Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 486. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 798  —  486. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um aðgerðir til að draga úr ofbeldisdýrkun og framboði ofbeldisefnis.

Flm.: Steingrímur J. Sigfússon, Guðjón A. Kristjánsson, Katrín Fjeldsted,


Jónína Bjartmarz, Sigríður Jóhannesdóttir.



    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að undirbúa áætlun um aðgerðir til að draga úr framboði efnis þar sem ofbeldi, þar með talið kynferðisofbeldi, er sýnt í einhverju formi. Sérstaklega verði athygli beint að hvers kyns efni eða athöfnum sem líklegt má telja að börn eða unglingar verði fyrir áhrifum af.
    Áætlunin miðist m.a. að því að takmarka eins og kostur er:
     a.      hvers kyns ofbeldi, misþyrmingar, limlestingar og manndráp í myndefni sjónvarpsstöðva, kvikmyndahúsa og á myndböndum,
     b.      tölvuleiki, leiktæki og leikföng sem byggjast á ofbeldi,
     c.      ofbeldi á tölvunetum,
     d.      ofbeldi í sýndarveruleikatækjum,
     e.      ofbeldisefni í bókum, blöðum og tímaritum,
     f.      annað efni eða athafnir þar sem ofbeldi er hafið til vegs, réttlætt eða dýrkað, þar sem ástæðulausar eða tilgangslausar ofbeldisathafnir eru sýndar eða ofbeldi yfirleitt án listræns eða fræðandi gildis,
     g.      aðgengi barna og unglinga að ofbeldisefni.
    Forsætisráðherra skipi nefnd með fulltrúum allra þingflokka til að vinna með viðkomandi ráðuneytum, stofnunum og samtökum að gerð framkvæmdaáætlunar um aðgerðir á þessu sviði, þar með talið fræðslu, sem lögð verði fyrir Alþingi í formi þingsályktunartillögu.

Greinargerð.


    Tillaga þessi er nú flutt í fimmta sinn. Hún var síðast flutt á 126. löggjafarþingi en hefur aldrei orðið útrædd.
    Það verður því miður að segjast að enn hefur miðað til verri vegar hvað snertir vandamálið sem tillögunni er ætlað að taka á, einkum varðandi tölvuleiki. Lagaheimildir dómsmálaráðherra til að setja reglugerð um að tölvuleikir verði skoðaðir áður en þeir eru settir í umferð, líkt og gert er með kvikmyndir, hafa ekki verið nýttar þrátt fyrir að umboðsmaður barna hafi talað fyrir slíku eftirliti árum saman. Svo virðist sem ofbeldisfyllstu leikirnir njóti mikillar hylli unglinga og athafnir á borð við gegndarlaus manndráp séu upphafin í tölvuleikjum sem börn allt niður í 12–13 ára spili hér á landi. Slíkir leikir eru bannaðir yngri en 18 ára t.d. í Bandaríkjunum.
    Ekki er ætlunin að firra forráðamenn barna og unglinga allri ábyrgð en eftirlit með innflutningi og dreifingu tölvuleikja, rétt eins og myndbanda, hlyti að auðvelda forráðamönnum að fylgjast með því hvers konar leiki börn þeirra spila. Í þessu sambandi er vert að hafa í huga sálfræðileg áhrif ofbeldisfullra tölvuleikja en um þau er t.d. fjallað í nýlegri grein Guðbjargar Hildar Kolbeins, lektors við félagsvísindadeild Háskóla Íslands (sjá fylgiskjal I). Þar segir: „Fyrrum ofursti í bandaríska hernum og prófessor í sálfræði og herfræðum, Dave Grossman, heldur því blákalt fram að framleiðendur tölvuleikja, og reyndar framleiðendur sjónvarpsefnis líka, séu að kenna börnum og unglingum að drepa á nákvæmlega sama hátt og bandaríski herinn þjálfar hermenn sína í að drepa óvininn – og ef eitthvað sé, þá gangi framleiðendur tölvuleikja jafnvel lengra í þjálfun sinni en herinn gerir. Hann vill banna með öllu ofbeldisfulla tölvuleiki.“
    Rannsóknir hafa leitt í ljós að beint samband er á milli árásarhneigðar ungmenna og þess hve mikið þau horfa á ofbeldisefni í sjónvarpi og leika ofbeldisfulla tölvuleiki. Því raunverulegra sem ofbeldið í tölvuleikjunum er, þeim mun verri eru áhrifin. Það er kunnara en frá þurfi að segja að myndgæði tölvuleikja eru mikil og þróunin stöðug í þá átt að gera þá sem allra raunverulegasta. Sérstaklega má benda á rannsókn sem gerð var við Stanford-háskóla í Bandaríkjunum á tengslum ofbeldisefnis við árásarhneigð og andfélagslega hegðum barna og unglinga, en helstu niðurstöður eru aðgengilegar á vefslóðinni www.stanford.edu/ dept/news/report/news/january17/kidstv-117.html.
    Í ljósi þess sem að framan greinir er það óbreytt skoðun flutningsmanna að brýn þörf sé fyrir aðgerðir af því tagi sem tillagan gerir ráð fyrir. Að öðru leyti vísast til upphaflegrar greinargerðar sem fylgir lítillega breytt hér á eftir.
    Sú tilhneiging foreldra að vernda börn sín og hlífa fyrir ljótleika tilverunnar hefur án efa fylgt manninum frá ómunatíð. Í daglegu lífi er reynt að forðast að láta börn horfa upp á þjáningar fólks, þau eru ekki látin vera viðstödd ef aflífa þarf skepnur o.s.frv. Fyrir daga nútímafjölmiðlunar voru aðstæður foreldra í þessu sambandi viðráðanlegar í þeim skilningi að hægt var að halda börnum frá tilteknum stöðum eða sjá til þess að þau væru ekki þátttakendur í athöfnum sem ekki voru taldar við hæfi. Nú er öldin önnur. Ofbeldi í einhverju formi er svo hversdagslegt og útbreitt fyrirbæri á svo fjölmörgum sviðum að ógerningur er að einangra nokkurn þjóðfélagsþegn, þar með talin börn, frá snertingu við það.
    Um heim allan hafa áhyggjur manna af áhrifum aukins framboðs ofbeldisefnis, einkum í sjónvarpi og kvikmyndum, aukist síðustu ár og áratugi. Nægir að vísa í því sambandi til fjölda kannana sem gerðar hafa verið á áhrifum þess að börn sem fullorðnir horfi á ofbeldismyndir. Allur þessi fjöldi kannana, allt það fé sem lagt hefur verið í rannsóknir á samhengi ofbeldis í samfélaginu og ofbeldis í fjölmiðlum staðfestir þessar áhyggjur. Hér er hvorki ætlunin að fullyrða neitt né fjölyrða um áhrif ofbeldisefnis í fjölmiðlum eða annars staðar þar sem það er að finna. Vandaðar kannanir sýna svo ekki verður um villst að fylgni er t.d. milli ofbeldishegðunar og mikils áhorfs á ofbeldisefni, þótt heimili, félagslegar aðstæður og fleiri þættir skipti vissulega einnig miklu máli. Vísast í því sambandi m.a. til fylgiskjals I með tillögu þessari.
    Á síðustu árum hefur framboð ofbeldisefnis aukist gífurlega en einnig hefur orðið breyting á eðli þess og gerð. Til að tíunda aðeins það helsta má nefna tölvuleiki í heimilistölvum og sérstakar leikjatölvur sem tengja má við sjónvarp. Uppistaðan í leikjum í slíkum tækjum er því miður oftast tengd ofbeldi. Sama gildir um sýndarveruleikatæki, leiktæki í spilasölum og leikföng. Ofbeldi í einhverri mynd sem einhvers konar bardagi eða hernaður er langoftast undirstaðan.
    Tæknin kemur hér einnig við sögu að því leyti að efnið sem er framleitt er raunverulegt að allri gerð. Tækninni (tölvugerð mynda) sem unnt er að beita til að gera ofbeldisatriðin eðlileg og lifandi ef svo má segja eru orðin lítil takmörk sett.
    Síðast en ekki síst er sífellt að verki vítahringur stigmögnunarinnar. Rétt eins og um annað hliðstætt efni virðist það lögmál gilda að hver mynd eða hver tölvuleikur þurfi helst að taka því næsta á undan fram hvað svæsni snertir. Það þarf með öðrum orðum aðeins stærri skammt í hverri umferð, meiri grimmd, afkastameiri drápstól, miskunnarlausari ofurhetjur, meira blóð.
    Það fer tæpast hjá því að fjölmargar spurningar vakni með þeim sem velta þessum málum fyrir sér. Fyrst kemur auðvitað spurningin: Hvað á að gera? Er eitthvað hægt að gera? Jafnvel: Er ástæða til að gera nokkuð?
    Það er eindregin skoðun tillögumanna að bregðast verði við. Við getum ekki horft aðgerðalaus upp á sívaxandi ofbeldi gegnsýra allt umhverfi okkar og barnanna okkar. Jafnvel þótt vísindalegar sannanir liggi ekki fyrir í einstökum atriðum um samhengi vaxandi ofbeldis í samfélaginu og aukins framboðs á ofbeldisefni, enda erfitt um vik, réttlætir það ekki að láta skeika að sköpuðu. Margt fleira en beint orsakasamband milli aukins framboðs ofbeldisefnis og ofbeldishegðunar og glæpatíðni kallar líka á að brugðist sé við. Við viljum væntanlega ekki sætta okkur við það að tilvera okkar og umhverfi sé fyllt ljótleika og ofbeldi, slíkir hlutir gegnsýri allt afþreyingarefni og ýti öðru til hliðar.
    Við Íslendingar ráðum að sjálfsögðu litlu um heimsmarkaðinn og komum ekki til með að hafa úrslitaáhrif á stefnuna hvað varðar framleiðslu á ofbeldisefni. En við getum sett sjálfum okkur reglur, við getum haldið fram meðvitaðri stefnu um að takmarka ofbeldisefnisflauminn og talað fyrir henni á norrænum vettvangi og alþjóðlega.
    Í framkvæmdaáætlun um að draga úr framboði ofbeldisefnis er hægt að hugsa sér ýmsar aðgerðir:
     1.      Setja má strangar reglur um sýningartíma efnis sem bannað er börnum.
     2.      Banna ætti auglýsingar á efni sem ekki er leyft til sýningar fyrir alla aldurshópa nema seint í kvölddagskrá sjónvarpsstöðva. Einnig á undan efni í kvikmyndahúsum sem leyft er til sýningar fyrir alla.
     3.      Aðgöngumiðar að kvikmyndum og útleiga á myndböndum sem sýna ofbeldisefni gæti borið viðbótargjald sem síðan mætti verja til fræðslu- og forvarnarstarfs á viðkomandi sviði.
     4.      Stórefla þarf kvikmyndaskoðun og bæta aðstöðu barnaverndaryfirvalda og löggæslu til eftirlits, sbr. 9. gr. laga um skoðun kvikmynda og bann við ofbeldiskvikmyndum, nr. 47/1995.
     5.      Framfylgja þarf ströngum reglum um að kvikmyndir séu ekki sýndar eða myndbönd leigð út eða afhent öðrum en þeim sem aldur hafa til að horfa á viðkomandi efni.
     6.      Framfylgja þarf ströngum reglum um aðgang að leiktækjum sem byggjast á ofbeldisefni.
     7.      Beina þarf fræðslustarfi að foreldrum jafnt sem börnum þar sem hvatt er til þess að virða aldurstakmörk og takmarka áhorf að ofbeldismyndum eða aðgang að öðru ofbeldisefni o.s.frv.
    Flutningsmenn telja brýnt að mál þetta komist formlega á dagskrá og til skoðunar hjá yfirvöldum uppeldis- og menntamála, fjölmiðlunar, félagsmála og heilbrigðismála og annars staðar þar sem ástæða er til og þá auðvitað ekki síst meðal almennings og fjölskyldna í landinu.


Fylgiskjal I.


Dr. Guðbjörg Hildur Kolbeins
fjölmiðlafræðingur:

Greinargerð um áhrif ofbeldis í kvikmyndum,


sjónvarpi og tölvuleikjum á börn og unglinga.



Sögulegt yfirlit.
    Sjö áratugir eru liðnir síðan vísindamenn fóru fyrst að beina sjónum sínum að áhrifum kvikmynda á börn og unglinga. Á miðjum þriðja áratug síðustu aldar voru uppi háværar raddir í Bandaríkjunum um að vinsælasti miðill þeirra tíma, kvikmyndirnar, hefði slæm áhrif á börn og unglinga. Þetta leiddi til þess að á árunum 1929 til 1932 voru framkvæmdar 13 sjálfstæðar rannsóknir á innihaldi kvikmynda og áhrifum þeirra. Niðurstöður rannsóknanna sýndu m.a. að samband var á milli andfélagslegrar hegðunar unglinga og áhorfs þeirra á kvikmyndir. 1
    Sjónvarpið hafði náð almennri útbreiðslu í Bandaríkjunum og Bretlandi upp úr 1950 og ljóst er að fólk hefur strax frá upphafi haft áhyggjur af áhrifum þess á börn því að ekki liðu nema örfá ár þangað til ráðist var í að framkvæma rannsóknir á áhrifum miðilsins. Fyrstu rannsóknirnar á þessu sviði voru rannsóknir Hilde Himmelweit í Bretlandi og rannsókn sem Schramm, Lyle og Parker gerðu í Bandaríkjunum. Hilde Himmelweit og kollegar hennar komust að þeirri niðurstöðu að ólíklegt væri að áhorf barna á sakamálaþætti gerði þau árásarhneigð en hins vegar mætti leiða getum að því að börn sem væru í tilfinningalegu ójafnvægi yrðu fyrir áhrifum. 2
    Niðurstaða rannsóknar Schramm, Lyle og Parker hefur yfirleitt verið dregin saman í eftirfarandi orðum þeirra:
             „For some children, under some conditions, some television is harmful. For other children under the same conditions, or for the same children under other conditions, it may be beneficial. For most children, under most conditions, most television is probably neither particularly harmful nor particularly beneficial.“ (bls. 1) 3
    Hinn 12. mars 1969 tilkynnti þáverandi landlæknir Bandaríkjanna, William H. Stewart, að embætti hans mundi þegar í stað standa að ítarlegri könnun á áhrifum sjónvarps og úthluta einni milljón bandaríkjadala til verksins. Tuttugu og þrjú rannsóknarverkefni hlutu styrki og voru niðurstöður rannsóknanna birtar snemma á áttunda áratugnum í sex bindum. Kom m.a. fram að þær rannsóknir sem framkvæmdar höfðu verið á rannsóknastofum sýndu ítrekað að áhorf á ofbeldi orsakaði árásarhneigð. 4 Langtímarannsókn sem gerð var á 10 ára tímabili sýndi að áhorf barna á sjónvarp við 9 ára aldur spáði fyrir um árásarhneigð við 19 ára aldur. 5
    Áhugi vísindamanna á áhrifum sjónvarps og kvikmynda á börn og unglinga hefur síst dvínað á síðustu 30 árum og verður nú reynt að gera grein fyrir niðurstöðum rannsókna sem framkvæmdar hafa verið á allra síðustu árum.

Hlutfall ofbeldis í sjónvarpsefni og kvikmyndum.
    Á undanförnum 35 árum hefur tíðni ofbeldis í bandarísku sjónvarpi verið mæld reglulega. George Gerbner og nemendur hans við Annenberg School of Communication voru tvímælalaust frumkvöðlar í innihaldsgreiningu á sjónvarpsefni en hins vegar voru það vísindamenn við Kaliforníuháskóla í Santa Barbara sem framkvæmdu mjög ítarlega innihaldsgreiningu á yfir 3.000 sjónvarpsþáttum sem sýndir voru í bandarísku sjónvarpi á tímabilinu frá október 1995 og fram til júní 1996. Mikið af því efni sem þá var innihaldsgreint hefur vafalítið ratað á skjái landsmanna og verið sýnt í sjónvarpi hér á landi. Árið 1998 var um fimmtungur efnis í Sjónvarpi frá Bandaríkjunum, um helmingur efnis á Stöð 2 kom þaðan og Bandaríkin sáu Bíórásinni fyrir þremur fjórðu af því efni sem þar var sýnt. 6
    Rannsóknir Gerbners leiddu á sínum tíma í ljós að ofbeldi var að finna í rúmlega 70% af því sjónvarpsefni sem sýnt var á svokölluðum kjörtíma ('prime time') og voru rúmlega fimm ofbeldisatriði í slíku efni á hverjum klukkutíma. Merkilegra er að ofbeldi var í 94% af barnaefninu og voru að meðaltali 20 ofbeldisatriði á hverjum klukkutíma í barnaefninu. 7
    Niðurstöður innihaldsgreiningarinnar sem gerð var í Santa Barbara sýndi hins vegar að 69% af því efni sem ætlað var börnum undir 13 ára aldri var gegnsýrt af ofbeldi en 57% af öðru efni. Að meðaltali voru 14 ofbeldisatriði á hverjum klukkutíma í barnaefninu en tæplega sex slík atriði á klukkutíma í öðru sjónvarpsefni. Vísindamönnunum í Santa Barbara þótti mjög alvarlegt að yfirleitt voru afleiðingar ofbeldis aldrei sýndar í barnaefninu, þ.e. fórnarlömb ofbeldis sýndu engin merki um sársauka né merki um að vera slösuð. Í 76% tilfella var ofbeldi í barnaefni gert skemmtilegt en slíkt var aðeins gert í 24% tilfella í öðru sjónvarpsefni. Með því að tengja ofbeldi við fyndni er verið að gera lítið úr ofbeldi og afleiðingum þess og er það álit Santa Barbara hópsins að áhorf barna á slíkt ofbeldi auki líkurnar á að þau læri árásarhneigð og verði ónæm fyrir því ofbeldi sem þau sjá. 8
    Teiknimyndir frá Disney hafa alla tíð notið gífurlegra vinsælda og eru teiknimyndir þessar víða til á heimilum barna. Fyrir örfáum árum var gerð rannsókn á tíðni ofbeldis í 74 teiknimyndum sem ætlaðar voru sérstaklega fyrir börn og sem sýndar höfðu verið í kvikmyndahúsum í Bandaríkjunum frá 1937 til 1999. Að meðaltali voru níu og hálf mínúta af ofbeldi í teiknimyndunum og jókst ofbeldið með árunum. Voru t.d. 24 mínútur af ofbeldi í teiknimyndinni Quest for Camelot, sem hægt er að fá hér á landi, og á bilinu 16 til 17 mínútur af ofbeldi í teiknimyndunum Mulan og í Hringjaranum í Notre Dame en fjöldi íslenskra barna hefur séð þessar teiknimyndir. Voru rétt um fjórar mínútur af ofbeldi í annarri vinsælli mynd, Toy Story. 9

Áhorf á sjónvarp/kvikmyndir og árásarhneigð.
    Ljóst er að víða um heim, sérstaklega í Bandaríkjunum, líta fagfélög starfsfólks á heilbrigðissviði á áhrif sjónvarps og kvikmynda á börn og unglinga sem alvarlegt heilbrigðisvandamál. Á undanförnum árum hefur mikill fjöldi greina um þetta efni m.a. birst í virtum fagtímaritum á sviði læknavísinda. 10
    En hefur ofbeldi í sjónvarpi og kvikmyndum áhrif á andfélagslega hegðun áhorfenda? Svarið við þessari spurningu er „já“. Paik og Comstock drógu saman niðurstöður 217 rannsókna sem framkvæmdar höfðu verið á árunum 1957 til 1990 og sem rannsakað höfðu sérstaklega sambandið á milli áhorfs fólks á ofbeldi og árásarhneigðar þess eða andfélagslegrar hegðunar. Niðurstaðan var sú að fylgnin þarna á milli er 0,30 sem þýðir í raun að áhorf á ofbeldi eykur árásarhneigð tíunda hvers áhorfenda. 11 Miðað við íbúafjölda Íslands þýðir þetta að um 28.000 manns verða fyrir áhrifum.
    Sambandið á milli áhorfs á ofbeldi í sjónvarpi og árásarhneigðar/andfélagslegrar hegðunar var kannað meðal tæplega 700 íslenskra unglinga á aldrinum 12 til 16 ára. Niðurstöðurnar voru í fullu samræmi við niðurstöður erlendra rannsókna, þ.e. áhorf á ofbeldi í sjónvarpi útskýrði 2% af árásarhneigð pilta og 4% af árásarhneigð stúlkna. Einnig útskýrði áhorf á ofbeldi í sjónvarpi 7% af afbrotahneigð stúlkna og 4% af afbrotahneigð pilta. 12 Þessi munur á kynjunum, þ.e. að stúlkur verði fyrir meiri áhrifum en piltar, hefur áður komið fram í erlendum rannsóknum, t.d. í langtímarannsókn Eron og Huesmann. 13
    Talið er að þrír þættir valdi því að börn verði árásarhneigð af því að horfa á sjónvarp. Í fyrsta lagi læra þau það sem fyrir þeim er haft. Fræg rannsókn sem sálfræðingurinn Albert Bandura gerði fyrir 40 árum sýndi og sannaði að börn læra af því sem þau sjá í kvikmyndum. 14 Í öðru lagi verða þau ónæm fyrir ofbeldinu og í þriðja lagi breytist viðhorf þeirra til ofbeldis og þau verða líklegri til að beita því. 15
    Í hnotskurn má segja að á síðustu 30 árum hafi hver rannsóknin á eftir annarri sýnt fram á samband á milli áhorfs barna og unglinga á ofbeldi og árásarhneigðar þeirra. Má að lokum geta rannsóknar sem gerð var í bæ í Kanada og sýndi að með tilkomu sjónvarps árið 1973 jókst árásarhneigð sex og sjö ára barna um 160%, en bærinn hafði verið sjónvarpslaus fram að þeim tíma. 16

Áhrif sjónvarps/kvikmynda á hræðslu og sjúklegan ótta.
    Mikill meiri hluti þeirra rannsókna sem gerðar hafa verið á áhrifum sjónvarps og kvikmynda hefur beinst að áhrifum þessara miðla á árásarhneigð. Mun minna hefur verið ritað um áhrif ofbeldis í myndmiðlum á hræðslu og jafnvel sjúklegan ótta.
    Rannsóknir George Gerbners og annarra hafa ítrekað sýnt að þeir sem horfa mikið á sjónvarp fara að hræðast umhverfi sitt og treysta ekki fólki. 17 Hefur þetta fyrirbæri verið kallað „mean world“-einkennið.
    Einnig hefur fjöldi rannsókna sýnt fram á að sjónvarpsefni og kvikmyndir geta vakið gífurlegan ótta hjá fólki, sérstaklega börnum. Börn á aldrinum þriggja til átta ára eru t.d. yfirleitt hrædd við dýr, drauga, skrímsli, nornir og allt sem lítur einkennilega út í þeirra augum 18 (þess vegna er mjög varasamt að fara með mjög ung börn á Harry Potter eða Hringadróttinssögu).
    Sjónvarpsefni og kvikmyndir valda ekki síður hræðslu, og jafnvel langvarandi ótta, hjá unglingum og fullorðnu fólki. Má nefna að nokkur dæmi eru um að ungar konur geti ekki sofið í herbergjum með dúkkum í eftir að hafa séð hryllingsmyndina Child's Play á barnsaldri. Ein ung kona setti allar sínar dúkkur í geymslu eftir að hafa séð myndina og önnur hreinlega henti þeim. Ein ung kona hræðist enn þann dag í dag stórar vinnuvélar eftir að hafa séð kvikmynd um jarðýtu sem drap fólk og annarri finnst óþægilegt að fara í bað eftir að hafa séð Jaws. Einnig eru mörg dæmi um að fólki finnist erfitt að fara í sturtu eftir að hafa séð Psycho eða Arachnophobia (kvikmynd um köngulær). 19 Má álykta að tiltölulega stór hópur fólks hér á landi þjáist af einhvers konar fælni eftir að hafa séð hryllingsmyndir, þ.e. áhrifin af hryllingsmyndunum hafa verið langvarandi og valdið óöryggi og breyttri hegðun. Skammtímaáhrif hryllingsmynda og venjulegs sjónvarpsefnis, eins og t.d. sjónvarpsþáttanna X-Files sem sýndir voru hér á landi, hafa yfirleitt verið martraðir og tímabundin myrkfælni.
    Fyrir nokkrum árum var gerð rannsókn í Hollandi á því hversu oft börn á aldrinum 7 til 12 ára höfðu hræðst við að horfa á sjónvarp. Í ljós kom að 31% barnanna höfðu upplifað hræðslu við að horfa á sjónvarpsefni eða kvikmyndir. Meðal þeirra þátta sem vakið höfðu ótta voru X-Files (6%) og Lögregluhundurinn Rex (6%), en báðar þessar þáttaraðir hafa verið sýndar í íslensku sjónvarpi. 20
    Í svipaðri rannsókn sem gerð var í Bandaríkjunum kom fram að 43% foreldra sögðu að börn sín hefðu orðið skelkuð við að horfa á sjónvarp. 21
    Í ljósi þessara niðurstaðna er alvarlegt að Skjár 1 einn skuli ekki á neinn hátt merkja þætti eins og CSI, sem sýndur er kl. 21 á mánudagskvöldum, eða Law and Order, sem sýndur er kl. 22 á mánudögum og miðvikudögum. Í Bandaríkjunum eru foreldrar varaðir við því að láta börn yngri en 14 ára horfa á þá. Mjög alvarlegt að Sjónvarpið skuli hafa kosið að sýna hryllingsmyndina Cujo föstudagskvöldið 1. nóvember sl., kl. 22.30, þegar börn voru enn fyrir framan sjónvarpið og vítavert að Sýn skuli hafa sýnt frönsku myndina Baise-Moi ( Ríddu mér) kl. 22.30, laugardaginn 26. október sl. (Frakkar hafa sjálfir gefið myndinni stimpilinn X eftir að hafa fyrst hækkað aldurstakmörkin úr 15 árum í 18 ár) – svo að nokkur nýleg dæmi séu tekin.

Árásarhneigð og ofbeldi í tölvuleikjum.
    Að lokum skal í stuttu máli fjallað um áhrif tölvuleikja á árásarhneigð barna.
    Fyrrum ofursti í bandaríska hernum og prófessor í sálfræði og herfræðum, Dave Grossman, heldur því blákalt fram að framleiðendur tölvuleikja, og reyndar framleiðendur sjónvarpsefnis líka, séu að kenna börnum og unglingum að drepa á nákvæmlega sama hátt og bandaríski herinn þjálfar hermenn sína í að drepa óvininn – og ef eitthvað sé, þá gangi framleiðendur tölvuleikja jafnvel lengra í þjálfun sinni en herinn gerir. Hann vill banna með öllu ofbeldisfulla tölvuleiki. 22
    Sé litið á um 25 rannsóknir sem framkvæmdar hafa verið til að kanna sambandið á milli tölvuleikjanotkunar og árásarhneigðar er skýrt að fylgnin þarna á milli er 0,15 sem er heldur minni fylgni en á milli áhorfs á ofbeldi í sjónvarpi og árásarhneigðar, en því raunverulegra sem ofbeldið í tölvuleiknum er, því meiri eru áhrifin. 23
    Rannsóknir á áhrifum tölvuleikja eru tiltölulega skammt á veg komnar, ekki síst vegna þess að tækniframfarir á þessu sviði hafa gert leikjahöfundum kleift að gera leikina sífellt raunverulegri. Niðurstöður fyrstu rannsóknanna á þessu sviði eiga því ef til vill ekki mjög vel við nú á tímum.
    Einnig er nokkur ágreiningur um hvort áhrif tölvuleikja séu langtímaáhrif eða vari aðeins í skamman tíma en nær allar rannsóknir á áhrifum tölvuleikja á árásarhneigð hafa fyrst og fremst mælt skammtímaáhrif. 24

Samantekt.
    Af framansögðu er ljóst að hlutfall ofbeldis í afþreyingarefni er hátt, sérstaklega í barnaefni, og að rannsóknir hafa ítrekað sýnt fram á samband á milli áhorfs á ofbeldi í sjónvarpi og kvikmyndum og árásarhneigðar barna og unglinga, þ.e. því meira sem börn horfa á ofbeldi, því árásarhneigðari eru þau. Enn fremur er vitað að sjónvarpsefni og kvikmyndir geta valdið verulegri hræðslu hjá börnum og unglingum, og getur sá ótti fylgt þeim fram á fullorðinsár. Einnig bendir allt til þess að notkun ofbeldisfullra tölvuleikja auki árásarhneigð barna og unglinga, a.m.k. tímabundið.
Fylgiskjal II.


Hilmar Thor Bjarnason:

Úr skýrslu umboðsmanns barna um ofbeldi í sjónvarpi.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


(Október 1996.)



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Fylgiskjal III.


Fyrirspurn Steingríms J. Sigfússonar til menntamálaráðherra


um ofbeldisefni í fjölmiðlum.


(235. mál á 120. löggjafarþingi, þskj. 317.)



    Telur ráðherra þörf á sérstökum aðgerðum til að draga úr ofbeldisefni í dagskrá fjölmiðla eða að breyta þurfi tilhögun dagskrár fjölmiðlanna til þess að slíkt efni komi síður fyrir augu barna?

Munnlegt svar menntamálaráðherra (Björns Bjarnasonar).


    Herra forseti. Samkvæmt útvarpslögum, nr. 68/1985, með síðari breytingum, bera sjónvarpsstöðvar fulla ábyrgð á eigin útsendingum. Hins vegar hafa stjórnvöld á síðustu árum unnið að því að setja reglur sem hafa það að markmiði að stemma stigu við vaxandi ofbeldi í fjölmiðlum.
    Ísland er aðili að barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og ný lög um skoðun kvikmynda og bann við ofbeldiskvikmyndum, nr. 47/1995, sem voru samþykkt á Alþingi sl. vor hafa tekið gildi. Með þeirri lagasetningu voru felld saman í heildstæða löggjöf ákvæði um bann við ofbeldiskvikmyndum og ákvæði um skoðun kvikmynda til að meta sýningarhæfni þeirra fyrir börn.
    Í 1. gr. laganna segir að bannað sé að framleiða hér á landi eða flytja til landsins ofbeldiskvikmyndir. Enn fremur er bönnuð sýning, dreifing og sala slíkra mynda. Ofbeldiskvikmynd í skilningi laga þessara er kvikmynd þar sem sérstaklega er sóst eftir að sýna hvers kyns misþyrmingar eða hrottalegar drápsaðferðir á mönnum og dýrum. Hin nýju lög við bann við ofbeldiskvikmyndum eiga að sjálfsögðu einnig við um fjölmiðla.
    Hin íslenska löggjöf um þessi efni verður að teljast harla ströng miðað við það sem gerist í nágrannalöndum okkar og hæpið að lengra verði komist eftir þeim leiðum. Stjórnvöldum ber að sjálfsögðu að sjá til þess eftir fremsta megni að gildandi lagaákvæðum sé framfylgt en meginatriði er að fjölmiðlar og ekki síst foreldrar og aðrir forráðamenn barna finni til þeirrar ábyrgðar sem hvílir á þeim í þessum efnum. Samvinna allra þessara aðila er forsenda þess að árangri verði náð.
    Að því er sjónvarpsstöðvar varðar gera lög ráð fyrir ákveðnu samráði milli þeirra og kvikmyndaskoðunar þótt stöðvarnar beri sjálfar ábyrgð á dagskrárefni sínu eins og áður var sagt. Kvikmyndaskoðun hefur í ábendingum sínum til sjónvarpsstöðva einkum lagt áherslu á eftirfarandi atriði:
     1.      Að efni séð raðað í dagskrá með tilliti til áhorfstíma barna og ofbeldiskenndu efni valin staður sem seinast á dagskrá.
     2.      Að viðvaranir um dagskrárefni séu samræmdar og fylgi allri dagskrárkynningu.
    Að mati kvikmyndaskoðunar hefur skort nokkuð á að þessara atriða sé nógu vel gætt, ekki síst hjá Ríkisútvarpinu. Árangursríkast til að draga úr grófu ofbeldisefni í fjölmiðlum væri vafalaust ef takast mætti að efla með ungu kynslóðinni það viðhorf að slíkt efni sé ómerkilegt og ekki þess virði að eyða í það tíma frá öðrum áhugaverðari viðfangsefnum. Þar reynir enn á hlutverk og fordæmi foreldra. Einnig kann að þurfa að huga að því hvort efla beri fræðslu í skólum sem geti stuðlað að þessu markmiði og auðveldað börnum að átta sig betur á því myndmáli sem ber fyrir augu þeirra í fjölmiðlum og annars staðar.



Fylgiskjal IV.


Fyrirspurn Steingríms J. Sigfússonar til viðskiptaráðherra


um kvikmyndaauglýsingar í sjónvarpi.


(236. mál á 120. löggjafarþingi, þskj. 318.)



     1.      Telur ráðherra að kvikmyndaauglýsingar í sjónvarpi, þar sem sýnd eru ofbeldisatriði úr kvikmyndum sem bannaðar eru börnum, samrýmist ákvæðum samkeppnislaga, sbr. sérstaklega 22. gr.?
     2.      Ef svo er ekki, hvað hyggst ráðherra aðhafast í málinu?

Munnlegt svar viðskiptaráðherra (Finns Ingólfssonar).


    Herra forseti. Á þskj. 318 hefur hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon beint til mín tveimur fyrirspurnum vegna kvikmyndaauglýsinga í sjónvarpi. Hin fyrri hljóðar svo:
    „Telur ráðherra að kvikmyndaauglýsingar í sjónvarpi, þar sem sýnd eru ofbeldisatriði úr kvikmyndum sem bannaðar eru börnum, samrýmist ákvæðum samkeppnislaga, sbr. sérstaklega 22. gr.?“
    Nei. Ég tel að margar þessara auglýsinga samræmist ekki 22. gr. samkeppnislaga, en þar segir m.a. eins og hv. þm. hefur rifjað upp:
    „Auglýsingar skulu miðast við að börn sjái þær og heyri og mega þær á engan hátt misbjóða þeim. Í auglýsingum verður að sýna sérstaka varkárni vegna trúgirni barna og unglinga og áhrifa á þau.“
    Þeir sem hafa horft á þessar auglýsingar hljóta að geta verið sammála um að í fjölda þeirra eru ofbeldisatriði sem alls ekki eru við hæfi barna. Síðari spurningin hljóðar svo:
    „Ef svo er ekki, hvað hyggst ráðherra aðhafast í málinu?“
    Í tilefni þessara fyrirspurna hef ég aflað mér upplýsinga hjá Samkeppnisstofnun um hvað samkeppnisyfirvöld hafi aðhafst í málinu.
    Á fundi ráðgjafarnefndar samkeppnisráðs, þ.e. auglýsinganefndar, þann 21. mars 1995 var fjallað um auglýsingar frá kvikmyndahúsunum í sjónvarpi þar sem sýnd eru kvikmyndaatriði sem ekki hæfa börnum. Í framhaldi af fundinum sendi Samkeppnisstofnun bréf til Ríkisútvarpsins og kvikmyndahúsanna í Reykjavík þar sem þeim tilmælum var beint til þeirra að virða ákvæði 22. gr. samkeppnislaganna. Tilmælin báru árangur sl. vor en að undanförnu hafa auglýsingar með kvikmyndaatriðum sem ekki hæfa börnum tekið að birtast aftur og nú einnig frá myndbandaleigum. Því var ákveðið á fundi auglýsinganefndar Samkeppnisstofnunar 11. des. 1995 að ítreka fyrri tilmæli. Samkeppnisstofnun sendi síðan tilmæli um að virða 22. gr. samkeppnislaga til allra sjónvarpsstöðva, kvikmyndahúsa í Reykjavík og samtaka myndbandaleiga þar sem jafnframt var bent á þau viðurlög sem unnt er að beita til að framfylgja lögunum. Viðurlögin eru að samkeppnisráð getur bannað athafnir sem brjóta í bága við ákvæði 22. gr. samkeppnislaga og fylgt banninu eftir með dagsektum.
    Skömmu eftir að hin ítrekuðu tilmæli voru send fyrrgreindum aðilum barst samkeppnisráði bréf frá umboðsmanni barna, dags. 17. jan. Í bréfinu er m.a. bent á þau skaðlegu áhrif sem ofbeldi í kvikmyndahúsum getur haft á börn og telur umboðsmaður því brýnt að samkeppnisráð grípi til þeirra úrræða sem því eru tiltæk til þess að banna auglýsingar af þessu tagi. Í framhaldi af bréfi umboðsmanns barna kom auglýsinganefnd saman og mér er kunnugt um að hún hefur í undirbúningi tillögur sem ræddar verða á fundi samkeppnisráðs sem verður haldinn í byrjun næstu viku. Niðurstöðu þess fundar vil ég bíða.
    Ég tel brýnt að reynt verði að ná samkomulagi um það milli þeirra aðila sem að þessu standa að stemma stigu við þessu án þess að þurfa að beita þeim ákvæðum sem hægt er að beita á grundvelli samkeppnislaganna til þess að stöðva þetta, þ.e. banninu og dagsektunum. Áður en það verði gert tel ég rétt að það reyni á hvort ekki sé hægt að ná samkomulagi eins og tókst í upphafi síðasta árs. Takist það hins vegar ekki eru auðvitað engin önnur úrræði til en að beita ákvæðum samkeppnislaga sem þar eru heimiluð.
Neðanmálsgrein: 1
1     Lowery, S.A. & DeFleur, M.L. Milestones in mass communication research. New York: Longman, 1988.
Neðanmálsgrein: 2
2     Himmelweit, H.; Oppenheim, A.N. & Vince, P. Television and the child: An empirical study of the effect of television on the young. London: Oxford University Press, 1958.
Neðanmálsgrein: 3
3     Schramm, W.; Lyle, J. & Parker, E.B. Television in the lives of our children. Stanford: Stanford University Press, 1961.
Neðanmálsgrein: 4
4     Liebert, R.M.; Sprafkin, J.N. & Davidson, E.S. The early window: Effects of television on children and youth. New York: Pergamon Press, 1982.
Neðanmálsgrein: 5
5     Lefkowitz, M.M.; Eron, L.D.; Walder, L.O. & Huesmann, L.R. Television violence and child aggression: A followup study. G.A. Comstock & E.A. Rubinstein (ritstjórar). Television and social behavior. Maryland: U.S. Dept. of Health, Education, and Welfare, 1972.
Neðanmálsgrein: 6
6     Hagstofa Íslands. Fjölmiðlun og menning 1999. Hagstofa Íslands, 1999.
Neðanmálsgrein: 7
7     Signorielli, N. Television's mean and dangerous world: A continuation of the Cultural Indicators perspective. N. Signorielli & M. Morgan (ritstjórar). Cultivation analysis: New directions in media effects research. Newbury Park: Sage Publications, 1990.
Neðanmálsgrein: 8
8     Wilson, B.J.; Smith, S.L.; Potter, W.J.; Kunkel, D.; Linz, D.; Colvin, C.M. & Donnerstein, E. Violence in children's television programming: Assessing the risks. Journal of Communication, 2002, 52(1): 5–35.
Neðanmálsgrein: 9
9     Yokota, F. & Thompson, K.M. Violence in G-rated animated films. Journal of the American Medical Association (JAMA), 24/31 maí, 2000, 283(20): 2716–2720.
Neðanmálsgrein: 10
10     Sjá t.d. McLellan, F. Do violent movies make violent children? The Lancet, 9. febrúar, 2002, 359: 502.
Neðanmálsgrein: 11
11     Paik, H. & Comstock, G. The effects of television violence on antisocial behavior: A meta-analysis. Communication Research, 1994, 21(4): 516–546.
Neðanmálsgrein: 12
12     Guðbjörg Hildur Kolbeins. Delinquency and Icelandic adolescents' viewing of television violence. Nordicom Review (Special issue), 2002, 23(1–2): 277–290.
Neðanmálsgrein: 13
13     Eron, L.D. & Huesmann, L.R. The role of television in the development of prosocial and antisocial behavior. D. Olweus et al. (ritstjórar). Development of antisocial and prosocial behavior: Research, theories and issues. Orlando: Academic Press, 1986.
Neðanmálsgrein: 14
14     Bandura, A.; Ross, D. & Ross, S.A. Imitation of film-mediated aggressive models. Journal of Abnormal and Social Psychology, 1963, 66(1): 3–11.
Neðanmálsgrein: 15
15     Huesmann, L.R. Television violence and aggressive behavior. Television and behavior: Ten years of scientific progress and implications for the eighties. Rockville, Maryland: U.S. Dept. of Health and Human Services, 1982.
Neðanmálsgrein: 16
16     Centerwall, B.S. Exposure to television as a cause of violence. Public Communication and Behavior, 1989, 2: 1–58.
Neðanmálsgrein: 17
17     Signorielli, N. Television's mean and dangerous world: A continuation of the Cultural Indicators perspective. N. Signorielli & M. Morgan (ritstjórar). Cultivation analysis: New directions in media effects research. Newbury Park: Sage Publications, 1990.
Neðanmálsgrein: 18
18     Cantor, J. & Sparks, G.G. Children's fear responses to mass media: Testing some Piagetian predictions. Journal of Communication, 1984, 90–103.
Neðanmálsgrein: 19
19     Dæmin eru öll frá nemendum Kvennaskólans í Reykjavík.
Neðanmálsgrein: 20
20     Valkenburg, P.M.; Cantor, J. & Peeters, A.L. Fright reactions to television. Communication Research, 2000, 27(1): 82–99.
Neðanmálsgrein: 21
21     Cantor, J. & Nathanson, A.I. Children's fright reactions to television news. Journal of Communication, 1996, 46(4): 139–152.
Neðanmálsgrein: 22
22     Grossman, D. Teaching kids to kill. National Forum, 2000, 80(4):10–14.
Neðanmálsgrein: 23
23     Sherry, J.L. The effects of violent video games on aggression: A meta-analysis. Human Communication Research, 2001, 27(3): 409–431.
Neðanmálsgrein: 24
24     Griffiths, M. Video game violence and aggression: A review of research. C. von Feilitzen og U. Carlsson (ritstjórar). Children in the new media landscape: Games, pornography, perceptions. Gautaborg, Svíþjóð: The UNESCO International Clearinghouse on Children and Violence on the Screen, 2000.