Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 511. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 849  —  511. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um rannsóknir á samfélagslegum áhrifum álvers- og virkjunarframkvæmda á Austurlandi.

Flm.: Svanfríður Jónasdóttir, Hjálmar Árnason, Arnbjörg Sveinsdóttir,
Guðjón A. Kristjánsson, Einar Már Sigurðarson.


    Alþingi samþykkir að fela Byggðarannsóknastofnun Íslands, í samvinnu við Þróunarstofu Austurlands, að fylgjast með samfélagsbreytingum og þróun byggðar og atvinnulífs á því landsvæði þar sem áhrifa álvers- og virkjunarframkvæmda á Austurlandi gætir mest. Verkefninu verði ætlað fé í fjárlögum í sex ár frá og með árinu 2004. Byggðarannsóknastofnun skili formlegum skýrslum til ráðherra byggðamála í lok árs 2005 og 2007 og síðan í lok verkefnisins. Þá verði stofnunin stjórnvöldum til ráðuneytis á tímabilinu verði þess óskað.

Greinargerð.


    Bygging Kárahnjúkavirkjunar og álvers við Reyðarfjörð sem af ýmsum hafa verið kallaðar stærstu framkvæmdir Íslandssögunnar, svo og starfræksla álversins munu hafa mikil áhrif á samfélags-, byggða- og atvinnuþróun á áhrifasvæði framkvæmdanna. Hversu mikil eða víðtæk þau áhrif verða er ekki vitað. Verkefnið mun hafa einhver áhrif um allt land, nokkur þjóðhagsleg áhrif en annars konar og meiri á helstu áhrifasvæðum og mest verða áhrifin væntanlega á Miðausturlandi. Þessum framkvæmdum er líka ætlað að hafa áhrif í þá veru að efla og styrkja byggð á Austurlandi og jafnvel víðar. Menn eru hins vegar ekki á einu máli um hver eða hversu víðtæk hin samfélagslegu áhrif verða. Allir eru þó sammála um að þessar framkvæmdir munu hafa mikil áhrif.
    Fyrirhugaðar framkvæmdir eru ekki alveg þær sömu og Reyðarál fyrirhugaði og Landsvirkjun taldi nauðsynlegar til að tryggja álveri Reyðaráls næga orku þegar það yrði komið í fulla stærð. Um það verkefni voru þó unnar tvær viðamiklar skýrslur um samfélagsleg áhrif framkvæmdanna sem draga má ályktanir af. Rannsóknastofnun Háskólans á Akureyri (nú Byggðarannsóknastofnun Íslands) skilaði í mars 2001 skýrslunni Kárahnjúkavirkjun. Mat á samfélagsáhrifum, sem unnin var fyrir Landsvirkjun og er hluti af mati á umhverfisáhrifum samkvæmt lögum nr. 106/2000. Þá skilaði Nýsir hf. í maí 2001 skýrslu sem unnin var af sömu ástæðu fyrir Reyðarál sem nefnist Mat á samfélagslegum og efnahagslegum áhrifum álvers í Reyðarfirði. Efnislegar athugasemdir hafa komið fram við þessar skýrslur, m.a. í umsögnum og athugasemdum sérfræðinga sem tóku að sér að rýna í þær fyrir Landvernd. Þar má nefna athugasemdir dr. Ívars Jónssonar, dósents við Viðskiptaháskólann á Bifröst, við skýrslu Nýsis hf. og umsögn Þórólfs Matthíassonar hagfræðings, dósents við Háskóla Íslands, um bæði skýrslu Nýsis og skýrslu Rannsóknastofnunar Háskólans á Akureyri, sem þeir Kjartan Ólafsson og Grétar Þór Eyþórsson á Akureyri svöruðu.
    Þessar skýrslur og umfjöllun um þær miðuðust sem áður segir við verkefni Reyðaráls þar sem reiknað var með meiri orkuöflun og tveggja áfanga álveri sem á endanum yrði nokkru stærra en það álver sem Fjarðaál hyggst nú reisa. Skýrslurnar gefa þó vísbendingar og eru þau gögn sem stuðst er við þegar kemur að samfélagslegum áhrifum framkvæmdanna, þ.e. áhrifum á byggða- og atvinnumál, á helsta áhrifasvæði framkvæmdanna. Sömuleiðis gefa skýrslur og athugasemdir ritrýnenda vísbendingar um efasemdir og álitaefni varðandi þróunina og þar með áhrifin á samfélag og byggð sem vænta má af svo miklum framkvæmdum á eins fámennu landsvæði og hér um ræðir. Til dæmis segir í skýrslu Nýsis: „Fyrirhugað álver í Reyðarfirði er stærsta tækifærið sem er í sjónmáli til að snúa byggðaþróun á Austurlandi við og auka samkeppnishæfi svæðisins þannig að það laði til sín fjármagn og atgervisfólk.“
    Í athugasemdum ritrýnenda eru hins vegar leidd að því rök að niðurstaðan gæti jafnvel orðið sú að framkvæmdirnar og starfræksla álversins leiddu til fækkunar starfa á Austurlandi vegna ruðningsáhrifa. Einnig er þeirri spurningu varpað fram hvort framkvæmdirnar eystra gætu hugsanlega valdið byggðaröskun innan Austurlands, þ.e. að fólk flytti sig frá jaðarsvæðum fjórðungsins inn á Miðausturland.
    Nýsir hf. Ráðgjafarþjónusta hefur gefið út nýja skýrslu sem kom út í nóvember sl. Mat á samfélagslegum áhrifum álvers Alcoa í Reyðarfirði.
    Mat skýrsluhöfundanna flestra er að tiltekin svið samfélagsins séu viðkvæmari fyrir áhrifum en önnur og verði því fyrir meiri áhrifum. Áhrifin eru líka háð nálægð við aðalframkvæmdasvæðið, auk þess sem margir hafa mjög mikil samskipti við framkvæmdaraðila, eða eru jafnvel beinir þátttakendur í verkefninu. Erfitt reyndist að kortleggja þessi áhrif nákvæmlega fyrir fram en t.d. er um að ræða áhrif á:
     a.      efnahag og möguleika fólks til að afla sér tekna,
     b.      vinnumarkað,
     c.      mannfjölda og búsetuþróun,
     d.      starfsemi sveitarfélaga og þjónustu þeirra,
     e.      húsnæðismál,
     f.      almenna þjónustu,
     g.      opinbera þjónustu,
     h.      nýtingu lands og auðlinda,
     i.      ferðaþjónustu og
     j.      félagsgerð og lífsstíl fólks.
    Almennt má segja að ýmis mikilvæg gögn skorti svo að unnt sé að meta áhrif framkvæmdanna sem æskilegt væri. Þar má meðal annars benda á að:
          Gögn um skiptingu vinnuafls við framkvæmdirnar milli landsvæða og atvinnugreina eru fátækleg. Lítið er vitað um búsetu starfsfólks sem og úr hvaða starfsgreinum það kemur. Því hefur við áætlanir á þessum áhrifum verið stuðst við gömul og ófullkomin gögn.
          Ekki er vitað vel um hlutfall heimamanna í verkefnunum og því í raun erfiðara en ella að meta staðbundin áhrif.
          Ekki er vitað hver ruðningsáhrif framkvæmdanna á aðrar atvinnugreinar, sem og byggingariðnaðinn, verða, hversu mikið þær taki til sín fólk úr öðrum atvinnugreinum og að hve miklu leyti það muni hamla því að hægt verði að sinna öðrum verkefnum.
          Óvíst er hver þensluáhrif framkvæmdanna kunna að verða, hvort launaskrið verður á vinnumarkaði, hvort dýrara verður fyrir einstaklinga að kaupa vinnu, eða hvort framkvæmdirnar muni bitna á fyrirtækjum og sveitarfélögum, m.a. vegna hærri tilboða í verkefni?
          Margfeldisáhrif framkvæmda við íslenskar aðstæður hafa ekki verið athuguð, og því óvíst hvort og hver þau yrðu. Ýmsum spurningum um staðbundin áhrif á vinnumarkað, og þar af leiðandi íbúafjölda á svæðinu, yrði svarað ef gera mætti sér grein fyrir þeim.
    Fullyrt hefur verið að ýmsir félagslegir þættir verði fyrir slæmum áhrifum af fyrirhuguðum framkvæmdum. Hraði og spenna í samfélaginu muni aukast og það rýri ýmis af þeim samfélagsgæðum sem talin eru ríkja á Austurlandi.
    Um það hefur ríkt nokkuð almenn samstaða á Íslandi að byggja þurfi landið til að nýta sem best gögn þess og gæði. Byggðarannsóknir og byggðaáætlanir eiga sér þó ekki langa sögu hér. Stjórnvöld á hverjum tíma hafa verið gagnrýnd fyrir andvaraleysi og aðgerðaleysi í byggðamálum og sýnst sitt hverjum. Það er þó öllum ljóst að gangi þær framkvæmdir eftir sem nú eru fyrirhugaðar á Austurlandi munu þær hafa mikil samfélagsleg áhrif á helsta áhrifasvæði framkvæmdanna og á byggða- og atvinnuþróun langt út fyrir það. Nú gefst einstætt tækifæri til að rannsaka og meta þessi áhrif og þá að nýta niðurstöður þeirra rannsókna til inngripa ef stjórnvöld meta slíkt nauðsynlegt. Það væri til vansa að ráðast í svo gríðarlegar framkvæmdir sem hér um ræðir án þess að kanna afdrif mannfólksins, rétt eins og náttúrunnar, en fylgst verður náið með henni á tilteknum svæðum svo að unnt verði að bregðast við ef þurfa þykir. Auk þess sem rannsókn af þessu tagi gæti leitt til skynsamlegra mótvægisaðgerða gefst hér einstakt tækifæri til byggðarannsókna, til þess m.a. að átta sig á hvaða kraftar kunna að vera að verki þegar fólk tekur ákvörðun um búsetu og fjárfestingu og til hvaða aðgerða stjórnvöld geta gripið vilji þau hafa bein áhrif á byggðaþróun. Rannsóknarniðurstöður gætu því nýst fleirum en Íslendingum ef vel væri að verki staðið.
    Afar mikilvægt er að safna upplýsingunum jafnóðum og framkvæmdir eru í gangi, því að í mörgum tilfellum er ógerlegt eða til muna erfiðara að nálgast þær eftir á. Þá tryggir eftirlit sem þetta betri möguleika á viðbrögðum ef eitthvað virðist ætla að ganga í aðra átt en vænst var eða æskilegt þykir. Því er mikilvægt að þegar verði lögð drög að þeirri vinnu sem hér er gerð tillaga um.
    Þessi þingsályktunartillaga gæti allt eins heitið tillaga um eftirlit, ekki bara með náttúru landsins heldur einnig öðrum aðstæðum fólks. Hún snýst um það hvernig við getum nýtt þessa reynslu til þess m.a. að takast á við byggðamálin í framtíðinni.