulags- eða framkvæmdaáætlun,

b)      samantekt um hvernig umhverfissjónarmið hafa verið felld inn í skipulags- eða framkvæmdaáætlunina og hvernig umhverfisskýrslan, sem samin er skv. 5. gr., athugasemdirnar, sem eru lagðar fram skv. 6. gr., og niðurstöður samráðs, sem hafið er skv. 7. gr., hafa verið tekin til greina í samræmi við 8. gr. og ástæður þess að skipulags- eða framkvæmdaáætlunin var samþykkt í ljósi annarra eðlilegra valkosta sem fjallað var um, og

c)      ráðstöfunum sem eru ákvarðaðar um vöktun í samræmi við 10. gr.

2.     Aðildarríkin skulu ákvarða nákvæma tilhögun varðandi upplýsingarnar sem um getur í 1. mgr.

10. gr.

Vöktun

1.     Aðildarríki skulu vakta veruleg áhrif á umhverfið við framkvæmd skipulags- og framkvæmdaáætlana til þess m.a. að greina tímanlega ófyrirséð, skaðleg áhrif og eiga þess kost að geta gripið til viðeigandi aðgerða til úrbóta.

2.     Til þess að farið sé að 1. mgr. er hægt að nota fyrirliggjandi vöktunarfyrirkomulag, ef við á, til þess að komast hjá tvíverknaði við vöktun.

11. gr.

Tengsl við aðra löggjöf bandalagsins

1.     Umhverfismat, sem fer fram samkvæmt tilskipun þessari, skal sett fram með fyrirvara um kröfur samkvæmt tilskipun 85/337/EBE og aðrar kröfur sem kveðið er á um í lögum bandalagsins.

2. Ef skylt er að mat á áhrifum skipulag- og framkvæmdaáætlana á umhverfið fari fram bæði samkvæmt þessari tilskipun og annarri löggjöf bandalagsins geta aðildarríki kveðið á um samræmda eða sameiginlega málsmeðferð til að uppfylla kröfur í viðkomandi löggjöf bandalagsins til þess m.a. að komast hjá því að endurtaka matið.

3.     Samkvæmt þessari tilskipun skal umhverfismat fara fram í samræmi við sérákvæðin í viðkomandi löggjöf bandalagsins fyrir skipulags- og framkvæmdaáætlanir sem Evrópubandalagið tekur þátt í að fjármagna.

12. gr.

Upplýsingar, skýrslur og endurskoðun

1.     Aðildarríki og framkvæmdastjórnin skulu skiptast á upplýsingum um reynslu sína af beitingu þessarar tilskipunar.

2.     Aðildarríki skulu tryggja að gæði umhverfisskýrslna séu nægileg til uppfylla kröfur í þessari tilskipun og skulu greina framkvæmdastjórninni frá ráðstöfunum sem þau gera varðandi gæði þessara skýrslna.

3.     Framkvæmdastjórnin skal senda fyrstu skýrsluna um beitingu þessarar tilskipunar og reynsluna af henni fyrir 21. júlí 2006 til Evrópuþingsins og ráðsins.

Með það í huga að samþætta enn frekar kröfur um umhverfisvernd, í samræmi við 6. gr. sáttmálans, og með tilliti til þeirrar reynslu, sem hefur fengist við beitingu þessarar tilskipunar í aðildarríkjunum, munu fylgja slíkri skýrslu tillögur að breytingum á þessari tilskipun ef við á. Framkvæmdastjórnin mun einkum huga að möguleikanum á að rýmka gildissvið þessarar tilskipunar þannig að hún taki til annarra svæða/þátta og annarra tegunda af skipulags- og framkvæmdaáætlunum.

Ný matsskýrsla skal koma í kjölfarið á sjö ára fresti.

4.     Framkvæmdastjórnin skal gefa skýrslu um tengslin milli þessarar tilskipunar og reglugerðar (EB) nr. 1260/1999 og (EB) nr. 1257/1999 nokkru áður en áætlunartímabilunum, sem kveðið er á um í þessum reglugerðum, lýkur til þess að tryggja að tilskipuninni og reglugerðum bandalagsins, sem á eftir koma, verði beitt með samfelldum hætti.

13. gr.

Framkvæmd tilskipunarinnar

1.     Aðildarríkin skulu samþykkja nauðsynleg lög og stjórnsýslufyrirmæli til að fara að tilskipun þessari fyrir 21. júlí 2004. Þau skulu tilkynna það framkvæmdastjórninni þegar í stað.

2.     Þegar aðildarríkin samþykkja þessar ráðstafanir skal vera í þeim tilvísun í þessa tilskipun eða þeim fylgja slík tilvísun þegar þær eru birtar opinberlega. Aðildarríkin skulu setja nánari reglur um slíka tilvísun.

3.     Sú kvöð, sem um getur í 1. mgr. 4. gr., gildir aðeins um skipulags- og framkvæmdaáætlanir sem fyrst var farið að undirbúa formlega eftir þann dag sem um getur í 1. mgr. Ef fyrst var farið að undirbúa skipulags- og framkvæmdaáætlanir formlega fyrir þann dag og þau voru síðan samþykkt eða lögð fram til löggjafarmeðferðar eftir að 24 mánuðir eru liðnir skulu þau falla undir þá kvöð sem um getur í 1. mgr., nema aðildarríkin taki ákvörðun um, á grundvelli hvers einstaks tilviks, að það sé ekki gerlegt og tilkynni almenningi ákvörðun sína.

4.     Fyrir 21. júlí 2004 skulu aðildarríki senda framkvæmdastjórninni aðgreindar upplýsingar um tegundir skipulags- og framkvæmdaáætlana, sem verða, í samræmi við 3. gr., háð umhverfismati samkvæmt þessari tilskipun auk upplýsinga um ráðstafanirnar sem um getur í 1. gr. Framkvæmdastjórnin skal veita aðildarríkjunum aðgang að þessum upplýsingum. Upplýsingarnar skulu uppfærðar reglulega.

14. gr.

Gildistaka

Tilskipun þessi öðlast gildi á þeim degi sem hún birtist í Stjórnartíðindum Evrópubandalaganna.

15. gr.

Viðtakendur

Tilskipun þessari er beint til aðildarríkjanna.

Gjört í Lúxemborg 27. júní 2001.

Fyrir hönd Evrópuþingsins,

N. FONTAINE
forseti.
Fyrir hönd ráðsins,

B. ROSENGREN
forseti.



I. VIÐAUKI

Upplýsingar sem um getur í 1. mgr. 5. gr.

Upplýsingarnar, sem skylt er að leggja fram skv. 1. mgr. 5. gr., sbr. þó 2. og 3. mgr. 5. gr., eru eftirfarandi:

a)      yfirlit yfir efni og aðalmarkmiðin með skipulags- eða framkvæmdaáætluninni og tengsl við aðrar viðkomandi skipulags- og framkvæmdaáætlanir;

b)      viðkomandi þættir núverandi ástands umhverfisins og líkleg þróun þess ef skipulags- eða framkvæmdaáætlun verður ekki hrint í framkvæmd;

c)      umhverfiseiginleikar svæða sem líklegt er að verði fyrir verulegum áhrifum;

d)      öll umhverfisvandamál, sem hafa komið upp og eiga við skipulags- eða framkvæmdaáætlunina, einkum þau sem eiga við svæði sem eru sérstaklega mikilvæg í umhverfislegu tilliti, t.d. svæði sem eru tiltekin samkvæmt tilskipunum 79/409/EBE og 92/43/EBE;

e)      umhverfisverndarmarkmið, sem eru fastsett á alþjóðlegum vettvangi, í bandalaginu eða aðildarríki og eiga við skipulags- eða framkvæmdaáætlunina, og hvernig tillit hefur verið tekið til þessara markmiða og allra umhverfissjónarmiða við undirbúninginn;

f)      veruleg áhrif sem líklegt er að umhverfið verði fyrir ( 1 ), þ.m.t. líffræðileg fjölbreytni, íbúar, heilsufar manna, dýraríki, plönturíki, jarðvegur, vatn, loft, veðurfarslegir þættir, eignir, menningararfleifð, einnig byggingarsögulegar og fornleifafræðilegar minjar, landslag og hvernig samspili fyrrgreindra þátta er háttað;

g)      fyrirhugaðar ráðstafanir til að koma í veg fyrir, draga úr og vega, eins vel og kostur er, á móti alvarlegri umhverfisröskun við framkvæmd skipulags- eða framkvæmdaáætlunarinnar;

h)      yfirlit yfir ástæður þess að kostirnir, sem um er að ræða, voru valdir og lýsing á því hvernig matið fór fram, þ.m.t. allir erfiðleikar (t.d. tæknilegir annmarkar eða skortur á verkkunnáttu) sem staðið var frammi fyrir við söfnun upplýsinganna sem krafist er;

i)      lýsing á fyrirhuguðum ráðstöfunum varðandi vöktun í samræmi við 10. gr.;

j)      almennt yfirlit um upplýsingarnar sem eru veittar um framantalin atriði.

II. VIÐAUKI

Viðmiðanir við ákvörðun á líklegum áhrifum sem um getur í 5. mgr. 3. gr.

1.     Athuga þarf sérkenni skipulags- og framkvæmdaáætlana, einkum með tilliti til þess:

    —    að hve miklu leyti skipulags- eða framkvæmdaáætlunin setur ramma utan um verkefni og aðra starfsemi, annaðhvort með tilliti til staðsetningar, eðlis, stærðar og rekstrarskilyrða eða ráðstöfunar á fjármagni,

    —    að hve miklu leyti skipulags- eða framkvæmdaáætlunin hefur áhrif á aðrar skipulags- og framkvæmdaáætlanir, þ.m.t. þær sem eru stigskiptar,

    —    mikilvægi skipulags- eða framkvæmdaáætlunarinnar við samþættingu umhverfissjónarmiða, einkum að því er varðar að stuðla að sjálfbærri þróun,

    —    umhverfisvandamál viðkomandi skipulags- eða framkvæmdaáætlunum,

    —    mikilvægi skipulags- eða framkvæmdaáætlunarinnar við beitingu bandalagslöggjafar á umhverfið (t.d. skipulags- og framkvæmdaáætlanir sem tengjast meðhöndlun úrgangs eða verndun vatns).

2.     Athuga þarf eðli áhrifanna og eiginleika svæðisins sem líklegt er að verði fyrir áhrifum, einkum að því er varðar:

    —    líkur á áhrifum, hve lengi þau vara, tíðni þeirra og hvort þau gangi til baka,

    —    hvort áhrifin safnist upp,

    —    hvort áhrifin nái yfir landamæri,

    —    áhættuna fyrir heilbrigði manna eða umhverfið (t.d. vegna slysa),

    —    vægi og umfang áhrifanna (landsvæði og fólksfjölda sem líklegt er að verði fyrir áhrifum),

    —    gildi svæðisins, sem líklegt er að verði fyrir áhrifum, og hversu viðkvæmt það er vegna:

            —    sérstakra náttúrueiginleika eða menningararfs,

            —    strangari gæðastaðla fyrir umhverfið eða strangari viðmiðunarmörk,

            —    þéttbærni landnýtingar,

    —    áhrif á svæði eða landslag sem viðurkennt er í viðkomandi landi, í bandalaginu eða á alþjóðavettvangi að njóti verndar.
Neðanmálsgrein: 1
(1)    Stjtíð. EB L 156, 23.6.1999, bls. 37 og EES viðbætir við Stjtíð. EB nr. 44, 5.9.2002 bls. 18.
Neðanmálsgrein: 2
(2)    Stjtíð. EB L 197, 21.7.2001, bls. 30.
Neðanmálsgrein: 3
(*)    Stjórnskipuleg skilyrði gefin til kynna.
Neðanmálsgrein: 4
(1)    Stjtíð. EB C 129, 25.4.1997, bls. 14 og Stjtíð. EB C 83, 25.3.1999, bls. 13.
Neðanmálsgrein: 5
(2)    Stjtíð. EB C 287, 22.9.1997, bls. 101.
Neðanmálsgrein: 6
(3)    Stjtíð. EB C 64, 27.2.1998, bls. 63 og Stjtíð. EB C 374, 23.12.1999, bls. 9.
Neðanmálsgrein: 7
(4)    Álit Evrópuþingsins frá 20. október 1998 (Stjtíð. EB C 341, 9.11.1998, bls. 18), staðfest 16. september 1999 (Stjtíð. EB C 54, 25.2.2000, bls. 76), sameiginleg afstaða ráðsins frá 30. mars 2000 (Stjtíð. EB C 137, 16.5.2000, bls. 11) og ákvörðun Evrópuþingsins frá 6. september 2000 (Stjtíð. EB C 135, 7.5.2001, bls. 155). Ákvörðun Evrópuþingsins frá 31. maí 2001 og ákvörðun ráðsins frá 5. júní 2001.
Neðanmálsgrein: 8
(5)    Stjtíð. EB C 138, 17.5.1993, bls. 5.
Neðanmálsgrein: 9
(6)    Stjtíð. EB L 275, 10.10.1998, bls. 1.
Neðanmálsgrein: 10
(1)    Stjtíð. EB L 175, 5.7.1985, bls. 40. Tilskipuninni var breytt með tilskipun 97/11/EB (Stjtíð. EB L 73, 14.3.1997, bls. 5).
Neðanmálsgrein: 11
(2)    Stjtíð. EB L 206, 22.7.1992, bls. 7. Tilskipuninni var síðast breytt með tilskipun 97/62/EB (Stjtíð. EB L 305, 8.11.1997, bls. 42).
Neðanmálsgrein: 12
(1)    Stjtíð. EB L 103, 25.4.1979, bls. 1. Tilskipuninni var síðast breytt með tilskipun 97/49/EB (Stjtíð. EB L 223, 13.8.1997, bls. 9).
Neðanmálsgrein: 13
(2)    Stjtíð. EB L 327, 22.12.2000, bls. 1.
Neðanmálsgrein: 14
(1)    Áætlunartímabil 2000–2006 fyrir reglugerð ráðsins (EB) nr. 1260/1999 og áætlunartímabil 2000–2006 og 2000–2007 fyrir reglugerð ráðsins (EB) nr. 1257/1999.
Neðanmálsgrein: 15
(2)    Reglugerð ráðsins (EB) nr. 1260/1999 frá 21. júní 1999 um almenn ákvæði um þróunarsjóð (Stjtíð. EB L 161, 26.6.1999, bls. 1).
Neðanmálsgrein: 16
(3)    Reglugerð ráðsins (EB) nr. 1257/1999 frá 17. maí 1999 um stuðning þróunar- og ábyrgðarsjóðs evrópsks landbúnaðar við byggðaþróun í dreifbýli og um breytingu og niðurfellingu tiltekinna reglugerða (Stjtíð. EB L 160, 26.6.1999, bls. 80).
Neðanmálsgrein: 17
(1)    Þessi áhrif fela í sér annars stigs áhrif, samlagningaráhrif, samvirkniáhrif, skammtíma-, meðaltíma- og langtímaáhrif, varanleg og tímabundin, jákvæð og neikvæð áhrif.