Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 394. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 626  —  394. mál.




Nefndarálit



um till. til þál. um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 88/2002, um breytingu á XV. viðauka (Ríkisaðstoð) við EES-samninginn.

Frá utanríkismálanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Nikulás Hannigan frá utanríkisráðuneyti og Ingva Má Pálsson frá fjármálaráðuneyti.
    Með tillögunni er leitað heimildar Alþingis til staðfestingar á ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 88/2002 frá 25. júní 2002, um breytingu á XV. viðauka (Ríkisaðstoð) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og til að fella inn í samninginn reglugerðir framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 68/2001 frá 12. janúar 2001, um beitingu 87. og 88. gr. EB- sáttmálans gagnvart aðstoð til menntunar, (EB) nr. 69/2001 frá 12. janúar 2001, um beitingu 87. og 88. gr. EB-sáttmálans gagnvart lágmarksaðstoð, og (EB) nr. 70/2001 frá 12. janúar 2001, um beitingu 87. og 88. gr. EB-sáttmálans gagnvart ríkisaðstoð til lítilla og meðalstórra fyrirtækja.
    Reglugerðirnar fela í sér svokallaðar hópundanþágur frá almennum ákvæðum EES- samningsins um óheimila ríkisaðstoð.
    Að mati félagsmálaráðuneytis er talið að innleiðing reglugerða nr. 69/2001 og 70/2001 kalli ekki á lagabreytingar hér á landi. Þá taldi ráðuneytið hugsanlegt að innleiðing ákvæða reglugerðar framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 68/2001 kallaði á lagabreytingar en á fundi utanríkismálanefndar kom fram hjá fulltrúum utanríkisráðuneytis og fjármálaráðuneytis að við nánari skoðun málsins hefði komið í ljós að lagabreytinga þyrfti ekki við. Þetta hefur nú verið staðfest með bréfi fjármálaráðuneytisins til utanríkismálanefndar þar sem fram kemur m.a. að það sé sameiginlegur skilningur fjármála- og félagsmálaráðuneytis að lagabreytinga þurfi ekki við.
    Magnús Stefánsson, Þórunn Sveinbjarnardóttir og Jónína Bjartmarz voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.
    Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt.

Alþingi, 4. des. 2002.



Sigríður A. Þórðardóttir,


form., frsm.


Guðmundur Árni Stefánsson.


Lára M. Ragnarsdóttir.



Björn Bjarnason.


Ögmundur Jónasson.


Einar K. Guðfinnsson.