Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 337. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 705  —  337. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um úrvinnslugjald.

Frá meiri hluta umhverfisnefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Sigríði Auði Arnardóttur, Sigurbjörgu Sæmundsdóttur og Guðlaug Sverrisson frá umhverfisráðuneyti, Óskar Maríusson frá Samtökum atvinnulífsins, Ólaf Kjartansson frá Samtökum iðnaðarins, Sigurð Jónsson frá Samtökum verslunar og þjónustu, Guðfinn G. Johnsen frá Landssambandi íslenskra útvegsmanna, Runólf Ólafsson og Stefán Ásgrímsson frá Félagi íslenskra bifreiðaeigenda, Ara Teitsson og Sigurgeir Þorgeirsson frá Bændasamtökum Íslands, Björn Halldórsson og Ögmund Einarsson frá SORPU, Sigurð Högnason frá ríkisskattstjóra, Hjört Bergmann Jónsson frá Plastmótun og Ingva Má Pálsson frá fjármálaráðuneyti. Umsagnir bárust frá Endurvinnslunni hf., Bændasamtökum Íslands, ríkisskattstjóra, Samtökum verslunarinnar, Sorpu, Samtökum atvinnulífsins, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Hollustuvernd ríkisins, Félagi íslenskra bifreiðaeigenda, Alþýðusambandi Íslands, spilliefnanefnd, Landvernd, tollstjóranum í Reykjavík, Skeljungi hf. og Olíudreifingu ehf.
    Frumvarpið var samið af nefnd sem umhverfisráðherra skipaði í mars á þessu ári til að vinna að frumvarpi um gjaldtöku vegna úrvinnslugjalds, spilliefnagjalds og skilagjalds og um skipulag og framkvæmd gjaldtökunnar. Gerir það ráð fyrir að við innflutning eða framleiðslu vöru sem fellur undir frumvarpið verði lagt úrvinnslugjald á viðkomandi vöru áður en hún fer á markað. Er markmiðið að gjaldið standi undir kostnaði sem fellur til við úrvinnslu þess úrgangs sem af viðkomandi vöru leiðir, þ.e. vegna meðhöndlunar hans á söfnunarstöð, flutnings hans þaðan á móttökustöð eða til endurnýtingarstöðvar. Gjaldið skal einnig standa undir endurnýtingu úrgangsins, förgun eða greiðslu skilagjalds eftir því sem við á.
    Í frumvarpinu er sá háttur hafður á að einstakir vöruflokkar, t.d. umbúðir, ökutæki og hjólbarðar, eru ekki skilgreindir sérstaklega, heldur er tollskrárnúmer viðkomandi vöru tiltekið í viðaukum með frumvarpinu. Var rætt um hvort slíkt fyrirkomulag væri hentugt. Bent var á að það gæti reynst þungt og seinvirkt og aðrar leiðir hugsanlega einfaldari. Má nefna þá leið að leggja á úrvinnslugjald, sem væri tiltölulega lágt, á mjög breiðan gjaldstofn. Þar sem hér væri um skatt að ræða en ekki þjónustugjald væri ekki þörf á að tengja ráðstöfun skattsins eins nákvæmlega við þá vöru sem skatturinn væri greiddur af. Hins vegar var bent á að með því að aðgreina gjaldið eftir flokkum væri auðvelt að sjá kostnað af úrvinnslu hverrar vöru og hafa gjaldtökuna í samræmi við kostnað af henni og er meiri hluti nefndarinnar sammála því að fara þá leið.
    Þá var mikið rætt um hvaða vöruflokkar ættu að vera gjaldskyldir. Var m.a. bent á að ákveðnir vöruflokkar sem nú eru endurunnir eru ekki felldir undir frumvarpið, t.d. dagblaðapappír, kælitæki, fatnaður og ýmsar vörur sem notaðar eru í sjávarútvegi. Við umfjöllun málsins kom fram að einkum væri miðað við vörur sem tilskipanir Evrópusambandsins taka til. Meiri hlutinn leggur til að veiðarfæri úr gerviefnum verði einn af þeim vöruflokkum sem lagt verði úrvinnslugjald á og að sú gjaldtaka hefjist 1. janúar 2004. Telur meiri hlutinn eðlilegt að veiðarfæri verði einn af vöruflokkunum sem falli undir lögin. Úrvinnslusjóði er því falið að undirbúa tillögu þessa efnis og leggja fyrir umhverfisráðherra svo að gjaldtakan geti verið tilbúin fyrir tilsett tímamörk. Meiri hlutinn gerir ekki aðrar tillögur að gjaldtöku að sinni en hann lítur svo á að með frumvarpinu sé verið að setja ákveðna umgjörð um þessi mál. Þau eigi eftir að þróast auk þess sem gert er ráð fyrir því í frumvarpinu að fleiri vöruflokkar bætist við með tíð og tíma.
    Frumvarpið gerir ráð fyrir að ný stofnun, Úrvinnslusjóður, verði sett á fót. Jafnframt verður spilliefnanefnd lögð niður. Hlutverk Úrvinnslusjóðs verður að hafa umsýslu með úrvinnslugjaldi. Um framkvæmd úrvinnslu vörunnar verður hins vegar samið við aðra. Fulltrúar ráðuneytis greindu frá því að skoðað hefði verið í hvaða formi starfsemi Úrvinnslusjóðs ætti að vera, hvort það ætti að vera ríkisstofnun, hlutafélag o.s.frv. Niðurstaðan var að setja á fót sérstaka ríkisstofnun. Það sem vó þar þyngst var að hugsanlegt er að gjöld verði hærri en tekjur í rekstri stofnunarinnar. Í 2. mgr. 19. gr. er sú skylda lögð á ríkissjóð að gæta að því að sjóðurinn hafi nægilegt laust fé til ráðstöfunar til að standa við skuldbindingar sínar og því talið eðlilegt að Úrvinnslusjóður verði ríkisstofnun. Við umfjöllun nefndarinnar komu fram ýmis sjónarmið um hverjir ættu að skipa stjórn sjóðsins. Frumvarpið gerir ráð fyrir að atvinnulífið tilnefni þrjá fulltrúa, einn fulltrúi er tilnefndur af Sambandi íslenskra sveitarfélaga og umhverfisráðherra skipar formann stjórnar án tilnefningar.
    Í athugasemdum með frumvarpinu er tekið fram að þeir vöruflokkar sem frumvarpið tekur til séu hugsaðir sem fyrsta skref til að draga úr magni úrgangs. Meiri hluti nefndarmanna tekur undir það og telur að hér sé um mikilvægt mál að ræða sem rétt sé að fái framgang enda hefur komið fram við umfjöllun um málið að viðhorf viðmælenda og umsagnaraðila til frumvarpsins er almennt jákvætt.
    Meiri hlutinn leggur til breytingar á frumvarpinu. Helstu breytingarnar eru eftirfarandi:
    1.    Gert er ráð fyrir að vöruflokkum verði skipt í uppgjörsflokka með reglugerð þar sem verður tilgreint nákvæmlega hvaða vöruflokkar verða í viðkomandi uppgjörsflokki. Ætti það að sýna hvernig viðkomandi úrvinnslugjaldi er ráðstafað gagnvart uppgjöri.
    2.    Lagðar eru til breytingar á 5. gr. til að taka af öll tvímæli um frá hvaða tíma gjaldskylda fellur niður af bifreiðum. Nefndin hefur fengið ábendingu um að ákvæðið sé ekki eins skýrt og æskilegt væri og leggur því til þessa breytingu.
    2.    Breyting á 9. gr. er lögð til svo að tryggt verði að allir þeir aðilar sem flytja til landsins vörur sem bera úrvinnslugjald samkvæmt frumvarpinu, hvort sem þeir eru skráðir á vörugjaldsskrá eða ekki, séu gjaldskyldir aðilar. Að öðru leyti er um lagfæringu að ræða þar sem í frumvarpinu er verið að fjalla um úrvinnslugjald en ekki vörugjald.
    3.    Við 11. gr. Í 5. mgr. 7. gr. laga um spilliefnagjald, nr. 56/1996 er innlendum framleiðendum sem keypt hafa aðföng til gjaldskyldrar framleiðslu sinnar og greitt af því úrvinnslugjald heimilað að draga það frá við endanleg skil gjaldsins. Nefndin leggur til að þessi regla gildi áfram og að samsvarandi grein verði bætt inn í frumvarpið.
    4.    Lagt er til að kæruheimild í 3. málsl. 1. mgr. 13. gr. verði felld brott þar sem þessi kæruheimild er þegar til staðar í 5. gr. og því um óþarfa endurtekningu að ræða.
    5.    Nefndin leggur til að gjaldtöku á heyrúlluplast verði frestað um eitt ár frá því sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu og hefjist 1. janúar 2004. Gjaldtakan mun þá hefjast um leið og gjaldtaka hefst á pappírs-, pappa- og plastumbúðum og veiðarfærum úr gerviefnum. Bent hefur verið á að ekki er til staðar neinn hvati fyrir notendur heyrúlluplasts, þ.e. bændur, til að skila því eftir notkun. Bændasamtök Íslands hafa hins vegar lýst sig reiðubúin til samstarfs um að byggja upp hagkvæmt kerfi til söfnunar og eyðingar eða endurvinnslu plastsins. Þau telja samt sem áður að það krefjist verulegs undirbúnings og tíminn sem frumvarpið gerir ráð fyrir til þess sé of skammur. Nefndin telur eðlilegt að koma til móts við þessar óskir.
    6.    Breytingar á viðaukum eru gerðar í samvinnu við umhverfisráðuneytið. Um er að ræða númer sem skipt er upp til að aðgreina sérstaklega þá vöru sem á að vera með úrvinnslugjaldi, númer sem skipt er þar sem um er að ræða mismunandi vörur sem bera mismunandi úrvinnslugjald. Auk þess sem um nokkrar leiðréttingar er að ræða.
    Meiri hlutinn mælir með samþykkt frumvarpsins með breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.
    Ásta Möller og Kolbrún Halldórsdóttir skrifa undir álit þetta með fyrirvara. Fyrirvari Kolbrúnar Halldórsdóttur varðar það að hún styður markmið þessarar lagasetningar og þá hugmyndafræði sem að baki henni liggur en vill leggja áherslu á hinn umhverfislega ávinning. Þá telur hún aðkomu frjálsra félagasamtaka og neytenda við vinnslu málsins vera ónóga, auk þess sem hún hefði viljað vinna málið í nánara samkomulagi við sveitarfélögin. Þá mun hún flytja breytingartillögu við 16. gr. þess efnis að fulltrúum náttúruverndar og neytendaréttar verði tryggðir fulltrúar í stjórn Úrvinnslusjóðs.
    Gunnar Birgisson og Katrín Fjeldsted voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 11. des. 2002.



Magnús Stefánsson,


form., frsm.


Ásta Möller,


með fyrirvara.


Ísólfur Gylfi Pálmason.



Kolbrún Halldórsdóttir,


með fyrirvara.


Kristján Pálsson.